Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011

Icesave-kandídatinn kosinn þrátt fyrir andstöðu meirihluta sjálfstæðismanna

Flokkseigendafélagið bar sigur úr býtum á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, þungaviktin í Valhöll og hagsmunatengda liðið, en 45% landsfundarmanna stóðu þó á móti Icesave-þingmanninum. Þau 45% áttu stuðning grasrótarinnar og landsbyggðarinnar.

Votta ber almennum sjálfstæðismönnum samúð vegna þessarar niðurstöðu. Réttast hefði verið, að landsfundur veitti Bjarna Benediktssyni verðskuldaða ráðningu – já, öðruvísi ráðningu! – vegna svika hans við þá stefnu síðasta landsfundar að hafna beri með öllu ólögmætum kröfum Breta og Hollendinga í Icesave-málinu. Sjá um það mál nánar hér á vefsíðunni, í mörgum nýjum greinum.

Jón Valur Jensson.


mbl.is „Óendanlega þakklátur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hanna Birna gagnrýnir Icesave-Bjarna, sem sjálfur VER stefnu sína þvert gegn síðasta landsfundi!

Hanna Birna Kristjánsdóttir gagnrýndi Bjarna, formann flokks síns, "fínlega" vegna afstöðu hans í Icesave-málinu skv. Rúv-frétt kl. 18. „Þetta er prinsipmál, sem snýst um það eitt að íslenskur almenningur á aldrei, og ég endurtek aldrei, að sitja uppi með reikninga sem fyrirtæki skilja eftir sig þegar allt fer á versta veg," sagði hún, ennfremur að ríkisstjórnin hefði ítrekað reynt að skuldbinda íslenzka skattgreiðendur vegna Icesave-reikninganna.

En Bjarni Benediktsson lætur ekki skipast, hefur enn ekki iðrazt afstöðu sinnar með samþykkt Icesave III, þvert gegn þjóðarviljanum og þrátt fyrir að samþykkt þeirra ólaga hefði lagt á saklausa þjóðina gríðarlegar vaxtagreiðslur, tugi milljarða á ári hverju, fé sem hefði EKKI talizt til forgangskrafna, þegar greitt yrði að endingu úr þrotabúinu og væri því óafturkræft!

Hart er í ári nú hjá ríkinu, með miklum samdrætti, en hann væri margfaldur á við það, sem nú er, ef við hefðum samþykkt Icesave III. Ætlar formaður Sjálfstæðisflokksins aldrei að skilja þetta? Þykist þessi maður fær um að stjórna landinu?

Lesið hér um læpuskaps-ódygðir og vælugang hans á þessum landsfundi:

  • Í ræðu sinni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sagði Bjarni Benediktsson að hann hefði tekið það mjög nærri sér er hann fann að flokkurinn hafi ekki verið samstíga í Icesave-málinu.
  • „Mestu skiptir að vera heill og trúr sannfæringu sinni og gera allt sem best er fyrir hagsmuni íslensku þjóðarinnar [svo! – innskot jvj.],“ sagði Bjarni er hann ræddi um klofninginn innan flokksins vegna Icesave. (Af vef Ruv-is.)

Bjarni Ben. er óiðrandi syndari í þessu máli – og biðlar þó til flokksmanna sinna um stuðning, eftir að hafa þverbrotið gegn einarðri stefnu síðasta landsfundar á undan í þessu Icesave-máli!

Fleiri greinar hér á síðunni um landsfundar- og Icesave-mál ! 

Jón Valur Jensson.


mbl.is Stjórnin sér háa skatta í hillingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gústaf Adolf Skúlason: Það er ekki "betri Svavar" sem Sjálfstæðisflokkinn vantar til að leiða þjóðina

Í setningarræðu sinni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 17. nóv sagði Bjarni Benediktsson:

  • "Ályktunin (nei við löglausum kröfum Breta og Hollendinga í Icesave-málinu) var í mínum huga fyrst og fremst til að brýna þingmenn flokksins og aðra til að standa órofa vörð um hagsmuni lands og þjóðar. Það gerði ég ásamt öllum þingmönnum, jafnt þeim sem greiddu atkvæði með síðasta samningi (Icesave III) og þeim sem stóðu gegn honum."

Liðhaup Bjarna Benediktssonar og meirihluta þingliðs sjálfstæðismanna, er þeir gengu í lið ríkisstjórnarinnar í Icesave III, neyddi þjóðina til að rísa upp eina ferðina enn til að endurtaka sama boðskap og öllum var kunnur: Nei við Icesave. – Við borgum ekki skuldir óreiðumanna.

Varnir formanns Sjálfstæðisflokksins fyrir svikum sínum eru, að Icesave III hafi verið "gjörbreyttur samningur vegna 400 milljarða króna afsláttar," þar sem tillit var tekið til "gagnrýni talsmanna þjóðargjaldþrotasamninganna." Bara ef hægt væri að ná betri samning en Svavari Gestssyni og ríkisstjórninni hafði áður tekist væri það rétt, að þjóðin tæki skuldasúpu Landsbankans á sínar herðar. Bjarni fullyrðir, að Icesave III hafi verið í þágu hagsmuna lands og þjóðar! Gerir hann engan greinarmun á þeim, sem lögðu til samninginn og greiddu honum atkvæði og þjóðarmeirihlutanum, sem felldi samninginn. Samkvæmt Bjarna Benediktssyni stóðu báðar fylkingarnar "vörð um hagsmuni þjóðarinnar". Einn þingmaður Sjálfstæðismanna hótaði m.a. með innrásarliði górillu-innheimtumanna Breta og Hollendinga, ef Íslendingar segðu ekki já við afarkostum Icesave III.

Þjóðin stóð á hagsmunum sínum og ekkert bólar á górillum enn sem komið er. Lýðskrumurum af Jöhönnu og Steingrímstegund hefur hins vegar fjölgað.

Ég vona, að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sjái, heyri og skilji þá samstöðu, sem þjóðin sýndi í Icesave-deilunni, þótt meirihluti þingflokks þeirra ásamt formanni flokksins hafi hafnað áskorun 40 þúsund Íslendinga um að draga Icesave III til baka og tekið afstöðu gegn hagsmunum þjóðarinnar.

Það var aldrei meining Bjarna, að þjóðin ætti að vera frjáls undan Icesave-klafanum. Hann vildi bara slá sjálfan sig sleginn til riddara sem betri samningamann en Svavar Gestsson. Þannig ætlar Bjarni Benediktsson líka að nota tækifærið varðandi ESB-samninginn, þegar afhenda á fullveldi Íslands til embættismannanna í Brussel. Ef "ríkisstjórnin þráast við og heldur viðræðunum til streitu" ætlar Bjarni enn á ný að skunda með liði sínu á vettvang og bjarga vonlausustu ríkisstjórn Íslandssögunnar með "betri" ESB-samning.

Vonandi hafa landsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins bæði kjark og þor, að bjarga formannsstóli sínum frá Bjarna Benediktssyni. Formannstóllinn tilheyrir foringja, sem leiða á þjóðina í nýrri sjálfstæðisbaráttu hennar í breyttum heimi, þar sem óveðurskýin dragast saman á himni.

Í það verkefni þarf persónu með aðra hæfileika en að vera bara betri Svavar í samningum.

Gústaf Adolf Skúlason.

Viðauki: Heiðrún Lind Marteinsdóttir, lögfræðingur og sjálfstæðiskona, er í Vikulokunum á Rás 1 við birtingu þessarar greinar. Hún er stuðningsmaður Bjarna á landsfundi, en segir þó aðspurð, að afstaða hans til Icesave III "hái honum" í kosingabaráttu hans á landsfundinum og að sjálf hafi hún verið einörð í andstöðu sinni við Icesave III. –Aths. JVJ.

Lesið ennfremur eftirfarandi nýlega pistla hér:


mbl.is Stjórnmálaályktun lögð fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Formaðurinn stoltur af rangri hlið Icesave-deilunnar. VELKOMIN Í FORMANNSSTÓLINN, HANNA BIRNA!

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, útskýrði ekki, að það hefði verið rangt af forystu Sjálfstæðisflokksins að mynda Icesave-bandalag með ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur gegn íslensku þjóðinni eftir að þjóðin hafði hafnað tilraun ríkisstjórnarinnar að gera skattgreiðendur ábyrga fyrir þrotabúi Landsbankans.

Þessi afstaða forystu Sjálfstæðisflokksins var algjör svik við stjórnarandstöðuna og dró þjóðina í annað sinn í þjóðaratkvæði um málið. Á örskömmum tíma myndaðist samstaða þjóðar, sem safnaði yfir 40 þúsund undirskriftum, sem afhent voru forseta Íslands með áskorun um, að þjóðin fengi sjálf að taka ákvörðun um málið og var Icesave eins og við var að búast kolfellt í annað sinn.

Skýring Bjarna Benediktssonar þá var, að hann hefði með "ísköldu mati" komist að þeirri niðurstöðu, að rétt hefði verið að styðja "norrænu velferðarstjórnina" í þessu máli. Í reynd gerði sjálfstæðisforystan betur, hún vann með ríkisstjórninni í að móta nýja tillöguna fyrir ríkisstjórnir Breta og Hollendinga.

Bjarni Benediktsson 

Það er með öllu óskiljanlegt, að formaður Sjálfstæðisflokksins skuli nú í setningarræðu landsfundar Sjálfstæðisflokksins tala um þessa hegðun með orðunum: "Það voru hagsmunir heildarinnar, þjóðarinnar allrar, sem drifu mig áfram í Icesave-málinu. Ég segi fullum fetum: ég er stoltur af þeim mikla árangri sem viðspyrna okkar á Alþingi skilaði."

Bjarni Benediktsson segir hér beinum orðum, að hann viti betur en þjóðin og að meirihluti þjóðarinnar, sem felldi Icesave fari með rangt mál. Hinn "mikli árangur sem viðspyrnan" á Alþingi hefði skilað, ef þjóðin hefði ekki stöðvað málið í annað sinn, hefði leitt til gjaldþrots Íslands og landsmenn hefðu glatað efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar.

Forystan fylgdi ekki Icesave-samþykkt Sjálfstæðisflokksins frá landsfundi árið áður eins og ungir Sjálfstæðismenn bentu á í frægri auglýsingu í Morgunblaðinu: Gjör rétt - þol ei órétt!

Ég býð Hönnu Birnu velkomna sem næsta formann Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn þarf ekki á núverandi formanni að halda, sem er í svo miklum ótakt við þjóðina og eigin meðborgara.

Gústaf Skúlason.

Þessi grein, sem birtist á sænsku vefsetri höfundarins, er endurbirt hér með leyfi hans.


mbl.is Tillögur tóku breytingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þegar þriðji Icesave-samningurinn kom inn á borð Bjarna [Benediktssonar] brást hann flokksmönnum sínum í einu og öllu."

Bjarni gerði ranglætið að sínum málstað er fyrirsögn greinar í Mbl. í dag eftir Hlyn Jónsson, laganema, fv. formann Heimdallar. Þar talar hann út og segir m.a.:

  • Sem formaður Sjálfstæðisflokksins hefur Bjarni Benediktsson staðið sig ágætlega í baráttunni gegn vinstriöflunum. En þó að undanskildu einu máli, sem erfitt er að líta framhjá.
  • Þegar þriðji Icesave-samningurinn kom inn á borð Bjarna brást hann flokksmönnum sínum í einu og öllu. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafði áður ályktað að hafna bæri löglausum kröfum Breta og Hollendinga. Þrátt fyrir það ákvað Bjarni, að loknu ísköldu hagsmunamati, að best væri að samþykkja hinar löglausu kröfur. Þetta gerði hann þvert gegn vilja flestra samflokksmanna sinna. Eftir að Icesave-samningnum var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu hefur komið í ljós að Bjarni tók kolranga ákvörðun. Þær hörmungar sem já-menn höfðu fullyrt að myndu dynja á íslensku þjóðinni hafa ekki orðið að veruleika. Þrátt fyrir þetta hefur Bjarni ekki viðurkennt að hafa gert mistök – þvert á móti hefur hann sagt að hann myndi gera allt nákvæmlega eins aftur ef til þess kæmi.
  • Í Icesave-málinu sýndi Bjarni ótrúlegan dómgreindarskort. Hann fór þvert gegn vilja samflokksmanna sinna og gerði ranglætið að sínum málstað. Engin ástæða er til að ætla að slíkir hlutir geti ekki endurtekið sig með hann áfram í formannsstólnum. Bjarni fékk sitt tækifæri og klúðraði því. Ég tel því mikilvægt að við Sjálfstæðismenn veljum okkur nýjan formann á komandi landsfundi. [...]

Þetta er tíðindaverð grein og gæti haft umtalsverð áhrif á kjör formanns Sjálfstæðisflokksins á 40. landsfundi hans, sem hófst í dag.

Lítið ennfremur á grein hér frá því í hádeginu í dag:  Hvenær, ef nokkurn tímann, las Jóhanna Sigurðardóttir allan Svavarssamninginn? - og um hrikalegar afleiðingar af samþykkt Icesave-samninga, þrátt fyrir endurheimtur!

JVJ.


Orðrétt ósannindi Steingríms J. Sigfússonar um Svavarssamninginn

Hinn 3. júní 2009 sagði Steingrímur í ræðustóli Alþingis vegna Icesave-málsins:

  • „Ég held að ég geti fullvissað háttvirtan þingmann um að það standi ekki til að ganga frá einhverju samkomulagi í dag eða einhverja næstu daga og áður en til þess kæmi yrði að sjálfsögðu haft samráð við utanríkismálanefnd.“

Og takið eftir:

  • Daginn eftir var gerður samningur og ekkert samráð haft við utanríkismálanefnd.  Steingrímur hefur sýnt að engin ástæða er til að taka mark á því sem hann segir ... (úr Mbl.-leiðara í dag, leturbreyting hér).

Hefur nokkur ráðherra nokkurn tímann í allri þingsögunni skrökvað á jafn-óskammfeilinn hátt að þingi og þjóð í jafn-alvarlegu máli? 

Þeir, sem eiga ólesna eftirfarandi grein hér, nýja frá í dag, ættu að vinda sér að lestri hennar: Hvenær, ef nokkurn tímann, las Jóhanna Sigurðardóttir allan Svavarssamninginn? - og um hrikalegar afleiðingar af samþykkt Icesave-samninga, þrátt fyrir endurheimtur! 

Þriðji pistillinn, um allsendis óverjandi afstöðu Bjarna Benediktssonar í Icesave-málinu, birtist svo hér í kvöld kl. 19:50.

JVJ. 


Hvenær, ef nokkurn tímann, las Jóhanna Sigurðardóttir allan Svavarssamninginn? - og um hrikalegar afleiðingar af samþykkt Icesave-samninga, þrátt fyrir endurheimtur!

Guðlaugur Þór Þórðarson alþm. benti á það í umræðu á Alþingi í morgun að vinnubrögð Jóhönnu Sigurðardóttur í Icesave-málinu hefðu einkennzt af pukri og launung og að "hæstv. forsætisráðherra" hefði samþykkt Icesave I án þess að hafa lesið hann og ennfremur ætlazt til þess af þingmönnum Vinstri grænna að þeir samþykktu hann án þess að hafa lesið hann.

Jóhanna svaraði fyrir sig, sagði rangt, að hún hafi ekki lesið samninginn, en orð hennar voru svo óskýr í því svari, að hún gæti allt eins átt við, að hún hafi lesið hann seinna!

Í dag bárust þau tíðindi, að skilanefnd Landsbankans upplýsti, að endurheimtur bankans séu nú orðnar um 1340 milljarðar, um 25 milljarðar umfram forgangskröfur, en þar eru bæði Icesave-kröfur og heildsölulán.

En við skulum áfram hafa hugfast, að ofgreiddir vextir vegna Icesave-krafna Breta og Hollendinga myndu EKKI teljast til forgangskrafna og væru því óafturkræfir, ef þeir hefðu verið reiddir fram úr illa stöddum ríkissjóði Íslands, sem bar raunar engin skylda til slíkra greiðslna! 

Jóhanna og Steingrímur samþykktu gríðarlegar vaxtagreiðslur, tugi milljarða á ári hverju, í öllum Icesave-lögunum, sem mættu svo mikilli andstöðu þjóðarinnar, en ekki stjórnmálastéttarinnar, ekki leiðandi manna í viðskiptalífinu, samtaka atvinnurekenda og – með fáum undantekningum – ekki háskólaspekinga, og hinar ólögmætu vaxtagreiðslur mættu ekki einu sinni andstöðu verkalýðsforystunnar, og virtist þá fokið í flest skjól fyrir alþýðu manna eða flestir sótraftar á sjó dregnir til að réttlæta rangindin. (Meira um þau í öðrum pistli hér eftir kvöldmat!)

Biðraðir lengjast nú í heilbrigðisþjónustunni, spítölum lokað (Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og St. Jósefsspítala í Hafnarfirði og verulegar takmarkanir víðar, m.a. á Húsavík, í sjálfu kjördæmi Icesave-árátturáðherrans Steingríms J.). Menn geta einnig litið á Landakotsspítala, þegar farið er að rökkva um kl. 18 dag hvern, og séð þar slökkt ljós á heilu hæðunum í báðum álmum hússins, í meirihluta hans!

Hvernig væri nú ástandið orðið, ef fjármálaráðherrann hefði fengið leyfi þings og þjóðar til að skrifa upp á ríkisábyrgð fyrir tugmilljarðakröfum um ÓAFTURKRÆFA VEXTI til Bretlands og Hollands?! Yfir 40 milljarðar áttu vextirnir að vera strax á fyrsta árinu og það í erlendum gjaldeyri – og svo bætt "rausnarlega" við, ár af ári! Og þessi maður situr enn á ráðherrastóli!

Jón Valur Jensson. 


Hanna Birna Kristjánsdóttir á öndverðum meiði við Bjarna Benediktsson í Icesave-máli

  Hver er afstaða þín til Icesave-málsins? – Þannig spyr Hjörtur J. Guðmundsson þennan frambjóðanda í formannskjöri Sjálfstæðisflokksins í fróðlegu viðtali í Mbl. í dag.* Svar Hönnu Birnu:

  • „Ég var algerlega á móti því að reynt væri að fara þá leið að semja um Icesave-málið og hengja þennan klafa á íslenska launþega. Ég fagna því að íslensk þjóð hafi fengið tækifæri til þess að hafna málinu og þetta ferli sýnir vel að þjóðin veit oft mun betur en stjórnmálamennirnir.“

Þetta svar sýnir vel, að Hanna Birna var ekki einungis andvíg samþykkt formannsins Bjarna og mikils meirihluta þingflokks Sjálfstæðisflokksins á svokölluðum Icesave-III-"lögum" – þeim sem þjóðin felldi í seinni þjóðaratkvæðagreiðslunni – heldur einnig á móti hjásetu mestalls sama þingflokks í afgreiðslu Icesave-II-laganna (fyrirvaralaganna, sem herra Ólafur Ragnar Grímsson staðfesti með sínum eigin viðbættu fyrirvörum í byrjun september 2009, en voru felld úr gildi á þessu ári).

Til hamingju með þessa afstöðu þína, Hanna Birna!

* Skiptir mestu að flokkurinn fylgi samþykktum landsfundar, Mbl. í dag, s. 6.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Vill hætta við ESB og halda í krónuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband