Færsluflokkur: Evrópumál

Andlát: Loftur Altice Þorsteinsson, framúrskarandi málsvari sjálfstæðis Íslendinga

Fallinn er frá Loftur Altice Þorsteinsson verkfræðingur, sem um árabil var öflugasti fulltrúi Þjóðarheiðurs, samtaka gegn Icesave, og þjóðinni afar verðmætur í baráttunni gegn Icesave-samningum þeirrar ríkisstjórnar sem hér sat 2009-13.

Loftur verður jarðsunginn á morgun, þriðjudaginn 6. marz, kl. 15.00, frá Áskirkju við Vesturbrún.

Loftur var einn almikilvægasti maðurinn í þeirri öflugu grasrótar­hreyfingu sem barðist gegn Icesave-samningunum við brezku og hollenzku ríkisstjórnirnar. Með sínum eigin rannsóknum og viðamiklum bréfa­skiptum við erlend yfirvöld, m.a. fjármála­eftirlit Bretlands og Hollands, Englands­banka, Seðlabanka Hollands og fjármála­sérfræðinga, bæði við efnahags- og háskóla­stofnanir og við meiri háttar blöð eins og Financial Times og þýzk og hollenzk blöð, tókst Lofti að afla sér mjög mikilvægra upplýsinga, sem hann vann skipulega úr og birti opinberlega, m.a. á eigin bloggsíðu, altice.blog.is, og vefjunum thjodarheidur.blog.is og kjosum.is og samstada-thjodar.blog.is, sem og í mörgum greinum í Morgun­blað­inu, og þessar upplýsingar höfðu víðtæk áhrif í hreyfingunni allri og meðal þjóðarinnar og fengu m.a. viður­kenningu þáverandi viðskipta­ráðherra, Árna Páls Árnasonar, á fundi hans og Kristrúnar Heimisdóttur, aðstoðarmanns hans, og þriðju ráðuneytis­persón­unnar með fjórum fulltrúum Þjóðarheiðurs og Samstöðu þjóðar, eins og undirritaður var sjálfur vitni að sem einn þeirra. 

Þá er ótalið hér ósíngjarnt (og ævinlega ólaunað) framlag Lofts til félagsmálahreyfinga sem börðust í Icesave-málinu: Þjóðarheiðurs, þar sem hann var frá upphafi varaformaður og einn allra atorku­mesti skriffinnur vefsins thjodarheidur.blog.is sem fjallaði nánast daglega um málið misserum saman, einnig með samráðsfundum stjórnar sömu samtaka við fulltrúa InDefence-samtakanna (sem áttu heiðurinn af fyrri undirskrifta­söfnuninni gegn Icesave-samningunum) og síðar með þátttöku hans meðal leiðandi manna í Samstöðu þjóðar gegn Icesave, regnhlífarsamtökum þar sem meðlimir úr nefndum samtökum o.fl. tóku þátt og lögðu m.a. drögin að hinni vel heppnuðu undir­skrifta­söfnun á vefnum Kjosum.is, með áskorun á forsetann, sem á endanum hafnaði seinni Icesave-löggjöfinni (Buchheit-samningnum) og ruddi því þannig braut, að fengnu samsinni verulegs meirihluta í þjóðar­atkvæða­greiðslu, að málið fór fyrir EFTA-dómstólinn, þar sem Íslendingar voru að endingu 100% sýknaðir af kröfum Breta og Hollendinga og þurftu ekki einu sinni að borga eigin málskostnað! 

Ef undirritaður ætti að nefna einhvern einn Íslending, sem hefði átt að heiðra í þessu efni, þá var sá maður Loftur Altice Þorsteins­son. Þá var hann ennfremur ötull baráttu­maður gegn Evrópu­sambands-aðild og skrifaði um það vekjandi greinar á vef Samstöðu þjóðar og í Morgunblaðið. Má vænta hér síðar yfirlits um greinaskrif hans þar.

Loftur var fæddur 25. júní 1944 í Reykjavík og vann lengst af verkfræði­störf og gegndi trúnaðarstörfum fyrir félög þeirra, eins og sjá má í Verkfræðingatali.

Hann féll frá eftir langvinna baráttu við hinn illvíga MS-sjúkdóm. Þrátt fyrir lamandi áhrif sjúkdómsins var hann lengst af mjög hress vitsmunalega, eins og sjá mátti í blaðagreinum hans og skrifum á vef Samstöðu þjóðar ekki síður en þessum vef svo lengi.

Heiður þeim, sem heiður ber. Lengi lifi minningin um þenna mikla hugsjóna- og baráttumann í brjóstum okkar sem þekktum hann.

Jón Valur Jensson.


Af skrök- og fals-áráttu Svavars Gestssonar í Icesave-máli

Svavar-ég-nenni-þessu-ekki-lengur kom manna mest við sögu 1. Icesave-samningsins.

Hér eru að gefnu tilefni endurbirtar tvær vefgreinar af Vís­is­bloggi, sem 365 miðlar lögðu niður:

Svavar Gestsson skrökvar massíft um Icesave-málið í aprílgabbi

2. apríl 2010

Hlálegust í grein Svavars í Fréttablaðinu 1. apríl var þessi öfugsnúna fullyrðing hans:

  • “Það hefur einmitt verið einkenni umræðunnar um Icesave að það hefur bara ein skoðun verið leyfð; það var fyrirskipuð sú hjarðskoðun í upphafi málsins að vera á móti því að gera upp Iceave-málið.”

Þetta segir hann í blaði, sem er dreift “ókeypis” til allra landsmanna og hefur markvisst haldið uppi, bæði í leiðurum og fréttum og greinavali, áróðri fyrir Icesave-stjórnvöldin, þar sem “uppgjör” málsins (að “klára það” og “leysa”!) hefur verið boðað sem fagnaðarerindi og andstæðar skoðanir hafa fengið miklu minna rúm nema einna helzt frá þingmönnum (eins og Vigdísi Hauksdóttur), enda erfiðara að ritskoða slíka.

Á Rúvinu hefur verið sama sagan. Umsjónarmaður helzta umræðuþáttar í þjóðmálaumræðu, Egill Helgason, hefur komizt upp með að kalla þá menn “öfgamenn”, sem telja, að okkur beri ekki að borga Bretum og Hollendingum neitt. Samt eru hartnær 60% aðspurðra (59,4%) þeirrar skoðunar, að okkur beri alls ekki að borga Bretum og Hollendingum neitt vegna Icesave, skv. könnun sem birt var 8. marz, frá MMR, sem er virt skoðanakönnunarfyrirtæki (sjá hér: Hartnær 60% aðspurðra segja: Við viðurkennum alls enga ábyrgð Íslendinga á Icesave-greiðslum til Bretlands og Hollands!). Er þá yfirgnæfandi fjöldi Íslendinga – fleiri en kusu ríkisstjórnina – öfgafólk?!

Svavar talar um “hjarðskoðun” og “harðmennsku”! Sjálfir reyndu Vinstri grænir og Samfylking að smala mönnum í eina hjörð í þessu máli, með öllum sínum pólitíska mætti, tveimur dagblöðum, 365-ljósvakamiðlum, Rúvinu, þ.m.t. Sjónvarpinu, öðrum sérskipuðum “álitsgjöfum” og ekki þeim einum, heldur einnig “fulltrúum atvinnulífsins”, Gylfa Arnbjörnssyni og hans tæknikrötum (og evrókrötum) í ASÍ og ýmsum verkalýðsfélögum – eins og krafan um að fá að borga Icesave-lygaskuldina væri krafa almennings!!! – og Vilhjálmi Egilssyni og öllum hans evró-skoðanabræðrum í SI og SA!

Þrátt fyrir þessa þéttu fylkingu Icesave-sinna lét þjóðin ekki blekkja sig. Af þeim, sem afstöðu tóku í þjóðaratkvæðagreiðslunni 6. marz, greiddu 98,1% atkvæði gegn þeim svikalögum, sem bandamenn Svavars börðust svo hart fyrir á Alþingi, unz þeir loks höfðu “sigur” 30. desember. Gegn frestun forsetans á því að skrifa undir lögin býsnuðust þessir óþjóðhollu menn og rengdu vald hans til að synja lögunum staðfestingar, ásamt alls kyns óþverratali um vald þjóðarinnar til að útkljá málið, – og enn í þessu afkáralega aprílgabbi Svavars Gestssonar má finna afkáralegar fullyrðingar eins og þær, að “þessi hjarð­mennska náði þó hámarki í þjóðaratkvæðagreiðslunni þegar þjóðinni var skipað á kjörstað um ekki neitt”!!!

Snerist það um “ekki neitt” að fella lögin úr gildi?! Væri Svavar að skrifa, ef hann hefði fengið sitt fram? Var það ekki lögskipuð leið, eftir synjun forsetans, að valdið væri hjá þjóðinni til að afnema lögin?

Sjáið þið sósíalistann þarna, “mann fólksins”, sem gerir lítið úr einhverjum helgasta lýðræðisrétti þjóðar sinnar!

En um hjarðmennsku-fullyrðingar Svavars skrifaði Guðmundur Sveinbjörn Pétursson Vísisbloggari, sem kallar sig sannkristinn sósíalista, athugasemd á eftir fyrri pistli mínum um þessi 1. aprílskrif, – hér er partur af henni:

  1. “Hjarðeðlis” útlegging Svavars er svo auðvitað kapítuli út af fyrir sig. Seinheppnari gat hann ekki verið í líkingum sínum - maður sem allt sitt lifibrauð hefur fengið í gegnum flokk og flokkshollustu; hann hefur étið af garðanum með hjörðinni og á vegum hjarðarinnar. Alltaf og er enn að.

[Önnur grein:]

Svavar Gestsson stígur blygðunarlaust fram á síðum Fréttablaðsins í dag

1. apríl 2010

Þar ber hann fram fyrir lesendur réttlætingu á ábyrgð sinni á illræmdustu samningum sem íslenzk stjórnvöld hafa átt hlut að í sögu lýðveldisins. Nú er hann búinn að finna sér “góða” ástæðu: Fréttablaðs-skrif þriggja manna, þótt enginn þeirra sé reyndar sérfræðingur á sviði atvinnumála, en þeir kenna allir “óleystu Icesave” um atvinnuleysi í landinu! Hjálpar til að fá atvinnu að leggja hundraða milljarða króna ólögvarða lygaskuld á þjóðfélagið?!

Á Magnúsi Orra Schram er ekki hægt að taka neitt mark um þessi mál eftir heiftarleg ræðuhöld hans á Alþingi, þegar Icesave var þar til umræðu. Ólafur Stephensen átti leiðara í Fréttablaðinu, ‘Biðin er dýr’, sem jafnast á við fátt í sinni algeru meðvirkni við kröfur brezkra og hollenzkra stjórnvalda og heldur fram firrum um áhrif þjóðar­atkvæða­greiðslunnar. Hvernig væri að sá maður tæki nú til athugunar þá skoðanakönnun MMR, sem gerð var um sama leyti og sýndi, að einungis 3,3% aðspurðra töldu [með Svavari Gestssyni og Magnúsi Orra Schram!], að Íslendingar ættu að ábyrgjast greiðslur til innstæðu­eig­end­anna að fullu! En 59,4%, rétt tæp 60%, telja að Íslendingum beri alls ekki að ábyrgjast greiðslurnar! Og 37,3% telja [með Ólafi Stephensen!], að Íslendingum beri að ábyrgjast greiðslurnar að hluta til.

Ólafur Stephensen vogar sér að tala þarna (Frbl. í fyrradag) um “lántökurnar vegna Icesave”. Ólafur getur ekki sýnt fram á, að Íslendingar hafi fengið eitt penny né evru að láni vegna Icesave, ekki frekar en hann getur sýnt fram á, að við eigum að borga einkaskuldir einkabanka!

Ég vil hvetja menn til að kynna sér nýja bloggsíðu Þjóðarheiðurs – samtaka gegn Icesave.

Endurbirt hér af Vísisbloggi undirritaðs. Án nokkurs fyrirvara lögðu 365 miðlar niður gervallt Vísisbloggið, þar sem hundruð manna höfðu skráð ritsmíðar sínar og viðbrögð við fréttaumræðu; jafn-frekleg vanvirðing á höfundarrétti manna er sem betur fer sjaldgæf. En undirritaður hafði af forsjálni vistað þessar greinar í sér-geymslu. Einungis þess vegna var unnt að endurbirta þetta hér.

Jón Valur Jensson.


Dagur B. Eggertsson: Mér finnst algert ábyrgðarleysi af stjórnarandstöðunni að þvælast fyrir Icesave-málinu. Það væri feigðarflan að ætla sér aðra tafsama samningalotu ...!

"Allar ríkisstjórnir frá hruni hafa metið það svo eina leiðin í Icesave-málinu séu samningar. Allt annað í endurreisninni (aðgangur að erlendu lánsfé og þar með framkvæmdir og fjárfesting), vaxtakjör (og þar með endur­fjár­mögnun allra fyrirtækja) ofl. ofl. hangir á þessu. Mér finnst algert ábyrgðarleysi af stjórnar­andstöðunni að þvælast fyrir málinu. Það væri feigðarflan að ætla sér aðra tafsama samningalotu. Það er margt erfitt og skítt – og það er ekki fyrir fólk sem hræðist óvinsælar ákvarðanir að vinna að því að loka fjárlagahallanum. Það er hins vegar forsenda vaxtalækkunar og ég held að það sé samstaða um að það sé forgangsverkefni. Það er enginn hrifinn af skattahækkunum, frekar en efnhagshruninu sem er ástæða þeirra – eða efnahagsstefnunni sem kom okkur í þessa þröngu stöðu – eða hvað. Frestur á erfiðum ákvörðunum eykur fyrst og fremst vaxtakostnaðinn og mín skoðun er sú að okkar kynslóð verður að hreinsa til – en ekki ýta þessum vanda yfir á börnin okkar. Það er engin tilviljun að allar ríkisstjórnir frá hruni hafa metið það svo eina leiðin í Icesave-málinu séu samningar. Margt í endurreisninni hangir á því að þeir takist, svo sem aðgangur að erlendu lánsfé (og þar með framkvæmdir og fjárfesting), skapleg vaxtakjör (og þar með endurfjármögnun allra fyrirtækja) og þannig mætti áfram telja. Það væri að mínu mati feigðarflan að ætla okkur í aðra tafsama samningalotu fyrir óljósan eða engan ávinning. Valkosturinn við fyrirliggjandi samninga er fyrst og fremst ávísun á tafir og þar með aukinn vaxtakostnað þjóðarbúsins í dag og til framtíðar. Í Icesave, einsog í rústum fjármála ríkisins þarf sterk bein til að hreinsa til – en það er ekki annað í boði ef ekki á að ýta þeim vanda sem sem við stöndum frammi fyrir yfir á börnin okkar." (!!!)

Þetta ritaði Dagur B. Eggertsson, þáverandi varaformaður Samfylking­ar­innar, á vef ungra jafnaðarmanna á Politik.is 18. desember 2009 og kallaði grein sína Úr vörn í sókn á Íslandi (!).

Merkilegt, að tvær gulrætur til að narra þjóðina til að kjósa yfir sig Icesave-samningana áttu að vera að stuðla að lægri vöxtum og "að loka fjárlaga­hallanum"! Hefur þó í 1. lagi hvergi orðið vart við að Dagur borgarstjóri hafi lagzt gegn vaxtaokurstefnu Seðlabankans, bankanna og ríkisstjórna Fimm- og Sjöflokksins, þótt þetta sé ein helzta ástæðan fyrir húsnæðisvandræðum ungs fólks í borginni. 

Í 2. lagi var Dagur þarna að samþykkja Icesave-samninga Steingríms J. og Jóhönnu, sem fólu m.a. í sér ólöglega vexti skv. EES-jafnræðisreglum vegna brezkra ríkislána til bankakerfisins þar með langtum lægri vöxtum. (Sbr. opna Mbl.grein undirritaðs hér: Ólögmætir vextir á Icesave-kröfum – og allar eignir ríkisins undir?)

Já, það var sama hvert litið var í Samfylkingunni, þar fannst ekki einn réttlátur í Icesave-málinu, enda lá henni á að að troða okkur í Evrópusambandið. En allir þingmenn hennar nema einn fram að kosningunum 29. okt. 2016 féllu þá með háum hvelli út af þingi.

Enn er þó gamli (naumast síungi) varaformaðurinn við stjórnvölinn í Reykjavík. Verðskuldar hann, með t.d. ofangreind skrif hans í huga, traustsyfirlýsingu kjósenda í borgarstjórnarkosningum á næsta ári? Þurfum við mann í þjónustu okkar, sem sýndi jafnvel Icesave-II-samningnum slíka trúgirni og opinbera orðaþjónustu?

Jón Valur Jensson.


Er "Bjartri framtíð" uppsigað við hagsmuni og rétt Íslands? Ef ekki, hví vill BF gangast undir ok kvalara okkar?

Hvernig víkur því við, að "Björt framtíð" o.fl. flokkar gera Evrópu­sam­band­ið, sem hefur níðzt á lagalegum rétti Lýð­veld­isins Íslands, að sinni útópísku framtíðarsýn?!

Tvö mál skulu nefnd:

Icesave-málið háði Evrópu­sambandið gegn okkur allt frá byrjun, ætlaðist strax til þess að við greiddum hinar ólög­vörðu kröfur Breta og Hollend­inga upp í topp. Dómsorð "gerðar­dóms" á vegum þriggja ESB-stofnana (fram­kvæmda­stjórnar­innar, Evrópska seðla­bankans og sjálfs Hæsta­réttar ESB, sem hefur aðsetur í Lúxemborg) um Icesave-málið féll á þann veg síðla hausts 2008, að Íslend­ingum væri skylt að borga þessar ólög­mætu kröfur á okkar hendur vegna einka­fyrirtækis, sem ríkis­sjóður bar þó enga ábyrgð á í raun, eins og sannaðist í sýknu­dómi EFTA-dóm­stólsins 28. jan. 2013. Dómsorð ESB-gerðardómsins var í raun dómsmorð! Og fyrir utan alla aðra lærdóma af þessu, ætti mönnum nú að skiljast að "treysta ekki mönnunum", jafnvel ekki fínustu embættis­mönnum voldugasta veldis allrar Evrópu.

En fyrir utan þennan "gerðardóm" (sem Árni M. Mathiesen viðskipta­ráðherra neitaði bless­unar­lega að tilnefna íslenzkan dómsmann í; sé hann ævinlega blessaður fyrir það) fylgdi þetta stórveldabandalag, sem "Björt framtíð" dáist að, hags­munum Breta og Hollendinga svo mjög eftir í málinu, að Evrópu­sambandið átti beinlínis meðaðild að lögsókn þeirra ríkja gegn Lýðveldinu Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum ... en tapaði blessunar­lega að lokum, eftir að hafa farið hamförum gegn lagalegum rétti okkar.

Makríl-málið keyrði ESB gegn Íslendingum og Færey­ingum frá upphafi, beitandi hótunum og jafnvel viðskipta­þvingunum í verki gegn smærri þjóðinni -- og það vegna veiða þessara smáþjóða í sinni eigin fiskveiðilögsögu! Á fundi í Lundúnum með Jóni Bjarnasyni, þáverandi sjávar­útvegs­ráðherra, hafnaði ESB að mestu veiðirétti okkar og vildi aðeins láta okkur eftir 2-3% kvóta í makrílveiðum á Norður-Atlantshafi! Síðar, eftir staðfasta andstöðu og góða málefnavinnu ráðherrans, var hámarkskrafa ESB komin upp í 5-6%. En ráðherrann þjóðholli hafði sitt fram, þrátt fyrir andstöðu Steingríms og Jóhönnu við áform hans, og gaf út reglugerð um makrílkvóta sem nam um 16-17% allra makrílveiða í N-Atlantshafi.

Jón Bjarnason hélt upp á það á vef sínum um daginn, að á grunni ákvarðana hans höfum við Íslendingar nú veitt milljón tonn af makríl á sjö árum! Ekkert, fyrir utan ferðamannastrauminn, sem að miklu leyti byggðist á sjálfstæði okkar og gengislækkun krónunnar, hefur hjálpað eins efnahagslegri endurreisn þjóðarinnar á því tímabili.

Hefði Ísland verið hluti Evrópusambandsins fyrir sjö árum, hefðum við aldrei fengið að veiða nema lítinn hluta af þessum fiski, ákvörðunin hefði verið framkvæmdastjórnar ESB, ekki okkar, og þar með hefðum við farið á mis við gríðarlegar gjaldeyristekjur. Þetta mega slefandi aðdáendur ESB gjarnan hafa hugfast og liðka um kvarnirnar sem fremst þeir mega til að rifja þessi mál enn betur upp!

Af hlálegum barnaskap "Bjartrar framtíðar" í ESB-umsóknarmálinu.

En lítum nú aðeins á stefnu þessa fölbleika flokks. Þar segir m.a.:

"Íslendingar verði virkir og mikilvægir þátttakendur í samvinnu sjálfstæðra ríkja í Evrópu innan ESB, kjósi þjóðin aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu."

Þarna er verið að afsaka óbeint hina fífldjörfu stefnu BF inn í evrópska stór­veldið með því að setja þetta sem einhvern fyrirvara: ef þjóðin kýs "aðild í þjóðar­atkvæða­greiðslu". En hvernig halda menn að smáþjóðin Færeyingar geti staðið gegn slíkri tillögu í atkvæðagreiðslu, þar sem einfaldur meirihluti ætti að ráða úrslitum, en stórveldið með ógrynni fjár til að kaupa bæði auglýsinga- og annað áróðurspláss, sem og mútuþæga stjórnmálamenn og agitatora ("álitsgjafa" o.s.frv.), í krafti sinna fjárhagslegu yfirburða? En við erum ekkert annað en smáþjóð sömuleiðis, lítið peð að glíma við 1580 sinnum fólksfleira stórveldi!

Og hvernig voga vinstri flokkarnir sér að tala um að "þjóðin kysi aðild", ef það rétt merðist með t.d. 51% atkvæða að koma okkur inn í stórveldið? Er naumur meirihluti nokkurn tímann "þjóðin"? Og er ekki augljóst, þegar yfirburðir stórveldisins eru hafðir í huga (yfirburðir sem voru nýttir þegar t.d. Tékkar og Svíar kusu naumlega að fara þarna inn), að smáþjóð er það hrein nauðsyn að lögleiða sérstök ákvæði um aukinn meirihluta til slíks nánast óafturkallanlegs fullveldisafsals, rétt eins og annar grunnssamningur, Sambandslagasáttmálinn, hafði í sér ákvæði um 75% meirihluta til að hnekkja mætti honum (og 75% lágmarkskjörsókn að auki).

Raunveruleg hollusta þessa flokks, BF, við íslenzka þjóð verður mæld af því, hvernig flokkurinn beitir sér gagnvart kröfunni um aukinn meirihluta til svo viðurhlutamikilla, afdrifaríkra ákvarðana. Þá fyrst er hægt að tala um að "þjóðin" hafi valið eitthvað, þegar þar er ekki um að ræða, að naumur meirihluti (með marga værukæra í liðinu) hafi borið hærri hlut yfir næstum jafnmörgum (annarri "þjóð" gegn aðeins stærri "þjóð"!), þar sem þó er líka miklu harðari andstaða meðal þeirra síðarnefndu (eins og hefur sannazt í þessu máli í skoðanakönnunum: langtum fleiri eru "mjög andvígir aðild" heldur en hlutfall hinna er, sem eru "mjög hlynntir aðild" á meðal fylgjenda ESB; og þessi staðreynd sýnir, að harði hópurinn gegn aðild hefur greinilega hugsað málið langtum dýpra eða lengur en þeir, sem eru "frekar hlynntir aðild").

Björt Ólafsdóttir var fulltrúi "Bjartrar framtíðar" í umræðuþætti um stefnu flokksins á Útvarpi Sögu á 5. tímanum í dag og var með sama blekkjandi talið um að "þjóðin" ákvæði þetta, en í raun vill hún koma landi og þjóð inn í gin stórveldisins. Þá væri nú tilvalið að spyrja hana (eins og undirritaður ætlaði sér, en enginn símatími til þess í þættinum) hvernig hún réttlætti það að sækjast eftir að láta þetta miður vinsamlega evrópska tröll fá forræði okkar mála, með ofangreinda lærdóma af óvinaraðgerðum þess gegn íslenzkri þjóð í huga, í bæði Icesave- og makrílmálunum!

Óttar Proppé í BF hefur einnig rætt þessi mál á fávíslegum nótum, en úttekt á hans ósvinnutali útheimtir annan pistil hér.

Jón Valur Jensson.


Lýðræðishalli í Sjálfstæðisflokknum! segir Styrmir. Sá halli birtist átakanlega í Icesave-málinu

Framlag Styrmis í Vikulok Rásar 1 í dag vekur mikla athygli. Lýð­ræð­is­halla í hans eigin flokki, sem og í líf­eyr­is­sjóð­un­um, líkir hann við gjána í banda­rísku samfé­lagi milli ör­fárra ríkra og ráðandi og hins vegar alls þorra al­mennings:

Vitnaði hann í Robert Reich, vinnu­málaráðherra í tíð Bills Cl­int­on, og sagði skipt­ing­una í þjóðfé­lag­inu þannig að öðrum meg­in væri gríðarleg­ur fjöldi en hinum meg­in fá­menn­ur hóp­ur. Málið sner­ist ekki um póli­tík held­ur þessa fá­mennu hópa sem væru komn­ir í þá aðstöðu að stjórna heilu sam­fé­lög­un­um; emb­ætt­is­menn og aðra áhrifa­menn t.d.

Sagði Styrm­ir átök­in snú­ast um að hinir mörgu þyldu ekki yf­ir­ráð hinna fáu. (Leturbr. hér.)

Hann sagðist á því að það væri lýðræðis­halli í Sjálf­stæðis­flokkn­um og sagði það úr­elt kerfi að kallaður væri sam­an lands­fund­ur sem kysi for­ystu flokks­ins. Hann sagði að all­ir flokks­bundn­ir sjálf­stæðis­menn, miklu meiri fjöldi en þeir sem sæktu lands­fund, ættu að kjósa for­yst­una og um stefnu­mörk­un flokks­ins.

Þetta ætti einnig við um líf­eyr­is­sjóðina; þar byggju menn enn við það gamla kerfi að stjórn væri val­in af vinnu­veit­enda- og launþega­sam­tök­um en ekki af fé­lags­mönn­um sjálf­um. (Mbl.is sagði hér, að nokkru, frá Vikulokaþættinum fyrir hádegið í dag.)

Í tveimur stórum málum hefur fámenn forysta Sjálf­stæðis­flokksins tekið öll ráð úr höndum æðstu stofnunar flokksins, landsfundar, sem yfirleitt er haldinn á tveggja ára fresti, einkum stuttu fyrir kosningar. Þetta varð opinber­lega ljóst í bæði Icesave-málinu og ESB-umsóknar­málinu. Í því síðar­nefnda sveikst Bjarni Bene­dikts­son ásamt fleiri ráðherrum flokksins aftan að þeirri stefnu sem landsfundur hafði markað undir vorið 2013, að hætta bæri við umsókn­ina um inngöngu í Evrópu­sambandið. Sú stefna var þar skýr og ljós og ekki komin undir neinu skilyrði um undan­gengna þjóðar­atkvæða­greiðslu þar um (ekki frekar en Jóhanna, Össur og Steingrímur og þeirra taglhnýtingar höfðu tekið í mál að hafa þjóðaratkvæði um umsóknina). Einungis kvað landsfundur á um, að ef einhvern tímann aftur yrði sótt þarna um inngöngu, skyldi þjóðin spurð álits á því í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í Icesave-málinu hélt Bjarni Benediktsson linlega á spöðunum með því að sitja hjá í atkvæðagreiðslu um Icesave-II (fyrirvarasamninginn), en landsfundur fjallaði síðan um framtíð málsins með þeim hætti, að við Íslendingar hefðum enga gjaldskyldu í því kröfumáli brezkra og hollenzkra stjóirnvalda og að því bæri að hafna öllum Icesave-samningum. 

Með þessa stefnumörkun grasrótar flokksins (um 1700 manns) ákvað Bjarni Ben. og meirihluti þingmanna flokksins að fara samt sínu fram, með beinum stuðningi við Icesave-III (Buchheit-samninginn), meðan blekið var varla þornað á yfirlýsingu landsfundar! Enn á ný sannaðist ofríki hinna fáu gagnvart stefnu hinna mörgu.

En þá var það grasrót almennings og ekki sízt ötul mótspyrnu­samtök, Samstaða þjóðar gegn Icesave, sem börðust ötul­lega í málinu, einkum með undir­skrifta­söfnun á vefnum Kjósum.is, og náðu þvílíkum árangri, að forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, tók af skarið með því að synja lögunum um Buchheit-samn­inginn undirskriftar sinnar.

Það sama vildi reyndar Guðni Th. Jóhannesson ekki á þeim tíma, mælti þvert á móti með samningum, eins og margir aðrir áhrifa­gjarnir á þeim vetrar­dögum, þegar sviptingar fóru um samfélagið og reyk­mökkur áróðurs lagðist hér yfir stofnanir og hagsmuna­aðila, þar á meðal yfir Fréttastofu Rúv og 365-fjölmiðla og ráðamenn í Valhöll.

Þvert á móti þessu var það einarðleg afstaða Ólafs forseta og meirihluta þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu 2011 sem tryggði rétt okkar og hagsmuni, eins og berlega kom í ljós eftir lögsókn Breta og Hollendinga fyrir EFTA-réttinum, sem úrskurðaði í janúar 2013 um fullan rétt Íslands til að þvertaka fyrir alla greiðsluskyldu vegna Icesave-reikninga einkabankans Landsbankans. 

Þetta var augljós staðfesting á réttsýni landsfundar Sjálfstæðisflokksins í málinu, þetta var því vindication of his right judgment, as well as of our national rights, eins og orða mætti þetta á ensku.

SAMT féllu Bjarni & Co. aftur í þá freistni nokkrum misserum síðar að óhlýðnast landsfundi flokksins í afgerandi mikilvægu máli, ESB-málinu, eins og lýst var hér ofar. Lýðræðishallinn, sem Styrmir Gunnarsson talaði um í morgun, var þannig ítrekað staðfestur innan þessa flokks, og geldur hann enn fyrir það í skoðanakönnunum.

Styrmir Gunnarsson er hins vegar einn þeirra sjálfstæðismanna, sem í báðum þessum málum báru hreinan skjöld, stóðu vörð um rétt okkar og þjóðar­hagsmuni og fylgdu þar með eftir stefnu grasrótar flokksins á tveimur landsfundum hans.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Framboð Þorsteins og Pawels erfið fyrir Sjálfstæðisflokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðni Th.: Icesave- og ESB-sinni

ESB-viðhengjur réttlæta þjóðsvik sín í Icesave-mál­inu, nú trúlega til að styrkja fram­bjóð­and­ann Guðna Th., þar áttu þeir sann­ar­lega banda­mann í mál­inu árin 2009-11; og enn er hann opinn fyrir Evrópu­sam­bandinu, jafnvel að samþykkja umsókn naums meirihluta alþingis­manna um inntöku landsins í það stórveldi án þess að bera það undir þjóðina.

Jón Valur Jensson.


Guðni Th. nýtur eðlilega stuðnings gömlu Icesave-samninga-flokkanna!

Ný skoðanakönnun Félagsvísinda­stofnunar HÍ sýnir að 76% kjósenda Sam­fylk­ingar styðja Guðna sem for­seta. 75% stuðn­ings­manna flokks Stein­gríms J. gera það sama! Vinstri menn vita hvað til síns "friðar" heyrir: að sam­þykkja rang­lætis-ásókn Breta og Hollend­inga, svo að við fengjum nú örugg­lega ekki að heyra sýknu­dóminn frá EFTA-dóm­stólnum!

Þeir sáu þetta einmitt rétt: að Guði var þeirra maður, enda samþykkti hann bæði Svavars­samn­inginn í júní 2009 (jafnvel ólesinn, eins og Jóhanna Sigurð­ar­dóttir, þegar hún hvatti samt sína þingmenn til að drífa í að samþykkja frum­varpið!) og eins Buchheit-samninginn snemma árs 2011.

Það getur verið að okkur líki Icesave-samning­ur­inn illa, en hinn kost­urinn er miklu verri og kannski er þetta það bezta [sic!] sem við eða einhver annar gæti fengið. Haldið eða sleppið, það eru skilaboðin sem við fengum. Ég held að hver sá sem gagnrýnir samninganefndina fyrir linkind sé að horfa, viljandi eða óviljandi, framhjá því hversu ótrúlega erfið staða íslenskra stjórnvalda er.“

Guðni Th. Jóhannesson í blaðinu The Grapevine, 19. júní 2009,* en því er dreift ókeypis víða í Reykjavík a.m.k.

Hann stendur þarna algerlega með Svavari Gestssyni og Jóhönnustjórninni í þessu máli.

Var þetta nú ekki býsna gróft af Guðna að skrifa með þessum hætti? Átti þetta að vera einhver hjálp við þjóðina í málinu? En bíðið við: Hann gekk reyndar miklu lengra og sagði að auki, í sama Grapevine 19.6. 2009:

"augljóslega, ef Ísland myndi segja, að við ætluðum ekki að sam­þykkja þetta [Icesave-samninginn], þá myndi það gera okkur nánast eins einangruð og Norður-Kóreu eða Búrma (obviously, if Iceland were going to say, we´re not going to accept this, that would pretty much make us as isolated as countries as North Korea or Myanmar)."

Þvílík endemis-speki! Hafið þið orðið vör við þessa einangrun?!

Svavarssamningurinn hefði kostað okkur á þriðja hundrað milljarða króna (a.m.k. 208 milljarða, sumir tala um 275 milljarða) og greiðslur einmitt hafizt þetta vor, við hefðum getað þakkað samherjum Guðna Th. það, ef þeir hefðu fengið að ráða.

Ekki gafst Jóhönnustjórnin upp við að þókknast Evrópusambandinu í þessu máli. Icesave-II-lögin (samþykkt á Alþingi 30. des. 2009) voru hennar næsta til­raun, en eftir undirskriftasöfnun InDefence-hópsins og synjun forseta Íslands á lögunum var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla 6. marz 2010, þar sem þjóðin tók sannarlega afstöðu í málinu: hafnaði Icesave-II með 98,1% atkvæða og sendi öflug skilaboð út um allan heim, svo að eftir var tekið.

Þá reyndi Jóhönnustjórn Buchheit-samninginn (Icesave-III) sem var loks samþykktur sem lög af 70% alþingismanna 16. febrúar 2011, en var synjað af forseta Íslands 20. sama mánaðar eftir víðtæka undiskriftasöfnun Samstöðu þjóðar gegn Icesave (á vefnum Kjósum.is). Eftir mikla áróðursherferð Icesave-sinna, sem staðið hafði yfir í Rúv og 365 fjölmiðlum og frá ýmsum álitsgjöfum, atvinnurekendum og ESB-sinna frá því um áramótin, var seinni þjóðaratkvæðagreiðslan haldin 9. apríl 2011, og þar höfnuðu 59,9% kjósenda Icesave-III-ólögunum.

Guðni Th. Jóhannesson lýsti því yfir, að hann kysi Buchheit-samninginn, en sá samningur hefði haft þetta tvennt í för með sér:

  1. Til þessa dags: hátt í 80 milljarða króna óafturkræfar greiðslur úr ríkis­sjóði til Breta og Hollendinga, í pundum og evrum, m.a. í boði Guðna Th.;
  2. að við hefðum aldrei (ef við hefðum lúffað) fengið að líta sýknudóminn frá EFTA-dómstólnum, sem auglýsti sakleysi Íslendinga í málinu. Eins og hreint mannorð er mikils virði, þá var þessi úrskurður ekki ónýtur til að endurheimta traust umheimsins. En nei, það var víst of mikill lúxus að mati Guðna Th. Jóhannessonar!

Makalaust er, að þessi fræðimaður, sem hefur þannig beitt sér gegn lagalegum rétti og hagsmunum þjóðarinnar, skuli síðan telja sig nógu spámannlega vaxinn til að verða forseti Íslendinga!

En ótvíræðar voru niðurstöðurnar úr ofangeindri skoðanakönnun. Þrír af hverjum fjórum vinstri mönnum ætla að kjósa Icesave-sinnann Guðna Th.!

Hins vegar eru kjósendur Sjálfstæðisflokksins miklu sundurleitari: aðeins 53% þeirra ætla að kjósa Davíð, en 29% Guðna, 18% Andra Snæ og 14% Höllu.

Að þessu séðu er ekki ólíklegt að sumir fari að hugleiða, hvort þeir ættu kannski að "kjósa taktískt", þ.e.a.s. að velja Davíð, ef þeir vilja ekki fá þann forseta, sem vann gegn þjóðarhagsmunum og þjóðarrétti í Icesave-málinu.

Í VINNSLU

* Orðrétt sagði Guðni í Grapevine: „We might not like the Icesave deal, but the alternative is much worse, and maybe this is the best we or anyone else could get. Take it or leave it, that’s the message we got. I think anyone criticizing the negotiations team for being weak are ignoring, wilfully or not, the incredibly difficult position the Icelandic authorities find themselves in.“

Jón Valur Jensson.


mbl.is Halla bætir við sig mestu fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilskipunarákvæði Evrópubandalagsins, 94/19/EC, sem sýnir og sannar sakleysi íslenzka ríkisins og þjóðarinnar í Icesave-málinu

(Endurbirt grein af Vísisbloggi höf. 15.8. 2009)

“Tilskipun þessi getur EKKI gert aðildarríkin eða lögmæt yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innstæðu­eig­end­um ef þau hafa séð um stofnun eða opinbera viður­kenn­ingu eins eða fleiri kerfa sem ábyrgjast inni­stæðurnar eða lána­stofnanirnar sjálfar og tryggja skaðbætur eða vernd inni­stæðu­eigenda samkvæmt skilyrðum sem þessi tilskipun skilgreinir.”

Þannig er það ákvæði, sem við getum grundvallað á réttarkröfu okkar fyrir dómstólum, að VIÐ EIGUM EKKI AÐ BORGA, þ.e.a.s. ef þjóð og þing hrinda af sér þeim þjóðsvikasamningi sem fjárlaganefnd er nú á síðustu metrunum að samþykkja með sínum blekkingar-fyrirvörum.

Um þessi ákvæði tilskipunarinnar eða öllu heldur dírektífsins, sem fylgir henni, hafa farið fram miklar umræður á ýmsum vefsíðum og margir lagt þar gott til málanna, en lítt verið um þetta ritað í ESB-höllum fjölmiðlum. Ég mun bráðlega birta samantekt af rökræðu minni í þessu máli, m.a. með samanburði ofangreinds ákvæðis á ýmsum tungumálum, en það var þýtt á mjög villandi hátt í hinni íslenzku þýðingu, sem til er á netinu. Grundvallandi fyrir lögmæti og skuldbindingu er sú þýðing þó ekki, enda er hún ekki partur af íslenzkri löggjöf né innleidd með neinum öðrum hætti hér á landi. Frumtextar gilda, og á ensku, frönsku, dönsku og sænsku, til að mynda, er sá texti tær og ótvíræður og þýddur hér í byrjun þessa pistils í samræmi við það.

Eftir allar umræður í Alþingi og fjárlaganefnd stendur aðeins einn flokkur af fimm nokkurn veginn heill í þessu máli að leggja áherzlu á lagalegan rétt okkar Íslendinga. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður þess flokks, stóð sig með afbrigðum vel í málflutningi sínum fyrir land og þjóð í Vikulokunum á Rás 1 á 12. tímanum í dag.

Velji þingflokkur Sjálfstæðisflokksins að kjósa með Icesave-svikasamningnum, skilja þar leiðir okkar. Ég mun þá segja mig úr flokknum, sem ég hef tilheyrt í 37 ár.

VIÐAUKI

Ofangreint tilskipunarákvæði á nokkrum öðrum tungumálum:

Á ensku: “Whereas this Directive may NOT result in the Member States’ or their competent authorities’ being made liable in respect of depositors if they have ensured that one or more schemes guaranteeing deposits or credit institutions themselves and ensuring the compensation or protection of depositors under the conditions prescribed in this Directive have been introduced and officially recognized.”

Á sænsku: “Om ett eller flera system, som garanterar insättningar eller kreditinstituten som sådana och säkerställer kompensation eller skydd för insättningar enligt de villkor som föreskrivs i detta direktiv, har införts och officiellt erkänts, medför INTE detta direktiv att medlemsstaterna eller deras behöriga myndigheter blir ansvariga gentemot insättare.

Á dönsku: “Dette direktiv kan IKKE forpligte medlemsstaterne eller disses kompetente myndigheder i forhold til indskyderne, når de har sörget for, at en eller flere ordninger, der garanterer indskuddene eller kreditinstitutterne selv, og som sikrer skadelösholdelse eller beskyttelse af indskyderne på de i dette direktiv fastlagte betingelser, er blevet indfört eller officielt anerkendt.”

Lesið nýjustu greinar mínar á öðru bloggi (nýjust efst):

Grein þessa birti ég á Vísisbloggi mínu 15. ágúst 2009, en öll Vísisblogg allra Vísisbloggara þurrkaði síðan fjölmiðlafyrirtækið 365 út með öllu, án nokkurs samráðs við höfundana -- án efa eftir að skrif margra þar höfðu farið illa í taugarnar á Evrópusambands- og Jóhönnustjórnar-fylgjendum, en eins og kunnugt er, hefur Jón Ásgeir lýst stuðningi sínum við inngöngu Íslands í það stórveldi. Hér sjáum við þá í verki ritskoðunarhneigð 365 miðla, sem virða ekki höfundarrétt manna að skrifum sínum. En ég undirritaður hafði verið svo forsjáll að taka afrit af flestum Vísis-bloggpistlum mínum, en missti hins vegar af athugasemdunum þar. --Þessi pistill er hér einnig birtur sem dæmi úr Icesave-baráttunni og má gjarnan geymast hér á viðeigandi stað. --Jón Valur Jensson.


Margt kemur skondið í ljós við upprifjun "gamallar sagnfræði"

Í þjóðaratkvæðagreiðslu 9. apríl 2011 um Buchheit-samnings-lögin greiddi Guðni Th. JÁ-atkvæði með þeim lögum (nei, ólögum, því að skýlaust rétt­ar­brot voru þau gegn lögvörð­um rétti landsins). Svo sam­dauna var hann þá pólitískum rétt­trúnaði Jóhönnu­stjórnar og ESB-sinna, emb­ættis­manna, hagsmuna­aðila og stórkarla á vinnumarkaði (SA, SI, SVÞ og einnig Gylfa topphúfu & Co. í ASÍ) og prófessorum í viðskipta- og hagfræðideild HÍ og ýmsum eilífum álitsgjafa-augnakörlum Rúvsins, auk ramm­hlutdrægra starfsmanna Rúv og 365, já, endur­tökum þetta: svo samdauna var hann þá orðinn þeim þrátt fyrir skýr laga­ákvæði íslenzk sem innleitt höfðu hér Tilskipun 94/19EC, að hann skamm­aðist sín ekki einu sinni fyrir að útbásúna það eftir á (t.d. sl. mánudag 9. maí 2016 í síðdegisþætti á Útvarpi Sögu), að hann greiddi atkvæði með Buchheit-lögunum, enda væri Buchheit bara sanngjarn maður! (Hann væri þó búinn að kosta okkur 80 milljarða króna ólögvarða kröfu nú þegar, í einbera vexti, í pundum og evrum, ef einungis um 10% manna til viðbótar hefðu eins og Guðni Th. greitt Buchheit-ólögunum atkvæði sitt í stað þess að standa með gamla Íslandi!)

Guðni er byrjaður ferð sína niður á við, úr 70 prósentunum, eins og hér sést:

forseti mai sp1

 

Þetta er Maskínu-könnunin frá nýliðnum degi. Nú fara hlutirnir að hreyfast í sömu átt, meðfram vegna framkominna staðreynda um sitt af hverju, eins og hér var rakið, þótt án efa muni það einnig hafa sín áhrif, af hvílíkri mælsku og þrótti frambjóðendur munu kynna sín viðhorf og fyrri störf.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Tveir þriðju ætla að kjósa Guðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítillátur, ljúfur og kátur - eða harður gegn hagsmunum og rétti lands og þjóðar?

Undarlegt lítillæti Guðna Th. birtist í því að ætla sér "bara" að vera forseti landsins í tólf ár

Tveimur dögum seinna kemur hann fram sem ófor­skamm­aður Icesave-samn­ings- og Evrópu­sambands­stuðnings­maður að auki með vissum skilmálum!

Er slíkur maður virkilega sá sem þjóðin myndi treysta til að standa vörð um þjóðarréttindi og fullveldi Íslands? Er nóg að tala slétt mál og mæla fallega? Ætlum við að fara að kjósa stuðn­ings­mann Buchheit-samningsins? Þessi maður sagði sig opinskátt í þætti í gær hafa kosið þá samningagerð, sem 70% þing­manna okkar létu hræðast til að greiða atkvæði sem "lögum", þótt ekkert væru annað en ólög og beindust þvert gegn lögvörðum rétti okkar!

Er Guðna Th. einskis virði sá sýknudómur sem EFTA-dómstólnum gafst tækifæri til að kveða upp, eftir að forsetinn og þjóðin höfðu hafnað því að staðfesta Icesave-lögin? Ekki tók Guðni Th. þátt í því með þjóð sinni að hrista af henni það ok sem tvær gamlar nýlendu­þjóðir vildu leggja á okkur, með þeim ósvífna hætti sem minnti jafn­vel suma á það, hversu hrika­lega Bretar og Banda­ríkja­menn léku íbúa Fidji-eyja í krafti löglausra fjárhags­pyntinga.

Og hvers virði er sakleysi og æra þjóðar, hr. forseta­frambjóðandi? Og hvar hefðirðu skorið niður í ríkis­rekstri um 80 milljarða til að borga Buchheit-Ice­save-vextina sl. þrjú ár? Og hvar hefðirðu tekið erlendan gjaldeyri til þess?

Jón Valur Jensson.


mbl.is Ólíklegt að Davíð taki fylgi af Guðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband