Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
14.12.2010 | 11:57
Heimasætan játar syndirnar!
Nú hefur það skeð sem enginn bjóst við, að heimasætan á Sossaheimilinu játaði allar sínar syndir og það ótilneidd. Guðmundur Andri Thorsson hefur opinberlaga viðurkennt, að allt sem hann hefur sagt um Icesave-málið var blekking.
Allt sem Guðmundur Andri hefur sagt var byggt á blindu hatri á hugsjónum um frelsi einstaklingsins. Þetta hatur er af sama meiði og sú trú, að sjálfstætt Ísland sé fjarstæðukennd staðleysa. Þess vegna sé ekki um annað að ræða fyrir Íslendinga, en að taka með þökkum boði Evrópuríkisins um ófrelsið.
Einhver gæti haldið að ég sé að ýkja örlítið, en svo er ekki. Guðmundur Andri Thorsson segir þetta sjálfur. Heimasætan játar allar sína syndir og segir meðal annars:
>>Um það er þarflaust að þrefa: Okkur skjátlaðist. Við, þessi minnihluti landsmanna sem vildum ljúka Icesave-málinu um síðustu áramót, fá þetta út úr heiminum og halda áfram út úr kreppunni með hjálp annarra þjóða - okkur skjátlaðist, við paníkeruðum.<<
Það er svo annað mál að Guðmundur Andri hefur nýgja vindmyllu í augsýn. Hann virðist vera tekinn til við að boða ágæti Icesave-samninga III. Verður það gert á sömu forsendum og trúboðið um eldri samninga ? Ætlast Guðmundur Andri til að sá minnihluti sem hafði sömu skoðun og hann, varðandi eldri Icesave-klafa, muni fylgja honum í baráttu fyrir nýrri Icesave-kúgun ?
Við fylgjumst spennt með framhaldssögunni um játningar heimasætunnar.
Loftur A. Þorsteinsson.
![]() |
Fundi fjárlaganefndar frestað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
14.12.2010 | 03:43
Icesave-3-samningurinn var birtur í nótt á netinu
http://icesave3.files.wordpress.com/2010/12/samningur-uk.pdfM
http://icesave3.files.wordpress.com/2010/12/samningur-nl.pdf
http://icesave3.files.wordpress.com/2010/12/re-settlement-agreement-side-letter.pdf
http://icesave3.files.wordpress.com/2010/12/pari-passu-agreement-dnb-tif.pdf
http://icesave3.files.wordpress.com/2010/12/assignment-agreement-dnb-tif.pdf
Sbr. hér á Eyjunni: http://eyjan.is/2010/12/14/icesave-samkomulagid-lekur-a-netid/.
Nú er þá uppfyllt ein krafan af þremur, sem settar voru fram á þessari vefsíðu Þjóðarheiðurs, í viðauka þar. Reyndar var það ekki ríkisstjórnin sem birti þetta, eins og krafizt var þar. Hún heldur áfram að vera ógagnsæ og hefur helgað sig leyndarhyggju í þessu máli frá upphafi og oft verið mjög pínlegt að horfa upp á það, t.d. þegar þingmenn urðu að laumupokast í eitt minnsta herbergi Alþingis til að skoða þar Svavarssamninginn "glæsilega" (loksins þegar þeir fengu það!) og eiðsvarnir að bera hann ekki út!
Hinar tvær fyrnefndu kröfurnar eru þessar:
- Við viljum engan Icesave-samning, þjóðin hefur sýnt, að hún vill hann ekki og viðurkennir enga gjaldskyldu. (Sjá þessar tölulegu upplýsingar: Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave eftir landshlutum og:Hartnær 60% aðspurðra segja: Við viðurkennum alls enga ábyrgð Íslendinga á Icesave-greiðslum til Bretlands og Hollands!)
- Við krefjumst þess að þegar í stað verði öll gögn um skuldunauta þrotabús Landsbankans gamla lögð á borðið öðruvísi er ekki hægt að leggja skynsamlegt mat á þessi verðmæti.
ÁFRAM ÍSLAND -- Ekkert Icesave!
J.V.J. og Th.N.
13.12.2010 | 22:25
Steingrímur J. Sigfússon biðst afsökunar á tali um „glæsilegan" Svavarssamning, en ...
... auðvitað er iðrun hans ekki einlæg. Fyrir örfáum dögum varði hann alla fortíðina! Nú reynir hann að bjarga því sem bjargað verður, eftir að jafnvel sympathískir frétta- og fræðimenn eru hættir að fylgja hinum eftir.
Hér má sjá hneykslanlega upprifjun (í styttri mynd) á hneykslisferli Icesave-ráðherranna.
Á sama myndbandi úr fréttum Stöðvar 2 má einnig sjá mat Stefaníu Óskarsdóttur stjórnmálafræðings á stöðu málsins, þ.e.a.s. á veikri stöðu ríkisstjórnarinnar, en þannig er hún á Vísir.is:
Staða ríkisstjórnarinnar veikst að mati doktors í stjórnmálafræði
Staða ríkisstjórnarinnar hefur veikst verulega að mati Stefaníu Óskarsdóttur, doktor í stjórnmálafræði, sem var í spjalli í Íslandi í dag eftir fréttir í kvöld. Þar var farið yfir pólitíska stöðu ríkisstjórnarinnar eftir að nýr Icesave-samningur náðist við Breta og Hollendinga í vikunni.
Icesave hefur verið erfitt mál og vandræðalegt fyrir ríkisstjórnina," sagði Stefanía en þjóðin felldi síðasta Icesave-samning í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Stefanía segir að eftir það hafi ríkisstjórnin ekki getað setið með hendur í skauti, sem og hún gerði ekki, því hún reyndi að þétta í röðum sínum með því að taka Ögmund Jónasson aftur inn í ríkisstjórn sem ráðherra.
Ríkisstjórnin veiktist það mikið í kjölfarið að hún varð að bregðast við þessu," segir Stefanía um eftirleik þjóðaratkvæðagreiðslunnar.
Hún segir málflutning ríkisstjórnarinnar hafa verið slíkan að hún kenndi Sjálfstæðisflokknum mikið um það hvernig fór og því spyr hún hver á að taka heiðurinn af nýjum og mun betri samningi:
Getur ríkisstjórnin tekið heiðurinn fyrir það eða stjórnarandstaðan og síðar forseti Íslands?" spyr Stefanía.
Hún telur það einnig veikleikamerki ríkisstjórnarinnar hvernig hún hefur talað undanfarið um að fara hægt í sakirnar. Það sé ekki í anda þess sem hún gerði áður þegar hún hafði hraðar hendur á, til að mynda við að samþykkja Icesave-samninginn hinn fyrri.
Þetta endurspeglar stöðu ríkisstjórnarinnar," segir Stefanía sem þykir viðbrögðin vera veikleikamerki.
Stefanía segir mikilvægt fyrir ríkisstjórnina að ná víðtækri sátt um samninginn. Það verður til þess að gera forsetanum erfiðara um vik að fara gegn þingmeirihlutanum líkt og hann gerði í byrjun janúar síðastliðinn.
![]() |
Icesave á endastöð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.12.2010 | 19:04
Þriðji Icesave-svikasamningurinn verður lagður fram á Alþingi eftir 2½ sólarhring
Þetta er staðreynd, ekki hitt, að hann fái ekki afgreiðslu fyrr en eftir miðjan janúar. Nú er tími til umræðna, liðssafnaðar og mótmæla.
Enn er ógagnsæið ríkjandi, plaggið ekki komið í almenna kynningu. En að stjórnvöld hafi hörfað nokkuð og orðið fyrir skelli, er nú orðið almennt mat stjórnmálafræðinga (eins og Stefaníu Óskarsdóttur) og fjölmiðlamanna (eins og Páls Vilhjálmssonar og jafnvel Spegilsmanna Rúvsins). Vera má, að þrátt fyrir vilja Breta og Hollendinga til að fá málið "klárað" fyrir áramót (sjá neðar), hafi stjórnvöld hér hörfað frá þeirri stefnu, þegar þau sáu, að stjórnarandstaðan var ekki auðblekkt til fylgis við frumvarpið; hún stendur ekki að því (undarlegt raunar að þurfa að taka þetta fram sem frétt, en sjá um þetta umræðu á tilvísaðri vefslóð Páls Vilhjálmssonar).
Rúv gerir ekki mikið úr stórfrétt : að Steingrímur J. Sigfússon baðst í dag afsökunar á því að hafa lýst Svavarssamningnum sem "glæsilegum"! (nánar um það í annarri grein í kvöld).
En hér skal þrátt fyrir ofangreint endurbirt eftirfarandi grein undirritaðs á Vísisbloggi fra því fyrr í dag:
Bretar vilja þvinga okkur til að samþykkja Icesave fyrir áramót!
Bretar halda áfram sínum bellibrögðum gagnvart Íslendingum og hafa Hollendinga með sér í bandi. Sífellt er reynt að gabba okkur til fylgis við nýja Icesave-samninga, sem alltaf eiga að taka hinum fyrri fram, en þessi byggir á ÓVISSU um eignasafn þrotabús Landsbankans og tilkall TIF (Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta) til einungis 52% af því sem þar reynist vera, en skilanefnd bankans er EINA heimildin um eignir þar í veðbréfum og öðru.
Eru sum þessara verðbréfa með kröfur í mikilvæg sjávarútvegsfyrirtæki og þar með aflakvóta á Íslandi? er það þess vegna sem Bretar eru að sækja þarna á okkur þrátt fyrir að fjárkrafa þeirra á hendur íslenzka ríkinu sé með öllu ólögvarin? Gengur þeim þetta til, að komast yfir víðtækar aflaheimildir hér, með því að gjaldfella lántil útgerðarfyrirtækja árið 2016, og er þetta ástæðan fyrir því, að þeir vilja greinilega EKKI, að öll gögn verði lögð á borðið um innihald eignasafnsins?!
Íslendingar eiga mótmæla nú sem fyrr og ekki síður vegna þess, að Icesave-liðið brezka og "íslenzka" vill hespa þetta af í flýti fyrir 31. desember* rétt eins og síðast! og í þetta sinn með þrýstingi á forsetann líka að hann samþykki svínaríið. En ríkisábyrgð á Icesave brýtur gegn 77. grein stjórnarskrárinnar (sjá hér: http://blogg.visir.is/jvj/2009/08/31/icesave-3/); ennfremur er óheimilt að veita ríkisábyrgð á neinu sem feli í sér óljósar fjárupphæðir (jafnvel svo nemur óþekktum sæg milljarða, eins og hér).**
Það er enginn tími til að halla sér á koddann sinn yfir þessu máli - fram með mótmælaspjöldin, og tökum öll eftir, þegar efnt verður til mótmæla!
* Skv. fréttum í dag, t.d. hér: http://visir.is/geta-sagt-icesave-samningnum-upp-eftir-aramot-/article/201028950047
** Heildarskuldbindingin yrði ekki 47 milljarðar króna, heldur að lágmarki 57 milljarðar og allt að hundruðum milljarða, því að þarna eru menn hér að treysta á, að það fáist út úr þrotabúinu, sem fullyrt er (byggt á einni munnlegri heimild!) að sé þar inni já, og treysta á, að fyrirtækin sem skulda Landsbankanum gamla séu ekki á leiðinni á hausinn! og treysta ennfremur á, að gengið haldist óbreytt!
Viðaukar:
Undirritaður hitti alþingismann í gær. Hann sagðist vera að lesa nýja samninginn og rétti fram fingur til að sýna hve blaðabunkinn væri þykkur, um einn og hálfur sentimetri! Þetta er þó hátíð (svo framarlega sem allt er haft þarna með) fyrir alþingismenn í samanburði við Svavarssamninginn, en hann varð að draga með töngum út úr Icesave-stjórninni og það á drjúgum tíma, og fengu þingmenn þó (loksins) aðeins aðgang að honum í læstu herbergi í Alþingishúsinu og máttu ekkert ljósrita af honum né hafa með sér út þvílík var leyndarhyggjan, enda sannarlega mikið að fela! En hvenær fær almenningur að sjá nýja samninginn? Þetta eiga að vera meðal helztu krafna sem við gerum nú til stjórnvalda:
- Við viljum engan Icesave-samning, þjóðin hefur sýnt, að hún vill hann ekki og viðurkennir enga gjaldskyldu. (Sjá þessar tölulegu upplýsingar: Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave eftir landshlutum og: Hartnær 60% aðspurðra segja: Við viðurkennum alls enga ábyrgð Íslendinga á Icesave-greiðslum til Bretlands og Hollands!)
- Við krefjumst þess að þegar í stað verði öll gögn um skuldunauta þrotabús Landsbankans gamla lögð á borðið öðruvísi er ekki hægt að leggja skynsamlegt mat á þessi verðmæti..
- Við krefjumst þess, að Icesave3-samningurinn verði birtur þjóðinni á netinu nú þegar..
Varðandi 47 eða 57 milljarða lágmarkshöfuðstól skal bent á þessa forsíðufrétt í Morgunblaðinu í fyrradag: Bjartsýnni um 20 milljarða, þar sem segir m.a.:
- Samninganefnd Íslands í Icesave-deilunni er bjartsýnni á endurheimtur úr þrotabúi Landsbankans en skilanefnd þessa sama banka. Samninganefndin gerir ráð fyrir að eignir bankans muni aukast að verðmæti um 20 milljarða og er verðmatið þeim mun hærra en sem kemur fram í mati skilanefndarinnar. Helmingurinn af þessari verðmætaaukningu renni til greiðslu á Icesave. Til að kostnaðaráætlun samninganefndarinnar standist mega eignir Landsbankans ekki lækka í verði.
- Þá reiknar samninganefndin með að 23 milljarðar sem eru óáfallnir vextir af skuldabréfi Nýja Landsbankans til þess gamla gangi upp í Icesave en skilanefndin hefur ekki tekið þessar vaxtagreiðslur með í sínum útreikningum.
(Sérstaklega þarf að fjalla hér um túlkun samninganefndarinnar og hvernig fulltrúi skilanefndarinnar lýsti ábyrgð á túlkun sinna upplýsinga á hendur þeim, sem leyft höfðu að túlka þær að vild.)
Þetta með öðru sýnir, hve fallvalt er þetta mat samninganefndarinnar, sem fer ekki einu sinni eftir mati skilanefndarinnar! (Nánar hér í fréttaskýringargrein Þórðar Gunnarssonar í sama blaði: Aukið virði eigna Landsbankans skili Íslendingum 10 milljörðum.) Þar á ofan bætist annað vanmat í spádómum samninganefndarinnar. Það sést bezt á þessari frétt Þórðar Gunnarssonar í Morgunblaðinu í dag:
- Gengisáhætta óbreytt í nýjum samningum
- Veikist gengi krónunnar um 10-20% gæti það kostað ríkissjóð tugi milljarða
- Gengisveiking krónunnar um 10-20% gæti kostað ríkissjóð tugi milljarða króna, ef ríkisábyrgð á skuldbindingum tengdum Icesave verður fest í lög. Þetta er mat stærðfræðingsins Sigurðar Hannessonar. Krafa Tryggingasjóðs innistæðueigenda og fjárfesta í þrotabú Landsbankans nemur um 674 milljörðum króna og er fest í krónum. Skuldbinding sjóðsins gagnvart innistæðutryggingasjóðum Breta og Hollendinga er hins vegar í erlendri mynt.
- Sigurður bendir á að ef krónan veikist muni endurheimtur á kröfum Tryggingasjóðs ná 100%. Heimtur umfram 100% renni hins vegar til almennra kröfuhafa Landsbankans en ekki íslenska ríkisins.
- Bentu á áhættuna
- Á þetta atriði var bent þegar rætt var um síðustu Icesave-samninga og það hefur ekkert breyst með þessum nýju sem kynntir voru í síðustu viku. Það er ennþá mikil gjaldeyrisáhætta sem ríkissjóður gengst undir með þessum samningum. Þó svo að samið hafi verið um lægri vexti á láninu frá Bretum og Hollendingum þá er gjaldeyrisáhættan ennþá hin sama, segir Sigurður í samtali við Morgunblaðið.
Og hér er svo vísað til ýtarlegra viðtals við hann o.fl. um þetta á bls. 6 í Mbl. í dag (Gjaldeyrisáhættan mikil).
Jón Valur Jensson.
![]() |
Icesave verður stjórnarfrumvarp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.12.2010 | 09:45
Vondur, illskárri, glæsilegastur?
- Í fyrra notaði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður Vinstri grænna, orðin glæsileg niðurstaða til að lýsa Icesave-samningunum. Þessum fagnaðarlátum fylgdi hann eftir á Alþingi með því að hóta þingi og þjóð því að yrði hin glæsilega niðurstaða ekki samþykkt þá kemur október aftur. Þjóðin mundi og man enn vel eftir október 2008 svo að lengra gat Steingrímur ekki gengið í efnahagslegum hræðsluáróðri sínum.
- Fylgispakir menn innan þings og utan, ekki síst í atvinnulífi og fjölmiðlum, kyrjuðu sama sönginn. Fullyrt var að samninganefndin hefði unnið mikið þrekvirki að ná þessari glæsilegu niðurstöðu og að ef að þjóðin tæki ekki á sig Icesave-klafann biði hennar ekkert annað en langvarandi volæði.
- Þjóðin sá í gegnum áróðurinn og hafnaði hinni glæsilegu niðurstöðu á eftirminnilegan hátt.
Svo segir í ritstjórnargrein Morgunblaðsins í dag, Glæsileg niðurstaða kynnt á nýjan leik. Þetta er frábær úttekt á Icesave3-samningnum. Hver sem rökum getur valdið er hvattur til að lesa þá grein, sem er skrifuð af einstakri glöggsýni og röksnilld, en hér var aðeins um fjórðungur hennar birtur.
Undirritaður getur tekið undir hvert einasta orð í greininni. Hún hafnar því algerlega, að samþykkja eigi hinn nýja samning. Þetta er afleitur samningur. Þótt hann sé illskárri en hinir fyrri, er hann líka illbærilegur fyrir íslenzka þjóð og er bæði ólöglegur samkvæmt stjórnarskránni og kröfurnar að baki honum ólögvarðar með öllu.
En verjendur Icesave-stjórnvalda og meðvirkir og skammsýnir menn fara nú mikinn í því að boða þennan samning sem glæsilegan" enn á ný!
Jón Valur Jensson.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.12.2010 | 18:15
Buchheit er gengilbeina í boði Steingríms.
Ég verð að játa að ég lét blekkjast af þeim góðu umsögnum sem Lee Buchheit fekk, hjá erlendum vinum mínum. Nú hefur komið í ljós að ekkert af þessu hóli stendst prófið, sem fólgið er í Icesave-samningum III. Þessi maður er gengilbeina í boði Steingríms Sigfússonar.
Það þarf auðvitað ekki að koma á óvart að skylt er skeggið hökunni, því að þessi maður naut trausts Steingríms Sigfússonar. Er ekki hlálegt að Buchheit sleppir ekki tækifærinu sem gafst í HÍ, til að hæla Steingrími. Gleymum því ekki að Icesave-stjórnin hefur hafnað aðstoð allra ráðgjafa, sem haldið hafa fram hlut Íslands, en andstæðingar Íslands hafa hlotið varmar móttökur í Fjármálráðuneytinu.
Buchheit sleppir að greina frá sömu staðreyndum og aðrir talsmenn Icesave-stjórnarinnar. Þar á meðal er sú staðreynd að Ísland er sjálfstætt ríki og á engan hátt nauðbeygt að gangast undir vald erlendra dómstóla. Álit ESA er einskis virði, enda er einn af þremur dómurum þess Íslendingur, sem gætir sömu hagsmuna og Steingrímur og Jóhanna. Svo sannarlega eru það ekki hagsmunir almennings á Íslandi.
Buchheit elur á sama óttanum við hið óþekkta eins og lengi hefur verið sérgrein Steingríms og Jóhönnu. Þessi nálgun að málinu hefur heldur betur gengið sér til húðar. Allar hrakspár Sossanna hafa reynst blekkingar af verstu tegund og mjög í stíl við þær hótanir sem Mafían notar til að kúga almenning.
Það er þó ein ástæða til að fagna Icesave-samningum III. Af fullkominni heimsku og viðeigandi óvitahætti hefur ríkisstjórnin brugðið snörunni um eigin háls. Þessir fúnu njólar hafa tryggt að ríkisstjórnin verður að hrökklast frá völdum þegar úrskurður fullveldishafans-þjóðarinnar liggur fyrir um höfnum glæpa-samninganna.
Loftur Altice Þorsteinsson
![]() |
Buchheit: Þróunin hefur verið Íslendingum hagfelld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.12.2010 kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
10.12.2010 | 01:22
Fullkomlega ólöglegar viðræður við nýlenduveldin
Þær fréttir berast með reglubundnu millibili, að ríkisstjórnin standi í viðræðum við ótilgreinda fulltrúa frá Bretlandi og Hollandi, um forsendulausar kröfur þessara ríkja um skattheimtu á Íslandi. Eins og allir vita, var fjárkúgun nýlenduveldanna hafnað í þjóðar-atkvæðinu 06. marz 2010. Íslendingar ætla sér ekki að greiða skatt til Evrópuríkjanna, hvorki undir formerkjum Icesave né formerkjum Evrópuríkisins.
Með þjóðaratkvæðinu 06. marz 2010 staðfestu Íslendingar að Stjórnarskrá þjóðarinnar er í fullu gildi og að endanlegt vald er í hennar höndum. Þetta vald nefnist fullveldi, sem merkir að endanlegt og ótakmarkað vald um málefni landsins verður ekki frá henni tekið. Endanlegt er fullveldið, vegna þess að ákvörðunum fullveldishafans verður ekki vísað til annars aðila. Ótakmarkað er fullveldið, vegna þess að það tekur til allra þátta sem fullveldishafinn ákveður.
Mikilvægur hluti fullveldisins er vald til að hafna lagasetningu Alþingis. Slík höfnun verður að koma fram í þjóðaratkvæði og þarf oftast atbeina forseta Lýðveldisins til að lýðurinn fái að fella sinn úrskurð. Sem betur fer er núverandi forseta ljóst til hvers hann var kosinn og hefur hann gegnt starfinu með glæsibrag. Stjórnarskráin gerir grein fyrir mikilvægi forsetans, sem umboðsmanns almennings.
Fyrir nokkrum mánuðum (á fullveldisdaginn 17. júní) birtist í Morgunblaðinu gagnmerkt viðtal við Ólaf Ragnar Grímsson, þar sem farið var yfir afleiðingar þjóðaratkvæðisins 06. marz 2010. Um viðtalið og stöðu Icesave-málsins fjallaði ég sama dag og er hægt að finna þá færslu hérna:
Þjóðaratkvæðið veitti þjóðinni styrk
Þrátt fyrir að eindregin höfnun þjóðarinnar á Icesave-kúguninni hafi komið fram í þjóðaratkvæðinu 06. marz 2010, heldur ríkisstjórnin sínu striki, eins og þetta fólk sé bæði sjónlaust og heyrnarlaust. Jafnframt gerir Stjórnarskráin fullkomlega ljóst, að fullveldi landsins er í höndum þjóðarinnar, en hvorki Alþingis né ríkisstjórnar. Ekki er því hægt annað en viðurkenna að ríkisstjórnin brýtur vísvitandi ákvæði Stjórnarskrárinnar (greinar: 21, 40, 41) og ákvæði í X. kafla almennra hegningarlaga um landráð, með áframhaldandi umboðslausum viðræðum við nýlenduveldin, um mál sem þjóðin hefur ýtt út af borðinu.
Það er napurlegt að heldsti andstæðingur almennings á Íslandi, er sjálf ríkisstjórn landsins. Þjóðin verður að búa sig undir nýtt þjóðaratkvæði um Icesave-samninga og forseti Lýðveldisins er jafn tilbúinn í þann slag og meirihluti Íslendinga. Fróðlegt er að rifja upp mat forsetans í viðtalinu á fullveldisdaginn 17. júní. Þar er haft eftir forsetanum:
»Í þriðja lagi tel ég alveg afdráttarlaust og á því er enginn vafi að sú ákvörðun að vísa Icesave-málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu og hvernig hún fór fram og niðurstaða hennar hafi tvímælalaust styrkt stöðu Íslendinga í alþjóðasamfélaginu, alþjóðlegum fjölmiðlum, umræðum meðal sérfræðinga og áhrifafólks vítt og breitt um veröldina. Ég hef átt viðræður við mikinn fjölda áhrifafólks, bæði þjóðarleiðtoga, áhrifafólk í fjármálalífi, viðskiptalífi, suma áhrifaríkustu fjölmiðlamenn Vesturlanda, og get því tvímælalaust fullyrt að staða okkar er mun sterkari í dag en hún var áður.«
Búast verður við, að Alþingi hafi ekki styrk til að standa gegn ofríki Icesave-stjórnarinnar, en ekkert bendir til annars en þjóðin sé reiðubúin til nýrra átaka um Icesave-málið. Ólöglegar athafnir ríkisstjórnarinnar munu ekki hverfa auðveldlega úr minni þjóðarinnar. Sama dóm sögunnar munu hljóta þeir einstakingar sem draga fullveldisrétt lýðsins í efa.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.12.2010 | 17:50
KÚGUNIN KOMIN Í HÖFN?
Það er hreint út sagt ótrúlega svívirðilegt að maður skuli finna eftirfarandi frétt núna 9. des í RUV, miðli allra landsmanna, 9 mánuðum eftir að yfir 90% þjóðarinnar hafnaði og kolfelldi ólöglegt ICESAVE:
Endurgreiðslur hefjast árið 2016
Jan Kees de Jager, fjármálaráðherra Hollands, segir að Íslendingar hafi samþykkt að bæta Hollendingum og Bretum að fullu innistæður vegna Icesave-reikninga Landsbankans. Alls nemur upphæðin tæplega 200 milljörðum króna á núverandi gengi. Samkvæmt samningnum byrja Íslendingar að greiða skuldina í júlí 2016 og lýkur greiðslum árið 2046. Að sögn Bloomberg-fréttaveitunnar sagði hann þetta í bréfi til hollenska þingsins í dag.
Reuters-fréttastofan hefur eftir talsmanni hollenska fjármálaráðuneytsins að Íslendingar muni greiða 3% vexti af því sem þeir skuldi Hollendingum og að skuldin við Breta beri 3,3% vexti.
Niðurstaðan verður kynnt á blaðamannafundi klukkan sex í dag. Fundinum verður sjónvarpað beint hér á vef Ríkisútvarpsins.
Samningurinn hefur verið birtur á vef hollenska fjármálaráðuneytisins. Hér má lesa hann
Elle Ericsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.12.2010 | 00:17
Enn sama Icesave-leyndarhyggjan: „Málið var talsvert rætt en í trúnaði"
Að sögn Árna Þórs Sigurðssonar, formanns utanríkismálanefndar Alþingis, er ekki hægt að greina neitt frá 1 klst. umræðum þar í kvöld, fyrir utan þetta ofangreinda!
En takið eftir þessu: Allt í einu segir hann: Ég er hvorki bjartsýnn né svartsýnn. Eins og komið hefur fram standa einhver atriði útaf núna og menn eru að reyna að ná saman um þau, segir sami þingmaður. Annað var nú að heyra á þessu Icesave-stjórnar-liði 1-2 sólarhringum fyrr. Þá átti þetta nánast að vera alveg að koma", en einnig Steingrímur J. viðhafði ummæli á nýliðnum degi sem vart er hægt að túlka öðruvísi en sem svo, að hann viti jafnvel ekki sjálfur efnisinntak nýrra samninga", enda óvíst hvort drögin að þeim séu til!
Stendur kannski til að tjasla þeim saman í skyndingu, með hjálp brezkra lagahrognamálssérfræðinga, eins og Svavarssamninginn illræmda? (Legal jargon" tala þeir sjálfir um.) Væri það nú gæfulegt að fá annað slíkt langlokuplagg með ótal lymskulegum ákvæðum til að tryggja Bretum allan rétt" í málinu, enskt dómsvald um ágreining í því og járnharðan aðfararrétt í eignir íslenzka ríkisins, hvað þá annað!
En þessi skyndifundur utanríkismálanefndar var boðaður að ósk Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, og þar mættu Steingrímur, Össur og Árni Páll, allir margþvældir í þetta Icesave-mál og engir varðmenn íslenzkra réttinda.
- Íslenska samninganefndin fór í morgun til viðræðna við fulltrúa Breta og Hollendinga og var fundum ekki lokið þegar utanríkismálanefnd fundaði, að sögn Árna Þórs,
segir að lokum í þeirri Mbl.is-frétt, sem hér var byggt á. Lee Bucheit og Lárusi L. Blöndal hrl. er mun betur treystandi til að berjast fyrir lagalegum réttindum okkar en þeirri ríkisstjórnarnefnu, sem lagðist marflöt fyrir ógnunarvaldi Breta í málinu árið 2009 og gerðist augljóslega meðvirk með þeirri stefnu brezka sendiherrans, Ians Whiting, að reyna að koma í veg fyrir að Icesave-ólögin frá 30. des. 2009 yrðu borin undir þjóðaratkvæðagreiðslu (sjá um það í seinni hluta þessarar færslu). En umboð Lárusar og Bucheits er frá Icesave-ríkisstjórninni og hlutverk þeirra ekki öfundsvert. Lárus veit sem er, að okkur ber ekkert að borga og að meirihluti þjóðarinnar viðurkennir alls enga ábyrgð Íslendinga á Icesave-skuld Landsbankans ...
Ef ríkisstjórnin gerði skyldu sína, sæti hún ekki að samningagerð um að greiða hina ólögvörðu kröfu Breta og Hollendinga, heldur léti hún kalla sendimenn Breta inn á teppið hjá sér til þess að 1) ávíta þá eindregið fyrir afskipti af innanríkismálum hér og 2) til að birta þeim rökstuddar skaðabótakröfur vegna þeirra hryðjuverkalaga, sem beitt var gegn okkur á þann hátt, að hneykslað hefur upplýsta menn og fjölmiðla víða um lönd. Þar eigum við að sumra mati lögmæta kröfu á hendur þeim upp á þúsundir milljarða króna, og ekki er úr vegi að minna á, að jafnvel brezkur ráðherra hefur beðið forláts á ódæðinu ...
Jón Valur Jensson.
![]() |
Farið yfir Icesave-viðræður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.12.2010 | 08:44
Mótspyrnan gegn nýjustu Icesave-svikunum er rétt að byrja
Í skugga fréttar af sístritandi manni í Bretavinnunni: Icesave samningur á morgun?, ættu menn að kynna sér vel það, sem fram hefur komið í fjölda greina á vef Þjóðarheiðurs og nú síðast í samantektinni NB, NB, NB: Afhjúpandi upplýsingar um Icesave-málið á WikiLeaks! Þar koma bellibrögð brezkra stjórnvalda og íhlutun í okkar innanríkismál skýrt í ljós.
En ætla menn að láta það yfir sig ganga að leyfa stjórnvöldum þessa ólögmætu samninga?
Vera má, að Íslendingar séu seinþreyttir til vandræða, jafnvel til sumra nauðsynjahluta, en þeir sönnuðu það í blysförinni til Bessastaða og í þjóðaratkvæðagreiðslunni 6. marz sl., að þeir láta ekki stjórnvöld endalaust vaða yfir sig og sinn fæðingarrétt til landsins og hafsins gæða.
Verum minnug þess, að Bretar hafa gert kröfu til ríkisábyrgðar á öllum Icesave-greiðslum og fengu hjá okkar eigin Icesave-stjórnvöldum uppáskrift fyrir því að gera megi kröfu til eigna ríkisins, ef greiðslur verða ekki inntar af hendi. Meðal þeirra eigna eru til dæmis Landsvirkjun, allt hennar virkjananet og jafnvel ónotaðar orkulindir, sem og þær umfram-fiskveiðiheimildir sem ríkisstjórnin ætlar sér að hafa drjúgar tekjur af í náinni framtíð!
Við stoppum þessa menn af, Íslendingar, og forsetinn bregzt okkur ekki.
Jón Valur Jensson.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)