Þriðji Icesave-svikasamningurinn verður lagður fram á Alþingi eftir 2½ sólarhring

Þetta er staðreynd, ekki hitt, að hann fái ekki afgreiðslu fyrr en eftir miðjan janúar. Nú er tími til umræðna, liðssafnaðar og mótmæla.

Enn er ógagnsæið ríkjandi, plaggið ekki komið í almenna kynningu. En að stjórnvöld hafi hörfað nokkuð og orðið fyrir skelli, er nú orðið almennt mat stjórnmálafræðinga (eins og Stefaníu Óskarsdóttur) og fjölmiðlamanna (eins og Páls Vilhjálmssonar og jafnvel Spegilsmanna Rúvsins). Vera má, að þrátt fyrir vilja Breta og Hollendinga til að fá málið "klárað" fyrir áramót (sjá neðar), hafi stjórnvöld hér hörfað frá þeirri stefnu, þegar þau sáu, að stjórnarandstaðan var ekki auðblekkt til fylgis við frumvarpið; hún stendur ekki að því (undarlegt raunar að þurfa að taka þetta fram sem frétt, en sjá um þetta umræðu á tilvísaðri vefslóð Páls Vilhjálmssonar).

Rúv gerir ekki mikið úr stórfrétt : að Steingrímur J. Sigfússon baðst í dag afsökunar á því að hafa lýst Svavarssamningnum sem "glæsilegum"! (nánar um það í annarri grein í kvöld).

En hér skal þrátt fyrir ofangreint endurbirt eftirfarandi grein undirritaðs á Vísisbloggi fra því fyrr í dag: 

Bretar vilja þvinga okkur til að samþykkja Icesave fyrir áramót!

Bretar halda áfram sínum bellibrögðum gagnvart Íslendingum og hafa Hollendinga með sér í bandi. Sífellt er reynt að gabba okkur til fylgis við nýja Icesave-samninga, sem alltaf eiga að taka hinum fyrri fram, en þessi byggir á ÓVISSU um eignasafn þrotabús Landsbankans og tilkall TIF (Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta) til einungis 52% af því sem þar reynist vera, en skilanefnd bankans er EINA heimildin um eignir þar í veðbréfum og öðru.

Eru sum þessara verðbréfa með kröfur í mikilvæg sjávarútvegsfyrirtæki og þar með aflakvóta á Íslandi? – er það þess vegna sem Bretar eru að sækja þarna á okkur þrátt fyrir að fjárkrafa þeirra á hendur íslenzka ríkinu sé með öllu ólögvarin? Gengur þeim þetta til, að komast yfir víðtækar aflaheimildir hér, með því að gjaldfella lántil útgerðarfyrirtækja árið 2016, og er þetta ástæðan fyrir því, að þeir vilja greinilega EKKI, að öll gögn verði lögð á borðið um innihald eignasafnsins?!

Íslendingar eiga mótmæla nú sem fyrr og ekki síður vegna þess, að Icesave-liðið brezka og "íslenzka" vill hespa þetta af í flýti fyrir 31. desember* – rétt eins og síðast! – og í þetta sinn með þrýstingi á forsetann líka að hann samþykki svínaríið. – En ríkisábyrgð á Icesave brýtur gegn 77. grein stjórnarskrárinnar (sjá hér: http://blogg.visir.is/jvj/2009/08/31/icesave-3/); ennfremur er óheimilt að veita ríkisábyrgð á neinu sem feli í sér óljósar fjárupphæðir (jafnvel svo nemur óþekktum sæg milljarða, eins og hér).**

Það er enginn tími til að halla sér á koddann sinn yfir þessu máli - fram með mótmælaspjöldin, og tökum öll eftir, þegar efnt verður til mótmæla!

* Skv. fréttum í dag, t.d. hér: http://visir.is/geta-sagt-icesave-samningnum-upp-eftir-aramot-/article/201028950047

** Heildarskuldbindingin yrði ekki 47 milljarðar króna, heldur að lágmarki 57 milljarðar og allt að hundruðum milljarða, því að þarna eru menn hér að treysta á, að það fáist út úr þrotabúinu, sem fullyrt er (byggt á einni munnlegri heimild!) að sé þar inni – já, og treysta á, að fyrirtækin sem skulda Landsbankanum gamla séu ekki á leiðinni á hausinn! – og treysta ennfremur á, að gengið haldist óbreytt!

Viðaukar:

Undirritaður hitti alþingismann í gær. Hann sagðist vera að lesa nýja samninginn – og rétti fram fingur til að sýna hve blaðabunkinn væri þykkur, um einn og hálfur sentimetri! Þetta er þó hátíð (svo framarlega sem allt er haft þarna með) fyrir alþingismenn í samanburði við Svavarssamninginn, en hann varð að draga með töngum út úr Icesave-stjórninni og það á drjúgum tíma, og fengu þingmenn þó (loksins) aðeins aðgang að honum í læstu herbergi í Alþingishúsinu og máttu ekkert ljósrita af honum né hafa með sér út – þvílík var leyndarhyggjan, enda sannarlega mikið að fela! – En hvenær fær almenningur að sjá nýja samninginn? Þetta eiga að vera meðal helztu krafna sem við gerum nú til stjórnvalda:

  1. Við viljum engan Icesave-samning, þjóðin hefur sýnt, að hún vill hann ekki og viðurkennir enga gjaldskyldu. (Sjá þessar tölulegu upplýsingar: Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave eftir landshlutum – og: Hartnær 60% aðspurðra segja: Við viðurkennum alls enga ábyrgð Íslendinga á Icesave-greiðslum til Bretlands og Hollands!)
  2. Við krefjumst þess að þegar í stað verði öll gögn um skuldunauta þrotabús Landsbankans gamla lögð á borðið – öðruvísi er ekki hægt að leggja skynsamlegt mat á þessi verðmæti..
  3. Við krefjumst þess, að Icesave3-samningurinn verði birtur þjóðinni á netinu nú þegar..

Varðandi 47 eða 57 milljarða lágmarkshöfuðstól skal bent á þessa forsíðufrétt í Morgunblaðinu í fyrradag: Bjartsýnni um 20 milljarða, þar sem segir m.a.:

  • Samninganefnd Íslands í Icesave-deilunni er bjartsýnni á endurheimtur úr þrotabúi Landsbankans en skilanefnd þessa sama banka. Samninganefndin gerir ráð fyrir að eignir bankans muni aukast að verðmæti um 20 milljarða og er verðmatið þeim mun hærra en sem kemur fram í mati skilanefndarinnar. Helmingurinn af þessari verðmætaaukningu renni til greiðslu á Icesave. Til að kostnaðaráætlun samninganefndarinnar standist mega eignir Landsbankans ekki lækka í verði.
  • Þá reiknar samninganefndin með að 23 milljarðar sem eru óáfallnir vextir af skuldabréfi Nýja Landsbankans til þess gamla gangi upp í Icesave en skilanefndin hefur ekki tekið þessar vaxtagreiðslur með í sínum útreikningum. 

(Sérstaklega þarf að fjalla hér um túlkun samninganefndarinnar og hvernig fulltrúi skilanefndarinnar lýsti ábyrgð á túlkun sinna upplýsinga á hendur þeim, sem leyft höfðu að túlka þær að vild.)

Þetta með öðru sýnir, hve fallvalt er þetta mat samninganefndarinnar, sem fer ekki einu sinni eftir mati skilanefndarinnar! (Nánar hér í fréttaskýringargrein Þórðar Gunnarssonar í sama blaði: Aukið virði eigna Landsbankans skili Íslendingum 10 milljörðum.) Þar á ofan bætist annað vanmat í spádómum samninganefndarinnar. Það sést bezt á þessari frétt Þórðar Gunnarssonar í Morgunblaðinu í dag:

 

  • Gengisáhætta óbreytt í nýjum samningum
  • • Veikist gengi krónunnar um 10-20% gæti það kostað ríkissjóð tugi milljarða
  • Gengisveiking krónunnar um 10-20% gæti kostað ríkissjóð tugi milljarða króna, ef ríkisábyrgð á skuldbindingum tengdum Icesave verður fest í lög. Þetta er mat stærðfræðingsins Sigurðar Hannessonar. Krafa Tryggingasjóðs innistæðueigenda og fjárfesta í þrotabú Landsbankans nemur um 674 milljörðum króna og er fest í krónum. Skuldbinding sjóðsins gagnvart innistæðutryggingasjóðum Breta og Hollendinga er hins vegar í erlendri mynt.
  • Sigurður bendir á að ef krónan veikist muni endurheimtur á kröfum Tryggingasjóðs ná 100%. Heimtur umfram 100% renni hins vegar til almennra kröfuhafa Landsbankans en ekki íslenska ríkisins.
  • Bentu á áhættuna
  • „Á þetta atriði var bent þegar rætt var um síðustu Icesave-samninga og það hefur ekkert breyst með þessum nýju sem kynntir voru í síðustu viku. Það er ennþá mikil gjaldeyrisáhætta sem ríkissjóður gengst undir með þessum samningum. Þó svo að samið hafi verið um lægri vexti á láninu frá Bretum og Hollendingum þá er gjaldeyrisáhættan ennþá hin sama,“ segir Sigurður í samtali við Morgunblaðið.

 

 

Og hér er svo vísað til ýtarlegra viðtals við hann o.fl. um þetta á bls. 6 í Mbl. í dag (Gjaldeyrisáhættan mikil).

Jón Valur Jensson.


mbl.is Icesave verður stjórnarfrumvarp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: ÞJÓÐARHEIÐUR - SAMTÖK GEGN ICESAVE

Hér er frettin af Vísir.is:

Geta sagt Icesave samningnum upp eftir áramót

Sigríður Mogensen skrifar:

Nýju Iceasve samningarnir voru áritaðir með upphafsstöfum samninganefndarmanna Íslands, Bretlands og Hollands í London á fimmtudaginn. Áritunin er til vitnis um þá niðurstöðu sem fengin er í viðræðum ríkjanna.

Samningarnir verða ekki undirritaðir nema Alþingi hafi samþykkt lög sem veita fjármálaráðherra heimild til að staðfesta samningana. Drög að lagafrumvarpi þess efnis hafa verið smíðuð og verður frumvarpinu dreift á Alþingi í þessari viku. Verið er að semja greinargerð með frumvarpinu.

Í Icesave samningunum sem fréttastofa hefur undir höndum eru ákvæði um að Bretar og Hollendingar geti einhliða sagt sig frá samkomulaginu ef ákveðin skilyrði hafi ekki verið uppfyllt fyrir 31. desember næstkomandi. Meðal annars þurfi Alþingi að hafa samþykkt Icesave lögin og þau þurfa að hafa tekið gildi.

Segir í samningunum að lögin þurfi að hafa tekið formlegt gildi og að þau þurfi að vera orðin bindandi, þannig að ekki verði hægt að nema þau úr gildi með neinum hætti, til að mynda með þjóðaratkvæðagreiðslu. Með öðrum orðum þurfi Alþingi að hafa samþykkt lögin og forseti Íslands að hafa staðfest þau fyrir áramót. Eftir 31. desember geta Bretar og Hollendingar hætt við samkomulagið með tilkynningu til tryggingarsjóðs innistæðueigenda og íslenskra stjórnvalda.

ÞJÓÐARHEIÐUR - SAMTÖK GEGN ICESAVE, 13.12.2010 kl. 22:13

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Nú hefur þessi Icesave3-samningur verið birtur á www.icesave3.wordpress.com, sbr. hér á Eyjunni: http://eyjan.is/2010/12/14/icesave-samkomulagid-lekur-a-netid/. Þar með er krafa nr. 3 í viðaukanum hér ofar – reyndar ekki að frumvæði okkar þveru og rjózku Icesave-yfirvalda!

Jón Valur Jensson, 14.12.2010 kl. 02:31

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þar með uppfyllt!

Jón Valur Jensson, 14.12.2010 kl. 02:32

4 Smámynd: Sigurbjörn Friðriksson

Skoðanakönnun:

Er rétt að draga Streingrím J. Sigfússon fyrir Landsdóm, sem höfuðábyrgðarmanns “Svavars-samningsins”?

-

Takið þátt og farið inn á hlekkinn:

 -

http://gthg.blog.is/blog/gthg/

-

Með kveðju, Björn bóndi     

Sigurbjörn Friðriksson, 14.12.2010 kl. 14:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband