Færsluflokkur: Vefurinn

Lilja Mósesdóttir um Icesave-nauðasamninga

Lilja víkur orðum að málinu þannig:

Kröfuhafar gömlu bankanna og útrásarvíkinganna leita enn leiða til að koma kröfum sínum yfir á skattgreiðendur í stað þess að láta gömlu bankana og útrásarvíkingana borga. Forysta stjórnarflokkanna hefur ýtt undir þessa viðleitni kröfuhafanna með ítrekuðum nauðsamningum um „Icesave skuldbindinguna“, andstöðu við almennar skuldaleiðréttingar sem hefðu rýrt eignir kröfuhafa og stuðning við gjaldeyrishöft sem koma í veg fyrir að aflandskrónur og aðrar eignir kröfuhafa verði afskrifaðar. Á bak við aflandskrónurnar og eignir kröfuhafa gömlu bankanna voru einkaskuldir fyrirtækja sem fóru í þrot. Þjóðarbúið hefur því ekki efni á að greiða út þessar aflandskrónur og eignir kröfuhafa ...

Sjá nánar þessa nýju grein á vefsíðu hennar: Þjóðnýting einkaskulda -- almenningur blóðmjólkaður.


Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, VR: Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, hefur ekkert umboð né leyfi til að valta yfir sína 120.000 félagsmenn og tala í nafni þeirra með Icesave-III

Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir Hún segir það ekkert leyndarmál, að Gylfi Arnbjörnsson er stuðningsmaður Jóhönnu Sigurðardóttur. Guðrún Jóhanna var í viðtalsþætti hjá Bjarka Steingrímssyni og Lúðvík Lúðvíkssyni. Þar kom ýmislegt skrýtið í ljós um VR. 

Hún tók undir með Lúðvík, að Gylfi hefði brugðizt sínum skjólstæðingum, en Lúðvík orðaði það svo, að þar hefði Gylfi "mokað [Icesave-]flórinn" fyrir sína pólitísku samherja – að sínum 120.000 félagsmönnum forspurðum.

Heyrt á Útvarpi Sögu í endurflutningi, en þátturinn hefur trúlega verið á dagskrá 4. apríl.

Jón Valur Jensson. 


Leikur að kulnuðum glóðum kommúnismans

 

Það er rétt hjá Hr. Jóhönnu að trúverðugleiki ríkisstjórnarinnar er enginn ! Hins vegar er það ekki ímyndar-vandi, eins og Sossunum er gjarnt að halda fram. Vantrú á Icesave-stjórninni stafar af getuleysi hennar og yfirgangi. 

 

Hagsmunir almennings eru fyrir borð bornir í hverju málinu á fætur öðru. Hugsunarlaust óðagot og ofstækisfull einsýni einkenna öll störf valdstjórnarinnar. Icesave-málið er dæmigert fyrir lotningu ríkisstjórnarinnar fyrir erlendu valdi. Við bætist sú framandi hugmyndafræði, sem báðir stjórnarflokkarnir tilbiðja.

 

Að kenna öðrum um eigin mistök hefur verið aðalsmerki Hr. Jóhönnu alla þá áratugi sem hún hefur setið við ríkisjötuna. Um vöntun á trúverðugleika ríkisstjórnarinnar sagði hún:

 

  • »Því er hins vegar ekki að leyna að sá óróleiki sem verið hefur í samstarfi við hluta þingflokks Vinstri grænna hefur skaðað stjórnarsamstarfið og dregið úr trúverðugleika ríkisstjórnarinnar. Vegna órofa samstöðu innan Samfylkingarinnar og traust samstarf við formann og stærsta hluta VG hefur þetta hins vegar ekki stöðvað framgang mikilvægra mála ríkisstjórnarinnar.«

 

Hver eru þessi mikilvægu mál sem Hr. Jóhanna segir að ekki hafi tekist að stöðva ? Getur verið að hún telji mikilvægt að fórna sjálfstæði landsins sem friðþægingu á altari heims-kommúnismans ? Getur verið að Hr. Jóhanna telji Icesave-kröfurnar vera gott tækifæri til að beygja sig – sú líkamsrækt sem forsætisráðherra landsins kýs heldst ?

 

Hr. Jóhanna verður örugglega sannspá, þegar hún lýsir ótta sínum um endalok ríkisstjórnarinnar. Leikur hennar að »kulnuðum glóðum kommúnismans« er engin leikur heldur dauðans alvara. Íslendinga vegna ætti hún að láta þessum leik lokið.

 

Loftur Altice Þorsteinsson. 


mbl.is Eru að leika sér að eldinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt niðurstaða Hæstaréttar en rangar forsendur !

Merkilegt má telja að Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu, að vegna tæknilegra vankanta verði ekki komist hjá ógildingu. Að mínu mati voru þessir tæknilegu vankantar minni háttar, en efnislegir gallar hins vegar stórkostlegir. Hvers vegna kærði enginn vegna hinna efnislegu galla ?

Efnislegir gallar á kosningunni til Stjórnlagaþingsins voru eftirfarandi og hugsanlega fleiri :

  1. Kynjahlutfall. Ákvæðið um jafnt hlutfall kynja á meðal fulltrúa á Stjórnlagaþingi var skýrt brot á mannréttindum. Það er ekki eðlilegra að setja svona ákvæði í kosningalög en varðandi aldur, eignastöðu eða að sköllóttir skuli vera jafnmargir og þeir sem eru hærðir um höfuðið.
  2. Atkvæðamagn. Í öllum venjulegum kosningum, þar sem haft er við hönd lýðræði, gildir sú regla að þeir hljóta kosningu sem flest atkvæði hljóta. Þessi einfalda regla var ekki virt í kosningu til Stjórnlagaþings. Margir þeirra sem fengu úthlutað (ólöglegum) kjörbréfum fengu færri atkvæði en þeir sem ekki fengu kjörbréf.

Bæði framangreind atriði eru efnisleg brot á mikilvægum grundvallaratriðum. Mun betur takast til við nærstu kosningar til Stjórnlagaþings ? Ekki getur það talist líklegt á meðan þjóðin býr við óhæfa ríkisstjórn og lélegt stjórnkerfi.

Loftur Altice Þorsteinsson.


mbl.is Jóhanna flytur skýrslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnvöld halda fram blekkingum. Hér má finna nokkur mótefni!

Áður en þingfundir hefjast síðdegis á morgun, er ástæða til að minna á skrif á bloggsíðu Þjóðarheiðurs – samtaka gegn Icesave:

Sérfræðiálit fjármálasérfræðinga til Alþingis: "Kostnaður gæti orðið 230 milljarðar" af Icesave-III

Einbeittur brotavilji?

Grunnhyggnir og gæfulausir lögfræðingar

Rúvið falsaði álit lögfræðinganefndarinnar um Icesave-III

Icesave-síbrotamenn, erlendir sem innlendir, halda áfram að þjarma að íslenzku þjóðinni

"Fjármálaráðuneytið áætlar að ríkissjóður þurfi að greiða 58,9 milljarða vegna Icesave fram til ársins 2016, þar af 26,1 milljarð á þessu ári og 10,4 á næsta ári." ...

Icesave-blekkingar og meiri Icesave-blekkingar

Hver sagði þetta? (Jú, þarna er skrifað um merka umfjöllun í leiðara Financial Times 15. desember sl., en hann var ekki beinlínis stuðningur við Steingrím og Jóhönnu).

Hörð gagnrýni í áliti InDefence-hópsins á Icesave-III-samning og frumvarp: samþykkir þetta EKKI, eins og það liggur fyrir

Leiðin út úr vandanum: "... Í fjórða lagi þarf að tilkynna Bretum og Hollendingum að ríkið muni ekki greiða Icesave-skuld þrotabús Landsbankans ..."


Ískalt mat er uppskrift að svikum

Íslendingar þurfa á annari leiðsögn að halda, en »ísköldu mati«. Þvert á móti þurfa fulltrúar landsmanna að hafa »hjartað á réttum stað«. Íslendingar sýndu hug sinn til Icesave-kúgunarinnar í þjóðaratkvæðinu 06.marz 2010 og niðurstaðan talaði skýrt til alls umheimsins.

Enginn ætti að leyfa sér að tala um »ískalt mat« þegar þjóðarheiður Íslendinga liggur við, að kúgun nýlenduveldanna verði hrundið. Evrópusambandið sjálft hefur úrskurðað að Íslendingum ber ekki að veita ríkisábyrgð fyrir kröfum Bretlands og Hollands á hendur einkafélagsins Landsbankanum. Þetta hafa óteljandi sérfræðingar staðfest, frá fjölmörgum löndum.

Hér skal sérstaklega minnt á nýgjlega ritgerð lögfræði-prófessorsins Tobias Fuchs. Þessi lögfræðingur er engin vinur Íslands, heldur er hann í störfum fyrir Evrópusambandið. Í ritgerð sinni segir hann meðal annars:

  •  

      »Í október 2008 þegar Ísland setti Neyðarlögin og endurskipulagði þannig stóru bankana sem voru í greiðsluþroti, var starfsemi þeirra að hluta til flutt til nýstofnaðra útlánastofnana og þar með var aðgangur að innistæðum í þeim áfram hnökralaus.

      Með þessari aðgerð voru innistæður í erlendum útibúum undanskildar (þar á meðal Icesave-reikningarnir, sem starfræktir voru á Netinu) og raunveruleg mismunun gerð (óbeint) á grundvelli ríkisfangs og (beinlínis) eftir búsetu, samkvæmt grein 40 EES.

      Mismunandi meðhöndlun af þessu tagi, er samt ekki óheimil samkvæmt lagabókstafnum og vegna erfiðra og fordæmislausra aðstæðna er ekki fyrirfram hægt að neita því, að þessar aðgerðir til endurreisnar Íslands eru réttlætanlegar.

      Með hliðsjón af því markmiði endurreisnarinnar – að vinna gegn yfirvofandi samfélagslegum óstöðugleika, sem gjaldþrota-skriða í hagkerfi landsins hefði óhjákvæmilega haft í för með sér – er deginum ljósara, að nauðsynlegt var að halda (að minnsta kosti til bráðbirgða) innistæðum í útibúunum utan við endurreisnina, til að hindra tafarlaus áhlaup á nýgju bankana.«

Nýgjasti úrskurður ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) staðfestir framangreinda niðurstöðu Tobias Fuchs. Mismunun er hluti af réttindum sjálfstæðra ríkja. Þetta á sérstaklega við gagnvart hagsmunum lands eins og Bretlands, sem hefur brotið stórkostlega af sér. Hér er auðvitað vísað til beitingar Hryðjuverka-laganna gegn hagsmunum Íslands.

Hvers vegna ætti almenningur á Íslandi að veita ríkissjóði Bretlands og Hollands fjárhagslegan stuðning ? Engar lagalegar eða siðferðilegar forsendur hafa verið tilgreindar sem leyfir slíka undirgefni. Þvert á móti banna reglur Evrópuríkisins ríkisstuðning við innlána-tryggingar. Hér á ekki við »ískalt mat«, heldur verða Alþingismenn að hafa »hjartað á réttum stað«.

Loftur Altice Þorsteinsson.


mbl.is Ískalt mat um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þriðji Icesave-svikasamningurinn verður lagður fram á Alþingi eftir 2½ sólarhring

Þetta er staðreynd, ekki hitt, að hann fái ekki afgreiðslu fyrr en eftir miðjan janúar. Nú er tími til umræðna, liðssafnaðar og mótmæla.

Enn er ógagnsæið ríkjandi, plaggið ekki komið í almenna kynningu. En að stjórnvöld hafi hörfað nokkuð og orðið fyrir skelli, er nú orðið almennt mat stjórnmálafræðinga (eins og Stefaníu Óskarsdóttur) og fjölmiðlamanna (eins og Páls Vilhjálmssonar og jafnvel Spegilsmanna Rúvsins). Vera má, að þrátt fyrir vilja Breta og Hollendinga til að fá málið "klárað" fyrir áramót (sjá neðar), hafi stjórnvöld hér hörfað frá þeirri stefnu, þegar þau sáu, að stjórnarandstaðan var ekki auðblekkt til fylgis við frumvarpið; hún stendur ekki að því (undarlegt raunar að þurfa að taka þetta fram sem frétt, en sjá um þetta umræðu á tilvísaðri vefslóð Páls Vilhjálmssonar).

Rúv gerir ekki mikið úr stórfrétt : að Steingrímur J. Sigfússon baðst í dag afsökunar á því að hafa lýst Svavarssamningnum sem "glæsilegum"! (nánar um það í annarri grein í kvöld).

En hér skal þrátt fyrir ofangreint endurbirt eftirfarandi grein undirritaðs á Vísisbloggi fra því fyrr í dag: 

Bretar vilja þvinga okkur til að samþykkja Icesave fyrir áramót!

Bretar halda áfram sínum bellibrögðum gagnvart Íslendingum og hafa Hollendinga með sér í bandi. Sífellt er reynt að gabba okkur til fylgis við nýja Icesave-samninga, sem alltaf eiga að taka hinum fyrri fram, en þessi byggir á ÓVISSU um eignasafn þrotabús Landsbankans og tilkall TIF (Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta) til einungis 52% af því sem þar reynist vera, en skilanefnd bankans er EINA heimildin um eignir þar í veðbréfum og öðru.

Eru sum þessara verðbréfa með kröfur í mikilvæg sjávarútvegsfyrirtæki og þar með aflakvóta á Íslandi? – er það þess vegna sem Bretar eru að sækja þarna á okkur þrátt fyrir að fjárkrafa þeirra á hendur íslenzka ríkinu sé með öllu ólögvarin? Gengur þeim þetta til, að komast yfir víðtækar aflaheimildir hér, með því að gjaldfella lántil útgerðarfyrirtækja árið 2016, og er þetta ástæðan fyrir því, að þeir vilja greinilega EKKI, að öll gögn verði lögð á borðið um innihald eignasafnsins?!

Íslendingar eiga mótmæla nú sem fyrr og ekki síður vegna þess, að Icesave-liðið brezka og "íslenzka" vill hespa þetta af í flýti fyrir 31. desember* – rétt eins og síðast! – og í þetta sinn með þrýstingi á forsetann líka að hann samþykki svínaríið. – En ríkisábyrgð á Icesave brýtur gegn 77. grein stjórnarskrárinnar (sjá hér: http://blogg.visir.is/jvj/2009/08/31/icesave-3/); ennfremur er óheimilt að veita ríkisábyrgð á neinu sem feli í sér óljósar fjárupphæðir (jafnvel svo nemur óþekktum sæg milljarða, eins og hér).**

Það er enginn tími til að halla sér á koddann sinn yfir þessu máli - fram með mótmælaspjöldin, og tökum öll eftir, þegar efnt verður til mótmæla!

* Skv. fréttum í dag, t.d. hér: http://visir.is/geta-sagt-icesave-samningnum-upp-eftir-aramot-/article/201028950047

** Heildarskuldbindingin yrði ekki 47 milljarðar króna, heldur að lágmarki 57 milljarðar og allt að hundruðum milljarða, því að þarna eru menn hér að treysta á, að það fáist út úr þrotabúinu, sem fullyrt er (byggt á einni munnlegri heimild!) að sé þar inni – já, og treysta á, að fyrirtækin sem skulda Landsbankanum gamla séu ekki á leiðinni á hausinn! – og treysta ennfremur á, að gengið haldist óbreytt!

Viðaukar:

Undirritaður hitti alþingismann í gær. Hann sagðist vera að lesa nýja samninginn – og rétti fram fingur til að sýna hve blaðabunkinn væri þykkur, um einn og hálfur sentimetri! Þetta er þó hátíð (svo framarlega sem allt er haft þarna með) fyrir alþingismenn í samanburði við Svavarssamninginn, en hann varð að draga með töngum út úr Icesave-stjórninni og það á drjúgum tíma, og fengu þingmenn þó (loksins) aðeins aðgang að honum í læstu herbergi í Alþingishúsinu og máttu ekkert ljósrita af honum né hafa með sér út – þvílík var leyndarhyggjan, enda sannarlega mikið að fela! – En hvenær fær almenningur að sjá nýja samninginn? Þetta eiga að vera meðal helztu krafna sem við gerum nú til stjórnvalda:

  1. Við viljum engan Icesave-samning, þjóðin hefur sýnt, að hún vill hann ekki og viðurkennir enga gjaldskyldu. (Sjá þessar tölulegu upplýsingar: Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave eftir landshlutum – og: Hartnær 60% aðspurðra segja: Við viðurkennum alls enga ábyrgð Íslendinga á Icesave-greiðslum til Bretlands og Hollands!)
  2. Við krefjumst þess að þegar í stað verði öll gögn um skuldunauta þrotabús Landsbankans gamla lögð á borðið – öðruvísi er ekki hægt að leggja skynsamlegt mat á þessi verðmæti..
  3. Við krefjumst þess, að Icesave3-samningurinn verði birtur þjóðinni á netinu nú þegar..

Varðandi 47 eða 57 milljarða lágmarkshöfuðstól skal bent á þessa forsíðufrétt í Morgunblaðinu í fyrradag: Bjartsýnni um 20 milljarða, þar sem segir m.a.:

  • Samninganefnd Íslands í Icesave-deilunni er bjartsýnni á endurheimtur úr þrotabúi Landsbankans en skilanefnd þessa sama banka. Samninganefndin gerir ráð fyrir að eignir bankans muni aukast að verðmæti um 20 milljarða og er verðmatið þeim mun hærra en sem kemur fram í mati skilanefndarinnar. Helmingurinn af þessari verðmætaaukningu renni til greiðslu á Icesave. Til að kostnaðaráætlun samninganefndarinnar standist mega eignir Landsbankans ekki lækka í verði.
  • Þá reiknar samninganefndin með að 23 milljarðar sem eru óáfallnir vextir af skuldabréfi Nýja Landsbankans til þess gamla gangi upp í Icesave en skilanefndin hefur ekki tekið þessar vaxtagreiðslur með í sínum útreikningum. 

(Sérstaklega þarf að fjalla hér um túlkun samninganefndarinnar og hvernig fulltrúi skilanefndarinnar lýsti ábyrgð á túlkun sinna upplýsinga á hendur þeim, sem leyft höfðu að túlka þær að vild.)

Þetta með öðru sýnir, hve fallvalt er þetta mat samninganefndarinnar, sem fer ekki einu sinni eftir mati skilanefndarinnar! (Nánar hér í fréttaskýringargrein Þórðar Gunnarssonar í sama blaði: Aukið virði eigna Landsbankans skili Íslendingum 10 milljörðum.) Þar á ofan bætist annað vanmat í spádómum samninganefndarinnar. Það sést bezt á þessari frétt Þórðar Gunnarssonar í Morgunblaðinu í dag:

 

  • Gengisáhætta óbreytt í nýjum samningum
  • • Veikist gengi krónunnar um 10-20% gæti það kostað ríkissjóð tugi milljarða
  • Gengisveiking krónunnar um 10-20% gæti kostað ríkissjóð tugi milljarða króna, ef ríkisábyrgð á skuldbindingum tengdum Icesave verður fest í lög. Þetta er mat stærðfræðingsins Sigurðar Hannessonar. Krafa Tryggingasjóðs innistæðueigenda og fjárfesta í þrotabú Landsbankans nemur um 674 milljörðum króna og er fest í krónum. Skuldbinding sjóðsins gagnvart innistæðutryggingasjóðum Breta og Hollendinga er hins vegar í erlendri mynt.
  • Sigurður bendir á að ef krónan veikist muni endurheimtur á kröfum Tryggingasjóðs ná 100%. Heimtur umfram 100% renni hins vegar til almennra kröfuhafa Landsbankans en ekki íslenska ríkisins.
  • Bentu á áhættuna
  • „Á þetta atriði var bent þegar rætt var um síðustu Icesave-samninga og það hefur ekkert breyst með þessum nýju sem kynntir voru í síðustu viku. Það er ennþá mikil gjaldeyrisáhætta sem ríkissjóður gengst undir með þessum samningum. Þó svo að samið hafi verið um lægri vexti á láninu frá Bretum og Hollendingum þá er gjaldeyrisáhættan ennþá hin sama,“ segir Sigurður í samtali við Morgunblaðið.

 

 

Og hér er svo vísað til ýtarlegra viðtals við hann o.fl. um þetta á bls. 6 í Mbl. í dag (Gjaldeyrisáhættan mikil).

Jón Valur Jensson.


mbl.is Icesave verður stjórnarfrumvarp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úrslit dóms um neyðarlögin sögð geta HÆKKAÐ Icesave-kröfur Breta og Hollendinga um tæpl. 470 milljarða króna

Hér er átt við: umfram þau 10% af rúml. 1300 milljarða forgangskröfunum sem slitastjórn gamla Landsbankans taldi ekki nást með eignasafni hans. Greint er frá þessu í kvöldfréttum Rúv og Sjórnvarpsins. Þannig er fréttin (nokkuð stytt) á Rúv.is:

  • Tekist á um neyðarlögin 
  • Stærsta kröfumál Íslandssögunnar er á leið fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur. Þar er tekist á um gildi neyðarlaganna og hvort innistæður föllnu bankanna fái forgang á aðrar kröfur. Verði lögin felld úr gildi, gæti kostnaður ríkissjóðs vegna Icesave aukist um hundruð milljarða króna.
  • Almennir kröfuhafar bankanna þriggja hafa í langan tíma mótmælt neyðarlögunum sem Alþingi setti í október 2008. Kannski engin furða því með þeim voru innistæður settar framar öðrum kröfum í bankana. Gamli Landsbankinn er þar undir sömu sök seldur og þar er tekist á um forgangskröfur vegna Icesave, samtals upp á ríflega 1300 milljarða króna eins og gengið á krónunni er um þessar mundir. Eins og útlitið er núna með eignir bankans, býst slitastjórn við að fá um 90% upp í forgangskröfur. Það breytist snögglega verði neyðarlögin, og þar með forgangur innistæðna, dæmdur ógildur, eins og fjölmargir kröfuhafar vilja. Þá má búast við að fáist aðeins um 30% upp í forgangskröfur. Munurinn þarna á milli er ríflega 900 milljarðar. Fari svo að á endanum yrði samið um Icesave, gæti íslenska ríkið borið ábyrgð á helmingnum - vegna ákvæða um lágmarkstryggingu - sem þýðir að fjárútlát vegna Icesave gætu í einu vetfangi hækkað um 4-500 milljarða. Sjö dómsmál sem öll snúast um gildi neyðarlaganna eru nú á leið fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur, og það er slitastjórn Landsbankans sem fær það hlutverk að verja neyðarlögin. Málið verður tekið fyrir á næstu vikum. Niðurstöðu er að vænta á næsta ári, og henni verður án efa áfrýjað í Hæstarétt. (Ruv.is.)

Hér er reyndar hvergi hamrað á rétti Íslendinga í málinu, ekki frekar en svo oft í fréttaflutningi Rúv. Það er ekkert í lögum og reglum um tryggingasjóði innistæðueigenda í Evrópu, sem kveður á um ríkisábyrgð á þeim.

Á sama tíma og um þetta er svo yfirborðslega fjallað í Rúv, berst sú frétt úr Stöð 2, að Össur Skarphéðinsson – sá hinn sami sem með afar ámælisverðum hætti LEYNDI mikilvægri skýrslu Mishcon de Reya um Icesave-málið – hafi í útlöndum verið spurður um Icesave og svarað á þá lund, að vel gengi að ná sameiginlegum skilningi deiluaðila (sem hann kallar líklega málsaðila) og að þar stefndi í, að niðurstaða fengist, sem báðir aðilar gætu sætt sig við. En hvernig skyldi það ganga upp?!

Þá fylgdi fréttinni að hann hefði tekið sérstaklega fram, að það væri engin deila um að höfuðstólinn ætti að greiða, einungis væri verið að ræða um, hverjir vextirnir ættu að vera!!!

Eigum við ekki að senda þessum manni og sökunautum hans í málinu skilaboð á næsta útifundi á Austurvelli með því að fjölmenna nú, Þjóðarheiðurs-félagar, með mótmælaspjöld okkar og bæta þar nýjum við? 

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Deilt um neyðarlögin fyrir dómi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave = tvöfalt tjón BP vegna mesta olíuslyss heimsins!

Fram kom nýlega í fréttum, að tjón BP vegna olíuslyssins magnaða í Mexíkóflóa nemur sem svarar 390 milljörðum ísl. króna. Þetta er gríðarlegt áfall fyrir einn af voldugustum auðhringum heimsins.

En þetta er ekki nema hálft Icesave, að ætla má (með vöxtum)! Það gæti reyndar hlaupið upp fyrir 1000 milljarða króna, að mati Jóns Daníelssonar hagfræðings, þ.e.a.s. ef hér bættist við um 30% gengisfelling.

Og allt vegna ólögvarinnar kröfu ríkisstjórna tveggja gamalla nýlenduvelda! 

Sjá einnig hér: Hugleiðingarefni

JVJ. 


Lögfræði Icesave

Stórmerk er grein eftir Lúðvík Gizurarson í Morgunblaðinu í dag: Lögfræði Icesave. Þar segir hann í upphafi:

  • ÞAÐ var í hádegisfréttum útvarps mánudaginn 19. apríl 2010 og haft eftir viðskiptaráðherra að hægt væri að hefja aftur viðræður við Breta og Hollendinga um Icesave. Semja mætti áfram og upp á nýtt. Vera í sama gamla farinu.
  • Lögfræðilega hefur viðskiptaráðherra ekki stjórnarfarslegt umboð til að gefa slíka yfirlýsingu. Ráðherra er bundinn af þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin var nýlega. Getur ekki farið að semja á svipuðum nótum og gert var áður um Icesave. Það var fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu að semja með þeim hætti. Breyta verður um stefnu.
  • Ef viðskiptaráðherra fer að semja gagnstætt úrslitum í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave ber Forseta Íslands að víkja viðskiptaráðherra úr embætti, þar sem hann er að taka sér stjórnsýsluvald, sem hann hefur ekki lengur að lögum samkvæmt réttri lögfræðilegri túlkun á Stjórnarskrá Íslands. Þetta segir greinarhöfundur sem hæstaréttarlögmaður í hálfa öld. Viðskiptaráðherra getur borið þetta undir Lagadeild Háskóla Íslands til að fá fram rétta lagatúlkun á áhrifum þjóðaratkvæðagreiðslunnar samkvæmt Stjórnarskrá Íslands. Ber að gera þetta, en víkja annars úr embætti.

Þarna tekur hann til orða með þeim hætti, sem sannarlega vekur athygli, en menn eru hvattir til að lesa grein Lúðvíks alla. Hann er þar með athyglisverða ábendingu um nýjar reglur um innistæðutryggingar hjá Evrópusambandinu, reglur sem hann telur geta orðið leiðarljós um lausn Icesave-málsins, en hann segir í lokaorðum sínum:

  • Það er hreint lögfræðilegt brjálæði, svo sannleikurinn sé sagður hreint út um þá stefnu stjórnvalda að byrja aftur upp á nýtt, að semja um Icesave samkvæmt gömlu reglunum. Þær eru ólöglegar og brot á stjórnarskrá ESB og Rómarsáttmálanum. Við eigum að snúa okkur til Evrópusambandsins og gera þá kröfu mjög ákveðið að Icesave verði látið bíða en falli undir þessar nýju reglur ESB þar sem 12-15 þjóðir ætla að taka sameiginlega á sig svona tap eins og Icesave er.
  • Gefum ekki eftir. Heimtum siðferðilegt réttlæti. Forðumst þjóðargjaldþrot. 

Við þökkum Lúðvík hans merku skrif og hvetjum ykkur til að lesa rökstuðning hans allan í blaðinu. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband