Færsluflokkur: Fjármál

Afhjúpuð ríkisstjórn – óbærilegir vextir af engu!

"Hvaðan ætlaði fjármálaráðherrann að taka 110 milljarða í erlendum gjaldeyri til að gefa Bretum og Hollendingum í vexti af gerviskuld?" (og það einungis fram til 1. okt. sl. – meira mundi bætast við!). Þannig spurði undirritaður í grein sinni í Morgunblaðinu í fyrradag: Ríkisstjórnin stendur uppi afhjúpuð í Icesave-málinu. Hún hefst þannig:

Í nýútkominni bók Sigurðar Más Jónssonar um Icesave-málið er það í raun staðfest, sem margsagt hafði verið í pistlum á vef Þjóðarheiðurs í haust, að þrátt fyrir að eignasafn Landsbankans gamla nægi til að borga allar Icesave-höfuðstólskröfurnar (upp að í mesta lagi 20.887€ á hverja), þá hefðum við Íslendingar samt þurft, skv. Icesave I, að greiða Bretum og Hollendingum gríðarlegar, óafturkræfar vaxta-fjárhæðir, sem hefðu leikið samfélag okkar grátt – kollsteypt ríkissjóði eða valdið hér ómældum hörmungum.

Samkvæmt útreikningum Sigurðar Más næmi gjaldfallin upphæð óafturkræfra Icesave-vaxta vegna Svavarssamnings, til 1. okt. sl., 110 milljörðum króna!

Hvar ætlaði fjármálaráðherrann og viðhlæjendur hans að taka þessa peninga? Þetta er margfalt á við allt það sem þó hefur verið skorið niður í ríkiskerfinu frá bankakreppunni.

Hvar væri þjóðin nú stödd, ef Steingrímur og Jóhanna hefðu komizt upp með að leggja Icesave-byrðina á bökin á okkur? Hvernig væri hér umhorfs, ef forseti Íslands hefði ekki komið okkur til bjargar? Hvað ef grasrótin og sjálfvakin samtök hefðu ekki beitt sér í málinu með skrifum og undirskriftasöfnunum, gegn sameinuðu afli stjórnmálastéttar, atvinnurekenda, verkalýðsrekenda og sameinaðra álitsgjafa í ríkisstjórnarþægum fjölmiðlum?

Hver voru þessi sjálfvöktu samtök? Jú, InDefence-hópurinn, Þjóðarheiður – samtök gegn Icesave (thjodarheidur.blog.is), AdvIce-hópurinn og Samstaða þjóðar gegn Icesave (Kjósum.is). Bók Sigurðar Más er ýtarleg úttekt á Icesave-málinu. Þó hefur hann að mestu gengið framhjá hlut þessara samtaka, og vekur það nokkra furðu. En þetta var útúrdúr.

17. nóv. sl. upplýsti skilanefnd Landsbankans, að endurheimtur bankans væru orðnar um 1340 milljarðar, um 25 milljarða umfram forgangskröfur, en þar eru bæði Icesave-kröfur og heildsölulán.

Höfum hugfast, að ofgreiddir vextir vegna Icesave-krafna Breta og Hollendinga myndu ekki teljast til forgangskrafna og væru að öllu eða langmestu leyti óafturkræfir, ef þeir hefðu verið reiddir fram úr illa stöddum ríkissjóði Íslands, sem bar raunar engin skylda til slíkra greiðslna!

Svo átti að greiða þetta allt í erlendum gjaldeyri, sem er torfenginn í svo miklum mæli, og hefði það haft áhrif til lækkunar á gengi krónunnar og aukið á verðbólgu.

–––––––––––––––––

Þetta var tæplega hálf greinin. Undirritaður mun fjalla nokkuð um þetta mál í vikulegum þætti sínum á Útvarpi Sögu á morgun, þriðjudaginn 13. des., kl. 12.40–13.00. Þátturinn er endurtekinn á föstudag kl. 18.

En ljóst er, að lúmskir samningamenn Breta og Hollendinga léku þarna á Svavarsliðið eins og ekkert væri – tryggðu sér það í samningnum, að fyrst skyldum við borga vextina, því að þeir yrðu þó alltaf óafturkræfir! – já, jafnvel þótt höfuðsstólsskuld Tryggingarsjóðsins reyndist engin, þegar búið væri að skoða eignasafnið!

Og við þessu gleyptu þau öll og börðust fyrir að láta okkur borga þetta, þau Svavar og Indriði, heimspekingurinn Huginn (verið eitthvað sveimhuga þá eins og fleiri), Jóhanna sem aldrei las samninginn, Össur Esb-þjónn, sem hefur trúlega bara verið að hlýða kallinu – ekki skyldunnar, heldur Esb. – Steingrímur Joð og Ketill skrækur, ásamt öðru fylgdarliði, prúðbúnu, en illa að sér í refskák gamalla nýlenduvelda.

Forsetinn bjargaði málinu – og þjóðin sjálf, á því er enginn vafi.

Jón Valur Jensson.


Hefðum þurft að greiða 110 milljarða fram að þessu í ÓAFTURKRÆFA VEXTI vegna Icesave!

Í nýútkominni bók Sigurðar Más Jónssonar um Icesave-málið kemur það fram, sem ítrekað hafði verið á bloggsíðu Þjóðarheiðurs í pistlum í haust, að þrátt fyrir að eignasafn Landsbankans gamla nægi til að borga upp allar Icesave-höfuðstólskröfurnar (upp að í mesta lagi 20.887€ á hverja), þá hefðum við Íslendingar samt þurft, skv. Icesave I, að greiða Bretum og Hollendingum gríðarlegar og óafturkræfar VAXTA-fjárhæðir, sem hefðu leikið samfélag okkar afar grátt og ýmist kollsteypt ríkissjóði eða valdið hér ómældum hörmungum. Óafturkræfar væru þær, af því að vaxtakröfur í þrotabú teljast ekki til forgangskrafna.

Samkvæmt útreikningum Sigurðar Más (sjá bls. 187 í bók hans) næmi þessi gjaldfallna fjárhæð, þar til 1. október sl., er bók hans var tilbúin til prentunar, 110 milljörðum króna! – Hvar ætlaði fjármálaráðherrann og viðhlæjendur hans að taka þessa peninga?! Hér er lokað spítölum og deildum, allt dregið saman nema helzt í sukk og óhóf, t.d. í aðstoðarmenn ráðherra, sem fá hækkun nú, en ríkisstjórnin vildi fjölga þeim upp í 31 manns!

Og meðan lokað er meirihluta Landakotsspítala til að spara 100 milljónir, taldi (og telur enn?!!!) fjármálaráðherrann, að rétt hefði verið að fleygja ellefu hundruð sinnum hærri fjárhæð í óafturkræfa gjöf til Breta og Hollendinga!!!

Hvar á byggðu bóli getur vanhæfari stjórnvöld? Ætli þeim veiti nokkuð af 31 aðstoðarmanni? Þeim verður þó engin hjálp í þeim öllum, ef ríkisstjórnin sjálf fær að ráða, hvaða vildarmenn hennar hreppi þær stöður.

Það er alveg ljóst, að Evrópusambandið tók í þessu máli afstöðu með Bretum og Hollendingum og að ýtt var þaðan á Samfylkinguna og Jóhönnustjórnina (jafnvel fyrir formlegan upphafs-starfsdag hennar) um að leggjast hundflöt fyrir kröfum brezkra og hollenzkra stjórnvalda.

Þjóðin á enn eftir að gera upp þessi mál í kosningum. 

Jón Valur Jensson. 


Icesave-kandídatinn kosinn þrátt fyrir andstöðu meirihluta sjálfstæðismanna

Flokkseigendafélagið bar sigur úr býtum á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, þungaviktin í Valhöll og hagsmunatengda liðið, en 45% landsfundarmanna stóðu þó á móti Icesave-þingmanninum. Þau 45% áttu stuðning grasrótarinnar og landsbyggðarinnar.

Votta ber almennum sjálfstæðismönnum samúð vegna þessarar niðurstöðu. Réttast hefði verið, að landsfundur veitti Bjarna Benediktssyni verðskuldaða ráðningu – já, öðruvísi ráðningu! – vegna svika hans við þá stefnu síðasta landsfundar að hafna beri með öllu ólögmætum kröfum Breta og Hollendinga í Icesave-málinu. Sjá um það mál nánar hér á vefsíðunni, í mörgum nýjum greinum.

Jón Valur Jensson.


mbl.is „Óendanlega þakklátur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hanna Birna gagnrýnir Icesave-Bjarna, sem sjálfur VER stefnu sína þvert gegn síðasta landsfundi!

Hanna Birna Kristjánsdóttir gagnrýndi Bjarna, formann flokks síns, "fínlega" vegna afstöðu hans í Icesave-málinu skv. Rúv-frétt kl. 18. „Þetta er prinsipmál, sem snýst um það eitt að íslenskur almenningur á aldrei, og ég endurtek aldrei, að sitja uppi með reikninga sem fyrirtæki skilja eftir sig þegar allt fer á versta veg," sagði hún, ennfremur að ríkisstjórnin hefði ítrekað reynt að skuldbinda íslenzka skattgreiðendur vegna Icesave-reikninganna.

En Bjarni Benediktsson lætur ekki skipast, hefur enn ekki iðrazt afstöðu sinnar með samþykkt Icesave III, þvert gegn þjóðarviljanum og þrátt fyrir að samþykkt þeirra ólaga hefði lagt á saklausa þjóðina gríðarlegar vaxtagreiðslur, tugi milljarða á ári hverju, fé sem hefði EKKI talizt til forgangskrafna, þegar greitt yrði að endingu úr þrotabúinu og væri því óafturkræft!

Hart er í ári nú hjá ríkinu, með miklum samdrætti, en hann væri margfaldur á við það, sem nú er, ef við hefðum samþykkt Icesave III. Ætlar formaður Sjálfstæðisflokksins aldrei að skilja þetta? Þykist þessi maður fær um að stjórna landinu?

Lesið hér um læpuskaps-ódygðir og vælugang hans á þessum landsfundi:

  • Í ræðu sinni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sagði Bjarni Benediktsson að hann hefði tekið það mjög nærri sér er hann fann að flokkurinn hafi ekki verið samstíga í Icesave-málinu.
  • „Mestu skiptir að vera heill og trúr sannfæringu sinni og gera allt sem best er fyrir hagsmuni íslensku þjóðarinnar [svo! – innskot jvj.],“ sagði Bjarni er hann ræddi um klofninginn innan flokksins vegna Icesave. (Af vef Ruv-is.)

Bjarni Ben. er óiðrandi syndari í þessu máli – og biðlar þó til flokksmanna sinna um stuðning, eftir að hafa þverbrotið gegn einarðri stefnu síðasta landsfundar á undan í þessu Icesave-máli!

Fleiri greinar hér á síðunni um landsfundar- og Icesave-mál ! 

Jón Valur Jensson.


mbl.is Stjórnin sér háa skatta í hillingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gústaf Adolf Skúlason: Það er ekki "betri Svavar" sem Sjálfstæðisflokkinn vantar til að leiða þjóðina

Í setningarræðu sinni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 17. nóv sagði Bjarni Benediktsson:

  • "Ályktunin (nei við löglausum kröfum Breta og Hollendinga í Icesave-málinu) var í mínum huga fyrst og fremst til að brýna þingmenn flokksins og aðra til að standa órofa vörð um hagsmuni lands og þjóðar. Það gerði ég ásamt öllum þingmönnum, jafnt þeim sem greiddu atkvæði með síðasta samningi (Icesave III) og þeim sem stóðu gegn honum."

Liðhaup Bjarna Benediktssonar og meirihluta þingliðs sjálfstæðismanna, er þeir gengu í lið ríkisstjórnarinnar í Icesave III, neyddi þjóðina til að rísa upp eina ferðina enn til að endurtaka sama boðskap og öllum var kunnur: Nei við Icesave. – Við borgum ekki skuldir óreiðumanna.

Varnir formanns Sjálfstæðisflokksins fyrir svikum sínum eru, að Icesave III hafi verið "gjörbreyttur samningur vegna 400 milljarða króna afsláttar," þar sem tillit var tekið til "gagnrýni talsmanna þjóðargjaldþrotasamninganna." Bara ef hægt væri að ná betri samning en Svavari Gestssyni og ríkisstjórninni hafði áður tekist væri það rétt, að þjóðin tæki skuldasúpu Landsbankans á sínar herðar. Bjarni fullyrðir, að Icesave III hafi verið í þágu hagsmuna lands og þjóðar! Gerir hann engan greinarmun á þeim, sem lögðu til samninginn og greiddu honum atkvæði og þjóðarmeirihlutanum, sem felldi samninginn. Samkvæmt Bjarna Benediktssyni stóðu báðar fylkingarnar "vörð um hagsmuni þjóðarinnar". Einn þingmaður Sjálfstæðismanna hótaði m.a. með innrásarliði górillu-innheimtumanna Breta og Hollendinga, ef Íslendingar segðu ekki já við afarkostum Icesave III.

Þjóðin stóð á hagsmunum sínum og ekkert bólar á górillum enn sem komið er. Lýðskrumurum af Jöhönnu og Steingrímstegund hefur hins vegar fjölgað.

Ég vona, að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sjái, heyri og skilji þá samstöðu, sem þjóðin sýndi í Icesave-deilunni, þótt meirihluti þingflokks þeirra ásamt formanni flokksins hafi hafnað áskorun 40 þúsund Íslendinga um að draga Icesave III til baka og tekið afstöðu gegn hagsmunum þjóðarinnar.

Það var aldrei meining Bjarna, að þjóðin ætti að vera frjáls undan Icesave-klafanum. Hann vildi bara slá sjálfan sig sleginn til riddara sem betri samningamann en Svavar Gestsson. Þannig ætlar Bjarni Benediktsson líka að nota tækifærið varðandi ESB-samninginn, þegar afhenda á fullveldi Íslands til embættismannanna í Brussel. Ef "ríkisstjórnin þráast við og heldur viðræðunum til streitu" ætlar Bjarni enn á ný að skunda með liði sínu á vettvang og bjarga vonlausustu ríkisstjórn Íslandssögunnar með "betri" ESB-samning.

Vonandi hafa landsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins bæði kjark og þor, að bjarga formannsstóli sínum frá Bjarna Benediktssyni. Formannstóllinn tilheyrir foringja, sem leiða á þjóðina í nýrri sjálfstæðisbaráttu hennar í breyttum heimi, þar sem óveðurskýin dragast saman á himni.

Í það verkefni þarf persónu með aðra hæfileika en að vera bara betri Svavar í samningum.

Gústaf Adolf Skúlason.

Viðauki: Heiðrún Lind Marteinsdóttir, lögfræðingur og sjálfstæðiskona, er í Vikulokunum á Rás 1 við birtingu þessarar greinar. Hún er stuðningsmaður Bjarna á landsfundi, en segir þó aðspurð, að afstaða hans til Icesave III "hái honum" í kosingabaráttu hans á landsfundinum og að sjálf hafi hún verið einörð í andstöðu sinni við Icesave III. –Aths. JVJ.

Lesið ennfremur eftirfarandi nýlega pistla hér:


mbl.is Stjórnmálaályktun lögð fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær, ef nokkurn tímann, las Jóhanna Sigurðardóttir allan Svavarssamninginn? - og um hrikalegar afleiðingar af samþykkt Icesave-samninga, þrátt fyrir endurheimtur!

Guðlaugur Þór Þórðarson alþm. benti á það í umræðu á Alþingi í morgun að vinnubrögð Jóhönnu Sigurðardóttur í Icesave-málinu hefðu einkennzt af pukri og launung og að "hæstv. forsætisráðherra" hefði samþykkt Icesave I án þess að hafa lesið hann og ennfremur ætlazt til þess af þingmönnum Vinstri grænna að þeir samþykktu hann án þess að hafa lesið hann.

Jóhanna svaraði fyrir sig, sagði rangt, að hún hafi ekki lesið samninginn, en orð hennar voru svo óskýr í því svari, að hún gæti allt eins átt við, að hún hafi lesið hann seinna!

Í dag bárust þau tíðindi, að skilanefnd Landsbankans upplýsti, að endurheimtur bankans séu nú orðnar um 1340 milljarðar, um 25 milljarðar umfram forgangskröfur, en þar eru bæði Icesave-kröfur og heildsölulán.

En við skulum áfram hafa hugfast, að ofgreiddir vextir vegna Icesave-krafna Breta og Hollendinga myndu EKKI teljast til forgangskrafna og væru því óafturkræfir, ef þeir hefðu verið reiddir fram úr illa stöddum ríkissjóði Íslands, sem bar raunar engin skylda til slíkra greiðslna! 

Jóhanna og Steingrímur samþykktu gríðarlegar vaxtagreiðslur, tugi milljarða á ári hverju, í öllum Icesave-lögunum, sem mættu svo mikilli andstöðu þjóðarinnar, en ekki stjórnmálastéttarinnar, ekki leiðandi manna í viðskiptalífinu, samtaka atvinnurekenda og – með fáum undantekningum – ekki háskólaspekinga, og hinar ólögmætu vaxtagreiðslur mættu ekki einu sinni andstöðu verkalýðsforystunnar, og virtist þá fokið í flest skjól fyrir alþýðu manna eða flestir sótraftar á sjó dregnir til að réttlæta rangindin. (Meira um þau í öðrum pistli hér eftir kvöldmat!)

Biðraðir lengjast nú í heilbrigðisþjónustunni, spítölum lokað (Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og St. Jósefsspítala í Hafnarfirði og verulegar takmarkanir víðar, m.a. á Húsavík, í sjálfu kjördæmi Icesave-árátturáðherrans Steingríms J.). Menn geta einnig litið á Landakotsspítala, þegar farið er að rökkva um kl. 18 dag hvern, og séð þar slökkt ljós á heilu hæðunum í báðum álmum hússins, í meirihluta hans!

Hvernig væri nú ástandið orðið, ef fjármálaráðherrann hefði fengið leyfi þings og þjóðar til að skrifa upp á ríkisábyrgð fyrir tugmilljarðakröfum um ÓAFTURKRÆFA VEXTI til Bretlands og Hollands?! Yfir 40 milljarðar áttu vextirnir að vera strax á fyrsta árinu og það í erlendum gjaldeyri – og svo bætt "rausnarlega" við, ár af ári! Og þessi maður situr enn á ráðherrastóli!

Jón Valur Jensson. 


Hanna Birna Kristjánsdóttir á öndverðum meiði við Bjarna Benediktsson í Icesave-máli

  Hver er afstaða þín til Icesave-málsins? – Þannig spyr Hjörtur J. Guðmundsson þennan frambjóðanda í formannskjöri Sjálfstæðisflokksins í fróðlegu viðtali í Mbl. í dag.* Svar Hönnu Birnu:

  • „Ég var algerlega á móti því að reynt væri að fara þá leið að semja um Icesave-málið og hengja þennan klafa á íslenska launþega. Ég fagna því að íslensk þjóð hafi fengið tækifæri til þess að hafna málinu og þetta ferli sýnir vel að þjóðin veit oft mun betur en stjórnmálamennirnir.“

Þetta svar sýnir vel, að Hanna Birna var ekki einungis andvíg samþykkt formannsins Bjarna og mikils meirihluta þingflokks Sjálfstæðisflokksins á svokölluðum Icesave-III-"lögum" – þeim sem þjóðin felldi í seinni þjóðaratkvæðagreiðslunni – heldur einnig á móti hjásetu mestalls sama þingflokks í afgreiðslu Icesave-II-laganna (fyrirvaralaganna, sem herra Ólafur Ragnar Grímsson staðfesti með sínum eigin viðbættu fyrirvörum í byrjun september 2009, en voru felld úr gildi á þessu ári).

Til hamingju með þessa afstöðu þína, Hanna Birna!

* Skiptir mestu að flokkurinn fylgi samþykktum landsfundar, Mbl. í dag, s. 6.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Vill hætta við ESB og halda í krónuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr öskunni í eldinn: ESB vill RÍKISTRYGGINGU á bankainnistæðum hér og nær FIMMFALDA á við tryggingu TIF áður!

Þetta kom fram í máli Lilju Mósesdóttur alþm. í ESB-þætti í Útvarpi Sögu í liðinni viku, þætti sem nú er endurtekinn. 100.000€ á innistæðutryggingin að verða í stað 20.887 áður – og nú á RÍKISSJÓÐI sjálfum! Þetta reyna þingmenn í viðskiptanefnd Alþingis að hindra að verði hér að veruleika með upptöku hinnar nýju ESB-tilskipunar um þetta mál. Vilja þeir fá undanþágu frá þeirri reglugerð, rétt eins og Norðmenn vilja líka, en í aðra átt. En stefna ESB er stórhættuleg.

100.000 evrur eru = 15.977.000 ísl. krónur! Upp að þeirri fjárhæð, sextán milljónum, vilja Brusselmenn, að íslenzka ríkið og allur almenningur verði ábyrgur fyrir bankainnistæðum fólks. En hvaða alþýðufólk á yfir fimm milljónir í banka?

Og hvers vegna ættu hin breiðu bök skattborgara að taka á sig drápsklyfjar til að tryggja oft illa fenginn, samanrakaðan auð hinna vellríku?

Þarna er um nær fimmfalda aukningu tryggingarinnar að ræða, hún öll sett á RÍKIÐ, þ.e. okkur, og sjá menn hér, að þarna er jafnvel úr öskunni farið í eldinn, miðað við það sem upp á borðinu var, þegar rætt var um hina alls ólögmætu leið, að ríkið skyldi ábyrgjast Icesave-reikninga Landsbankans.

Jón Valur Jensson. 


Steingrímur vanmetur tjón af hryðjuverkalögunum ekki síður en mikla vexti sem "hefðu hlaðist upp" vegna Icesave

Kostnaður Íslands væri "þegar orðinn um 40 milljarðar króna," "hefði síðasti Icesave-samningur verið samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu og ríkisábyrgð verið veitt á greiðslum Tryggingasjóðs innistæðueigenda og fjárfesta (TIF) á greiðslum til ríkissjóða Bretlands og Hollands," segir Þórður Gunnarsson viðskiptablaðamaður í fróðlegri grein í viðskiptablaði Morgunblaðsins sl. fimmtudag, 15. september.

Hann segir þar einnig:

  • "Samkvæmt samningum átti að greiða Bretum og Hollendingum 26 milljarða strax eftir veitingu ríkisábyrgðar, vegna tímabilsins frá gjaldþroti Landsbankans og fram að árslokum 2010 (þar af hefðu 20 milljarðar komið frá TIF).
  • Áfallnir vextir 1,75 milljarðar á mánuði
  • Þar sem útgreiðslur hafa ekki hafist úr þrotabúi Landsbankans, hefðu talsverðar vextir fallið til vegna þessa. Miðað við núverandi gengisskráningu Seðlabanka Íslands nema áfallnir vextir, samkvæmt Icesave-samningi númer III, um 1,75 milljörðum króna á mánuði. Á fyrstu átta mánuðum ársins hefðu því áfallnir vextir numið um 14 milljörðum króna, sem ríkissjóður Íslands hefði þurft að standa undir."

Miðað við kostnaðaráætlun um byggingu nýs gæzluvarðhalds- og öryggisfangelsis á Hólmsheiði, upp á 2,1 milljarð króna (sjá hér) – fé sem ríkissjóður hefur ekki ráð á að reiða fram á byggingartímanum og verður því að fela verkið einkaaðilum og leigja síðan byggingarnar af þeim – þá nema þessar vaxtagreiðslur, sem verið hefðu, ef Icesave-III hefði verið samþykkt, á hverjum 36 dögum jafngildi heils slíks fangelsis fullbúins! – og það mánuð eftir mánuð og ár eftir ár!

Og vissi Steingrímur ekki hitt, að þessir vextir væru ÓAFTURKRÆFIR, þó að meira en nóg myndi reynast vera í eignasafni Landsbankans?! Þar myndi aldrei reynast svo mikið fé, að allar kröfur fengjust greiddar og sízt vextir, enda komast þeir ekki nálægt því að teljast forgangskröfur.

En lítum aftur á grein Þórðar:

  • Matið breytist með hverri fréttatilkynningu
  • Þegar Icesave-samningurinn var kynntur í desember miðuðust kostnaðarforsendur við að útgreiðslur hæfust í júní á þessu ári. Uppfært mat sem samninganefndin kynnti í mars gerði ráð fyrir því að útgreiðslur hæfust í ágúst á þessu ári. Í nýjustu frétt fjármálaráðuneytisins af þrotabúi Landsbankans segir loks að vonir séu bundnar við að útgreiðslur hefjist seint á þessu ári. Mat stjórnvalda á því hvenær útgreiðslur úr búinu hefur því breyst með hverri fréttatilkynningu, en ekki er útséð með hvenær greiðslur hefjast.

Öll hefði þessi frestun útgreiðslna úr búinu leitt til meiri kostnaðar vegna Icesave-III-samningsins heldur en ráðuneytið og matsaðilar höfðu reiknað með.

Bætum nú við smá-upprifun ofangreinds með því að skoða undirfyrirsagnir greinar Þórðar (sem sjálf nefnist Vextir hefðu hlaðist upp):

• Áætlanir gerðu ráð fyrir að útgreiðslur úr búi Landsbankans hæfust í júní • Útgreiðslur ekki hafnar • Hefði síðasti Icesave-samningur verið samþykktur væri kostnaður Íslands orðinn 40 milljarðar króna 

Þjóðin og forsetinn reyndust velja rétt, en Steingrími skjátlaðist enn einu sinni. Samt fór hann fram með rakalausar fullyrðingar í öndverðum þessum mánuði (sjá þessa grein HÉR) og barði sér á brjóst, því að betur hefðu (að hans mati) Íslendingar samþykkt Icesave-III!! Þetta varð reyndar upphaf mikilla yfilýsinga, orðahnippinga og árekstra milli forsetans og ýmissa ráðherra, eins og allir vita, því að herra Ólafur Ragnar lét það ekki viðgangast, að með þessum hætti væri staðreyndum umsnúið og ráðizt um leið á ákvörðun hans og þjóðarinnar í vetur (sbr. hér: Ólafur Ragnar: Rannsaka á hvernig ríki ESB gátu stutt kröfur Breta og Hollendinga, sem hann segir fáránlegar).

Mál þetta mun seint fjara út. Ráðherrar og flokkar hafa enn ekki bitið úr nálinni með það. 

Ný sýndarmennsku-yfirlýsing?

En nú hefur Steingrímur enn á ný gengið fram með yfirlýsingu, sem virðist, í fljótu bragði séð, ætlað að bæta ímynd hans í tengslum við bankamálin, enda virðist ekki vanþörf á, sbr. til dæmis Icesave og nú síðast SpKef-málið, þar sem álitið er, að ríkið hafi tapað 30 milljörðum króna (já, á síðarnefnda málinu! – sjá hér: Landsbanki metur kostnað ríkisins vegna SpKef á 30 milljarða – og að margra mati vegna ákvarðana fjármálaráðherrans).

Hin nýja yfirlýsing Steingríms eða ráðuneytis hans gengur út á, að "beint tjón, vegna þess að Bretar beittu hryðjuverkalögum til að frysta eignir Landsbankans, hafi verið á bilinu tveir til níu milljarðar króna og líklegasta gildið sé um 5,2 milljarðar fyrir fyrirtækin í landinu."

Allt í einu virðist Steingrímur þannig kominn með bein í nefið til að snúa vörn í sókn og krefja Breta um bætur vegna hinnar stórskaðlegu beitingar hryðjuverkalaga þeirra gegn íslenzlum bönkum og lýðveldinu sjálfu ...

En ekki er allt sem sýnist. Í 1. lagi gerði Steingrímur EKKERT í þessu máli í meira en tvö og hálft ár, eftir að hann náði sæti fjármálaráðherra. En í 2. lagi eru þessar tölur hans um skaða Íslands vegna hryðjuverkalaganna sennilega margfalt vanmat. (Að vísu er tekið fram í matinu, að "flest bendi til þess að óbeint tjón sé mun hærra".)

Hér erum við að vísu komin út fyrir Icesave-málið. Þó var ítrekað minnt á það hér á vefsetrinu, bæði af stjórnarmönnum og almennum félagsmönnum Þjóðarheiðurs, að ráðherrum okkar og Alþingi stæði miklu nær að krefja Breta um skaðabætur vegna hryðjuverkalaganna heldur en hitt, að borga þeim eitt einasta penný vegna Icesave-skulda einkabanka.

Þar að auki, með orðum skarpgreinds verkfræðings, sem skrifaði okkur Lofti og öðrum í Þjóðarheiðri í gær: "Skaði Íslands af efnahagsárás Breta sem hófst haustið 2008 nemur þúsundum milljarða, ekki einstöku milljörðum." – Á sama máli er bæði undirritaður og nefndur Loftur Þorsteinsson. Ef við höfum á réttu að standa, skuldar fjármálaráðherrann þjóðinni skýringar á þessu frumhlaupi sínu.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Milljarða tjón vegna hryðjuverkalaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hún sagði það! - Hver? - Hún Álfheiður! - Hvað? - „Forsetinn á að fara á þing!“

Og þetta er sami forsetinn og mælti svo skörulega í sjónvarpsviðtali í gær um Icesave-gloríur innlendra og (sjá HÉR!) erlendra ráðamanna. Lítum nú á orð forsetans sem hann beindi á þeim ráðamönnum hér sem ábyrgir voru. Byrjum rólega, haltu þér, Steingrímur, já og þið, Álfheiður og Jóhanna.

Forsetinn taldi, að skynsamlegra hefði verið að bíða þess, að þrotabú Landsbankans yrði gert upp, heldur en hitt að „fallast á fáránlegar kröfur Breta og Hollendinga um að íslenzk þjóð gengist í ábyrgð fyrir Icesave-skuldinni“.

Og svo sagði hann fleiri sannleiksorð:

  • „Það var ekki gert heldur var bara látið undan þessum þrýstingi. Menn beygðu sig fyrir þessu ofbeldi af hálfu Evrópuþjóðanna og samþykktu fyrst samning sem var svo óheyrilegur að ekki aðeins hrópaði íslenska þjóðin hann af heldur hlupu Bretar og Hollendingar frá honum strax nokkrum mánuðum eftir að ákveðið var að setja á þessa þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Hér var það ekki barnið, sem sagði sannleikann um keisarann, heldur forsetinn sem sagði sannleikann um afglöp þeirra sem hann fól stjórnartaumana eftir hálfgert byltingarástand í landinu. Eins og segir í leiðara Morgunblaðsins í dag:

  • Það er vissulega sérstætt og orkar tvímælis þegar þjóðhöfðingi, sem er ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum, setur svo harkalega ofan í við réttkjörin stjórnvöld landsins. En forsetanum er nokkur vorkunn þegar fjölmiðlar lepja afkáralegar útleggingar fjármálaráðherrans athugasemdalaust upp og aðrir réttbærir aðilar verða ekki til að grípa til andsvara eða fá ekki tækifæri til þess. 

Þarna er í leiðaranum vísað til nýlegrar viðleitni Steingríms til að snúa sannleikanum um Icesave á hvolf í sjónvarpinu fyrir helgina. Meira þungaviktarefni er um málið í leiðaranum.

En lesið fréttina á Mbl.is (tengill neðar). 

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Vill forsetann í framboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband