Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011
28.2.2011 | 23:11
Tryggingasjóður innstæðueigenda og fjárfesta uppfyllti allar kröfur sem til hans voru gerðar
Jón Baldvin Hannibalsson hefur ítrekað haldið því fram* (til að sanna ábyrgðarleysi Íslendinga) að "ekkert fé hafi verið í Tryggingasjóðnum", en staðreyndin er sú, segir Carl Eiríksson verkfræðingur,* að sjóðurinn uppfyllti allar lagakröfur sem til hans voru gerðar um þetta. Það voru í honum 18 milljarðar króna við hrunið, og sú upphæð virðist alveg samsvara ákvæði 6. gr. laganna um sjóðinn (l. nr. 98/1999) um 1% heildareign innstæðudeildar sjóðsins miðað við innstæður í bönkum og sparisjóðum orðrétt:
- 6. gr. Innstæðudeild.
- Heildareign innstæðudeildar sjóðsins skal að lágmarki nema 1% af meðaltali tryggðra innstæðna í viðskiptabönkum og sparisjóðum á næstliðnu ári. ...
- 3. gr. Aðilar að sjóðnum.
- Viðskiptabankar, sparisjóðir, fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og aðrir sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti, sem hafa staðfestu hér á landi, skulu eiga aðild að sjóðnum. [Hið sama gildir um útibú þessara aðila á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríkjum stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og í Færeyjum.]1) Þessi fyrirtæki, hér eftir nefnd aðildarfyrirtæki, bera ekki ábyrgð á skuldbindingum hans umfram lögbundin framlög til sjóðsins, sbr. ákvæði 6. og 7. gr. Fjármálaeftirlitið skal halda sérstaka skrá um aðildarfyrirtæki.
- 2. gr. Stofnun.
- Með tryggingar samkvæmt lögum þessum fer sérstök stofnun er nefnist Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, hér eftir nefndur sjóðurinn. Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun og starfar í tveimur sjálfstæðum deildum með aðskilinn fjárhag og reikningshald, innstæðudeild og verðbréfadeild, sbr. þó ákvæði 12. gr.
Ef Jón Baldvin og aðrir Icesave-sinnar þráast enn við að muna þessar einföldu staðreyndir, ættu þeir að kynna sér vel þessa grein: "ESB segir ESA hafa reglulega staðfest ágæti regluverks Íslands" um tryggingasjóð innistæðueigenda
* Carl Eiríksson í Útvarpi Sögu, í innhringiþætti Péturs Gunnlaugssonar í morgun.
JVJ skráði.
Evrópumál | Breytt 1.3.2011 kl. 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.2.2011 | 21:02
Spurningar um Icesave
Ef ég segi já og samþykki Icesafe-frumvarp í þjóðaratkvæðagreiðslu, er ég þá ekki líka að viðurkenna að ég skuldi einhverjum þessa peninga?
Er ég þá líka að viðurkenna að ég sé glæpamaður og hafi stolið þessum peningum frá saklausu fólki í Bretlandi og Hollandi ? og ég eigi að greiða þá til baka?
Geta og eða vilja íslensk stjórnvöld verja gengið á íslensku krónunni? Breska þjóðin er t.d. 180-falt stærri en íslenska þjóðin. Þarf nokkuð mikið að fikta við gengi á íslensku krónunni til að ímynduð skuld fari í 1000 milljarða ?
Er ekki grundvallaratriði fyrir trausta framtíðar-bankastarfsemi í heiminum, að til sé dómsniðurstaða fyrir ICESAFE ?
Halldór Svavarsson.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 21:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.2.2011 | 17:57
ER ÞESSI ´FRÉTTAMAÐUR´ AF JÖRÐINNI?
Ekkert getur skuldbundið almenning í landinu og þar með æsku landsins til að borga ICESAVE-PENINGANA eins og ´fréttamaðurinn´ kallar það í sinni fáfræði. Skuldbundið ungmenni þar til líf þeirra er hálfbúið til að vera skattaþrælar stórvelda í Evrópu. Síðan hvenær urðu smáríki heimsins fjárhagslega og stjórnarfarslega ábyrg fyrir stórríkjum??
Engin lög voru um ríkisábyrgð á ICESAVE og ríkisábyrgð brýtur bæði gegn lagaákvæðum og stjórnarskrá. Eftirlitið og leyfi bankans í öðrum löndum var þarlendra yfirvalda, ekki okkar. Fall bankans og þjófnaður innan hans gerir okkur engan veginn sek. Óhæfan sem þessi svokallaði ´fréttamaður´ og langtíma heitur ICESAVE-SINNI skrifar er næstum ekki leshæf og ekki svaraverð nema vegna hættunnar og skaðans sem slíkur ósómi gæti skapað okkur. Embættismenn og pólitíkusar hafa bara alls ekki það vald að lofa útlendingum neinum ólögmætum skatti úr ríkissjóði.
Nú er þjóðin samkvæmt ´fréttakonunni´ orðin að löggjafa AÐ UNDIRLAGI FORSETANS. Halló, þú Þóra Kristín, forsetinn hefur einfaldlega farið að stjórnskipan landsins og hefur staðið með lýðræðinu, virt lýðræðið í landinu. Megi forsetinn hafa miklar þakkir fyrir. Og svo kallar ´fréttamaðurinn´ okkur LÝÐRÆÐISHER FORSETANS og kallar það RÚSSNESKA RÚLETTU að hafna að borga ólöglega og stórhættulega kröfu sem gæti gert okkur gjaldþrota.
Nenni ekki að fara nánar yfir allar brenglanirnar og skáldskapinn í þessum eymdarlega pistli manneskju sem rær hart að því að gera börnin okkar að skuldaþrælum að ósekju. Samskonar kúgun hafa nefnilega Bretar og Hollendingar og önnur stórveldi Evrópu beitt lítil ríki um allan heim og valdið mikilli eymd og fátækt. Fiji Islands eru þar á meðal.
Þóra Kristín, ekki skrifa um mál sem þú skilur ekki og enn síður um mál sem þú ætlar viljandi að skekkja og þvæla. Við leyfum ekki innlendum leppum að ljúga að okkur og komast upp með að eyðileggja velferðarkerfið okkar og loka spítölum fyrir ólöglega rukkun sem við skuldum ekki. Við fellum nauðungina 9. apríl næstkomandi, ellegar sækjum málið. Í okkar lögsögu.
Elle Ericsson.
ICESAVE-SAMNINGURINN ÓVERJANDI SEM SKÝRIR SAMÚÐ OG SKILNING.
TÖKUM ICESAVE OG TROÐUM HONUM.
28.2.2011 | 15:29
Þau höfðu rangt fyrir sér 2009, 2010 og hafa rangt fyrir sér 2011.
»Ég óttast afleiðingar af því ef íslenska þjóðin ætlar í opnar alþjóðlegar deilur við alþjóðlegt fjármálakerfi heimsins. Ég tel að við munum skaðast áður en tekst að umturna alþjóðlegu fjármálakerfi.«
Tveimur mánuðum síðar, tók almenningur í landinu þá ákvörðun að hafna Icesave-samningunum-II, sem Gylfi og Elín Björg höfðu svo mjög lofsungið. Fleirri strengja-brúður tóku þátt í söngnum, svo sem Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Þann 05.janúar 2010 sagði Vilhjálmur:
»Það eru ekki það miklar líkur á því að við fengjum það mikið betri samning þó við reyndum í þriðja sinn að réttlæta herkostnaðinn af því að fara af stað. Það liggur fyrir að bæði Bretar og Hollendingar ollu okkur stórtjóni á meðan málið var ófrágengið.«
Elín Björg vildi ekki vera minni maður en þeir silakeppir Gylfi og Vilhjálmur. Haft var eftir Elínu Björg:
»Ég er ekki sannfærð um að ef þeir fara í þjóðaratkvæði komi önnur og betri niðurstaða, því almenningur mun ekki hafa þau gögn undir höndum sem þeir sem voru í samningunum höfðu. Menn munu fyrst og fremst greiða atkvæði með hjartanu. Ég treystir því að þeir sem stóðu að samkomulaginu hafi gert það eins vel og þeir hafi vit og getu til.«
Ef þetta fólk bara vissi hvað það hafði rangt fyrir sér á árinu 2009 og 2010. Ef það bara vissu hvílíkir njólar halda um stjórnar-taumana í landinu. Ef þjóðin hefði ekki haft vit fyrir þessum strengja-brúðum Sossanna, væri skulda-baggi almennings í dag um 500 milljörðum Króna þyngri.
Með þjóðaratkvæðinu 06. marz 2010 vann þjóðin sinn stærsta sigur á lýðræðis-brautinni. Hafnað var Icesave-kúgun nýlenduveldanna og öllum heiminum gert það ljóst að Íslendingar búa við stjórnarskrá sem felur fullveldi landsins almenningi í hendur. Þvættingnum um »þingræðið« hefur verið hafnað í eitt skipti fyrir öll.
Hefur þetta fólk samvitskubit vegna tilrauna til að valda Þjóðinni stórkostlegu tjóni ? Vita þessar strengjabrúður að afstaða þess til Icesave-samninga-III, er jafn heimskuleg og afstaða þess var til Icesave-samninga-I og Icesave-samninga-II ? Er líklegt að þeir sem höfðu rangt fyrir sér 2009 og 2010, hafi rétt fyrir sér um sama mál 2011 ?
Loftur A. Þorsteinsson.Veik staða krónu setur kjaramál í óvissu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
27.2.2011 | 19:46
Þóra Kristín Ásgeirsdóttir í þjónustu Þistilsins
Það kemur líklega engum á óvart, að Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skuli ganga erinda Steingríms J. Sigfússonar og halda fram blekkingum og falsi um Icesave-málið. Þóra Kristín beitir vönum blaðamanns-penna sínum í þágu þjóðsvika, með skrifum sínum á Smugunni 21.02.2010. Þóra Kristín byrjar ritgerð sína svona:
»Íslenska þingið skuldbatt þjóðina til að greiða Icesave-peningana í tíð ríkisstjórnar Geirs H. Haarde hvað sem mönnum kann að finnast um lagalega stöðu málsins. Þess vegna getur íslenska þjóðin siðferðislega ekki tekið afstöðu til annarra hluta en á hvaða vöxtum og með hvaða skilmálum þær endurgreiðslur eigi að vera.«
Þetta er sama rullan og Icesave-stjórnin hefur farið með í tvö ár og hún fjallar um blekkingar og fals. Alþingi samþykkti vissulega að ganga til samninga við nýlenduveldin, en það skyldi gert á grundvelli Brussel-viðmiðanna og samþykktin var án allra skuldbindinga. Að almenningur greiði "Icesave-peningana" var ekki til umræðu hjá almenningi þá, ekki frekar en núna.
Engin skuldbinding er fyrir hendi að landsmenn greiði forsendulausar kröfur og það mun ekki verða nema menn láti Jóhönnu af Bakkabræðra-kyni leiða sig út í Icesave-foraðið. Þingsályktun sú sem vísað var til, var gerð undir hótunum nýlenduveldanna og raunveruleg efnahagsstyrjöld ríkti við Bretland og Holland.
Ritgerð Þóru Kristínar er sannarlega helguð blekkingum og falsi. Hún vill auðvitað leggja Icesave-klafann á herðar almennings og mælir með samþykkt Icesave-laganna. Hins vegar líkir hún þeirra viðleitni þjóðarinnar að standa á rétti sínum við Rússneska rúllettu. Þóra Kristín vílar sem sagt ekki fyrir sér að fórna lögsögu landsins á altari erlendrar hugmyndafræði, því að þaðan kemur auðvitað drifkrafur Icesave-stjórnarinnar. Þóra Kristín segir:
»Eftir stendur að þjóðin getur einungis tekið ákvörðun um að herða snöruna fastar að hálsi sér með því að staðfesta samningana í þjóðaratkvæðagreiðslu eða fella þá og taka þá þátt í rússneskri rúllettu sem gæti leitt til þess að endurgreiðslurnar yrðu miklu hærri en hún réði við að borga og fá í kaupbæti allt alþjóðasamfélagið uppá móti sér. .. Það er sá lýðræðislegi ávinningur sem forseti lýðveldisins færir þjóðinni og veifar leynilegri undirskriftasöfnun til að færa rök fyrir máli sínu.«
Þarna kyrjar Þóra Kristín auðvitað sönginn um leynilegu undirskriftasöfnunina og flytur hrakyrði um forsetann og lýðræðið. Blekkingum sínum og falsi fylgdi hún síðan eftir í Silfri dagsins, sem var einn áróðurs-samkór gegn hagsmunum landsmanna. Allt var þetta fyrirsjánlegt þvaður, sem Þóra Kristín á eftir að skammast sín fyrir ef hún nær hárri elli. Því miður eru "blekkingar og lygar "orðnar sem "leggir og skeljar" fólks eins og Þóru Kristínar.
Loftur Altice Þorsteinsson.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.2.2011 | 16:23
Þingmenn mega ekki láta kefla sig í umræðunni fyrir þjóðaratkvæðið né láta blekkjast af Lárusi Blöndal
Það er rétt hjá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni að hafa opið á að beita sér gegn Icesave-samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl og vitaskuld óháð því, hvað Siv Friðleifsdóttir gerir, en hún sat hjá þegar greidd voru atkvæði um Icesave-frumvarpið á Alþingi um miðjan mánuðinn. Sigmundur hefur gagnrýnt þversagnir í málflutningi stjónvalda, sagði m.a. í þingumræðunni:
- "... það kom ekki þessi ísöld sem Samfylkingin talaði um. Þvert á móti telst Ísland núna vera traustari lántakandi en Spánn. Skuldatryggingarálag Íslands hefur lækkað jafnt og þétt frá því að gamla Icesave-samningnum var hafnað."
Nú bíður þessa skarpa manns, Sigmundar Davíðs, það verkefni að vega og meta og leggja dóm á glæfralegan málflutning Lárusar L. Blöndal í Silfri Egils í dag málflutning sem trúlega hefur átt að slá vopnin úr höndum andstæðinga samningsins, en mun reynast honum sjálfum tvíbent vopn í hendi við að mæla með samningnum, því að þar fór Lárus út fyrir svið sitt sem lögfræðingur, fór að leggja pólitískt mat á hluti eins og gengisþróun o.fl. og leiðrétti ekki rangmæli sín um að lögsagan í málinu héldist íslenzk en hún yrði undir dómstóli í Hollandi og skv. enskum lögum! (sjá blogg JVJ).
Það versta í þættinum hjá Lárusi var reyndar hræðsluáróður hans um að háar fjárhæðir gætu verið dæmdar á okkur í vöxtum sem öðru, en þær fullyrðingar hans eru í megnri mótsókn við það, sem Reimar Pétursson hrl. hefur upplýst og vitaskuld þá staðreynd, að það eru íslenzkir dómstólar, sem hefðu síðasta orðið í öllum dómsmálum. Þeir munu EKKI dæma á okkur hærri vexti en í íslenzkum málum og EKKI neina vexti fremur en í ýmsum sambærilegum tilfellum og heldur ekki frá upphafs-kröfutíma, heldur trúlega frá dómsuppkvaðningu, ef málin enduðu á annað borð í fébóta-úrskurði (sem er ekki fyrir fram líklegt, jafnvel Lárus hefur góða trú á, að mál ESA falli í EFTA-dómstólnum) og í vaxtakröfu-úrskurði.
Jón Valur Jensson.
Gæti beitt sér í Icesave-deilunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
27.2.2011 | 07:45
„Íslenzkir dómstólar hafa síðasta orðið," segir Skúli Magnússon, ritari EFTA-dómstólsins (RÚV 25/2)
EFTA-dómstóllinn getur ekki dæmt íslenska ríkið til að greiða fébætur vegna Icesave-reikninga í Bretlandi og Hollandi, hann getur aðeins skorið úr um hvort Ísland hafi brotið gegn EES-samningnum. Íslenskir dómstólar hafa síðasta orðið," segir Skúli í viðtalinu í RÚV á föstudaginn. Hann stjórnar daglegum rekstri EFTA-dómstólsins, en var áður héraðsdómari í Reykjavík auk þess að kenna við lagadeild Háskóla Íslands. (Allt þetta skv. ýtarlegri frétt: EFTA-dómstóllinn segir aðeins hvort brotið sé gegn EES-samningnum vegna Icesave, á Evrópuvaktinni; þar er mynd af Skúla.)
- Skúli Magnússon sagði við RÚV, að félli Icesave-samningurinn væri líklegasta framhaldið að ESA vísaði málinu til EFTA-dómstólsins. Dómstóllinn tæki hins vegar aðeins afstöðu til þess hvort um brot á EES-samningnum væri að ræða. Teldi hann EES-samninginn brotinn myndu innistæðustryggingasjóðir í Bretlandi og Hollandi væntanlega höfða mál á hendur íslenska ríkinu, en það yrðu þeir að gera fyrir íslenskum dómstólum.
- Skúli sagði að hafa yrði í huga að í þessu máli yrði ekki dæmt um skaðabótaskyldu. Lokaorðið um skaðabótaskyldu íslenska ríkisins væri samkvæmt reglum EES í höndum íslenskra dómstóla.
Þetta eru góð og upplýsandi tíðindi. Byggjum á slíku, ekki á kvitti og flökkusögum þeirra, sem róið hafa undir ótta manna með rakalausum hræðsluáróðri og fengið marga gunguna til að taka undir með sér. Stöndum staðfastir á rétti okkar, Íslendingar! JVJ.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 10:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.2.2011 | 00:22
GERA ÆSKU LANDSINS AÐ ÞRÆLUM.
Hollustumenn ICESAVE ánauðarinnar ættu að hætta að nota það sem rök fyrir þrældómi barna okkar hvað embættismenn og stjórnmálamenn í fyrri stjórnum lofuðu einu sinni útlendingum. Og nota orð manna og viljayfirlýsingar sem aum og léleg rök fyrir að núna megi gera æsku landsins að nýlenduþrælum evrópskra stórvelda.
Ekki nokkru máli skiptir hvað pólitíkusar hafa lofað erlendum veldum, orð þeirra eru ekki og voru aldrei lög og gera ekki börnin okkar ábyrg fyrir geggjuðum glæpamannaskuldum. Ekki einum eyri, hvað þá hundruðum eða þúsundum MILLJARÐA (1 milljarður = 1000 milljónir fyrir manneskjur eins og Jóhönnu sem rugla saman milljónum og milljörðum). Og svo koma ríkisstjórnarhagfræðingar eins og Guðmundur Ólafsson, Gylfi Magnússon og Þórólfur Matthíasson og halda fram opinberlega þeim rakalausa þvættingi að ef við tökum ekki á okkur milljarða glæpinn muni það skaða okkur fjárhagslega. Og ætla að kenna forsetanum um. Fara alla leið til útlanda til að ljúga þessu.
Óvitrir og skaðlegir embættismenn og stjórnmálamenn hafa ekki það vald að brjóta lög og stjórnarskrá og veðsetja okkur að þeirra geðþótta og með valdi og gegn okkar vilja. Nú verður að fara að stoppa þessa hættulegu stjórnmálamenn. Málið snýst um að lögsækja lögbrjótana og fella ólögin með öllum ráðum.
Hef aldrei getað skilið hví enginn lögmaður eða hópur lögmanna, eða saksóknari ríkisins, hafi ekki kært neina stjórnmálamenn fyrir ICESAVE GLÆPINN. Stjórnmálamenn ganga um og brjóta lög og stjórnarskrá og vaða yfir Hæstarétt og komast upp með það. Stórskrýtið er það land þar sem það viðgengst að brjóta mannréttindi og það gegn lögum og stjórnarskrá landsins.
Engir peningar eru í ríkissjóði fyrir nauðunginni, enda er verið að loka sjúkrahúsum og ætlunin var að segja upp yfir 900 spítalastarfsmönnum fyrir langtum minni fjárhæð en ICESAVE OPNI OG ÓVISSI TÉKKINN yrði í besta falli. Og þúsundir manna hafa flúið land. Það eru ærulausir foreldrar og ærulausir menn sem þora ekki að standa upp gegn valdníðslu pólitíkusa og kjósa frekar að sættast bara á í fáfræði og roluskap að gera æsku landsins að vinnuþrælum.
NEI OG AFTUR NEI.
Elle Ericsson.
Taldi synjunina auka atvinnuleysi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 11:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.2.2011 | 21:57
Bréf frá félagsmanni Þjóðarheiðurs
Ég legg til að það verði hafin ný undirskriftasöfnun þar sem þess er krafist að forsetinn rjúfi þing og boði til kosninga, fyrr losnum við ekki undan þessum ICESLAVE- og ESB-áróðri þar sem það er vitað með vissu, held ég, að ICESLAVE á að vera aðgöngumiðinn inní ESB hjá þessari ríkisstjórn enda hennar eina kosningaloforð sem hún hefur staðið við að vinna af fullum krafti í á meðan fólkinu í landinu blæðir.
Marteinn Unnar Heiðarsson.
26.2.2011 | 12:50
Hið vitlausa Moody's-mat
- Moody's snýr öllum hlutum á haus.
- Nú heitir það gott að skulda sem mest.
- Með okið á bakinu erum við laus
- við áhættu' á hruni og lánshæfisbrest.
- Að standa á réttinum stoðar þig lítt,
- því staðreynd er þetta: að svart er hvítt.
Makalaust vitlaust er lánshæfismat Moody's, þó harðneitaði stjórnarmeirihlutinn þeirri beiðni hins íslenzka greiningarfyrirtækis GAM Management hf. (GAMMA*) að kallað yrði eftir öðru lánshæfismati erlendis frá. Um málið var fjallað í fréttaskýringu eftir Örn Arnarson í viðskiptablaði Morgunblaðsins í fyrradag: Höfnun Icesave gæti sent lánshæfið í ruslflokk. Þar er ýtarlega sagt frá dómsdagsspám Moody's og þeirri fráleitu fullyrðingu þess, að samþykkt hinna óvissu Icesave-reikninga styrki lánshæfi Íslands. En þið megið ekki fara á mis við þetta söguyfirlit sem þar fylgir í grein Arnar:
- Matið í hæstu hæðum fyrir bankahrunið 2008
- Moody's hefur lengi haft lánshæfi íslenska ríkisins í góðum metum og á síðustu árum hefur matsfyrirtækið fremur haldið að sér höndum við að lækka lánshæfismatið þó svo að augljóslega hafi tekið að syrta í álinn. Þannig mat Moody's lánshæfiseinkunn íslenska ríkið með allra traustasta móti í september 2008. Í febrúar árið undan hafði matsfyrirtækið veitt íslensku viðskiptabönkunum þrem hæstu lánshæfiseinkunn en það var meðal annars gert í krafti þess sem var talið traust staða ríkisins og mikil geta þess til að endurfjármagna bankakerfið ef það lenti í þrengingum.
- Íslenska ríkið var með hæstu lánshæfiseinkunn frá Moody's allt frá árinu 2002 til mars árið 2008. Þá lækkaði einkunnin niður í Aa1 sem er aðeins einu þrepi frá hæstu lánshæfiseinkunn. Í október sama ár lækkaði þó Moody's einkunnina niður í A1 en skuldabréfaútgefendur með slíka einkunn teljast þó vera í traustara lagi. Í desember sama ár var einkunnin lækkuð niður í Baa1 sem skilgreinist sem efri flokkur áhættusamra en þó fjárfestingarhæfra útgefenda. Það var ekki fyrr en í nóvember árið 2009 sem íslenska ríkið fékk einkunnina Baa3 með neikvæðum horfum, en það er lægsti flokkur fjárfestingarhæfra útgefanda. Einkunnin hefur verið þar síðan þá. (Morgunblaðið, 24. febr. 2011, viðskiptablað, s. 4. Sami viðskiptablaðamaður Morgunblaðsins, Örn Arnarson, á aðra stærri, mjög athyglisverða grein í sama blaði: Milli skers og báru vegna Icesave.)
Um þetta matsmál er ennfremur fjallað í góðum leiðara Mbl. í dag: Spádómar Moody's ("Fyrirtækið gaf íslensku bönkunum hæstu einkunn rúmu ári fyrir bankahrunið ...").
Við höfum vegið og metið og léttvægt fundið þetta sennilega keypta lánshæfismat Moody's** í pistlum hér á vef Þjóðarheiðurs:
- Micha Fuchs: Moodys and Iceland. (Fjallar líka almennt og á afhjúpandi hátt um Moody's.)
- Loftur Þorsteinsson: Ósæmileg framganga matsfyrirtækisins Moody's
- Ennfremur þessi grein á vef undirritaðs: Tökum ekki mark á þessu ótrausta lánshæfismati Moody's
Jón Valur Jensson.
* Sjá umsögn GAMMA.
** Margt virðist benda til, að kaupandinn sé Steingrímur J. Sigfússon og hans Icesave-sálufélag, en ríkissjóður látinn borga reikninginn. Ef það reynist ekki rétt, má vel vera, að Bretar hafi tekið að sér að borga reikninginn í þetta eina sinn. Hinu skal ekki gleymt, að lánshæfismat þessa Moody's var það eina, sem Icesave-stjórnin vildi kaupa undir lok ársins 2010 til að segja til um "álit umheimsins" á Icesave-III-samningnum ...
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)