Hvað þýðir nei?

Eftir Daníel Sigurðsson, sem skrifar hér um þjóðaratkvæðagreiðsluna í endurbirtri leifturgrein.

 

 

 "Nei í kosningunum gæti einmitt orðið fyrsta stóra skrefið í þá átt að borga ekki krónu." 

 

ÉG DATT um fyrirsögnina „Kosið um breytingu á lögum“ í Fréttablaðinu 3. [mars]. 

Þrjár fullyrðingar blasa við:  

 

1. Að kosningarnar snúist alls ekki um hvort greiða eigi skuldina.  

2. Að verði svarið nei í kosningunum standi fyrri lögin eftir.  

3. Að semja þurfi upp á nýtt ef svarið verður nei í atkvæðagreiðslunni.  

 

Sjálfur forsætisráðherra hefur endurtekið lýst því yfir að kosningarnar séu markleysa. Skoðum sannleiksgildi fullyrðinganna nánar: 3. fullyrðingin er rétt (sem nánar verður vikið að.) 2. fullyrðingin er út af fyrir sig rétt en þar sem 3. fullyrðingin er líka rétt þá er 2. fullyrðingin marklaus! En hvað um 1. fullyrðinguna?  

 

Hugsum okkur að fjölskyldufaðir komi heim með samning við bílasala um að kaupa breskan Jagúar með þeim fyrirvara að fjölskyldan sem telur 6 manns samþykki. Meirihlutinn hafnar tilboðinu með þeim rökum að fjölskyldan sitji uppi með tvo bíla á afborgunum. Konan segist auk þess hafa fundið skítalykt af samningnum og við blasi að hann geti með tímanum rústað fjárhagsstöðu heimilisins. Ekkert verður af bílakaupum. Augljóst er af þessu að 1. fullyrðingin er ekki aðeins röng heldur kolröng og að nei í kosningunum gæti hrakið málið fyrir dómstóla þannig að hryðjuverka(laga)maðurinn, krataforinginn breski, sem sagt er að berji starfsfólk sitt, sæti á endanum uppi með krógann.

 

Lítum á annað analog-dæmi: Gefum okkur að breskir rasssetumenn sendiráðsins á Íslandi hafi keypt sendiráðsbyggingarnar af íslenskum einkaaðila í góðærinu 2007 og greitt fyrir £ 4 millur. Haustið 2008 ríður jarðskjálfti (12 á Richter) með upptök sín í BNA yfir norðurhvelið. Orsök skjálftans má að mestu rekja til glæfralegra kjarnorkuvopnatilrauna BNA neðanjarðar. Ísland fer ekki varhluta af skjálftanum og sendiráðsbyggingar Breta og Hollendinga hrynja meira og minna og fleiri byggingar. Breska ríkisstjórnin sem við skulum kalla Hryðju til styttingar krefst þess að Íslendingar borgi skaðann, telur húsin illa byggð, eftirlitið lélegt og að óprúttnir íslenskir kaupahéðnar hafi okrað á byggingunum. Ríkisstjórn Íslands leggst meira og minna á sjúkrabeð við þessi válegu tíðindi. Böðullinn Brown notar tækifærið og setur hryðjuverkalög á Íslendinga þannig að orðspor þeirra erlendis er nú flokkað sem sorp. Hryðja ákveður að bæta blýantsnögurunum skaðann og kaupa af þeim rústirnar fyrir £ 4 millur. Böðullinn Brown kippir nú í tvo bakdyraspotta sem merktir eru Brussel og AGS sem svo aftur kippa í bakdyraspotta íslenska utanríkisráðuneytisins. „Ber er hver að baki nema bróður eigi,“ hugsar  utanríkisráðherrann, tekur símann og segir upp viðhaldinu til tveggja ára. Ný (ó)stjórn er mynduð sem við skulum kalla Kratíu til styttingar enda virðist kjörorð stórnarsáttmálans ganga út á að krítisera og kratísera. Óðara fer hún að flaðra upp um kratann Brown eins og illa taminn sveitaseppi. Við þessi fleðuhót gengur krataforinginn á lagið og býður til makindalegra viðræðna. Íslenskum samningamönnum er smalað saman í flýti, þeir eiga það sameiginlegt að vera bláeygir a.m.k. í annarri af tveimur merkingum orðsins. Mánuðir líða en loks dúkka þeir upp með illa þefjandi uppfærðan Versalasamning í skötulíki. Þingheimur tekur fyrir vitin en Kratía harkar af sér að undanskildum tveimur þingmönnum hennar. Eftir miklar skylmingar í þinginu liggur tilboð á borðinu: Hryðju eru boðnar £ 3 millur fyrir rústirnar. Forsetinn samþykkir lög með fyrirvara. Hryðja svarar með gagntilboði upp á £ 3,5 millur sem Kratía samþykkir og nær að berja í gegnum þingið en forsetinn neitar að skrifa undir svo málið fer í þjóðaratkvæði. Þjóðin hafnar tilboðinu með 80% greiddra atkvæða. Skoðanakönnun leiðir í ljós að helmingurinn vill að málið fari fyrir dómstóla. Fullyrðingar þess efnis að kosningarnar snúist alls ekki um hvort greiða eigi skuldina er auðvitað kolröng. Nei, í kosningunum gæti einmitt orðið fyrsta stóra skrefið í þá átt að borga ekki krónu. „Fyrri“ lögin eru marklaus en Kratía gæti þó dustað af þeim rykið ef Hryðju snerist hugur. Glætan að hinn drambsami hryðjuverkamaður muni kyngja svo beiskum bita (og varla eftirmaður hans heldur, en líklegt er að Brown hrökklist frá völdum í vor við lítinn orðstír. Íslendingar eiga ekki að semja við hryðjuverkamenn. Það er ekki kosningin sem er marklaus eins og forsætisráðherra hefur talað um, heldur „fyrri“ lögin. En það er skiljanlegt að forsætisráðherra sé gramur enda mun svíða svolítið undan vendinum ef þjóðin segir nei

 

Höfundur er sjálfstætt starfandi véltæknifræðingur. Greinin, áður birt í Mbl. 6. mars 2010, er endurbirt hér með leyfi höfundar, sem er félagi í Þjóðarheiðri, samtökum gegn Icesave.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elle_

Algerlega frábær og lýsandi pistill frá Daníel Sigurðssyni.  Böðullinn og Hryðja og Kratía, hi, hi.  Já, svarið er eitt rosa-stórt NEI VIÐ ICESAVE.  Eins og Ólafur forseti sagði. 

Elle_, 31.5.2010 kl. 19:48

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, Daníel er beittur penni og lætur menn heyra það!

Jón Valur Jensson, 1.6.2010 kl. 10:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband