Hörð gagnrýni í áliti InDefence-hópsins á Icesave-III-samning og frumvarp: samþykkir þetta EKKI, eins og það liggur fyrir

InDefence hefur sent fjárlaganefnd umsögn um Icesave-III. Álitið er rangtúlkað af Rúv. Sannarlega það rétt kröfuáherzla InDefence að tryggt verði "að ísl. tryggingasjóðurinn fái forgangsrétt til eigna úr þrotabúi Landsbankans," en þetta er bara ein af fleiri kröfum hópsins og felur þar að auki ekki í sér neina viðurkenningu á greiðsluskyldu íslenzka ríkisins og almennings, enda er TIF (Tryggingasjóður innstæðueigenda og fjárfesta) einn lögaðili og ríkið annar; ríkið ber enga ábyrgð á Icesave og hefur aldrei gert – jafnvel heimild, sem meirihluti Alþingis gaf (með rangindum og stjórnarskrárbroti) fjármálaráðherranum Steingrími til að gefa út með undirskrift sinni ríkisábyrgð á Icesave, í lok ágúst 2009, gat hann ekki nýtt sér, vegna þess að skilmáli hennar var sá, að Bretar og Hollendingar samþykktu fyrirvara þeirra ólaga – en sem betur fer gerðu þeir það ekki, getum við sagt nú!

Villandi fréttaflutningur Rúv, sem kynnir álitið með þeim fyrstum orðum, að InDefence álíti Icesacve-III-samninginn "betri" en hina fyrri, kemur ekki neinum á óvart, sem fylgzt hafa með ötulli Bretavinnu á þeim bænum síðustu misserin. Ótal álitsgjafa hafa þeir t.d. fengið til að mæla með Icesave-I (Svavars-samningnum sem og fyrirvaralögunum), Icesave-II (ársloka-ólögunum 2009, þeim sem þjóðin felldi 6. marz 2010, með mestu hneisu fyrir ábyrgðarmenn þess samnings) og Icesave-III, en ALDREI virt okkur viðlits í Þjóðarheiðri, 80 manna samtökum, sem eru fulltrúar eindregnustu réttindasjónarmiða Íslendinga og eru þau einu sem eru 100% sammála meirihluta þjóðarinnar í þessu máli!

InDefence hópurinn á tröppum Bessastaða í byrjun síðasta árs.  Á fréttartenglinum hér fyrir neðan geta lesendur séð og stækkað myndina af InDefence-mönnum.

 

Það er samt ótrúlegt að upplifa það við krufningu á 18-fréttum sjálfs Ríkisútvarpsins, að þar sé enn reynt að sjanghaja álitsgerðir þjóðhollra manna í þágu stjórnvalda – að rangfæra þær í þá átt, að gefið sé í skyn, að þær feli fyrst og fremst í sér samþykki við nýgerðum svikasamningum. Álit InDefence-hópsins felur það alls ekki í sér, eins og sést af því, að ef eftir því yrði farið, gæti greiðsla ríkisins hugsanlega orðið engin, vegna þess að forgangsréttur TIF til eignasafnsins myndi e.t.v. duga til að borga upp allar kröfur til TIF. Þá væri jafnframt engin pressa lengur á íslenzka ríkið að ábyrgjast greiðslur TIF, enda var það aldrei í samræmi við íslenzk né evrópsk lög um málið.

En víkjum nú huganum frá Rúvinu, vinnubrögðin þar eru ekki svo uppörvandi.

Lesið þetta í Mbl.is-fréttinni um álit InDefence-manna:

  • Í umsögninni um nýja samninginn, sem gerður var nú í desember, segir að hann feli í sér ýmsar úrbætur frá fyrri samningi. Helstu áhættu- og óvissuþættir séu þó enn til staðar frá fyrri samningum. Einnig verði að hafa í huga að lögmæt greiðsluskylda að baki kröfunum sé ekki fyrir hendi. (Leturbr. Þjh.)

Þeir hnykkja sem sé á þessu grundvallaratriði, að greiðsluskyldan er engin! Þá taka þeir eftirfarandi fram (eins og við höfum líka gert ítrekað hér á vef Þjóðarheiðurs síðan í desember; leturbr. jvj):

  • Helstu áhættuþættirnir lúti að gengisáhættu og áhættu á matsverði eigna þrotabús Landsbanka Íslands, þótt óvissa um virði eigna Landsbankans sé minni en áður. Auk þeirrar áhættu viti enginn raunverulega á þessu stigi hve langt sé í að greiðslur inn á höfuðstól skuldarinnar hefjist.

Lesum áfram (leturbr. jvj):

  • Þá segir InDefence, að við meðferð fjárlaganefndar á fyrirliggjandi frumvarpi sé algjört grundvallaratriði að farið verði ýtarlega ofan í álit starfshóps fjárlaganefndar undir forystu Stefáns Más Stefánssonar lagaprófessors. Komi í ljós að áhættan sé viðunandi við að láta reyna á það grundvallaratriði hvort greiðsluskylda íslenskra skattgreiðenda á tugum milljarða sé yfirleitt fyrir hendi áður en sú greiðsluskylda er samþykkt með samningi, eigi það að vera fyrsti kostur íslenskra stjórnvalda að láta reyna á lögmæti krafnanna.

Ekki verður sagt að þetta hafi beinlínis verið óvönduð vinnubrögð hjá InDefence, en hitt er þá seinheppni og raunar stórundarlegt, ef hinn sami Stefán Már Stefánsson hefur nú snúið við blaðinu, eins og einhverjum gæti dottið í hug við að hlusta á fréttir í kvöld. Hneykslandi frétt Rúv kl. 18 er reyndar hér á vefnum með grófri yfirskrift starfsmanna útvarpsins: Nýr Icesave samningur betri (sic!!!), og þar er ekki aðeins sagt og skrökvað af áliti InDefence, heldur einnig birt þetta um álit fjögurra lögfræðinga, sem einnig var í fréttum kl. 18:

  • Fjárlaganefnd bað fjóra lögfræðinga, Stefán Má Stefánsson lagaprófessor, Stefán Geir Þórisson hæstaréttarlögmann, Dóru Guðmundsdóttur sérfræðing í Evrópurétti og Benedikt Bogason héraðsdómara, að skila áhættumati, færi Icesave-deilan fyrir EFTA-dómstólinn – samkvæmt heimildum fréttastofu telur þessi hópur vafa leika á um hvort greiðsluskylda sé fyrir hendi, en jafnframt að ekkert meini Alþingi að taka ákvörðun um Icesave-samninginn. Hópurinn telur einnig að áhættan af því að fara með málið fyrir dóm sé of mikil, skárri kostur væri að semja. 

Getur verið, að Stefán Már Stefánsson álíti, að dómsmáls-kostirnir standi nú hallari fæti vegna þess, að Steingrímur J. Sigfússon sveikst um að senda ESA rökstutt álit og höfnun á gagnrýni þeirrar Eftirlitsstofnunar EFTA? Getur verið, að hann taki of mikið þann pól í hæðina, að málið yrði að fara fyrir EFTA-dómstólinn? Ljóst er, að ef við neitum að greiða penný eða evrucent (enda orðið fyrir nægum skaða nú þegar af öllu þessu þrúgandi "samninga"-þófi), þá geta Bretar ekki dregið okkur nauðuga fyrir EFTA-dómstólinn, þeir yrðu að sækja málið hér. Ef þeir reyna að áfrýja því til erlends dómstóls, sem við vitum nú þegar að er hlutdrægur gegn okkur í málinu, þvert gegn lögum ESB, þá getum við gert eins og í landhelgismálinu, þegar ríkistjórn Íslands neitaði að láta fara með það mál fyrir alþjóðadómstólinn í Haag. Það er auðvelt að réttlæta með þjóðarhagsmunum; fyrir því er alþjóðleg lagahefð.

Í framhaldi af fyrrgreindu í Mbl.is-fréttinni segir þar:

  • Sé það mat starfshópsins [þ.e. starfshóps fjárlaganefndar undir forystu Stefáns Más Stefánssonar lagaprófessors] að áhætta af dómsmáli sé mikil og feli í sér verulega skerðingu á hagsmunum þjóðarinnar, megi mæta stærstu áhættuþáttum samningsins með þeirri breytingu, að hann kveði á um að íslenski innistæðutryggingasjóðurinn hafi forgangsrétt til eigna úr þrotabúi Landsbankans. [Sbr. efst hér í þessu bloggi, jvj.]

Og bætt er við orðrétt í áliti InDefence:

  • „Hér er um að ræða réttmæta og eðlilega breytingu á fyrirliggjandi samningsdrögum, sem felur ekkert annað í sér en að samningsaðilar fari að gildandi lögum og skráðum leikreglum evrópsku innstæðutilskipunarinnar sem allt Icesave-málið byggir á. Þetta á að vera krafa íslenskra stjórnvalda ef gera á samning án þess að skorið sé úr um lögmæti greiðsluskyldunnar."

Svo ber að vekja athygli á því, að í áðurnefndum hópi lögfræðinga hefur Stefán Már sennilega verið milli steins og sleggju. Meðal þeirra fjögurra var Stefán Geir Þórisson hrl., sem þegar hafði gert sig að ómerkingi í þessu máli með "lögfræðiáliti" dags. 8. nóvember 2008, varðandi ábyrgð vegna Icesave-reikninga Landsbanka Íslands í Bretlandi og Hollandi. Álitið er reyndar horfið á tveimur stöðum, þar sem það var að finna á neti stjórnvalda, "líklega til að geta endurnýtt Stefán Geir," eins og segir í bréfi nú í kvöld til undirritaðs, þar sem þetta eru lokaorðin: "Það er skömm að því að hann skuli koma nú með álit um hvað Icesave-samningarnir eru góðir !"

Eftirfarandi atriði (inndregið hér fyrir neðan) í áliti InDefence er býsna skondið að skoða fyrir þá, sem endalaust leyfa sér að fullyrða, að neitun og jafnvel tafir á því að semja um Icesave-gerviskuldina leiði til þess, að lánshæfismat íslenzkra fyrirtækja minnki eða að þau fái jafnvel ekki lán! (undirritaður var fyrir skemmstu að svara rugli um það HÉR á ágætri vefsíðu Friðriks Hansen Guðmundssonar):

  • InDefence-hópurinn leggur jafnframt á það áherslu að áður en núverandi samningsdrög um Icesave verði afgreidd af Alþingi verði þau borin undir lánsmatshæfisfyrirtækin, til að full vissa fáist um það fyrirfram að lánshæfismat Íslands muni ekki lækka verði samningsdrögin staðfest.

Endilega lesum öll þessa nýju umsögn InDefence til Alþingis, hún er heilar 65 blaðsíður vergar! Mjög fróðlegt er að "blaða" í henni á netinu, og þar er fjöldi gagnrýnisþátta sem beinast að stjórnvöldum lýðveldisins Íslands. 

Þið megið búast við fleiri greinum um þetta álit InDefence, þegar við höfum komizt yfir að lesa það í heild.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Fái forgangsrétt til eigna Landsbanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Takk fyrir.

Sigurður Haraldsson, 12.1.2011 kl. 01:24

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þakka þér, Sigurður. Menn taki eftir, að Rúv-fregnin var vistuð á vef Rúv kl. kl. 18:05, en "síðast uppfær[ð]: 11.01. 2011 20:20" – hugsanlega eftir kvörtun InDefence-manna vegna óvandaðs og hlutdrægs fréttaflutnings í 18-fréttunum sérstaklega.

Jón Valur Jensson, 12.1.2011 kl. 02:01

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Samkvæmt tilvísaðri frétt á Ruv.is telur fjögurra manna lögfræðinga-hópurinn "vafa leika á um hvort greiðsluskylda sé fyrir hendi, en jafnframt að ekkert meini Alþingi að taka ákvörðun um Icesave-samninginn." Þetta er hlálega – nei, sorglega – þversagnarkennd afstaða.

Undirrituðum þykja umskipti bæði Stefáns Más Stefánssonar prófessors og Láusar L. Blöndal hrl. í þessu máli ótrúleg, en þeir afsaka sig kannski með því að vera í minnihluta, hvor í sinni nefnd (Lárus var í Icesave-III-samninganefndinni). Betra er þó að eiga engan hlut í verkum myrkursins! Þeim bar engin skylda til að vera með í heildar-nefndaráliti, hvor á sínum stað; þeir hefðu vel getað skilað séráliti.

Svo lítur út sem Stefán hafi hugsanlega tekið þátt í áliti meirihluta sinnar nefndar gegn því málamiðlunar-skilyrði, að hann fengi það sett þar á blað ... ekki raunar, að hann teldi enga greiðsluskyldu fyrir hendi (hvað hann þó hefur talið fram að þessu!), heldur að þeir í nefndinni telji "vafa leika á um hvort greiðsluskylda sé fyrir hendi". En hvaða gagn er því áliti, ef því er ekki fylgt eftir í verki?

Að bæta því við, "að ekkert meini Alþingi að taka ákvörðun um Icesave-samninginn" (þetta mun annaðhvort þeirra beina orðalag eða trúverðug lýsing blaðamanns Mbl.is á áliti þeirra), er hreint hneyksli, því að meðal lagalegra gagnraka gegn því, að þennan samning skuli gera, eru þau rök, að með því er framið stjórnarskrárbrot – en slíkt leyfist aldrei og gerir viðkomandi gerning fyrir fram ólöglegan og að engu hafandi (m.a. fyrir síðari stjórnvöld) – og að Ísland MÁ EKKI skv. ESB-reglum borga fyrir Icesave, eins og norskur prófessor í þjóðréttarfræði hefur staðfest. Sá lögfræðiprófessor, Peter Ørebech, segir það beinlínis brot á lögum ESB, tilskipun 94/19/EC, um innistæðutryggingakerfi fjármálastofnana í aðildarríkjunum, ef þjóðríki er látið ábyrgjast greiðslurnar. Hvert er svar nefndarmannsins Stefáns við því?!

Þar að auki ber að minna á 77. grein stjórnarskrárinnar: “Enginn skattur verður lagður á, nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum, þegar þau atvik urðu, sem ráða skattskyldu.” En slík heimild var þá ekki til í lögum og hefur aldrei verið!

Og hvers vegna var farið fram hjá ríkisábyrgðarlögunum við fyrri Icesave-samninga og sennilega enn með þessum gerningi, nema af því að þeir leyfa ekki friðmælingarathæfi sem þetta, til þess gert að þókknast hótunar- og kúgunarvaldi gamalla nýlenduvelda?

Beztu lögfræðingar landsins eiga ekki að leggja nafn sitt við lögleysu.

Jón Valur Jensson, 12.1.2011 kl. 09:20

4 Smámynd: ÞJÓÐARHEIÐUR - SAMTÖK GEGN ICESAVE

Ég var að laga hér þónokkrar ásláttarvillur, sem orsökuðust af hraðri vinnslu greinarinnar í gærkvöldi og nótt og ég hafði ekki tekið eftir fyrr en nú. –JVJ.

ÞJÓÐARHEIÐUR - SAMTÖK GEGN ICESAVE, 12.1.2011 kl. 12:22

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Hafðu heiður fyrir þennan pistil þinn Jón Valur.

Athugasemd þín hér að ofan er það kröftug, að hún ætti erindi sem sérpistill.

Stjórnarskrá hvers lands er hornsteinn réttarríkisins, enginn, ekki einu sinni ráðamenn, geta brotið slík plögg án afleiðinga.  

Ef núverandi ráðamenn komast upp með það, þá er grundvöllur réttarríkisins brostinn.

ICEsave snýst ekki um peninga og aura, heldur um hvað er rétt, og hvað er rangt.

Sjálfstæð þjóð beygir sig aldrei fyrir fjárkúgun.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.1.2011 kl. 20:42

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Kærar þakkir, Ómar, og ég er innilega sammála þér.

Já, kannski ég birti þessa aths. kl 9.20 sem sérpistil, t.d. á Vísisbloggi mínu.

Jón Valur Jensson, 13.1.2011 kl. 01:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband