Færsluflokkur: Evrópumál
12.4.2012 | 23:24
Ríflega 50 milljarða ætlaði Jóhönnustjórnin sér að greiða í VEXTI af ENGU á nákvæmlega einu ári
Skv. nýbirtum útreikningum fjármálafyrirtækisins GAMMA hefðu vaxtagreiðslur vegna Buchheit-samningsins (Icesave-III)"samtals numið hátt í 79 milljörðum kr." til ársins 2015, þar af ríflega 50 milljörðum til þessa dags, þegar rétt ár er liðið frá seinni þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave (sjá frétt Harðar Ægissonar í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag: Heildarkostnaður hefði verið hátt í 80 milljarðar).
Sjá einnig stutta gerð fréttarinnar hér á Mbl.is.
Blasir nokkuð annað við en að kjósa þann forseta, sem hérna stóð vörð um þjóðarhagsmuni?
Í þessari sömu viku er svo tilkynnt um þátttöku framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í lögsókn ESA gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum. Þetta er hin mesta ófyrirleitni af hálfu Evrópusambandsins og gengur þvert gegn þess eigin tilskipun frá 1994, sem afmarkar innistæðutryggingar einkabanka við sérstaka tryggingasjóði, sem fara skyldu (eins og hér) eftir fyrirframlögðum línum um iðgjöld til þeirra og starfsháttu; þar að auki voru Icesave-reikningar Landsbankans í Bretlandi tryggðir í brezka tryggingakerfinu!
En hin ljóta "aðkoma" Evrópusambandsins að þessu máli nú í dag kann einmitt að tengjast forsetakosningunum: að þessi þátttaka í lögsókn ESA gegn Íslandi sé úthugsað ráð spinndoktora í Brussel til að freista þess að draga úr trúverðugleik Ólafs Ragnars Grímssonar og veikja stöðu hans gagnvart öðrum frambjóðanda, sem fellur Esb-öflunum betur í geð og myndi ekki þvælast lengur fyrir ætlunarverki brezkra, hollenzkra og (hugsið ykkur!) "íslenzkra" stjórnvalda í þessu máli.
En æðsti dómstóll í málinu er Hæstiréttur Íslands. Honum er betur treystandi en þeirri ríkisstjórn, sem frá upphafi hefur brugðizt þjóðinni í þessu máli og ætlaði sér jafnvel, með Svavars-svikasamningnum, að greiða enn hærri vexti af engu! -- og allt í erlendum gjaldeyri! -- og það á sama tíma og talið er, að fjárlagahallinn í ár verði um 70 milljarðar!
Og lítum loks á þetta í frétt Morgunblaðsins:
- Það er því ljóst að heildarvaxtakostnaður ríkisins hefði orðið umtalsvert hærri en rætt var um í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar af hálfu stjórnvalda, en þau áætluðu að kostnaður ríkissjóðs vegna Icesave-samninganna yrði að öllum líkindum á bilinu 26-32 milljarðar króna.
- Valdimar Ármann, hagfræðingur hjá GAMMA, segir í samtali við Morgunblaðið að hærri vaxtakostnaður skýrist einkum af því að útgreiðslur úr þrotabúi Landsbankans hófust seinna en ráð var gert fyrir ...
Sem fyrri daginn fóru stjórnvöld hér með fleipur og kolrangar forsendur. Kostnaðurinn af Buchheit-svikasamningnum hefði ekki orðið 26-32 milljarðar króna, eins og reynt var að ljúga að kjósendum fyrir seinni þjóðaratkvæðagreiðsluna, heldur upp undir 79 milljarða króna!
Steingrímur og Jóhanna sögðu þannig langtum minna en hálfan sannleikann, þegar þau stóðu í sinni blekkingarstarfsemi, en fengu þó aðeins 40% kjósenda til að trúa sér! Þeir kjósendur, sem þar voru blekktir, ættu að koma fram með sín viðbrögð núna -- þeim er velkomið að tjá sig hér á vefsíðu Þjóðarheiðurs.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Kostnaðurinn hefði orðið 80 milljarðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt 13.4.2012 kl. 00:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.4.2012 | 23:50
"Útilokað að láta eins og ekkert sé og halda áfram viðræðum um aðild að ríkjasambandi sem styður óréttmætan málarekstur gagnvart Íslandi"
"Evrópusambandið ætlar að styðja kröfur ESA gagnvart Íslandi og útilokað að láta eins og ekkert sé og halda áfram viðræðum um aðild að ríkjasambandi sem styður óréttmætan málarekstur gagnvart Íslandi. Einnig er þess krafist að sendiherra ESB á Íslandi verði boðaður á fundinn og að fundurinn verði gestafundur," segir í fréttatilkynningu frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, og Gunnari Braga Sveinssyni, formanni þingflokks hans.
Undir þetta skal tekið hér af heilum hug. Það gengur ekki, að stjórnvöld á Íslandi misbjóði þjóð sinni með því að "láta eins og ekkert sé" í þessu máli, og verður mörgum hugsað til annarra mála um leið, þótt þau verði ekki gerð hér að umræðuefni.
Stjórnarflokkarnir hafa lengst af, með öfáum undantekningum þingmanna, hagað sé á afar meðvirkan hátt með yfirgangsöflum Breta og Hollendinga í Icesave-málinu. Megum við nú vænta eðlilegra endaloka þeirrar meðvirkni, eða eigum við enn eftir að sjá þá rísa upp á afturfæturna á ný, Icesave-predikara þessara tveggja flokka?
Jón Valur Jensson.
![]() |
Vilja fund í utanríkismálanefnd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 23:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
11.4.2012 | 23:16
Framkvæmdastjórn Esb. er á bandi fjenda okkar í Icesave-málinu
Náin tengsl óvina Íslands í Icesave-máli Landsbankans koma betur og betur í ljós. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ætlar nú, í fyrsta skipti, að taka þátt í málarekstri Eftirlitsstofnunar EFTA gegn einu landi fyrir EFTA-dómstólnum, og auðvitað velja þau "umsóknarlandið" Ísland til þess! Allan tímann frá því að Icesave-málið kom upp, hefur Evrópusambandið beitt sér gegn okkur, t.d. í skyndiréttarhöldum gervi-gerðardóms haustið 2008, sem var þó ekki gildur vegna þátttökuleysis íslands og EFTA (af því að Árni Matthíasson hafði vit á að láta ekki narra sig í þetta). Þar, í þeim gerðardómi, tók framkvæmdastjórn Esb. afstöðu gegn rétti okkar alveg eins og sá Seðlabanki Evrópu, sem margir virðast þó halda, að bezt sé treystandi fyrir íslenzkum peningamálum!
En það var þessi sama framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sem hafði þó gefið Íslandi fína einkunn á bóluárunum, rétt eins og ESA hafði gert, þ.e. Eftirlitsstofnun EFTA, sjá hér: ESB segir ESA hafa reglulega staðfest ágæti regluverks Íslands.
Getum við tekið mark á svona framkvæmdastjórn? Dinglar hún ekki bara til hægri og vinstri eftir því sem valdfrekir hagsmunaaðilar innan hennar, þ.e. voldugustu ríkin, vilja við hafa hverju sinni?
Jón Valur Jensson.
![]() |
ESB vill aðild að Icesave málinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 23:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2012 | 14:15
Er ekki GEÐVEIKT að una EES-samningi?
Viggó Jörgensen á snjallan pistil á blogginu í dag: Sökin er hjá Alþingi, að hafa gengið í Evrópska efnahagssvæðið, segir m.a.:
- Eftir að Alþingi ákvað að gerast aðili að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) var landið stjórnlaust, innanlands, í bankamálum.
- Alþingi og framkvæmdavaldið voru skuldbundin til að setja ekki aðrar reglur en þær sem giltu á EES.
- Lagasetningarvaldið í bankamálum Íslendinga var komið til Evrópusambandsins (ESB).
- Þar sem Íslendingar eru ekki í ESB hefði verið hægt að segja upp EES samningnum árið 2005.
- Sem var síðasta árið til að bjarga íslenska bankakerfinu miðað við þær aðstæður sem urðu eftir það.
- Þar sem mikill meirihluti utanríkisviðskipta Íslands er við lönd í EES kom engum til hugar að ganga þaðan út.
- Íslenskir alþingismenn höfðu ekki minnsta grun um hvað fólst í samningnum um EES eins og síðar kom í ljós.
- Til dæmis þá eftirá-túlkun ESB að íslensk stjórnvöld ættu að bera ábyrgð á innstæðum í einkabönkum.
- Og stóru ríkin í ESB hafa markmisst unnið að því að þröngva þeirri lögskýringu inn á Íslendinga ...
Framhald greinarinnar má finna hér!
Undirritaður þakkaði Viggó pistilinn, einkum það sem hann ritaði um samninginn ófarsæla um Evrópska efnahafssvæðið, og ég bætti við:
- Nú ætlast þeir jafnvel til, með nýrri tilskipun, sem bíður okkar að innfæra hér í lög, að við tryggjum allar innistæður í bönkunum upp að 100.000 evrum (16,6 milljónum króna) og gerum það með BEINNI RÍKISTRYGGINGU, um leið og krafan um greiðslu tryggingarinnar er stytt úr nokkrum mánuðum niður í 23 daga!!!
- Þetta eitt ætti að nægja til að sýna, hvað þetta er GEÐVEIKT!
JVJ.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 14:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
25.2.2012 | 06:00
Afturgenginn Frankenstein: Icesave IV
- Eftir Daníel Sigurðsson: "Ljóst er að aðeins galdramaður ættaður af Vestfjörðum mun vera í stakk búinn til að kveða þennan draug niður."
Furðuviðtal á RÚV við annan lögmanninn, Jóhannes Karl Sveinsson, sem sat í samninganefndinni í Icesave-málinu virðist staðfesta þetta (Spegill RÚV 14.12. sl.) Þar segist hann naga sig enn meira í handarbökin út af því en áður að Íslendingar skyldu ekki hafa borið gæfu til að samþykkja Icesave III við Breta og Hollendinga. M.ö.o. lýsir þessi málpípa ríkisstjórnarinnar því yfir að málið sé fyrir fram tapað fyrir EFTA-dómstólnum. Þessi ummæli endurspegla annarlegar hvatir ríkisstjórnarinnar í málinu og eru þeim mun dapurlegri í ljósi þess að með samþykki Icesave III væri þjóðarbúið nú þegar búið að sjá af nær 50 milljarða óafturkræfri vaxtagreiðslu í beinhörðum gjaldeyri í þetta svarthol sem væri aðeins byrjunin.
Eftirfarandi ummæli lögmannsins í viðtalinu, um þá stöðu sem upp kæmi ef dómsmál tapaðist, eru þó sýnu alvarlegri:
Að mínu mati væri það óðs manns æði að reyna ekki að ná samningum.
Það liggur sem sé fyrir að ríkisstjórnin ætlar að berjast um á hæl og hnakka fyrir því að málið endi ekki fyrir Hæstarétti Íslands (sem myndi gera uppreistaráform hennar að engu) þó svo fyrir liggi lögfræðiálit virtustu lögspekinga um að yfirgnæfandi líkur séu á að B&H gjörtapi skaðabótamáli þar. Þvert á móti ætlar ríkisstjórnin sér í framhaldinu að grátbiðja bresk og hollensk stjórnvöld um að setjast enn á ný að samningaborði um nýja hrollvekju, Icesave IV.
Ríkisstjórnin mun ekki fella stór tár þó svo hin nýja afturganga, Frankenstein fjórði, yrði enn ógnvænlegri þjóðinni en Frankenstein þriðji sem felldur var í þjóðaratkvæðagreiðslunni sl. vor, enda á þjóðin og forsetinn ekkert betra skilið að mati ríkisstjórnarinnar fyrir að þverskallast gegn vilja hennar í málinu.
Í millitíðinni mun svo ríkisstjórnin auðvitað gera allt sem í hennar valdi stendur til að koma auðsveipum handlangara að á Bessastöðum í vor til að leggja blessun sína yfir hinn nýja uppvakning þegar hann bankar þar á dyr eftir að hafa riðið húsum á Alþingi og knúið þingheim til uppgjafar.
Ljóst er að aðeins galdramaður ættaður af Vestfjörðum mun vera í stakk búinn til að kveða þennan draug niður og þar með þráhyggjuáform ríkisstjórnarinnar að láta þjóðina axla Icesave-klafann. Maður þessi hefur sagt þjóðina hafa lögsöguna í málinu. Hann mun vonandi tryggja að svo verði áfram þar til afturganga þessi hefur endanlega verið kveðin niður.
Því miður virðist martröðin um einbeittan ásetning forystumanna ríkisstjórnarinnar um að koma Icesave-klafanum á þjóðina enn geta orðið að ísköldum veruleika.
Stöndum saman að áskorun til núverandi forseta um að standa áfram vaktina: http://askoruntilforseta.is/
Höfundur er véltæknifræðingur.
Greinin birtist í Morgunblaðinu í fyrradag; endurbirt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.
![]() |
Björguðum Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 06:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
16.2.2012 | 07:00
Undirskriftir stuðningsmanna Ólafs Ragnars Grímssonar nálgast 31.000
Glæsileg hefur þátttakan verið í undirskriftum á vefsíðunni ÁSKORUN TIL FORSETA (askoruntilforseta.is) um að sitjandi forseti þjóðarinnar gefi áfram kost á sér í embættið. Um 30.700 hafa nú skrifað undir eftirfarandi hvatningu til hans:
- Við undirrituð skorum á þig, herra Ólafur Ragnar Grímsson, að gefa kost á þér til forsetakjörs í sumar. Við treystum þér betur en nokkrum öðrum manni til að standa vörð um hagsmuni fólksins í landinu á þeim erfiðu tímum sem fram undan eru.
Félagar í Þjóðarheiðri samtökum gegn Icesave standa í ævarandi þakkarskuld við Ólaf Ragnar. Það sama á við um íslenzka þjóð. Forsetaembættið hefur vegna aðgerða hans borgað sig næstu þúsund árin eða svo vegna fyrra málskots hans á Icesave-ólögum til þjóðarinnar, en samkvæmt þeim væri nú búið að gjalda yfir 120 milljarða króna í óendurkræfa vexti af gerviskuldinni. Þessi fjárhæð hefði valdið hér efnahagslegu fárviðri stórfelldum niðurskurði, kjararýrnun og fátækt alþýðu.
Hefur þjóðin efni á því að fá óvissu um þessi mál í stað þessa forseta? NEI. Þess vegna sameinast nú menn og konur úr öllum flokkum um að leita eftir því við Ólaf Ragnar Grímsson, að hann haldi áfram að þjóna landi sínu og þjóð.
Við höfum ekki efni á því að sýna neitt andvaraleysi, meðan enn geta vofað yfir okkur smánarsamningar stjórnmálamanna við útlendinga veifandi ranglátum, löglausum kröfum sínum
Það er enn hægt að fara inn á þessa vefsíðu til að styðja ákallið til Ólafs Ragnars. Þeir, sem ekki eru sjálfir með tölvu, geta hringt í undirritaðan í síma 616-9070 og fengið aðstoð við að skrá nafn sitt á listann. Fjöldi manns, meiri hlutinn tölvulaust fólk, roskið og aldrað, hefur þegið boð um þessa aðstoð frá því í síðustu viku, flestir síðan á mánudag. Það er gefandi að hlusta á það fólk og einlægan stuðning þess við okkar framúrskarandi hæfa forseta.
Jón Valur Jensson.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 01:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.1.2012 | 06:04
Stórmerk grein Gunnars Tómassonar hagfræðings í Mbl. í dag sýnir forsenduleysi fyrir fullyrðingum ESA í Icesave-máli
ESA stefndi íslenzkum stjórnvöldum fyrir EFTA-dómstólinn vegna meints brots á tilskipun Esb. um innstæðutryggingar, en ...
- "Það er mat undirritaðs að ákæra ESA stangist á við ákvæði tilskipunarinnar og sé liður í áframhaldandi þvingunaraðgerðum gegn Íslandi utan laga og réttar,"
segir hagfræðingurinn meðal annars í ýtarlegri, afar vel rökstuddri grein. Einnig síðar, í ályktun byggðri á góðri rökfærslu:
- "Það skortir öll efnisrök fyrir fullyrðingu ESA að Ísland hafi vikist undan skuldbindingum sínum í sambandi við uppgjör Icesave-innstæðna."
Gunnar vekur í seinni hluta greinar sinnar athygli á því, að dagsetning á viðbrögðum Fjármálaeftirlitsins við hruni Landsbankans "skiptir höfuðmáli þar sem greiðsluskylda íslenzka innstæðutryggingarsjóðsins samkvæmt Directive 94/19/EC miðast við dagsetningu álits FME," og á þessu formlega atriði falla kröfur brezku og hollenzku ríkissjóðanna og afstaða ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA) eins og spilaborg. Þetta er afar spennandi nálgun á málið, og á höfundur miklar þakkir skildar fyrir þessi skrif.
Í blálok greinar sinnar ritar hann:
- "Sá vefur ósanninda sem rakinn er í 1-5 hér að ofan bendir eindregið til þess að yfirstjórn ESA hefur verið sér meðvitandi um eigin rangtúlkanir á tímasetningu atvika og ákvæðum Directive 94/19/EC. Ákæra ESA fyrir EFTA-dómstólnum væri því lokaþáttur þvingunaraðgerða Evrópustofnananna ..."
Hér er þessi grein Gunnars Tómassonar í heild: Ákæra ESA fyrir EFTA dómstólnum. Fáið ykkur þetta blað, ef þið fáið það ekki sem áskrifendur!
Jón Valur Jensson.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 06:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.1.2012 | 14:03
Hið dásamlega "nýja Ísland" Jóhönnu!
Jóhanna er enn að blaðra um baráttu sína fyrir "hinu nýja Íslandi"! Var ekki Icesave partur af pakka Jóhönnu og Steingríms frá Alþjóða-gjaldeyrissjóðnum? Jú, Kristin Halvorsen upplýsti á sínum tíma sem fjármálaráðherra Noregs, að AGS hafi sett Norðmönnum þá skilmála, að fresta yrði lofuðu láni til Íslands, nema við kláruðum Icesave-samninginn!
Þvert gegn streituhugsun Steingríms og Jóhönnu, sem þau hafa aldrei fengizt ofan af, þ.e. að við hefðum átt að borga Icesave-kröfu gömlu nýlenduveldanna í landsuðri, þá er staðreyndin sú, að við áttum EKKERT að borga (en skýrslu um það FALDI Össur, þvert gegn einhverjum alvarlegustu lögum landsins).
Icesave-I-samningurinn hefði hingað til kostað okkur yfir 120 milljarða króna í eina saman VEXTI (110 ma. til 1. okt. sl.) og það ÓAFTURKRÆFA vexti og allt í erlendum gjaldeyri! En það "nýja Ísland", sem af þessu hefði hlotizt, hefði verið RÚSTUN velferðarkerfis okkar og þrælaánauð skattgreiðenda í þágu ríkissjóða Breta og Hollendinga!
Icesace-III-samningurinn, sem sumir tala enn um (eins og Jóhanna gerði HÉR daginn fyrir seinni þjoðaratkvæðagreiðsluna) sem "betra [í stað: illskárra] tilboð", var jafn-löglaus og hinn fyrri, en hefði kostað okkur um eða tæpa tvo milljarða króna á hverjum mánuði í óafturkræfum vaxtagreiðslum eða sem nemur verðmæti heils ríkisfangelsis á Hólmsheiði á 36 daga fresti og þær síendurteknu greiðslur stæðu ENN yfir, ef þetta ábyrgðarlausa "bjartsýnis"-lið hefði fengið að ráða hér, þvert gegn þjóðarvilja og þjóðarhag. Óneitanlega partur af því "nýja Íslandi" sem Jóhanna og Steingrímur reyndu að koma hér á, ekkert síður en "skjaldborgin" þeirra, sem fór víst vegavillt í framkvæmdinni!
Það er alls ekki að bera í bakkafullan lækinn að ræða enn og aftur Icesave-málið, því að þetta tvíeyki, parið Steingrímur og Jóhanna, hugsjónarímynd hins "nýja Íslands", situr enn á fjörráðum við þjóð sína í þessu bannsetta máli.
Full þörf er á því að fylgjast vel með Steingrími J. Sigfússyni, nú eftir að hann hefur rutt úr vegi Árna Páli Árnasyni sem efnahags- og viðskiptaráðherra og setzt jafn-ábúðarmikill í stól hans eins og Jóns Bjarnasonar, sem reynt hafði að fylgja samvizku sinni í öðru máli fyrir landsins hönd.
Steingrímur hefur sýnt það, svo að ekki verður um villzt, að honum er ekki treystandi. Fullrar vöktunar er því þörf á þessum tveimur!
PS. Greinilega hefur ritskoðun verið beitt við þessa vefgrein, því að tengd var hún frá upphafi við frétt af ummælum Jóhönnu á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar í morgun (HÉR!), en sú tenging hefur verið rofin, og það gerist ekki án íhlutunar vefstjóra á blog.is eða mbl.is. Annað dæmi um slíkt rof vefsíðu við fréttir er nýlegt: þegar það sama var gert við vefsetur Samstöðu þjóðar. Já, ritskoðun er óvíða lengur við lýði nema einna helzt í Kína, Sýrlandi og öðrum einræðisríkjum og nú einnig hér á Íslandi! Hvað skyldi Davíð segja um það? En lesendum síðunnar er velkomið að stuðla að lestri hennar með Facebókartengingu eða með öðrum hætti; með því sýnum við hug okkar gegn ritskoðun!
Jón Valur Jensson.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 14:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.1.2012 | 17:15
Áskorunarsíða um herra Ólaf Ragnar sem forseta Íslands í 5. sinn
ÁSKORUN TIL FORSETA um að gefa áfram kost á sér í embættið hefur verið hrundið af stað á sérstakri vefsíðu, og er rífandi gangur í undirskriftum þar, komnar 1116 á um tveimur tímum, þegar þetta er ritað.
Ólafur Ragnar Grímsson er sá, sem þjóðin treystir manna bezt í starf forseta Íslands, að fenginni reynslu okkar á neyðartíma í sögu lýðveldisins. Með því að vísa Icesave-I-ólögunum undir dóm þjóðarinnar hefur hann, ásamt þjóðinni sjálfri, sparað okkur yfir 120 milljarða króna í ÓENDURKRÆFAR vaxtagreiðslur hingað til (meira myndi bætast við, meðan þrotabú Landsbankans er ekki fulluppgert)!
Með málskoti Icesave-III-ólaganna til þjóðarinnar hefur forsetinn á 36 daga fresti verið að spara okkur vaxtagreiðslur sem jafngilt hefðu heilu ríkisfangelsi á Hólmsheiði hverju eftir annað á 36 daga fresti! Um þessi mál hefur verið fjallað hér í fjölda greina hér á vefsetri Þjóðarheiðurs samtaka gegn Icesave.
Við skulum öll taka þátt í því að tryggja okkur áfram traustan forseta hér við völd, mann sem við vitum fyrir fram, að er reiðubúinn að vera sá neyðarhemill á rangar eða vafasamar ákvarðanir stjórnmálastéttarinnar, sem þjóðinni hefur verið svo nauðsynlegur á seinni árum.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Skora á Ólaf Ragnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 17:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
"EFTA-dómstóllinn getur reyndar ekki sett skaðabætur á Ísland, það þyrfti að reka málið fyrir íslenzkum dómstólum. Það þyrfti að sýna þeim fram á einhvern skaða. Skaðinn er ekki til staðar. Þvert á móti, þeir eru að hagnast stórkostlega á þessari niðurstöðu". Þannig voru lokaorð Sigmundar Davíðs í magnað góðu viðtali við Hall Má Hallsson (Hallssonar Símonarsonar!), blaðamann Mbl. Þetta rúml. 3 mín. viðtal verða allir að sjá! Sigmundur er greinilega maður með meira bein í nefinu en Steingrímur, hvað sem líður útliti ...
Hér er allur síðasti hluti viðtalsins (frá 2:02 mín.):
- "En með því að láta þrotabúið greiða þetta, eins og því ber, þá eru þeir að fá gríðarlega háar upphæðir, sem þeir hefðu ekki fengið ella. Hollenzkir innistæðueigendur fá allt sitt tryggt, sem þeir hefðu ekki gert allir með gamla samkomulaginu, góðgerðarfélög, ensk sveitarfélög fá allt sitt o.s.frv., svoleiðis að þeir ættu að vera mjög sáttir við þessa niðurstöðu.
- Hallur: "Þannig að þú telur okkur vel undirbúin fyrir þetta?"
- "Já, við erum það, og jafnvel þó að EFTA-dómstóllinn kæmist að þeirri undarlegu niðurstöðu, að Íslendingar hefðu átt að greiða strax út 1700 milljarða króna í erlendri mynt, þegar gjaldeyrisvaraforði landsins var 350 milljarðar jafnvel þótt hann kæmist að þeirri undarlegu niðurstöðu, þá er samt mjög hæpið og raunar ómögulegt að dæma Íslendinga til að greiða einhverjar skaðabætur. EFTA-dómstóllinn getur reyndar ekki sett skaðabætur á Ísland, það þyrfti að reka málið fyrir íslenzkum dómstólum. Það þyrfti að sýna þeim fram á einhvern skaða. Skaðinn er ekki til staðar. Þvert á móti, þeir eru að hagnast stórkostlega á þessari niðurstöðu."
Þvílík einurð og hikstalaus þekking og krufning á málinu niður í kjölinn! Og þetta rennur allt upp úr honum í þessu leiftrandi viðtali.
Sjá einnig fyrri greinar hér í dag:
Fráleit ESA-stefna gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum
Og þessi rituð snemma í morgun, áður en ESA-fréttin barst:
Ánægjuleg umskipti í Icesave-máli það voru góð skipti að fá Árna Pál að málinu og hvíla Steingrím
JVJ.
![]() |
Tengist taugaveiklun í Evrópu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 17:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)