Vissi Geir eða vissi ekki af Icesave-reikningunum í Hollandi? Hvenær og hvað vissi hann um þá?

Það er undarlegt að Geir Haarde segist fyrir landsdómi ekki hafa haft neina "sérstaka vitneskju" um Icesave-reikningana sem Landsbankinn hóf að bjóða upp á í Hollandi í lok maí 2008.

Yfirheyrslur í landsdómi virðast leiða í ljós stórfelldan ágalla á upplýsingastreymi í stjórnkerfinu um málefni bankanna, það hefur mátt skilja á fréttum í gær og í dag.

  • „Ég hafði enga sérstaka vitneskju um það, þeir tilkynntu þetta til Fjármálaeftirlitsins og síðan opnuðu þeir bara,“ sagði Geir og sagði það hafa verið lögum samkvæmt. „En þetta rak ekkert á mínar fjörur sem eitthvert mál sem ég átti að taka afstöðu til. Kerfið var bara eins og það var, og maður sér eftir á að það var auðvitað meingallað að menn gætu vaðið svona í stofnun þessara reikninga, án þess að hafa einhvern sérstakan bakhjarl fyrir því.“

Og takið eftir þessu:

  • Geir sagðist hafa haft áhyggjur af Landsbankareikningunum í Bretlandi og fylgst grannt með þeim. „Það stóðu ekki traustar eignir á móti þessu.“

Ef Geir hafði þessa skoðun, af hverju fylgdist hann þá ekki með stofnun Icesave-reikninganna í Hollandi? Spyrja má, hvort það sé hlutverk forsætisráðherra, en það er reyndar mikið ábyrgðarhlutverk, og þar að auki er Geir hagfræðimenntaður og hlýtur að hafa haft auga á meiri háttar fjárhagsmálum sem tengdust beint eða óbeint ríkinu eða öllu heldur þjóðarbúskapnum.

Ef Geir hafði þessar áhyggjur af Landsbankaeignum í tengslum við Icesave-reikningana í Bretlandi, af hverju stafar þá þetta áhugaleysi eða jafnvel þekkingarleysi um Icesave í Hollandi? Vissi hann ekki af sendiferð og glans-auglýsingu Jóns Sigurðssonar, formanns stjórnar FME, í þágu opnunar Icesave-reikninga í Hollandi?

Ef Geir taldi eignaleysi há Landsbankanum í Hollandi, hefði hann ekki átt að vera í miklu sambandi við bankamálaráðherrann Björgvin? Hefði það getað komið í veg fyrir, að Björgvin legði blessun sína yfir auglýsinga-sendiför Jóns Sigurðssonar til Hollands?

Hvers vegna var þeim Geir og Ingibjörgu Sólrúnu leyft að halda Björgvin utan við samráð um bankamál o.fl. efnahagsmál? Báru þau það undir ríkisstjórnina sem slíka? Samræmdist það lögunum um ráðherraábyrgð og verkaskiptingu samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands?

Geir segist ekki hafa haft "neina sérstaka vitneskju" um Icesave í Hollandi í maí 2008. Þýðir það enga vitneskju? Um það hefði átt að spyrja hann. Og hvenær fekk hann "sérstaka vitneskju" um málið? Hvað gerði hann þá, ræddi hann það þá við FME eða bankamálaráðherrann eða þó ekki væri nema Ingibjörgu Sólrúnu? Á ekki eftir að svara ýmsum spurningum?

Greinilega eru ekki öll kurl komin til grafar í Icesave-málinu. Landsmenn hljóta því að fylgjast áfram með þeim málum, sem eru þó aðeins lítill hluti þess, sem rætt er fyrir landsdómi. En þó að líklegt sé, að brezk og hollenzk stjórnvöld fylgist líka með þessu, þarf það ekki að merkja, að upplýsingar, sem komið hafa fram í landsdómi, eigi eftir að veikja réttarstöðu okkar í einu né neinu.

Um þetta mál og óvænta fleti þess verður fjallað í annarri grein hér í kvöld.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Vissi ekki af Icesave-reikningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband