Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

S K J A L D B O R G I N

Vissir frambjóðendur höfðu hana á vörunum fyrir kosningarnar. Að sögn ræðumanna á útifundinum á Austurvelli sl. laugardag voru efndirnar talsvert lakari en menn höfðu búizt við. Tólf skjaldberar sýna hér á MYNDBANDI verstu birtingarmyndir nýs stjórnmálaástands og gagnrýna, að þetta hafi raun orðið a.m.k. hluti af þeirri "skjaldborg" sem ríkisstjórnin stendur að eða lætur viðgangast gagnvart þjóðinni.

Þórarinn Einarsson, virkur mótmælandi á mörgum útifundum á Austurvelli og m.a. félagi í Þjóðarheiðri – samtökum gegn Icesave, er hér í viðtali, og þarna má sjá skjaldberana tólf, en meðal þeirra er stjórnarmaður í samtökum okkar, Theódór Norðkvist, sem ber einn skjaldanna þar sem stendur í röð: GJALDÞROT, ICESAVE og NAUÐUNG. – Smellið á örina á myndbandinu!

Við munum ekki láta deigan síga í mótmælunum og erum sjálf með okkar eigin mótmælaspjöld uppi við á hverjum laugardagsfundi á Austurvelli nú og framvegis, þar til fullur sigur Íslendinga í Icesave-málinu er unninn.

JVJ. 


Steingrímur tjaldar sínum Pótemkíntjöldum

Steingrímur segir ráðamenn hér telja sig hafa „fullnægjandi“ stuðning „áhrifamikilla aðila“ í AGS við næstu endurskoðun efnahagsáætlunar sjóðsins, en forðast eins og heitan eldinn að nefna Bandaríkin á nafn. Hann er sem fyrri daginn uppfullur af orðum – hver man ekki eftir ferð hans til Istanbúl? – og nú er enn verið að dreifa sínu bjartsýnishjali sama dag og Dominique Strauss-Kahn viðrar óbeinar hótanir fyrir hönd áhrifamikilla ríkisstjórna sem eiga fulltrúa í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og eru reiðubúnar að nota AGS sem tæki í fjárkúgunarviðleitni sinni gagnvart Íslendingum.

En í stað þess að standa í lappirnar og mótmæla þessum yfirgangi gegn lýðveldi okkar, sem var eitt af stofnríkjum AGS og á fullan rétt á óvilhallri málsmeðferð þar og stuðningi sjóðsins, þá heldur Steingrímur áfram örvæntingarfullum tilraunum til að láta hlutina líta vel út á yfirborðinu. „Þetta er ekki þannig að við göngum um með einhver loforð upp á vasann,“ segir hann til dæmis – og: „En við höfum verið að skoða hvernig landið liggur" o.s.frv. o.s.frv.

Í stað þess, sem eðlilegt væri, að tala með tveimur hrútshornum við ríkisstjórnir sem hér mátti afhjúpa í lágkúrulegri viðleitni þeirra til að berja okkur undir beltisstað til hlýðni við ólögmætar kröfur þeirra, þá heldur Steingrímur áfram sínum hræðslugæðum gagnvart brezkum og hollenzkum stjórnvöldum! Í stað þess að segja eitthvað bitastætt, sem töggur og hald er í, segir hann það eitt, að ráðamenn hér séu „bærilega bjartsýnir á að það séu a.m.k. alger minnihlutaviðhorf ef menn reyna að andæfa því að endurskoðunin fari fram."

Þetta hefði Lenín þótt slappt, herra Steingrímur, og kallað Pótemkíntjöld valdamanna sem eiga ekki lengur yfir vopnabúri að ráða eða kunna ekki með það að fara.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is „Bærilega bjartsýnir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Matsfyrirtæki með móðgandi afskipti af Icesave-málinu!

Því fer sannarlega fjarri, að Icesave-samkomulag muni hugnast Íslendingum, þó að eitthvert matsfyrirtæki, Standard & Poor's, telji "líklegt" að báðum aðilum muni hugnast samkomulag og að það náist á þessu ári. En lesið þessa svívirðu: "Við teljum að enginn samningsaðila vilji að samningar mistakist"!!! – Greinilega telja þeir íslenzku þjóðina ekki samningsaðila, og samt er það hún, sem sameinaðir Icesave-greiðslukröfusinnar heimsins ætlast til að borgi fyrir það, sem hún átti engan þátt í með neinum hætti.

Eyðum ekki frekari tíma í að lesa boðskapinn frá þeim, sem með svo lágkúrulegum hætti taka afstöðu með ólögvörðum kröfum gamalla nýlenduvelda. Þeim væri nær að gagnrýna það stílbrot í fjármálalífi heimsins, sem fólst í því, þegar Strauss-Kahn bergmálaði fjárkúgunaróskir brezkra og hollenzkra stjórnvalda, eins og neðanskráður höf. þessara lína ritaði um í dag.

En í kvöld verður haldinn félagsfundur í Þjóðarheiðri – samtökum gegn Icesave, að Höfðatúni 12, og ýmislegt á dagskránni. Eins mánaðar og sex daga gömul eiga samtökin nú á 70 félagsmönnum að skipa. Fundurinn hefst kl. 20.15. Höfðatún 12 er rétt fyrir neðan hornið á austurenda Skúlagötu (rétt fyrir neðan gömlu Mjólkurstöðina, nú Þjóðskjalasafn). Inngangur (sem snýr beint að Fíladelfíu) frá Höfðatúni. Kaffiveitingar.

Jón Valur Jensson 


mbl.is Telja líklegt að Icesave-samningar náist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orðsending til Íslendinga

Bloggsíða Þjóðarheiðurs – samtaka gegn Icescave er svo ný, að hún var ekki komin til sögunnar þegar við sendum frá okkur þá orðsendingu, sem hér er full ástæða til að ítreka:
  • Þjóðarheiður – samtök gegn Icesave óskar Íslendingum til hamingju með úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar.
  1. Þau úrslit, þar sem 98,1% þeirra, sem tóku afstöðu, sögðu NEI við Icesave-lögunum frá 30. desember, eru merkur atburður í sögu þjóðarinnar. Því ber að fagna að svo afgerandi meirihluti lét andstöðu sína í ljós. Það er mikilvægur áfangi í varnarbaráttu almennings gegn yfirgangi erlendra ríkja. Um leið og samtökin gleðjast yfir staðfestu meirihluta þjóðarinnar, fordæma þau stjórnvöld fyrir linkind gagnvart erlendri ásælni. Ríkisstjórnin hefur gerst sek um þau afglöp að láta undir höfuð leggjast að tala máli okkar, og hún hefur ekki komið þjóðinni til varnar gegn kúgun annarra ríkja.
  2. Þjóðaratkvæðagreiðslan var nýtt upphaf að baráttu meirihluta Íslendinga fyrir algerri höfnun á kröfum Bretlands og Hollands. Þessi árangur hefði ekki náðst án baráttu hins þögla meirihluta, sem sýndi styrk sinn á þessum merka degi, 6. marz 2010.
  3. Réttur almennings til að hafna ólögmætum álögum hefur nú verið staðfestur. Þrautseig þjóð, sem stendur bjargföst á lagalegum grundvallaratriðum og heldur þeim fram af rökvísi, verður ekki sigruð. Jón Sigurðsson forseti hefði verið hreykinn af þjóð sinni á þessum tímamótum.
  4. Sérstakar þakkir hlýtur forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, sem sannaði að fullveldi þjóðarinnar er í höndum hennar sjálfrar og kom í veg fyrir að Ísland yrði gert að skattlandi tveggja gamalla nýlenduvelda. Með þjóðaratkvæðinu var stjórnarskrá lýðveldisins heiðruð. Framvegis þarf að koma í veg fyrir að ólýðræðislegu þingræði verði flaggað sem eðlilegu stjórnarfari á Íslandi. Lýðræðið á sér þann grundvöll að fullveldið er hjá þjóðinni. Það mun ekki verða látið af hendi.
  5. Þjóðarheiður hafnar alfarið gjaldskyldu ríkisins vegna Icesave-reikninga Landsbankans. Þar skiptir engu hve langt ráðamenn okkar voru reiðubúnir að ganga (þvert á móti ákvæðum stjórnarskrárinnar!) til að láta ríkissjóð borga gríðarlegar fjárfúlgur vegna máls þessa á fyrri stigum þess, undir óbilgjörnum þrýstingi frá ríkjum sem notuðu sér neyð landsins til að beygja ráðamenn okkar til hlýðni.
  6. Nú skiptir mestu að hvika hvergi frá rétti okkar og lagalegri stöðu. Samtökin Þjóðarheiður standa eitilhörð gegn öllum samningaumleitunum við Breta og Hollendinga vegna hinnar ólögvörðu kröfu þeirra að veitt verði ríkisábyrgð vegna erlendra skulda banka í einkaeigu.
  7. Allar samningaviðræður ríkisins við Bretland og Holland eru misráðnar og hafa leitt til langvarandi deilna og reiptogs sem hefur sett Alþingi Íslendinga í gíslingu, á sama tíma og fjölskyldur og atvinnuvegir glíma við mestu efnahagskreppu síðari áratuga.
  8. Samkvæmt skoðanakönnun, sem MMR gerði og var birt 8. marz, telja um 60% landsmanna að Íslendingum beri alls ekki að ábyrgjast kröfur Bretlands og Hollands. Heilbrigð skynsemi segir okkur að almenningur í þessu landi hafi engar skyldur til að greiða himinháar kröfur frá ríkissjóðum 250 sinnum stærri þjóða. Það eru tryggingasjóðir og bankar í þessum löndum sem bera ábyrgð á umræddum kostnaði með iðgjöldum sínum. Kröfugerð Bretlands og Hollands á okkar hendur er hrein fjárkúgun.
  9. Lög nr. 96 frá 28. ágúst 2009 gefa Bretum og Hollendingum færi á því að skuldsetja lýðveldið vegna Icesave með því að þeir fallist á þá fyrirvara sem settir eru í lögunum. Því er brýnt að umrædd lög verði felld úr gildi. Ríkisábyrgð á Icesave-skuld Landsbankans samræmist hvorki stjórnarskrá, evrópskum lögum, þjóðarhag né almennu réttlæti. Þjóðarheiður krefst þess að lög nr. 96/2009 verði afnumin og Alþingi fari þannig að þjóðarvilja.

Ofangreind orðsending, samþykkt miðvikudaginn 10. marz 2010, var send öllum helztu fjölmiðlum. Hún reyndist vera þögguð niður nánast kerfisbundið, jafnvel í markvissari mæli en átti sér stað um yfirlýsingu um málstað Íslands frá sömu samtökum.

Við hvetjum fólk til að lesa aðrar nýlegar greinar hér:


Hartnær 60% aðspurðra segja: Við viðurkennum alls enga ábyrgð Íslendinga á Icesave-greiðslum til Bretlands og Hollands!

Þótt það sé gömul frétt, er vert að það geymist á vefsíðu Þjóðarheiðurs – samtaka gegn Icesave, hvernig skoðanakönnun MMR staðfesti hinn mikla straum Íslendinga frá Icesave-stefnu ráðamanna, sem þjóðaratkvæðagreiðslan bar einnig svo skýrt vitni um.

  • Tæp 60% þeirra sem tóku þátt í könnun MMR um hvort Íslendingum beri að greiða Icesave-skuldbindingar segja að Íslendingum beri alls ekki að ábyrgjast greiðslur til innstæðueigenda í Bretlandi og Hollandi,

segir hér í frétt Mbl.is.

Nánar tiltekið sögðu 59,4% aðspurðra, að Íslendingar ættu alls ekki að ábyrgjast greiðslur til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands (Icesave) í Bretlandi og Hollandi. 37,3% sögðu, að Íslendingar ættu að ábyrgjast greiðslurnar að hluta til, og 3,3% sögðu, að Íslendingar ættu að ábyrgjast greiðslur til innstæðueigendanna að fullu.

Landsbyggðarmenn eru heldur andvígari (60,4% segja, að Íslendingum beri alls ekki að ábyrgjast greiðslurnar) heldur en fólk á höfuðborgarsvæðinu (58,8%).

Konur eru talsvert andvígari (61,6%) öllum Icesave-greiðslum heldur en karlar (57,4%).

Ungt fólk er andvígara Icesave en það eldra, og fólk með lágar tekjur er miklu andvígara (68%) öllum Icesave-greiðslum heldur en fólk með meiri tekjur.

Nánar má lesa um alla könnunina á vefsíðu MMR (Markaðs- og miðlarannsóknir, Market and Media Research, nefnist fyrirtækið, Laugavegi 174, Reykjavík, mmr@mmr.is, www.mmr.is), sjá HÉR í pdf-skjali um þessa sérstöku rannsókn, sem fram fór 3.-5. marz 2010 og birt var 8. marz, svarfjöldi: 932 einstaklingar.

Svo vill til, að Þjóðarheiður – samtök gegn Icesave, sem 67 manns tilheyra nú, eru helztu baráttusamtökin fyrir þeirri stefnu, sem meirihluti þjóðarinnar virðist aðhyllast í þessu máli, sjá t.d. hér: Yfirlýsing um málstað Íslands. Sorgleg er sú staðreynd, að ENGINN ÞINGFLOKKANNA hefur þessa einörðu afstöðu í málinu.

Jón Valur Jensson.  


Indriði H. Þorláksson veldur uppnámi í VG með ásökunum og Icesave-fordómum í Smugugrein sem síðan er dregin til baka!

Ýmsir líta á þetta sem leið Steingríms J. til að "senda Ögmundi Jónassyni tóninn í gegnum aðstoðarmann sinn." Ólafur Arnarson segir á Pressunni: "Titringurinn, sem greinin olli innan VG, hlýtur að hafa mælst á jarðskjálftamælum við Fimmvörðuháls." Grein Ólafs er afar fróðleg og nefnist Bullið frá Indriða fjarlægt í bili (smellið og lesið!).

Þjóðarheiður – samtök gegn Icesave eru óflokkspólitísk samtök, og hér munum við ekki velta okkur upp úr innanflokksátökum í Vinstri hreyfingunni – grænum samtökum. Fram hjá hinu verður ekki litið, hvernig greinarskrif Indriða H. opinbera fordóma hans og óbilgjarna stefnu í Icesave-málinu. Hér er ekki um að ræða einhvern óbreyttan flokksmann, því að Indriði var aðalsamningamaður fjármálaráðherrans í fyrstu Icesave-samninganefndinni, maðurinn sem undirritaði þann samning fyrir hönd ráðherrans og sá sem síðan hefur varið það samkomulag ítrekað í fjölmiðlum og beitti sér meira að segja eindregið gegn fyrirvörunum í frumvarpinu breytta í ágúst 2009, sem þó kvað á um, að við Íslendingar ættum að borga það sem okkur ber engin skylda til að borga!

Indriði er þannig lykilmaður í þessu og fleiri málum, ugglaust í sambandi við hina breyttu stefnu VG gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (sbr. HÉR um þveröfuga stefnu Steingríms), og ennfremur hefur hann gengið fram fyrir skjöldu með baráttu fyrir inngöngu Íslands í ESB.

Ólafur Arnarson er hagfræðingur, fjölmiðlamaður og fjármálaráðgjafi. Hann ritaði fyrstu bókina, sem beinlínis var skrifuð um bankahrunið, Sofandi að feigðarósi (JPV útgáfa, apríl 2009), en hún var lengi metsölubók.

Það er því fróðlegt og ekki sízt fyrir lesendur þessarar vefsíðu að sjá svör Ólafs við grein Indriða, sem olli þvílíku fjaðrafoki, að hún hefur síðan verið fjarlægð, "en það sem er einu sinni komið á netið, hverfur ekki svo auðveldlega," eins og Ólafur segir og vísar þannig í grein Indriða, þar sem henni hefur verið borgið fyrir framtíðina til að sjá og býsnast yfir, sem margir gera, þeirra 48 sem áttu þar athugasemdir, meðan Indriði hafði ekki dregið greinina til baka – ugglaust vegna þrýstings í VG.

En áður en við vitnum í Ólaf, lítum fyrst á athugasemd nr. 3 á eftir grein Indriða (sem nefnist 'Baráttan við stórkapitalismann eða hverjum er verið að borga Icesave skuldina?'). Þessi athugasemd er frá sjálfum Ögmundi Jónassyni, sem segir m.a.:

  • "Málflutningur Indriða H. Þorlákssonar gengur út á að sýna fram á að vegna þess að „almúgafólk“ tapaði sparnaði sínum í íslenskum bönkum beri íslenskum skattgreiðendum að borga brúsann. Nú veit ég ekkert hverjir það voru almennt sem settu sparnað sinn í Icesave þótt reyndar vilji svo til að ég þekki til nokkurra slíkra einstaklinga! Þeir hafa fengið sitt borgað en eins og kunnugt er greiddu breska og hollenska ríkið innistæðueigendum [* sjá aths. neðar, jvj] og kröfðu okkur – íslenska skattgreiðendur - svo um endurgreiðslu á vöxtum, svo miklum að leiðangurinn átti að skila arði! Um þetta hefur síðan verið togast í samningaviðræðum. Eftir því sem liðið hefur á þetta ferli hefur fjölgað í þeim hópi heima og heiman sem telja að skattgreiðendum beri ekki að borga með þessum hætti og að við höfum látið gabba okkur í þessu efni auk þess sem við höfum verið beitt þvingunum.
  • Nú síðast lýsti framkvæmdastjóri norska innistæðutryggingasjóðsins yfir þessari skoðun. Það breytir því ekki að við eigum við ramman reip að draga því Bretar og Hollendingar hafa sótt liðstyrk víða og óspart beitt ESB og AGS. Í ljósi þessa höfum við þurft að meta aðstæður og reyna að komast að málamiðlun sem báðir geti unað við ..." 

o.s.frv. – en Ögmundur er, vel að merkja, enn á kafi í málamiðlunum í þessu máli, ólíkt um 60% aðspurðra í nýlegri skoðanakönnun MMR, sem telja, að Íslendingum beri alls ekki að ábyrgjast Icesave-reikningana – en þessi er einmitt afstaða Þjóðarheiðurs, sem þar með fráskilur sig frá stefnu hvers einasta þingflokks á Alþingi í málinu.

En þannig talar Ólafur Arnarson um Icesave-málið í Pressugrein sinni: 

  • Það merkilegasta við grein Indriða, jafnvel þótt ekki séu undanskilin gífuryrði hans um þá, sem ekki hafa viljað kyngja orðalaust þeim hryllingssamningum, sem Svavar Gestsson og Indriði skiluðu þjóðinni um Icesave, er að greinin er bull. Í henni hnýtur hver staðreyndavillan um aðra. Annað hvort þekkir Indriði ekki málið betur, sem er all sérstakt með mann í hans stöðu, eða hann er svona hraðlyginn.
  • Indriði segir að 350 þúsund manns hafi átt 700 milljarða inni á Icesave-reikningum, eða sem nemur 2 milljónum á mann að jafnaði. Þetta sé minna en meðaltalseign Íslendinga inni á banka. Þetta hafi verið sauðsvartur almúgi; gamalmenni, verkafólk og námsmenn. Þarna stendur ekki steinn yfir steini hjá Indriða. Inneign á Icesave-reikningum nam miklu meira en 700 milljörðum króna. 700 milljarðar er aðeins sá hluti, sem hann samdi um að við Íslendingar greiðum.
  • Þá lætur Indriði þess ógetið, að jafnvel börn vita að áhætta af hávaxtareikningum er meiri en af lágvaxtareikningum. Icesave-reikningar Landsbankans voru með hæstu vöxtum bæði í Bretlandi og Hollandi og þeir, sem lögðu fé sitt inn á þá voru með vitað að taka meiri áhættu en þeir þurftu til að fá hærri vexti. Allt tal um ríkisábyrgð er út í hött.
  • Indriði heldur því fram, að íslenskum innistæðueigendum í Landsbankanum hafi verið greiddar sínar innistæður en ekki breskum og hollenskum. Þetta er rangt. Það hefur ekki þurft að borga út neinar innistæður til Íslendinga. Þær voru fluttar yfir í nýja Landsbankann og ekki hefur reynt á hvort greiða þurfi þær út. Breskir og hollenskir innistæðueigendur í Icesave hafa fyrir löngu fengið innistæður sínar greiddar. Icesave-málið snýst um það, hvort íslenskur almúgi greiði háa vexti og taki á sig alla ábyrgð til þess að ríkissjóðir Bretlands og Hollands hagnist verulega á Icesave, eins og Indriði vill.
  • Þar sem Indriði hefur hvað eftir annað grafið undan málstað Íslands í Icesave-málinu með yfirlýsingum við fjölmiðla hérlendis sem erlendis og ávallt fengið óskoraðan stuðning fjármálaráðherrans, er ljóst að Indriði talar fyrir hönd síns yfirboðara.
  • Spurningin, sem eftir stendur, er sú hvort aðstoðarmaðurinn Indriði Þorláksson er dæmi um dómgreindarskort fjármálaráðherra eða eitthvað annað verra?

Án efa verða miklar umræður um greinarskrif Indriða H. Þorlákssonar, svör manna við þeim og uppnámið mikla í VG.

* Það var reyndar Englandsbanki (e.t.v. með aðstoð brezkra banka) – ekki ríkissjóður Bretlands – sem lánaði FSCS (brezka tryggingasjóðnum) til að greiða út lágmarkstrygginguna, sem þar nam allt að 50.000 pundum á hvern einstaklingsreikning. Sú trygging á reyndar öll að fjármagnast með iðgjöldum brezkra banka, iðgjöldum sem þeir hafa þegar greitt í formi skuldabréfa til FSCS, skuldabréfa sem FSCS leysir síðan út í þeim bönkum.  

Jón Valur Jensson. 


"Áður en þjóðaratkvæðagreiðslan varð, var ekkert óskaplega langt á milli aðila"!

Þetta sagði Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, í hádegisfréttum Rúv. ÞAÐ ER NEFNILEGA ÞAÐ! Þjóðin færði okkur lengra frá kröfum Breta, af því að hún kærir sig ekkert um þessa Icesave-samninga eða stefnu stjórnvalda í því máli. Samningsvilji Steingríms og Jóhönnu er ekki vilji þjóðarinnar, þvert á móti. Engu öðru en mótstöðunni hér heima fyrir, synjun forsetans og eindreginni niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar er það að þakka, að gjá hefur myndazt milli "samningsaðila".

Raunar eigum við alls ekki að semja um þetta mál. Samkvæmt skoðanakönnun MMR, sem birt var 8. marz, telja um 60% aðspurðra að Íslendingum beri alls ekki að ábyrgjast kröfur Bretlands og Hollands.

Við í Þjóðarheiðri höfum einnig verið að vekja athygli á því, að brezka ríkið er alls enginn aðili Icesave-málsins í raun og veru! Það er komið í ljós eftir athuganir og upplýsingaöflun, sem meira á eftir að fréttast af hér á vefsíðu samtakanna.

En um þá frétt Mbl.is, 'Bretar jákvæðir í garð Íslands á fundum í London', sem tengill er á hér neðar, skrifar Ólafur Ingi Hrólfsson Moggabloggari: "Hvernig geta þeir verið annað þegar bæði forsætis- og fjármálaráðherra landsins (Íslands) eru í þeirra liði?" – Svo langt hefur þjónkunin við hið erlenda vald og ólögvarðar kröfurnar gengið, að mönnum dettur jafnvel annað eins í hug.

Jón Valur Jensson.

mbl.is Bretar jákvæðir í garð Íslands á fundum í London
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilyrðislaus uppgjöf í Icesave-máli?!

Slæmar eru fréttirnar – enn einu sinni – af Steingrími fjármálaráðherra. Nú segir hann* stjórnvöld "reiðubúin til að halda áfram viðræðum við Breta og Hollendinga um Icesave-málið án nokkurra skilyrða."

Á þetta að vera okkar varnarmaður í markinu?! Hann kastar frá sér þeim skilmálum eða viðmiðum, sem nýjasta viðræðunefndin setti fram í málinu. Nú verður að krefjast þess, að upplýst verði til fulls, hverjir þeir skilmálar voru. Ennfremur þarf að setja pólitískan og almennan þrýsting á þennan fjármálaráðherra, sem er svo ósýnt um að setja brezkum og hollenzkum stjórnvöldum stólinn fyrir dyrnar í gersamlega ólögvarinni kröfugerð þeirra á hendur Íslendingum, kröfugerð sem er ennfremur forsendulaus með öllu og byggð á afgerandi formgalla sem myndi fella hana fyrir hvaða rétti sem er, eins og Loftur Þorsteinsson, varaformaður Þjóðarheiðurs, hefur upplýst í nýjustu Morgunblaðsgrein sinni.

Hitt er Steingrími ótrúlega annt um: að "koma Icesave-viðræðunum aftur af stað," þótt fulltrúar íslenzka ríkisins ættu að hafna því alfarið að ræða við ráðamenn Bretlands og Hollands um málið, umfram allt af því að ekkert þessara þriggja ríkja er í rauninni réttur málsaðili að henni (sjá grein Lofts).

Í Staksteinum Morgunblasins sagði 16. þ.m. frá nýju viðtali við Steingrím J.:

  • Sá segir að erfitt hafi verið að koma viðræðum við Breta og Hollendinga í gang á nýjan leik.
  • Með öðrum orðum þá hafi íslenski fjármálaráðherrann verið að rembast við að koma lífi og þreki í kröfugerðarmenn eftir að íslenska þjóðin vankaði þá með vinki sínu. Það væri óneitanlega æskilegt ef Steingrímur færi að átta sig á í hvaða liði hann eigi að vera.
  • Honum ætti að hafa stórlega létt þegar engin af hrakspám hans rættist í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Nú eru senn liðnir 3 mánuðir frá því lögunum var synjað og ekki ein einasta ógnarspá hans og Jóhönnu hefur ræst. Þvert á móti hafa öll þau merki sem borist hafa í kjölfar hennar verið í jákvæða átt.
  • Er því ekki ágæt hugmynd að láta þessa andstæðinga okkar, Breta og Hollendinga, um að snúa sjálfum sér í gang. Það eru nefnilega ótal úrlausnarefni sem bíða þess að á þeim sé tekið hér á landi. 

Orð að sönnu!

JVJ. 

* Skv. Reuters-frétt frá Kaupmannahöfn og Mbl.is.


mbl.is Setja engin skilyrði fyrir viðræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave-múrinn byrjaður að bresta á Norðurlöndunum

Það er sérdeilis ánægjulegt, að fjárlaganefnd norska þingsins tekur nú af skarið með að veita Íslandi lán óháð niðurstöðu Icesave-deilunnar – og að líklega fylgir Stórþingið því eftir. Þarna hafa þingmenn Kristilega þjóðarflokksins reynzt okkur bezt, bæði í fjárlaganefndinni og almennt, innan þings og utan.

Frétt Mbl.is um þetta mál hljómar afar jákvætt (fyrir utan undarlega setningu í lokin). En það vita það allir Íslendingar, sem vita vilja, að það, að "Ísland standi við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum," felur alls ekki í sér, að íslenzkir skattborgarar eigi að borga tryggingar innistæðna í einkabönkum, sbr. þetta ákvæði í tilskipun Evrópubandalagsins frá 1994 (94/19/EC):

  • Tilskipun þessi getur EKKI gert aðildarríkin eða lögmæt yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa séð um stofnun eða opinbera viðurkenningu eins eða fleiri kerfa [þ.e. tryggingasjóðs] sem ábyrgjast innistæðurnar eða lánastofnanirnar sjálfar og tryggja skaðbætur eða vernd innistæðueigenda samkvæmt skilyrðum sem þessi tilskipun skilgreinir.

Við höfum lögin okkar megin – ekki Gordon Brown og jásystkin hans hér á landi.

Og nú þarf bara að stuðla að því, að meira kvarnist úr Icesave-múrnum á Norðurlöndunum!

JVJ. 


mbl.is Vilja lána óháð Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðarheiður blogg,,,,,,,,,,,,,

Inn á bloggsíður Þjóðarheiðurs kemur efni sem unnið hefur verið af stjórn Þjóðarheiðurs til birtingar. Einnig munu stjórnarmenn eins og Jón Valur og Loftur, svo dæmi séu tekin, verða fengnir til að skrifa inn pistla um Icesave-deiluna.

Þeim félögum í Þjóðarheiðri sem eru annaðhvort með eigið blogg og/eða tölvutengdir er velkomið að koma með athugasemdir og hugmyndir hér inn.

Blogg þetta er enn ein viðbótin við flóruna okkar. Við í stjórn "vinnum nótt sem nýtan dag" við að semja efni til að senda út í þjóðfélagið.

Við eigum orðið fullt af efni og erum að vinna sem stendur að grein sem mun hafa mikil áhrif á Icesave-deiluna þegar hún verður birt.

 

**

Til félagsmanna Þjóðarheiðurs.

1. fréttabréf mun berast félagsmönnum fljótlega.

2. fyrirhugað er að halda fund með félagsmönnum fljótlega.

Heimasíða Þjóðarheiðurs:

http://wix.com/Thjodarheidur/main

 

Þjóðarheiður segir: NEI við Icesave!

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband