Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
27.4.2013 | 11:59
ESB-innistæðutryggingasjóður fyrir bí ?! - og horft hingað heim!
Mjög er athyglisvert að Angela Merkel kanzlari er farin að leggjast gegn hugmyndum um eitt innistæðutryggingakerfi fyrir allt Evrópusambandið eins og þó hafði verið stefnt á. "Í það minnsta um sinn" virðist hún afhuga slíku nýju kerfi og viðraði þessar áhyggjur sínar í Dresden sumardaginn fyrsta.
- Fréttaveitan Reuters segir að ástæðan sé ótti ráðamanna í Þýskalandi við það að þýskum skattgreiðendum verði í gegnum slíkt kerfi gert að greiða fyrir mistök banka í öðrum ríkjum innan Evrópusambandsins. (Mbl.is.)
Já, ekki ætlar hún að taka á sína þjóð mistök banka í öðrum löndum, þrátt fyrir meinta samstöðu, jafnrétti og bræðralag "ESB-borgara" í þessu Evrópusambandi!
Hitt gátu þeir í Brussel, útsendarar voldugustu ESB-ríkjanna þar, þrýst á áhrifaðila eins og AGS og gegnum þær á ríkisstjórnir Norðurlanda um að knébeygja litla þjóð í norðri, að hún tæki á sig ólögvarðar kröfur Hollendinga og Breta um greiðslu innistæðna í einkabanka, sem tryggingasjóðir í Bretlandi og Hollandi áttu að bera ábyrgð á, en íslenzka þjóðin enga! Þetta síðastnefnda var endanlega staðfest með EFTA-dómstóls-úrskurðinum í febrúar sl.
Margsinnis hefur verið varað hér við því nýja innistæðutrygginga-kerfi, sem til hefur staðið í ESB að taka upp þar og á EES-svæðinu. En Árni Páll, leiðtogi Samfylkingar, er nú ekki meiri gæfumaður í þessum efnum en svo, að hann hefur agiterað fyrir þessu fyrirbæri! Samt yrði það kerfi stórhættulegt okkur, lágmarksinnistæðu- tryggða upphæðin yrði 100.000 evrur í stað 20.887 evra og gerð ríkistryggð! og greiðsluskyldan höfð með nánast engum fyrirvara!
Frábæra grein er að finna í Mbl. í dag eftir einn af okkar félögum i Þjóðarheiðri samtökum gegn Icesave, þ.e. Daníel Sigurðsson véltæknifræðing. Greinin kemur inn á ýma hluti, ekki sízt ESB (sjá aths. hér neðar), en hér er til hennar vísað og mönnum bent á að lesa hana vegna þess mikilvæga fróðleiks, sem þar kemur fram um Icesave-málið (og í leiðinni vikið þar að Kúbu-Gylfa Magnússyni).
65 milljarða króna, óafturkræfa, væri búið að borga Bretum og Hollendingum skv. Buchheit-samningnum (ICESAVE III), í beinhörðum, erlendum gjaldeyri, hinn 1. apríl sl., og áfram tikkar teljarinn, meðan þrotabú Landsbankans hefur ekki lokið útgreiðslum sínum. Upphæðin hefði aldrei endurgreiðzt, sama hvað komið hefði út úr þrotabúinu í framhaldi af þessu svo "glæsilegur" var þessi Buchheit-samningur sem vinstri flokkarnir og tíu þingmenn Sjálfstæðisflokks undir forystu hins "ískalda" Bjarna Ben. báru ábyrgð á að samþykkja í Alþingi!
En í dag getur þjóðin haldið upp á það að hafa völdin, um hálfan sólarhring vegna næstu fjögurra ára, og þá verður bæði horft fram á veg og til baka, meðal annars um þá hluti, sem hér hafa verið ræddir. Sem betur fer höfðum við stjórnarskrána með sinni 26. grein og ábyrgðarfullan forseta, þegar að okkur var sótt með hundraða milljarða króna kröfu Svavarssamningsins og 65 milljarða plús-kröfu Buchheit-samningsins, og sem betur fer tókst að ná breiðri þjóðarsamstöðu, í baráttunni og þjóðaratkvæðagreiðslunum, þótt innri eyðingaröflin sæktu þá að okkur, þau sem fengið hafa áminningu um ábyrgð sína í nýlegum greinum hér á vefsetrinu og munu áfram fá, m.a. Gylfi Magnússon, sem enn heldur uppi vanþekkingar-blekkingum og fær á baukinn hjá Daníel í hans frábæru grein.
Jón Valur Jensson.
Vilja ekki eitt innistæðutryggingakerfi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.4.2013 | 16:50
Vinaþjóðir? - spurt að gefnu tilefni vegna íhlutunar Elleman-Jensens og Carls Bildt í Icesave-málinu
"Í Icesave-málinu kom í öllu falli vel í ljós hverra vinir Norðurlöndin og ESB voru og gilti þá einu þó að vinaþjóðirnar Bretland og Holland héldu uppi löglausum kröfum á hendur Íslandi sem að auki hefðu sett þjóðina í gjaldþrot hefðu jámenn fengið að ráða." Þannig ritar Arnar Sigurðsson, sem starfar á fjármálamarkaði, í Morgunblaðið í dag. Grein hans er hér: Vinaþjóðir?mm
Þar fjallar hann fyrst og frest um Evrópusambandsmálið og tekur Þorstein Pálsson sérstaklega á teppið vegna skrifa hans í þeim efnum, en hér víkur hann einnig að Icesave-málinu:
- "Þorsteinn virðist telja að upphefðin komi að utan og telur óþarft að minnast á hlut stórmennisins Carls Bildt í að kúga Íslendinga til undirgefni gagnvart Bretum og Hollendingum. Carl Bildt fór fyrir hópi norrænna vinaþjóða Breta og Hollendinga í ræðu og riti með því að skilyrða lán frá AGS við að Íslendingar undirgengjust löglausar kröfur sinna vinaþjóða. Á sama tíma sagði Uffe Elleman-Jensen að veruleikaskynið virtist hafa yfirgefið Íslendinga og tók undir með varaformanni VG um að forseti þjóðarinnar væri fífl. Þetta segi ég, sem hef lengi verið Íslandsvinur. Ímyndið ykkur þá hvernig aðrir upplifa þessar aðstæður.
- Það er sjálfsagt að eiga í samstarfi við vini sína og gaman þegar erlend fyrirmenni klæðast íslenskum lopapeysum en Icesave-málið sýnir að enginn lítur jafn vel eftir hagsmunum íslensku þjóðarinnar og hún sjálf," segir Arnar í framhaldi af þessu.
Vel mælt um þetta og fleiri mál hjá honum, sjá Morgunblaðið í dag. En af orðunum hér ofar má sjá, hve freklega langt ýmsir norrænir leiðtogar eins og Elleman-Jensen og Carl Bildt gengu, þegar þeir þjónuðu Bretum og Hollendingum í Icesave-málinu. Og ekki voru þeir hænufeti framar í skilningi á lagalegu réttlæti heldur en Icesave-dindlarnir í íslenzkri stjórnmálastétt og viðskiptalífi eða álitsgjafarnir rugluðu í háskólasamfélaginu og í fjölmiðlum -- sbr. greinar hér á síðunni (efnisyfirlit um NÝJUSTU FÆRSLUR í dálkinum til vinstri, neðar) og væntanlega grein um nýjustu aulayfirlýsingar Gylfa Magnússonar.
Jón Valur Jensson.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það er full ástæða til að rifja upp, hvaða fólk þetta er, því að enn eru sumir þar að bera blak af Icesave-svikasamningunum, og ýmsir í hópnum telja sig enn þess umkomna að hafa vit fyrir þjóðinni í ESB-umsóknarmáli Samfylkingarinnar og stefnuskrár-svíkjandi Vinstri grænna. En skoðið þetta:
Sumir virðast ekki sjá myndina af auglýsingu Andríkis, sem pistilshöf. sér þó úr sinni tölvu. Undarlegt. Þá er það helzt til ráða í bili að birta hér innihald þeirrar auglýsingar. Þar er efst yfirskriftin: Þau studdu hinn ömurlega Icesave II samning sem þjóðin felldi með 98% atkvæða Þá koma myndir í fjórum röðum, fjórar í hverri, ásamt nöfnum viðkomandi, þessum: Friðrik Már Baldursson [prófessor], Gylfi Arnbjörnsson [forseti ASÍ og ESB-sinni], Gylfi Magnússon [prófessor], Gylfi Zoëga [prófessor og ESB-sinni], Indriði H. Þorláksson [ríkisskattstjóri], Jóhanna Sigurðardóttir, Jón Sigurðsson [fv. fjármálaráðherra og fv. stjórnarform. FME], Már Guðmundsson, Margrét Kristmannsdóttir [í Pfaff, form. Samtaka verslunar og þjónustu og ESB-sinni], Ólafur Þ. Stephensen [fv. ritstjóri Mbl. og Fréttabl. og ESB-sinni], Steingrímur J. Sigfússon, Svavar Gestsson, Vilhjálmur Egilsson, Vilhjálmur Þorsteinsson [forstj. CCP, evrókrati og fv. stjórnlagaráðsm.], Þórólfur Matthíasson [prófessor og ESB-sinni], Össur Skarphéðinsson [stjórnarskrárbrjótur og ESB-sinni]. Undir myndunum stendur: Og nú vilja þau Icesave III -- Undir er svo merki Andríkis ásamt uppl. í smáu letri um hvernig kostnaður við þessa auglýsingu (í dagblöðum) hafi verið greiddur.
Jón Valur Jensson.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.5.2016 kl. 21:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.3.2013 | 22:10
Upprifjun, I: Hörður Arnarson í Landsvirkjun freistaði þess að afvegaleiða okkur í Icesave-málinu, þjóðinni næstum því til stórskaða
Af einhverjum ástæðum eru mánaðarlaun Harðar komin upp í 10,7 milljónir eða hærra (heimild: DV í úttekt á launum hæstlaunaðra). Lesum nú þessar merkilegu uppl. um hann í Fuglahvísli 18. febrúar sl.:
Þegar Icesave-deilan var í hámarki sagði Hörður Arnarson:
Við teljum að fjármögnun í gegnum fjármálastofnanir muni ganga eftir á næstu vikum ef tekst að ljúka Icesave-deilunni. [...] Út frá hagsmunum fyrirtækisins tel ég það afar jákvætt að leysa þetta Icesave-mál. Þetta mun örugglega auðvelda okkur fjármögnun, og þá ekki bara fyrir Búðarháls heldur fyrir öll önnur verkefni sem við erum með í skoðun. Lausn þessa máls hefði líka jákvæð áhrif á lánshæfismat fyrirtækisins og íslenska ríkisins sem myndi hafa jákvæð áhrif á aðgengi að fjármagni fyrir öll íslensk fyrirtæki.
Hörður taldi á þeim tíma að stórkostleg skuldaaukning hins opinbera hefði jákvæð áhrif á lánshæfismat Landsvirkjunar. Þetta innlegg harðar kom á sama tíma og aðrir stjórnmála-, fræði og viðskiptamenn lögðu allt í sölurnar til að koma Icesave samningi Samfylkingar og VG í gegn.
Það sem gerðist hins vegar nú er að lánshæfiseinkunn Landvirkjunar var hækkuð eftir að ljóst varð að Icesave félli ekki á íslenska ríkið og væri því úr sögunni hvað lánshæfi ríkisins og ríkisfyrirtækja varðar.
Fjölmiðlar ræddu við Hörð í hádeginu í dag. Var hann spurður út í fyrri orð um Icesave og lánshæfið? Nei.
Tilvitnun lýkur. Heimild hér: http://www.amx.is/fuglahvisl/18608/
Furðulegt hvernig ýmsir reikningskúnstarmenn brugðust okkur gersamlega í Icesave-málinu. Það sama gerðu ekki sjálfvaktar hreyfingar Íslendinga með óbrenglaða réttlætiskennd, manna sem EFTA-dómstóllinn gaf allan heiður í þessu máli með algerri sýknun Íslands í málinu og þar sem úrskurðað var, að við skyldum ekki einu sinni borga eigin málskostnað.
Jón Valur Jensson.
6.3.2013 | 09:09
Áfram-hópurinn og hans hættulegi blekkingaráróður gekk beint gegn ótvíræðum rétti Íslands
Fáránlegt lið, Áfram-hópurinn (sjá mynd), vildi láta Íslendinga borga Icesave! m.a. Benedikt Jóhannesson í Vísbendingu, aðalspíran í Já Ísland! (ESB-innlimunarsinnafélagi), Heiða Kristín Helgadóttir í "Bjartri framtíð" og Guðm. Gunnarsson fv. form. Rafiðnaðarsambands Íslands. Guðmundur taldi já við Icesave-samningnum "forsendu þess að hægt sé að vinna upp þann kaupmátt sem hefur tapast"!!! Einnig var þarna Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri Pfaff og framákona í Samtökum verslunar og þjónustu, sem bætti við að "farsæl lausn á Icesave snérist um lífskjör þjóðarinnar á komandi árum," "nauðsynlegt væri að huga að komandi kynslóðum þegar tekin verður ákvörðun um Icesave"!!!
Þá voru þarna Árni Finnsson, formaður "Náttúruverndarsamtaka Íslands", Sveinn Hannesson í Samtökum iðnaðarins og Hörður Torfason söngvari og mótmælandi og leiðandi nýs Austurvallarhóps (pínulítils) sem á að bakka upp stjórnarskrárdrög "stjórnlagaráðs", en Hörður var þó nógu bíræfinn að láta sjá sig á sigurhátíð InDefence-hópsins í Slipphúsinu að kvöldi þess dags þegar EFTA-dómstóllinn úrskurðaði Ísland með öllu saklaust af Icesave-kröfum Breta og Hollendinga! Hann hefur kannski talið sér það óhætt í ljósi þess, að vefsíða Áfram-hópsins hafði verið látin hverfa! (Frh. neðar.)
Þetta rammskeikula lið og margir fleiri í hópnum, t.d. Vilhjálmur Þorsteinsson í CCP (einn af mörgum ESB-innlimunarsinnum í stjórnlagaráðinu sáluga) sóttu að sannfæringu Íslendinga, m.a. með frægri heilsíðumynd að endemum: af risahákarli ógnandi því að gleypa hnípna íslenzka fjölskyldu á bátskektu, ef við greiddum ekki icesave skv. Buchheit-samningnum!!!
Nánari upplýsingar um hópinn fáránlega er að finna á þessari vefsíðu félagsskaparins Samstöðu þjóðar. En þar segir Loftur Altice Þorsteinsson m.a.:
- Skömmu eftir stofnun Áfram-hópsins bárust fréttir af því, að heldstu styrktaraðilar Icesave-vinanna væru Samtök fjármálafyrirtækja (SFF), Samtök atvinnulífsins (SA) og Samtök iðnaðarins (SI). Sem start-gjald, veittu þessi samtök Áfram-hópnum milljón krónur, hvert fyrir sig. Alls munu styrkir sem Áfram-hópurinn þáði hjá fyrirtækjum og almanna-samtökum hafa numið 20 milljónum króna. Til samanburðar fekk Samstaða þjóðar gegn Icesave um 20 þúsund krónur frá fyrirtækjum og almanna-samtökum.
Það á ekki að þegja um hneisu og ill verk þessa hóps. Samstaða þjóðar á þakkir skildar fyrir að koma upplýsingum sínum á framfæri.
Jón Valur Jensson.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.5.2016 kl. 21:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.2.2013 | 20:24
Vel mælt hjá forsetanum um Icsave-mál á OECD-fundi
- Þegar EFTA-dómstóllinn úrskurðaði í síðasta mánuði að málsókn Breta, Hollendinga og ESB hefði ekki haft neina lagalega stoð, varð ljóst að til viðbótar við lýðræðislegan vilja þjóðarinnar voru réttlætið og lögin einnig á okkar bandi.
Svo mælti Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í lok ræðu sem hann flutti á fundi með sendiherrum aðildarríkja OECD, Efnahags- og framfarastofnunarinnar, í París í morgun. Eins og segir í frétt á Mbl.is:
- Framan af fjallaði ræða forsetans um hagkerfi hreinnar orku og sjálfbærni, en í lok hennar rakti hann Icesave-deiluna.
- Þegar hin svokallaða Icesave-deila kom upp, þar sem stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi, studd af stjórnvöldum allra ESB-ríkja og öðrum, kröfðust þess að almennir borgarar á Íslandi; fiskimenn, bændur, kennarar, hjúkrunarfræðingar, myndu taka á sig ábyrgðina vegna hinna föllnu banka með hærri sköttum, þá þurftum við að velja á milli annars vegar fjárhagslegra hagsmuna eins og þeir voru kynntir fyrir okkur af stjórnvöldum í Evrópu og hins vegar lýðræðislegs vilja íslensku þjóðarinnar. Við völdum lýðræðið.
Hreinar línur og hreinskiptni hjá forsetanum. Þessi leið og hans eigin gjörðir í takt við þjóðarvilja burgu okkur frá hneisunni, samvizkubitinu og þjóðarskaðanum, sem hér var stefnt að með undanlátssemi nefbeinslausra stjórnvalda.-
- Forsetinn sagði að eftir þjóðaratkvæðagreiðslurnar tvær, þar sem þjóðin hafnaði Icesave-samningunum, hefði efnahagur landsins farið að taka við sér. Þeir sem hefðu ráðið frá atkvæðagreiðslunum, hefðu haft algerlega rangt fyrir sér. (Mbl.is.)
Já, það sýndi sig. Hrakspárnar rættust ekki, hræðsluáróður manna eins og Gylfa Magnússonar, Þórólfs Matthíassonar og ríkisstjórnarráðherra reyndist innantóm lygi. Eigum við svo bara að gleyma því, sem þeir ætluðu sér?
Hugsum þó fyrst og fremst jákvætt, minnumst þeirrar blessunar sem fólst í því að nægur meirihluti þjóðarinnar sýndi fulla einurð í þessari baráttu, lét hvorki kúgast af hótunum útlendinga né blekkjast af innlendri stjórnmálastétt, sem og, að stjórnarskrá okkar varð hér varnarmúr þjóðarinnar gegn þeirri ásókn. Þökk sé þar forseta Íslands, að hann reyndist okkur svo vel, að ekki varð betur gert með neinni þjóð.
Jón Valur Jensson.
Tjáði sig um Icesave-dóminn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.2.2013 | 09:48
Tvö ár frá synjun forsetans á Icesave-löggjöf hið síðara sinn
Já, tíminn líður, en þessi kaflaskil í málinu -- að undangenginni undirskriftasöfnun Samstöðu þjóðar um Icesave, sem Þjóðarheiðursmenn áttu þátt í að stofna -- urðu forsenda þess, að málið endaði í EFTA-dómstólnum og fullkominni sýknu Íslands.
Heill forseta vorum að hafa beitt sér gegn óþinglegu athæfi og háskastefnu fyrir stjórnskipan landsins og efnahag þjóðarinnar, en neytt stjórnarskrárbundins réttar sins og stuðlað með varðstöðu sinni að hreinsun mannorðs heillar þjóðar og betri fjárhagsstöðu okkar allra!
HÉR (26.-28.2. 2011) og HÉR (23.-26.) og HÉR (19.-23.) geta menn séð eða rifjað upp, hvernig umræðan var á þessu vefsetri Þjóðarheiðurs í ofanverðum febrúar 2011. Og hér eru bloggfærslur mánaðarins í marz 2011 (þ.e. 8 síðustu dagarnir og framhald lengra inn í mánuðinn með því að smella þar á línuna 'Næsta síða' neðst),
Jón Valur Jensson.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.2.2013 | 01:33
Steingrímur J. Sigfússon sér ekki eftir Icesave-ákvörðunum sínum!
Margir munu hafa séð hann í Kastljósi þetta mánudagskvöld. Ennþá frakkari var hann samt í morgunútvarpi Rúv sama dag. Var hann spurður, hvort á stjórnarferlinum væri "einhver ákvörðun sem þú sérð eftir" og talin upp fáein mál, og bar Icesave einna hæst.
"Nei, ég get ekki sagt það ..." svaraði Steingrímur keikur!!
Blaðraði hann svo í kringum þessi mál og endaði á þessu: "Þegar skyldan kallaði, þá fór VG í þetta verkefni, og ég er stoltur af því"!
Svo hefur hann sennilega litið á eftir í spegilinn og ávarpað hann með þessum orðum: "Spegill, spegill, herm þú mér, hver hér á landi flottastur er," og heyrzt hann heyra hið kórrétta svar!
JVJ.
17.2.2013 | 02:57
Alain Lipietz sagði sannleikann um Icesave (jan. 2010)
Engin ábyrgð tilheyrði íslenzka ríkinu vegna Icesave-reikninganna, sagði hann m.a. Brezku og hollenzku ríkisstjórnunum bar að láta Landsbankann tryggja Icesave-reikningana í tryggingasjóðum þeirra landa. Það var einmitt gert í Bretlandi, með fullri vissu, eins og Lofti Þorsteinssyni, varaformanni Þjóðarheiðurs, tókst þá brátt að leiða í ljós. En hér er þetta myndband með Alain Lipietz, þar sem hann sagði Íslendingum sannleikann í málinu í Silfri Egils 10. janúar 2010:
Það tók langan tíma og tvær þjóðaratkvæðagreiðslur og loks EFTA-dóm til að fá ráðamenn hér til að verða að sætta sig við sannleikann í málinu: það sakleysi Íslands, sem Lipietz átti ekki í erfiðleikum með að kynna okkur. Hann var, vel að merkja sérfræðingur á þessu sviði. Merkilegt, að Steingrímur og Jóhanna (sem við horfum nú á eftir sem leiðtogum stjórnmálaflokka, flestir með næsta litlum trega) skyldu telja sig bóga til að ganga gegn sérfræðiáliti þessa manns.
Sjá einng hér:
ÍSLENDINGAR SKULDA EKKERT: Alain Lipietz (grein hans, birt hér 3.3. 2011)
Geta má þess, að settur hefur verið inn leitarhnappur og -reitur hér inn á vefsíðuna (LEITA Í ÞESSU BLOGGI), í dálkinum hér til vinstri.
JVJ.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.2.2013 | 19:09
Stjórnarflokkarnir gjalda fyrir Icesave-auðsveipni sína, en Framsókn fær aukið traust vegna samstöðu með þjóðinni
Réttur okkar Íslendinga í Icesave-deilunni var ALGJÖR. Það sannaðist í vel rökstuddri niðurstöðu EFTA-dómstólsins. Viðbrögðin láta ekki bíða eftir sér í nýrri skoðanakönnun MMR. Fylgi Framsóknar eykst um 4,7% af öllum kjósendum á hálfum mánuði, en stjórnarflokkarnir hafa misst 3,8% fylgi meðal allra kjósenda í des. skv. skoðanakönnunum.
Straumurinn er því eðlilega frá svikurum á Alþingi í Icesave-málinu. Trúverðugleiki Icesave-þjónustuliðsins, sem svo óvægilega gekk fram í því að láta Alþingi samþykkja ólögvarðar og ólögmætar kröfur, er nákvæmlega enginn í því máli, enda íslenzka þjóðin saklaus þar af allri sekt.
Jón Valur Jensson.
Framsókn fengi 19,5% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)