3.8.2010 | 01:41
Svör fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB við spurningum ABC Nyheter – hér kom í ljós, að í reglugerð ESB er ENGIN RÍKISTRYGGING innistæðu-tryggingasjóðanna
Hér birtum við um daginn svör Michels Barnier, fulltrúa framkvæmdastjórnarinnar (EC, sem í reynd er yfirríkisstjórn bandalagsríkjanna). Hér er seinni hluti svaranna þýddur:
4. spurning.
Þvert á þá afstöðu sem ríkir í Bandaríkjunum, fullyrti ESA (eftirlitsstofnun EFTA) 26. maí 2010, að íslendska ríkið væri í ábyrgð fyrir yfirþyrmandi tapi bankastofnana, sem íslendska innistæðutrygginga-kerfið gæti ekki staðið undir. Þessi ábyrgð væri til staðar jafnvel þótt íslendska innistæðutrygginga-kerfinu hafi verið komið á fót í samræmi við tilskipun (94/19/EB) Evrópusambandsins um innistæðutryggingar, sem ESA hafði fengið til skoðunar fyrir fjölmörgum árum. Er ákvörðun ESA skilaboð til allra ESB/EES-ríkjanna, að skattgreiðendur þessara landa séu ábyrgir fyrir hreingerningum eftir bankahrun ?
Svar við 4. spurningu: Það er ekki venja Framkvæmdastjórnarinnar að gera athugasemdir við ákvarðanir ESA eða túlka þær. Þarna er um sérstakt tilvik að ræða.
5. spurning.
Er tilvik Íslands fyrsta ákæran þar sem þessi spurning er til umfjöllunar ?
Svar við 5. spurningu: Við höfum ekki tíma til að svara þessari spurningu.
6. spurning.
Er niðurstaða ESA varðandi Ísland í samræmi við afstöðu Framkvæmdastjórnarinnar, hvað varðar innistæðutryggingar ?
Svar við 6. spurningu: Framkvæmdastjórnin er sammála lögfræðigreiningu ESA, varðandi túlkun á Tilskipun 94/19/EB um innistæðutrygginga-kerfi í tilviki Íslands. Það er mat Framkvæmda-stjórnarinnar að í hinu sérstaka tilviki Íslands stafi skylda íslendska ríkisins til að endurgreiða þær fjárbætur sem íslendska innistæðutrygginga-kerfinu ber að greiða innistæðu-eigendum í Evrópusambandinu, af galla við að framkvæma tilskipun 94/19/EB í Íslandi. Geta innistæðutrygginga-kerfisins var ekki í samræmi við þá stærð og áhættu, sem íslendska bankakerfið skapaði. Að auki er hægt að tilgreina, að sú yfirsjón að bæta ekki innistæðueigendum í Evrópusambandinu tjón sitt var mismunun í samanburði við innistæðueigendur á Íslandi, sem fengu fullar bætur og urðu því ekki fyrir neinu fjárhagstjóni vegna banka-hrunsins.
Þýðandi: Loftur Altice Þorsteinsson verkfræðingur.
Hér er svo að sjálfsögðu full ástæða til að minna á, hve ógild og einskis nýt þessi rök framkvæmdastjórnarinnar fyrir undantekningnni, sem hún vill gera á málum varðandi Ísland, er frá hinni almennu reglu um engar ríkisábyrgðir á tryggingasjóðum innistæðueigenda.
Í 1. lagi er það í raun fagnaðarefni, að loksins í þessu síðbúna svari framkvæmdastjórnarinnar kemur fram, að hún byggir þarna á þeirri fáfengilegu röksemd, sem aldrei hefur heyrzt í öllu þessu deilumáli fyrr en nú, að galli hafi verið á framkvæmd tilskipunar ESB (94/19/EC) hér á landi. En aldrei sagði Evrópusambandið orð í þá veru, aldrei gerði ESA, sem fettir fingur hér á landi út í jafnvel alls konar smáatriði að sögn stjórnarráðasmanna, hina minnstu athugasemd um ranga framkvæmd tilskipunarinnar né um lagalega innfærslu hennar hér á landi með löggjöf í árslok 1999 og stofnun Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta (TIF) árið 2000.
Því fer fjarri, að uppsöfnun iðgjalda bankanna til TIF hafi verið með röngum hætti. Hún fór fram með nákvæmlega réttum hætti "samkvæmt bókinni"; ef svo hefði ekki verið, hefðum við fengið harðorðar athugasemdir frá ESA og frá brezku og hollenzku fjármálaeftirlits-stofnununum (FSA og hollenzka seðlabankanum) og raunar misst starfsleyfi Landsbankans í Bretlandi, a.m.k. fyrir Icesave-reikingunum.
Hina "röksemd" framkvæmdastjórnar ESB hafa Stefán Már Stefánsson prófessor, sérfræðingur í Evrópurétti, Lárus L. Blöndal hrl. og Sigurður Líndal lagaprófessor þegar hrakið út í æsar. Því fer fjarri, að hér á landi hafi verið beitt "mismunun á grundvelli þjóðernis". (Sjá t.d. grein Stefáns og Lárusar: Um mismunun á grundvelli þjóðernis (Mbl. 13. jan. 2010, og grein þeirra tveggja og Sigurðar Líndal: Lagarök um Icesave (Mbl. 14. jan. 2010), kaflann 'Um mismunun á grundvelli þjóðernis').
Þessi tíðindi frá framkvæmdastjórninni eru í raun gleðileg. Þau sýna í raun, að botninn er suður í Borgarfirði fyrir þeirri fullyrðingu hennar, að eyþjóðin litla, Íslendingar, eigi að setjast undir einhverja harða pyntingarskrúfu erlendra ríkja vegna starfsemi einkabanka og ábyrgða TIF, sem þeir í Brussel gera þessa einu undantekningu á, að skuli EKKI njóta þess verndarákvæðis ríkisins í Tilskipun 94/19/EC, að ekki sé hægt að gera neina kröfu til ríkisábyrgðar á tryggingasjóðum á ESB/EES-svæðinu.
Heyjum þessa baráttu áfram og vinnum hana, hvað sem raular og tautar í hinu furðulega meðvirka fjármálaráðuneyti! Afstaða Steingríms J. Sigfússonar er í einu orði sagt sorgleg.
Málstaður Íslands er hinn rétti. Við ætlum sannarlega ekki að gefa hann frá okkur álit framkvæmdastjórnarinnar er í grundvallaratriðum (sjá einkum HÉR) staðfesting á réttmæti og réttsýni þess viðhorfs og þeirrar stefnu Þjóðarheiðurs, samtaka gegn Icesave, sem meirihluti þjóðarinnar fylgir í reynd, eins og sást með afgerandi hætti í öndverðum marzmánuði (sjá hér: Hartnær 60% aðspurðra segja: Við viðurkennum alls enga ábyrgð Íslendinga á Icesave-greiðslum til Bretlands og Hollands!).
Um leið og við þökkum Thomasi Vermes, blaðamanni ABC Nyheter, fyrir elju hans og árangur í þessu máli, vísum við á greinar hér, sem sýnt hafa góð og eðlileg viðbrögð málsmetandi manna við þessum fréttum af viðhorfum Brusselmanna í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. En í 1. lagi er hér samantekt okkar um fyrri hluta svaranna (smellið á nöfn greinanna):
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson: ESB staðfestir að það var EKKI ríkisábyrgð á innistæðutryggingasjóðum
Ný grein afar áhugavert álit birtist hér kl. 10.00 í fyrramálið, þriðjudag.
Jón Valur Jensson.
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Fjármál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 02:29 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.