Gústaf Adolf Skúlason: Það er ekki "betri Svavar" sem Sjálfstæðisflokkinn vantar til að leiða þjóðina

Í setningarræðu sinni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 17. nóv sagði Bjarni Benediktsson:

  • "Ályktunin (nei við löglausum kröfum Breta og Hollendinga í Icesave-málinu) var í mínum huga fyrst og fremst til að brýna þingmenn flokksins og aðra til að standa órofa vörð um hagsmuni lands og þjóðar. Það gerði ég ásamt öllum þingmönnum, jafnt þeim sem greiddu atkvæði með síðasta samningi (Icesave III) og þeim sem stóðu gegn honum."

Liðhaup Bjarna Benediktssonar og meirihluta þingliðs sjálfstæðismanna, er þeir gengu í lið ríkisstjórnarinnar í Icesave III, neyddi þjóðina til að rísa upp eina ferðina enn til að endurtaka sama boðskap og öllum var kunnur: Nei við Icesave. – Við borgum ekki skuldir óreiðumanna.

Varnir formanns Sjálfstæðisflokksins fyrir svikum sínum eru, að Icesave III hafi verið "gjörbreyttur samningur vegna 400 milljarða króna afsláttar," þar sem tillit var tekið til "gagnrýni talsmanna þjóðargjaldþrotasamninganna." Bara ef hægt væri að ná betri samning en Svavari Gestssyni og ríkisstjórninni hafði áður tekist væri það rétt, að þjóðin tæki skuldasúpu Landsbankans á sínar herðar. Bjarni fullyrðir, að Icesave III hafi verið í þágu hagsmuna lands og þjóðar! Gerir hann engan greinarmun á þeim, sem lögðu til samninginn og greiddu honum atkvæði og þjóðarmeirihlutanum, sem felldi samninginn. Samkvæmt Bjarna Benediktssyni stóðu báðar fylkingarnar "vörð um hagsmuni þjóðarinnar". Einn þingmaður Sjálfstæðismanna hótaði m.a. með innrásarliði górillu-innheimtumanna Breta og Hollendinga, ef Íslendingar segðu ekki já við afarkostum Icesave III.

Þjóðin stóð á hagsmunum sínum og ekkert bólar á górillum enn sem komið er. Lýðskrumurum af Jöhönnu og Steingrímstegund hefur hins vegar fjölgað.

Ég vona, að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sjái, heyri og skilji þá samstöðu, sem þjóðin sýndi í Icesave-deilunni, þótt meirihluti þingflokks þeirra ásamt formanni flokksins hafi hafnað áskorun 40 þúsund Íslendinga um að draga Icesave III til baka og tekið afstöðu gegn hagsmunum þjóðarinnar.

Það var aldrei meining Bjarna, að þjóðin ætti að vera frjáls undan Icesave-klafanum. Hann vildi bara slá sjálfan sig sleginn til riddara sem betri samningamann en Svavar Gestsson. Þannig ætlar Bjarni Benediktsson líka að nota tækifærið varðandi ESB-samninginn, þegar afhenda á fullveldi Íslands til embættismannanna í Brussel. Ef "ríkisstjórnin þráast við og heldur viðræðunum til streitu" ætlar Bjarni enn á ný að skunda með liði sínu á vettvang og bjarga vonlausustu ríkisstjórn Íslandssögunnar með "betri" ESB-samning.

Vonandi hafa landsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins bæði kjark og þor, að bjarga formannsstóli sínum frá Bjarna Benediktssyni. Formannstóllinn tilheyrir foringja, sem leiða á þjóðina í nýrri sjálfstæðisbaráttu hennar í breyttum heimi, þar sem óveðurskýin dragast saman á himni.

Í það verkefni þarf persónu með aðra hæfileika en að vera bara betri Svavar í samningum.

Gústaf Adolf Skúlason.

Viðauki: Heiðrún Lind Marteinsdóttir, lögfræðingur og sjálfstæðiskona, er í Vikulokunum á Rás 1 við birtingu þessarar greinar. Hún er stuðningsmaður Bjarna á landsfundi, en segir þó aðspurð, að afstaða hans til Icesave III "hái honum" í kosingabaráttu hans á landsfundinum og að sjálf hafi hún verið einörð í andstöðu sinni við Icesave III. –Aths. JVJ.

Lesið ennfremur eftirfarandi nýlega pistla hér:


mbl.is Stjórnmálaályktun lögð fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elle_

Bjarna Ben er ekki treystandi fyrir neinum málum eftir ICESAVE3.  Hann ætti að víkja úr stjórnmálum með Jóhönnu, Steingrími, Össuri og co.  

Hann hafði fyrir löngu viljað ríkisábyrgð á ICESAVE og kom það fram í alþingi.  Hann þóttist nú samt vera að vinna gegn ríkisábyrgðinni seinna.  Og fór svo aftur í gamla farið eins og fjöldi manns óttaðist lengi að hann myndi akkúrat gera.  Og gegn vilja sjálfrar þjóðarinnar sem hann hafði að engu.  Og gegn samþykkt eigin flokks. 

En allt of mikil áhersla er lögð á formenn og forystu flokka.  Hvar var lýðræðið innan Sjálfstæðisflokksins þegar Bjarni fór í síðasta snúninginn?  Hví fylgdu nokkrir með honum gegn þjóðinni??  Flokkurinn fyrst og landið og þjóðin svo???  Eins og í Samfó og VG??  Skítt með flokka og formenn.  Viljum við ekki fremur lýðræði en flokksræði og formannaræði? 

En takk fyrir pistilinn, Gustaf.  Og þeir mega halda áfram að stoppa bíla á Sæbrautinni.    

Elle_, 19.11.2011 kl. 17:30

2 Smámynd: ÞJÓÐARHEIÐUR - SAMTÖK GEGN ICESAVE

Þökk fyrir innleggið, Elle.

Meirihluti þingmanna Sjálfstæðisflokksins fylgdu Bjarna, þegar hann greiddi atkvæði með Icesave III-smánarsamningnum, og flestir fylgdu þeir honum, þegar hann sat hjá við afgreiðslu á Icesave-II-frumvarpinu (fyrirvaralögunum). Þetta var vitaskuld frágangssök varðandi allan stuðning við þennan mann sem formann flokksins.

Innlegg ÓSG, sem þú víkur þarna að í lokin, var ég að fella út; fyndið var það kannski, en óleyfilegt.

ÞJÓÐARHEIÐUR - SAMTÖK GEGN ICESAVE, 19.11.2011 kl. 18:01

3 Smámynd: ÞJÓÐARHEIÐUR - SAMTÖK GEGN ICESAVE

... fylgdi ...

ÞJÓÐARHEIÐUR - SAMTÖK GEGN ICESAVE, 19.11.2011 kl. 18:02

4 Smámynd: ÞJÓÐARHEIÐUR - SAMTÖK GEGN ICESAVE

Hanna Birna gagnrýndi Bjarna Ben. vegna Icesave-afstöðu hans í ræðu sinni nú síðdegis á landsfundi Sjálfstæðisflokksins.

ÞJÓÐARHEIÐUR - SAMTÖK GEGN ICESAVE, 19.11.2011 kl. 18:03

5 Smámynd: ÞJÓÐARHEIÐUR - SAMTÖK GEGN ICESAVE

Hann segir það hafa verið sér erfitt að flokkurinn var ekki samstiga í Icesave-málinu, en segist sjálfur heill í því máli !

ÞJÓÐARHEIÐUR - SAMTÖK GEGN ICESAVE, 19.11.2011 kl. 18:05

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þessar athugasemdir eru mínar, JVJ.

Jón Valur Jensson, 19.11.2011 kl. 18:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband