Færsluflokkur: Sjómenn og sjávarútvegur

Það var þá helzt - að við gætum "treyst á Bretland sem bandamann"!

David Lidington, Evrópumálaráðherra Bretlands, virðist gera ráð fyrir því, að óminnishegrinn hafi leikið Íslendinga svo grátt, að við munum ekki ýmsar árásir Breta á lífshagsmuni okkar í meira en öld, þegar hann segir: „Ég vil fullvissa ykkur um að sama hvaða leið þið veljið [að ganga í Evrópusambandið eða standa áfram utan þess], getið þið treyst á Bretland sem bandamann og vin.“ En þessi orð lét hann falla í ræðu sem hann flutti -- greinilega bæði fyrir Bretland og Evrópusambandið -- á opnum umræðufundi í Háskóla Íslands í dag (undirritaður sótti þann fund).

Lidington fjallaði ekki um freklega ásókn Breta í íslenzk fiskimið í byrjun 20. aldar í þessari ræðu sinni, en hefði auðveldlega getað fengið upplýsingar þar um hjá einum í panelumræðu dagsins, Guðna Jóhannessyni sagnfræðingi, sem skrifaði doktorsritgerð sína um landhelgisstríðin.

David Lidington, Evrópuráðherra Bretlands.
  • Ráðherrann lagði áherslu á að Bretland og Ísland ættu samleið í ýmsum málum eins og til dæmis sjávarútvegi. Bæði Íslendingar og Bretar gerðu sér grein fyrir mikilvægi þess að ákvarðanir í þeim efnum væru teknar sem næst þeim sem þær hefðu áhrif á. Þá gerðu Bretar sér grein fyrir því að það skipti Íslendinga máli að tekið væri tillit til sérstöðu þeirra. Bretar hafi fyrir vikið stutt umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið og hvatt sambandið til þess að sýna Íslendingum eins mikinn skilning og hægt væri í samningsafstöðu sinni.
  • „Það þýðir ekki að það þurfi ekki að fara eftir einhverjum reglum en það samrýmist því mati okkar á Evrópusambandinu að þær reglur ættu að þjóna þeim tilgangi að stýra skilvirkum innri markaði en ekki kæfa niður framtaksemi og staðbundna hagsmuni eins og raunin virðist hafa verið til þessa,“ sagði Lidington. Finna þyrfti jafnvægið á milli frekari samruna innan sambandsins og sveigjanleika og þar væru Ísland og Bretland í sama liði.

Það er eitthvað nýtt, að Ísland og Bretland séu "í sama liði" í þessum efnum! Öll okkar langhelgisstríð háðum við við Bretland, sem barðist til dæmis svo harkalega gegn einkarétti okkar á fiskimiðunum innan 50 og 200 mílna, að það sendi hingað vígdreka sína; m.a. tóku 22 brezkar freigátur þátt í síðasta þorskastríðinu 1975-1976, og að minnsta kosti 54 árekstrar áttu sér þá stað við varðskip okkar, eins og lesa má um í bók dr. Guðna Th. Jóhannessonar, Þorskastríðin þrjú, Rvík 2006 (Hafréttarstofnun Íslands).

Eftir fullan sigur okkar yfir gamla heimsveldinu Bretlandi í landhelgismálunum gætti lengi óvildar í okkar garð þar í landi, m.a. í sjávarbyggðum, enda misstu þar margir atvinnuna. Þegar bankakreppan reið yfir og Icesave-málið komst á skrið, mátti víða á brezkum vefsíðum sjá uppblossaða reiði, hefnigirni og heitstrengingar vegna þroskastríðanna, þar sem brezka ljónið varð að hörfa með skottið á milli lappanna.

En Icsave-málið sjálft varð endurnýjað árásartilfelli Breta á hendur okkur. Ekki nægði brezku stjórninni minna en hryðjuverkalög gegn Íslandi, sem komu landinu í mikil vandræði og áttu að verða okkur til áfellisdóms í augum heimsbyggðarinnar, heldur hóf ríkisstjórn Gordons Brown árás á okkur með ólögvörðum milljarðahundraða-fjárkröfum á hendur ríkissjóði Íslands. Alger ósigur Breta í því kröfumáli blasti við, þegar EFTA-dómstóllinn kvað upp sinn dómsúrskurð í febrúar síðastliðnum, en ekki fyrr en brezkum stjórnvöldum hafði tekizt að skekja hér allt samfélagið árum saman með sínum ólögmætu kröfum og þrengt svo að stjórnvöldum hér í krafti þeirrar lögleysu, að hinir aumustu í stjórnmálastétt Íslands létu undan ásókninni. Það var ekki fyrr en eftir frækilegar varnir grasrótarhreyfinga, herra Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta landsins, og öfluga mótspyrnu mikils meirihluta kjósenda, sem stjórnvöld hér fóru að gefa því gaum, að það rétta fyrir þau væri einfaldlega að verjast á grundvelli laganna og byrja a.m.k. á slíkri aðgerð fyrir EFTA-dómstólnum. Niðurstaðan varð einmitt sú sem þjóðhollustu menn og gleggstu á texta laganna höfðu sagt fyrir: að réttur okkar yrði sannaður og varinn í slíku dómsmáli.

En það var svo sannarlega ekki Bretum að þakka og heldur ekki Evrópusambandinu, sem gerðist aðili að dómsmálinu fyrir EFTA-réttinum gegn hagsmunum Íslands!

Þegar þessi Evrópumálaráðherra Breta býður nú Ísland "hjartanlega velkomið" í Evrópusambandið og segir Bretland munu styðja inngöngu lands okkar, þá er í hæsta máta eðlilegt og tímabært, að Íslendingar rifji upp hina gömlu samskiptasögu og hvort við höfum nokkurn tímann getað gengið að stuðningi brezka ríkisins við lífshagsmuni okkar vísum. Dómur sögunnar svíkur engan þrátt fyrir viðleitni erlendra sendimanna. Við getum ennfremur verið viss um, að Bretar hyggja einmitt á að komast yfir að gramsa í íslenzkum fiskistofnum í stórum stíl og bæta sér margfaldlega allt tap sitt af því að glata einokun sinni í eigin landhelgi í Norðursjó við ESB-inngönguna, þ.e.a.s. ef þeim og öðrum miður vinsamlegum tekst að narra okkur inn í Evrópusambandið. (Þetta allra síðasta hér skrifar undirritaður í eigin nafni, ekki Þjóðarheiðurs, sem tekur ekki afstöðu til ESB nema að því leyti sem það hefur beitt sér gegn okkur í Icesave-málinu.)

Jón Valur Jensson.


mbl.is „Getið treyst á Bretland sem bandamann“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Daníel Sigurðsson: Af hverju nei við Icesave?

Af hverju nei við Icesave?

 

Hávær kórinn í kringum Icesave I og II að okkur beri lagaleg skylda að greiða kröfur Breta og Hollendinga er nú þagnaður, en áfram klifað á meintri siðferðilegri skyldu okkar gagnvart „alþjóðasamfélaginu“ („félagi“ sem nú er í „trúboði“ yfir Líbíu með fulltingi klerkastjórnarinnar í Íran).
 

Eftir að íslenskir bankar tóku að dansa með á peningamörkuðum „félagsins“, sem eðalkratinn Jón Baldvin gerði kleift með EES-samningnum, lauk íslenska samkvæmisdansinum sviplega þegar risabankinn Lehman Brothers féll af sviðinu og tók Landsbankann og Kaupþing með sér með aðstoð terrorkratanna Browns og Darlings sem stóðu vaktina. Linntu þeir ekki látum fyrr en íslensk orðspor höfðu verið skrúbbuð burt af sviðinu.

Skyndilega birtist svo refurinn Darling í drottningarviðtali í Kastljósi á dögunum þar sem hann leit út eins og sauðmeinlaus enskur prestur hjá Sigrúnu Davíðsdóttur, sem þreifaði á dólgnum með silkihönskum í boði RÚV. Í þessu langa hjali var ekki tekist á um kjarna málsins: Efnahagsstríð Breta gegn Íslendingum með al-Qaeda-hryðjuverkalögunum, sem hafa valdið Íslendingum gífurlegum skaða. Þetta voru þakkirnar fyrir það að með íslensku neyðarlögunum færast Icesave-innistæðurnar úr almennum kröfum í forgangskröfur á silfurfati, en ella stæðu Bretar frammi fyrir því að fá nánast ekkert úr þrotabúinu upp í tapaðar innistæðurnar!

Nei, sólin mun ekki hætta að koma upp þó svo að vér mörlandar neitum að kaupa okkur stundarfrið frá breskum alþjóðalögbrjótum.

Við hljótum að sópa öllum falsrökum fyrir borð eins og þeim að með Icesave III séu Íslendingar komnir með samning samsvarandi þeim sem bundu enda á þorskastríðin við Breta. Þessi sögutúlkun er blekking. Þetta voru uppgjafarsamningar sem gáfu þessu fyrrum stórveldi kost á að bjarga andlitinu, í niðurlægjandi ósigri fyrir Íslendingum í öll þrjú skiptin frá fjórum sjómílum upp í 200, sem fólst í því að leyfa þeim að dorga smávegis um tíma í lögsögu Íslands.

Icesave-samningurinn er með öfugum formerkjum. Hann tryggir B&H fullan sigur en ekki öfugt. Íslendingar fá sem „andlitsbjörgun“ skárri vexti en með Hitchcock-hrollvekjunni Icesave II, en þó aðeins fram til ársins 2016. Minni hrollvekjan Icesave III felur í sér að íslenska ríkið ber fulla ábyrgð á kröfunni auk vaxta og lögsagan flyst frá Íslandi til B&H.

Ósigur Íslendinga blasir við ef Icesave III verður samþykktur. En það er ekki við samninganefnd Lees Buchheit að sakast, sem vann í umboði ríkisstjórnar sem leynt og ljóst var gengin til liðs við málstað andstæðingsins!

Þessi ólögvarði samningur dregur dám af hinum illræmda Versalasamningi sem þröngvað var upp á Þjóðverja eftir fyrri heimsstyrjöldina og kostaði nýja. Í fyrra voru Þjóðverjar að greiða Englandsbanka síðustu greiðsluna 91 ári eftir undirritun og jafngildir heildargreiðslan skipsförmum af gulli. Samt áttu Þjóðverjar síst meiri sök á stríðinu en sigurvegararnir.

Icesave-krafan slagar upp í hundruð milljarða ríkismarka kröfu Versalasamningsins miðað við höfðatölu. Því er ekki að undra að Icesave III gildi til ársins 2046!

Í þorskastríðunum hafði Ísland „alþjóðasamfélagið“ á móti sér í byrjun í öll skiptin. En Ísland vann áróðursstríðin hægt og bítandi með stjórnmálamenn í brúnni sem hvikuðu hvergi enda með einarða þjóð að baki sér. Sigurinn er þó, að öllum ólöstuðum, fyrst og fremst að þakka lífshættulegum aðgerðum hugrakkra áhafna varðskipanna gegn bresku togurunum sem voru undir herskipavernd Breta sem reyndu að sigla niður varðskipin.

Í hildarleiknum um 50 og 200 sjómílurnar réðu hinar frægu togvíraklippur Íslendinga verulegu um úrslitin. Við þessu vopni áttu Bretar ekkert svar nema fallbyssur sem þeir gátu ekki réttlætt gagnvart umheiminum að beita, ekki frekar en Kaninn kjarnorkuvopnum í Víetnamstríðinu.

Frammistaða Íslendinga vakti aðdáun umheimsins en ekki öfugt. Það sama mun gerast nú ef við segjum nei.

Ég þekki umræðuna í Þýskalandi og Þjóðverja mjög vel, enda hef ég búið og starfað í Þýskalandi samtals meira en sjö ár, síðast fjóra mánuði í fyrra. Nei mun vekja mikla aðdáun Þjóðverja nema kannski sumra býrókratanna.

Íslendingar hafa hægt og bítandi verið að ná vopnum sínum og vinna áróðursstríðið.

Á erlendum vettvangi hefur forsetinn verið drjúgur. Hann mun varla liggja á liði sínu ef þjóðin segir nei. Nær hálf þjóðin ber mikið traust til hans nú skv. könnun en ekki nema um 17% til forsætisráðherra og er það ekki að undra.

Stóru bresku fjölmiðlarnir (F.T. og W.S.J.) standa nú með Íslendingum gegn Icesave!

Ef við reynumst mýs en ekki menn og segjum  munu peningamógúlarnir bresku ekki slaka á kverkatakinu fyrr en síðasta pundið er greitt.

Heimtur úr þrotabúinu eru óskrifað blað og gengi krónunnar þarf ekki að falla mikið til að risavaxinn höfuðstóll kröfunnar rjúki upp.

Ekki er að furða að B&H afþökkuðu eingreiðslutilboð upp á um 50 milljarða. Þeir vita sem er að eftir margfalt hærri upphæð er að slægjast.

Með nei er gjaldeyrisáhættan úr sögunni og dómstólaleið breytir engu þar um.

Með nei er allt að vinna en engu að tapa.

 

Höfundur er véltæknifræðingur.

Greinin birtist í Mbl. mánudag 4. þ.m. og er endurbirt hér með góðfúslegu leyfi höfundar. 


Sjómenn eiga líka kosningarrétt!

Sjómönnum, 500 til 1000 manns, er gróflega mismunað af landskjörstjórn í væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave. Það er ekki nóg að hugsa um Íslendinga erlendis, heldur ber að virða rétt allra í þessu máli – líka þeirra sem eru nýfarnir í 30 daga túr út á sjó!

Lesið merkilega og hneykslanlega frétt í Fréttabl. í gærFá ekki að kjósa um Icesave, en þar segir svo:
  • Sjómenn á þeim frystitogurum sem fóru til veiða í vikunni, ná ekki í land til þess að kjósa um Icesave-lögin. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefst ekki fyrr en 16. mars og kosið verður um lögin 9. apríl. Frystitogarar eru flestir um 30 daga á sjó 
  • Okkur finnst þetta orðið svolítið hart þegar við sem erum í 30 daga túrum eigum ekki kost á því að kjósa,“ segir [Bergþór ... á ...]. „Þetta var eins í stjórnlagaþingskosningunum, þar sem þetta var allt of stuttur tími.“ 
  • Bergþór segir að fjöldi þeirra sjómanna sem ekki ná að kjósa um Icesave vegna þess að þeir eru til sjós, sé á bilinu 500 til 1.000 manns.
  • „Þetta er mikill fjöldi sem hefur ekki tækifæri til að nýta lýðræðislegan rétt sinn með því að kjósa,“ segir hann. Á Hrafni GK 111 eru 26 manns í áhöfn. Bergþór segir mikla óánægju ríkja meðal áhafnarinnar vegna málsins . Hann hafi sent athugasemdir til ráðuneytisins og umboðsmanns Alþingis, en ekki fengið nein haldbær svör. 
  • „Í venjulegum kosningum hefur fresturinn verið það langur að þó við séum 30 daga úti, þá náum við samt að kjósa,“ segir hann. - sv  (Fréttinni lýkur.)

Þetta er mikið réttlætismál fyrir íslenzka sjómenn. Stjórn Þjóðarheiðurs krefst þess, að þeim verði gert kleift að kjósa eins og öðrum borgurum landsins.

Einn maður: eitt atkvæði – það á líka við hér!

JVJ skráði. 


mbl.is Kosið í sendiráðum ytra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband