Enn sama Icesave-leyndarhyggjan: „Málið var talsvert rætt en í trúnaði"

Að sögn Árna Þórs Sigurðssonar, formanns utanríkismálanefndar Alþingis, er ekki hægt að greina neitt frá 1 klst. umræðum þar í kvöld, fyrir utan þetta ofangreinda!

En takið eftir þessu: Allt í einu segir hann: „Ég er hvorki bjartsýnn né svartsýnn. Eins og komið hefur fram standa einhver atriði útaf núna og menn eru að reyna að ná saman um þau,“ segir sami þingmaður. Annað var nú að heyra á þessu Icesave-stjórnar-liði 1-2 sólarhringum fyrr. Þá átti þetta nánast að vera „alveg að koma", en einnig Steingrímur J. viðhafði ummæli á nýliðnum degi sem vart er hægt að túlka öðruvísi en sem svo, að hann viti jafnvel ekki sjálfur efnisinntak nýrra „samninga", enda óvíst hvort drögin að þeim séu til!

Stendur kannski til að tjasla þeim saman í skyndingu, með hjálp brezkra lagahrognamálssérfræðinga, eins og Svavarssamninginn illræmda? („Legal jargon" tala þeir sjálfir um.) Væri það nú gæfulegt að fá annað slíkt langlokuplagg með ótal lymskulegum ákvæðum til að tryggja Bretum allan „rétt" í málinu, enskt dómsvald um ágreining í því og járnharðan aðfararrétt í eignir íslenzka ríkisins, hvað þá annað!

En þessi skyndifundur utanríkismálanefndar var boðaður að ósk Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, og þar mættu Steingrímur, Össur og Árni Páll, allir margþvældir í þetta Icesave-mál og engir varðmenn íslenzkra réttinda.

  • Íslenska samninganefndin fór í morgun til viðræðna við fulltrúa Breta og Hollendinga og var fundum ekki lokið þegar utanríkismálanefnd fundaði, að sögn Árna Þórs,

segir að lokum í þeirri Mbl.is-frétt, sem hér var byggt á. Lee Bucheit og Lárusi L. Blöndal hrl. er mun betur treystandi til að berjast fyrir lagalegum réttindum okkar en þeirri ríkisstjórnarnefnu, sem lagðist marflöt fyrir ógnunarvaldi Breta í málinu árið 2009 og gerðist augljóslega meðvirk með þeirri stefnu brezka sendiherrans, Ians Whiting, að reyna að koma í veg fyrir að Icesave-ólögin frá 30. des. 2009 yrðu borin undir þjóðaratkvæðagreiðslu (sjá um það í seinni hluta þessarar færslu). En umboð Lárusar og Bucheits er frá Icesave-ríkisstjórninni og hlutverk þeirra ekki öfundsvert. Lárus veit sem er, að okkur ber ekkert að borga og að meirihluti þjóðarinnar viðurkennir alls enga ábyrgð Íslendinga á Icesave-skuld Landsbankans ...

Ef ríkisstjórnin gerði skyldu sína, sæti hún ekki að samningagerð um að greiða hina ólögvörðu kröfu Breta og Hollendinga, heldur léti hún kalla sendimenn Breta inn á teppið hjá sér til þess að 1) ávíta þá eindregið fyrir afskipti af innanríkismálum hér og 2) til að birta þeim rökstuddar skaðabótakröfur vegna þeirra hryðjuverkalaga, sem beitt var gegn okkur á þann hátt, að hneykslað hefur upplýsta menn og fjölmiðla víða um lönd. Þar eigum við að sumra mati lögmæta kröfu á hendur þeim upp á þúsundir milljarða króna, og ekki er úr vegi að minna á, að jafnvel brezkur ráðherra hefur beðið forláts á ódæðinu ...

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Farið yfir Icesave-viðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Heyr, heyr...

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 9.12.2010 kl. 01:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband