Færsluflokkur: Fjármál

Nei við dáðleysi og ESB-daðri

Eftir Daníel Sigurðsson
Daníel Sigurðsson

"Hinn 1. apríl hefði óafturkræf vaxtakrafa, skv. Icesave III-samningnum, verið komin í um 65 milljarða."

Eins og sannast hefur í Icesave-málinu er stjórnarflokkunum ekki treystandi fyrir hagsmunum þjóðarinnar í komandi viðureign stjórnvalda við vogunarsjóði og erlenda banka sem eiga langmest í „snjóhengjunni“ svokölluðu sem telur allt að 1.000 milljarða. Efnahagslegt sjálfstæði Íslands er um að tefla.

Forseti Íslands og þjóðin sáu til þess að Icesave-grýluna dagaði uppi fyrir EFTA-dómstólnum í eigin jarðarför.

Hinn 1. apríl hefði óafturkræf vaxtakrafa, skv. Icesave III-samningnum, verið komin í um 65 milljarða. Og þar sem höfuðstóll kröfunnar er enn risavaxinn, þrátt fyrir um helmings lækkun vegna útgreiðslna úr þrotabúinu, hefðu vextir haldið áfram að „tikka“ vægðarlaust um ókomna tíð.

Fyrir þessa upphæð mætti minnka skuldir 16 þúsund heimila í landinu um 4 milljónir fyrir hvert.

Samfylkingin hefur svo til að bíta höfuðið af skömminni reynt að knýja fram nýja stjórnarskrá þar sem þjóðaratkvæði í máli sem þessu yrði aðeins ráðgefandi og í ofanálag með heimild til fullveldisafsals til erlendra stofnana.

Samningsafglöp núverandi stjórnvalda varðandi danska FIH-bankann, sem var í íslenskri eigu, segir svo sína sögu en þar stefnir í um 40 milljarða tap í stað gróða.

Orðrétt sagði Gylfi nokkur Magnússon, fyrrverandi ráðherra, í viðtali 9. þ.m. á RÚV er fréttamaður vísaði í Icesave-málið til samanburðar: „þetta er af sömu stærðargráðu og þessar vaxtagreiðslur sem var verið að takast á um undir það síðasta og raunar aðeins hærri upphæð ef eitthvað er“.

Þessi leiksýning í boði RÚV, þar sem þessi falsspámaður fékk tækifæri til að draga líkið af 32 milljarða kanínu „Já-hópsins“ upp úr kúbönskum hatti sínum, verður að teljast vanvirðing við þjóðina á þessum tveggja ára afmælisdegi seinni þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Lars nokkur Christensen frá Danske Bank prýddi forsíðu Fréttablaðsins hinn 19. þ.m. Þar varaði hann við því að íslensk stjórnvöld beittu löggjafarvaldinu til að komast yfir eignir þrotabúa bankanna. Þessi spekingur, sem Fréttablaðið mærir og titlar sem „Íslandsvin“, vílar ekki fyrir sé að rangtúlka lagalegan rétt Íslands.

Í þessu drottningarviðtali segir hann að lífeyrissjóðir á Norðurlöndum eigi hlut í snjóhengjunni. Hann þagði hins vegar yfir því að Danske Bank á sjálfur þarna verulegra hagsmuni að gæta. Þessi spekingur ætti að halda sig á heimavígstöðvunum þar sem Danske Bank er haldið á floti af danska ríkinu. Þjóðin má þó prísa sig sæla að Samfylkingin náði ekki að opna aftur skjá allra landsmanna fyrir tunguliprum og kjaftagleiðum dönsku kratavitringunum, fyrrverandi ráðherrum Dana, þeim Mogens Lykketoft og Uffe Elleman Jensen, sem kallaðir voru á skjáinn til að reyna að hafa vit fyrir íslensku þjóðinni í Icesave-málinu. Þar boðuðu þeir ísöld á Íslandi ef þjóðin segði NEI.

Danska húsnæðiskerfið er nú að hruni komið og eignamyndun helmings einstaklinga engin, sem er í sjálfu sér ekki fréttnæmt fyrir okkur nema fyrir þær sakir að formaður Samfylkingarinnar er að bjóða upp á þennan sama möguleika ef tekst að véla Ísland inn í ESB.

Höfundur er véltæknifræðingur.

Greinin er endurbirt hér með góðfúslegu leyfi þessa félaga okkar í Þjóðarheiðri.
Hún birtist fyrst í Morgunblaðinu í morgun.
Um önnur skrif eftir hinn glögga Daníel á þessu vefsetri, sjá HÉR!
 

Vinaþjóðir? - spurt að gefnu tilefni vegna íhlutunar Elleman-Jensens og Carls Bildt í Icesave-málinu

"Í Icesave-málinu kom í öllu falli vel í ljós hverra vinir Norðurlöndin og ESB voru og gilti þá einu þó að „vinaþjóðirnar“ Bretland og Holland héldu uppi löglausum kröfum á hendur Íslandi sem að auki hefðu sett þjóðina í gjaldþrot hefðu jámenn fengið að ráða." Þannig ritar Arnar Sigurðsson, sem starfar á fjármálamarkaði, í Morgunblaðið í dag. Grein hans er hér: Vinaþjóðir?mm

Þar fjallar hann fyrst og frest um Evrópusambandsmálið og tekur Þorstein Pálsson sérstaklega á teppið vegna skrifa hans í þeim efnum, en hér víkur hann einnig að Icesave-málinu:

  • "Þorsteinn virðist telja að upphefðin komi að utan og telur óþarft að minnast á hlut stórmennisins Carls Bildt í að kúga Íslendinga til undirgefni gagnvart Bretum og Hollendingum. Carl Bildt fór fyrir hópi norrænna vinaþjóða Breta og Hollendinga í ræðu og riti með því að skilyrða lán frá AGS við að Íslendingar undirgengjust löglausar kröfur sinna vinaþjóða. Á sama tíma sagði Uffe Elleman-Jensen að veruleikaskynið virtist hafa yfirgefið Íslendinga og tók undir með varaformanni VG um að forseti þjóðarinnar væri fífl. „Þetta segi ég, sem hef lengi verið Íslandsvinur. Ímyndið ykkur þá hvernig aðrir upplifa þessar aðstæður.“
  • Það er sjálfsagt að eiga í samstarfi við vini sína og gaman þegar erlend fyrirmenni klæðast íslenskum lopapeysum en Icesave-málið sýnir að enginn lítur jafn vel eftir hagsmunum íslensku þjóðarinnar og hún sjálf," segir Arnar í framhaldi af þessu. 

Vel mælt um þetta og fleiri mál hjá honum, sjá Morgunblaðið í dag. En af orðunum hér ofar má sjá, hve freklega langt ýmsir norrænir leiðtogar eins og Elleman-Jensen og Carl Bildt gengu, þegar þeir þjónuðu Bretum og Hollendingum í Icesave-málinu. Og ekki voru þeir hænufeti framar í skilningi á lagalegu réttlæti heldur en Icesave-dindlarnir í íslenzkri stjórnmálastétt og viðskiptalífi eða álitsgjafarnir rugluðu í háskólasamfélaginu og í fjölmiðlum -- sbr. greinar hér á síðunni (efnisyfirlit um NÝJUSTU FÆRSLUR í dálkinum til vinstri, neðar) og væntanlega grein um nýjustu aulayfirlýsingar Gylfa Magnússonar.

Jón Valur Jensson.


Þau studdu hinn ömurlega Icesave-II-samning og líka Icesave-III-samninginn!

Það er full ástæða til að rifja upp, hvaða fólk þetta er, því að enn eru sumir þar að bera blak af Icesave-svikasamningunum, og ýmsir í hópnum telja sig enn þess umkomna að hafa vit fyrir þjóðinni í ESB-umsóknarmáli Samfylkingarinnar og stefnuskrár-svíkjandi Vinstri grænna. En skoðið þetta:

 

Sumir virðast ekki sjá myndina af auglýsingu Andríkis, sem pistilshöf. sér þó úr sinni tölvu. Undarlegt. Þá er það helzt til ráða í bili að birta hér innihald þeirrar auglýsingar. Þar er efst yfirskriftin: Þau studdu hinn ömurlega Icesave II samning sem þjóðin felldi með 98% atkvæða  Þá koma myndir í fjórum röðum, fjórar í hverri, ásamt nöfnum viðkomandi, þessum: Friðrik Már Baldursson [prófessor], Gylfi Arnbjörnsson [forseti ASÍ og ESB-sinni], Gylfi Magnússon [prófessor], Gylfi Zoëga [prófessor og ESB-sinni], Indriði H. Þorláksson [ríkisskattstjóri], Jóhanna Sigurðardóttir, Jón Sigurðsson [fv. fjármálaráðherra og fv. stjórnarform. FME], Már Guð­munds­son, Margrét Kristmannsdóttir [í Pfaff, form. Samtaka verslunar og þjónustu og ESB-sinni], Ólafur Þ. Stephensen [fv. ritstjóri Mbl. og Fréttabl. og ESB-sinni], Steingrímur J. Sigfússon, Svavar Gestsson, Vilhjálmur Egilsson, Vilhjálmur Þorsteinsson [forstj. CCP, evrókrati og fv. stjórnlaga­ráðsm.], Þórólfur Matthíasson [prófessor og ESB-sinni], Össur Skarphéðinsson [stjórnar­skrár­brjótur og ESB-sinni]. Undir myndunum stendur: Og nú vilja þau Icesave III  -- Undir er svo merki Andríkis ásamt uppl. í smáu letri um hvernig kostnaður við þessa auglýsingu (í dagblöðum) hafi verið greiddur.

Jón Valur Jensson. 


Upprifjun, I: Hörður Arnarson í Landsvirkjun freistaði þess að afvegaleiða okkur í Icesave-málinu, þjóðinni næstum því til stórskaða

Af einhverjum ástæðum eru mánaðarlaun Harðar komin upp í 10,7 milljónir eða hærra (heimild: DV í úttekt á launum hæstlaunaðra). Lesum nú þessar merkilegu uppl. um hann í Fuglahvísli 18. febrúar sl.:

Þegar Icesave-deilan var í hámarki sagði Hörður Arnarson:

RÚV
Fjölmiðlar hafa ekki mikinn áhuga á því að spyrja Hörð út í fyrri yfirlýsingar um tengsl Icesave og lánshæfismats Landsvirkjunar.

Við teljum að fjármögnun í gegnum fjármálastofnanir muni ganga eftir á næstu vikum ef tekst að ljúka Icesave-deilunni. [...] Út frá hagsmunum fyrirtækisins tel ég það afar jákvætt að leysa þetta Icesave-mál. Þetta mun örugglega auðvelda okkur fjármögnun, og þá ekki bara fyrir Búðarháls heldur fyrir öll önnur verkefni sem við erum með í skoðun. Lausn þessa máls hefði líka jákvæð áhrif á lánshæfismat fyrirtækisins og íslenska ríkisins sem myndi hafa jákvæð áhrif á aðgengi að fjármagni fyrir öll íslensk fyrirtæki.

Hörður taldi á þeim tíma að stórkostleg skuldaaukning hins opinbera hefði jákvæð áhrif á lánshæfismat Landsvirkjunar. Þetta innlegg harðar kom á sama tíma og aðrir stjórnmála-, fræði og viðskiptamenn lögðu allt í sölurnar til að koma Icesave samningi Samfylkingar og VG í gegn.

Það sem gerðist hins vegar nú er að lánshæfiseinkunn Landvirkjunar var hækkuð eftir að ljóst varð að Icesave félli ekki á íslenska ríkið og væri því úr sögunni hvað lánshæfi ríkisins og ríkisfyrirtækja varðar.

Fjölmiðlar ræddu við Hörð í hádeginu í dag. Var hann spurður út í fyrri orð um Icesave og lánshæfið? Nei.

Tilvitnun lýkur. Heimild hér:  http://www.amx.is/fuglahvisl/18608/

Furðulegt hvernig ýmsir reikningskúnstarmenn brugðust okkur gersamlega í Icesave-málinu. Það sama gerðu ekki sjálfvaktar hreyfingar Íslendinga með óbrenglaða réttlætiskennd, manna sem EFTA-dómstóllinn gaf allan heiður í þessu máli með algerri sýknun Íslands í málinu og þar sem úrskurðað var, að við skyldum ekki einu sinni borga eigin málskostnað.

Jón Valur Jensson. 


Tvö ár frá synjun forsetans á Icesave-löggjöf hið síðara sinn

Já, tíminn líður, en þessi kaflaskil í málinu -- að undangenginni undirskriftasöfnun Samstöðu þjóðar um Icesave, sem Þjóðarheiðursmenn áttu þátt í að stofna -- urðu forsenda þess, að málið endaði í EFTA-dómstólnum og fullkominni sýknu Íslands.

Heill forseta vorum að hafa beitt sér gegn óþinglegu athæfi og háskastefnu fyrir stjórnskipan landsins og efnahag þjóðarinnar, en neytt stjórnarskrárbundins réttar sins og stuðlað með varðstöðu sinni að hreinsun mannorðs heillar þjóðar og betri fjárhagsstöðu okkar allra!

HÉR (26.-28.2. 2011) og HÉR (23.-26.) og HÉR (19.-23.) geta menn séð eða rifjað upp, hvernig umræðan var á þessu vefsetri Þjóðarheiðurs í ofanverðum febrúar 2011. Og hér eru bloggfærslur mánaðarins í marz 2011 (þ.e. 8 síðustu dagarnir og framhald lengra inn í mánuðinn með því að smella þar á línuna 'Næsta síða' neðst),

Jón Valur Jensson.


Steingrímur J. Sigfússon sér ekki eftir Icesave-ákvörðunum sínum!

Margir munu hafa séð hann í Kastljósi þetta mánudagskvöld. Ennþá frakkari var hann samt í morgunútvarpi Rúv sama dag. Var hann spurður, hvort á stjórnarferlinum væri "einhver ákvörðun sem þú sérð eftir" og talin upp fáein mál, og bar Icesave einna hæst. 

"Nei, ég get ekki sagt það ..." svaraði Steingrímur keikur!!

Blaðraði hann svo í kringum þessi mál og endaði á þessu: "Þegar skyldan kallaði, þá fór VG í þetta verkefni, og ég er stoltur af því"!

Svo hefur hann sennilega litið á eftir í spegilinn og ávarpað hann með þessum orðum: "Spegill, spegill, herm þú mér, hver hér á landi flottastur er," og heyrzt hann heyra hið kórrétta svar! 

JVJ. 


Stjórnarflokkarnir gjalda fyrir Icesave-auðsveipni sína, en Framsókn fær aukið traust vegna samstöðu með þjóðinni

Réttur okkar Íslendinga í Icesave-deilunni var ALGJÖR. Það sannaðist í vel rökstuddri niðurstöðu EFTA-dómstólsins. Viðbrögðin láta ekki bíða eftir sér í nýrri skoðanakönnun MMR. Fylgi Framsóknar eykst um 4,7% af öllum kjósendum á hálfum mánuði, en stjórnarflokkarnir hafa misst 3,8% fylgi meðal allra kjósenda í des. skv. skoðanakönnunum.

Straumurinn er því eðlilega frá svikurum á Alþingi í Icesave-málinu. Trúverðugleiki Icesave-þjónustuliðsins, sem svo óvægilega gekk fram í því að láta Alþingi samþykkja ólögvarðar og ólögmætar kröfur, er nákvæmlega enginn í því máli, enda íslenzka þjóðin saklaus þar af allri sekt.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Framsókn fengi 19,5%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær fáum við afsökunarbeiðni frá Icesave-baráttuþingmönnum og ráðherrum?

Sannarlega má taka undir með þeirri áskorun almenns fundar Dögunar, að þingmenn, "einkum núverandi formenn ríkisstjórnarflokkanna sem hvöttu Íslendinga til að mæta ekki á kjörstað í þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-samningana, sjái sóma sinn í að biðja kjósendur afsökunar á þeim orðum sínum að kjósendur nýti ekki rétt sinn til að taka lýðræðislega afstöðu í jafn umdeildu og alvarlegu máli og Icesave-samningar ríkisstjórnarinnar voru." (Leturbr. hér.)

En seint virðist bóla á afsökunarbeiðni ráðamanna og þeirra tæpl. 70% þingmanna sem greiddu atkvæði með síðasta Icesave-frumvarpinu. Birgir Ármannsson á Alþingi í gær, skv. leiðara Mbl. í dag:

  • Ekki einungis alþjóðlegar stofnanir þyrftu að draga lærdóm af dómnum í Icesave-málinu heldur einnig ríkisstjórn Íslands, sem ráðherrann hefði gleymt að nefna. Ríkisstjórnin hefði ekki aðeins unnið ítrekað að því að koma Icesave-samningum í gegnum þingið heldur hefði hún hvað eftir annað barist gegn þjóðaratkvæðagreiðslum um málið. Þetta sé nauðsynlegt að rifja upp, sérstaklega þegar í hlut eigi stjórnmálamenn sem státi af því að vera hinir mestu lýðræðissinnar og helstu stuðningsmenn þjóðaratkvæðagreiðslna.

Og skv. sama leiðara ...

  • Unnur Brá spurði að því hvort ráðherrann væri enn þeirrar skoðunar að rétt hefði verið af ríkisstjórninni að reyna að koma Svavarssamningunum óséðum í gegnum þingið og fór Steingrímur með nákvæmlega sömu röksemdir og hann gerði á þeim tíma sem hann sagði þá samninga glæsilega niðurstöðu. Ekki hafi verið um neitt annað að ræða en semja og að réttlætanlegt hafi verið að pukrast með innihald samninganna þar sem viðsemjendurnir hafi viljað hafa efni þeirra trúnaðarmál. 

Og sannarlega má taka undir með ályktunum leiðarahöfundar:

  • Og auðvitað er líka skelfilegt að ráðamenn skuli enn vera þeirrar skoðunar að þeir hafi ekkert gert rangt þegar svo augljóst er orðið að þeir hafa ekki aðeins tekið ranga afstöðu heldur einnig stórhættulega afstöðu á öllum stigum málsins. Meginatriðið er að þjóðarhagur var aldrei settur í öndvegi í þessu máli, einungis ríkisstjórnin og aðildarumsóknin að Evrópusambandinu, en eins og margoft hefur komið fram getur hvorugt án hins verið 

Þetta síðastnefnda kemur t.d. skýrt fram HÉR, þ.e. að ESB vann hlífðarlaust og harkalega gegn okkur í ICESAVE-málinu frá upphafi til enda.

JVJ tók saman.


mbl.is Biðji kjósendur afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjallað um þjóðarsigur í Icesave-máli

Glæsilega er fjallað um Icesave-niðurstöðu EFTA-dómsins og sögu málsins í Morgunblaðinu í dag, það er fullt af góðri greiningu, yfirliti, leiðaranum eitilhörðum, viðtölum o.fl., og ættu sem flestir að fá sér blaðið. Hér er ótvírætt um ÞJÓÐARSIGUR að ræða, þótt málsvarar stjórnvalda séu tregir til að nota slík orð og mæli gegn of mikilli gleði! Eins vill það fólk "ekki horfa aftur", og skyldi engan undra!! Orð og gerðir ríkisstjórnarsinna í því máli, um "greiðsluskylduna" og annað heimskulegt, mæla nú ekki beinlínis með þeim svo stuttu fyrir kosningar!

Hér á síðunni verður tekið á ýmsum þáttum þessa máls á dögunum sem í hönd fara. En meðal forvitnilegs efnis í Mbl. er upprifjun blaðamanns þar, Baldurs Arnarsonar, á hinum furðulega "Áfram-hópi" og stuðningi hans við Buchheit-samninginn. Í þessum frábæra vitsmunahópi voru m.a. Hjálmar Sveinsson, varamaður í borgarráði fyrir Samfylkingu, Jóhann Hauksson, upplýsingafulltrúi Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, Guðmundur Steingrímsson, núv. formaður Bjartrar framtíðar, Gylfi Arnbjörnsson, þá sem nú forseti ASÍ, samfylkingarþingmennirnir Oddný Harðardóttir og Skúli Helgason og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar (sem einnig er ESB-maður, þótt það komi ekki fram í fréttinni).

Þá segir Baldur í sömu frétt* frá mælingu ungra jafnaðarmanna (á vefsíðu þeirra) á því, hve miklu Ísland væri að tapa á því að gera ekki Icesave-samninginn árið 2011! Á "stundaklukku" voru þeir endemis-ratar komnir upp í 2770 milljarða króna áætlaðan "fórnarkostnað" af því að hafna Buchheit-samningnum (70% meira en þjóðartekjur 2011)!!! Við vitum nú betur!

* Bara fyrirsögn og undirfyrirsagnir þessarar greinar á bls. 4 ættu að vekja athygli:

"Já-hópar lokuðu vefsíðum sínum

• Áfram-hópurinn vildi samþykkja Icesave-samning í síðari þjóðaratkvæðagreiðslunni • Fjöldi þjóðþekktra einstaklinga studdi hópinn • Ungir jafnaðarmenn voru sama sinnis • Settu upp skuldaklukku"

 

Já, það mætti halda að þessir ungu jafnaðarmenn hafi beðið dómsdags fyrir íslenzkt efnahagslíf og endaloka lýðveldisins!  Í gær fengu þeir að sjá hinn réttláta dóm, og hann skar úr um sakleysi þjóðarinnar í þessu máli og alls enga greiðsluskyldu!

Jón Valur Jensson.  


mbl.is Þjóðarsigur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttlætið og íslenzka þjóðin og samstaða hennar gegn brigðulli stjórnmálastétt vann Icesave-málið í EFTA-dómstólnum!

Niðurstaðan er fengin: FULLUR SIGUR, staðfestur jafnvel með því, að Ísland þarf engan málskostnað að bera, heldur ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) og Evrópusambandið! Mega þeir nú skammast sín á Rúv sem boðuðu það til síðasta dags, að ESA hefði aldrei tapað máli og að allt væri því hér í hættulegri óvissu. 

  • Dómstóllinn taldi að tilskipunin gerði ekki ráð fyrir að EES-ríki væri skuldbundið til að tryggja þá niðurstöðu sem ESA hélt fram um greiðslur til innstæðueigenda á Icesave-reikningum Landsbankans í Hollandi og Bretlandi þegar jafnmiklir erfiðleikar geysuðu í fjármálakerfinu og raunin hefði verið á Íslandi. Þannig léti tilskipunin því að mestu leyti ósvarað hvernig bregðast ætti við þegar tryggingarsjóður gæti ekki staðið undir greiðslum. Dómstóllinn benti í því sambandi á að eina ákvæði tilskipunarinnar sem tæki til þess þegar tryggingarsjóður innti ekki greiðslu af hendi væri að finna í 6. mgr. 7. gr. hennar, en þar væri kveðið á um að innstæðueigendur gætu höfðað mál gegn því innlánatryggingarkerfi sem í hlut ætti. Hins vegar kæmi ekkert fram í tilskipuninni um að slík réttarúrræði væru tiltæk gegn ríkinu sjálfu eða að ríkið sjálft bæri slíkar skyldur. Þá taldi dómstóllinn að fyrsta málsástæða ESA [þ.e. "að Ísland hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt tilskipuninni og þá sérstaklega samkvæmt 3., 4., 7. og 10. gr. hennar"] hefði hvorki stoð í dómaframkvæmd né öðrum reglum sem teknar hefðu verið inn í EES-samninginn. 
  • Með dómi sínum í dag sýknaði EFTA-dómstóllinn íslenska ríkið af kröfum ESA. (Mbl.is.)  

Sjá hér fréttatilkynningu  EFTA-dómstólsins á íslenzku um dóminn.

Samstaða þjóðarinnar var mikil í þessu máli, en sú samstaða vannst þó fyrir þrautseiga baráttu margra einstaklinga og nokkurra samtaka gegn sameinuðum straumi margra fjölmiðla, einkum Rúv og 365 miðla (Morgunblaðið og Útvarp Saga voru nánast einu undantekningarnar), álitsgjafa í háskólasamfélaginu, vinstri flokkanna beggja, ríkisstjórnarinnar (þ.m.t. Össurar sem nú er í vandræðalegri stöðu) og frekra bloggara sem gengu fram með frýjunarorðum og jafnvel beinum svívirðingum um baráttu þjóðarinnar í þessu máli. Þeir ættu nú allir að biðja þjóðina afsökunar á óþjóðhollu framferði sínu.

Með baráttu fernra frjálsra samtaka (InDefence-hópsins, Þjóðarheiðurs - samtaka gegn Icesave, Advice-hópsins og Samstöðu þjóðar gegn Icesave) tókst að koma í veg fyrir bein spellvirki stjórnmálastéttarinnar á fjárhag ríkisins, efnahag fólks og komandi kynslóða, þ.e.a.s. með því að kalla fram þær tvær þjóðaratkvæðagreiðslur, sem stöðvuðu svikaferlið sem í gangi var á Alþingi á vegum helztu Icesave-postulanna, Steingríms og Jóhönnu, Össurar og Gylfa Magnússonar, Árna Þórs Sigurðssonar og jafnvel undir lokin Bjarna Benediktssonar og þess meirihluta í þingflokki hans sem ekki hafði bein í nefinu til að standa gegn stuðningi hans við Buchhheit-samninginn.

Heill sé hinum á þingi, sem börðust gegn þessu svika- og prettamáli, fólki eins og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, Birgi Ármannssyni, Pétri Blöndal, Unni Brá Konráðsdóttur, Höskuldi Þórhallssyni, Vigdísi Hauksdóttur, Gunnari Braga Sveinssyni o.fl. 

Og til hamingju, íslenzka þjóð. Nú er léttara yfir okkur flestum og skýrari sjónin. 

Jón Valur Jensson.


mbl.is Ísland vann Icesave-málið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband