Stærsta þjóðþrifaverkið: Afturkalla aðildarumsókn að ESB

Eftir Gústaf Adolf Skúlason.

Ég tek undir orð fyrrverandi dómsmálaráðherra, Björns Bjarnasonar í pistli sínum 18.6., að það er óskiljanlegt, að Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands gagnvart ESB, haldi því fram að »að sjálfsögðu muni Íslendingar standa við skuldbindingar sínar«. Sendiherrann ásamt Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra og Steingrími Sigfússyni fjármálaráðherra nota hvert tækifæri sem gefst í erlendum fjölmiðlum til að syngja þennan söng, þrátt fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave. Ríkisstjórnin hefur ekki umboð þjóðarinnar til að halda áfram að gefa loforð á erlendum vettvangi um, að Ísland muni borga reikninga Breta og Hollendinga vegna Icesave. Loforð, sem viðsemjendurnir nota sem sönnun fyrir »skuld« þjóðarinnar. Á heimavelli reyna þessir menn að telja fólki trú um, að engin tenging sé á milli Icesave-krafna Breta og Hollendinga og aðildarumsóknar Íslands að ESB.

Í yfirlýsingu leiðtogaráðs ESB og í umfjöllun virtra fjölmiðla sem Financial Times og EU Observer kemur óaðfinnanlega skýrt fram, að aðild Íslands að ESB er háð lausn Icesave-deilunnar. Allir aðrir en ofangreindir fulltrúar Íslands virðast sammála um, hvað sé í gildi: Ísland getur ekki orðið aðili að ESB nema »tekið sé tillit til núverandi skuldbindinga eins og þeirra sem mælt hefur verið fyrir um af Eftirlitsstofnun EFTA samkvæmt EES-samningnum ...« ESA hefur í bréfi til ríkisstjórnarinnar ásakað Íslendinga um að hafa brotið EES-samninginn með því að hafa ekki borgað lágmarkstryggingu innistæðueigenda Icesave í Bretlandi og Hollandi.

Íslenskir lögfræðingar, einstakir þingmenn Evrópuþingsins, rannsóknarnefnd Alþingis ásamt fjölmörgum sérfræðingum hérlendis og erlendis hafa bent á, að ekkert í reglugerð ESB, sem EES-samningurinn byggir á, geri íslenska ríkið ábyrgt fyrir skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda.

Umsóknarferlið er því ekkert annað en pólitískt spil stórvelda, þar sem tekist er á um Ísland, auðlindir landsins og eigur landsmanna. Þar má eiga von á ýmsum »gylliboðum« í stíl með: »við skulum taka að okkur að leysaIcesave-deiluna, ef þið greiðið atkvæði með inngöngunni í ESB«.

Það er sorglegt að horfa uppá íslensku ríkisstjórnina starfa sem embættismenn erlendra kröfuhafa í stað þess að sinna skyldum við sitt eigið fólk, sem stendur fyrir laununum.

Ríkisstjórnin einblínir svo á inngönguna í ESB-klúbbinn, að orkuauðlindir landsmanna, fiskur hafsins, fyrirtæki og menning duga varla sem aðgangseyrir. Í ofanálag verður að greiða með sóma, siðferði, sjálfsvirðingu,sjálfstæði og svörnum eiði við stjórnarskrá Íslands. Þessi undirlægjuháttur núverandi ríkisstjórnar hefur kostað þjóðina stórfé og skaðað stöðu landsins á alþjóðavettvangi. Jafnframt hefur þingræðið beðið álitshnekki sem og önnur stjórnskipun lýðveldisins.

Þessa óheillaferð verður að stöðva áður en enn stærri vá skellur á landsmönnum. Ég bið þingheim að styðja frumvarpið um að draga til baka aðildarumsóknina að Evrópusambandinu.

GÚSTAF ADOLF SKÚLASON, smáfyrirtækjarekandi.

Grein þessi birtist nýlega í Morgunblaðinu. Hún er endurbirt hér með sérstöku leyfi höfundar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elle_

Góður pistill.  Gylfi Magnússon og Jóhanna Sigurðardóttir eru jafnsek í að pína Icesave í gegn við öll tækifæri og virða ekki lög þar um eða vilja þjóðararinnar.  Jóhanna er forsprakkinn og hefur farið víða um heim og lofað að við munum STANDA VIÐ SKULDBINDINGAR OKKAR.  Jóhanna hótaði líka stjórnarslitum við VG, sættust þeir ekki á Icesave.  Það kom fram nokkrum sinnum. 

Elle_, 6.7.2010 kl. 19:23

2 Smámynd: Elle_

Meinti að ofan: Gylfi og Jóhanna eru jafnsek og Steingrímur og Össur við að pína Icesave fram við öll tækifæri.

Elle_, 6.7.2010 kl. 19:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband