Færsluflokkur: Dægurmál

Seðlabankinn tók þátt í Icesave-blekkingaleiknum!

Ívar Páll Jónsson á merkilegan pistil í viðskiptablaði Mbl., vekur athygli á því, að RANGAR "tölur Seðlabankans um erlenda stöðu þjóðarbúsins [voru] ítrekað notaðar til þess að sýna fram á að ríkið gæti auðveldlega tekið á sig Icesave-skuldbindingu Landsbankans.

Í pistlinum, Hentug skekkja hjá Seðlabanka, á forsíðu viðskiptablaðsins í dag, rifjar Ívar Páll fyrst upp, að 5. janúar 2010 skrifaði hann "fréttaskýringu um að Seðlabankinn ofmæti erlenda eign þjóðarbúsins líklega um hundruð milljarða króna. – Ástæðan var einföld: Þessar eignir voru ekki í eigu Íslendinga lengur ... Þetta voru eignir Baugs, Bakkavarar og fleiri fyrirtækja ..."

  • Nú, átján mánuðum seinna, birtir Seðlabankinn sitt ársfjórðungslega yfirlit. Þá hefur hann skyndilega áttað sig á þessari skekkju. Samkvæmt þessu nýja yfirliti er staðan nú neikvæð um 812 milljarða króna, ekki 434 eins og samkvæmt yfirlitinu um síðustu áramót. Útreikningarnir eru afturvirkir, þannig að í ljós kemur að þegar ég skrifaði úttektina var staðan neikvæð um 1.100 milljarða, ekki 534 (!).

Og takið svo eftir þessu í lokin hjá Ívari:

Í millitíðinni voru tölur Seðlabankans um erlenda stöðu þjóðarbúsins ítrekað notaðar til þess að sýna fram á að ríkið gæti auðveldlega tekið á sig Icesave-skuldbindingu Landsbankans.

Augljóst er nú orðið, að blekkingum var beitt í þeirri freklegu viðleitni að koma á okkur Icesave-klafanum. – Sbr. einnig um þetta mál þessa grein hér á eftir í sama blaði í dag: Seðlabankinn lækkar erlenda eign.

En það er ekki ný frétt á þessum bæ (Þjóðarheiðurs), að Seðlabankamenn hafi gerzt þjónar valdsins, valdsherranna í Stjórnarráðinu, í landsfjandsamlegri Icesave-þókknunarstefnu þeirra. Már Guðmundsson sjálfur hefur margoft verið viðfang verðskuldaðrar gagnrýni vegna framgöngu sinnar á því sviði. Það er eitt sem víst er, að ekki munu allar næstu ríkisstjórnir hafa þann mann trónandi yfir Seðlabankanum.

En þeir voru fleiri þar, sem tóku þátt í leiknum. Þannig var undirritaður að fletta í gömum blöðum í gær og rakst þar óvænt á "frétt" í "Fréttablaðinu" 19. marz 2010: "Enn meiri samdráttur í spilunum". Þar var Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur bankans, með enn eina hrakspána í tengslum við Icesave og spáði bæði fjórðungsminnkun fjármunamyndunar og auknu atvinnuleysi, ef ekki væri lengur hægt að gera ráð fyrir "tiltölulega skjótri úrlausn Icesave-mála."

Í ljósi reynsluþekkingar ættu ýmsir að taka pokann sinn vegna vitlausra spádóma og skaðvænlegs hræðsluáróðurs um Icesave. Ábúðarmiklir háskólamenn eins og Gylfi Magnússon og Þórólfur Matthíasson eru þar ekki undanskildir!

Jón Valur Jensson. 


InDefence færði rök gegn lækkun lánshæfiseinkunnar

Um leið og fréttist, að matsfyrirtækið Standard & Poor's hefur í dag "breytt horfum fyrir lánshæfismat bandaríska ríkisins úr stöðugum í neikvæðar" vegna mikilla opinberra skulda og fjárlagahalla, er eðlilegt að við leiðum aftur hugann að því lánshæfismati Moody's, sem forseti Íslands og andstæðingar Icesave III tóku lítið mark á og mörg rök benda til, að lítið hafi verið að marka, enda illa undirbyggt, hripað á 2 bls. eftir skjóta könnun mála; og jafnvel sjálf Icesave-stjórnvöld okkar eru nú farið að snúa við blaðinu í þeim efnum!

Eftirfarandi þáttur úttektar Arnar Arnarsonar í síðasta viðskiptablaði Morgunblaðsins, sl. fimmtudag, er lærdómsríkur:

MÓTRÖKUM HALDIÐ Á LOFTI 

InDefence færir rök gegn lækkun lánshæfiseinkunnar

InDefence-hópurinn sendi í vikunni greinargerð til alþjóðlegra matsfyrirtækja þar sem færð eru rök fyrir þeirri skoðun að ekki sé réttlætanlegt að lækka lánshæfismat ríkissjóðs umfram það sem nú er í kjölfar þess að Icesave-samningnum var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í greinargerðinni er meðal annars bent á að fjármögnunarhorfur ríkisins til lengri tíma litið séu vel viðráðanlegar. Bent er á að skuldbindingar ríkissjóðs utan efnahagsreiknings séu litlar í evrópsku samhengi meðal annars vegna þess að íslenska lífeyrissjóðskerfið sé sjóðssöfnunarkerfi ólíkt því sem tíðkast í mörgum öðrum löndum. Ennfremur er fullyrt að litlar líkur séu á því að ábyrgðir falli á ríkið vegna Landsvirkjunar og Íbúðalánasjóðs á næstu árum. Þá er vísað til nýlegrar skýrslu sérfræðinga Seðlabankans sem sýnir meðal annars að undirliggjandi viðskiptajöfnuður sé um 13% af landsframleiðslu og það ásamt öðrum þáttum sýni að íslenska hagkerfið skapi gjaldeyristekjur í nægjanlegum mæli til að hægt sé að stuðla afnámi gjaldeyrishafta þegar fram í sækir. Þá kemur fram í greinargerð InDefence að þó svo að Icesave-deilan standi óleyst sé gjaldeyrisstaða Seðlabankans traust og nemi um 46% af landsframleiðslu og dugi til að standa straum af öllum erlendum gjalddögum ríkisins fram til ársins 2015. Þá er einnig bent á aðra þætti sem ættu að stuðla að skárra lánshæfismati á borð við sveigjanleika hagkerfisins sem og að endurreistu viðskiptabankarnir séu með hæsta eiginfjárhlutfall sem þekkist á Vesturlöndum og við stofnun þeirra hafi eignasöfnin verið hreinsuð upp. (Tilvitnun lýkur.)

Sbr. einnig fyrri grein hér:  Gallað Icesave-álit - gagnrýni úr ýmsum áttum

JVJ.


mbl.is Neikvæðar horfur fyrir bandaríska lánshæfiseinkunn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gallað Icesave-álit - gagnrýni úr ýmsum áttum

Grein eftir Örn Arnarson í viðskiptablaði Mbl. í gær, Moody's var bent á galla í Icesave-áliti, virðist leiða í ljós, að á harla veikum grunni hafi "ruslflokks"-spá þess matfyrirtækis byggzt, miðað við að hafna Icesave III.

  • Sérfræðingar settu sig í samband við Moody's eftir að álit um áhrif höfnunar Icesave á lánshæfismat ríkissjóðs var birt í febrúar • Bentu á að staðfesting Icesave-samningsins myndi festa gjaldeyrishöft í sessi en ekki flýta fyrir afnámi þeirra eins og Moody's færði rök fyrir 

M.a. hafa GAM Management, IFS-greining og (GAMMA) InDefence-hópurinn sent rökstudda gagnrýni á hið tveggja blaðsíðna mat, sem Moody's gaf út fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna. 

  • InDefence-hópurinn sendi greinargerð til alþjóðlegra matsfyrirtækja þar sem færð eru rök fyrir þeirri skoðun að ekki sé réttlætanlegt að lækka lánshæfismat ríkissjóðs umfram það sem nú er í kjölfar þess að Icesave-samningnum var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu. (Ö.A.)

Þetta er mikil grein eftir Örn, hér er smáhluti hennar sem sýnishorn, en allir sem láta sig þessi mál varða ættu að lesa greinina í blaðinu í gær.

  • Álit Moody's fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna vakti þónokkra athygli og var meðal annars notað til þess að styðja þá skoðun að nauðsynlegt væri að samþykkja samninginn svo að ríkissjóður gæti átt afturkvæmt með skuldabréfaútgáfu á erlendum fjármálamörkuðum. Það vakti ennfremur athygli við álit Moody's að í því var lögð veruleg áhersla á að staðfesting Icesave-samningsins væri nauðsynleg forsenda fyrir því að hægt yrði að afnema gjaldeyrishöft. Þessi skoðun er á öndverðum meiði við það sem kemur fram í yfirgripsmiklum skýrslum fjármálafyrirtækjanna GAM Management, IFS-greiningar auk InDefence-hópsins um áhættuþætti samningsins og voru lagðar fyrir Alþingi á sínum tíma. Í þessum skýrslum kemur efnislega fram að gjaldeyrisáhætta samningsins sé slík að erfitt sé að ímynda sér að hægt sé að afnema gjaldeyrsihöft á meðan að hann er í gildi. Ekki þarf að gefa sér neinar öfgasveiflur á gengi krónunnar til þess að fá út gríðarlegan kostnað við samninginn. Þannig kemur fram í skýrslu GAM Management að endanlegur kostnaður hefði getað farið úr því að vera 44 milljarðar, sé miðað við 2% styrkingu á hverjum ársfjórðungi á samningstímanum, í það verða 155 milljarðar sé miðað við 2% veikingu á tímanum. Þetta miðast við að engar breytingar verði á endurheimtuáætlun skilanefndar Landsbankans. Verði endurheimturnar til að mynda 10% lakari yrði endanlegur kostnaður 212 milljarðar.
  • Af þessum sökum töldu margir sérfræðingar einsýnt að ómögulegt yrði að stíga nein veigamikil skref í átt að afnámi gjaldeyrishafta á meðan Icesave-samningurinn væri í gildi þvert á það sem er sagt í Moody's-álitinu. Í raun má leiða að því líkum að sérfræðingar Seðlabankans hafi einmitt gefið sér það þegar þeir skiluðu inn áliti sínu á áhættu og kostnaði vegna Icesave-samningsins til fjárlaganefndar. Í því er gengið út frá þeirri forsendu við útreikning á endanlegum kostnaði ríkissjóðs vegna samningsins að gengi íslensku krónunnar yrði stöðugt fyrir utan hóflega styrkingu á samningstímanum. Slíkur stöðugleiki hefur ekki einkennt krónuna gegnum tíðina og þar af leiðandi túlkuðu margir álit Seðlabankans á þann veg að bankinn mæltist til þess að áfram yrði stuðst við gjaldeyrishöft. Það kom reyndar á daginn, eins og síðar verður vikið að með útgáfu bankans á áætlun sinni um afnám gjaldeyrishafta, en hún felur það í sér að höftin verða fest í sessi allt að til ársins 2015.

Lesið í blaðinu sjálfu!JVJ.


Mest lesna grein á Vísir.is í gær: Við skuldum Bretum ekki pence! – „talnatrúðurinn“ Tryggvi Þór Herbertsson tekinn á beinið

Daníel Sigurðsson skrifar:

Í þorskastríðunum barðist íslenska þjóðin af mikilli þrautseigju gegn Bretum til verndar ofveiddum fiskimiðum landsins, sem voru að ganga til þurrðar og lífsafkoma þjóðarinnar í húfi.
 
Þó svo að „alþjóðasamfélagið“ hafi verið Íslandi mótdrægt í byrjun í öll þrjú skiptin þá vakti frammistaða smáríkisins aðdáun umheimsins þegar niðurlægjandi ósigur Breta var staðreynd.
 
Það sama mun verða uppá teningnum ef við stöndum fast á rétti okkar nú og látum ekki þröngva uppá okkur tilefnislausum og ólögvörðum kröfum að andvirði margra ára útflutningstekna þjóðarinnar af fiskimiðunum.

Við höfum verið að ná vopnum okkar og vinna áróðursstríðið á erlendum vettvangi eins og þá. Skoðanakannanir sýna að samstöðumáttur þjóðarinnar gegn valdníðslunni fer vaxandi. Margur reynir þó að tala kjarkinn úr þjóðinni í von um að fölsk sektarkennd og hræðsla taki völdin í kjörklefanum.

Allir vita að breskum og hollenskum innistæðueigendum hefur verið bættur skaðinn fyrir löngu. Því vakti það hneykslun að fréttakona útvarps hér á dögunum, lét þess getið að með samþykki Icesave III, sæju líknarfélög í Bretlandi loks fram á að fá innistæður sínar greiddar til baka.

JÁ-kórinn hefur nú áttað sig á því að landinn er orðinn of upplýstur um Icesave til að slagorðin „lagaleg skylda“ og „siðferðileg skylda“ virki sem skyldi. Hann hefur því m.a. gripið til þess ráðs að fá fyrrum efnahagsráðgjafa hrunstjórnarinnar, til að leika trúð fyrir framan alþjóð í þágu málstaðarins, líklega með frækilegan árangur núverandi borgarstjóra í síðustu kosningum í huga.
 
Ég var þeirrar skemmtunar aðnjótandi að heyra hnitmiðaða en stutta jómfrúarræðu þessa „JÁ-trúðs“ í Lögbergi á dögunum sem hljóðaði svo:
„Ég er það praktískur, það pragmatískur, að ég vill [sic] kyngja ælunni og halda áfram, kyngja ælunni og halda áfram... vegna þess að ég trúi því að með því að gera það að þá getum við búið okkur meiri velferð hérna á Íslandi, (heldur) en ef við stöndum stolt, ef við stöndum stolt eins og Bjartur í Sumarhúsum. Það er það sem ég trúi.“
 
Þetta var mjög áhrifaríkt og mér er nær að halda að Laxness hafi snúið sér við í gröfinni þegar þessi orð féllu.
 
Síðast heyrði ég „trúðinn“ búktala í gegnum ritstjóra Fréttablaðsins í leiðara, í leik með stórar tölur ef matsfyrirtækin myndu lækka lánshæfiseinkunn ríkisins niður í ruslflokk. Þessi fyrrum bankastjóri banka sem hann keyrði í þrot, er vissulega alls ekki einn um að hafa afrekað slíkt í kreppunni. En af því að svona gjörningur getur tæplega talist meðmæli fyrir atvinnuspámann í bransanum, þó hann sé bæði gáfaður og oft skemmtilegur, þá finnst manni hann vera að grínast þegar hann tekur upp kristalskúluna þessa dagana.
 
Þessi fyrrum efnahagsráðgjafi á bak við sirkusgrímuna veit náttúrlega að reynslan er sagna best. Það vissi forseti lýðveldisins líka þegar hann minnti svo rækilega á það í síðustu ræðu sinni til þjóðarinnar að hrakspárnar í kringum Icesave I og II hefðu alls ekki ræst, ekki ein einasta!
 
Man þjóðin eftir því þegar Gylfi Magnússon var að „hóta“ Kúbu norðursins og aðrir ráðherrar í svipuðum dúr?
 
Nei, lánshæfiseinkunn ríkisins lækkaði ekki heldur þvert á móti hækkaði eftir að Icesve II var kolfellt og það þótt matsfyrirtæki hafi verið með hótanir um annað, eins og nú vegna þrýstings frá Bretum og jafnvel óbeint frá ríkisstjórn Íslands.
 
Burt með þessar kristalskúlur, staðreyndirnar tala! Nei við Icesave III mun vitaskuld hafa áhrif til hækkunar lánshæfiseinkunnar en ekki öfugt, enda afar langsótt að ætla að lánshæfiseinkunn lækki við það að ríkisábyrgð uppá um 700 milljarða ólögvarða kröfu verði hafnað á laugardaginn!
 
Nei mun vekja aðdáun meirihluta erlendra þjóða.
Ég hef búið og starfað í Þýskalandi fleiri ár, síðast nokkra mánuði í fyrra. Ég fullyrði að NEI mun vekja mikla aðdáun Þjóðverja nema kannski sumra býrókratanna.
 
Landsbankinn fékk ekki starfsleyfi í Bretlandi og Hollandi fyrr en hann hafði keypt rándýrar innistæðutrygging þar í landi. Íslendingar skulda Bretum ekkert!
 
Við brauðfæddum þá með fiskmeti í heila heimsstyrjöld sem tók sinn toll á hafinu milli Íslands og Bretlands. Þeir voru í stríði ekki við, samt misstu Íslendingar hlutfallslega nær jafn marga menn og þeir.
 
Við fall bandaríska risabankans Lehman Brothers, um miðjan sept. 2008, sem setti heimskreppuna í 5. gírinn, hefur það varla hvarflað að bresku ríkisstjórnin að dirfast að beita hryðjuverkalögum á útibú hans í Bretlandi þrátt fyrir gífurlegt útstreymi breskra punda úr landi. Nei, málið var að bankinn var í eigu stóra bróður! 

Gordon Brown ákvað hins vegar nokkru síðar að sýna heimsbyggðinni, en þó ekki síst kjósendum sínum, mátt sinn og megin með því að beita hryðjuverkalögum gegn Íslandi, minnsta bróðurnum í NATO, sem ollu okkur gífurlegum skaða.
 
Þetta voru þakkirnar fyrir það að með íslensku neyðarlögunum færðust Icesave-innistæðurnar úr almennum kröfum í forgangskröfur á silfurfati, en ella stæðu Bretar frammi fyrir því að fá nánast ekkert úr þrotabúinu upp í tapaðar innistæðurnar!
 
Þökkum fyrir samskiptin með því að segja NEI.

Daníel Sigurðsson véltæknifræðingur, félagi í Þjóðarheiðri – samtökum gegn Icesave.

222 Facebókarmenn hafa nú skrifað "líkar þetta" við greinina (Við skuldum Bretum ekki pence!) á Vísir.is. 


mbl.is Hóflega bjartsýn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Falin dagskrá (Hidden Agenda) Breta til að gefa þeim heimild í Icesave III til að ganga að auðlindum þjóðarinnar.

Þegar Icesave gögnin eru skoðuð er ljóst að allir samningarnir gefa ríka ástæðu til að ætla að Bretar, í það minnsta, séu með falda dagskrá sem væntanlega byggist á því að geta kallað fram aðstæður þar sem Íslendingar yrðu samkvæmt samningunum sekir um greiðslufall, sem síðan settu í gang umsvifalausar heimildir Breta til að ganga að aðfararhæfum eignum Íslendinga, þ.m.t. öllum auðlindum þjóðarinnar. Til að gera þessa földu leikfléttu mögulega þurftu Bretar fyrst og fremst að ná  að þvinga fram undirrituðum og skuldbindandi samningi,  sem innihéldi greinar um eftirfarandi:

  1. Samningur sem væri samkvæmt breskum lögum og sem væri aðfararhæfur fyrir breskum dómstólum.
  2. Greinar í samningnum sem gera Bretum auðvelt um vik að kalla fram greiðslufall hjá Íslendingum.
  3. Greinar í samningnum sem gefa Bretum lagalegan rétt til að ganga að öllum eignum Íslands.
     
    Þetta kemur mjög skýrt fram í Svavarssamningum þar sem riftunar- og aðfararkaflarnir í þeim samningum voru með slíkum eindæmum að undrun sætti öllum sem lásu og skildu hvað þeir voru að lesa.
    Íslensku sendinefndinni, undir forsæti Lee Buchheit, tókst að milda þessar klásúlur eitthvað lítillega en það er langt í frá að verkfærin til að framkvæma þessa huldu dagskrá, séu ekki enn fyrir hendi í Icesave III .

Lárus Jónsson.  (Sjá ennfremur Morgunblaðið í gær, 7. apríl, á síðu 16.)


mbl.is 72% segja nei við Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skoðanakönnun um Icesave í NPR!

Tæp 73% hlustenda National Public Radio (NPR) í Bandaríkjunum svara þeirri spurningu neitandi, hvort kjósa eigi með Icesave-lögunum. Eins og Baldur Héðinsson, nýútskrifaður doktor í stærðfræði frá Boston University, segir, er "fróðlegt að sjá hvernig hlutlausir Bandaríkjamenn meta stöðuna sem Íslendingar eru í."

  • „Það er eitt að hlusta á umræðuna á Íslandi og annað að heyra hvernig fólk sem hefur ekki verið í ölduganginum heima líst á kostina. Af því Ísland er svo lítil þjóð þá verða svona tölur oft ógnvænlegar, þetta eru háar fjárhæðir fyrir hvern sem er og sérstaklega fyrir svona litla þjóð. Þannig að það er gaman að sjá hvernig Bandaríkjamenn myndu bregðast við ef þeir væru í sömu sporum og við.“

Baldur stóð sjálfur fyrir þessari hlustendakönnun. Hann veit vel, að þetta er ekkert smámál, þó að hann sé þarna einfaldlega að kanna hver afstaða annarra er.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Kannar afstöðu lesenda til Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samhljóða andstaða Búnaðarþings við ESB-innlimun

Bændastétt nútímans er vel menntuð, einkum í raungreinum, ólíkt því sem halda mætti af skrifum sumra óupplýstra.* Ólafi Stephensen þókknaðist að gefa í skyn í leiðara 7. þ.m. að 92% þeirra hafi tekið afstöðu gegn ESB-innlimum vegna þess að þeir hafi ekki verið búnir að kynna sér málin. Fjarri fer því. M.a. hefur Bændablaðið staðið sig ákaflega vel í því að afla ýtarlegra upplýsinga um reynslu norrænna þjóða, ekki sízt Finna, af verunni í Evrópusambandinu og upplýst um það í ágætum greinum.

  •  „Miklir atvinnuhagsmunir bændastéttarinnar eru í húfi og telur þingið þessum hagsmunum betur borgið utan þess. Hagsmunir og afkoma bænda tengjast ótvírætt hagsmunum íslenskra neytenda og byggðum landsins,“ segir í ályktun Búnaðarþings.

„Búnaðarþing telur að fæðuöryggi þjóðarinnar verði því aðeins tryggt að fullu með því að Ísland standi utan sambandsins,“ segir þar ennfremur, auk þess sem þingið undirstrikar sérstaklega þær varnarlínur, m.ö.o. sjö samningsforsendur, sem eru í huga þingfulltrúanna „lágmarksforsendur til þess að tryggja stöðu íslensk landbúnaðar,“ eins og þar segir.

Réttilega leggja Bændasamtök Íslands á nýafstöðu þingi sínu áherzlu á, að við höldum ákvörðunarvaldinu hér á landi. Í því efni eru þeir í hefð Jóns Sigurðssonar og allra sannra, íslenzkra baráttumanna.

* Menn fá ekki lengur að stofna til búskapar, nema þeir hafi búfræðipróf.

Jón Valur Jensson.
mbl.is Ítreka andstöðu við ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingmenn mega ekki láta kefla sig í umræðunni fyrir þjóðaratkvæðið né láta blekkjast af Lárusi Blöndal

Það er rétt hjá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni að hafa opið á að beita sér gegn Icesave-samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl og vitaskuld óháð því, hvað Siv Friðleifsdóttir gerir, en hún sat hjá þegar greidd voru atkvæði um Icesave-frumvarpið á Alþingi um miðjan mánuðinn. Sigmundur hefur gagnrýnt þversagnir í málflutningi stjónvalda, sagði m.a. í þingumræðunni:

  • "... það kom ekki þessi ísöld sem Samfylkingin talaði um. Þvert á móti telst Ísland núna vera traustari lántakandi en Spánn. Skuldatryggingarálag Íslands hefur lækkað jafnt og þétt frá því að gamla Icesave-samningnum var hafnað."

Nú bíður þessa skarpa manns, Sigmundar Davíðs, það verkefni að vega og meta og leggja dóm á glæfralegan málflutning Lárusar L. Blöndal í Silfri Egils í dag – málflutning sem trúlega hefur átt að slá vopnin úr höndum andstæðinga samningsins, en mun reynast honum sjálfum tvíbent vopn í hendi við að mæla með samningnum, því að þar fór Lárus út fyrir svið sitt sem lögfræðingur, fór að leggja pólitískt mat á hluti eins og gengisþróun o.fl. og leiðrétti ekki rangmæli sín um að lögsagan í málinu héldist íslenzk – en hún yrði undir dómstóli í Hollandi og skv. enskum lögum! (sjá blogg JVJ).

Það versta í þættinum hjá Lárusi var reyndar hræðsluáróður hans um að háar fjárhæðir gætu verið dæmdar á okkur í vöxtum sem öðru, en þær fullyrðingar hans eru í megnri mótsókn við það, sem Reimar Pétursson hrl. hefur upplýst og vitaskuld þá staðreynd, að það eru íslenzkir dómstólar, sem hefðu síðasta orðið í öllum dómsmálum. Þeir munu EKKI dæma á okkur hærri vexti en í íslenzkum málum og EKKI neina vexti fremur en í ýmsum sambærilegum tilfellum og heldur ekki frá upphafs-kröfutíma, heldur trúlega frá dómsuppkvaðningu, ef málin enduðu á annað borð í fébóta-úrskurði (sem er ekki fyrir fram líklegt, jafnvel Lárus hefur góða trú á, að mál ESA falli í EFTA-dómstólnum) og í vaxtakröfu-úrskurði.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Gæti beitt sér í Icesave-deilunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við sláum öll met

Brezkir atvinnurekendur eru að velta vöngum yfir undarlega skrautlegum ferilskrám þeirra sem sækja um störf, en þetta er sízt til að kippa sér upp við fyrir okkur Íslendinga. Við gerum sjónvarpsstjörnur að stjórnarskrárgjöfum, flugfreyju að forsætisráðherra, íþróttafréttamann og jarðfræðing að fjármálaráðherra og örlagasmið þjóðar, en þreyttan, óútskrifaðan Marxisma-lærling úr Austur-Þýzkalandi að ráðherra, sendiherra og helzta samningamanni um alvarlegustu mál, sem hann hefur ekki hundsvit á, og hraðsoðinn BA-heimspeking að hans helzta aðstoðarmanni í því faglega verki hans.

Þá er Icesave-stjórnin með ýmsa kynlega kvisti á sínum snærum, hugsanlega á launum sem "sérfræðinga", t.d. Teit Atlason bloggara. Mér var tjáð, að flestir "sérfræðingarnir" (yfirleitt flokksmenn), sem ráðnir voru í sérverkefni í ráðuneytunum í ársbyrjun 2010, væru með 700.000 kr.+ í mánaðarlaun.

Nú á Icesave-stjórnin ekki annað eftir en að ráða Jóhann blaðamann Hauksson sem sinn helzta ráðgjafa i stjórnarskrármálum, Lilju Skaftadóttur DV-eiganda sem sendiherra í Brussel og Teit Atlason sem blaðurfulltrúa ríkisstjórnarinnar.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Ótrúlegar ferilskrár algengar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er eins gott að þetta sé ekki enn ein spunafréttin

Hvernig getur matvörukeðjan Iceland Foods, sem Landsbankinn gamli á að 2/3 hlutum, greitt út 330 milljónir punda í arð, þegar hagnaður fyrir skatta hjá sama fyrirtæki á síðasta ári nam 110 milljónum punda. Er ekki eitthvað gruggugt við þetta? Það kæmi nú ekki á óvart, að þessi frétt ætti sér uppruna á óvæntum slóðum.

Um aðra nýja frétt, sem einnig virðist spunakennd, fjallar undirritaður hér: Tökum ekki mark á þessu ótrausta lánshæfismati Moody's.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Iceland Foods greiðir út arð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband