Góðs viti, ef Steingrímur snýr við blaðinu

Steingrímur J. í dag: „Aldrei hefur nokkur maður haldið því fram að ríkið beri ábyrgð á Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta." Tilefnið er nýtt lögfræðiálit sem Lilja Mósesdóttir segir að túlka megi svo, að andstæðingar Icesave-samningsins hafi haft rétt fyrir sér.

Hann segir hins vegar „deiluna aldrei hafa snúist um þetta lagalega álitamál," heldur eitthvað allt annað!

Hláleg eru í beinu framhaldi þessi orð hans, takið vel eftir, hvað hann segir:

  • „Ég myndi nú ekki treysta mér til að setja mig í það dómarasæti að einhverjir tilteknir hafi haft rétt fyrir sér og aðrir rangt fyrir sér í flóknu máli af þessu tagi. Þannig orðalag mundi ég nú aldrei nota. Menn hafa mismunandi sjónarmið og leggja mismunandi mat á þessa hluti og færa einhver rök fyrir því eins og gengur en það er nú nálgun í þessu máli sem ég kann illa við að sýna fram á að eitt sjónarmið sé rétt og annað rangt. Við skulum spyrja að leikslokum,“ segir Steingrímur.

Spyrja má: Hvernig gat hann gengið lengra í því að „treysta sér til" að setja sig í dómarasæti um hvað rétt sé í málinu heldur en með þeirri óbilgjörnu stefnu sinni að semja við Breta og Hollendinga og skrifa upp á samkomulag við þá um að borga mörg hundruð milljarða króna í erlendum gjaldeyri* og kalla meira að segja Svavarssamninginn „glæsilegan"? Var hægt að ganga lengra í því að setjast í dómarasæti yfir áliti allra þeirra Íslendinga, sem höfnuðu slíkum samningi eindregið?

En verum ekki að nudda honum lengur upp úr hans eigin orðum og athöfnum. Ef hann er reiðubúinn að láta Íslendinga njóta verðskuldaðrar tillitssemi, bæði í sínu síðbúna svari til ESA og í viðræðum við Breta, þá myndum við í þessum samtökum fagna því. Hikið á honum og efinn eru af hinu góða, miðað við það sem áður var, en það þarf að byggja upp manninn í trausti á málstað okkar, lögvarinn og réttan, og kannski forða honum úr félagsskap sumra samstarfsmanna sinna – Indriða, Svavars og heimspekilærða aðstoðarmannsins, sem allir eru búnir að flækja sig í samsekt með Icesave-greiðslustefnunni sem hentaði svo vel Bretum og Hollendingum.

Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, er líka í þessari frétt og „kveður nefndina alltaf hafa haldið því fram að ríkið beri enga ábyrgð á sjóðnum og segir nefndina hafa mörg lögfræðiálit þess efnis undir höndum." – Hið ágætasta mál, loksins þegar þeir játa þetta báðir!

En svo snýr Guðjartur upp á sig með þeirri aðferð að reyna að skella ábyrgðinni á aðra (leturbr. hér):

  • „Það er alveg klárt að það er engin lagaleg skylda að tryggja innstæður en það eru fullyrðingar stjórnvalda að þau muni gera það með líkum hætti og Geir H. Haarde gaf á sínum tíma. Svo geta menn deilt um hið lagalega gildi slíkra yfirlýsinga,“ segir Guðbjartur, en í minnisblaðinu kemur afdráttarlaust fram að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar hefur ekkert lagalegt gildi og er þannig einungis yfirlýsing um vilja hennar. (Mbl.is – og meiraí þeirri frétt!)

Þetta er málið: Einungis með lögum frá Alþingi, með ríkisábyrgðarákvæðum, er unnt að gefa út slíka bindandi yfirlýsingu, þ.e. gera þá skuldbindingu gilda. Það var ekki fyrir hendi í yfirlýsingu Geirs Haarde. En þrátt fyrir að þetta eru skilyrðin, skal tekið fram, að þau geta því aðeins gilt í þessum sambandi, að greiðsluskylda hafi áður verið þegar fyrir hendi, skv. 77. grein stjórnarskrárinnar, sbr. orð Vigdísar Hauksdóttur, alþm. og lögfræðings, um það mál í þingræðu: að í raun voru Icesave-lögin stjórnarskrárbrot.

* Pétur Blöndal kvíðir því ekki, að málið yrði lagt í dóm, skv. viðtali við hann á útvarpsstöð í morgun, sem undirritaður heyrði vitnað í. Þótt hann væri ekki trúaður á, að við töpuðum því máli, sagði hann, að jafnvel þótt við yrðum þar undir, væri það miklu betri niðurstaða heldur en Icesave-samningar Steingríms, af því að ekki væri hægt að skuldbinda okkur til að greiða í neinu öðru en íslenzkum krónum.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Vopn sem nýta skal í Icesave-baráttunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Komið þið sæl; félagar í Þjóðarheiðri !

Jón Valur !

Ekki; ekki, í eitt mínútubrot, skyldi ég treysta Steingrími til þess, að kúvenda í þessu máli.

Svona klassísk Lenín eftirherma; sem hann, er ekki tvöfaldur í roði - heldur margfaldur. Sama gildir; um þá Indriða og Svavar; vini hans / Geir H. Haarde - Guðbjart Hannesson, að ógleymdum Pétri Sparisjóða bana Blöndal, einnig.

Nei; gott fólk - þó hörðu þurfi að beita, skulum við róa að því, öllum árum, að gera þennan mannskap óskaðlegan (útlægan; af landi hér !!!), hið fyrsta.

Með beztu kveðjum; sem jafnan /

Óskar Helgi 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 27.8.2010 kl. 00:12

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Talaðu friðsamlega, Óskar minn Helgi, á neti Þjóðarheiðurs.

Gott að, að þú baðst þeim ekki verra en að verða gerðir útlægir!

Þetta er þinn smekkur, lagsi, ekki okkar stefna í samtökunum.

Jón Valur Jensson, 27.8.2010 kl. 07:49

3 Smámynd: Elle_

Steingrímur er ótrúlega ósvífinn og það er löngu orðið tímabært að rannsókn fari fram á stórkostlega undarlegum framgangi og valdníðslu ICESAVE-STJÓRNARINNAR í málinu öllu.  Stjórnarandstaðan hefði getað það en er alltof meðvirk og undirgefin.  

Elle_, 27.8.2010 kl. 12:39

4 identicon

Komið þið sæl; á ný !

Jón Valur !

Ég er einungis; að lýsa því, sem býr innra, með flestum landsmanna, svo skýrt komi fram, fornvinur góður.

Með beztu kveðjum; sem þeim fyrri /

Óskar Helgi 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 28.8.2010 kl. 13:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband