Lögfræði Icesave

Stórmerk er grein eftir Lúðvík Gizurarson í Morgunblaðinu í dag: Lögfræði Icesave. Þar segir hann í upphafi:

  • ÞAÐ var í hádegisfréttum útvarps mánudaginn 19. apríl 2010 og haft eftir viðskiptaráðherra að hægt væri að hefja aftur viðræður við Breta og Hollendinga um Icesave. Semja mætti áfram og upp á nýtt. Vera í sama gamla farinu.
  • Lögfræðilega hefur viðskiptaráðherra ekki stjórnarfarslegt umboð til að gefa slíka yfirlýsingu. Ráðherra er bundinn af þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin var nýlega. Getur ekki farið að semja á svipuðum nótum og gert var áður um Icesave. Það var fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu að semja með þeim hætti. Breyta verður um stefnu.
  • Ef viðskiptaráðherra fer að semja gagnstætt úrslitum í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave ber Forseta Íslands að víkja viðskiptaráðherra úr embætti, þar sem hann er að taka sér stjórnsýsluvald, sem hann hefur ekki lengur að lögum samkvæmt réttri lögfræðilegri túlkun á Stjórnarskrá Íslands. Þetta segir greinarhöfundur sem hæstaréttarlögmaður í hálfa öld. Viðskiptaráðherra getur borið þetta undir Lagadeild Háskóla Íslands til að fá fram rétta lagatúlkun á áhrifum þjóðaratkvæðagreiðslunnar samkvæmt Stjórnarskrá Íslands. Ber að gera þetta, en víkja annars úr embætti.

Þarna tekur hann til orða með þeim hætti, sem sannarlega vekur athygli, en menn eru hvattir til að lesa grein Lúðvíks alla. Hann er þar með athyglisverða ábendingu um nýjar reglur um innistæðutryggingar hjá Evrópusambandinu, reglur sem hann telur geta orðið leiðarljós um lausn Icesave-málsins, en hann segir í lokaorðum sínum:

  • Það er hreint lögfræðilegt brjálæði, svo sannleikurinn sé sagður hreint út um þá stefnu stjórnvalda að byrja aftur upp á nýtt, að semja um Icesave samkvæmt gömlu reglunum. Þær eru ólöglegar og brot á stjórnarskrá ESB og Rómarsáttmálanum. Við eigum að snúa okkur til Evrópusambandsins og gera þá kröfu mjög ákveðið að Icesave verði látið bíða en falli undir þessar nýju reglur ESB þar sem 12-15 þjóðir ætla að taka sameiginlega á sig svona tap eins og Icesave er.
  • Gefum ekki eftir. Heimtum siðferðilegt réttlæti. Forðumst þjóðargjaldþrot. 

Við þökkum Lúðvík hans merku skrif og hvetjum ykkur til að lesa rökstuðning hans allan í blaðinu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband