Færsluflokkur: Evrópumál

Stærsta þjóðþrifaverkið: Afturkalla aðildarumsókn að ESB

Eftir Gústaf Adolf Skúlason.

Ég tek undir orð fyrrverandi dómsmálaráðherra, Björns Bjarnasonar í pistli sínum 18.6., að það er óskiljanlegt, að Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands gagnvart ESB, haldi því fram að »að sjálfsögðu muni Íslendingar standa við skuldbindingar sínar«. Sendiherrann ásamt Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra og Steingrími Sigfússyni fjármálaráðherra nota hvert tækifæri sem gefst í erlendum fjölmiðlum til að syngja þennan söng, þrátt fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave. Ríkisstjórnin hefur ekki umboð þjóðarinnar til að halda áfram að gefa loforð á erlendum vettvangi um, að Ísland muni borga reikninga Breta og Hollendinga vegna Icesave. Loforð, sem viðsemjendurnir nota sem sönnun fyrir »skuld« þjóðarinnar. Á heimavelli reyna þessir menn að telja fólki trú um, að engin tenging sé á milli Icesave-krafna Breta og Hollendinga og aðildarumsóknar Íslands að ESB.

Í yfirlýsingu leiðtogaráðs ESB og í umfjöllun virtra fjölmiðla sem Financial Times og EU Observer kemur óaðfinnanlega skýrt fram, að aðild Íslands að ESB er háð lausn Icesave-deilunnar. Allir aðrir en ofangreindir fulltrúar Íslands virðast sammála um, hvað sé í gildi: Ísland getur ekki orðið aðili að ESB nema »tekið sé tillit til núverandi skuldbindinga eins og þeirra sem mælt hefur verið fyrir um af Eftirlitsstofnun EFTA samkvæmt EES-samningnum ...« ESA hefur í bréfi til ríkisstjórnarinnar ásakað Íslendinga um að hafa brotið EES-samninginn með því að hafa ekki borgað lágmarkstryggingu innistæðueigenda Icesave í Bretlandi og Hollandi.

Íslenskir lögfræðingar, einstakir þingmenn Evrópuþingsins, rannsóknarnefnd Alþingis ásamt fjölmörgum sérfræðingum hérlendis og erlendis hafa bent á, að ekkert í reglugerð ESB, sem EES-samningurinn byggir á, geri íslenska ríkið ábyrgt fyrir skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda.

Umsóknarferlið er því ekkert annað en pólitískt spil stórvelda, þar sem tekist er á um Ísland, auðlindir landsins og eigur landsmanna. Þar má eiga von á ýmsum »gylliboðum« í stíl með: »við skulum taka að okkur að leysaIcesave-deiluna, ef þið greiðið atkvæði með inngöngunni í ESB«.

Það er sorglegt að horfa uppá íslensku ríkisstjórnina starfa sem embættismenn erlendra kröfuhafa í stað þess að sinna skyldum við sitt eigið fólk, sem stendur fyrir laununum.

Ríkisstjórnin einblínir svo á inngönguna í ESB-klúbbinn, að orkuauðlindir landsmanna, fiskur hafsins, fyrirtæki og menning duga varla sem aðgangseyrir. Í ofanálag verður að greiða með sóma, siðferði, sjálfsvirðingu,sjálfstæði og svörnum eiði við stjórnarskrá Íslands. Þessi undirlægjuháttur núverandi ríkisstjórnar hefur kostað þjóðina stórfé og skaðað stöðu landsins á alþjóðavettvangi. Jafnframt hefur þingræðið beðið álitshnekki sem og önnur stjórnskipun lýðveldisins.

Þessa óheillaferð verður að stöðva áður en enn stærri vá skellur á landsmönnum. Ég bið þingheim að styðja frumvarpið um að draga til baka aðildarumsóknina að Evrópusambandinu.

GÚSTAF ADOLF SKÚLASON, smáfyrirtækjarekandi.

Grein þessi birtist nýlega í Morgunblaðinu. Hún er endurbirt hér með sérstöku leyfi höfundar.


Steingrímur J. vekur upp draug í Icesave-máli

VIIÐ GETUM EKKI ORÐAÐ HLUTINA BETUR EN GERT ER Í ÞESSUM LEIÐARA MORGUNBLAÐSINS Í GÆR. –E.E.
 

Draugagangur

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði frá því fyrir tveimur mánuðum að hann mundi sæta lagi strax og nýir ráðherrar tækju við í Bretlandi og Hollandi að draga þá að samningaborðinu vegna Icesave. Þar sem íslenska þjóðin hafði þá þegar hafnað því í þjóðaratkvæðagreiðslu að taka á sig Icesave-skuldbindingar þrotabús Landsbankans sætti þessi afstaða fjármálaráðherrans mikilli furðu. Hann ákvað að láta sér ekki segjast við afgerandi niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslunni en reyndi þegar í stað að vekja upp Icesave-drauginn og koma skuldaklafanum á þjóðina. Nú hefur þetta tekist. Steingrímur er búinn að hafa það í gegn að draga Breta og Hollendinga að samningaborðinu og fagnaði því sérstaklega þegar rætt var við hann í gær.

Á það hefur margítrekað verið bent að kröfur Breta og Hollendinga á hendur Íslendingum vegna Icesave byggjast ekki á lagalegum forsendum. Íslenskum skattgreiðendum ber alls ekki að greiða þessar skuldir þar sem íslenska ríkið bar aldrei ábyrgð á endurgreiðslum til innistæðueigenda. Þetta hefur legið fyrir lengi og lá raunar fyrir löngu áður en bankarnir hrundu og Icesave-málið kom upp. Nú síðast mátti svo lesa um lagalega hlið málsins í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem studdi þessa niðurstöðu og þá hefðu síðustu talsmenn breskra og hollenskra stjórnvalda hér á landi átt að sannfærast.

Svo fór þó ekki og ríkisstjórnin situr við sinn keip í málinu og þrýstir mjög á um að fá að hengja Icesave-byrðarnar á íslensku þjóðina. Þessi framganga er auðvitað með miklum ólíkindum og á henni getur ekki verið nein eðlileg skýring. Engin venjuleg rök hníga að því fyrir íslensk stjórnvöld að reyna að þvinga bresk og hollensk stjórnvöld til að semja við sig um skuldir annarra.

Eina mögulega skýringin á háttalagi íslenskra stjórnvalda er sú áhersla sem þau leggja á að koma Íslandi inn í Evrópusambandið, en bæði Bretar og Hollendingar hafa talað skýrt um að við þurfum að fallast á ólögmætar kröfur þeirra áður en þeir samþykki að við fáum aðild að þeim félagsskap.

Ríkisstjórnin hefur ekki meiri áhyggjur af þeirri staðreynd að þjóðin er andvíg aðild en að þjóðin er andvíg því að greiða Icesave-skuldina. Afstaða landsmanna skiptir engu í þessu sambandi, það eina sem forysta Vinstri grænna og Samfylkingarinnar hefur áhuga á er að aðlögunarferlið haldi áfram og Íslandi verði smám saman nuddað inn í Evrópusambandið, þvert á vilja þjóðarinnar.


mbl.is Fagnar viðræðum um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er ills viti

Allt, sem þessi Icesave-AGS-ríkisstjórn gerir í Icesave-málinu, veit á illt. Hefur hún ekkert lært af þjóðinni? Er henni allsendis um megn að skilja skilaboð umbjóðenda sinna?

Og ekki viljum við lögfræðistofuna Ashurst í þetta mál, þá væri snöggtum betra að hafa þar lögfræðistofuna Mishcon de Reya, sem fann ENGIN rök til neinnar gjaldskyldu Íslendinga né ríkissjóðs til að borga þessar einkaskuldir einkabanka!

Við eigum ævinlega að krefjast okkar ýtrasta réttar í málinu, ekkert minna ber okkur að gera ... fyrir börnin okkar.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Fundað um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

EVRÓPUVAKTIN UM ESA OG ICESAVE.

EVRÓPUVAKTIN MEÐ SPURNINGAR UM VANHÆFI ESA OG PERS SANDERUD Í ICESAVE-MÁLINU:

 
Á SÍÐU EVRÓPUVAKTAR BJÖRNS BJARNASONAR OG STYRMIS GUNNARSSONAR  ER NÚ SKRIFAÐ UM SPURNINGAR UM VANHÆFI ESA Í ICESAVE-MÁLINU:
 
Per Sanderud, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), tók svo eindregna afstöðu gegn hagsmunum Íslendinga í Icesave-málinu á fundum í tengslum við 50 ára afmæli EFTA hér á landi í síðustu viku, að spurningar hafa vaknað um hæfi ESA til að fjalla frekar um þetta mál. Samkvæmt upplýsingum Evrópuvaktarinnar undrast fróðir menn um EES-rétt og hæfisreglur, að íslensk stjórnvöld hafi ekki nú þegar krafist frávísunar málsins frá ESA.
 

 

The European Free Trade Association (EFTA)


Glæsileg afgreiðsla Sjálfstæðisflokks á Icesave-máli – málamiðlanalaus eins og á ESB-málinu

"Málamiðlun er málamiðlun, þetta er ekki málamiðlun [um ESB]," sagði Ragnheiður Ríkharðsdóttir, en það verður ekki hangið á girðingunni endalaust. Flokkurinn rak af sér slyðruorðið, og gleymið ekki: Hann gerði það LÍKA Í ICESAVE-MÁLINU þennan sögulega laugardag.

"Þetta, sem samþykkt er í dag, er víðs fjarri skoðunum okkar Evrópusinna," sagði Ragnheiður, en yfir því gleðjast ótalmargir, og það sem meira er: Þessi dagur þokaði okkur enn fjær Icesave-málinu og útilokaði samkrull sjálfstæðismanna (nú er hægt að nota orðið athugasemdalaust!) við Icesave-flokkana um svikasamkomulag við Breta og Hollendinga: Flokksforystan hefur ekkert umboð landsfundar til slíks hráskinnaleiks gagnvart þjóðinni.

Í stjórnmálaályktun þessa landsfundar segir m.a.:

  • Við segjum hins vegar NEI við: ... Löglausum kröfum Breta og Hollendinga í Icesave-málinu.

Til hamingju, sjálfstæðismenn! – til hamingju, íslenzka þjóð.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Óþarfi að sundra flokksmönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósannar fullyrðingar utanríkisráðherrans um Icesave-"skuldbindingar" fá sitt náðarhögg í ritstjórnargrein Morgunblaðsins í dag

Hér er sú stutta, en afgerandi ritstjórnargrein

Vísvitandi rangfærslur

Forsprakkar ríkisstjórnarinnar segja engan ágreining um að forystumenn allra flokka vilji borga Icesave-skuldbindingarnar. Sömu tugguna hafa fréttamenn beggja ljósvakamiðlanna uppi. Öll þjóðin vill standa við sínar skuldbindingar. En það þýðir ekki að þjóðin vilji eða telji sig eiga að axla ábyrgð á skuldum einkaaðila, sem engin lögmæt ríkisábyrgð var fyrir. Það er auðvitað forkastanlegt að umboðsmenn íslenskrar þjóðar skuli vísvitandi blanda í eina niðurstöðu sjónarmiðum sem eru algjörlega öndverð. En því miður er sú gjörð orðin næsta fyrirsjáanleg. Framganga fyrrnefndra fjölmiðla er á hinn bóginn mikið undrunarefni, svo ekki sé kveðið fastar að. Formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa rétt einu sinni vísað rangtúlkunum Össurar Skarphéðinssonar á orðum þeirra og viðhorfum á bug. Bjarni Benediktsson bendir á að eitt sé að vilja að borga það sem mönnum ber og annað að láta undan ólögmætum kröfum. Sigmundur Davíð segir enn og aftur að Íslendingar vilji standa við sínar skuldbindingar allir sem einn en það hvíli engin skuldbinding á íslenska ríkinu vegna Icesave. Sjálfsagt mun Össur halda rangfærslum sínum áfram. En munu fjölmiðlarnir gera það líka? 


Hve miklum skaða hefur þjóðin valdið?

Magnús Orri Schram segist vera kominn á Evrópuþingið til þess að bæta fyrir skaða sem forsetinn hefur valdið að hans mati. Þá segist hann vera kominn til Strassborgar til þess að árétta það að íslensk þjóð ætli að taka að sér að greiða skuldir einkaaðila vegna Icesave-innlánanna.

Þá ítrekar hann að þjóðin ætli að greiða þessar svokölluðu skuldbindingar þjóðarinnar.

Hann vísar til þess hve miklu tjóni forsetinn hefur valdið í þessu máli, en má þá ekki líka velta fyrir sér hve miklu tjóni sjálf þjóðin olli með því að 98 % þeirra sem afstöðu tóku greiddu atkvæði gegn Icesave-lögunum.

Páll Ragnar Steinarsson.


Að leggja þjóðinni orð í munn.

Ef ekki væru efnahagsþrengingar og Icesave-della að tröllríða samfélaginu, væri blessaður drengurinn hann Magnús Orri Schram búinn að lengja mitt líf um nokkrar vikur. Samfylkingarmenn eru svo ósköp fyndnir, en gallinn er sá, að útlendingar þekkja ekki eðli samfylkingarmanna. Þeir halda örugglega að þeir séu málsvarar þjóðar sinnar, eins og aðrir stjórnmálamenn.

Þjóðin hefur sagt að hún vilji ekki borga Icesave-skuldina, engin lagaleg skylda hvílir á okkur þess efnis. Samt getur bullið í vinstri mönnunum orðið til þess að við þurfum að greiða, "hin tæra vinstri stjórn" hefur hótað að sitja áfram, hvort sem við viljum eður ei.

En strákræfillinn hann Magnús Orri, hann kveðst jafnvel tapa á ferðinni. Og hann er látinn dvelja á þriggja stjörnu hóteli. Mér finnst það afskaplega hlægilegt, að pilturinn skuli nefna þetta, jú, hann hefur lengt líf mitt um nokkrar mínútur og hafi hann kæra þökk fyrir frá mér og mínum nánustu.

En alvara málsins er sú, að þingmaður skuli enn og aftur endurtaka það, að við skulum borga þvingaðar skuldir og ólögmætar. Einnig er það undarlegt, að þar sem mig minnir að dagpeningar þingmanna nálgist tuttuguþúsund á dag, þá þurfi hann að borga með sér. Er blessaður strákurinn svona ölkær eða mikil eyðslukló? Ég veit það ekki, en hitt veit ég þó, að þriggja stjörnu hótel eru boðleg hverjum sem er. Menn nýkomnir af unglingaskeiði þurfa ekki að halda að þeir séu eitthvað merkilegir þótt þeir hafi slysast á þing, vegna þess að Steinunn Valdís ákvað að segja af sér.

Jón Ríkharðsson


Er hlutverk stjórnmálamanna að ljúga skuldum upp á almenning?

Halda mætti að stjórnmálamenn líti á það sem hlutverk sitt að ljúga skuldum upp á vinnuveitendur sína, fólkið í landinu. Þeir hafa þóst hafa rétt til að skella Icesave-skuld Landsbankans á herðar skattgreiðenda, þrátt fyrir að færustu lögfræðingar hérlendis sem erlendis hafi bent á að engin lagastoð sé fyrir því að skylda megi íslenska ríkið til að ábyrgjast skuld gjaldþrota einkabanka. Þvert á móti geti það brotið gegn ýmsum lögum, t.d. tilskipunum ESB og samkeppnislögum.

Síðan fer ríkisstjórnin eins og köttur í kringum heitan graut við að koma sér undan því að viðurkenna dóm Hæstaréttar um að gengistrygging sé óheimil, en vextir á viðkomandi lánum séu löglegir. Róið er öllum árum að því að þvinga ólöglegum einhliða afturvirkum breytingum upp á gerða samninga.

Það er von að maður spyrji: Telja stjórnmálamenn (með örfáum undantekningum) það vera hlutverk sitt að vinna gegn almenningi?

Theódór Norðkvist.


mbl.is Bætir skaða forsetans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkennileg ummæli utanríkisráðherra.

Örvænting utanríkisráðherra er mikil um þessar mundir, þjóðin hefur aðra skoðun en hann á ESB. Sem sannur samfylkingarmaður reynir hann ýmis sálfræðitrikk máli sínu til stuðnings. Athyglisvert var að lesa viðtalið við hann í Fréttablaðinu sl. laugardag, en þar sagði hann orðrétt: "Ég er líka þeirrar skoðunar að aðild að Evrópusambandinu treysti stoðir okkar sem fullvalda ríkis". Þetta er eitt það alvitlausasta sem ráðherra í þessari ríkisstjórn hefur sagt og er þó af mörgu að taka.

Það þarf mjög trúgjarnan einstakling til að gleypa þetta hrátt. Það að vera fullvalda þýðir að viðkomandi ríki ræður sínum málum. Með aðild að ESB er nauðsynlegt að skerða fullveldið. Þetta hefur lengi verið vitað. Einnig er mönnum frjálst að hafa sínar skoðanir. Utanríkisráðherra er vafalaust á þeirri skoðun, að við getum ekki ráðið fram úr okkar vandamálum sjálf, þess vegna þurfum við ESB. En að bera þá vitleysu á borð fyrir almenning, að ESB-aðild þýði aukið fullveldi, það er eins og að reyna að róa niður geðsjúkling sem svipta á sjálfræði, og segja honum að hann fái með þessu styrkari stoð undir eigin sjálfræði.

En ríkisstjórn sem vill auka lánshæfismatið með því að skuldsetja þjóðina um hundruð milljarða, ásamt því að hefja vegferð að norrænu velferðarkerfi með því að skattpína fólk, hún er varla á vetur setjandi.

Það nægir að kynna sér aðstæður hjá Grikkjum, Ítölum og Spánverjum til að sjá hversu miklu ESB bjargar. Við bárum gæfu til þess að halda krónunni og vera utan Evrópusambandsins. Þess vegna eru stoðir útflutningsgreinanna eins sterkar og raun ber vitni. Bankahrunið hefði orðið þótt við hefðum verið í ESB, persónueiginleikar fjármálafursta og útrásarvíkinga hefðu ekki breyst. Evran hefði gert það að verkum, að útflutningsverðmætin hefðu minnkað verulega, vegna þess að verð á mörkuðum hefur staðið í stað og jafnvel lækkað.

Ég er þakklátur fyrir fullveldið og krónuna, en hvorugt er fullkomið. Breyskleiki mannsins kom fyrst í ljós þegar Adam og Eva létu höggorminn plata sig til að borða eplið. Síðan þá hafa liðið mörg ár, en maðurinn er enn jafnbreyskur. Við þurfum alltaf að vega og meta kosti og galla.

Jón Ríkharðsson.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband