Færsluflokkur: Evrópumál

Nýtt innistæðutryggingakerfi?

Það er eðlilegt að verða tímabundið heimskunni að bráð, en að gera hana meðvitað að sínum lífsförunaut, það er óafsakanlegt. Þeim sem fylgst hafa með Icesave-umræðunni er fulljós framganga og heimskudaður "hinnar tæru vinstri stjórnar". Steingrímur Joð kvaðst fullviss um, að vinir hans myndu landa stórkostlegum samningi. Það reyndist mikill miskilningur hjá kallanganum. Síðan hefur margt gerst sem kunnugt er og skal ekki farið nánar út í þá sálma.

Nú stendur til að koma á lögum, sem staðfesta ríkisábyrgð á innistæðutryggingum, en í nýjum drögum að reglum (sem hefur víst ekki enn verið samþykkt hjá ESB) segir m.a.: "geti innlánstofnun ekki greitt út, skal ríkið búa þannig um hnútana, að skjót endurgreiðsla innlána sé tryggð og trú á bankakerfið bíði ekki hnekki". Ríkisstjórninni rennur blóðið til skyldunnar, enda skal allt gert til að þóknast ESB-ríkjunum, í þeirri von að Ísland skuli þvingað þangað inn. Lögunum á að keyra í gegn, jafnvel þótt önnur aðildarríki séu ekki búin að því.

Hin illa þokkuðu systkin Hroki og Heimska eiga sér gott skjól hjá "hinni tæru vinstri stjórn". Þar eru þau daglega vel alin og fituð á veruleikafirringu stjórnarliða. Tekið skal fram, að meðlimir ríkisstjórnarinnar eru ekki illmenni, heldur kjánar. Athyglivert má telja, að verstu harðstjórar sögunnar töluðu allir máli sinnar þjóðar út á við. En hinir íslensku stjórnarherrar? Nei, þau vilja þvinga þjóðina til að borga, helst sem mest, til að komast í ESB. Til hvers? Varla er hægt að segja að smjör drjúpi af hverju strái aðildarríkja þess.

Þjóðin á að krefjast ítarlegrar rannsóknar á framgöngu ríkisstjórnarinnar í Icesave-málinu, þar sem ekkert skal dregið undan. Bent skal á, að leiðtogar sjálfstæðismanna höfðu frumkvæði að stofnun "Rannsóknarnefndar alþingis" til þess að rannsaka verk sinnar ríkisstjórnar. Skyldi "hin tæra vinstri stjórn" státa af eins miklum kjarki og sjálfstæðismenn? Ég er þess fullviss að svo er ekki, enda eru þetta óttaleg lítilmenni. En mér getur skjátlast, "lengi skal manninn reyna".

Jón Ríkharðsson.


Enn ein fjárkúgunin.

Leikur nokkur vafi lengur á því að Bretar og Hollendingar hyggist nota umsókn Íslands að ESB sem fjárkúgunartæki til að þvinga íslenska ríkið til að borga meinta skuld sem engin lagaleg stoð er fyrir? Þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnmálamanna sem tala tveimur tungum, hérlendra sem erlendra, um að ESB-umsóknin og Icesave séu aðskilin mál, kemur enn ein sönnunin um að því fer fjarri.

Theódór Norðkvist. 


mbl.is Beiti ESB í Icesave-deilunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðskiptaráðherrann óttast um líf ríkisstjórnarinnar vegna nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave!

Þetta kemur fram í viðtali hans við austurrískt blað, Der Standard. „Við vonumst til að ná samkomulagi í deilunni eftir að ný ríkisstjórn tekur við völdum í Hollandi," segir Gylfi. „Ég vona að ekki komi til annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu." – Vitaskuld vonar hann það – hann ætti þar ekki á góðu von! – „Ef kjósendur hafna samkomulagi í annað sinn [bætir hann við], væri það slæmt fyrir efnahag landsins [svo?!!!]. Ég veit ekki hvort ríkisstjórnin myndi lifa slíkt af." – Æ, hve sorglegt!

Hann segir „ekki útilokað að ef til annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu komi vegna Icesave-samninga Íslands, Hollands og Bretlands og almenningur hafni slíku samkomulagi séu dagar þessarar ríkisstjórnar taldir." Í sömu heimild (Eyjunni) er afstaða hans einnig orðuð svo: „Þá viðurkennir Gylfi að önnur þjóðaratkvæðagreiðsla sé ekki fýsilegur kostur að sínu viti."

Já, ekki er hugur þjóðarinnar hugur þinn, umboðslausi Gylfi Magnússon! 

Heimildir: Annað þjóðaratkvæði um Icesave gæti fellt stjórnina (Visir.is) og frétt á Mbl.is: Óvíst hvort stjórnin lifi af aðra atkvæðagreiðslu, og Eyjan.is: Gylfi Magnússon: Önnur höfnun á Icesave gæti fellt stjórnina (þar er umræða um málið).

Jón Valur Jensson


mbl.is Óvíst hvort stjórnin lifi af aðra atkvæðagreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er okkur Íslendingum að mæta!

Brezkir og hollenzkir ráðuneytismenn vissu betur en svo, að íslenzka ríkið ætti að borga þeim eitt né neitt. Þeir vissu það sömuleiðis, að enginn Árni Mathiesen, þótt fjármálaráðherra væri, né Björgvin G. Sigurðsson, þótt bankamálaráðherra væri, gæti skuldbundið landið til greiðslu 600–1000 milljarða króna – til þess þyrfti a.m.k. samþykki Alþingis skv. 40. og 41. gr. stjórnarskrárinnar (sjá hér: Sigurður Líndal: Icesave og ríkisábyrgð) og þó því aðeins (skv. 77. gr. sömu stjórnarskrár), að gjaldskylda hefði þegar myndazt með einhverri lögbundinni skyldu (sjá HÉR!). Svo var ekki, en það var haldið áfram að þjarma að Íslendingum, til viðbótar við það, sem nógu skelfilegt var, þegar á okkur var skellt viðskiptastríði með beitingu hryðjuverkalaga og með því að fella stærsta banka okkar (Kaupþing) til viðbótar við Landsbankann.

Yfirvöld glúpnuðu í byrjun, skrifuðu þó ekki upp á bindandi samninga, síðan komu önnur enn ábyrgðarlausari yfirvöld sem hafa þráfaldlega reynt að þókknast fallvöltum brezkum og hollenzkum yfirvöldum í þessu máli, en mætt fullri mótstöðu íslenzku þjóðarinnar.

Allur þjösnaháttur Breta og Hollendinga er að engu hafandi. Við hrindum honum af okkur Íslendingar eins og hverri annarri verstu óværu sem hingað hefur borizt utan úr heimi.

Jón Valur Jensson.


JÓHANNA OG STEINGRÍMUR ÆTLUÐU OKKUR ICESAVE NÆSTU 5 ALDIRNAR.

Í fréttinni segir maðurinn að Ísland geti ekki staðið undir því að borga til baka Icesave-skuldina við hollenska ríkið, eins og hann ranglega kallar Icesave. Fyrir það fyrsta hefur Icesave aldrei verið skuld íslenska ríkisins. Og hollenska ríkið lánaði íslenska ríkinu ekkert vegna Icesave. Og athugið að hann er ekki að tala um Icesave í Bretlandi, bara Hollandi.

Það hefði fyrir löngu þurft að hefja opinbera rannsókn á hvað nákvæmlega Jóhönnu- og Steingríms-stjórnin, Icesave-stjórnin, ætlaði okkur að gera til að borga hinar ólögvörðu Icesave-kröfur bresku og hollensku ríkisstjórnanna, sem þau ætluðu að pína yfir okkur án dóms og laga. Ætluðu þau íslenskum skattgreiðendum að eyða næstu 5 öldum bara í að borga Icesave?

RANNSÓKN STRAX.

Elle Ericsson.


mbl.is Íslendingar „geta ekki borgað Icesave"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson um Icesave

"En þennan stuðning og annan í Icesave hafa menn ekki nýtt sér. Ég nefni sem dæmi að mjög áhrifamikið fólk í breska Íhaldsflokknum var búið að senda erindi til íslenska viðskiptaráðuneytisins til þess að bjóða fram aðstoð í Icesave-málinu. Þessu erindi var ekki einu sinni svarað."

Þannig mælti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í löngu og athyglisverðu viðtali við Agnesi Bragadóttur í Morgunblaði nýliðins laugardags.

Hann sagði þar einnig:

  • „Icesave-deilan leysist ekki, nema menn séu tilbúnir til þess að nýta sér styrkleikana í stöðunni og þiggja þá aðstoð sem býðst. Ef það verður gert, hygg ég að vel sé hægt að leysa þessa deilu farsællega fyrir alla aðila, þannig að íslenskir skattgreiðendur séu ekki að taka á sig einhverjar kröfur, sem engin lagaleg stoð er fyrir.  [Undirstrikun jvj.] 

Varðandi það að "þiggja þá aðstoð sem býðst" nefnir Sigmundur Davíð mjög athyglisverð dæmi frá Norðurlöndunum.

Eftir samskipti og viðræður Sigmundar og félaga hans við þingmenn í núverandi stjórnarmeirihluta í Bretlandi, sérstaklega við þingmenn Frjálslyndra demókrata, auk þingmanna Íhaldsflokksins, telur hann þá "hafa fullkominn skilning á stöðu Íslands og sammála mati okkar og töldu málið bara vera klúður Gordons Browns og Alistairs Darlings."

Sjá nánar í viðtalinu sjálfu, sem er hér: Okkur liggur lífið á

JVJ. 


Áminning ESA fær sína áminningu!

Allir lesandi, fróðleiksfúsir, þjóðhollir menn eru hvattir til að kynna sér greinina Áminning ESA sem birtist í Morgunblaðinu í dag og er eftir Lárus L. Blöndal hrl. og Stefán Má Stefánsson, prófessor í Evrópurétti við Háskóla Íslands.

Nú eru sumir jafnvel farnir að tala um álit ESA (eftirlitsstofnunar EFTA) sem "dómsúrskurð". Þetta er fjarri sanni. Í þessari grein lögspekinganna er að finna margvísleg rök fyrir því, að þetta álit (áminning) ESA standist ekki skoðun og samræmist ekki réttum skilningi laga.

Um þetta mál verður nánar fjallað hér á síðunni.

JVJ. 


Vont er þeirra ranglæti ...

... verra er þeirra réttlæti.

Mér komu þessi fleygu orð í hug er ég las þessa frétt. Það kemur svo sem ekki mikið á óvart að ráðherra í ríkisstjórn Hollands, ríkis sem hefur brotið nánast allar skráðar og óskráðar reglur í milliríkjasamskiptum með grófum fautaskap og fjárkúgun í Icesave-deilunni gagnvart íslenska ríkinu, skuli fara með svona fleipur.

Hver meðalgreindur maður sér auðvitað að ráðherrann fer með tómt fleipur. Eflaust er hann fullákafur greyið að sýna sig og fá fólk til að halda að hann sé eitthvað. Hann vill væntanlega festa sig í sessi sem fjármálaráðherra nýtekinn við embætti og má kannski virða það honum til vorkunnar.

Verst að það virðist vera einkennandi fyrir bæði hollenska og breska stjórnmálamenn að þeir telja sig vera stóra karla ef þeir sparka í þá sem geta síður varið sig, s.s. smáþjóðir með lítil sem engin áhrif. Sæjum við þennan ráðherra sýna Þýskalandi svona óvirðingu?

Samkvæmt heimasíðu fjármálaráðherrans er hann viðskiptamenntaður enda augljóslega ekki með hvolpavit á alþjóðlegri lögfræði. Það lítur út fyrir að hvorki þekking né menntun í alþjóðastjórnmálum eða -lögfræði sé skilyrði fyrir því að komast áfram í stjórnmálum í Hollandi líkt og hér heima.

Misvitrir stjórnmálamenn í Hollandi og aðrir sem þetta lesa eru hér með upplýstir um að dómstólaleiðin felur í sér málarekstur fyrir dómstólum, ekki pöntuð álit frá opinberum stofnunum kostuðum af þeim sem álitið varðar.

Theódór Norðkvist.


mbl.is Dómstólaleiðin í raun farin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað þýðir nei?

Eftir Daníel Sigurðsson, sem skrifar hér um þjóðaratkvæðagreiðsluna í endurbirtri leifturgrein.

 

 

 "Nei í kosningunum gæti einmitt orðið fyrsta stóra skrefið í þá átt að borga ekki krónu." 

 

ÉG DATT um fyrirsögnina „Kosið um breytingu á lögum“ í Fréttablaðinu 3. [mars]. 

Þrjár fullyrðingar blasa við:  

 

1. Að kosningarnar snúist alls ekki um hvort greiða eigi skuldina.  

2. Að verði svarið nei í kosningunum standi fyrri lögin eftir.  

3. Að semja þurfi upp á nýtt ef svarið verður nei í atkvæðagreiðslunni.  

 

Sjálfur forsætisráðherra hefur endurtekið lýst því yfir að kosningarnar séu markleysa. Skoðum sannleiksgildi fullyrðinganna nánar: 3. fullyrðingin er rétt (sem nánar verður vikið að.) 2. fullyrðingin er út af fyrir sig rétt en þar sem 3. fullyrðingin er líka rétt þá er 2. fullyrðingin marklaus! En hvað um 1. fullyrðinguna?  

 

Hugsum okkur að fjölskyldufaðir komi heim með samning við bílasala um að kaupa breskan Jagúar með þeim fyrirvara að fjölskyldan sem telur 6 manns samþykki. Meirihlutinn hafnar tilboðinu með þeim rökum að fjölskyldan sitji uppi með tvo bíla á afborgunum. Konan segist auk þess hafa fundið skítalykt af samningnum og við blasi að hann geti með tímanum rústað fjárhagsstöðu heimilisins. Ekkert verður af bílakaupum. Augljóst er af þessu að 1. fullyrðingin er ekki aðeins röng heldur kolröng og að nei í kosningunum gæti hrakið málið fyrir dómstóla þannig að hryðjuverka(laga)maðurinn, krataforinginn breski, sem sagt er að berji starfsfólk sitt, sæti á endanum uppi með krógann.

 

Lítum á annað analog-dæmi: Gefum okkur að breskir rasssetumenn sendiráðsins á Íslandi hafi keypt sendiráðsbyggingarnar af íslenskum einkaaðila í góðærinu 2007 og greitt fyrir £ 4 millur. Haustið 2008 ríður jarðskjálfti (12 á Richter) með upptök sín í BNA yfir norðurhvelið. Orsök skjálftans má að mestu rekja til glæfralegra kjarnorkuvopnatilrauna BNA neðanjarðar. Ísland fer ekki varhluta af skjálftanum og sendiráðsbyggingar Breta og Hollendinga hrynja meira og minna og fleiri byggingar. Breska ríkisstjórnin sem við skulum kalla Hryðju til styttingar krefst þess að Íslendingar borgi skaðann, telur húsin illa byggð, eftirlitið lélegt og að óprúttnir íslenskir kaupahéðnar hafi okrað á byggingunum. Ríkisstjórn Íslands leggst meira og minna á sjúkrabeð við þessi válegu tíðindi. Böðullinn Brown notar tækifærið og setur hryðjuverkalög á Íslendinga þannig að orðspor þeirra erlendis er nú flokkað sem sorp. Hryðja ákveður að bæta blýantsnögurunum skaðann og kaupa af þeim rústirnar fyrir £ 4 millur. Böðullinn Brown kippir nú í tvo bakdyraspotta sem merktir eru Brussel og AGS sem svo aftur kippa í bakdyraspotta íslenska utanríkisráðuneytisins. „Ber er hver að baki nema bróður eigi,“ hugsar  utanríkisráðherrann, tekur símann og segir upp viðhaldinu til tveggja ára. Ný (ó)stjórn er mynduð sem við skulum kalla Kratíu til styttingar enda virðist kjörorð stórnarsáttmálans ganga út á að krítisera og kratísera. Óðara fer hún að flaðra upp um kratann Brown eins og illa taminn sveitaseppi. Við þessi fleðuhót gengur krataforinginn á lagið og býður til makindalegra viðræðna. Íslenskum samningamönnum er smalað saman í flýti, þeir eiga það sameiginlegt að vera bláeygir a.m.k. í annarri af tveimur merkingum orðsins. Mánuðir líða en loks dúkka þeir upp með illa þefjandi uppfærðan Versalasamning í skötulíki. Þingheimur tekur fyrir vitin en Kratía harkar af sér að undanskildum tveimur þingmönnum hennar. Eftir miklar skylmingar í þinginu liggur tilboð á borðinu: Hryðju eru boðnar £ 3 millur fyrir rústirnar. Forsetinn samþykkir lög með fyrirvara. Hryðja svarar með gagntilboði upp á £ 3,5 millur sem Kratía samþykkir og nær að berja í gegnum þingið en forsetinn neitar að skrifa undir svo málið fer í þjóðaratkvæði. Þjóðin hafnar tilboðinu með 80% greiddra atkvæða. Skoðanakönnun leiðir í ljós að helmingurinn vill að málið fari fyrir dómstóla. Fullyrðingar þess efnis að kosningarnar snúist alls ekki um hvort greiða eigi skuldina er auðvitað kolröng. Nei, í kosningunum gæti einmitt orðið fyrsta stóra skrefið í þá átt að borga ekki krónu. „Fyrri“ lögin eru marklaus en Kratía gæti þó dustað af þeim rykið ef Hryðju snerist hugur. Glætan að hinn drambsami hryðjuverkamaður muni kyngja svo beiskum bita (og varla eftirmaður hans heldur, en líklegt er að Brown hrökklist frá völdum í vor við lítinn orðstír. Íslendingar eiga ekki að semja við hryðjuverkamenn. Það er ekki kosningin sem er marklaus eins og forsætisráðherra hefur talað um, heldur „fyrri“ lögin. En það er skiljanlegt að forsætisráðherra sé gramur enda mun svíða svolítið undan vendinum ef þjóðin segir nei

 

Höfundur er sjálfstætt starfandi véltæknifræðingur. Greinin, áður birt í Mbl. 6. mars 2010, er endurbirt hér með leyfi höfundar, sem er félagi í Þjóðarheiðri, samtökum gegn Icesave.

 


Leiðari Mbl. um ESA-Icesave-málið og viðbrögð stjórnvalda hér

Frábær er leiðari Morgunblaðsins í dag, Lengi versnar vont, og fjallar um Icesave-málið og nýútgefið álit ESA, eftirlitsstofnunar EFTA.

"Evrópudómstóllinn er frægur fyrir að dæma ekki eftir lögum þegar hentar, en fara fremur eftir framsýnu mati dómaranna þar, eins og það er kallað. Sá dómstóll setur því lög um leið og hann dæmir eftir þeim. Sá dómstóll er einnig frægur fyrir, að fáheyrt er, að á Evrópusambandið halli í úrlausnum hans," segir m.a. í greininni, sem kemur miklu víðar við og hikstalaust má hvetja alla til að lesa (hér!).

J.V.J. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband