Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011

Baldur Ágústsson: Opið bréf: Nokkrar einfaldar spurningar til forsætisráðherra.

 



 

LÝÐRÆÐI 

Þegar skoðuð er stefna núverandi stjórnarflokka í  samstarfssamningi, samstarfsyfirlýsingu og málflutningi þeirra  fyrir síðustu kosningar er ljóst að háleit markmið og umhyggja  fyrir þjóðinni voru í efsta sæti. Meirihluti kjósenda fagnaði  þessu og gerði með atkvæðum sínum kleift að mynda 

“norræna velferðarstjórn í besta skilningi þess orðs” svo vitnað sé í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. 

 

Fyrir utan – og sem hluti af – skjaldborg heimilanna, hjól  atvinnuveganna og óskert velferðarkerfi, voru fyrirheit um  gegnsæja stjórnarhætti, góða upplýsingagjöf og virkara beint  lýðræði. Það síðastnefnda var skýrt þannig að frambjóðendur,  ef kjörnir, myndu hlusta á þjóðina, taka tillit til skoðana 

hennar og ekki síst: Lítill hluti kjósenda gæti krafist – og  fengið – þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál þmt. þingrof og nýjar kosningar. Nefnt var að 10-15% kjósenda þyrfti til. 

 

Eftir langvarandi auðmannadekur, misskiptingu  auðs og einkavæðingarfár var þetta einmitt það  sem fólk almennt vildi. Þetta var það sem  stjórnarflokkarnir seldu þjóðinni – og hún keypti með atkvæðum sínum. 

Spurt er: Hvenær fer afhending hins selda fram? 

Hví hafa reglur ekki verið settar um rétt kjósenda til að fara fram á 

þjóðaratkvæðagreiðslu í samræmi við fyrrnefnd fyrirheit? Ljóst er að líklega verður slíkt sett í  nýja stjórnarskrá. Hún getur hinsvegar – eins  og reynslan sýnir - verið mörg ár í burðarliðnum og eftir því er ekki hægt að bíða – allra síst nú þegar taka þarf stórar ákvarðanir um framtíð þjóðarinnar. 

Ekkert hindrar alþingi/ríkisstjórn í að setja reglur um þetta í samræmi við fyrirheitin. 

Um leið og ég spyr hvaða fyrirætlanir hafa valdhafar um að standa við orð sín, þá skora ég á þá að gera það nú þegar. Þetta er einfalt og fljótlegt; vilji er allt sem þarf. 

 

ICESAVE 

Frá því að þjóðin felldi Icesave-samninginn, í þjóðaratkvæðagreiðslu, eru nú liðnir um 10 mánuðir. Að sögn stjórnvalda var þar besti fáanlegi samningur sem mögulegt væri að ná. 

1. Hvernig stendur á því, eftir að “besti fáanlegi samningur” var felldur af þjóðinni, að íslensk stjórnvöld héldu áfram viðræðum við Holland og Bretland – sem leiddi til þess samningsuppkasts sem nú liggur á borðinu ? 

a. Óskaði Alþingi eftir því – ef svo, óskast tilvísun í þingskjöl. 

b. Ákvað ríkisstjórnin það sjálf, og ef svo: Hversvegna? 

2. Hver hefur kostnaður þjóðarinnar/ríkisins verið – að öllu meðtöldu – þessa tíu mánuði – við viðræður og annað er snertir undirbúning hinna nýju samningsdraga? 

a. Sundurliðað. 

b. Samtals. 

3. Hver er allur kostnaður við Icesave-viðræður orðinn frá upphafi samningsviðræðna til áramóta nú - 2010/11? 

4. Hyggjast stjórnvöld leggja hinn nýja Icesave-samning í dóm þjóðarinnar – og við hvaða meirihluta á þá að miða til samþykktar? 

[...]

 

BÖRNIN OKKAR, sem ganga stolt undir íslenskum fána, eiga þau skilið að við bindum þeim illviðráðanlega skuldabagga og seljum fullveldi þeirra í eigingjarnri tilraun til að losna sjálf undan tímabundnum óþægindum? 

[...]

 

Svar óskast sent hið fyrsta til undirritaðs, svo og Morgunblaðinu til birtingar. 

Reykjavík, 4.1.2011 

Baldur Ágústsson 

Höf. er fv. forstjóri og forsetaframbjóðandi 

www.landsmenn.is - baldur@landsmenn.is

 

Þessir hlutar greinarinnar eru endurbirtir hér með góðfúslegu leyfi höfundar. Í öðrum hlutum þessarar mjög svo athyglisverðu greinar, sem birtist í Morgunblaðinu í nýliðinni viku, fjallar höf. um ESB-málið og fleira.


Stjórnvöld halda fram blekkingum. Hér má finna nokkur mótefni!

Áður en þingfundir hefjast síðdegis á morgun, er ástæða til að minna á skrif á bloggsíðu Þjóðarheiðurs – samtaka gegn Icesave:

Sérfræðiálit fjármálasérfræðinga til Alþingis: "Kostnaður gæti orðið 230 milljarðar" af Icesave-III

Einbeittur brotavilji?

Grunnhyggnir og gæfulausir lögfræðingar

Rúvið falsaði álit lögfræðinganefndarinnar um Icesave-III

Icesave-síbrotamenn, erlendir sem innlendir, halda áfram að þjarma að íslenzku þjóðinni

"Fjármálaráðuneytið áætlar að ríkissjóður þurfi að greiða 58,9 milljarða vegna Icesave fram til ársins 2016, þar af 26,1 milljarð á þessu ári og 10,4 á næsta ári." ...

Icesave-blekkingar og meiri Icesave-blekkingar

Hver sagði þetta? (Jú, þarna er skrifað um merka umfjöllun í leiðara Financial Times 15. desember sl., en hann var ekki beinlínis stuðningur við Steingrím og Jóhönnu).

Hörð gagnrýni í áliti InDefence-hópsins á Icesave-III-samning og frumvarp: samþykkir þetta EKKI, eins og það liggur fyrir

Leiðin út úr vandanum: "... Í fjórða lagi þarf að tilkynna Bretum og Hollendingum að ríkið muni ekki greiða Icesave-skuld þrotabús Landsbankans ..."


Sérfræðiálit fjármálasérfræðinga til Alþingis: "Kostnaður gæti orðið 230 milljarðar" af Icesave-III

Frétt þessi er þegar farin út af aðalsíðu Rúv. 

Það er svolítið merkilegt að velta því fyrir sér, af hverju þessi frétt birtist þar í dag. Undirrituðum kom fyrst í hug: Eru Rúvarar að bæta fyrir Icesave-stefnu-málflutninginn sem þar hefur verið svo áberandi í þessari viku? Ítrekað hafa þeir gefið tilefni til gagnrýni á sig hans vegna, sbr. það sem hefur verið skrifað hér um afar ójafnvægiskenndan fréttaflutning þeirra af álitgjörð InDefence-manna um Icesave-III og lögfræðinganefndarinnar í þokkabót (sjá hér neðar á síðunni) – já, hlutdrægan fréttaflutning, svo vægt sé tekið til orða.

En þeir eru ekki líklegir til iðrunar, Rúv-fréttamenn, sem eru undir stjórn Óðins Jónssonar. Þegar undirritaður áttaði sig á því, að það var María Sigrún Hilmarsdóttir sem sá um þessa frétt og fréttastjórn Rúv í hádeginu í dag, þá rann það upp fyrir honum, að þarna hefur helgarfréttavakt hennar sennilega bjargað því, að þetta komst þar á framfæri, en María Sigrún kemur úr Sjálfstæðisflokknum, sem er líklega ekki í mun að bera ábyrgð á Icesave-stefnu núverandi stjórnvalda.

En forsendurnar eru enn, í þessum útreikningum, að gengið haldist nánast óhaggað. Þótt það sjáist ekki í þessari netfrétt Rúv, talaði þessi Valdimar Ármann hagfræðingur um það í viðtali í þessari frétt í hádeginu, að þarna væri gert ráð fyrir 1% gengissigi krónunnar á ári (ef undirritaður heyrði það rétt). En gengið hefur hækkað um a.m.k. 10% á árinu 2010 og gæti leikandi fallið um 5% eða mun meira á komandi misserum, sér í lagi ef gjaldeyrishöftin verða afnumin.

Morgunblaðið fekk í desember stærðfræðing til að leggja mat á hugsanlega greiðsluupphæð miðað við að Icesave-III-samningurinn yrði samþykktur, og þar kom fram, að áhættan gæti orðið jafnvel snöggtum meiri en þessir 230 milljarðar sem hér er talað um. 

Jón Valur Jensson. 


Einbeittur brotavilji?


Hver skilur ákafa þingmanna ríkisstjórnarinnar við að reyna að svíkja yfir þjóðina enn einn drápsklyfjabaggann vegna upploginnar skuldar Icesave, sem á ekki að greiðast með neinum peningum öðrum en þeim sem hægt er að kreista út úr þrotabúi Landsbankans?

Og það í þriðja sinn eftir að stjórnvöld hafa verið rekin til baka tvívegis með handónýta samninga. Í seinna skiptið var það forsetinn og þjóðin sem sáu um rassskellinguna. Ekki verður betur séð en að um einbeittan brotavilja sé að ræða hjá ríkisstjórninni að svíkja yfir þjóðina skuldabagga sem öll lög, bæði alþjóðleg og innlend, segja að henni ber ekki að taka á sig.

Landsbankinn var einkabanki og samkvæmt kröfurétti ber þeim sem eiga inni ógreidda reikninga hjá einkafyrirtækjum í greiðsluþroti að beina kröfum sínum til þrotabúa umræddra fyrirtækja. Ekki til gömlu konunnar í næsta húsi, þó hún kunni að eiga eitthvert smá-sparifé.

Theódór Norðkvist.

 

Bæta má við, að fjármálaráðherrann hyggst leggja 26,1 milljarðs króna álögur á þjóðina á þessu ári, fram hjá fjárlögum, allt vegna vegna Icesave (lesið um það HÉR!), og tekur fram um sama leyti, að ríkissjóður hafi ekkert svigrúm til kjarabóta fyrir launamenn með lausa samninga!

Ólögvarin krafa gamalla nýlenduvelda er þannig tekin fram yfir hag alþýðu!

Fylkjum liði gegn þessari Icesave-stjórn í mótmælunum á Austurvelli, þegar Alþingi tekur aftur til starfa, síðdegis á mánudaginn eftir helgi!

Jón Valur Jensson.


mbl.is Segir Icesavevinnu ganga vel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grunnhyggnir og gæfulausir lögfræðingar

Hvers vegna halda menn, að fengnir hafi verið fjórir lögfræðingar til að gefa sameiginlegt álit ? Auðvitað vita allir svarið, en það er til að álitið gefi óskýra mynd, sem hægt er að túlka eins og hverjum sýnist. Hvers vegna Stefán Már Stefánsson lætur draga sig svona niður í svaðið er stóra spurningin. Allir vita að Stefán Geir Þórisson er ómerkingur.

Fyrir þetta »Tetraktys« voru lagðar sjö spurningar og ekki ætlast til að út fyrir þær væri vikið. Þær voru:

 

A.    Hvað tæki við ef samkomulag um Icesave verður ekki staðfest ?

 

B.   Hvert er mat á dómstólaleiðinni, kostar og gallar ?

 

C.   Ef samningar takast ekki og gert er ráð fyrir að samnings-brotamál ESA myndi halda áfram og ganga til EFTA-dómstólsins, hver myndi vera líkleg niðurstaða EFTA-dómstólsins ? Að því gefnu að þar gangi áfellisdómur, hver myndu vera líkleg lagaleg og pólitísk áhrif þess ?

 

D.   Dómar EFTA-dómstólsins eru ekki aðfararhæfir. Bregðist stjórnvöld ekki við þeim verður að ætla að Bretar og Hollendingar gætu stefnt kröfum sínum fyrir íslendska dómstóla. Hvernig yrði kröfum Breta og Hollendinga komið fyrir íslendska dómastóla og hver yrðu talin líkleg úrslit í slíku máli ? Hver eru líkleg lagaleg og pólitísk áhrif áfellisdóms í slíku máli ?

 

E.    Áhætta vegna neyðarlaga og hvaða máli skiptir nýleg ákvörðun ESA varðandi þau ?

 

F.    40.gr. Stjórnarskrárinnar og heimildir til að semja á þann hátt sem fyrir liggur.

 

G.   Gjaldfellingar- og vanefnda-úrræði í drögum að samkomulagi um Icesave.

 

H.   Ríkisábyrgð, greiðsluskylda. Að teknu tilliti til skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er þess óskað að fjallað verði um heimildir Alþingis samkvæmt 40.gr. Stjórnarskrárinnar til þess að veita ríkisábyrgð á þeim skuldbindingum og greiðslum sem drög að samkomulaginu kveður á um.

 

 

 

Þegar þessar spurningar Fjárlaganefndar Alþingis (Icesave-stjórnarinnar) eru skoðaðar, blasir við ósiðlegur tilgangur og glórulaus undirgefni við nýlenduveldin. Engum spurningum eru beint til lögfræðinganna varðandi alvarlegustu afleiðingar af gerð Icesave-samninga-III og stöðu deilunnar allmennt. Þessar spurningar snúa að þrennu:

 

 

1.    Fullveldishafanum – þjóðinni og forseta Lýðveldisins, sem fulltrúa almennings. Vitað er að forsetinn mun vísa hugsanlegum ábyrgðarlögum til úrskurðar fullveldishafans – þjóðarinnar. Jafnframt er vitað að almenningur mun hafna slíkum lögum. Augljóst ætti að vera að þessi staða mun hafa áhrif á afgreiðslu Alþingis og það með réttu.

 

2.    Mistökum Icesave-stjórnarinnar sem þarfnas trannsóknar.Allur ferill Icesave-deilunnar er markaður mistökum ríkisstjórnarinnar og sú staða sem nú er uppi er miklu erfiðari sökum þessara mistaka. Spyrja hefði átt, hvernig þessi mistök verða bezt leiðrétt og hvernig breyta ætti samskiptum við nýlenduveldin.

 

 3. Efnahagsstríði nýlenduveldanna gegn Íslandi.  Hvaða samskipta-reglur hafa nýlenduveldin brotið með efnahagstríði sem staðið hefur yfir og sem þau hóta framhaldi á. Hvaða leiðir eru færar til að snúa vígstöðunni Íslandi í vil og hefja sókn í stað stöðugs undanhalds valdstjórnarinnar á Íslandi.

 

 

Að auki er það sérkennilegt að biðja lögfræðingana um álit á pólitískum viðbrögðum nýlenduveldanna, ef þeim er ekki sýnd undirgefni, en ekki er leitað álits á pólitískum viðbrögðum almennings á Íslandi, ef Icesave-klafanum verður nauðgað honum á herðar.

 

Loftur Altice Þorsteinsson. 


Rúvið falsaði álit lögfræðinganefndarinnar um Icesave-III

Það er komið í ljós og sést vel í viðtengdri frétt, þannig að sama daginn og Rúvarar falsa álit InDefence-hópsins, Icesave-stjórnvöldum í hag, þá fölsuðu þeir líka álitsgerð lögfræðinganna  fjögurra sem fjárlaganefnd bað þá um! Þó á Ruv að heita í eigu þjóðarinnar og þjóna bæði henni og sannleikanum!

Fjórir lögfræðingar, sem sendu fjárlaganefnd Alþingis álitsgerð um hugsanlegar niðurstöður dómsmála tengdra Icesave, segja að skiptar skoðanir séu í þeirra röðum um hver yrði líkleg dómsniðurstaða í máli, sem Eftirlitsstofnun EFTA kynni að höfða gegn Íslendingum.
„Sum okkar telja að talsverðar líkur séu á að slíkt mál vinnist en aðrir telja að þær líkur séu að sama skapi litlar. Við öll teljum þó að ekki verði útilokað að Íslandi verði dæmt áfall í slíku máli," segja lögfræðingarnir Stefán Már Stefánsson prófessor, Benedikt Bogason, héraðsdómari og dósent, Dóra Guðmundsdóttir aðjúnkt og Stefán Geir Þórisson hrl. í álitsgerðinni. (Mbl.is.)

Já, takið eftir þessu: „Sum okkar telja að talsverðar líkur séu á að slíkt mál vinnist." – Það er sem sé ekki aðeins Stefán Már Stefánsson, prófessor í lögum og sérfræðingur í Evrópurétti, sem hefur verið fulltrúi þess viðhorfs, heldur a.m.k. einn annar lögfræðingur í nefndinni. Þó er alveg vitað, að meirihluti fjárlaganefndar hefur ekki tekið þá áhættu að hafa einungis óháða lögfræðinga í nefndinni. Þess vegna hefur einum Svartapétrinum, Stefáni Geir Þórssyni, verið laumað í hana, en hann hafði á sínum tíma gert sig harla vanhæfan um slíka nefndarsetu með illa unnu, hlutdrægu áliti sínu í Icesave-málinu – þar mælti hann með fyrri Icesave-samningi með margfalt hærri höfuðstól en hér er talað um!

  • Fram kemur í álitsgerðinni það mat lögfræðinganna, að ef Icesave-samkomulagið, sem nú er til meðferðar hjá Alþingi, verði ekki staðfest muni Bretar og Hollendingar mögulega höfða mál gegn Íslandi og Eftirlitsstofnun EFTA muni að öllum líkindum fara af stað með samningsbrotamál gegn Íslandi. (Sama Mbl.is-frétt.)

En hér verða menn líka að hafa í huga, að talað hefur verið um, að ESA gæti farið í slíkt mál þrátt fyrir að ráðamenn hér létu svínvbeygja sig með því að skrifa upp á Icesave-III-samninginn.

Svo er hér sífellt verið að spá í, hvað geti „mögulega" gerzt, þrátt fyrir að jafnvel framkvæmdastjíorn ESB hafi viðurkennt, að það er engin ríkisábyrgð á tryggingasjóðum innistæðueigenda á Evrópska efnahagssvæðinu, og norskur þjóðréttarfræðiprófessor bent á, að við megum ekki einu sinni gera samning sem gengur út á ríkisábyrgð á skuldbindingum TIF (um allt þetta hefur verið fjallað hér í greinum hér á vef Þjóðarheiðurs). Þar að auki er augljóst, að Bretar eru með kröfum sínum að brjóta enn ein lög, þ.e. jafnræðisreglur EES-samningsins, sem myndu fyrir dómi ónýta kröfu þeirra um 3,3% vexti á Icesave-III-gerviláninu til TIF/Íslands.

Tvær undantekningar gerði framkvæmdastjórnin frá nefndri reglu um ríkisábyrgð, og höfum við fjallað um það í greinum hér í sumar og haust, hvernig þær undantekningar reyndust við faglega athugun vera tilbúningur og fyrirsláttur, en vitaskuld sýna þær samt hug valdsins í Brussel til Íslendinga í þessu máli, ekkert síður en það löndunarbann sem sama Brusselvald lagði á íslenzk makrílveiðiskip i gær!

Skoðið þetta í fréttinni (leturbr. hér):

  • Lögfræðingarnir telja fremur litlar líkur á að neyðarlögunum verði hnekkt með dómi þótt það sé ekki útilokað. Þeir segja síðan í lok álitsins, að versta niðurstaðan af Icesave-samningnum sé sú, að hann geti leitt til mikilla skuldbindinga fyrir íslenska ríkið um mörg ókomin ár. Ólíklegt sé þó að til þess komi. Besta niðurstaðan sé sú, að ríkið þurfi aðeins að greiða óverulegar fjárhæðir eða alls ekki neitt.  

Þetta er svolítið merkilegt! Þetta síðastnefnda verður alls ekki tryggt með því að skrifa upp á þennan ólögvarða samning. Við höfum ekkert fyrir okkur annað en skilanefnd Landsbankans, að næstum því nóg sé til í þrotabúinu til að borga þetta. Ef Bretar segja það jafnvel líka, ættu þeir fyrir fram að láta sér það nægja, en vitaskuld treysta þeir því ekki, og þeim mun síður ættum við það – 200 sinnum fámennari þjóð en sú brezka – að treysta því. Fráleitt er líka af lögfræðingum að viðra skoðanir á slíkum gersamlega óvissum fjárhagsmálum, enda eru þeir hvorki hagfræðingar né með heimild til að skoða og meta upplýsingar skilanefndarinnar.

Hvers vegna þessi eilífa leynd á mikilvægum upplýsingum?

Þeir ættu að svara því, Icesave-þjónar og Bretavinnumenn í ríkisstjórninni.

  • Þá sé líklegt að Bretar og Hollendingar, og jafnvel fleiri þjóðir, muni halda uppi svipuðu andófi gegn Íslandi og íslenskum hagsmunum og hingað til.

Það gagnast þeim lítið, og Bretar hafa hingað til ekki getað verið án þess að kaupa fisk frá Íslandi.

  • Lögfræðingarnir segja ekki hægt að útiloka að Íslendingar verði dæmdir til að greiða Icesave-inneignir að fullu. Hins vegar verði að telja, að erfitt geti orðið fyrir Breta og Hollendinga að ná fram dómi um ábyrgð íslenska ríkisins á innistæðum umfram þær rúmu 20 þúsund evrur, sem kveðið er á um í tilskipun Evrópusambandsins um innlánstryggingakerfi.

Þessar bollaleggingar um, að ekki sé hægt að útiloka slíkan dóm, eru ekki ýkja trúverðugar, þvert gegn því sem vitað er um öll lög og reglur um þetta mál. Ertu lögfræðingarnir að gera því skóna, að framið verði dómsmorð á íslenzku þjóðinni?

  • Lögfræðingarnir telja mögulegt að kröfur Breta og Hollendinga verði teknar til greina fyrir dómstólum að því er varðar lágmarksinnistæðutryggingu hvers innistæðueigenda, það er rúmlega 20 þúsund evrur. En þeir telja einnig mögulegt að sú niðurstaða fáist, að kröfur Breta og Hollendinga verði ekki teknar til greina. „Af framangreindu leiðir, að kostirnir við að halda málaferlum til streitu eru helstir þeir, að við það fæst lögfræðileg úrlausn sem hugsanlega hefði þau áhrif að íslenska ríkið þyrfti ekki að greiða. Ókostirnir eru aftur á móti þeir, að málið gæti tapast sem myndi að öllum líkindum setja Ísland í verri samningsstöðu en nú er fyrir hendi og gæti leitt til óhagstæðari niðurstöðu. (Mbl.is.)

Þetta síðastefnda var líka sagt í kringum allt brölltið með Icesave-I og II. Icesave-hetjurnar Svavar, Indriði og Steingrímur hömruðu á þessum hræðsluáróðri. En hvað er komið í ljós nú? Tókuð þið eftir því í mati InDefence-hópsins að "þessi kostnaður verði að hámarki um 140 milljarðar, tapist málið algjörlega og Ísland dæmt til að tryggja allar innistæður í Icesave að fullu" (sjá hér hjá Friðrik Hansen Guðmundssyni? – en sami maður sagði í gær í annarri ágætri grein (Umsögn Seðlabankans um Icesave 3 gagnslaust plagg):

  • Er það þannig að ef við töpum málinu algjörlega fyrir dómstólum þá verður kostnaðurinn sem fellur á þjóðina amt margfalt lægri en ef við hefðum samþykkt Icesave 2? Dr. Jón Daníelsson sýnir í þessari grein fram á að 507 milljarðar hefðu fallið á þjóðina hefði hún samþykkt Icesave 2.
  • Er dómstólaleiðin þá ekki mjög fýsileg leið? ...

Þannig eru menn enn að benda á allt aðrar leiðir í málinu en Bretavinirnir í Stjórnarráðinu.

Jón Valur Jensson. 

Í VINNSLU, nánar á eftir!  

 


mbl.is Skiptar skoðanir lögfræðinga um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave-síbrotamenn, erlendir sem innlendir, halda áfram að þjarma að íslenzku þjóðinni

"Fjármálaráðuneytið áætlar að ríkissjóður þurfi að greiða 58,9 milljarða vegna Icesave fram til ársins 2016, þar af 26,1 milljarð á þessu ári og 10,4 á næsta ári."

Við þökkum ekki fyrir okkur! En gott er að upplýst sé um svikræði stjórnvalda, ágætt að hafa þetta í huga þegar fólk efnir enn til fjöldamótmæla mánudaginn 17. þessa mánaðar. Upplýsingarnar hér efst komu fram í umbeðinni umsögn fjármálaráðuneytisins til fjárlaganefndar. Greinilega eru forsendur fjárlaga þessa árs brostnar.

Í umsögn ráðuneytisins er sízt verið að bæta neinu við það mat, sem sett var fram í byrjun, þegar Icesave-III-samningurinn komst á netið (sjá tengla í þessari grein), því að í mati ráðuneytisins er ekki einu sinni tekið tillit til þess, sem fram er komið í fréttum, að mat stjórnvalda í desember sl., 47 milljarðar, var vanmat um a.m.k. 10 milljarða króna. Samt er hér enn verið að reikna með 47 milljörðum!

Svo er þess enn að geta, að tilgátur um væntanlegt söluverð á Iceland-keðjunni, sem er í eigu þrotabús Landsbankans, eru enn á getgátustigi og ekkert á þeim byggjandi.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson lagði réttilega áherzlu á það í Kryddsíldinni á gamlársdag, að rangt væri að flýta þessu máli nú, enda eigi margt eftir að koma í ljós í þessum eignamálum bankans, ennfremur vegna þess að réttaróvissa um sum þeirra hverfur ekki fyrr en að útkljáðum nokkrum málum sem bíða dóms í sumar.

Ekki er nóg með, að óvissa ríki vegna þessa, heldur eykst hún enn með gengisóvissu, en gengi krónunnar gæti hæglega sigið eða hrunið, m.a. vegna afléttingar gjaldeyrishaftanna, og það gæti stórhækkað heildargreiðslur TIF (Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta), sem krafizt er (ólöglega) að ríkið ábyrgist – gæti jafnvel aukið þær um hundruð milljarða, eins og fram kom strax í desember með útreikningum stærðfræðings, sem birtir voru í Morgunblaðinu.

Áætlanir fjármálaráðuneytisins um greiðslur til Breta og Hollendinga koma hér fram í þessum texta í formlegri umsögn þess:

Að því gefnu að forsendur fyrir mati samninganefndarinnar gangi eftir er gert ráð fyrir að heildargreiðslur úr ríkissjóði til tryggingasjóðsins fram til ársins 2016 verði rúmir 47 mia. [milljarða] kr. Því til viðbótar er 3 mia. kr. greiðsla vegna útlagðs kostnaðar Breta og Hollendinga við útgreiðslur til innstæðueigenda á sínum tíma [vel smurt á "þjónustu" sem við báðum ekki um! – innsk. jvj.], en samið var um tiltekna hlutdeild í þeim kostnaði. Gert er ráð fyrir að ríkissjóður þurfi að leggja TIF til 26,1 mia.kr. á árinu 2011, þar af 9 mia.kr. vegna áranna 2009–2010 umfram þá 20 mia.kr. sem sjóðurinn sjálfur getur staðið undir og 17,1 mia.kr. vegna vaxtagreiðslna á þessu ári. Áætlanir gera ráð fyrir að greiðslur áranna 2011–2016 verði eftirfarandi:
  • 2011:  26,1 mia.kr.
  • 2012:  10,4 mia.kr.
  • 2013:  8,6 mia.kr.
  • 2014:  7,0 mia.kr.
  • 2015:  5,0 mia.kr.
  • 2016:  1,8 mia.kr.
  • Alls: 58,9 mia.kr.

Eins og áður segir, er strax vanreiknað þarna um 10 milljarða höfuðstól í byrjun. Miðað við þessar forsendur gæti upphæðin farið í 70 milljarða króna, nema hlutir bregðist í mati á eignasafninu, eins og auðveldlega getur gerzt, sem og vegna gengissigs/gengisfalls.

Þetta er í ætt við rússneska rúllettu að taka þá áhættu, þvert gegn evrópskum og íslenzkum lögum og skyldum okkar, að skrifa upp á þennan samning, sem enn ber hin fyrri merki um krumluförin eftir ofbeldisvön nýlenduveldi. Meðal annars er þar gerð krafa um ólöglega (margfaldlega of háa) vexti, sem standast ekki EES-jafnræðisreglur. Verður um það fjallað í sérstakri grein hér á morgun.

Og lesið þetta í frétt Mbl.is:

  • Í fjárlögum sem samþykkt voru í desember er ekki gert ráð fyrir neinum greiðslum vegna Icesave. Fjármálaráðuneytið segir að ástæðan sé sú að Alþingi sé ekki búið að afgreiða málið. Verði Icesave-samningarnir samþykktir á Alþingi þurfi að leita heimildar Alþingis að greiða það sem fellur á ríkissjóð. Fjármálaráðuneytið segir að vegna undirbúnings fjárlagafrumvarps vegna ársins 2012 verði fjögurra ára áætlun í ríkisfjármálum endurskoðuð með tilliti til Icesave-skuldbindinganna.

Fjögurra ára áætlun Steingríms J. Sigfússonar verður þá ekki mikið meira til að byggja á en fimm ára áætlanir í Sovétinu í gamla daga.

Svo bendi ég lesendum á nýbirta grein Lofts Þorsteinssonar á þessum sama vef: Icesave-blekkingar og meiri Icesave-blekkingar.

Jón Valur Jensson. 

PDF-skráUmsögn fjármálaráðuneytisins um Icesave

mbl.is Greiða þarf 26,1 milljarð vegna Icesave í ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave-blekkingar og meiri Icesave-blekkingar

IFS-greining hefur framkvæmt greiningu eins og þeir voru beðnir um, en hvað voru þeir beðnir að greina ? Í skýrslunni segir:

 

»Í þessari skýrslu höfum við reynt að svara þeim spurningum sem við vorum beðnir um umsögn á. Fyrst og fremst snérust þau atriði um áhættumat á samningnum ásamt mati á getu ríkissjóðs við að standa við sínar greiðsluskuldbindingar við mismunandi aðstæður. Ekki var í þessari skýrslu reynt að leggja mat á afleiðingar þess að hafna samningnum

 

IFS-greining er því að vinna fyrir hina vanhæfu Icesave-stjórn sem hefur haft sem sitt megin verkefni að gæta hagsmuna nýlenduveldanna. Auðvitað er engin von til að skýrsla sem hefur svona forskrift skili vitrænni niðurstöðu. Í málsgreininni hér að framan er kjarni málsins sagður með skýrum orðum:

 

»Ekki var í þessari skýrslu reynt að leggja mat á afleiðingar þess að hafna samningnum

 

Algerlega liggur ljóst fyrir, að hagkvæmasti kostur Íslendinga í Icesave-deilunni er að hafna fyrirliggjandi samningum. Hefði þá ekki verið eðlilegt að bera saman þá kosti að hafna samningunum og hins vegar að ganga að þeim ? Auðvitað finnst það öllum eðlilegum mönnum, en Steingrímur og Hr. Jóhanna eru ekki eðlileg.

 

Hvað er þá hægt að segja um greiningu sem ekki greinir það sem þarf að greina ? Ekki getur það nú verið margt, en þó vakti eitt atriði sérstaka athygli mína. Skýrslan greinir frá:

 

»Í nýja samkomulaginu er að finna skilyrði sem gæti veitt TIF aukinn aðgang umfram aðra kröfuhafa. Líklegt er að TIF muni sækjast eftir þessum aukna forgangi. Ef það gengur eftir þá fengi TIF greitt út úr þrotabúinu á undan öðrum. Það gæti jafnvel leitt til þess að að endanleg niðurstaða yrði sú að TIF fengi meira greitt úr þrotabúinu en hann þyrfti að greiða Bretum og Hollendingum miðað við núverandi gengi krónunnar.«

 

Á hverju ætli þessar vonir byggi um gróða TIF af Icesave-málinu ? Þetta er auðvitað glórulaus hugmynd, sem hlýtur að fara á spjöld sögunnar sem öfgafyllsta óskhyggjan. Líka má spyrja þess, hvort ekki sé rétt að hefja strax þann málarekstur sem gefinn er ádráttur um að muni skila svo glæsilegum árangri ?

 

Að öllu gamani slepptu þá er mikilvægt að tryggja TIF forgang að eignum þrotabúsins. Til að sækja þann forgang fara menn auðvitað ekki lengstu leiðina, þótt oft sé krókur betri en kelda. Betri leiðir eru tiltækar en sú sem IFS-greining nefnir.

 

InDefence hefur lagt til, að ef Alþingismenn eru svo heimskir að samþykkja ábyrgðir á Icesave-samningum-III á forsendulausum kröfum sem engin ábyrgð er fyrir, þá sé rétt að tryggja forganginn í ábyrgðarlögunum sjálfum. Ennþá tryggara er þó að gera þetta á þann hátt sem ég hef lagt til.

 

Ég hef lagt til, að kröfuröðinni verði breytt í Neyðarlögunum. Um þetta fjallaði ég í grein sem birtist í Morgunblaðinu 23. desember 2010 og er hægt að lesa hana hér:

 

http://altice.blogcentral.is/blog/2010/12/23/breytt-krofurod-i-throtabu-landsbankans-leysir-icesave-deiluna/

 

Mikilvægt er að hafa hugfast að tilskipun ESB um lágmarks-tryggingu, er í raun fyrirmæli um kröfu-röð, þar sem lágmarks-tryggingin kemur fyrst til úthlutunar úr þrotabúi. Ef lágmarks-tryggingin hefur ekki forgang, getur staðan hæglega orðið sú að tryggingasjóðirnir fái ekki upp í lágmarkstrygginguna við skipti. Þetta er einmitt það sem mun gerast með Landsbankann, samkvæmt núgildandi lögum um kröfuröð. 

 

 

Loftur A. Þorsteinsson. 

 


mbl.is Gæti fengið meira greitt úr þrotabúinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver sagði þetta?

  • Í tilviki Icesave er vart hægt að færa lagaleg rök fyrir ríkisábyrgð og alls ekki á grundvelli sanngirni. Blessum íslensku þjóðina sem gerði uppreisn í þjóðaratkvæðagreiðslu í mars s.l. gegn því að að verða sett í skuldafangelsi vegna heimsku hins gjaldþrota Landsbanka. Bretar og Hollendingar halda Íslendingum í gíslingu [með Icesave-3] þar til skuldin er greidd. Þetta er leitt, því það ýtir undir núverandi tísku að leggja bönkum til ótakmarkaðar ríkisábyrgðir.

Hvar voru öll þessi ummæli? Jú, í leiðara Financial Times 15. desember sl., en hann fjallaði um Icesave-málið.

Eftirfarandi grein af Vísisbloggi undirritaðs 15. des. sl. virðist vera full þörf á að endurbirta, ekki sízt fyrir stjórnmálastéttina og alla þá fjölmiðlamenn, henni háða, sem ólæsir virðast á grundvallarstaðreyndir þessa máls. En heimsblaðið í Lundúnum hefur ítrekað tekið málstað Íslendinga, þótt okkar eigin Icesave-stjórnvöld geri það ekki!

Greinin getur ennfremur hjálpað þeim mikla meirihluta manna, sem ekki þekkja Icesave-III-samninginn nýja og hafa því ekki myndað sér skoðun á honum.

Icesave-3 var birtur á netinu í nótt. Financial Times tekur málstað Íslendinga

„Blessum íslensku þjóðina sem gerði uppreisn í þjóðaratkvæðagreiðslu í mars s.l. gegn því að að verða sett í skuldafangelsi vegna heimsku hins gjaldþrota Landsbanka," segir í leiðara Financial Times í dag og fjallar þar um Icesave-málið.

Fyrst skal þess þó getið, að hópur sem kallar sig Samtök áhugafólks um opna stjórnsýslu hlóð í nótt pdf-afritum af Icesave3-samningnum á vefsíðuna www.icesave3.wordpress.com, og þar má nálgast skjölin, sjá einnig (með þeim sundurliðuðum) á vefsíðu Þjóðarheiðurs – samtaka gegn Icesave.

En lítum aftur á endursögn Vísis.is á leiðaranum í FT:

  • Í leiðaranum segir að engin ágreiningur sé um að tryggingarsjóður innistæðna á Íslandi er ábyrgur fyrir Icesave-innlögnum í Bretlandi og Hollandi. Sjóðurinn hafi hinsvegar reynst algerlega ófær um að ráða við fall eins af stórum bönkunum á Íslandi, hvað þá þeirra allra þriggja. Deilan sé um hvort ríkissjóður Íslands eigi að borga reikninginn sem tryggingarsjóðurinn geti ekki. Bretar og Hollendingar krefjist ríkisábyrgðar á endurgreiðslum á innistæðunum sem skoluðust niður með falli Landsbankans.
  • Í leiðaranum er síðan fjallað um hið nýja samkomulag í Icesave-deilunni sem er mun betra fyrir Íslendinga en sá samningur sem þjóðin hafnaði í mars s.l. Eftir sem áður muni Bretar og Hollendingar halda Íslendingum í gíslingu þar til skuldin er greidd.
  • Financial Times telur þetta leitt, því það ýtir undir núverandi tísku um að leggja bönkum til ótakmarkaðar ríkisábyrgðir. Í tilviki Icesave er vart hægt að færa lagaleg rök fyrir ríkisábyrgð og alls ekki á grundvelli sanngirni. Bresk og hollensk stjórnvöld myndu aldrei endurgreiða kröfur erlendra innistæðueigenda sem næmu þriðjungi af landsframleiðslu þeirra, færi svo að einn af stóru bönkunum í löndunum tveimur yrði gjaldþrota. (Feitletrun JVJ.)
Þá segir í leiðaranum "að kannski sé það best fyrir Íslendinga að samþykkja hinn nýja Icesave-samning, í ljósi þeirra bolabragða sem þeir hafa mátt sæta, hversu ófullnægjandi sem hann er."

Það er ekki nýtt, að Financial Times tali þarna um "bolabrögð" af hendi Bretastjórnar (sem incidentally var kölluð Jón boli í gamla daga), því að eins talaði þetta virta blað um sama mál fyrir tíu mánuðum, sbr. þetta rapport mitt á mínu enska vefsetri: The Bullying Brown.

„Íslendingar eiga betra skilið en þeir fengu," segir í leiðaranum, sem nánar er rakinn hér á Vísir.is: Leiðari FT: Blessum íslensku þjóðina. En mikið er það gott, að ýmsir eru að sansast. Okkur skjátlaðist, segir gamli Icesave-sinninn Guðmundur Andri Thorsson og á við þann minnihluta landsmanna sem vildi "ljúka Icesave." Jafnvel Steingrímur J. var með afar fréttnæma yfirlýsingu í gær, sem virðist hafa farið fyrir ofan garð og neðan hjá vandlega þjálfuðum Rúvurum.

En ekki gera Bretar það endasleppt við okkur: Bretar og ESB á barmi viðskiptastríðs við Ísland og Færeyjar, þetta er ein nýjasta fréttin á Vísir.is, en þarna er verið að segja frá fréttaflutningi The Independent, en ESB vill að Bretar og Norðmenn hirði 90% alls makrílafla í NA-Atlantshafi á næsta ári.

Stundum er gott að rifja upp gamla hluti. Þó er þessi grein aðeins fjögurra vikna gömul. En glæný grein birtist svo heldur seinna í kvöld.

Jón Valur Jensson.


Hörð gagnrýni í áliti InDefence-hópsins á Icesave-III-samning og frumvarp: samþykkir þetta EKKI, eins og það liggur fyrir

InDefence hefur sent fjárlaganefnd umsögn um Icesave-III. Álitið er rangtúlkað af Rúv. Sannarlega það rétt kröfuáherzla InDefence að tryggt verði "að ísl. tryggingasjóðurinn fái forgangsrétt til eigna úr þrotabúi Landsbankans," en þetta er bara ein af fleiri kröfum hópsins og felur þar að auki ekki í sér neina viðurkenningu á greiðsluskyldu íslenzka ríkisins og almennings, enda er TIF (Tryggingasjóður innstæðueigenda og fjárfesta) einn lögaðili og ríkið annar; ríkið ber enga ábyrgð á Icesave og hefur aldrei gert – jafnvel heimild, sem meirihluti Alþingis gaf (með rangindum og stjórnarskrárbroti) fjármálaráðherranum Steingrími til að gefa út með undirskrift sinni ríkisábyrgð á Icesave, í lok ágúst 2009, gat hann ekki nýtt sér, vegna þess að skilmáli hennar var sá, að Bretar og Hollendingar samþykktu fyrirvara þeirra ólaga – en sem betur fer gerðu þeir það ekki, getum við sagt nú!

Villandi fréttaflutningur Rúv, sem kynnir álitið með þeim fyrstum orðum, að InDefence álíti Icesacve-III-samninginn "betri" en hina fyrri, kemur ekki neinum á óvart, sem fylgzt hafa með ötulli Bretavinnu á þeim bænum síðustu misserin. Ótal álitsgjafa hafa þeir t.d. fengið til að mæla með Icesave-I (Svavars-samningnum sem og fyrirvaralögunum), Icesave-II (ársloka-ólögunum 2009, þeim sem þjóðin felldi 6. marz 2010, með mestu hneisu fyrir ábyrgðarmenn þess samnings) og Icesave-III, en ALDREI virt okkur viðlits í Þjóðarheiðri, 80 manna samtökum, sem eru fulltrúar eindregnustu réttindasjónarmiða Íslendinga og eru þau einu sem eru 100% sammála meirihluta þjóðarinnar í þessu máli!

InDefence hópurinn á tröppum Bessastaða í byrjun síðasta árs.  Á fréttartenglinum hér fyrir neðan geta lesendur séð og stækkað myndina af InDefence-mönnum.

 

Það er samt ótrúlegt að upplifa það við krufningu á 18-fréttum sjálfs Ríkisútvarpsins, að þar sé enn reynt að sjanghaja álitsgerðir þjóðhollra manna í þágu stjórnvalda – að rangfæra þær í þá átt, að gefið sé í skyn, að þær feli fyrst og fremst í sér samþykki við nýgerðum svikasamningum. Álit InDefence-hópsins felur það alls ekki í sér, eins og sést af því, að ef eftir því yrði farið, gæti greiðsla ríkisins hugsanlega orðið engin, vegna þess að forgangsréttur TIF til eignasafnsins myndi e.t.v. duga til að borga upp allar kröfur til TIF. Þá væri jafnframt engin pressa lengur á íslenzka ríkið að ábyrgjast greiðslur TIF, enda var það aldrei í samræmi við íslenzk né evrópsk lög um málið.

En víkjum nú huganum frá Rúvinu, vinnubrögðin þar eru ekki svo uppörvandi.

Lesið þetta í Mbl.is-fréttinni um álit InDefence-manna:

  • Í umsögninni um nýja samninginn, sem gerður var nú í desember, segir að hann feli í sér ýmsar úrbætur frá fyrri samningi. Helstu áhættu- og óvissuþættir séu þó enn til staðar frá fyrri samningum. Einnig verði að hafa í huga að lögmæt greiðsluskylda að baki kröfunum sé ekki fyrir hendi. (Leturbr. Þjh.)

Þeir hnykkja sem sé á þessu grundvallaratriði, að greiðsluskyldan er engin! Þá taka þeir eftirfarandi fram (eins og við höfum líka gert ítrekað hér á vef Þjóðarheiðurs síðan í desember; leturbr. jvj):

  • Helstu áhættuþættirnir lúti að gengisáhættu og áhættu á matsverði eigna þrotabús Landsbanka Íslands, þótt óvissa um virði eigna Landsbankans sé minni en áður. Auk þeirrar áhættu viti enginn raunverulega á þessu stigi hve langt sé í að greiðslur inn á höfuðstól skuldarinnar hefjist.

Lesum áfram (leturbr. jvj):

  • Þá segir InDefence, að við meðferð fjárlaganefndar á fyrirliggjandi frumvarpi sé algjört grundvallaratriði að farið verði ýtarlega ofan í álit starfshóps fjárlaganefndar undir forystu Stefáns Más Stefánssonar lagaprófessors. Komi í ljós að áhættan sé viðunandi við að láta reyna á það grundvallaratriði hvort greiðsluskylda íslenskra skattgreiðenda á tugum milljarða sé yfirleitt fyrir hendi áður en sú greiðsluskylda er samþykkt með samningi, eigi það að vera fyrsti kostur íslenskra stjórnvalda að láta reyna á lögmæti krafnanna.

Ekki verður sagt að þetta hafi beinlínis verið óvönduð vinnubrögð hjá InDefence, en hitt er þá seinheppni og raunar stórundarlegt, ef hinn sami Stefán Már Stefánsson hefur nú snúið við blaðinu, eins og einhverjum gæti dottið í hug við að hlusta á fréttir í kvöld. Hneykslandi frétt Rúv kl. 18 er reyndar hér á vefnum með grófri yfirskrift starfsmanna útvarpsins: Nýr Icesave samningur betri (sic!!!), og þar er ekki aðeins sagt og skrökvað af áliti InDefence, heldur einnig birt þetta um álit fjögurra lögfræðinga, sem einnig var í fréttum kl. 18:

  • Fjárlaganefnd bað fjóra lögfræðinga, Stefán Má Stefánsson lagaprófessor, Stefán Geir Þórisson hæstaréttarlögmann, Dóru Guðmundsdóttur sérfræðing í Evrópurétti og Benedikt Bogason héraðsdómara, að skila áhættumati, færi Icesave-deilan fyrir EFTA-dómstólinn – samkvæmt heimildum fréttastofu telur þessi hópur vafa leika á um hvort greiðsluskylda sé fyrir hendi, en jafnframt að ekkert meini Alþingi að taka ákvörðun um Icesave-samninginn. Hópurinn telur einnig að áhættan af því að fara með málið fyrir dóm sé of mikil, skárri kostur væri að semja. 

Getur verið, að Stefán Már Stefánsson álíti, að dómsmáls-kostirnir standi nú hallari fæti vegna þess, að Steingrímur J. Sigfússon sveikst um að senda ESA rökstutt álit og höfnun á gagnrýni þeirrar Eftirlitsstofnunar EFTA? Getur verið, að hann taki of mikið þann pól í hæðina, að málið yrði að fara fyrir EFTA-dómstólinn? Ljóst er, að ef við neitum að greiða penný eða evrucent (enda orðið fyrir nægum skaða nú þegar af öllu þessu þrúgandi "samninga"-þófi), þá geta Bretar ekki dregið okkur nauðuga fyrir EFTA-dómstólinn, þeir yrðu að sækja málið hér. Ef þeir reyna að áfrýja því til erlends dómstóls, sem við vitum nú þegar að er hlutdrægur gegn okkur í málinu, þvert gegn lögum ESB, þá getum við gert eins og í landhelgismálinu, þegar ríkistjórn Íslands neitaði að láta fara með það mál fyrir alþjóðadómstólinn í Haag. Það er auðvelt að réttlæta með þjóðarhagsmunum; fyrir því er alþjóðleg lagahefð.

Í framhaldi af fyrrgreindu í Mbl.is-fréttinni segir þar:

  • Sé það mat starfshópsins [þ.e. starfshóps fjárlaganefndar undir forystu Stefáns Más Stefánssonar lagaprófessors] að áhætta af dómsmáli sé mikil og feli í sér verulega skerðingu á hagsmunum þjóðarinnar, megi mæta stærstu áhættuþáttum samningsins með þeirri breytingu, að hann kveði á um að íslenski innistæðutryggingasjóðurinn hafi forgangsrétt til eigna úr þrotabúi Landsbankans. [Sbr. efst hér í þessu bloggi, jvj.]

Og bætt er við orðrétt í áliti InDefence:

  • „Hér er um að ræða réttmæta og eðlilega breytingu á fyrirliggjandi samningsdrögum, sem felur ekkert annað í sér en að samningsaðilar fari að gildandi lögum og skráðum leikreglum evrópsku innstæðutilskipunarinnar sem allt Icesave-málið byggir á. Þetta á að vera krafa íslenskra stjórnvalda ef gera á samning án þess að skorið sé úr um lögmæti greiðsluskyldunnar."

Svo ber að vekja athygli á því, að í áðurnefndum hópi lögfræðinga hefur Stefán Már sennilega verið milli steins og sleggju. Meðal þeirra fjögurra var Stefán Geir Þórisson hrl., sem þegar hafði gert sig að ómerkingi í þessu máli með "lögfræðiáliti" dags. 8. nóvember 2008, varðandi ábyrgð vegna Icesave-reikninga Landsbanka Íslands í Bretlandi og Hollandi. Álitið er reyndar horfið á tveimur stöðum, þar sem það var að finna á neti stjórnvalda, "líklega til að geta endurnýtt Stefán Geir," eins og segir í bréfi nú í kvöld til undirritaðs, þar sem þetta eru lokaorðin: "Það er skömm að því að hann skuli koma nú með álit um hvað Icesave-samningarnir eru góðir !"

Eftirfarandi atriði (inndregið hér fyrir neðan) í áliti InDefence er býsna skondið að skoða fyrir þá, sem endalaust leyfa sér að fullyrða, að neitun og jafnvel tafir á því að semja um Icesave-gerviskuldina leiði til þess, að lánshæfismat íslenzkra fyrirtækja minnki eða að þau fái jafnvel ekki lán! (undirritaður var fyrir skemmstu að svara rugli um það HÉR á ágætri vefsíðu Friðriks Hansen Guðmundssonar):

  • InDefence-hópurinn leggur jafnframt á það áherslu að áður en núverandi samningsdrög um Icesave verði afgreidd af Alþingi verði þau borin undir lánsmatshæfisfyrirtækin, til að full vissa fáist um það fyrirfram að lánshæfismat Íslands muni ekki lækka verði samningsdrögin staðfest.

Endilega lesum öll þessa nýju umsögn InDefence til Alþingis, hún er heilar 65 blaðsíður vergar! Mjög fróðlegt er að "blaða" í henni á netinu, og þar er fjöldi gagnrýnisþátta sem beinast að stjórnvöldum lýðveldisins Íslands. 

Þið megið búast við fleiri greinum um þetta álit InDefence, þegar við höfum komizt yfir að lesa það í heild.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Fái forgangsrétt til eigna Landsbanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband