Lilja Mósesdóttir um Icesave-nauðasamninga

Lilja víkur orðum að málinu þannig:

Kröfuhafar gömlu bankanna og útrásarvíkinganna leita enn leiða til að koma kröfum sínum yfir á skattgreiðendur í stað þess að láta gömlu bankana og útrásarvíkingana borga. Forysta stjórnarflokkanna hefur ýtt undir þessa viðleitni kröfuhafanna með ítrekuðum nauðsamningum um „Icesave skuldbindinguna“, andstöðu við almennar skuldaleiðréttingar sem hefðu rýrt eignir kröfuhafa og stuðning við gjaldeyrishöft sem koma í veg fyrir að aflandskrónur og aðrar eignir kröfuhafa verði afskrifaðar. Á bak við aflandskrónurnar og eignir kröfuhafa gömlu bankanna voru einkaskuldir fyrirtækja sem fóru í þrot. Þjóðarbúið hefur því ekki efni á að greiða út þessar aflandskrónur og eignir kröfuhafa ...

Sjá nánar þessa nýju grein á vefsíðu hennar: Þjóðnýting einkaskulda -- almenningur blóðmjólkaður.


"Vinnubrögðin eru ólýsanleg" - og um ráðherraábyrgð í Icesave-máli

"Niðurstaðan var stórkostlegt klúður." Við enduðum á þeim orðum Sveins Valfells í samantekt hér á undan. Hann var að ræða um Icesave-vinnu Svavars! En frábær grein hans hélt þannig áfram:

  • "Í seinna skiptið var skipaður erlendur lögfræðingur með haldbæra reynslu, Lee Buchheit. En sá hafði erfitt verk að vinna. Málið var komið í vondan farveg vegna samninganna sem flokksbróðir Steingríms hafði áður gert og Steingrímur lagt fyrir þing og fengið lögfesta.
  • Ef ráðherra skipar vanhæfan mann ótengdan sér að semja í þýðingarmiklu máli, það eru stórkostleg afglöp. Að útvega flokksfélaga bitling hjá ríkinu er þjófnaður af almannafé. En Steingrímur J. Sigfússon skipaði mann sem var bæði vanhæfur til starfans og einnig samherji til margra ára í pólitík til að leiða eitt þýðingarmesta milliríkjamál í sögu lýðveldisins, hundruð milljarða voru í húfi. Vinnubrögðin eru ólýsanleg.
  • Í lögum um ráðherraábyrgð segir skýrt að krefja megi ábyrgðar ráðherra sem „af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi [hafi] stofnað hagsmunum ríkisins í fyrirsjáanlega hættu.“ Það gerði Steingrímur J. Sigfússon þegar hann lagði ríkissjóð að veði vegna Icesave.
  • Ennfremur segir í 91. grein íslenskra hegningarlaga: „[Fangelsi allt að 16 árum] skal enn fremur hver sá sæta, sem falið hefur verið á hendur af íslenska ríkinu að semja eða gera út um eitthvað við annað ríki, ef hann ber fyrir borð hag íslenska ríkisins í þeim erindrekstri.“ Ekki verður annað séð en að Svavar Gestsson og Steingrímur J. Sigfússon hafi báðir brotið þessa grein, Svavar með frammistöðu sinni í samningum við Breta og Hollendinga og Steingrímur með því að leggja klúður Svavars fyrir þingið.
  • Greinilegt er af því sem opinberlega er vitað um þetta eina mál, Icesave, að Steingrímur J. Sigfússon verðskuldar að vera ákærður fyrir Landsdóm. Hverju skyldi þá gegna um aðrar embættisfærslur hans?"

Sveinn Valfells  Það er enn meira í grein Sveins í Morgunblaðinu 14. þ.m., Icesave og traust Alþingis! Engin furða, að hún hafi verið endurbirt á vef Samstöðu þjóðar, en við höfum farið rólegar í það hér, og þó er hún með því albezta sem birzt hefur um Icesave-málið og verðskuldar því að vera öllum aðgengileg. --JVJ.


Stórkostlegt klúður Steingríms og samherja hans í Icesave-máli

"Skýrt er tekið fram í tilskipun ES um innistæðutryggingar að þjóðríki skuli ekki bera ábyrgð gagnvart innistæðueigendum hafi þau innleitt tryggingakerfi. Fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis að innistæðutryggingakerfi á Íslandi var með svipuðum hætti og í mörgum öðrum Evrópulöndum, jafnvel betra en í sumum. Rannsóknarnefndin bendir á að markmið þágildandi tilskipunar ES um innistæðutryggingar hafi verið mótsagnakennd og engar athugasemdir hafi verið gerðar við íslenska fyrirkomulagið fyrir bankahrun. Rannsóknarnefndin er þeirrar skoðunar að Ísland hafi framfylgt tilskipun ES um innistæðutryggingar."

Þannig ritar Sveinn Valfells um Icesave-málið í Morgunblaðinu í dag, í grein sinni Icesave og traust Alþingis, en um þá frábæru grein var rætt hér fyrr í dag og upphaf hennar (fram að þessum texta) birt þar (sjá HÉR!).

Menn eru hvattir til að lesa greinina alla, en þegar hér er komið sögu í henni, fer að hilla undir meiri spennu í henni, eins og sést hér á framhaldinu, og eru þó mestu tíðindin og háskaþrungin spennan þá eftir, enda greinin ekki hálfnuð enn:

  • Þegar bankar féllu höfðu neyðarlög verið sett til frekari verndar innistæðueigendum og ríkissjóði. Bresk og hollensk stjórnvöld ákváðu einhliða að greiða út innistæðutryggingar jafnharðan í eigin löndum og gera kröfu á ríkissjóð Íslands en ekki Tryggingasjóð eða þrotabú Landsbanka. Í stað þess að reyna verja hagsmuni ríkissjóðs af krafti skipaði þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, samherja í pólitík til forystu sendinefndar sem semja átti við Bretland og Holland. Svavar Gestsson var fenginn til að semja um ólögmætar kröfur upp á mörg hundruð milljarða, liðlega þriðjung þjóðarframleiðslu, en hafði enga reynslu eða menntun til starfans. Niðurstaðan var stórkostlegt klúður."

Já, hér æstist leikurinn, og fylgið Sveini eftir í blaðinu ...

JVJ. 


Hér sér til sólar í Icesave-málinu!

Á sama tíma og sú ánægjulega frétt var staðfest, að norskur dómari í EFTA-dómstólnum hefði vikið þar sæti i Icesave-málinu vegna vanhæfi, birtist í kjölfarið mögnuð og glæsileg grein eftir Svein Valfells, eðlisfræðing og hagfræðing, í Mbl. í dag. Icesave og traust Alþingis nefnist hún og er ljúf skyldulesning fyrir alla áhugamenn um málið, en þeir skipta tugum þúsunda.

Greinin er sennilega bezta stutta yfirlitið sem birzt hefur um þetta mál hingað til. En hún er ekki aðeins yfirlit um sögu málsins, heldur leiðir einnig með skýrum rökum til niðurstaðna, sem munu standa í fáum einum, en verða mörgum augljósar og afgerandi og gera í sjálfum sér kröfu til aðgerða.

Grein Sveins Valfells hefst þannig:

  • Föstudaginn 9. mars birti utanríkisráðuneytið greinargerð um Icesave. Greinargerðin útskýrir á hve veikum grunni kröfur um ríkisábyrgð á innistæðutryggingum vegna Icesave-innlánsreikinga Landsbankans eru byggðar. Greinargerðin var fyrst birt á íslensku, degi síðar á ensku eftir kvörtun til utanríkisráðherra. Enginn blaðamannafundur eða önnur kynning á efni greinargerðarinnar hefur farið fram.
  • Núverandi ríkisstjórn festi í tvígang í lög samninga um ábyrgð ríkissjóðs á innistæðutryggingum vegna Icesave. Málið var á forræði þáverandi fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar. Fyrri samningurinn var öllu verri en sá seinni. Eftir þrýsting frá almenningi og grasrótarhreyfingum vísaði forseti Íslands í bæði skiptin lögunum til þjóðar. Báðum samningum var hafnað með miklum meiri hluta greiddra atkvæða.
  • Greinargerðin frá 9. mars leggur fram rök sem strax í upphafi hefðu átt að vera tíunduð vel og rækilega, ekki bara gagnvart Bretum og Hollendingum heldur einnig á alþjóðavettvangi. Málstaður Íslands hafði þar og hefur enn mikla samúð þrátt fyrir litla sem enga kynningu íslenskra stjórnvalda. 

Lesið nú framhaldið í Morgunblaðinu og sannfærizt um, hve spennuþrungin saga þetta reyndist verða og af hvílíkri snilld það var skrifað.

En dómarinn norski, Per Christiansen, sem nánast var rutt úr EFTA-dómstólnum, hafði tekið þar sæti "í byrjun árs 2011, en áður hafði hann gegnt stöðu lagaprófessors við háskólann í Tromsø í Noregi," eins og Mbl.is segir frá í frétt, en hann reyndist vanhæfur til að dæma í hinu mikla hagsmunamáli Íslendinga í dómnum, því að "sem lagaprófessor hafði hann tjáð sig í fjölmiðlum um Icesave-málið" og reyndar með neikvæðri umfjöllun um okkar málstað, með áliti, sem eðlilega var gagnrýnt fyrir rökleysu.

  • Á heimasíðu EFTA-dómstólsins er tilkynning Christiansens tímasett 21. desember síðastliðinn. Í stað hans mun varadómari af hálfu Norðmanna dæma í málinu. Vakin var athygli á mögulegri vanhæfni Christiansens til þess að dæma í Icesave-málinu í frétt í Morgunblaðinu 22. júní á síðasta ári og síðan aftur 14. desember síðastliðinn. (Mbl.is.)

Hafi Christiansen tilkynnt um þetta í desember, bárust undarlega seint af því fregnir hingað. Loftur Þorsteinsson í Þjóðarheiðri hefur verið röskur við að gagnrýna setu Christiansens í EFTA-dómstólnum á þessu ári, með skýrum rökum og ágengum, og rennir undirritaðan í grun, að sú hafi verið ástæðan til að Christiansen vék úr dómnum. Ef þetta er ekki ástæðan, hefði ekki nú þegar verið búið að skipa annan mann í staðinn? En ýmsum embættismönnum er sýnt um að fá ekkert ryk á hvítflibbann, og ef við skoðum myndina með Mbl.is-fréttinni, þá kemur einmitt í ljós, að Per Christiansen er með fínustu hvítflibbamönnum Norðurlanda!

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Dómari sagði sig frá Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki GEÐVEIKT að una EES-samningi?

Viggó Jörgensen á snjallan pistil á blogginu í dag: Sökin er hjá Alþingi, að hafa gengið í Evrópska efnahagssvæðið, segir m.a.:

  • Eftir að Alþingi ákvað að gerast aðili að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) var landið stjórnlaust, innanlands, í bankamálum. 
  • Alþingi og framkvæmdavaldið voru skuldbundin til að setja ekki aðrar reglur en þær sem giltu á EES. 
  • Lagasetningarvaldið í bankamálum Íslendinga var komið til Evrópusambandsins (ESB). 
  • Þar sem Íslendingar eru ekki í ESB hefði verið hægt að segja upp EES samningnum árið 2005. 
  • Sem var síðasta árið til að bjarga íslenska bankakerfinu miðað við þær aðstæður sem urðu eftir það. 
  • Þar sem mikill meirihluti utanríkisviðskipta Íslands er við lönd í EES kom engum til hugar að ganga þaðan út. 
  • Íslenskir alþingismenn höfðu ekki minnsta grun um hvað fólst í samningnum um EES eins og síðar kom í ljós. 
  • Til dæmis þá eftirá-túlkun ESB að íslensk stjórnvöld ættu að bera ábyrgð á innstæðum í einkabönkum. 
  • Og stóru ríkin í ESB hafa markmisst unnið að því að þröngva þeirri lögskýringu inn á Íslendinga ...

Framhald greinarinnar má finna hér!

Undirritaður þakkaði Viggó pistilinn, einkum það sem hann ritaði um samninginn ófarsæla um Evrópska efnahafssvæðið, og ég bætti við:

  • Nú ætlast þeir jafnvel til, með nýrri tilskipun, sem bíður okkar að innfæra hér í lög, að við tryggjum allar innistæður í bönkunum upp að 100.000 evrum (16,6 milljónum króna) og gerum það með BEINNI RÍKISTRYGGINGU, um leið og krafan um greiðslu tryggingarinnar er stytt úr nokkrum mánuðum niður í 2–3 daga!!!
  • Þetta eitt ætti að nægja til að sýna, hvað þetta er GEÐVEIKT!

JVJ.


Vissi Geir eða vissi ekki af Icesave-reikningunum í Hollandi? Hvenær og hvað vissi hann um þá?

Það er undarlegt að Geir Haarde segist fyrir landsdómi ekki hafa haft neina "sérstaka vitneskju" um Icesave-reikningana sem Landsbankinn hóf að bjóða upp á í Hollandi í lok maí 2008.

Yfirheyrslur í landsdómi virðast leiða í ljós stórfelldan ágalla á upplýsingastreymi í stjórnkerfinu um málefni bankanna, það hefur mátt skilja á fréttum í gær og í dag.

  • „Ég hafði enga sérstaka vitneskju um það, þeir tilkynntu þetta til Fjármálaeftirlitsins og síðan opnuðu þeir bara,“ sagði Geir og sagði það hafa verið lögum samkvæmt. „En þetta rak ekkert á mínar fjörur sem eitthvert mál sem ég átti að taka afstöðu til. Kerfið var bara eins og það var, og maður sér eftir á að það var auðvitað meingallað að menn gætu vaðið svona í stofnun þessara reikninga, án þess að hafa einhvern sérstakan bakhjarl fyrir því.“

Og takið eftir þessu:

  • Geir sagðist hafa haft áhyggjur af Landsbankareikningunum í Bretlandi og fylgst grannt með þeim. „Það stóðu ekki traustar eignir á móti þessu.“

Ef Geir hafði þessa skoðun, af hverju fylgdist hann þá ekki með stofnun Icesave-reikninganna í Hollandi? Spyrja má, hvort það sé hlutverk forsætisráðherra, en það er reyndar mikið ábyrgðarhlutverk, og þar að auki er Geir hagfræðimenntaður og hlýtur að hafa haft auga á meiri háttar fjárhagsmálum sem tengdust beint eða óbeint ríkinu eða öllu heldur þjóðarbúskapnum.

Ef Geir hafði þessar áhyggjur af Landsbankaeignum í tengslum við Icesave-reikningana í Bretlandi, af hverju stafar þá þetta áhugaleysi eða jafnvel þekkingarleysi um Icesave í Hollandi? Vissi hann ekki af sendiferð og glans-auglýsingu Jóns Sigurðssonar, formanns stjórnar FME, í þágu opnunar Icesave-reikninga í Hollandi?

Ef Geir taldi eignaleysi há Landsbankanum í Hollandi, hefði hann ekki átt að vera í miklu sambandi við bankamálaráðherrann Björgvin? Hefði það getað komið í veg fyrir, að Björgvin legði blessun sína yfir auglýsinga-sendiför Jóns Sigurðssonar til Hollands?

Hvers vegna var þeim Geir og Ingibjörgu Sólrúnu leyft að halda Björgvin utan við samráð um bankamál o.fl. efnahagsmál? Báru þau það undir ríkisstjórnina sem slíka? Samræmdist það lögunum um ráðherraábyrgð og verkaskiptingu samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands?

Geir segist ekki hafa haft "neina sérstaka vitneskju" um Icesave í Hollandi í maí 2008. Þýðir það enga vitneskju? Um það hefði átt að spyrja hann. Og hvenær fekk hann "sérstaka vitneskju" um málið? Hvað gerði hann þá, ræddi hann það þá við FME eða bankamálaráðherrann eða þó ekki væri nema Ingibjörgu Sólrúnu? Á ekki eftir að svara ýmsum spurningum?

Greinilega eru ekki öll kurl komin til grafar í Icesave-málinu. Landsmenn hljóta því að fylgjast áfram með þeim málum, sem eru þó aðeins lítill hluti þess, sem rætt er fyrir landsdómi. En þó að líklegt sé, að brezk og hollenzk stjórnvöld fylgist líka með þessu, þarf það ekki að merkja, að upplýsingar, sem komið hafa fram í landsdómi, eigi eftir að veikja réttarstöðu okkar í einu né neinu.

Um þetta mál og óvænta fleti þess verður fjallað í annarri grein hér í kvöld.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Vissi ekki af Icesave-reikningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afturgenginn Frankenstein: Icesave IV

  • Eftir Daníel Sigurðsson: "Ljóst er að aðeins galdramaður ættaður af Vestfjörðum mun vera í stakk búinn til að kveða þennan draug niður."

mynd 2012/02/23/G87ON70O.jpg 

Því miður virðist Frankenstein í gervi Icesave IV vera á teikniborði ríkisstjórnarinnar og eiga að sjá til þess að ríkisstjórnin fái nokkra uppreist æru eftir hraksmánarlega frammistöðu sína í málinu.
 
Ráðning þeirra tveggja lögmanna (annar breskur!) sem halda eiga uppi vörnum Íslands fyrir EFTA-dómstólnum bendir til að ríkisstjórnin sé staðráðin í að tapa málinu þar.
 

Furðuviðtal á RÚV við annan lögmanninn, Jóhannes Karl Sveinsson, sem sat í samninganefndinni í Icesave-málinu virðist staðfesta þetta (Spegill RÚV 14.12. sl.) Þar segist hann naga sig enn meira í handarbökin út af því en áður að Íslendingar skyldu ekki hafa borið gæfu til að samþykkja Icesave III við Breta og Hollendinga. M.ö.o. lýsir þessi málpípa ríkisstjórnarinnar því yfir að málið sé fyrir fram tapað fyrir EFTA-dómstólnum. Þessi ummæli endurspegla annarlegar hvatir ríkisstjórnarinnar í málinu og eru þeim mun dapurlegri í ljósi þess að með samþykki Icesave III væri þjóðarbúið nú þegar búið að sjá af nær 50 milljarða óafturkræfri vaxtagreiðslu í beinhörðum gjaldeyri í þetta svarthol sem væri aðeins byrjunin.

Eftirfarandi ummæli lögmannsins í viðtalinu, um þá stöðu sem upp kæmi ef dómsmál tapaðist, eru þó sýnu alvarlegri:

„Að mínu mati væri það óðs manns æði að reyna ekki að ná samningum.“

Það liggur sem sé fyrir að ríkisstjórnin ætlar að berjast um á hæl og hnakka fyrir því að málið endi ekki fyrir Hæstarétti Íslands (sem myndi gera uppreistaráform hennar að engu) þó svo fyrir liggi lögfræðiálit virtustu lögspekinga um að yfirgnæfandi líkur séu á að B&H gjörtapi skaðabótamáli þar. Þvert á móti ætlar ríkisstjórnin sér í framhaldinu að grátbiðja bresk og hollensk stjórnvöld um að setjast enn á ný að samningaborði um nýja hrollvekju, Icesave IV.

Ríkisstjórnin mun ekki fella stór tár þó svo hin nýja afturganga, Frankenstein fjórði, yrði enn ógnvænlegri þjóðinni en Frankenstein þriðji sem felldur var í þjóðaratkvæðagreiðslunni sl. vor, enda á þjóðin og forsetinn ekkert betra skilið að mati ríkisstjórnarinnar fyrir að þverskallast gegn vilja hennar í málinu.

Í millitíðinni mun svo ríkisstjórnin auðvitað gera allt sem í hennar valdi stendur til að koma auðsveipum handlangara að á Bessastöðum í vor til að leggja blessun sína yfir hinn nýja uppvakning þegar hann bankar þar á dyr eftir að hafa riðið húsum á Alþingi og knúið þingheim til uppgjafar.

Ljóst er að aðeins galdramaður ættaður af Vestfjörðum mun vera í stakk búinn til að kveða þennan draug niður og þar með þráhyggjuáform ríkisstjórnarinnar að láta þjóðina axla Icesave-klafann. Maður þessi hefur sagt þjóðina hafa lögsöguna í málinu. Hann mun vonandi tryggja að svo verði áfram þar til afturganga þessi hefur endanlega verið kveðin niður.

Því miður virðist martröðin um einbeittan ásetning forystumanna ríkisstjórnarinnar um að koma Icesave-klafanum á þjóðina enn geta orðið að ísköldum veruleika.

Stöndum saman að áskorun til núverandi forseta um að standa áfram vaktina: http://askoruntilforseta.is/

Höfundur er véltæknifræðingur.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í fyrradag; endurbirt hér með góðfúslegu leyfi höfundar. 

 


mbl.is „Björguðum Íslandi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn hægt að skrifa undir áskorun á forsetann að gefa áfram kost á sér

Á mánudag, 20. febrúar, hefur átak stuðningsmanna Ólafs Ragnars staðið yfir í réttan mánuð. Þetta er það sem Icesave-stefnumenn óttast allra mest: að forsetinn haldi áfram!

Smellið hér á askoruntilforseta.is til að skoða stöðuna (mynd er þar af Ólafi Ragnari og Dorrit forsetafrú) og til að taka þátt í þeim tilmælum til herra Ólafs Ragnars Grímssonar, að hann gefi áfram kost á sér í embættið. Vefsíðan verður opin fram yfir helgina.

Athugið, að þeir, sem ekki eru sjálfir með tölvu, geta hringt í undirritaðan í síma 616-9070 og fengið aðstoð við að skrá nafn sitt á listann. Fjöldi manns, meiri hlutinn tölvulaust fólk, roskið eða aldrað, hefur þegið boð um þessa aðstoð frá því í síðustu viku.

Jón Valur Jensson. 


Undirskriftir stuðningsmanna Ólafs Ragnars Grímssonar nálgast 31.000

Glæsileg hefur þátttakan verið í undirskriftum á vefsíðunni ÁSKORUN TIL FORSETA (askoruntilforseta.is) um að sitjandi forseti þjóðarinnar gefi áfram kost á sér í embættið. Um 30.700 hafa nú skrifað undir eftirfarandi hvatningu til hans:

  • Við undirrituð skorum á þig, herra Ólafur Ragnar Grímsson, að gefa kost á þér til forsetakjörs í sumar. Við treystum þér betur en nokkrum öðrum manni til að standa vörð um hagsmuni fólksins í landinu á þeim erfiðu tímum sem fram undan eru.

Félagar í Þjóðarheiðri – samtökum gegn Icesave – standa í ævarandi þakkarskuld við Ólaf Ragnar. Það sama á við um íslenzka þjóð. Forsetaembættið hefur vegna aðgerða hans borgað sig næstu þúsund árin eða svo vegna fyrra málskots hans á Icesave-ólögum til þjóðarinnar, en samkvæmt þeim væri nú búið að gjalda yfir 120 milljarða króna í óendurkræfa vexti af gerviskuldinni. Þessi fjárhæð hefði valdið hér efnahagslegu fárviðri – stórfelldum niðurskurði, kjararýrnun og fátækt alþýðu.

Hefur þjóðin efni á því að fá óvissu um þessi mál í stað þessa forseta? NEI. Þess vegna sameinast nú menn og konur úr öllum flokkum um að leita eftir því við Ólaf Ragnar Grímsson, að hann haldi áfram að þjóna landi sínu og þjóð.

Við höfum ekki efni á því að sýna neitt andvaraleysi, meðan enn geta vofað yfir okkur smánarsamningar stjórnmálamanna við útlendinga veifandi ranglátum, löglausum kröfum sínum

Það er enn hægt að fara inn á þessa vefsíðu til að styðja ákallið til Ólafs Ragnars. Þeir, sem ekki eru sjálfir með tölvu, geta hringt í undirritaðan í síma 616-9070 og fengið aðstoð við að skrá nafn sitt á listann. Fjöldi manns, meiri hlutinn tölvulaust fólk, roskið og aldrað, hefur þegið boð um þessa aðstoð frá því í síðustu viku, flestir síðan á mánudag. Það er gefandi að hlusta á það fólk og einlægan stuðning þess við okkar framúrskarandi hæfa forseta.

Jón Valur Jensson. 


Stórmerk grein Gunnars Tómassonar hagfræðings í Mbl. í dag sýnir forsenduleysi fyrir fullyrðingum ESA í Icesave-máli

ESA stefndi íslenzkum stjórnvöldum fyrir EFTA-dómstólinn vegna meints brots á tilskipun Esb. um innstæðutryggingar, en ... 

  • "Það er mat undirritaðs að ákæra ESA stangist á við ákvæði tilskipunarinnar og sé liður í áframhaldandi þvingunaraðgerðum gegn Íslandi utan laga og réttar,"

segir hagfræðingurinn meðal annars í ýtarlegri, afar vel rökstuddri grein. Einnig síðar, í ályktun byggðri á góðri rökfærslu:

  • "Það skortir öll efnisrök fyrir fullyrðingu ESA að Ísland hafi vikist undan skuldbindingum sínum í sambandi við uppgjör Icesave-innstæðna."

Gunnar vekur í seinni hluta greinar sinnar athygli á því, að dagsetning á viðbrögðum Fjármálaeftirlitsins við hruni Landsbankans "skiptir höfuðmáli þar sem greiðsluskylda íslenzka innstæðutryggingarsjóðsins samkvæmt Directive 94/19/EC miðast við dagsetningu álits FME," og á þessu formlega atriði falla kröfur brezku og hollenzku ríkissjóðanna og afstaða ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA) eins og spilaborg. Þetta er afar spennandi nálgun á málið, og á höfundur miklar þakkir skildar fyrir þessi skrif.

Í blálok greinar sinnar ritar hann:

  • "Sá vefur ósanninda sem rakinn er í 1-5 hér að ofan bendir eindregið til þess að yfirstjórn ESA hefur verið sér meðvitandi um eigin rangtúlkanir á tímasetningu atvika og ákvæðum Directive 94/19/EC. Ákæra ESA fyrir EFTA-dómstólnum væri því lokaþáttur þvingunaraðgerða Evrópustofnananna ..."

Hér er þessi grein Gunnars Tómassonar í heild: Ákæra ESA fyrir EFTA dómstólnum. Fáið ykkur þetta blað, ef þið fáið það ekki sem áskrifendur!

Jón Valur Jensson.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband