Færsluflokkur: Evrópumál
15.9.2010 | 12:27
Forseti Íslands á CNN: Hollendingar og Bretar halda enn uppi ósanngjörnum kröfum gagnvart Íslandi
Skuldir sem hafa orðið til vegna misgjörða einkabanka eiga ekki að lenda á almennum borgurum, segir hann, kröfur um það séu ósanngjarnar. Og svo ráðast sumir að forsetanum og vilja að hann verði settur í farbann, eins fáránlega og það nú hljómar. Maðurinn hefur varið okkur gegn fjárkúgun stórvelda og gegn okkar eigin ríkisstjórn og ríkisstjórnarflokkum. Hann hefur fullt leyfi til að tala um Icesave eins og hver önnur mál. Núverandi ríkisstjórn ætlaði að koma nauðunginni yfir okkur og er óhæf að verja okkur.
Forsetinn stendur fastur á því í þessu sama kröftuga CNN-viðtali, að það sé engin ríkisábyrgð á Icesave og hafi aldrei verið. Hann segir, að Bretar og Hollendingar hafi ekki viljað kannast við málið eins og það var.
Icesave-hluti viðtalsins verður birtur hér í textaformi í dag.
Svo sannarlega var ærin ástæða til að vísa málinu í þjóðaratkvæði, þegar mælirinn var fullur hjá þessum Icesave-stjórnvöldum okkar. Forsetinn hafði fulla lagaheimild til að synja ólögum þeirra frá 30. des. 2009 staðfestingar og fela þjóðinni úrslit málsins. Nú heldur hann réttilega áfram varðstöðunni um lífshagsmuni og réttindi Íslands. Það er gleðilegt, að forsetinn stendur með þjóðinni.
![]() |
Ósanngjarnar kröfur um Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 13:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.9.2010 | 14:53
Forsetinn: Stuðningur ESB við svívirðilegar Icesave-kröfur hefur „vakið upp spurningar: Hvers konar klúbbur er þetta eiginlega?"
Enginn getur haldið því fram, að íslenska þjóðin eða pólitíska lýðræðislega kerfið á Íslandi hafi ekki brugðist með ábyrgum hætti við fjármálakreppunni. Það þýðir þó ekki, að við ættum að láta undan svívirðilegum kröfum Breta og Hollendinga," hefur Bloomberg eftir herra Ólafi Ragnari Grímssyni, þar sem hann er staddur á fund Alþjóðaefnahagsráðsins í Kína.
- Aðgerðir Breta og Hollendinga, sem nutu lengi stuðnings Evrópusambandsins, hafa vakið upp spurningar í hugum margra Íslendinga: Hvers konar klúbbur er þetta eiginlega?" segir hann.
Hér má ekki sízt hafa það hugfast, að Evrópusambandið var með virkustum hætti á bak við þá ákvörðun að kalla saman ólögmætan gerðardóm að kröfu Breta og Hollendinga, ólögmætan vegna þess að Árni Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra, studdur lögfræðiráðgjöfum sínum, neitaði að tilnefna fulltrúa Íslands í gerðardóminn og viðurkenndi ekki réttmæti þess að sá gerðardómur kvæði upp dóm í málinu.* Það gerði hann samt, í einum hvelli, á innan við sólarhring, og alveg eftir óskum Breta og Hollendinga! Í þessum gerðardómi sátu fulltrúi ráðherraráðs ESB (le Directeur général du Service juridique du Conseil de l'Union européenne), fulltrúi framkvæmdastjórnar ESB (le Directeur général du Service juridique de la Commission de l'Union européenne), forseti (Président) Seðlabanka Evrópu og forseti Eftirlitsstofnunar EFTA allir nema sá síðastnefndi fulltrúar ESB-stofnana.
En aftur að forseta okkar:
Ólafur segir í viðtalinu að Íslendingar séu reiðubúnir til að ræða um endurgreiðslu á Icesave-ábyrgðum" (Mbl.is). Það á reyndar EKKI við um meirihluta Íslendinga! sbr. eindregna niðurstöðu skoðanakönnunar MMR, sem birt var 8. marz sl. (sjá hér og HÉR!), tveimur dögum eftir að 93,2% landsmanna höfnuðu Icesave-ólögum meirihluta alþingismanna frá 30. des. 2009, en 1,8% sögðu já við þeim (auðir seðlar voru 4,7%, ógildir 0,3%, sjá nánar hér: Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave eftir landshlutum).
En áfram er haft eftir Ólafi Ragnari: Hins vegar verði bresk og hollensk stjórnvöld að gera sér grein fyrir því, að Landsbankinn og netbankinn Icesave hafi ekki notið ríkisábyrgðar." (Mbl.is.)
Það er ánægjulegt, að forseti Íslands er eins og fleiri byrjaður að taka undir þessa mjög svo skýru framsetningu á réttarstöðu okkar, en hún getur ekki verið augljósari eftir að sjálf framkvæmdastjórn ESB, sem bjó til tilskipunina (dírectívið) 94/19/EC, en farin að segja þetta fullum fetum! Þetta er reyndar sú sama skýra framsetning, sem lesa má í skjali frá Árna Mathiesen og ráðgjöfum hans í byrjun nóvember 2008 (Drög að álitsgerð Íslands til framlagningar fyrir gerðardóm í kjölfar ECOFIN fundar; hún var þó "ekki lögð fram vegna þess að Ísland dró sig út úr málsmeðferðinni").
Um undanbrögð framkvæmdastjórnar ESB frá þeirri meginreglu að ríkisábyrgð sé ekki á tryggingasjóðum á EES-svæðinu, þ.e. þær fölsku undanfærslur hennar að telja tvennt réttlæta það að gera sérstaka undantekningu með lýðveldið Ísland frá þeirri reglu, höfum við fjallað áður hér á vefsetri Þjóðarheiðurs.
Svo minnum við lesendur okkar sérstaklega á þessa heimildasíðu með samantekt af Icesave-gögnum: http://www.island.is/endurreisn/stjornvold/adgerdir-stjornvalda/samantekt-adgerda/icesave-samningurinn/skjol-vegna-icesave-samningsins/.
* "Það er meginregla í samskiptum ríkja að ágreiningur milli þeirra verður ekki lagður fyrir dómstóla nema með samþykki allra aðilja." (Af vefsíðunni Island.is.)
Jón Valur Jensson.
![]() |
Hvers konar klúbbur er þetta? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 15:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.9.2010 | 20:24
GETA EKKI STAÐIÐ Í LAPPIRNAR.
Protesters in Reykjavik March 6 demand that the government do more to improve economic conditions in Iceland
Hvað ætli Bjarni Ben. sé að vísa í þegar hann segir í fréttinni að neðanverðu: "Nú hefur þegar verið boðin ríkisábyrgð og vextir. Ef það dugar ekki Alþjóðagjaldeyrissjóðnum má hann fara héðan út". Mann skal ekki undra þó, hann hefur alltaf verið hálf-aumlegur í málinu og aldrei verið nógu harður gegn, endalaust verið hálft í hvoru með og hálft í hvoru ekki með og kannski með og kannski ekki eða setið hjá eins og hann gerði í fyrri Icesave-nauðunginni sem var undirrituð 2. september 2009. 50/50-maður og aldrei með mótaða og þroskaða stefnu í málinu. Og í nóvember 2008 talaði hann fyrir ríkisábyrgð á Icesave í ræðu. Menn sem vilja semja um Icesave eru meðvirkir ICESAVE-STJÓRN Jóhönnu og Steingríms.
Hvar er hin harða afstaða gegn Icesave sem flokkurinn lýsti yfir fyrir skömmu? Það telst ekki hörð afstaða að vera sífellt semjandi við þrjóta um ólögmæta kröfu. Hann og hans flokkur eru alls ekki ein um það þó. Hver einasti flokkur í Alþingi er meðsekur. Ætlar hann og hinir viljugu Icesave-semjendurnir ekki að fara að standa í lappirnar eins og menn?? Hættið að semja um Icesave. Hættið að vera endalaust að draga niður alþýðu landsins og þvæla með Icesave-vitleysuna. Við skuldum ekki óþverrann og sættum okkur heldur ekki við neina hálfa ríkisábyrgð á neinni nauðung. Enda kolfelldum við Icesave í mars sl. með yfir 90% NEI-um.
![]() |
Sagðir misnota stöðu sína í stjórn AGS |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 23:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
8.9.2010 | 13:16
Ætlar enginn að segja Svavari frá þjóðaratkvæðagreiðslunni?
Svo nefnist grein á Amx.is-vefnum sem hvetja má lesendur Moggabloggs til að kynna sér. Þar er í upphafi bent á, að "Icesave-samningur Svavars fékk sama fylgi og Ástþór Magnússon til forseta", og fleira er þar kræsilegt í verðskuldaðri gagnrýni á þennan gamla stjórnmálamann, sem í sjálfumgleði sinni heldur áfram að réttlæta sín verstu verk í flóði Fréttablaðsgreina.
Ætlar enginn að segja Svavari frá þjóðaratkvæðagreiðslunni?
Sí og æ tala þingmenn stjórnarflokkanna um meinta "nauðsyn að ljúka Icesave". Árni Páll, nýr efnahags- og viðskiptaráðherra, byrjar illa feril sinn með því að endurtaka þennan Gylfasöng Steingríms og Jóhönnu. Átylla hans nú er sú, að orkufyrirtækin þurfi að geta fjármagnað sig. Þau þurfa nú fyrst og fremst að skera hressilega niður, auk þerra verðtaxtahækkana sem þar blasa við. En Árni Páll tyggur upp það sama og forverar hans buðu Alþingu upp á í morgunmat sérhvern dag mánuðum saman: "Nauðsynlegt sé að ljúka Icesave. Það er sama hvaða orkufyrirtæki er, þau eru í vandræðum með fjármögnun vegna þess að ekki hafi verið gengið frá Icesave-samkomulagi." (Mbl.is.) Þvílíkur endemis-vesældarsöngur!
Árni Páll segir Icesave-málið ennfremur koma í veg fyrir að hægt sé að tryggja hér atvinnutækifæri og að það komi í veg fyrir fjárfestingar. Það er gott fyrir mann, sem fallast hendur strax á fyrsta degi, að finna sér afsökun fyrir eigin aðgerðarleysi. En hrein undanlátssemi gagnvart yfirgangssömum uppgjafa-nýlenduveldum sem Lúðvík Jósepsson og Ólaf Jóhannesson munaði lítið um að standa á móti! er eina svarið sem Árni Páll hefur við vandanum: að búa bara til enn meiri risaskuldir á ríkið, jafnvel vegna gersamlega ólögvarinnar og ólöglegrar kröfu nefndra ríkja! Það er ekki einu sinni borið við að reyna að vísa málinu í dóm, jafnvel þótt hreint tap í þeim dómi gæti aldrei orðið okkur jafn dýrkeypt og nýr Icesave-svikasamningur.
- "Jón Gunnarsson, Sjálfstæðisflokki, kvartaði yfir því að enn einu sinni ætti að hefja Icesave-sönginn og að það eigi að kenna Icesave um það sem miður fer. Frekar ætti að líta á störf ríkisstjórnarinnar, þar sé skýringuna að finna á því hve erfið staðan er." (Mbl.is.)
Gott hjá Jóni, og nú þarf stjórnarandstaðan að halda uppi stöðugu aðhaldi við stjórnarflokkana og eiga engan hlut í illum verkum þeirra og áformum í þessu máli.
Takið eftir, að það er lífleg umræða alveg fram undir þetta í gangi á þessari vefslóð okkar:
G O T T ! enda eigum við ekkert að borga!
Jón Valur Jensson.
![]() |
Nauðsynlegt að ljúka Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.9.2010 | 07:11
G O T T ! – enda eigum við ekkert að borga!
Sú gleðifrétt hefur borizt, að fundi samninganefnda Íslands, Hollands og Bretlands um Icesave lauk í gær ÁN "ÁRANGURS". Nú blasir við, að málið geti farið til dómstóla. Aldrei gætum við tapað þar neinu á borð við klúðrið hjá Svavari, Indriða og Steingrími.
Það er rétt hjá Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, að hafa engar áhyggjur af dómstólaleiðinni. Það hefur margsannazt, að ríki á EES-svæðinu bera ekki ábyrgð á tryggingasjóðum sínum skv. ESB-löggjöf (sjá greinar hér neðar). Og jafnvel þótt það alólíklegasta gerðist, að við töpuðum alveg málinu (per impossibile), t.d. vegna mistaka af hálfu stjórnvalda okkar við málatilbúnaðinn fyrir rétti, þá væri aldrei hægt að ætlast til annarrar borgunar af okkar hálfu en í íslenzkum krónum. Þá myndum við laga málið með seðlaprentun og verðbólgu. Þar að auki var vaxtaþáttur málanna í skelfilega skammarlegu fari fyrir Bretana, þeir brutu þar allar reglur í kröfum sínum.*
Að lítil breyting hefur orðið á viðhorfi Breta og Hollendinga, að sögn BB, er þeirra eigin ógæfa, stjórnvalda í nefndum löndum, sem eiga eftir að bera þeim mun meiri kinnroða vegna þessa máls.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir mest lítið um þetta í Morgunblaðinu í dag (en þar á hann hins vegar allmikla grein um óskylt mál: nýliðnar deilur um málefni biskups, presta og Þjóðkirkjunnar, hann tekur þar upp hanzkann fyrir hana).
Nú horfum við bara til sólar, treystum á gæfu lands og þjóðar og tökum ekki i mál, að ráðamenn okkar byrji aftur í Bretavinnunni.
* Sbr. þessa pistla á öðru vefsvæði: Það skeikar hundruðum milljarða í Icesave-vaxtaútreikningum fjármálaráðherrans! og: Enn um Icesave-vexti: Í yfirgangi sínum brjóta Bretar lög um jafnræði í EES: snuða okkur um (185 til) 270 milljarða fyrstu sjö árin!
Jón Valur Jensson.
![]() |
Árangurslausir fundir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 07:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Stærilátur er talsmaður hollenska fjármálaráðuneytisins, Niels Redeker, sem segir ráð fyrir því gert að Ísland muni endurgreiða lánið auk sanngjarna vaxta" (hann er að tala um Icesave!). Íslandi ber lagaleg skylda til þess," segir hann kokhraustur, og við þessa menn eru stjórnvöld hér enn að rembast við að semja!
Hvaða lán" er hann að tala um?! Íslendingar skulda þessum ríkisstjórnum ekkert lán. Landsbankinn var tryggður bæði hjá Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta sem er EKKI ríkistryggður sjóður, eins og allir viðurkenna nú, bæði ESB og jafnvel Steingrímur fjármálaráðherra! og hjá tryggingasjóðum ytra, FSCS í Bretlandi og DBA í Hollandi.* Þess vegna er framferði íslenzkra ráðamanna með samþykki stjórnarandstöðuþingmanna eins og Tryggva Þórs Herbertssonar** beinlínis ólögmætt, meira að segja stjórnarskrárbrot, að mati Vigdísar Hauksdóttur, alþm. og lögfræðings, eins og fram kom hjá henni í þingræðu í fyrra.
Um þetta allt má vísa til nýlegra greina hér á vefsetri Þjóðarheiðurs samtaka gegn Icesave, sem aldrei hafa látið af sínum sjónarmiðum í þessu deilumáli og standa nú uppi með viðurkenndan málstað í augum svo margra, bæði frá því að þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram 6. marz og ekki sízt í ljósi þess, sem komið hefur fram um málið nú síðsumars. (Sjá t.d. ýmsar þeirra greina, sem yfirlit er um og tenglar inn á í dálkinum hér til vinstri handar.)
Samkvæmt frétt AFP er Icesave einn helsti ásteytingarsteinninn í viðræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu," segir Mbl.is-fréttinni um þessar nýju samningaviðræður. Miðað við þær forsendur, sem og yfirlýsta andstöðu Steingríms J. Sigfússonar við að Ísland gangi í Evrópusambandið, væri það vitanlega réttast fyrir hann að standa gegn öllum samningum um nokkra minnstu ábyrgð á Icesave-skuld Landsbankans, því að þar gæti hann slegið tvær flugur í einu höggi: hrundið hinni ólögvörðu kröfu af okkur og komið í veg fyrir, að samráðherrar hans geti með klókindum dregið landið inn í ESB, með öllum þeim fullveldismissi sem það hefur í för með sér, að ógleymdum öllum þeim grófu skráveifum sem bandalagið hefur unnið gegn íslenzkri þjóð og stjórnvöldum í Icesave-málinu, allt frá því að skrípadómstóll með fullri þátttöku ESB-stofnana var kallaður saman í málinu haustið 2008 og var þó umboðs- og lögsögulaus yfir íslenzka ríkinu.
Þær samningaviðræður, sem hafnar eru nú í Hollandi, eru við bæði Breta og Hollendinga. Þar er því ekki fylgt því ráði Björns Ólafs Hallgrímssonar hæstaréttarlögmanns í Morgunblaðsgrein hans 28. fyrra mánaðar, þar sem hann hvatti til þess, að ekki yrði samið við Breta og Hollendinga í samfloti, enda væri réttarstaða Hollendinga allt önnur "og mun lakari en Breta." Það er leitt að sjá, hve óráðþægur fjármálaráðherra lýðveldisins er í þessu máli, og má undarlegt heita, ef ekki beinlínis grunsamlegt, hans þrákelknislega viðhorf þvert gegn réttindum lands og þjóðar.
* Eins og Loftur Þorsteinsson, varaformaður Þjóðarheiðurs, hefur bezt upplýst um með rannsóknum sínum, sem nú hafa verið þurrkaðar út með öðrum greinum á hans eigin vefsetri.
** Tryggvi Þór Herbertsson, sem veit vel af réttarstöðu Íslands í málinu, lýsti sig þó mjög áhugasaman um að "ljúka málinu" með því að semja um greiðslu við Breta og Hollendinga, aðspurður í viðtali við stjórnendur Útvarps Sögu á 5. tímanum í gær. Um þetta mun hann því miður ekki vera einn á báti í sínum Sjálfstæðisflokki jafnvel formaðurinn þar um borð er talinn sammála Tryggva í þessu. Almennir flokksmenn ættu því enn að beita Valhallarforystuna fullum þrýstingi í málinu, það gæti hindrað, að illa fari.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Íslendingar greiði vexti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 03:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.9.2010 | 17:21
ICESAVE: FORGANGSMÁL ICESAVE-STJÓRNARINNAR.

Hvað í veröldinni vill ríkisstjórnin enn ræða um Icesave? Fullkomlega ólöglega kröfu bresku og hollensku ríkisstjórnanna studda af bakhjarli þeirra Evrópusambandinu og án nokkurs dóms. Krafa vegna skuldar sem íslensk alþýða hafði ekkert með að gera og kemur okkur ekki við. Felldum við landsmenn, hið svokallaða lýðveldi, ekki annars Icesave-nauðungina í mars sl.? Jú, Icesave var kolfellt með yfir 90% NEI-atkvæða þjóðarinnar eftir að forsetinn neitaði að skrifa undir kröfu Evrópustjórnanna og íslensku ríkisstjórnarinnar núverandi gegn okkur.
Við eigum enga peninga og ríkisstjórnin heimtar Icesave, 500 - 1000 milljarða ólöglega rukkun 2ja heimsvelda. Stjórnvöld skerða lífeyri eldri borgara og læknaþjónustu og draga úr landvörnum og hafa nú þegar lagt niður Varnarmálastofnun. Og vilja samt koma gríðarlegri nauðungarskuld yfir fólkið. Og enn skulda Björgólfsfeðgar og Jóhannesarfeðgar yfir 1000 milljarða samanlagt og hafa samt fengið ótrúlegar niðurfellingar himinhárra skulda við íslensku bankana. Og blöskranlegan og sjokkerandi stuðning pólitíkusa við gagnaveitu og stórfyrirtækjabrölt þeirra.
Mennsk stjórn tekur ekki lífeyri, læknaþjónustu og öryggi af þegnunum til að geta borgað yfirgangsveldum ólöglega rukkun og sóað peningum í umsókn inn í bandalag sömu velda. Og jafnóðum og völdum mönnum eru gefnir yfir 1000 milljarðar á kostnað þegnanna. Það ætti að fara fram rannsókn á hvað veldur hinni svívirðilegu mismunun gegn þegnum landsins af höndum bankastjórna og stjórnvalda. Það verður líka að fara fram rannsókn á öllum framgangi núverandi ríkisstjórnar, ICESAVE-STJÓRNARINNAR, í Icesave málinu öllu. Stjórnarandstaðan hefði getað farið fram á slíka rannsókn og þó löngu fyrr hefði verið. En stjórnarandstaðan er víst hálfdauð. Orðið ´steindauð´ hefur líka heyrst.
![]() |
Markmiðið mun betri samningur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt 3.9.2010 kl. 03:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.9.2010 | 13:44
Icesave-viðræðurnar í Hollandi eru ólögmætar
Við í Þjóðarheiðri getum tekið undir með Staksteinum Mbl. í dag (Ólögmætar viðræður hafnar á ný). Þar segir m.a.:
- Þrautseigja Steingríms J. Sigfússonar formanns VG og Jóhönnu Sigurðardóttur formanns Samfylkingarinnar hefur orðið til þess að nú eru fulltrúar þeirra sestir að samningaborði í Hollandi til að reyna að knýja fram samning við Hollendinga og Breta um greiðslu íslenskra skattgreiðenda á annarra manna skuld.
- Það þurfti mikinn og einbeittan brotavilja af hálfu Steingríms og Jóhönnu til að ná þessum fundi enda hafa rökin gegn þeim alltaf verið skýr. Aldrei þó jafn skýr og nú.
- Nú er svo komið að svo að segja allir sem til þekkja og allar stofnanir sem máli skipta, innlendar og erlendar, telja að engin ríkisábyrgð hafi verið á Icesave-reikningunum.
- Steingrímur sjálfur hefur viðurkennt að íslenska ríkinu beri engin lagaleg skylda til að greiða þessa reikninga.
- Þegar nánast óumdeilt er orðið að Ísland ber ekki ábyrgð á greiðslum vegna Icesave, hvernig má þá vera að ríkið haldi áfram viðræðum við óbilgjarna kröfuhafana um að greiða engu að síður?
- [...] Hversu dýr telur Steingrímur að ráðherrastóll hans megi verða?
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 13:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2010 | 13:28
Allir lesi þessa Morgunblaðsgrein!
Afar merk og athyglisverð grein eftir hæstaréttarlögmann, Björn Ólaf Hallgrímsson, birtist í Mbl. í dag: Icesave Samninganefnd á villigötum?
Í greininni hvetur hann til þess, að ekki verði samið við Breta og Hollendinga í samfloti, enda sé réttarstaða Hollendinga allt önnur "og mun lakari en Breta." Vill hann því semja fyrst við Hollendinga, en gerir þó öllum ljóst með skýrum orðum, að hann hafi "lengi verið þeirrar skoðunar að hvorug þessara þjóða eigi kröfu á Íslendinga að kröfurétti. Er ég ekki einn um þá skoðun," segir hann og er þar vitaskuld sammála okkur í Þjóðarheiðri samtökum gegn Icesave og fjölda færustu lögfræðinga.
Björn telur hins vegar möguleika á, að Bretar og Hollendingar eigi einhverja skaðabótakröfu á hendur okkur "vegna saknæmrar háttsemi eða athafnaleysis stjórnvalda og embættismanna, sem íslenska ríkið ber þá ábyrgð á eftir reglum um húsbóndaábyrgð," en vitað er, að ef svo væri, gæti þar aldrei orðið um neitt viðlíka tölur að ræða eins og í tilfelli þeirra ólögvörðu krafna, sem ríkisstjórnir þessara þjóða hafa gert á hendur okkur. Með þessu er ekki sagt, að samtökin Þjóðarheiður hafi ályktað, að skaðabótakröfur af þessu tagi eigi neinn rétt á sér, enda er margt sem mælir gegn þeim, og Björn Ólafur tekur sjálfur fram ýmislegt, sem draga myndi úr réttarstöðu þessara ríkisstjórna í slíku máli gegn okkur. Hann segir:
- En að ýmsu fleiru en saknæmri háttsemi er að hyggja, þegar réttarstaðan að skaðabótarétti er metin, s.s. nauðsynlegum skilyrðum um vávæni háttseminnar eða athafnaleysisins og orsakarsamhengi við tjónið.
Og ennfremur:
- Að því gefnu að öll skilyrði bótaábyrgðar væru uppfyllt, kemur loks til skoðunar eigin sök tjónþolanna, Hollendinga og Breta. Þeir kunna sjálfir að bera hluta sakarábyrgðar á því hvernig fór. (Orð Björns sjálfs.)
Þá bendir hann sérstaklega á mun lakari réttarstöðu Hollendinga í þessu efni, enda hafi Icesave-reikningarnir komið seinna til þess lands og verið mun umfangsminni en í Bretlandi, og þar að auki hafi verið tilkomnar nýjar og strangari reglur, sem gerðu "skyldur móttökulandanna (í þessu tilviki Hollands) til fyrirbyggjandi rannsókna og eftirlits" miklu meiri en í tilfelli Bretlands.
Miklu ýtarlegar rökstyður hann þetta í grein sinni, og menn ættu að lesa grein hans alla í heild, hún snertir svo mikil lífshagsmunamál okkar Íslendinga.
Jón Valur Jensson.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 13:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)