Færsluflokkur: Fjármál

Misráðnar, umboðslausar samningaviðræður um að að borga það, sem ekki á að borga!

Stærilátur er talsmaður hollenska fjármálaráðuneytisins, Niels Redeker, sem segir ráð fyrir því gert að „Ísland muni endurgreiða lánið auk sanngjarna vaxta" (hann er að tala um Icesave!). „Íslandi ber lagaleg skylda til þess," segir hann kokhraustur, og við þessa menn eru stjórnvöld hér enn að rembast við að semja!

Hvaða „lán" er hann að tala um?! Íslendingar skulda þessum ríkisstjórnum ekkert lán. Landsbankinn var tryggður bæði hjá Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta – sem er EKKI ríkistryggður sjóður, eins og allir viðurkenna nú, bæði ESB og jafnvel Steingrímur fjármálaráðherra! – og hjá tryggingasjóðum ytra, FSCS í Bretlandi og DBA í Hollandi.* Þess vegna er framferði íslenzkra ráðamanna – með samþykki stjórnarandstöðuþingmanna eins og Tryggva Þórs Herbertssonar** – beinlínis ólögmætt, meira að segja stjórnarskrárbrot, að mati Vigdísar Hauksdóttur, alþm. og lögfræðings, eins og fram kom hjá henni í þingræðu í fyrra.

Um þetta allt má vísa til nýlegra greina hér á vefsetri Þjóðarheiðurs – samtaka gegn Icesave, sem aldrei hafa látið af sínum sjónarmiðum í þessu deilumáli og standa nú uppi með viðurkenndan málstað í augum svo margra, bæði frá því að þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram 6. marz og ekki sízt í ljósi þess, sem komið hefur fram um málið nú síðsumars. (Sjá t.d. ýmsar þeirra greina, sem yfirlit er um og tenglar inn á í dálkinum hér til vinstri handar.)

„Samkvæmt frétt AFP er Icesave einn helsti ásteytingarsteinninn í viðræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu," segir Mbl.is-fréttinni um þessar nýju samningaviðræður. Miðað við þær forsendur, sem og yfirlýsta andstöðu Steingríms J. Sigfússonar við að Ísland gangi í Evrópusambandið, væri það vitanlega réttast fyrir hann að standa gegn öllum samningum um nokkra minnstu ábyrgð á Icesave-skuld Landsbankans, því að þar gæti hann slegið tvær flugur í einu höggi: hrundið hinni ólögvörðu kröfu af okkur og komið í veg fyrir, að samráðherrar hans geti með klókindum dregið landið inn í ESB, með öllum þeim fullveldismissi sem það hefur í för með sér, að ógleymdum öllum þeim grófu skráveifum sem bandalagið hefur unnið gegn íslenzkri þjóð og stjórnvöldum í Icesave-málinu, allt frá því að skrípadómstóll með fullri þátttöku ESB-stofnana var kallaður saman í málinu haustið 2008 og var þó umboðs- og lögsögulaus yfir íslenzka ríkinu.

Þær samningaviðræður, sem hafnar eru nú í Hollandi, eru við bæði Breta og Hollendinga. Þar er því ekki fylgt því ráði Björns Ólafs Hallgrímssonar hæstaréttarlögmanns í Morgunblaðsgrein hans 28. fyrra mánaðar, þar sem hann hvatti til þess, að ekki yrði samið við Breta og Hollendinga í samfloti, enda væri réttarstaða Hollendinga allt önnur "og mun lakari en Breta." – Það er leitt að sjá, hve óráðþægur fjármálaráðherra lýðveldisins er í þessu máli, og má undarlegt heita, ef ekki beinlínis grunsamlegt, hans þrákelknislega viðhorf þvert gegn réttindum lands og þjóðar.

* Eins og Loftur Þorsteinsson, varaformaður Þjóðarheiðurs, hefur bezt upplýst um með rannsóknum sínum, sem nú hafa verið þurrkaðar út með öðrum greinum á hans eigin vefsetri. 

** Tryggvi Þór Herbertsson, sem veit vel af réttarstöðu Íslands í málinu, lýsti sig þó mjög áhugasaman um að "ljúka málinu" með því að semja um greiðslu við Breta og Hollendinga, aðspurður í viðtali við stjórnendur Útvarps Sögu á 5. tímanum í gær. Um þetta mun hann því miður ekki vera einn á báti í sínum Sjálfstæðisflokki – jafnvel formaðurinn þar um borð er talinn sammála Tryggva í þessu. Almennir flokksmenn ættu því enn að beita Valhallarforystuna fullum þrýstingi í málinu, það gæti hindrað, að illa fari. 

Jón Valur Jensson.


mbl.is Íslendingar greiði vexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ICESAVE: FORGANGSMÁL ICESAVE-STJÓRNARINNAR.


Enn er mótmælt á Austurvelli, nú undir norskum fána.<br /><em>mbl.is/Kristinn</em>

Hvað í veröldinni vill ríkisstjórnin enn ræða um Icesave?  Fullkomlega ólöglega kröfu bresku og hollensku ríkisstjórnanna studda af bakhjarli þeirra Evrópusambandinu og án nokkurs dóms.  Krafa vegna skuldar sem íslensk alþýða hafði ekkert með að gera og kemur okkur ekki við.  Felldum við landsmenn, hið svokallaða lýðveldi, ekki annars Icesave-nauðungina í mars sl.?  Jú, Icesave var kolfellt með yfir 90% NEI-atkvæða þjóðarinnar eftir að forsetinn neitaði að skrifa undir kröfu Evrópustjórnanna og íslensku ríkisstjórnarinnar núverandi gegn okkur.
 
 
Við eigum enga peninga og ríkisstjórnin heimtar Icesave, 500 - 1000 milljarða ólöglega rukkun 2ja heimsvelda.  Stjórnvöld skerða lífeyri eldri borgara og læknaþjónustu 
og draga úr landvörnum og hafa nú þegar lagt niður Varnarmálastofnun.  Og vilja samt koma gríðarlegri nauðungarskuld yfir fólkið.  Og enn skulda Björgólfsfeðgar og Jóhannesarfeðgar yfir 1000 milljarða samanlagt og hafa samt fengið ótrúlegar niðurfellingar himinhárra skulda við íslensku bankana.  Og blöskranlegan og sjokkerandi stuðning pólitíkusa við gagnaveitu og stórfyrirtækjabrölt þeirra. 


Mennsk stjórn tekur ekki lífeyri, læknaþjónustu og öryggi af þegnunum til að geta borgað yfirgangsveldum ólöglega rukkun og sóað peningum í umsókn inn í bandalag sömu velda.  Og jafnóðum og völdum mönnum eru gefnir yfir 1000 milljarðar á kostnað þegnanna.  Það ætti að fara fram rannsókn á hvað veldur hinni svívirðilegu mismunun gegn þegnum landsins af höndum bankastjórna og stjórnvalda.  Það verður líka að fara fram rannsókn á öllum framgangi núverandi ríkisstjórnar, ICESAVE-STJÓRNARINNAR, í Icesave málinu öllu.  Stjórnarandstaðan hefði getað farið fram á slíka rannsókn o
g þó löngu fyrr hefði verið.  En stjórnarandstaðan er víst hálfdauð.  Orðið ´steindauð´ hefur líka heyrst.  

Elle Ericsson 


mbl.is Markmiðið mun betri samningur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave-viðræðurnar í Hollandi eru ólögmætar

Við í Þjóðarheiðri getum tekið undir með Staksteinum Mbl. í dag (Ólögmætar viðræður hafnar á ný). Þar segir m.a.:

  • Þrautseigja Steingríms J. Sigfússonar formanns VG og Jóhönnu Sigurðardóttur formanns Samfylkingarinnar hefur orðið til þess að nú eru fulltrúar þeirra „sestir að samningaborði“ í Hollandi til að reyna að knýja fram „samning“ við Hollendinga og Breta um greiðslu íslenskra skattgreiðenda á annarra manna skuld.
  • Það þurfti mikinn og einbeittan brotavilja af hálfu Steingríms og Jóhönnu til að ná þessum fundi enda hafa rökin gegn þeim alltaf verið skýr. Aldrei þó jafn skýr og nú.
  • Nú er svo komið að svo að segja allir sem til þekkja og allar stofnanir sem máli skipta, innlendar og erlendar, telja að engin ríkisábyrgð hafi verið á Icesave-reikningunum.
  • Steingrímur sjálfur hefur viðurkennt að íslenska ríkinu beri engin lagaleg skylda til að greiða þessa reikninga.
  • Þegar nánast óumdeilt er orðið að Ísland ber ekki ábyrgð á greiðslum vegna Icesave, hvernig má þá vera að ríkið haldi áfram viðræðum við óbilgjarna kröfuhafana um að greiða engu að síður?
  • [...] Hversu dýr telur Steingrímur að ráðherrastóll hans megi verða?

Allir lesi þessa Morgunblaðsgrein!

Afar merk og athyglisverð grein eftir hæstaréttarlögmann, Björn Ólaf Hallgrímsson, birtist í Mbl. í dag: Icesave – Samninganefnd á villigötum? 

Í greininni hvetur hann til þess, að ekki verði samið við Breta og Hollendinga í samfloti, enda sé réttarstaða Hollendinga allt önnur "og mun lakari en Breta." Vill hann því semja fyrst við Hollendinga, en gerir þó öllum ljóst með skýrum orðum, að hann hafi "lengi verið þeirrar skoðunar að hvorug þessara þjóða eigi kröfu á Íslendinga að kröfurétti. Er ég ekki einn um þá skoðun," segir hann og er þar vitaskuld sammála okkur í Þjóðarheiðri – samtökum gegn Icesave og fjölda færustu lögfræðinga.

Björn telur hins vegar möguleika á, að Bretar og Hollendingar eigi einhverja skaðabótakröfu  á hendur okkur "vegna saknæmrar háttsemi eða athafnaleysis stjórnvalda og embættismanna, sem íslenska ríkið ber þá ábyrgð á eftir reglum um húsbóndaábyrgð," en vitað er, að ef svo væri, gæti þar aldrei orðið um neitt viðlíka tölur að ræða eins og í tilfelli þeirra ólögvörðu krafna, sem ríkisstjórnir þessara þjóða hafa gert á hendur okkur. Með þessu er ekki sagt, að samtökin Þjóðarheiður hafi ályktað, að skaðabótakröfur af þessu tagi eigi neinn rétt á sér, enda er margt sem mælir gegn þeim, og Björn Ólafur tekur sjálfur fram ýmislegt, sem draga myndi úr réttarstöðu þessara ríkisstjórna í slíku máli gegn okkur. Hann segir:

  • En að ýmsu fleiru en saknæmri háttsemi er að hyggja, þegar réttarstaðan að skaðabótarétti er metin, s.s. nauðsynlegum skilyrðum um vávæni háttseminnar eða athafnaleysisins og orsakarsamhengi við tjónið.

Og ennfremur:

  • Að því gefnu að öll skilyrði bótaábyrgðar væru uppfyllt, kemur loks til skoðunar eigin sök tjónþolanna, Hollendinga og Breta. Þeir kunna sjálfir að bera hluta sakarábyrgðar á því hvernig fór. (Orð Björns sjálfs.)

Þá bendir hann sérstaklega á mun lakari réttarstöðu Hollendinga í þessu efni, enda hafi Icesave-reikningarnir komið seinna til þess lands og verið mun umfangsminni en í Bretlandi, og þar að auki hafi verið tilkomnar nýjar og strangari reglur, sem gerðu "skyldur móttökulandanna (í þessu tilviki Hollands) til fyrirbyggjandi rannsókna og eftirlits" miklu meiri en í tilfelli Bretlands.

Miklu ýtarlegar rökstyður hann þetta í grein sinni, og menn ættu að lesa grein hans alla í heild, hún snertir svo mikil lífshagsmunamál okkar Íslendinga.

Jón Valur Jensson. 


Góðs viti, ef Steingrímur snýr við blaðinu

Steingrímur J. í dag: „Aldrei hefur nokkur maður haldið því fram að ríkið beri ábyrgð á Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta." Tilefnið er nýtt lögfræðiálit sem Lilja Mósesdóttir segir að túlka megi svo, að andstæðingar Icesave-samningsins hafi haft rétt fyrir sér.

Hann segir hins vegar „deiluna aldrei hafa snúist um þetta lagalega álitamál," heldur eitthvað allt annað!

Hláleg eru í beinu framhaldi þessi orð hans, takið vel eftir, hvað hann segir:

  • „Ég myndi nú ekki treysta mér til að setja mig í það dómarasæti að einhverjir tilteknir hafi haft rétt fyrir sér og aðrir rangt fyrir sér í flóknu máli af þessu tagi. Þannig orðalag mundi ég nú aldrei nota. Menn hafa mismunandi sjónarmið og leggja mismunandi mat á þessa hluti og færa einhver rök fyrir því eins og gengur en það er nú nálgun í þessu máli sem ég kann illa við að sýna fram á að eitt sjónarmið sé rétt og annað rangt. Við skulum spyrja að leikslokum,“ segir Steingrímur.

Spyrja má: Hvernig gat hann gengið lengra í því að „treysta sér til" að setja sig í dómarasæti um hvað rétt sé í málinu heldur en með þeirri óbilgjörnu stefnu sinni að semja við Breta og Hollendinga og skrifa upp á samkomulag við þá um að borga mörg hundruð milljarða króna í erlendum gjaldeyri* og kalla meira að segja Svavarssamninginn „glæsilegan"? Var hægt að ganga lengra í því að setjast í dómarasæti yfir áliti allra þeirra Íslendinga, sem höfnuðu slíkum samningi eindregið?

En verum ekki að nudda honum lengur upp úr hans eigin orðum og athöfnum. Ef hann er reiðubúinn að láta Íslendinga njóta verðskuldaðrar tillitssemi, bæði í sínu síðbúna svari til ESA og í viðræðum við Breta, þá myndum við í þessum samtökum fagna því. Hikið á honum og efinn eru af hinu góða, miðað við það sem áður var, en það þarf að byggja upp manninn í trausti á málstað okkar, lögvarinn og réttan, og kannski forða honum úr félagsskap sumra samstarfsmanna sinna – Indriða, Svavars og heimspekilærða aðstoðarmannsins, sem allir eru búnir að flækja sig í samsekt með Icesave-greiðslustefnunni sem hentaði svo vel Bretum og Hollendingum.

Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, er líka í þessari frétt og „kveður nefndina alltaf hafa haldið því fram að ríkið beri enga ábyrgð á sjóðnum og segir nefndina hafa mörg lögfræðiálit þess efnis undir höndum." – Hið ágætasta mál, loksins þegar þeir játa þetta báðir!

En svo snýr Guðjartur upp á sig með þeirri aðferð að reyna að skella ábyrgðinni á aðra (leturbr. hér):

  • „Það er alveg klárt að það er engin lagaleg skylda að tryggja innstæður en það eru fullyrðingar stjórnvalda að þau muni gera það með líkum hætti og Geir H. Haarde gaf á sínum tíma. Svo geta menn deilt um hið lagalega gildi slíkra yfirlýsinga,“ segir Guðbjartur, en í minnisblaðinu kemur afdráttarlaust fram að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar hefur ekkert lagalegt gildi og er þannig einungis yfirlýsing um vilja hennar. (Mbl.is – og meiraí þeirri frétt!)

Þetta er málið: Einungis með lögum frá Alþingi, með ríkisábyrgðarákvæðum, er unnt að gefa út slíka bindandi yfirlýsingu, þ.e. gera þá skuldbindingu gilda. Það var ekki fyrir hendi í yfirlýsingu Geirs Haarde. En þrátt fyrir að þetta eru skilyrðin, skal tekið fram, að þau geta því aðeins gilt í þessum sambandi, að greiðsluskylda hafi áður verið þegar fyrir hendi, skv. 77. grein stjórnarskrárinnar, sbr. orð Vigdísar Hauksdóttur, alþm. og lögfræðings, um það mál í þingræðu: að í raun voru Icesave-lögin stjórnarskrárbrot.

* Pétur Blöndal kvíðir því ekki, að málið yrði lagt í dóm, skv. viðtali við hann á útvarpsstöð í morgun, sem undirritaður heyrði vitnað í. Þótt hann væri ekki trúaður á, að við töpuðum því máli, sagði hann, að jafnvel þótt við yrðum þar undir, væri það miklu betri niðurstaða heldur en Icesave-samningar Steingríms, af því að ekki væri hægt að skuldbinda okkur til að greiða í neinu öðru en íslenzkum krónum.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Vopn sem nýta skal í Icesave-baráttunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RÍKIÐ BER EKKI ÁBYRGÐ á Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta – né á Icesave!

Þetta kemur fram á minnisblaði lögfræðinga sem kynnt var viðskiptanefnd Alþingis í gær. Formaðurinn Lilja Mósesdóttir segir minnisblaðið mega túlka svo, að andstæðingar Icesave-samningsins frá liðnu ári hafi haft rétt fyrir sér. Sjá hér: RÍKIÐ BER EKKI ÁBYRGРog Engin ríkisábyrgð, þar segir m.a.:

  • Í minnisblaði lögfræðinga sem kynnt var viðskiptanefnd í gær kemur m.a. fram að engin ákvæði um ríkisábyrgð á skuldbindingum Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta sé að finna í lögum um sjóðinn. Þá sé heldur ekki að finna ríkisábyrgð á skuldbindingum sjóðsins í frumvarpi efnahags- og viðskiptaráðherra um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. 

Ennfremur:

  • Samkvæmt minnisblaði lögfræðinganna er það hafið yfir allan vafa að íslenska ríkið beri ekki ábyrgð á þeim sjóði.
  • Lögfræðingurinn sem samdi minnisblaðið og kynnti það fyrir viðskiptanefnd er Áslaug Árnadóttir en hún var áður stjórnarformaður sjóðsins auk þess að gegna tímabundið starfi ráðuneytisstjóra viðskiptaráðuneytisins. 

Og takið eftir þessu:

  • Lilja Mósesdóttir, formaður viðskiptanefndar, segir álitið hafa þær breytingar í för með sér að nú geti Alþingi bætt inn lagaákvæði um að engin ríkisábyrgð sé á sjóðnum án þess að óttast þá túlkun á núgildandi löggjöf að hún hafi tryggt ríkisábyrgð á Icesave-reikningunum. 

Meira er í fréttinni, við vísum á Morgunblaðið í dag, þetta er þar aðalfrétt á forsíðu og önnur ýtarlegri á bls. 4.

Fullnaðarsigur að vinnast?

Svo mætti ætla af mörgu, sem hefur verið að koma fram upp á síðkastið, t.d. frá norska prófessornum í þjóðréttarfræði – og jafnvel frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins – þó í því tilfelli með múðri, sem þar er haldið uppi til að reyna að halda því fram, að enda þótt ríkin á EES-svæðinu eigi ekki að ábyrgjast tryggingasjóðina, séu tvær ástæður til að gera þar undanteningu með Ísland! Hafa menn þó tætt báðar í sig sem fráleitar.

Nú vantar ekkert annað en að Steingrímur J. mæti í fjölmiðlana og segi, að þetta álit hins sérfróða lögfræðings komi honum ekki á óvart, en sjálfur viti hann betur og vilji betur!

Nei, gerum aðra og betri tilraun:  Nú vantar ekkert annað en að Steingrímur J. mæti í fjölmiðlana og viðurkenni loksins, að hann verði að taka alla sína fyrri afstöðu til alvarlegrar endurskoðunar og að vel kunni að fara svo, að áður en dagurinn er úti ákveði hann að ganga í Þjóðarheiður – samtök gegn Icesave

Við myndum fagna honum þar hjartanlega og fyrirgefa honum allt okkar hugarvíl og syndir hans samanlagðar og halda honum veglega hátíðarveizlu, ef þetta verður ofan á. 

Jón Valur Jensson.


mbl.is Ríkið ber ekki ábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland MÁ EKKI borga fyrir Icesave, segir norskur prófessor í þjóðréttarfræði

Ýtarlega rökstudd grein eftir prófessorinn, Peter Ørebech, birtist í Morgunblaðinu í dag: &#39;Icesave og gagnrýni á athugasemd ESA&#39;. Hann segir það beinlínis brot á lögum ESB, tilskipun 94/19/EC, um innistæðutryggingakerfi fjármálastofnana í aðildarríkjunum, ef þjóðríki væri látið ábyrgjast greiðslurnar". Hann er ósammála nýlega birtu áliti ESA, segir að "hvorki íslenska ríkisstjórnin né íslenska þjóðin eigi að borga fyrir Icesave-hrunið" (mbl.is).

Það er svo sannarlega markverð ábending Ørebechs, að í tilskipuninni (sem við meðtókum með lögum árið 1999) er sagt að innistæðutryggingakerfi í hverju ESB/EES-aðildarríki skuli bera ábyrgð á allt að 20.000 evrum, – mikilvægt sé, segir hann, að vekja athygli á orðunum allt að. „Fjárhæðin er ekki, eins og ESA heldur fram, lágmarksfjárhæð sem beri að ábyrgjast. Um er að ræða hámark.“

Þegar menn átta sig á þessu, snýr dæmið býsna ólíkt við þeim, sem tóku ranga pólinn í hæðina. Enn merkilegra er þó, að það erum við Íslendingar sem þurfum að berjast fyrir því, að tilskipun ESB verði virt, en ekki brotin – af tveimur mikilvægum meðlimaríkjum ESB, sem njóta stuðnings framkvæmdastjórnar þess, þeirrar sem strax haustið 2008 tók þátt í því – ásamt m.a. fulltrúa Evrópska seðlabankans – í skríparéttarhöldum óbindandi gerðardóms að dæma okkur til að borga Icesave!!!

Mnn lesi endilega greinina, sem er í opnu Moggans í dag, hún er algert sprengiefni.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Segir Ísland ekki mega borga fyrir Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"ESB segir ESA hafa reglulega staðfest ágæti regluverks Íslands" um tryggingasjóð innistæðueigenda

Steingrímur J. er á Icesave-buxunum – kannski þess vegna sem hann vanrækti að svara fráleitu áliti ESA fullum hálsi fyrir tilskilinn frest, 1. ágúst. En ÞETTA VERÐA ALLIR AÐ LESA, Egill í Brimborg skrifar:

ESB segir ESA hafa reglulega staðfest ágæti regluverks Íslands

Ég vona að þeir félagar, Steingrímur og Gylfi, hafi bent ESA á þennan texta í skýrslu framkvæmdastjórnar ESB sem hún sendi frá sér 24. febrúar 2009. Þar segir að Ísland hafi náð ásættanlegum árangri (svipað og meðaltal allra ESB landa) við innleiðingu regluverks ESB í samræmi við EES samninginn.

In general, Iceland has a satisfactory track record in implementing its EEA obligations.

According to the EFTA Surveillance Authority (ESA), the percentage of internal market legislation introduced into national legislation as required by July 2009 is at the same level as the average for EU Member States. [...]

Tilvitnun lýkur.

Þetta er bara upphafið að grein Egils. Lesið hana! Þarna er það afsannað, sem fulltrúi framkvæmdastjórnar ESB hélt fram, að Íslendingar hafi ekki innfært tilskipun ESB nr. 94/19/EC um tryggingasjóði innistæðueigenda á réttan hátt. Þarna staðfestir ESB, að ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) hafi "reglulega staðfest ágæti regluverks Íslands". Þurfa menn frekar vitnanna við?!

ALDREI hafði verið kvartað frá Evrópu yfir löggjöf okkar frá 1999, þar sem tilskipun ESB var innleidd, og frá stofnun Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta (TIF) árið 2000, á grunni nefndra laga, var aldrei kvartað yfir því, hvernig hann inheimti iðgjöld sín frá bönkum og öðrum fjármálafyrirtækjum né yfir öðru í starfsemi TIF.

Framkvæmdastjón (e.k. ríkisstjórn) ESB stendur þannig uppi ber að skröki og í mótsögn við sjálfa sig, en við þökkum þó fyrir þessa fyrri viðurkenningu sannleikans, þótt hún sé frá 24. febrúar 2009!

Þarf ekki Steingrímur að hafa buxnaskipti sem fyrst? 

Jón Valur Jensson. 


mbl.is ESA gaf lengri frest til svara um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur J. Sigfússon: "Við höfum gert okkur VONIR um að það komist hreyfing á hlutina" = að semja sem fyrst við óvini okkar um Icesave!!!

"Eins og við sögðum strax í júní, þegar viðræðunum lauk þá, þá gerðum við okkur vonir um og gerum enn, að þær hefjist núna strax að afloknum sumarleyfum. Það er sérstaklega í Bretlandi, sem að þetta liggur niðri núna í ágústmánuði, en við höfum gert okkur vonir um að það komist hreyfing á hlutina strax eftir það." – Það er ekki komin föst dagsetning? "Nei, það er ekki komin föst dagsetning."

Þannig svaraði Steingrímur spurningu fréttamanns Mbl.is, sem var þessi: – Hvenær hefjast Icesave-viðræður að nýju? Upphaf svars Steingríms var þetta: "Ja, við getum ekki tímasett það nákvæmlega, en eins og við sögðum strax í júní," o.s.frv. (sjá hér efst).

Nú þarf þjóðin að fara á kreik á ný, mótmælaspjöldin upp á næstunni, til að vekja athygli á þvi, að enn verður reynt að fremja þau svik, sem einna alvarlegust er hægt að hugsa sér gegn íslenzkri þjóð.

  • AFP fréttastofan hafði það eftir ónafngreindum heimildarmanni innan íslensku ríkisstjórnarinnar sl. föstudag að fulltrúar Íslendinga, Breta og Hollendinga muni eiga formlegan fund á næstu vikum til að ræða um nýtt samkomulag um Icesave-skuldbindingarnar [sic]. (Mbl.is.)

Það er skuggalegt ástand í landinu, að ráðamenn séu þannig þenkjandi, að þeir "geri sér vonir um" (sic!!!) að geta samið um hina allsendis ólögvörðu, reyndar ólöglegu Icesave-kröfu brezkra og hollenzkra stjórnvalda.

Þetta hyggjast þeir gera strax í næsta mánuði !!

Það er eins og stjórnvöld hafi ekkert tekið eftir viðurkenningu framkvæmdastjórnar ESB á því, að EES-ríki beri EKKI ábyrgð á innstæðum í föllnum bönkum umfram það sem innstæðutryggingasjóðir geta greitt*, og þau í Stjórnarráðinu virðast ekkert mark taka á þeirri ábendingu Ólafs Ísleifssonar hagfræðings, að staða Íslands í Icesave-deilunni hefur styrkzt við yfirlýsingu fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB (Ólafur furðaði sig á því að ríkisstjórnin hafi ekki fært sér það í nyt).

Vaknið, Íslendingar! Látum þau ekki svíkja okkur einu sinni enn. 

* Sjá einnig þessar greinar:

ABC Nyheter opinbera þverstæður í málflutningi evrópskra stofnana um Icesave-málið

Spurningar Thomasar Vermes til fulltrúans Michels Barnier í framkvæmdastjórn ESB um innistæðutryggingar og hugsanlega ábyrgð ríkja á þeim

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson: ESB staðfestir að það var EKKI ríkisábyrgð á innistæðutryggingasjóðum

Ólafur Ísleifsson œconomicus og Bjarni Benediktsson politicus: Staða Íslands styrktist við yfirlýsingu fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB

Svör fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB við spurningum ABC Nyheter – hér kom í ljós, að í reglugerð ESB er ENGIN RÍKISTRYGGING innistæðu-tryggingasjóðanna

Merkar ábendingar Styrmis Gunnarssonar um tvær nýjustu fregnir af Icesave-málinu

ICEsave er algjörlega klúður Evrópusambandsins

Innheimta ESB á Icesave-kröfum.

Á að gefa Steingrími Joð, Jóhönnu og Össuri enn eitt færi á því að svíkja þjóðina í Icesave-málinu?

Ádrepa um Icesave-málið, eftir Karl Jónatansson 

Jón Valur Jensson tók saman. 


mbl.is Ekki komin dagsetning á viðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave eftir landshlutum

Þetta frábæra kort sáum við á vefsíðu Baldurs Ágústssonar, fyrrverandi forsetaframbjóðanda. Þetta á svo sannarlega skilið að varðveitast með öðrum góðum gögnum um Icesave-málið hér á vefsíðu Þjóðarheiðurs – samtaka gegn Icesave. Já, sjáið hinn afgerandi vilja þjóðarinnar birtast hér, í öllum landshlutum!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband