Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010

Innheimta ESB á Icesave-kröfum.

ESB vinnur að því að innheimta Icesave-kröfurnar. Þeir viðurkenna að kröfurnar séu ekki lögvarðar, en við eigum samt að greiða þær vegna rangra fullyrðinga þess efnis að innlánatryggingarnar hafi ekki verið innleiddar á réttan hátt.

Ég bendi á að tvö mál eru samtvinnuð. Það er Icesave og ESB-umsóknin. Þetta er grunnatriði.

Það á að koma okkur undir yfirráð erlends stórveldis hvað sem það kostar. Liður í þeirri viðleitni er að koma okkur á hnén með Icesave-greiðslum. Þetta mál er allt slík svívirða að vart verður trúað en er samt staðreynd.

Ég sé ekki betur en að 86. og 87. greinar almennra hegningarlaga  banni ESB aðildarferlið alfarið og raunverulega Icesave samningana einnig vegna þess að þeir vega að sjálfstæði þjóðarinnar. Hér eftir fylgir úrdráttur úr lögunum.


"X. kafli. Landráð.
86. gr. Hver, sem sekur gerist um verknað, sem miðar að því, að reynt verði með ofbeldi, hótun um ofbeldi, annarri nauðung eða svikum að ráða íslenska ríkið eða hluta þess undir erlend yfirráð, eða að ráða annars einhvern hluta ríkisins undan forræði þess, skal sæta fangelsi ekki skemur en 4 ár eða ævilangt.

87. gr. Geri maður samband við stjórn erlends ríkis til þess að stofna til fjandsamlegra tiltækja eða ófriðar við íslenska ríkið eða bandamenn þess, án þess að verknaðurinn varði við 86. gr., þá varðar það fangelsi ekki skemur en 2 ár eða ævilangt. Sé þetta í því skyni gert að koma erlendu ríki til þess að skerða sjálfsákvörðunarrétt íslenska ríkisins á annan hátt, þá varðar það fangelsi allt að 8 árum."

Einnig hefur verið bent á að ákvæði í 91. greininni hafi verið brotin í viðræðum við fulltrúa erlendra stórvelda.

"91. gr. Hver, sem kunngerir, skýrir frá eða lætur á annan hátt uppi við óviðkomandi menn leynilega samninga, ráðagerðir eða ályktanir ríkisins um málefni, sem heill þess eða réttindi gagnvart öðrum ríkjum eru undir komin, eða hafa mikilvæga fjárhagsþýðingu eða viðskipta fyrir íslensku þjóðina gagnvart útlöndum, skal sæta fangelsi allt að 16 árum.
Sömu refsingu skal hver sá sæta, sem falsar, ónýtir eða kemur undan skjali eða öðrum munum, sem heill ríkisins eða réttindi gagnvart öðrum ríkjum eru undir komin.
Sömu refsingu skal enn fremur hver sá sæta, sem falið hefur verið á hendur af íslenska ríkinu að semja eða gera út um eitthvað við annað ríki, ef hann ber fyrir borð hag íslenska ríkisins í þeim erindrekstri."

Við skulum gæta að því að harkan sem er í því að gera Íslendinga greiðsluskylda í Icesave-málinu er til þess sniðin að knýja þjóðina til að svíkja stjórnarskrá og lög til að gangast undir erlend yfirráð.

Þessir menn gæta ekki að því að til þess að við megum afsala okkur sjálfstæðinu verðum við fyrst að breyta stjórnarskránni á lögmætan hátt. Þá fyrst getum við afsalað okkur sjálfstæðinu ef nýja stjórnarskráin beinlínis heimilar það.

Þeir vita að þetta muni verða erfiðleikum bundið.

Þess vegna ætla þessir menn að koma okkur inn í ESB með stjórnarskrárbrotum á þann hátt að ganga frá Icesave-málinu gegn vilja 98% greiddra atkvæða í þjóðarkosningunni og í algeru umboðsleysi.

Síðan með aðildarferli sem gengur út á að framkvæma alls kyns lagabreytingar og aðrar aðgerðir til aðlögunar og nánast ekkert verði eftir þegar þjóðarkosning verður, sem einungis verður ráðgefandi.

Athugum að þeir sem stjórna hér fara ekkert endilega að lögum nema þegar þeim hentar.

Páll Ragnar Steinarsson.


ICEsave er algjörlega klúður Evrópusambandsins

Það var Evrópusambandið sem setti tilskipunina um innstæðutryggingar.  Í þeirri tilskipun var ekki gert ráð fyrir meiri háttar hamförum á fjármálamarkaði, en þó sleginn sá varnagli að aðildarríki væru ekki í ábyrgð ef þau hefðu innleitt tilskipunina á fullnægjandi hátt.

Það var Evrópusambandið sem setti lög og reglugerðir sem leyfðu fjármálafyrirtækjum að starfa óháð landamærum, á hinum svokallaða innri markaði, og í þeim lögum og reglugerðum var girt fyrir geðþóttaákvarðanir einstakra aðildarríkja til að hindra slíkt, hvort sem það var af hálfu gistiríkis eða heimaríkis.

Það var því ekki hægt að hindra starfsemi íslensku bankanna erlendis og það varð að setja lög um að þeir borguðu í innlendan tryggingasjóð.

Í því liggur meinið, bankakerfi smáríkja gat orðið það stórt að þau gátu ekki bakkað þau upp ef hamfarir ættu sér stað, eins og riðu yfir fjármálakerfi hins vestræna heims á haustmánuðum 2008.

Aðeins tilviljun réð því að Íslendingar lentu í þessari stöðu, allar smærri þjóðir hins evrópska efnahagssvæðis gátu lent í sömu stöðu.

 

Í þessu er vandinn fólginn, en klúðrið liggur í viðbrögðum Evrópusambandsins. Í panikinni sem ríkti á haustmánuðum 2008 þá kannaðist það ekki við sín eigin reglugerðarmistök, og í stað þess að kljást við ICEsave á sameiginlegum grunni, þannig að allir tryggingarsjóðir evrópska efnahagssvæðisins hefðu tekist á við tjónið út frá hlutfallslegri stærð, þá var ákveðið að túlka ríkisábyrgð út úr tilskipuninni um tryggingasjóði og klína vandanum á íslenska þjóð.

Lausn sem hefði gengið í lögleysu einræðisríkja, en gengur ekki upp hjá lýðræðisþjóðum, því hvorki er hægt að breyta lögum eftir á, og túlka það út úr þeim sem aldrei stóð í þeim, né heldur að gera þegna sjálfstæðrar þjóðar að skuldaþrælum með tilvísun í yfirþjóðlega reglugerð.  Slíkt stangast á við grundvallarmannréttindi sem tryggð eru í alþjóðalögum og reglum.

 

Þetta klúður er smám saman að renna upp fyrir framkvæmdarstjórn ESB.  Hún gerir sér grein fyrir hún er með tapað mál í höndunum og smátt og smátt er reynt að vinda ofan af því.  Það er engin tilviljun að í svari til norsku fréttaveitunnar ABC er staðfest að tilskipun ESB um innlánstryggingar feli ekki í sér ríkisábyrgð.  Það er ekki reynt að ljúga því sem ekki er til staðar og stendur skýrt að ekki sé.

Aðeins er reynt að ljúga að íslensk stjórnvöld hafi ekki innleitt tilskipun ESB á réttan hátt og séu því í ábyrgð fyrir innstæður.  Þetta er lygi vegna þess að rökstuðningurinn er lygi.

Fullyrt er að íslenski tryggingasjóðurinn hafi ekki verið í samræmi við stærð og áhættu bankakerfisins.  Það er vissulega réttmæt skoðun en gallinn er sá að íslenski tryggingasjóðurinn var nákvæmlega í samræmi við tilskipunina, það var tilskipunin sem gerði ekki ráð fyrir stærð eða áhættu bankakerfis.  

Það voru engin ákvæði í tilskipuninni sem íslensk stjórnvöld slepptu að uppfylla, framkvæmdastjórn ESB getur ekki vitnað í eina einustu setningu í tilskipun sinni sem tókst á við þessa áhættu og íslensk stjórnvöld brugðust að uppfylla.

Og gallinn við lygi er sá, að lygarinn festist alltaf meir og meir í lygavef sínum.  Þegar íslensk stjórnvöld benda á að þau hafi talið sig vera í góðri trú, því engar athugasemdir hafi borist við íslensku lögin, þá fellur framkvæmdastjórnin í þá gryfju að bulla eins og hún þekki ekki samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Þetta er haft eftir Chantel Huges í tíufréttum Ruv hinn 3. ágúst síðastliðinn:

"Chantel Huges segir að það sé ekki á verksviði Evrópusambandsins að bera fram slíkar kvartanir.  Það eigi Eftirlitsstofnun EFTA að gera." 

Það sem blessuð manneskjan hugsar ekki í útí er að það er til lítils að gera samning um skyldur og ábyrgð ef sá, sem þarf að uppfylla skyldurnar, sér alfarið um að túlka framkvæmd sína.  Vissulega segir í 5. gr. um ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, að stofnunin "eigi að tryggja að EFTA-ríkin standi við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum," en hvað ef ESA væri alltaf ánægð þó EFTA-ríkin gerðu ekkert nema það sem þeim þóknaðist, hvað þá?

Hefði ESB þá ekkert um málið að segja???

Og á því tekur 109. gr. EES-samningsins, þar er skýrt tekið fram um sameiginlega ábyrgð og samvinnu framkvæmdarstjórnar ESB og ESA á eftirliti gagnvart framkvæmd EES-samningsins.

Orðalagið er svo skýrt að það er ekki einu sinni hægt að hártoga það.

"109. gr.

1. Annars vegar skal eftirlitsstofnun EFTA fylgjast með efndum á skuldbindingum samkvæmt samningi þessum og hins vegar framkvæmdastjórn EB sem starfar samkvæmt stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu og samningi þessum.

2. Til að tryggja samræmt eftirlit á öllu Evrópska efnahagssvæðinu skulu eftirlitsstofnun EFTA og framkvæmdastjórn EB hafa samstarf sín í milli, skiptast á upplýsingum og ráðgast hvor við aðra um stefnu í eftirlitsmálum og einstök mál.

3. Framkvæmdastjórn EB og eftirlitsstofnun EFTA skulu taka við umkvörtunum varðandi beitingu (framkvæmd) samnings þessa. Þær skulu skiptast á upplýsingum um kvartanir sem borist hafa.

4. Hvor þessara stofnana um sig skal rannsaka allar kvartanir sem falla undir valdsvið hennar og koma kvörtunum sem falla undir valdsvið hinnar stofnunarinnar til hennar.

5. Komi upp ósamkomulag milli þessara tveggja stofnana um það til hvaða aðgerða skuli gripið í tengslum við kvörtun eða um niðurstöðu rannsóknar getur hvor þeirra sem er vísað málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar sem skal fjalla um það í samræmi við 111. gr. "

 

Staðreyndirnar tala alltaf sínu máli.

Það þarf annarlega hagsmuni til að snúa þeim á hvolf.

Munum það þegar við heyrum íslenska fylgismenn Evrópusambandsins fullyrða að krafa Breta og Hollendinga sé réttmæt og styðjist við lög og reglur Evrópusambandsins.  

Vissulega eru það hagsmunir fjárkúgara að ljúga til um staðreyndir, en hvaða hagsmunir reka íslenska stuðningsmenn þeirra áfram????

Við erum jú að ræða um kröfu sem er um 2/3 af þjóðarframleiðslu Íslands og mun endanlega ganga frá efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar gangi hún eftir.

Hvaða hagsmuna er þetta fólk að gæta þegar það vill með lygum sínum leggja framtíð þessarar þjóðar í rúst????

Eru ekki til lög sem banna slíka hegðun????

Ómar Geirsson

Þessi grein birtist snemma í morgun á vefsíðu Ómars (HÉR! – ásamt umræðum þar).

Í stuttu máli má draga efni þessa pistils saman í þessar höfuðáherzlur Ómars:

  • Kjarninn er að það eru engin rök á bak við fullyrðingar ESB, enginn texti í lagagrein sem þeir geta vísað í. Og aumt var yfirklórið með að skella skuldinni á ESA.
  • Mætti halda að þetta fólk þekkti ekki samninginn um EES, þó það sé alltaf að fullyrða að Ísland standi ekki við skuldbindingar sínar samkvæmt honum.

Merkar ábendingar Styrmis Gunnarssonar um tvær nýjustu fregnir af Icesave-málinu

Stórmerk og tíðindaverð er grein Styrmis Gunnarssonar, fv. ritstjóra, í Sunnudagsmogganum í fyrradag. Hann ræðir þar m.a. Icesave-málið í ljósi síðustu frétta og segir þar:

"Vefmiðillinn Euobserver, sem fylgist daglega með því, sem gerist á vettvangi ESB, sagði sl. miðvikudag, að leiðtogafundur Evrópusambandsins 17. júní sl. hefði gert Icesave-málið að sameiginlegu máli ESB-blokkarinnar en utanríkisráðherra Íslands og embættismenn hans hafa haldið því fram, að svo væri ekki.

Nú hefur framkvæmdastjórn ESB tekið undir það sjónarmið meirihluta Íslendinga, að ríki á EES-svæðinu beri ekki ábyrgð á bankainnistæðum eins og fram kom í frétt á mbl.is sl. miðvikudag um svar framkvæmdastjórnarinnar við fyrirspurn norska vefmiðilsins ABC Nyheter. Þótt framkvæmdastjórnin reyni að halda því fram, að íslenzkir skattgreiðendur beri slíka ábyrgð af öðrum ástæðum hefur þetta svar hennar grundvallarþýðingu. Yfirlýsing framkvæmdastjórnarinnar er staðfesting á því, að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem hefur ítrekað gert samninga við Breta og Hollendinga um að borga þeim nokkur hundruð milljarða á þeirri forsendu, að íslenzka ríkið bæri slíka ábyrgð, hefur haft rangt fyrir sér."

 

Grein Styrmis, á bls. 26 í Sunnudags-Mogganum, er öll afar læsileg og íhugunarverð, hún er hér á netinu: Áróðursherferð Evrópusambandsins.


Svör fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB við spurningum ABC Nyheter – hér kom í ljós, að í reglugerð ESB er ENGIN RÍKISTRYGGING innistæðu-tryggingasjóðanna

Hér birtum við um daginn svör Michels Barnier, fulltrúa framkvæmdastjórnarinnar (EC, sem í reynd er yfirríkisstjórn bandalagsríkjanna). Hér er seinni hluti svaranna þýddur: 

4. spurning.

Þvert á þá afstöðu sem ríkir í Bandaríkjunum, fullyrti ESA (eftirlitsstofnun EFTA) 26. maí 2010, að íslendska ríkið væri í ábyrgð fyrir yfirþyrmandi tapi bankastofnana, sem íslendska innistæðutrygginga-kerfið gæti ekki staðið undir. Þessi ábyrgð væri til staðar jafnvel þótt íslendska innistæðutrygginga-kerfinu hafi verið komið á fót í samræmi við tilskipun (94/19/EB) Evrópusambandsins um innistæðutryggingar, sem ESA hafði fengið til skoðunar fyrir fjölmörgum árum. Er ákvörðun ESA skilaboð til allra ESB/EES-ríkjanna, að skattgreiðendur þessara landa séu ábyrgir fyrir hreingerningum eftir bankahrun ?

 

Svar við 4. spurningu: Það er ekki venja Framkvæmdastjórnarinnar að gera athugasemdir við ákvarðanir ESA eða túlka þær. Þarna er um sérstakt tilvik að ræða.

 

5. spurning.

Er tilvik Íslands fyrsta ákæran þar sem þessi spurning er til umfjöllunar ?

 

Svar við 5. spurningu: Við höfum ekki tíma til að svara þessari spurningu.

 

6. spurning.

Er niðurstaða ESA varðandi Ísland í samræmi við afstöðu Framkvæmdastjórnarinnar, hvað varðar innistæðutryggingar ?

Svar við 6. spurningu: Framkvæmdastjórnin er sammála lögfræðigreiningu ESA, varðandi túlkun á Tilskipun 94/19/EB um innistæðutrygginga-kerfi í tilviki Íslands. Það er mat Framkvæmda-stjórnarinnar að í hinu sérstaka tilviki Íslands stafi skylda íslendska ríkisins til að endurgreiða þær fjárbætur sem íslendska innistæðutrygginga-kerfinu ber að greiða innistæðu-eigendum í Evrópusambandinu, af galla við að framkvæma tilskipun 94/19/EB í Íslandi. Geta innistæðutrygginga-kerfisins var ekki í samræmi við þá stærð og áhættu, sem íslendska bankakerfið skapaði. Að auki er hægt að tilgreina, að sú yfirsjón að bæta ekki innistæðueigendum í Evrópusambandinu tjón sitt var mismunun í samanburði við innistæðueigendur á Íslandi, sem fengu fullar bætur og urðu því ekki fyrir neinu fjárhagstjóni vegna banka-hrunsins. 

Þýðandi: Loftur Altice Þorsteinsson verkfræðingur.

Hér er svo að sjálfsögðu full ástæða til að minna á, hve ógild og einskis nýt þessi rök framkvæmdastjórnarinnar fyrir undantekningnni, sem hún vill gera á málum varðandi Ísland, er frá hinni almennu reglu um engar ríkisábyrgðir á tryggingasjóðum innistæðueigenda.

Í 1. lagi er það í raun fagnaðarefni, að loksins í þessu síðbúna svari framkvæmdastjórnarinnar kemur fram, að hún byggir þarna á þeirri fáfengilegu röksemd, sem aldrei hefur heyrzt í öllu þessu deilumáli fyrr en nú, að galli hafi verið á framkvæmd tilskipunar ESB (94/19/EC) hér á landi. En aldrei sagði Evrópusambandið orð í þá veru, aldrei gerði ESA, sem fettir fingur hér á landi út í jafnvel alls konar smáatriði að sögn stjórnarráðasmanna, hina minnstu athugasemd um ranga framkvæmd tilskipunarinnar né um lagalega innfærslu hennar hér á landi með löggjöf í árslok 1999 og stofnun Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta (TIF) árið 2000.

Því fer fjarri, að uppsöfnun iðgjalda bankanna til TIF hafi verið með röngum hætti. Hún fór fram með nákvæmlega réttum hætti "samkvæmt bókinni"; ef svo hefði ekki verið, hefðum við fengið harðorðar athugasemdir frá ESA og frá brezku og hollenzku fjármálaeftirlits-stofnununum (FSA og hollenzka seðlabankanum) og raunar misst starfsleyfi Landsbankans í Bretlandi, a.m.k. fyrir Icesave-reikingunum.

Hina "röksemd" framkvæmdastjórnar ESB hafa Stefán Már Stefánsson prófessor, sérfræðingur í Evrópurétti, Lárus L. Blöndal hrl. og Sigurður Líndal lagaprófessor þegar hrakið út í æsar. Því fer fjarri, að hér á landi hafi verið beitt "mismunun á grundvelli þjóðernis". (Sjá t.d. grein Stefáns og Lárusar: Um mismunun á grundvelli þjóðernis (Mbl. 13. jan. 2010, og grein þeirra tveggja og Sigurðar Líndal: Lagarök um Icesave (Mbl. 14. jan. 2010), kaflann 'Um mismunun á grundvelli þjóðernis').

Þessi tíðindi frá framkvæmdastjórninni eru í raun gleðileg. Þau sýna í raun, að botninn er suður í Borgarfirði fyrir þeirri fullyrðingu hennar, að eyþjóðin litla, Íslendingar, eigi að setjast undir einhverja harða pyntingarskrúfu erlendra ríkja vegna starfsemi einkabanka og ábyrgða TIF, sem þeir í Brussel gera þessa einu undantekningu á, að skuli EKKI njóta þess verndarákvæðis ríkisins í Tilskipun 94/19/EC, að ekki sé hægt að gera neina kröfu til ríkisábyrgðar á tryggingasjóðum á ESB/EES-svæðinu.

Heyjum þessa baráttu áfram og vinnum hana, hvað sem raular og tautar í hinu furðulega meðvirka fjármálaráðuneyti! Afstaða Steingríms J. Sigfússonar er í einu orði sagt sorgleg.

Málstaður Íslands er hinn rétti. Við ætlum sannarlega ekki að gefa hann frá okkur – álit framkvæmdastjórnarinnar er í grundvallaratriðum (sjá einkum HÉR) staðfesting á réttmæti og réttsýni þess viðhorfs og þeirrar stefnu Þjóðarheiðurs, samtaka gegn Icesave, sem meirihluti þjóðarinnar fylgir í reynd, eins og sást með afgerandi hætti í öndverðum marzmánuði (sjá hér: Hartnær 60% aðspurðra segja: Við viðurkennum alls enga ábyrgð Íslendinga á Icesave-greiðslum til Bretlands og Hollands!).

Um leið og við þökkum Thomasi Vermes, blaðamanni ABC Nyheter, fyrir elju hans og árangur í þessu máli, vísum við á greinar hér, sem sýnt hafa góð og eðlileg viðbrögð málsmetandi manna við þessum fréttum af viðhorfum Brusselmanna í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. En í 1. lagi er hér samantekt okkar um fyrri hluta svaranna (smellið á nöfn greinanna):

Spurningar Thomasar Vermes til fulltrúans Michels Barnier í framkvæmdastjórn ESB um innistæðutryggingar og hugsanlega ábyrgð ríkja á þeim

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson: ESB staðfestir að það var EKKI ríkisábyrgð á innistæðutryggingasjóðum 

Ólafur Ísleifsson hagfræðingur segir stöðu Íslands í Icesave-deilunni hafa styrkzt; furðar sig á því að ríkisstjórnin hafi ekki fært sér það í nyt

Ólafur Ísleifsson œconomicus og Bjarni Benediktsson politicus: Staða Íslands styrktist við yfirlýsingu fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB 

Ný grein – afar áhugavert álit – birtist hér kl. 10.00 í fyrramálið, þriðjudag. 

Jón Valur Jensson. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband