Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011

Þjóðin vill ÞJÓÐARATKVÆÐAGREIÐSU um Icesave-III. Meirihlutinn hafnar öllum lögleysusamningum!

Þetta sannast í mörgum skoðanakönnunum, m.a. þónokkrum nýjum, og afgerandi atkvæðagreiðslu:

1) Hinn 6. marz 2010 var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave-II-lögin frá 30. des. 2009. 93,2% sögðu NEI við því að samþykkja þau, ógildir seðlar voru o,3%, auðir 4,3%, og einungis 1,8% sögðu JÁ! (sjá hér: Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave eftir landshlutum og yfir allt landið).

2) Tveimur dögum seinna birti MMR (Markaðs- og miðlarannsóknir, MMR) niðurstöðu skoðanakönnunar, sem fram fór um sama leyti. Þar kom í ljós að 59,4% aðspurðra sögðu: Við viðurkennum alls enga ábyrgð Íslendinga á Icesave-greiðslum til Bretlands og Hollands! 37,3% sögðu, að Íslendingar ættu að ábyrgjast greiðslurnar að hluta til, og 3,3% sögðu, að Íslendingar ættu að ábyrgjast greiðslur til innstæðueigendanna að fullu.

3) Í skoðanakönnunum á vef Útvarps Sögu hefur verið spurt um þessi mál, eftir að Icesave-III-frumvarpið kom fram í desember. Hér eru niðurstöðurnar (nánar með tenglum HÉR!):

Ert þú sammála forseta Íslands um að efna aftur til þjóðaratkvæðagreiðslu vegna Icesave-samkomulags? – Já sögðu 91,02%. Nei: 8,15%. Hlutlaus: 0,83%. Þátttakendur 730.

Er ríkisstjórnin að virða að vettugi þjóðarviljann með nýjum Icesave-samningi? – Já sögðu 78,4%. Nei: 19,53%. Hlutlaus: 2,07%. Þátttakendur 339.

Telur þú að þingið eigi að samþykkja nýja Icesave-samkomulagið? – Já sögðu 22,2%. Nei: 76,04%. Hlutlaus: 1,76%. Þátttakendur 634.

Á ríkisstjórnin að axla ábyrgð vegna Icesave málsins? – Já sögðu 75,65%. Nei: 20,68%. Hlutlaus: 3,66%. Þátttakendur 387.

4) Og í Bylgju/Vísis-könnun birtri 10. desember kom í ljós, að 54% leizt ILLA á Icesave3-samninginn, en einungis 24% lízt "vel" á hann og 22% "sæmilega". Hlustendur Bylgjunnar virðast heldur stjórnarsinnaðri en hlustendur Útvarps Sögu; samt varð niðurstaðan þessi!

5) Á vefsíðu Útvarps Sögu var spurt upp úr miðjum janúar 2011: Er of mikil áhætta að samþykkja fyrirliggjandi Icesave-samkomulag? Niðurstöðurnar sögðu sína sögu og urðu naumast til að setja Steingrím J. Sigfússon og Jóhönnu í hátíðarstemmingu. Hlutlausir voru 3,92%, nei sögðu 16,97%, en JÁ sögðu 79,11%. Svarendur voru 385 (sjá HÉR!).

6) Í könnun Fréttablaðsins og Bylgjunnar, Reykjavík síðdegis (þar sem mun fleiri stjórnarsinnar munu vera gestir en á vef Útvarps Sögu) var spurt og svarað um Icesave og niðurstaðan birt þar í gær, 7. febrúar:

Viltu þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave? – JÁ: 58%. NEI: 42%.

Ef gengið yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-lögin, hvernig myndirðu kjósa? – HAFNA lögunum: 53%. STAÐFESTA lögin: 47%.

Rökrétt niðurstaða: Þjóðin krefst þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál.

Jón Valur Jensson.

Það hefur aldrei þurft kjark til að guggna og gefast upp

Með þeim bráðfyndnu orðum (med hensyn til situationen!) er tónninn sleginn í frábærum leiðara Morgunblaðsins í dag, um Icesave-málið og það auma hlutskipti sem Bjarni ungi Benediktsson hefur kosið sér : að setjast á bekk með Steingrími J. Sigfússyni af öllum mönnum og það í því arfavitlausa máli. Og þá er vægt vægt til orða tekið og á honum tekið með silkihönzkum undirritaðs að kalla það mál einungis arfavitlaust!

Þessi færsla er fyrst og fremst til að hvetja menn til að lesa þessa ritstjórnargrein, sem leiftrar af andríki, rétt eins og Reykjavíkurbréf síðasta Sunnudags-Mogga.

Þannig hefst þessi leiðari, Botnfrosið mat*:

  • Mörg flokksfélög sjálfstæðismanna hafa verið í öngum sínum eftir að formaður flokksins söðlaði óvænt um í Icesave-málinu og lagðist á sveif með þeim Steingrími J. og Jóhönnu. Og meginröksemdin byggist á sama hræðsluáróðrinum og þau tvö notuðu til að knýja á um samþykki gamla samningsins, sem þjóðin hafnaði. Það var „bjargföst trú“ Steingríms að voðalegir atburðir myndu gerast ef ófögnuðurinn yrði ekki samþykktur þá. Nú heitir það „ískalt hagsmunamat“ hjá nýjasta fylgismanninum.
  • Það „ískalda mat“ mun snúa að því að við Íslendingar kynnum að tapa málinu fyrir dómstólum. (Þá er að sjálfsögðu ekki átt við Efta-dómstólinn né dómstól KSÍ, sem hafa enga lögsögu yfir málinu.) Það auðveldar slíkt „ískalt mat“ að ekkert verður fullyrt um niðurstöðuna með 100 prósent vissu fyrr en hún er fengin. Þessa vegna opnast glufa til að efla mönnum ótta, þótt vissulega séu yfirgnæfandi líkur til að hann sé ástæðulaus með öllu.

Og eitt af fjölmörgu vel sögðu í leiðaranum, sem allir ættu þó að lesa í heild:

  • Bjarni hefur sagt að nýi samningurinn „létti byrðarnar verulega“. Hvað á hann við? Ekki getur hann verið að miða við gamla samninginn. Þjóðin strikaði yfir samninginn þann, eins og hann man. Þessi nýi samningur leggur stórkostlegar byrðar á íslenska þjóð. Um það er ekki deilt, þótt ekki sé hægt að segja um af öryggi hversu ofsalegar þær verða.

Með hliðsjón af því, að Bjarni hefur höfðað til þjóðaratkvæðisins 6. marz, fer ekki hjá því, að þau orð hans líti býsna kindarlega út í ljósi þessarar upprifjunar í leiðaranum í dag:

  • Þegar forsetinn hafði hafnað Icesave II og þjóðaratkvæðagreiðsla blasti við kom Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í fjölmiðla og sagði að nú yrði að gera allt til að koma í veg fyrir að sú þjóðaratkvæðagreiðsla ætti sér stað.

Vituð ér enn eða hvat, Sjálfstæðismenn? Er þetta kjarkmikla hetjan ykkar í dag?

* http://www.mbl.is/mm/mogginn/blad_dagsins/bl_grein.html?grein_id=1366802.

JVJ. tíndi saman.


Geir »blindi« Haarde leiðir Bjarna »blinda« Benediktsson

 

Einhver hefði haldið að Geir »blindi« Haarde hefði öðrum hnöppum að hneppa en leita uppi pólitíska umskiptinga. Er þetta ekki maðurinn sem til stendur að rétta yfir fyrir Landsdómi, vegna refsiverðra yfirsjóna í opinberu starfi ? Er þetta rétti maðurinn til að vísa Bjarna »blinda« Benediktssyni á vit sannleikans ?

 

Allir vita að þegar stjórnmálamenn tala um »ískalt mat« hafa þeir svik í huga. Þegar þeir tala um að gera það sem er »þjóðinni fyrir beztu« eru þeir í ránshug. Svik og rán eru heldstu hugðarefni þjóðníðinga og ekki verður annað séð en að gott framboð sé af slíku fólki á Íslandi.

 

Ekki ásaka ég Geir »blinda« Haarde fyrir svik eða rán. Ekki gerir Landsdómur það heldur. Geir er ákærður fyrir brot í starfi sem forsætisráðherra, framin »af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi.« Ákæruefnin eru eftirfarandi:

 

1.    Fyrir að hafa sýnt af sér alvarlega vanrækslu á starfsskyldum sínum sem forsætisráðherra andspænis stórfelldri hættu sem vofði yfir íslenskum fjármálastofnunum og ríkissjóði.

 

2.    Fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að hafa frumkvæði að unnin væri heildstæð og fagleg greining á fjárhagslegri áhættu sem ríkið stóð frammi fyrir vegna hættu á fjármálaáfalli.

 

3.    Fyrir að hafa vanrækt að hafa frumkvæði að virkum aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins.

 

4.    Fyrir að hafa ekki fylgt því eftir og fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi yfir í dótturfélag.

 

5.    Fyrir að hafa vanrækt að gæta þess að störf og áherslur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað, sem stofnað var til á árinu 2006, væru markvissar og skiluðu tilætluðum árangri.

 

6.    Fyrir að hafa látið farast fyrir að framkvæma það sem fyrirskipað er í 17. gr. stjórnarskrár lýðveldisins um skyldu til að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni.

 

Þessi ákæruatriði eru hvert öðru alvarlegra og ef dæmd sönnuð fyrir Landsdómi, hljóta þau að benda til að alvarlegur dómgreindarskortur hrjái Geir »blinda« Haarde. Nú kemur félagi Geir fram til stuðnings Bjarna »blinda« Benediktssynisem orðinn er uppvís að því að vera pólitískur umskiptingur. Haft er eftir Geir:

 

»Eflaust mun ríkisstjórnin hafa einhvern ávinning af því að þessu máli ljúki, en það er ekki hægt að hugsa um þetta út frá þeirri forsendu. Það verður að hugsa um þetta út frá því hvað er þjóðinni fyrir bestu í þessari stöðu. Menn leggja lagalegan ágreining til hliðar við lausn þessarar deilu og hafa komist hér að pólitískri niðurstöðu, sem er viðunandi miðað við aðra kosti í stöðunni. Það finnst mér vera aðalatriðið í þessu máli.«

 

Ætli nauðsynlegt verði að leiða Geir H. Haarde aftur fyrir Landsdóm til að sanna hversu mjög honum skjátlast varðandi stöðu Icesave-málsins ? Heiðursmenn leggja ekki lagalegan ágreining til hliðar þegar hagsmunir heillar þjóðar eru í húfi. Drengskaparmenn yppa ekki öxlum og enduróma vitleysu eins og þá að það sé þjóðinni fyrir beztu að gæta ekki hagsmuna sinna.

 

Geir »blindi« Haarde hefði  átt að hafa dómgreind til að leiða ekki Bjarna »blinda« Benediktsson. 

 

Loftur Altice Þorsteinsson. 


mbl.is Geir styður Bjarna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni: Hroðalegustu svikin eru þau að svíkjast um að semja !

Haft er eftir Bjarna Benediktssyni á opnum fundi 05. febrúar 2011, að »Hroðalegustu svikin eru þau að svíkjast um að semja.« Þá vitum við það, að Bjarni Benediktsson er ekki svíkjast um í Bretavinnunni. Hann segir þá vera svikara sem ekki beygja sig fyrir nýlenduveldunum. Hann segir þá sem hugsa meira um heill almennings en leynda sérhagsmuni vera svikara. Dæmi nú heiðarleika þessa manns hver fyrir sig.

Enginn getur haldið því fram að forusta Sjálfstæðisflokks viti ekki hvað hún er að gera. Það er með fullri vitund sem forustan er að kljúfa flokkinn og reyta af honum fylgið. Nú verður ekki aftur snúið, þótt njólar eins og Kristján Þór Júlíusson tali núna fyrir þjóðaratkvæði. Forusta Sjálfstæðisflokks hafnar þeim hugmyndum, með óljósu orðalagi. Það eina sem forustan er með á hreinu er að friðþægja skuli nýlenduveldunum.

Bjarni segist hafa hugsað Icesave-málið í þaula og að hann sé sannfærður að betra sé fyrir hagsmuni einhverra landsmanna að gangast við kröfum nýlenduveldanna en hafna þeim. Hvar er þá rökstuðningurinn og hvar er auðmýktin gagnvart þjóðinni og flokksmönnum ? Hvernig má það vera að hann hafi svör við öllum spurningum þessa máls, en allir aðrir fari villur vegar?

Byggir Bjarni afstöðu sína á áliti fulltrúa Sjálfstæðisflokks í Fjárlaganefnd ? Þar eru skilmerkilega tínd til þau mistök sem Icesave-stjórnin hefur gert á síðustu tveimur árum. Hvernig má það vera að þau mistök eru núna allt í einu rökstuðningur fyrir að styðja málflutning þessarar sömu stjórnar ? Hefur forusta Sjálfstæðisflokks einhverja vitneskju sem öllum öðrum mönnum á Jörðinni er hulin ?

Svo talar sumt þetta fólk eins og fáránlingar um þjóðaratkvæði. Það er ekki verkefni Alþingis að ákveða um þjóðaratkvæði, að öðru leyti en því að ganga frá nauðsynlegum lagaramma. Þjóðaratkvæði er málefni á milli almennings og forsetans sem er fulltrúi lýðsins. Þetta er byggt á þeirri staðreynd að Ísland er lýðveldi og það stjórnarform gerir ráð fyrir að lýðurinn fari með fullveldisréttinn.

Loftur Altice Þorsteinsson.


mbl.is „Sætti mig við þessi málalok“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

InDefence-hópurinn styður EKKI Icesave-III

Það er fagnaðarefni, að InDefence hefur gert lýðum ljóst, að hann sættir sig ekki við þá grófu rangtúlkun á áliti sínu um Icesave-III, sem Fréttastofa Rúv o.fl. höfðu borið á borð fyrir landsmenn. "Að ekki sé lögbundin greiðsluskylda að baki kröfum Breta og Hollendinga," er fyrsta og fremsta grundvallaratriðið, sem hópurinn vill, að samningar um Icesave-málið endurspegli.

Hér er þessi nýja tilkynning frá InDefence-hópnum, glóðvolg úr bakaríinu, og undirritaður leyfir sér að auðkenna sérstaklega nokkra lykilstaði hér:

  • Undanfarna daga og vikur hafa fjölmiðlar og stjórnmálamenn slegið því fram að InDefence hópurinn hafi jákvæða afstöðu gagnvart Icesave III samningunum. Það er rangt.
  • Þann 10. janúar skilaði InDefence-hópurinn umsögn um núverandi Icesave samninga til fjárlaganefndar Alþingis. Umsögnin var einnig afhent öllum þingmönnum.
  • Í umsögninni er ítarlega fjallað um þá miklu fjárhagslegu áhættu sem núverandi samningar fela í sér fyrir Íslendinga. Sú áhætta er staðfest í öðrum efnahagslegum umsögnum. Í umsögninni er lögð rík áhersla á að til að samningarnir geti talist ásættanlegir sé nauðsynlegt að draga úr þessari áhættu.
  • Þegar útgreiðslur úr þrotabúi Landsbankans hefjast verður að tryggja að Íslendingar njóti aukins forgangs. Með þeirri breytingu að jafnstöðusamningar (Pari Passu) milli aðila yrðu felldir úr gildi yrði áhættu núverandi og komandi kynslóða Íslendinga mætt að verulegu leyti.
  • Í umsögninni segir orðrétt: „Þetta á að vera krafa íslenskra stjórnvalda ef gera á samning án þess að skorið sé úr um lögmæti greiðsluskyldunnar.“ Í samræmi við þessa umsögn, ráðlagði InDefence fjárlaganefnd Alþingis að sameinast um eina breytingartillögu sem hefði minnkað fjárhagslega áhættu þjóðarinnar og skapað meiri frið um Icesave-samkomulagið.
  • Afstaða InDefence hópsins hefur verið skýr og hin sama frá upphafi málsins:
  • Grundvallaratriði er að samningar um Icesave málið endurspegli þrjú meginatriði:
  1. Að ekki sé lögbundin greiðsluskylda að baki kröfum Breta og Hollendinga.
  2. Að samningar feli í sér skipta ábyrgð allra samningsaðila.
  3. Að samningar feli í sér skipta áhættu allra samningsaðila.
  • Að mati InDefence hópsins endurspegla núverandi samningar ekki þessa þætti með fullnægjandi hætti.“

Hér má segja, að InDefence hafi rétt sinn hlut gagnvart rangtúlkandi fjölmiðlum. Um þá rangtúlkun hafði verið getið í pistli hér (Fölsunarhneigð stjórnvalda og Fréttastofu Rúv) og á tilvísuðu Vísisbloggi undirritaðs. 

Meðvirkni ýmissa fjölmiðla með Icesave-svikasamningunum verður að linna! 

Jón Valur Jensson.


mbl.is InDefence styður ekki Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fölsunarhneigð stjórnvalda og Fréttastofu Rúv

Eins og ríkisfjölmiðillinn var misnotaður af eigin starfsfólki til að ljúga upp "hrifningu" InDefence-hópsins á Icesave-III, einnig lögfræðinganna fjögurra í lögfræðiáliti þeirra og síðast í gær Höskuldar Þórhallssonar, þannig fölsuðu stjórnvöld álit Lees Buchheit, aðalsamninganefndarmanns síns, eins og lesa má hér í frábærri grein, Icesave – Áhættan er enn til staðar eftir Sigmund Davíð Gunnlaugsson (Mbl. 2.2. 2011):
  • "Því var meira að segja ranglega haldið fram að Lee C. Buchheit formaður samninganefndarinnar teldi að Íslendingar þyrftu að óttast dómsmál. Þvert á móti hafa hann og fjölmargir aðrir fært rök fyrir því að Íslendingar hafi lögin með sér. Buchheit tók raunar fram að hann hefði nálgast málið öðruvísi frá upphafi hefði hann fengið að ráða. Hlutverk hans var hins vegar að vinna samkvæmt leiðsögn fjármálaráðuneytisins."

Á afstöðu Buchheits var ennfremur minnt í Útvarpi Sögu í morgun: hann hefði EKKI, eins og sumir fullyrði, tekið afstöðu með Icesave-III-samningnum, heldur sagt: Þetta er samningurinn, eins langt og við komumzt, en ég ræð ykkur ekki til að samþykkja hann.

Málstaður stjórnvalda, ljósvakamiðla og dagblaða í þjónustu þeirra er ekki málstaður sannleikans í þessu máli, það er fullljóst, sem og hitt, að þau hafa beitt bellibrögðum í áróðursmennsku sinni og látið tilganginn helga meðalið til að reyna að narra sem flesta til fylgis við eða til hlutleysis gagnvart þeirri svívirðu, sem nú stendur til í ofurflýti – eins ferðina enn – að samþykkja á Alþingi.

Undirritaður verður með pistil um Icesave í Útvarpi Sögu í dag kl. 12.40–13.00. 

Jón Valur Jensson.


Ískalt mat er uppskrift að svikum – taka 2


Fyrir réttum 7 vikum síðan var haft eftir Bjarna Benediktssyni:

 

»Sjálfstæðisflokkurinn mun leggja ískalt mat á kosti þess og galla að samþykkja nýja Icesave-samkomulagið. Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi fyrir stundu. Sagði Bjarni flokkinn mundu taka góðan tíma til að gaumgæfa gögn um stöðu málsins nú.«

 

Mér fannst þessi ummæli formannsins bera vitni um óviðeigandi »hjarta-kul«, í ljósi þess ofstækis sem Icesave-kúguninni hefur verið haldið að þjóðinni. Að mínu mati höfum við meiri þörf fyrir stjórnmálamenn með »hjartað á réttum stað«, en þá sem þjást af »hjarta-kuli«.

 

Ég skrifaði því pistil um þetta viðhorf mitt, sem endurbirt er hér að neðan. Án þess að ég telji mig vera skyggnan, kemur í ljós að tilfinning mín fyrir kuldanum í orðum formannsins hlutgerist 7 vikum síðar. Því miður hefur Bjarni Benediktsson brugðist þeim vonum sem við hann voru bundnar. Því miður þurfa landsmenn að óttast að hann taki fleirri rangar ákvarðanir í framtíðinni.

 

 

<><><>><<><><> 

 

 

Ískalt mat er uppskrift að svikum

 

Íslendingar þurfa á annari leiðsögn að halda, en »ísköldu mati«. Þvert á móti þurfa fulltrúar landsmanna að hafa »hjartað á réttum stað«. Íslendingar sýndu hug sinn til Icesave-kúgunarinnar í þjóðaratkvæðinu 06.marz 2010 og niðurstaðan talaði skýrt til alls umheimsins.

 

Enginn ætti að leyfa sér að tala um »ískalt mat« þegar þjóðarheiður Íslendinga liggur við, að kúgun nýlenduveldanna verði hrundið. Evrópusambandið sjálft hefur úrskurðað að Íslendingum ber ekki að veita ríkisábyrgð fyrir kröfum Bretlands og Hollands á hendur einkafélagsins Landsbankanum. Þetta hafa óteljandi sérfræðingar staðfest, frá fjölmörgum löndum.

 

Hér skal sérstaklega minnt á nýgjlega ritgerð lögfræði-prófessorsins Tobias Fuchs. Þessi lögfræðingur er engin vinur Íslands, heldur er hann í störfum fyrir Evrópusambandið. Í ritgerð sinni segir hann meðal annars:

 

»Í október 2008 þegar Ísland setti Neyðarlögin og endurskipulagði þannig stóru bankana sem voru í greiðsluþroti, var starfsemi þeirra að hluta til flutt til nýstofnaðra útlánastofnana og þar með var aðgangur að innistæðum í þeim áfram hnökralaus.

 

Með þessari aðgerð voru innistæður í erlendum útibúum undanskildar (þar á meðal Icesave-reikningarnir, sem starfræktir voru á Netinu) og raunveruleg mismunun gerð (óbeint) á grundvelli ríkisfangs og (beinlínis) eftir búsetu, samkvæmt grein 40 EES.

 

Mismunandi meðhöndlun af þessu tagi, er samt ekki óheimil samkvæmt lagabókstafnum og vegna erfiðra og fordæmislausra aðstæðna er ekki fyrirfram hægt að neita því, að þessar aðgerðir til endurreisnar Íslands eru réttlætanlegar.

 

Með hliðsjón af því markmiði endurreisnarinnar – að vinna gegn yfirvofandi samfélagslegum óstöðugleika, sem gjaldþrota-skriða í hagkerfi landsins hefði óhjákvæmilega haft í för með sér – er deginum ljósara, að nauðsynlegt var að halda (að minnsta kosti til bráðbirgða) innistæðum í útibúunum utan við endurreisnina, til að hindra tafarlaus áhlaup á nýgju bankana.«

 

Nýgjasti úrskurður ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) staðfestir framangreinda niðurstöðu Tobias Fuchs. Mismunun er hluti af réttindum sjálfstæðra ríkja. Þetta á sérstaklega við gagnvart hagsmunum lands eins og Bretlands, sem hefur brotið stórkostlega af sér. Hér er auðvitað vísað til beitingar Hryðjuverka-laganna gegn hagsmunum Íslands.

 

Hvers vegna ætti almenningur á Íslandi að veita ríkissjóði Bretlands og Hollands fjárhagslegan stuðning ? Engar lagalegar eða siðferðilegar forsendur hafa verið tilgreindar sem leyfir slíka undirgefni. Þvert á móti banna reglur Evrópuríkisins ríkisstuðning við innlána-tryggingar. Hér á ekki við »ískalt mat«, heldur verða Alþingismenn að hafa »hjartað á réttum stað«.

 

Loftur Altice Þorsteinsson. 


mbl.is Icesave-frumvarp samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eyverjar, félag Sjálfstæðismanna, birti texta sem Valhallarforystan fer í launkofa með!

Að því er ég fæ bezt fæ séð er búið að fjarlægja samþykkt landsfundarins um Icesave af öllum síðum Sjálfstæðismanna, nema þessa frábæru uppsetningu hjá Eyverjum. – Loftur.

 
Almenningur á ekki að ábyrgjast skuldir einkabanka
 
Eyverjar vilja árétta þá afstöðu Sjálfstæðisflokksins að almenningur á ekki að ábyrgjast skuldir einkabanka. Á 39. Landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem haldinn var 25. og 26. júní 2010 var samþykkt ályktun Landsfundar þar sem meðal annars kemur fram eftirfarandi bókun:

                       "Landsfundur segir NEI við löglausum kröfum
                        
Breta og Hollendinga í Icesave-málinu."

Landsfundur er æðsta vald Sjálfstæðisflokksins og er flokknum ætlað að fara eftir þeim samþykktum. Eyverjar vona að þingmenn Sjálfstæðisflokksins muni berjast áfram á móti þeirri áætlun vinstri flokkanna að láta almenning borga fyrir skuldir einkabanka.

 
9. des. 2010 kl.18:49
 
http://www.eyverjar.is/frettir/?p=400&i=235

 

TILVÍSANIR:

http://www.zimbio.com/Icesave/share?Content=/Icesave/articles/BGbFOPGfaUK/Almenningur+ekki+byrgjast+skuldir+einkabanka

http://www.zimbio.com/edit/Icesave/articles/BGbFOPGfaUK/Almenningur+ekki+byrgjast+skuldir+einkabanka


Hræðileg martröð Sjálfstæðisflokks

Hver hefði trúað því að Sjálfstæðismenn ættu eftir að upplifa þá hræðilegu
martröð, að fá hrós frá Steingrími J. Sigfússyni ? Þetta er slík niðurlæging
að lúgbörðum hundi kæmi ekki til hugar að skipta á hlutskiptum við
Sjálfstæðismenn.

Steingrímur og félagar munu aldreigi skilja að aðstæður eru allt aðrar í
dag, en ríktu á dögum Icesave I og II. Ísland hefur unnið sigur í rökræðum
um ríkisábyrgð á innistæðu-tryggingum. Evrópusambandið sjálft hefur
viðurkennt að engin skylda er fyrir ríki EES, að veita ríkisábyrgð á
banka-innistæðum. Raunar hefur komið fram að ríkisábyrgð er ólögleg.

Mikilvægasta atriði sem komið hefur fram á liðnum mánuðum er þó að lögsaga
Íslands gildir um Icesave-málið allt. Icesave-stjórnin ætlar samt að semja
lögsöguna af Íslandi. Henni skal afsalað til Breta og dómstóll í Hollandi
skal dæma í málum. Þetta merkir að Neyðarlögin verða afnumin og lög um TIF
munu ekki gilda. Sama á við um greiðslur úr þrotabúi Landsbankans.

Sjálfstæði Íslands er vanvirt með gerð Icesave-samninga-III, ekki síður en
númer I og II. Niðurlægingin er alger og einungis forsmekkurinn af því sem
Icesave-stjórnin hefur í huga fyrir Íslendinga, með innlimun í Evrópuríkið.
Markmið Sossanna er ljóst.

Afsal sjálfstæðis getur hins vegar varla fallið að stefnu
Sjálfstæðisflokksins. Hvað knýr þingmenn flokksins til að svíkja þjóðina,
með stuðningi við Sossa og Komma ? Er flokkurinn haldinn sjálfseyðingahvöt ?

Ljóst má vera að Sjálfstæðisflokkurinn mun í Icesave-málinu lenda í sömu
stöðu og í Landsdóms-málinu. Heimskan virðist ráða för hjá forustu
flokksins. Hvaða undirmál eru núna í gangi ? Er ætlunin að ganga í eina sæng
með Samfylkingunni ?

Loftur Altice Þorsteinsson


Hræðileg martröð Sjálfstæðisflokks

Hver hefði trúað því að Sjálfstæðismenn ættu eftir að upplifa þá hræðilegu martröð, að fá hrós frá Steingrími J. Sigfússyni ? Þetta er slík niðurlæging að lúgbörðum hundi kæmi ekki til hugar að skipta á hlutskiptum við Sjálfstæðismenn.

Steingrímur og félagar munu aldreigi skilja að aðstæður eru allt aðrar í dag, en ríktu á dögum Icesave I og II. Ísland hefur unnið sigur í rökræðum um ríkisábyrgð á innistæðu-tryggingum. Evrópusambandið sjálft hefur viðurkennt að engin skylda er fyrir ríki EES, að veita ríkisábyrgð á banka-innistæðum. Raunar hefur komið fram að ríkisábyrgð er ólögleg.

Mikilvægasta atriði sem komið hefur fram á liðnum mánuðum er þó að lögsaga Íslands gildir um Icesave-málið allt. Icesave-stjórnin ætlar samt að semja lögsöguna af Íslandi. Henni skal afsalað til Breta og dómstóll í Hollandi skal dæma í málum. Þetta merkir að Neyðarlögin verða afnumin og lög um TIF munu ekki gilda. Sama á við um greiðslur úr þrotabúi Landsbankans.

Sjálfstæði Íslands er vanvirt með gerð Icesave-samninga-III, ekki síður en númer I og II. Niðurlægingin er alger og einungis forsmekkurinn af því sem Icesave-stjórnin hefur í huga fyrir Íslendinga, með innlimun í Evrópuríkið. Markmið Sossanna er ljóst.

Afsal sjálfstæðis getur hins vegar varla fallið að stefnu Sjálfstæðisflokksins. Hvað knýr þingmenn flokksins til að svíkja þjóðina, með stuðningi við Sossa og Komma ? Er flokkurinn haldinn sjálfseyðingahvöt ?

Ljóst má vera að Sjálfstæðisflokkurinn mun í Icesave-málinu lenda í sömu stöðu og í Landsdóms-málinu. Heimskan virðist ráða för hjá forustu flokksins. Hvaða undirmál eru núna í gangi ? Er ætlunin að ganga í eina sæng með Samfylkingunni ?

Loftur Altice Þorsteinsson.


mbl.is Fagnar afstöðu sjálfstæðismanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband