Færsluflokkur: Dægurmál

"Ískalt mat" Bjarna Ben. á Icesave-samningi "laskaði Sjálfstæðisflokkinn varanlega, en þó ekki nægjanlega," segir Reykjavíkurbréf!

Þar kemur einnig fram að "ríkisstjórnin er óvænt að baksa við það á bak við tjöldin að undirbúa breyt­ingar á stjórnar­skrá til að tryggja að hægt verði að ganga í ESB með sem minnstum vandræðum. Þetta hljómar ótrúlega en er samt satt. Fyrir flokk sem hangir enn í að vera stærsti flokkur landsins birtist þetta sem einhvers konar þráhyggjuleg taka tvö á hlaupinu út undan sér í Icesave „eftir ískalt mat“ sem laskaði flokkinn varanlega, en þó ekki nægjanlega, að því er virðist." [Leturbr.jvj.]

Svo ritar sá, sem talinn er fyrirrennari Bjarna Ben. sem formaður Sjálf­stæðisflokksins.

En um það baks stjórnmálaleiðtoga á Alþingi "að undirbúa breytingar á stjórnarskrá til að tryggja að hægt verði að ganga í ESB," má lesa hér á Fullveldisvaktinni.

Þetta eru mun alvarlegri málefni heldur en þau, að örfáir einstak­lingar, innan við tíu manns á Alþingi (Píratar, Helga Vala, Rósa Björk og Andrés félagi hennar í VG) voru með uppsteit á Þingvöllum í dag, auk fáeinna úr hópi almennings.

En aftur að Icesave-málinu: Hefur heyrzt skeleggari gagnrýni innan Sjálf­stæðis­flokksins á Icesave-framgöngu núverandi flokksformanns heldur en þessi í Reykjavíkurbréfi nýliðins laugardags? Varanlegt fylgishrun flokksins í kosn­ing­um, miðað við það sem áður var, hefur mjög sennilega mikið með það að gera, að Bjarni veðjaði á rangan hest í Icesave-málinu og fylgdi ekki þjóðarviljanum og hvorki eigin flokksmönnum né jafnvel landsfundi!

Jón Valur Jensson.


mbl.is Mótmæli lituðu hátíðarfundinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræðishalli í Sjálfstæðisflokknum! segir Styrmir. Sá halli birtist átakanlega í Icesave-málinu

Framlag Styrmis í Vikulok Rásar 1 í dag vekur mikla athygli. Lýð­ræð­is­halla í hans eigin flokki, sem og í líf­eyr­is­sjóð­un­um, líkir hann við gjána í banda­rísku samfé­lagi milli ör­fárra ríkra og ráðandi og hins vegar alls þorra al­mennings:

Vitnaði hann í Robert Reich, vinnu­málaráðherra í tíð Bills Cl­int­on, og sagði skipt­ing­una í þjóðfé­lag­inu þannig að öðrum meg­in væri gríðarleg­ur fjöldi en hinum meg­in fá­menn­ur hóp­ur. Málið sner­ist ekki um póli­tík held­ur þessa fá­mennu hópa sem væru komn­ir í þá aðstöðu að stjórna heilu sam­fé­lög­un­um; emb­ætt­is­menn og aðra áhrifa­menn t.d.

Sagði Styrm­ir átök­in snú­ast um að hinir mörgu þyldu ekki yf­ir­ráð hinna fáu. (Leturbr. hér.)

Hann sagðist á því að það væri lýðræðis­halli í Sjálf­stæðis­flokkn­um og sagði það úr­elt kerfi að kallaður væri sam­an lands­fund­ur sem kysi for­ystu flokks­ins. Hann sagði að all­ir flokks­bundn­ir sjálf­stæðis­menn, miklu meiri fjöldi en þeir sem sæktu lands­fund, ættu að kjósa for­yst­una og um stefnu­mörk­un flokks­ins.

Þetta ætti einnig við um líf­eyr­is­sjóðina; þar byggju menn enn við það gamla kerfi að stjórn væri val­in af vinnu­veit­enda- og launþega­sam­tök­um en ekki af fé­lags­mönn­um sjálf­um. (Mbl.is sagði hér, að nokkru, frá Vikulokaþættinum fyrir hádegið í dag.)

Í tveimur stórum málum hefur fámenn forysta Sjálf­stæðis­flokksins tekið öll ráð úr höndum æðstu stofnunar flokksins, landsfundar, sem yfirleitt er haldinn á tveggja ára fresti, einkum stuttu fyrir kosningar. Þetta varð opinber­lega ljóst í bæði Icesave-málinu og ESB-umsóknar­málinu. Í því síðar­nefnda sveikst Bjarni Bene­dikts­son ásamt fleiri ráðherrum flokksins aftan að þeirri stefnu sem landsfundur hafði markað undir vorið 2013, að hætta bæri við umsókn­ina um inngöngu í Evrópu­sambandið. Sú stefna var þar skýr og ljós og ekki komin undir neinu skilyrði um undan­gengna þjóðar­atkvæða­greiðslu þar um (ekki frekar en Jóhanna, Össur og Steingrímur og þeirra taglhnýtingar höfðu tekið í mál að hafa þjóðaratkvæði um umsóknina). Einungis kvað landsfundur á um, að ef einhvern tímann aftur yrði sótt þarna um inngöngu, skyldi þjóðin spurð álits á því í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í Icesave-málinu hélt Bjarni Benediktsson linlega á spöðunum með því að sitja hjá í atkvæðagreiðslu um Icesave-II (fyrirvarasamninginn), en landsfundur fjallaði síðan um framtíð málsins með þeim hætti, að við Íslendingar hefðum enga gjaldskyldu í því kröfumáli brezkra og hollenzkra stjóirnvalda og að því bæri að hafna öllum Icesave-samningum. 

Með þessa stefnumörkun grasrótar flokksins (um 1700 manns) ákvað Bjarni Ben. og meirihluti þingmanna flokksins að fara samt sínu fram, með beinum stuðningi við Icesave-III (Buchheit-samninginn), meðan blekið var varla þornað á yfirlýsingu landsfundar! Enn á ný sannaðist ofríki hinna fáu gagnvart stefnu hinna mörgu.

En þá var það grasrót almennings og ekki sízt ötul mótspyrnu­samtök, Samstaða þjóðar gegn Icesave, sem börðust ötul­lega í málinu, einkum með undir­skrifta­söfnun á vefnum Kjósum.is, og náðu þvílíkum árangri, að forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, tók af skarið með því að synja lögunum um Buchheit-samn­inginn undirskriftar sinnar.

Það sama vildi reyndar Guðni Th. Jóhannesson ekki á þeim tíma, mælti þvert á móti með samningum, eins og margir aðrir áhrifa­gjarnir á þeim vetrar­dögum, þegar sviptingar fóru um samfélagið og reyk­mökkur áróðurs lagðist hér yfir stofnanir og hagsmuna­aðila, þar á meðal yfir Fréttastofu Rúv og 365-fjölmiðla og ráðamenn í Valhöll.

Þvert á móti þessu var það einarðleg afstaða Ólafs forseta og meirihluta þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu 2011 sem tryggði rétt okkar og hagsmuni, eins og berlega kom í ljós eftir lögsókn Breta og Hollendinga fyrir EFTA-réttinum, sem úrskurðaði í janúar 2013 um fullan rétt Íslands til að þvertaka fyrir alla greiðsluskyldu vegna Icesave-reikninga einkabankans Landsbankans. 

Þetta var augljós staðfesting á réttsýni landsfundar Sjálfstæðisflokksins í málinu, þetta var því vindication of his right judgment, as well as of our national rights, eins og orða mætti þetta á ensku.

SAMT féllu Bjarni & Co. aftur í þá freistni nokkrum misserum síðar að óhlýðnast landsfundi flokksins í afgerandi mikilvægu máli, ESB-málinu, eins og lýst var hér ofar. Lýðræðishallinn, sem Styrmir Gunnarsson talaði um í morgun, var þannig ítrekað staðfestur innan þessa flokks, og geldur hann enn fyrir það í skoðanakönnunum.

Styrmir Gunnarsson er hins vegar einn þeirra sjálfstæðismanna, sem í báðum þessum málum báru hreinan skjöld, stóðu vörð um rétt okkar og þjóðar­hagsmuni og fylgdu þar með eftir stefnu grasrótar flokksins á tveimur landsfundum hans.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Framboð Þorsteins og Pawels erfið fyrir Sjálfstæðisflokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefði Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir sagt nei við Icesave-samningunum?!

Trúlega ekki! Samt er það tillaga stjórnlagaráðs að gera forseta Alþingis að EINA staðgengli forseta Íslands. Þarna er verið að kasta burt forseta Hæstaréttar, auk forsætisráðherra, meðal staðgengla forseta Íslands. Þátttaka forseta Hæstaréttar er vitaskuld bremsa á, að pólitíska valdið misnoti aðstöðu sína og komi t.d. í veg fyrir málskot mikilvægs löggjafarmáls til þjóðarinnar. Sjá um þetta nánar hér: Stórvarasamar tillögur stjórnlagaráðs um forseta Alþingis og forseta Íslands.

Þá er það ennfremur vilji stjórnlagaráðs að undanskilja sérstaklega "lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum", þegar í 65. og 67. tillögugrein þess er gefið færi á því, að 10 af hundraði kjósenda geti krafizt þjóðaratkvæðis um lög, sem Alþingi hefur samþykkt. Þetta undanskilda ákvæði felur í sér, að ekki mætti t.d. hafa þjóðaratkvæði um mál eins og Icesave, ekki frekar en við getum t.d. notað ákvæði 66. greinar til að krefjast þjóðaratkvæðis um að segja upp Schengen-samningnum eða EES-samningnum.

* Sjá hér, 82. tillögugrein "ráðsins": "Geti forseti Íslands ekki gegnt störfum um sinn vegna heilsufars eða af öðrum ástæðum fer forseti Alþingis með forsetavald á meðan."

JVJ.


Stórkostlegt klúður Steingríms og samherja hans í Icesave-máli

"Skýrt er tekið fram í tilskipun ES um innistæðutryggingar að þjóðríki skuli ekki bera ábyrgð gagnvart innistæðueigendum hafi þau innleitt tryggingakerfi. Fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis að innistæðutryggingakerfi á Íslandi var með svipuðum hætti og í mörgum öðrum Evrópulöndum, jafnvel betra en í sumum. Rannsóknarnefndin bendir á að markmið þágildandi tilskipunar ES um innistæðutryggingar hafi verið mótsagnakennd og engar athugasemdir hafi verið gerðar við íslenska fyrirkomulagið fyrir bankahrun. Rannsóknarnefndin er þeirrar skoðunar að Ísland hafi framfylgt tilskipun ES um innistæðutryggingar."

Þannig ritar Sveinn Valfells um Icesave-málið í Morgunblaðinu í dag, í grein sinni Icesave og traust Alþingis, en um þá frábæru grein var rætt hér fyrr í dag og upphaf hennar (fram að þessum texta) birt þar (sjá HÉR!).

Menn eru hvattir til að lesa greinina alla, en þegar hér er komið sögu í henni, fer að hilla undir meiri spennu í henni, eins og sést hér á framhaldinu, og eru þó mestu tíðindin og háskaþrungin spennan þá eftir, enda greinin ekki hálfnuð enn:

  • Þegar bankar féllu höfðu neyðarlög verið sett til frekari verndar innistæðueigendum og ríkissjóði. Bresk og hollensk stjórnvöld ákváðu einhliða að greiða út innistæðutryggingar jafnharðan í eigin löndum og gera kröfu á ríkissjóð Íslands en ekki Tryggingasjóð eða þrotabú Landsbanka. Í stað þess að reyna verja hagsmuni ríkissjóðs af krafti skipaði þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, samherja í pólitík til forystu sendinefndar sem semja átti við Bretland og Holland. Svavar Gestsson var fenginn til að semja um ólögmætar kröfur upp á mörg hundruð milljarða, liðlega þriðjung þjóðarframleiðslu, en hafði enga reynslu eða menntun til starfans. Niðurstaðan var stórkostlegt klúður."

Já, hér æstist leikurinn, og fylgið Sveini eftir í blaðinu ...

JVJ. 


Blaðafulltrúi óvinsællar ríkisstjórnar, ekki þjóðarinnar

Jóhann Hauksson blaðamaður starfaði ekki í þágu þjóðarinnar, þegar hann gerðist eindreginn málsvari Icesave-klafans á Íslendinga.* Sem betur fer var minnst hlustað á menn eins og hann í þjóðaratkvæðagreiðslunum. Frægt er það atvik úr Bessastaðastofu þegar forsetinn stakk upp í þennan framhleypna blaðamann með eftirminnilegum hætti. 

Fyrir tveimur árum var auglýst embætti blaðafulltrúa forsætisráðuneytisins. Tugir manna sóttu um, en síðan var HÆTT VIÐ að stofna til starfans. Hefur Jóhanna Sig. kannski átt erfitt með að ganga þar fram hjá mun hæfari mönnum en Jóhanni. Nú er því gripið til þess ráðs að auglýsa starf "blaðafulltrúa ríkisstjórnarinnar" og gera það ÁN AUGLÝSINGAR, að því er virðist þvert gegn lögum!

Baldur Hermannsson telur á Facebók sinni (skv. Fréttatímanum í dag, s. 24) að nú geti Jóhann "fengist við það sem honum lætur best: áróður í formi upplýsinga." 

Skyldum við eiga eftir að hlusta á enn meiri Icesave-áróður úr munni Jóhanns Haukssonar og nú á fullum launum frá okkur sjálfum?!

* Icesave-I hefði þegar kostað okkur yfir 120 milljarða króna í ÓENDURKRÆFA VEXTI (og allt í erlendum gjaldeyri) – vaxtakröfur í þrotabú eru ekki meðal forgangskrafna – féð væri tapað. Sjá greinar hér á vefnum. En 120 milljarða klafinn hefði reynzt okkur gríðarleg efnahagsáraun, leitt til fjöldabrottrekstrar ríkisstarfsmanna, óvægins niðurskurðar á skólakerfi, heilbrigðisþjónustu og framkvæmdum ríkisins og til skattaáþjánar alþýðu.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Nýr upplýsingafulltrúi stjórnarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skýrslum ráðherra stungið undir stól

Eru það viðteknir stjórnarhættir ráðherra að stinga skýrslum undir stól (sbr. Kristján Möller vegna Vaðlaheiðarganga)? Þetta er nefnilega ekki einstakt dæmi um slíkt undanskot. Það sama gerðist í Icesave-málinu og með svo alvarlegum hætti, að leidd hafa verið rök að því, að þar hafi a.m.k. Össur Skarphéðinsson, ef ekki Steingrímur líka, brotið skýr landráðaákvæði hegningarlaganna, sjá hér: Össur biðst afsökunar (þó með sínum stærilætistöktum) vegna Mishcon de Reya-STÓRHNEYKSLIS.

Hin falda spá Hagfræðistofnunar um tregar innheimtur á veggjöldum vegna Vaðlaheiðarganga er aðalfréttin á forsíðu Morgunblaðsins í dag. Hvenær skyldi reka að því, að dagblöðin greini frá lögsókn á hendur Össuri vegna hinnar földu skýrslu lögfræðistofunnar Mishcon de Reya (sem komst að þeirri niðurstöðu, að okkur bæri ekki að greiða Icesave-rukkun ríkisstjórnar Gordons Brown)?

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Skýrslu stungið undir stól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hanna Birna gagnrýnir Icesave-Bjarna, sem sjálfur VER stefnu sína þvert gegn síðasta landsfundi!

Hanna Birna Kristjánsdóttir gagnrýndi Bjarna, formann flokks síns, "fínlega" vegna afstöðu hans í Icesave-málinu skv. Rúv-frétt kl. 18. „Þetta er prinsipmál, sem snýst um það eitt að íslenskur almenningur á aldrei, og ég endurtek aldrei, að sitja uppi með reikninga sem fyrirtæki skilja eftir sig þegar allt fer á versta veg," sagði hún, ennfremur að ríkisstjórnin hefði ítrekað reynt að skuldbinda íslenzka skattgreiðendur vegna Icesave-reikninganna.

En Bjarni Benediktsson lætur ekki skipast, hefur enn ekki iðrazt afstöðu sinnar með samþykkt Icesave III, þvert gegn þjóðarviljanum og þrátt fyrir að samþykkt þeirra ólaga hefði lagt á saklausa þjóðina gríðarlegar vaxtagreiðslur, tugi milljarða á ári hverju, fé sem hefði EKKI talizt til forgangskrafna, þegar greitt yrði að endingu úr þrotabúinu og væri því óafturkræft!

Hart er í ári nú hjá ríkinu, með miklum samdrætti, en hann væri margfaldur á við það, sem nú er, ef við hefðum samþykkt Icesave III. Ætlar formaður Sjálfstæðisflokksins aldrei að skilja þetta? Þykist þessi maður fær um að stjórna landinu?

Lesið hér um læpuskaps-ódygðir og vælugang hans á þessum landsfundi:

  • Í ræðu sinni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sagði Bjarni Benediktsson að hann hefði tekið það mjög nærri sér er hann fann að flokkurinn hafi ekki verið samstíga í Icesave-málinu.
  • „Mestu skiptir að vera heill og trúr sannfæringu sinni og gera allt sem best er fyrir hagsmuni íslensku þjóðarinnar [svo! – innskot jvj.],“ sagði Bjarni er hann ræddi um klofninginn innan flokksins vegna Icesave. (Af vef Ruv-is.)

Bjarni Ben. er óiðrandi syndari í þessu máli – og biðlar þó til flokksmanna sinna um stuðning, eftir að hafa þverbrotið gegn einarðri stefnu síðasta landsfundar á undan í þessu Icesave-máli!

Fleiri greinar hér á síðunni um landsfundar- og Icesave-mál ! 

Jón Valur Jensson.


mbl.is Stjórnin sér háa skatta í hillingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur vanmetur tjón af hryðjuverkalögunum ekki síður en mikla vexti sem "hefðu hlaðist upp" vegna Icesave

Kostnaður Íslands væri "þegar orðinn um 40 milljarðar króna," "hefði síðasti Icesave-samningur verið samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu og ríkisábyrgð verið veitt á greiðslum Tryggingasjóðs innistæðueigenda og fjárfesta (TIF) á greiðslum til ríkissjóða Bretlands og Hollands," segir Þórður Gunnarsson viðskiptablaðamaður í fróðlegri grein í viðskiptablaði Morgunblaðsins sl. fimmtudag, 15. september.

Hann segir þar einnig:

  • "Samkvæmt samningum átti að greiða Bretum og Hollendingum 26 milljarða strax eftir veitingu ríkisábyrgðar, vegna tímabilsins frá gjaldþroti Landsbankans og fram að árslokum 2010 (þar af hefðu 20 milljarðar komið frá TIF).
  • Áfallnir vextir 1,75 milljarðar á mánuði
  • Þar sem útgreiðslur hafa ekki hafist úr þrotabúi Landsbankans, hefðu talsverðar vextir fallið til vegna þessa. Miðað við núverandi gengisskráningu Seðlabanka Íslands nema áfallnir vextir, samkvæmt Icesave-samningi númer III, um 1,75 milljörðum króna á mánuði. Á fyrstu átta mánuðum ársins hefðu því áfallnir vextir numið um 14 milljörðum króna, sem ríkissjóður Íslands hefði þurft að standa undir."

Miðað við kostnaðaráætlun um byggingu nýs gæzluvarðhalds- og öryggisfangelsis á Hólmsheiði, upp á 2,1 milljarð króna (sjá hér) – fé sem ríkissjóður hefur ekki ráð á að reiða fram á byggingartímanum og verður því að fela verkið einkaaðilum og leigja síðan byggingarnar af þeim – þá nema þessar vaxtagreiðslur, sem verið hefðu, ef Icesave-III hefði verið samþykkt, á hverjum 36 dögum jafngildi heils slíks fangelsis fullbúins! – og það mánuð eftir mánuð og ár eftir ár!

Og vissi Steingrímur ekki hitt, að þessir vextir væru ÓAFTURKRÆFIR, þó að meira en nóg myndi reynast vera í eignasafni Landsbankans?! Þar myndi aldrei reynast svo mikið fé, að allar kröfur fengjust greiddar og sízt vextir, enda komast þeir ekki nálægt því að teljast forgangskröfur.

En lítum aftur á grein Þórðar:

  • Matið breytist með hverri fréttatilkynningu
  • Þegar Icesave-samningurinn var kynntur í desember miðuðust kostnaðarforsendur við að útgreiðslur hæfust í júní á þessu ári. Uppfært mat sem samninganefndin kynnti í mars gerði ráð fyrir því að útgreiðslur hæfust í ágúst á þessu ári. Í nýjustu frétt fjármálaráðuneytisins af þrotabúi Landsbankans segir loks að vonir séu bundnar við að útgreiðslur hefjist seint á þessu ári. Mat stjórnvalda á því hvenær útgreiðslur úr búinu hefur því breyst með hverri fréttatilkynningu, en ekki er útséð með hvenær greiðslur hefjast.

Öll hefði þessi frestun útgreiðslna úr búinu leitt til meiri kostnaðar vegna Icesave-III-samningsins heldur en ráðuneytið og matsaðilar höfðu reiknað með.

Bætum nú við smá-upprifun ofangreinds með því að skoða undirfyrirsagnir greinar Þórðar (sem sjálf nefnist Vextir hefðu hlaðist upp):

• Áætlanir gerðu ráð fyrir að útgreiðslur úr búi Landsbankans hæfust í júní • Útgreiðslur ekki hafnar • Hefði síðasti Icesave-samningur verið samþykktur væri kostnaður Íslands orðinn 40 milljarðar króna 

Þjóðin og forsetinn reyndust velja rétt, en Steingrími skjátlaðist enn einu sinni. Samt fór hann fram með rakalausar fullyrðingar í öndverðum þessum mánuði (sjá þessa grein HÉR) og barði sér á brjóst, því að betur hefðu (að hans mati) Íslendingar samþykkt Icesave-III!! Þetta varð reyndar upphaf mikilla yfilýsinga, orðahnippinga og árekstra milli forsetans og ýmissa ráðherra, eins og allir vita, því að herra Ólafur Ragnar lét það ekki viðgangast, að með þessum hætti væri staðreyndum umsnúið og ráðizt um leið á ákvörðun hans og þjóðarinnar í vetur (sbr. hér: Ólafur Ragnar: Rannsaka á hvernig ríki ESB gátu stutt kröfur Breta og Hollendinga, sem hann segir fáránlegar).

Mál þetta mun seint fjara út. Ráðherrar og flokkar hafa enn ekki bitið úr nálinni með það. 

Ný sýndarmennsku-yfirlýsing?

En nú hefur Steingrímur enn á ný gengið fram með yfirlýsingu, sem virðist, í fljótu bragði séð, ætlað að bæta ímynd hans í tengslum við bankamálin, enda virðist ekki vanþörf á, sbr. til dæmis Icesave og nú síðast SpKef-málið, þar sem álitið er, að ríkið hafi tapað 30 milljörðum króna (já, á síðarnefnda málinu! – sjá hér: Landsbanki metur kostnað ríkisins vegna SpKef á 30 milljarða – og að margra mati vegna ákvarðana fjármálaráðherrans).

Hin nýja yfirlýsing Steingríms eða ráðuneytis hans gengur út á, að "beint tjón, vegna þess að Bretar beittu hryðjuverkalögum til að frysta eignir Landsbankans, hafi verið á bilinu tveir til níu milljarðar króna og líklegasta gildið sé um 5,2 milljarðar fyrir fyrirtækin í landinu."

Allt í einu virðist Steingrímur þannig kominn með bein í nefið til að snúa vörn í sókn og krefja Breta um bætur vegna hinnar stórskaðlegu beitingar hryðjuverkalaga þeirra gegn íslenzlum bönkum og lýðveldinu sjálfu ...

En ekki er allt sem sýnist. Í 1. lagi gerði Steingrímur EKKERT í þessu máli í meira en tvö og hálft ár, eftir að hann náði sæti fjármálaráðherra. En í 2. lagi eru þessar tölur hans um skaða Íslands vegna hryðjuverkalaganna sennilega margfalt vanmat. (Að vísu er tekið fram í matinu, að "flest bendi til þess að óbeint tjón sé mun hærra".)

Hér erum við að vísu komin út fyrir Icesave-málið. Þó var ítrekað minnt á það hér á vefsetrinu, bæði af stjórnarmönnum og almennum félagsmönnum Þjóðarheiðurs, að ráðherrum okkar og Alþingi stæði miklu nær að krefja Breta um skaðabætur vegna hryðjuverkalaganna heldur en hitt, að borga þeim eitt einasta penný vegna Icesave-skulda einkabanka.

Þar að auki, með orðum skarpgreinds verkfræðings, sem skrifaði okkur Lofti og öðrum í Þjóðarheiðri í gær: "Skaði Íslands af efnahagsárás Breta sem hófst haustið 2008 nemur þúsundum milljarða, ekki einstöku milljörðum." – Á sama máli er bæði undirritaður og nefndur Loftur Þorsteinsson. Ef við höfum á réttu að standa, skuldar fjármálaráðherrann þjóðinni skýringar á þessu frumhlaupi sínu.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Milljarða tjón vegna hryðjuverkalaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hún sagði það! - Hver? - Hún Álfheiður! - Hvað? - „Forsetinn á að fara á þing!“

Og þetta er sami forsetinn og mælti svo skörulega í sjónvarpsviðtali í gær um Icesave-gloríur innlendra og (sjá HÉR!) erlendra ráðamanna. Lítum nú á orð forsetans sem hann beindi á þeim ráðamönnum hér sem ábyrgir voru. Byrjum rólega, haltu þér, Steingrímur, já og þið, Álfheiður og Jóhanna.

Forsetinn taldi, að skynsamlegra hefði verið að bíða þess, að þrotabú Landsbankans yrði gert upp, heldur en hitt að „fallast á fáránlegar kröfur Breta og Hollendinga um að íslenzk þjóð gengist í ábyrgð fyrir Icesave-skuldinni“.

Og svo sagði hann fleiri sannleiksorð:

  • „Það var ekki gert heldur var bara látið undan þessum þrýstingi. Menn beygðu sig fyrir þessu ofbeldi af hálfu Evrópuþjóðanna og samþykktu fyrst samning sem var svo óheyrilegur að ekki aðeins hrópaði íslenska þjóðin hann af heldur hlupu Bretar og Hollendingar frá honum strax nokkrum mánuðum eftir að ákveðið var að setja á þessa þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Hér var það ekki barnið, sem sagði sannleikann um keisarann, heldur forsetinn sem sagði sannleikann um afglöp þeirra sem hann fól stjórnartaumana eftir hálfgert byltingarástand í landinu. Eins og segir í leiðara Morgunblaðsins í dag:

  • Það er vissulega sérstætt og orkar tvímælis þegar þjóðhöfðingi, sem er ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum, setur svo harkalega ofan í við réttkjörin stjórnvöld landsins. En forsetanum er nokkur vorkunn þegar fjölmiðlar lepja afkáralegar útleggingar fjármálaráðherrans athugasemdalaust upp og aðrir réttbærir aðilar verða ekki til að grípa til andsvara eða fá ekki tækifæri til þess. 

Þarna er í leiðaranum vísað til nýlegrar viðleitni Steingríms til að snúa sannleikanum um Icesave á hvolf í sjónvarpinu fyrir helgina. Meira þungaviktarefni er um málið í leiðaranum.

En lesið fréttina á Mbl.is (tengill neðar). 

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Vill forsetann í framboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn maður bjargar með snarræði fullum málskotsrétti forseta frá árás stjórnlagaráðsmanna

Núverandi 26. gr. stjórnarskrár er haldið inni ÓSKERTRI í tillögum þessa "ráðs" vegna þess að einn maður barði í borðið gegn því að felldur yrði niður málskotsréttur forsetans gagnvart lögum um fjárlög og þjóðréttarsamninga við önnur ríki.

Já, vegna einarðrar mótstöðu EINS MANNS var árásinni á málskot til þjóðarinnar hrundið. Nefndur varnarmaður óbreyttrar 26. greinar mætti í þessu mikilli mótstöðu tveggja ESB-dindla, Eiríks Bergmanns Einarssonar og Vilhjálms Þorsteinssonar, auk t.d. Silju Báru, en Þorvaldur Gylfason tók hins vegar máli hans. Þessi maður heitir PÉTUR GUNNLAUGSSON, er lögfræðingur og starfar á Útvarpi Sögu.

Hefði þessi skerðing stjórnlaga-óráðsins verið samþykkt, hefði það með því komið í veg fyrir, að ný Icesave-lög þyrftu að koma til úrskurðar forseta og þjóðarinnar! – Kemur ekki á óvart, ýmsir í “ráðinu” voru opinberir predikarar Icesave-smánarsamninganna; það á t.d. við um Vilhjálm Þorsteinsson, Illuga Jökulsson og Guðmund Gunnarsson úr Rafiðnaðarsambandinu.

Pétur hótaði að greiða atkvæði gegn stjórnarskrárdrögum “stjórnlagaráðsins”, ef 26. greinin yrði skert. Svo fór, að niðurfellingin á heimild forsetans til málskots til þjóðarinnar um viss mál, sú niðurfelling sem fram að því hafði verið ofan á í “ráðinu”, var sjálf FELLD – Pétur hafði þar fullan sigur. Þetta gerðist þar í gærmorgun.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Stjórnlagaráð lýkur störfum í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband