Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010
29.6.2010 | 12:19
EVRÓPUVAKTIN UM ESA OG ICESAVE.
EVRÓPUVAKTIN MEÐ SPURNINGAR UM VANHÆFI ESA OG PERS SANDERUD Í ICESAVE-MÁLINU:
27.6.2010 | 06:24
Glæsileg afgreiðsla Sjálfstæðisflokks á Icesave-máli – málamiðlanalaus eins og á ESB-málinu
"Málamiðlun er málamiðlun, þetta er ekki málamiðlun [um ESB]," sagði Ragnheiður Ríkharðsdóttir, en það verður ekki hangið á girðingunni endalaust. Flokkurinn rak af sér slyðruorðið, og gleymið ekki: Hann gerði það LÍKA Í ICESAVE-MÁLINU þennan sögulega laugardag.
"Þetta, sem samþykkt er í dag, er víðs fjarri skoðunum okkar Evrópusinna," sagði Ragnheiður, en yfir því gleðjast ótalmargir, og það sem meira er: Þessi dagur þokaði okkur enn fjær Icesave-málinu og útilokaði samkrull sjálfstæðismanna (nú er hægt að nota orðið athugasemdalaust!) við Icesave-flokkana um svikasamkomulag við Breta og Hollendinga: Flokksforystan hefur ekkert umboð landsfundar til slíks hráskinnaleiks gagnvart þjóðinni.
Í stjórnmálaályktun þessa landsfundar segir m.a.:
- Við segjum hins vegar NEI við: ... Löglausum kröfum Breta og Hollendinga í Icesave-málinu.
Til hamingju, sjálfstæðismenn! til hamingju, íslenzka þjóð.
Jón Valur Jensson.
Óþarfi að sundra flokksmönnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.6.2010 | 13:52
Ósannar fullyrðingar utanríkisráðherrans um Icesave-"skuldbindingar" fá sitt náðarhögg í ritstjórnargrein Morgunblaðsins í dag
Hér er sú stutta, en afgerandi ritstjórnargrein:
Vísvitandi rangfærslur
Forsprakkar ríkisstjórnarinnar segja engan ágreining um að forystumenn allra flokka vilji borga Icesave-skuldbindingarnar. Sömu tugguna hafa fréttamenn beggja ljósvakamiðlanna uppi. Öll þjóðin vill standa við sínar skuldbindingar. En það þýðir ekki að þjóðin vilji eða telji sig eiga að axla ábyrgð á skuldum einkaaðila, sem engin lögmæt ríkisábyrgð var fyrir. Það er auðvitað forkastanlegt að umboðsmenn íslenskrar þjóðar skuli vísvitandi blanda í eina niðurstöðu sjónarmiðum sem eru algjörlega öndverð. En því miður er sú gjörð orðin næsta fyrirsjáanleg. Framganga fyrrnefndra fjölmiðla er á hinn bóginn mikið undrunarefni, svo ekki sé kveðið fastar að. Formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa rétt einu sinni vísað rangtúlkunum Össurar Skarphéðinssonar á orðum þeirra og viðhorfum á bug. Bjarni Benediktsson bendir á að eitt sé að vilja að borga það sem mönnum ber og annað að láta undan ólögmætum kröfum. Sigmundur Davíð segir enn og aftur að Íslendingar vilji standa við sínar skuldbindingar allir sem einn en það hvíli engin skuldbinding á íslenska ríkinu vegna Icesave. Sjálfsagt mun Össur halda rangfærslum sínum áfram. En munu fjölmiðlarnir gera það líka?
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.6.2010 | 04:51
Hve miklum skaða hefur þjóðin valdið?
Magnús Orri Schram segist vera kominn á Evrópuþingið til þess að bæta fyrir skaða sem forsetinn hefur valdið að hans mati. Þá segist hann vera kominn til Strassborgar til þess að árétta það að íslensk þjóð ætli að taka að sér að greiða skuldir einkaaðila vegna Icesave-innlánanna.
Þá ítrekar hann að þjóðin ætli að greiða þessar svokölluðu skuldbindingar þjóðarinnar.
Hann vísar til þess hve miklu tjóni forsetinn hefur valdið í þessu máli, en má þá ekki líka velta fyrir sér hve miklu tjóni sjálf þjóðin olli með því að 98 % þeirra sem afstöðu tóku greiddu atkvæði gegn Icesave-lögunum.
Páll Ragnar Steinarsson.
22.6.2010 | 23:43
Að leggja þjóðinni orð í munn.
Ef ekki væru efnahagsþrengingar og Icesave-della að tröllríða samfélaginu, væri blessaður drengurinn hann Magnús Orri Schram búinn að lengja mitt líf um nokkrar vikur. Samfylkingarmenn eru svo ósköp fyndnir, en gallinn er sá, að útlendingar þekkja ekki eðli samfylkingarmanna. Þeir halda örugglega að þeir séu málsvarar þjóðar sinnar, eins og aðrir stjórnmálamenn.
Þjóðin hefur sagt að hún vilji ekki borga Icesave-skuldina, engin lagaleg skylda hvílir á okkur þess efnis. Samt getur bullið í vinstri mönnunum orðið til þess að við þurfum að greiða, "hin tæra vinstri stjórn" hefur hótað að sitja áfram, hvort sem við viljum eður ei.
En strákræfillinn hann Magnús Orri, hann kveðst jafnvel tapa á ferðinni. Og hann er látinn dvelja á þriggja stjörnu hóteli. Mér finnst það afskaplega hlægilegt, að pilturinn skuli nefna þetta, jú, hann hefur lengt líf mitt um nokkrar mínútur og hafi hann kæra þökk fyrir frá mér og mínum nánustu.
En alvara málsins er sú, að þingmaður skuli enn og aftur endurtaka það, að við skulum borga þvingaðar skuldir og ólögmætar. Einnig er það undarlegt, að þar sem mig minnir að dagpeningar þingmanna nálgist tuttuguþúsund á dag, þá þurfi hann að borga með sér. Er blessaður strákurinn svona ölkær eða mikil eyðslukló? Ég veit það ekki, en hitt veit ég þó, að þriggja stjörnu hótel eru boðleg hverjum sem er. Menn nýkomnir af unglingaskeiði þurfa ekki að halda að þeir séu eitthvað merkilegir þótt þeir hafi slysast á þing, vegna þess að Steinunn Valdís ákvað að segja af sér.
Jón Ríkharðsson.
22.6.2010 | 21:43
Er hlutverk stjórnmálamanna að ljúga skuldum upp á almenning?
Halda mætti að stjórnmálamenn líti á það sem hlutverk sitt að ljúga skuldum upp á vinnuveitendur sína, fólkið í landinu. Þeir hafa þóst hafa rétt til að skella Icesave-skuld Landsbankans á herðar skattgreiðenda, þrátt fyrir að færustu lögfræðingar hérlendis sem erlendis hafi bent á að engin lagastoð sé fyrir því að skylda megi íslenska ríkið til að ábyrgjast skuld gjaldþrota einkabanka. Þvert á móti geti það brotið gegn ýmsum lögum, t.d. tilskipunum ESB og samkeppnislögum.
Síðan fer ríkisstjórnin eins og köttur í kringum heitan graut við að koma sér undan því að viðurkenna dóm Hæstaréttar um að gengistrygging sé óheimil, en vextir á viðkomandi lánum séu löglegir. Róið er öllum árum að því að þvinga ólöglegum einhliða afturvirkum breytingum upp á gerða samninga.
Það er von að maður spyrji: Telja stjórnmálamenn (með örfáum undantekningum) það vera hlutverk sitt að vinna gegn almenningi?
Theódór Norðkvist.
Bætir skaða forsetans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.6.2010 | 19:42
Einkennileg ummæli utanríkisráðherra.
Örvænting utanríkisráðherra er mikil um þessar mundir, þjóðin hefur aðra skoðun en hann á ESB. Sem sannur samfylkingarmaður reynir hann ýmis sálfræðitrikk máli sínu til stuðnings. Athyglisvert var að lesa viðtalið við hann í Fréttablaðinu sl. laugardag, en þar sagði hann orðrétt: "Ég er líka þeirrar skoðunar að aðild að Evrópusambandinu treysti stoðir okkar sem fullvalda ríkis". Þetta er eitt það alvitlausasta sem ráðherra í þessari ríkisstjórn hefur sagt og er þó af mörgu að taka.
Það þarf mjög trúgjarnan einstakling til að gleypa þetta hrátt. Það að vera fullvalda þýðir að viðkomandi ríki ræður sínum málum. Með aðild að ESB er nauðsynlegt að skerða fullveldið. Þetta hefur lengi verið vitað. Einnig er mönnum frjálst að hafa sínar skoðanir. Utanríkisráðherra er vafalaust á þeirri skoðun, að við getum ekki ráðið fram úr okkar vandamálum sjálf, þess vegna þurfum við ESB. En að bera þá vitleysu á borð fyrir almenning, að ESB-aðild þýði aukið fullveldi, það er eins og að reyna að róa niður geðsjúkling sem svipta á sjálfræði, og segja honum að hann fái með þessu styrkari stoð undir eigin sjálfræði.
En ríkisstjórn sem vill auka lánshæfismatið með því að skuldsetja þjóðina um hundruð milljarða, ásamt því að hefja vegferð að norrænu velferðarkerfi með því að skattpína fólk, hún er varla á vetur setjandi.
Það nægir að kynna sér aðstæður hjá Grikkjum, Ítölum og Spánverjum til að sjá hversu miklu ESB bjargar. Við bárum gæfu til þess að halda krónunni og vera utan Evrópusambandsins. Þess vegna eru stoðir útflutningsgreinanna eins sterkar og raun ber vitni. Bankahrunið hefði orðið þótt við hefðum verið í ESB, persónueiginleikar fjármálafursta og útrásarvíkinga hefðu ekki breyst. Evran hefði gert það að verkum, að útflutningsverðmætin hefðu minnkað verulega, vegna þess að verð á mörkuðum hefur staðið í stað og jafnvel lækkað.
Ég er þakklátur fyrir fullveldið og krónuna, en hvorugt er fullkomið. Breyskleiki mannsins kom fyrst í ljós þegar Adam og Eva létu höggorminn plata sig til að borða eplið. Síðan þá hafa liðið mörg ár, en maðurinn er enn jafnbreyskur. Við þurfum alltaf að vega og meta kosti og galla.
Jón Ríkharðsson.
22.6.2010 | 14:43
Nýtt innistæðutryggingakerfi?
Það er eðlilegt að verða tímabundið heimskunni að bráð, en að gera hana meðvitað að sínum lífsförunaut, það er óafsakanlegt. Þeim sem fylgst hafa með Icesave-umræðunni er fulljós framganga og heimskudaður "hinnar tæru vinstri stjórnar". Steingrímur Joð kvaðst fullviss um, að vinir hans myndu landa stórkostlegum samningi. Það reyndist mikill miskilningur hjá kallanganum. Síðan hefur margt gerst sem kunnugt er og skal ekki farið nánar út í þá sálma.
Nú stendur til að koma á lögum, sem staðfesta ríkisábyrgð á innistæðutryggingum, en í nýjum drögum að reglum (sem hefur víst ekki enn verið samþykkt hjá ESB) segir m.a.: "geti innlánstofnun ekki greitt út, skal ríkið búa þannig um hnútana, að skjót endurgreiðsla innlána sé tryggð og trú á bankakerfið bíði ekki hnekki". Ríkisstjórninni rennur blóðið til skyldunnar, enda skal allt gert til að þóknast ESB-ríkjunum, í þeirri von að Ísland skuli þvingað þangað inn. Lögunum á að keyra í gegn, jafnvel þótt önnur aðildarríki séu ekki búin að því.
Hin illa þokkuðu systkin Hroki og Heimska eiga sér gott skjól hjá "hinni tæru vinstri stjórn". Þar eru þau daglega vel alin og fituð á veruleikafirringu stjórnarliða. Tekið skal fram, að meðlimir ríkisstjórnarinnar eru ekki illmenni, heldur kjánar. Athyglivert má telja, að verstu harðstjórar sögunnar töluðu allir máli sinnar þjóðar út á við. En hinir íslensku stjórnarherrar? Nei, þau vilja þvinga þjóðina til að borga, helst sem mest, til að komast í ESB. Til hvers? Varla er hægt að segja að smjör drjúpi af hverju strái aðildarríkja þess.
Þjóðin á að krefjast ítarlegrar rannsóknar á framgöngu ríkisstjórnarinnar í Icesave-málinu, þar sem ekkert skal dregið undan. Bent skal á, að leiðtogar sjálfstæðismanna höfðu frumkvæði að stofnun "Rannsóknarnefndar alþingis" til þess að rannsaka verk sinnar ríkisstjórnar. Skyldi "hin tæra vinstri stjórn" státa af eins miklum kjarki og sjálfstæðismenn? Ég er þess fullviss að svo er ekki, enda eru þetta óttaleg lítilmenni. En mér getur skjátlast, "lengi skal manninn reyna".
Jón Ríkharðsson.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.6.2010 | 05:53
Enn ein fjárkúgunin.
Leikur nokkur vafi lengur á því að Bretar og Hollendingar hyggist nota umsókn Íslands að ESB sem fjárkúgunartæki til að þvinga íslenska ríkið til að borga meinta skuld sem engin lagaleg stoð er fyrir? Þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnmálamanna sem tala tveimur tungum, hérlendra sem erlendra, um að ESB-umsóknin og Icesave séu aðskilin mál, kemur enn ein sönnunin um að því fer fjarri.
Theódór Norðkvist.
Beiti ESB í Icesave-deilunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.6.2010 | 12:29
Viðskiptaráðherrann óttast um líf ríkisstjórnarinnar vegna nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave!
Þetta kemur fram í viðtali hans við austurrískt blað, Der Standard. Við vonumst til að ná samkomulagi í deilunni eftir að ný ríkisstjórn tekur við völdum í Hollandi," segir Gylfi. Ég vona að ekki komi til annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu." Vitaskuld vonar hann það hann ætti þar ekki á góðu von! Ef kjósendur hafna samkomulagi í annað sinn [bætir hann við], væri það slæmt fyrir efnahag landsins [svo?!!!]. Ég veit ekki hvort ríkisstjórnin myndi lifa slíkt af." Æ, hve sorglegt!
Hann segir ekki útilokað að ef til annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu komi vegna Icesave-samninga Íslands, Hollands og Bretlands og almenningur hafni slíku samkomulagi séu dagar þessarar ríkisstjórnar taldir." Í sömu heimild (Eyjunni) er afstaða hans einnig orðuð svo: Þá viðurkennir Gylfi að önnur þjóðaratkvæðagreiðsla sé ekki fýsilegur kostur að sínu viti."
Já, ekki er hugur þjóðarinnar hugur þinn, umboðslausi Gylfi Magnússon!
Heimildir: Annað þjóðaratkvæði um Icesave gæti fellt stjórnina (Visir.is) og frétt á Mbl.is: Óvíst hvort stjórnin lifi af aðra atkvæðagreiðslu, og Eyjan.is: Gylfi Magnússon: Önnur höfnun á Icesave gæti fellt stjórnina (þar er umræða um málið).
Jón Valur Jensson.
Óvíst hvort stjórnin lifi af aðra atkvæðagreiðslu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 12:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)