Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2012

Stórmerk grein Gunnars Tómassonar hagfræðings í Mbl. í dag sýnir forsenduleysi fyrir fullyrðingum ESA í Icesave-máli

ESA stefndi íslenzkum stjórnvöldum fyrir EFTA-dómstólinn vegna meints brots á tilskipun Esb. um innstæðutryggingar, en ... 

  • "Það er mat undirritaðs að ákæra ESA stangist á við ákvæði tilskipunarinnar og sé liður í áframhaldandi þvingunaraðgerðum gegn Íslandi utan laga og réttar,"

segir hagfræðingurinn meðal annars í ýtarlegri, afar vel rökstuddri grein. Einnig síðar, í ályktun byggðri á góðri rökfærslu:

  • "Það skortir öll efnisrök fyrir fullyrðingu ESA að Ísland hafi vikist undan skuldbindingum sínum í sambandi við uppgjör Icesave-innstæðna."

Gunnar vekur í seinni hluta greinar sinnar athygli á því, að dagsetning á viðbrögðum Fjármálaeftirlitsins við hruni Landsbankans "skiptir höfuðmáli þar sem greiðsluskylda íslenzka innstæðutryggingarsjóðsins samkvæmt Directive 94/19/EC miðast við dagsetningu álits FME," og á þessu formlega atriði falla kröfur brezku og hollenzku ríkissjóðanna og afstaða ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA) eins og spilaborg. Þetta er afar spennandi nálgun á málið, og á höfundur miklar þakkir skildar fyrir þessi skrif.

Í blálok greinar sinnar ritar hann:

  • "Sá vefur ósanninda sem rakinn er í 1-5 hér að ofan bendir eindregið til þess að yfirstjórn ESA hefur verið sér meðvitandi um eigin rangtúlkanir á tímasetningu atvika og ákvæðum Directive 94/19/EC. Ákæra ESA fyrir EFTA-dómstólnum væri því lokaþáttur þvingunaraðgerða Evrópustofnananna ..."

Hér er þessi grein Gunnars Tómassonar í heild: Ákæra ESA fyrir EFTA dómstólnum. Fáið ykkur þetta blað, ef þið fáið það ekki sem áskrifendur!

Jón Valur Jensson.


Hið dásamlega "nýja Ísland" Jóhönnu!

Jóhanna er enn að blaðra um baráttu sína fyrir "hinu nýja Íslandi"! Var ekki Icesave partur af pakka Jóhönnu og Steingríms frá Alþjóða-gjaldeyrissjóðnum? –Jú, Kristin Halvorsen upplýsti á sínum tíma sem fjármálaráðherra Noregs, að AGS hafi sett Norðmönnum þá skilmála, að fresta yrði lofuðu láni til Íslands, nema við kláruðum Icesave-samninginn!

Þvert gegn streituhugsun Steingríms og Jóhönnu, sem þau hafa aldrei fengizt ofan af, þ.e. að við hefðum átt að borga Icesave-kröfu gömlu nýlenduveldanna í landsuðri, þá er staðreyndin sú, að við áttum EKKERT að borga (en skýrslu um það FALDI Össur, þvert gegn einhverjum alvarlegustu lögum landsins).

Icesave-I-samningurinn hefði hingað til kostað okkur yfir 120 milljarða króna í eina saman VEXTI (110 ma. til 1. okt. sl.) – og það ÓAFTURKRÆFA vexti – og allt í erlendum gjaldeyri! En það "nýja Ísland", sem af þessu hefði hlotizt, hefði verið RÚSTUN velferðarkerfis okkar og þrælaánauð skattgreiðenda í þágu ríkissjóða Breta og Hollendinga!

Icesace-III-samningurinn, sem sumir tala enn um (eins og Jóhanna gerði HÉR daginn fyrir seinni þjoðaratkvæðagreiðsluna) sem "betra [í stað: illskárra] tilboð", var jafn-löglaus og hinn fyrri, en hefði kostað okkur um eða tæpa tvo milljarða króna á hverjum mánuði í óafturkræfum vaxtagreiðslum eða sem nemur verðmæti heils ríkisfangelsis á Hólmsheiði á 36 daga fresti – og þær síendurteknu greiðslur stæðu ENN yfir, ef þetta ábyrgðarlausa "bjartsýnis"-lið hefði fengið að ráða hér, þvert gegn þjóðarvilja og þjóðarhag. Óneitanlega partur af því "nýja Íslandi" sem Jóhanna og Steingrímur reyndu að koma hér á, ekkert síður en "skjaldborgin" þeirra, sem fór víst vegavillt í framkvæmdinni!

Það er alls ekki að bera í bakkafullan lækinn að ræða enn og aftur Icesave-málið, því að þetta tvíeyki, parið Steingrímur og Jóhanna, hugsjónarímynd hins "nýja Íslands", situr enn á fjörráðum við þjóð sína í þessu bannsetta máli.

Full þörf er á því að fylgjast vel með Steingrími J. Sigfússyni, nú eftir að hann hefur rutt úr vegi Árna Páli Árnasyni sem efnahags- og viðskiptaráðherra og setzt jafn-ábúðarmikill í stól hans eins og Jóns Bjarnasonar, sem reynt hafði að fylgja samvizku sinni í öðru máli fyrir landsins hönd.

Steingrímur hefur sýnt það, svo að ekki verður um villzt, að honum er ekki treystandi. Fullrar vöktunar er því þörf á þessum tveimur!

PS. Greinilega hefur ritskoðun verið beitt við þessa vefgrein, því að tengd var hún frá upphafi við frétt af ummælum Jóhönnu á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar í morgun (HÉR!), en sú tenging hefur verið rofin, og það gerist ekki án íhlutunar vefstjóra á blog.is eða mbl.is. Annað dæmi um slíkt rof vefsíðu við fréttir er nýlegt: þegar það sama var gert við vefsetur Samstöðu þjóðar. – Já, ritskoðun er óvíða lengur við lýði nema einna helzt í Kína, Sýrlandi og öðrum einræðisríkjum – og nú einnig hér á Íslandi! Hvað skyldi Davíð segja um það? – En lesendum síðunnar er velkomið að stuðla að lestri hennar með Facebókartengingu eða með öðrum hætti; með því sýnum við hug okkar gegn ritskoðun!

Jón Valur Jensson.


Blaðafulltrúi óvinsællar ríkisstjórnar, ekki þjóðarinnar

Jóhann Hauksson blaðamaður starfaði ekki í þágu þjóðarinnar, þegar hann gerðist eindreginn málsvari Icesave-klafans á Íslendinga.* Sem betur fer var minnst hlustað á menn eins og hann í þjóðaratkvæðagreiðslunum. Frægt er það atvik úr Bessastaðastofu þegar forsetinn stakk upp í þennan framhleypna blaðamann með eftirminnilegum hætti. 

Fyrir tveimur árum var auglýst embætti blaðafulltrúa forsætisráðuneytisins. Tugir manna sóttu um, en síðan var HÆTT VIÐ að stofna til starfans. Hefur Jóhanna Sig. kannski átt erfitt með að ganga þar fram hjá mun hæfari mönnum en Jóhanni. Nú er því gripið til þess ráðs að auglýsa starf "blaðafulltrúa ríkisstjórnarinnar" og gera það ÁN AUGLÝSINGAR, að því er virðist þvert gegn lögum!

Baldur Hermannsson telur á Facebók sinni (skv. Fréttatímanum í dag, s. 24) að nú geti Jóhann "fengist við það sem honum lætur best: áróður í formi upplýsinga." 

Skyldum við eiga eftir að hlusta á enn meiri Icesave-áróður úr munni Jóhanns Haukssonar og nú á fullum launum frá okkur sjálfum?!

* Icesave-I hefði þegar kostað okkur yfir 120 milljarða króna í ÓENDURKRÆFA VEXTI (og allt í erlendum gjaldeyri) – vaxtakröfur í þrotabú eru ekki meðal forgangskrafna – féð væri tapað. Sjá greinar hér á vefnum. En 120 milljarða klafinn hefði reynzt okkur gríðarleg efnahagsáraun, leitt til fjöldabrottrekstrar ríkisstarfsmanna, óvægins niðurskurðar á skólakerfi, heilbrigðisþjónustu og framkvæmdum ríkisins og til skattaáþjánar alþýðu.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Nýr upplýsingafulltrúi stjórnarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetakjör og Icesave

"Það er ekki eðlilegt að við höfum hér stjórn sem hefur gengið gegn þjóðarhagsmunum." Nokkurn veginn þannig mæltist Ólaf Ísleifssyni hagfræðingi í þætti í Útvarpi Sögu í gær. Hann er sjálfur vinsæll í hlustendakönnun sem forsetaefni, skorar þar næsthæst á eftir Ólafi Ragnari Grímssyni. En í fyrrgreindum orðum var hann að tala um Icesave að sjálfsögðu.

ÁSKORUN TIL FORSETA um að gefa áfram kost á sér í embættið hefur gengið afar vel, á þessari vefsíðu, komnar rétt tæplega 17.000, þegar þetta er ritað. Ólafur Ragnar Grímsson er réttur maður í starfið, en nafni hans greinilega með hjarta á réttum stað líka: hjá þjóðinni fremur en stjórnvödum.

JVJ. 



Áskorunarsíða um herra Ólaf Ragnar sem forseta Íslands í 5. sinn

ÁSKORUN TIL FORSETA um að gefa áfram kost á sér í embættið hefur verið hrundið af stað á sérstakri vefsíðu, og er rífandi gangur í undirskriftum þar, komnar 1116 á um tveimur tímum, þegar þetta er ritað.

Ólafur Ragnar Grímsson er sá, sem þjóðin treystir manna bezt í starf forseta Íslands, að fenginni reynslu okkar á neyðartíma í sögu lýðveldisins. Með því að vísa Icesave-I-ólögunum undir dóm þjóðarinnar hefur hann, ásamt þjóðinni sjálfri, sparað okkur yfir 120 milljarða króna í ÓENDURKRÆFAR vaxtagreiðslur hingað til (meira myndi bætast við, meðan þrotabú Landsbankans er ekki fulluppgert)!

Með málskoti Icesave-III-ólaganna til þjóðarinnar hefur forsetinn á 36 daga fresti verið að spara okkur vaxtagreiðslur sem jafngilt hefðu heilu ríkisfangelsi á Hólmsheiði – hverju eftir annað á 36 daga fresti! Um þessi mál hefur verið fjallað hér í fjölda greina hér á vefsetri Þjóðarheiðurs – samtaka gegn Icesave.

Við skulum öll taka þátt í því að tryggja okkur áfram traustan forseta hér við völd, mann sem við vitum fyrir fram, að er reiðubúinn að vera sá neyðarhemill á rangar eða vafasamar ákvarðanir stjórnmálastéttarinnar, sem þjóðinni hefur verið svo nauðsynlegur á seinni árum.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Skora á Ólaf Ragnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skýrslum ráðherra stungið undir stól

Eru það viðteknir stjórnarhættir ráðherra að stinga skýrslum undir stól (sbr. Kristján Möller vegna Vaðlaheiðarganga)? Þetta er nefnilega ekki einstakt dæmi um slíkt undanskot. Það sama gerðist í Icesave-málinu og með svo alvarlegum hætti, að leidd hafa verið rök að því, að þar hafi a.m.k. Össur Skarphéðinsson, ef ekki Steingrímur líka, brotið skýr landráðaákvæði hegningarlaganna, sjá hér: Össur biðst afsökunar (þó með sínum stærilætistöktum) vegna Mishcon de Reya-STÓRHNEYKSLIS.

Hin falda spá Hagfræðistofnunar um tregar innheimtur á veggjöldum vegna Vaðlaheiðarganga er aðalfréttin á forsíðu Morgunblaðsins í dag. Hvenær skyldi reka að því, að dagblöðin greini frá lögsókn á hendur Össuri vegna hinnar földu skýrslu lögfræðistofunnar Mishcon de Reya (sem komst að þeirri niðurstöðu, að okkur bæri ekki að greiða Icesave-rukkun ríkisstjórnar Gordons Brown)?

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Skýrslu stungið undir stól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sukkið og óráðsían í Icesave-samningamálum: 128.000 kr. @ tímann hjá Lee Buchheit og fundað í Túnis!

Ótrúlegir hlutir eru komnir í leitirnar vegna þess að blaðamaður Mbl. fylgdi því hraustlega eftir að fá umbeðnar upplýsingar um kostnað vegna Icesave-samninganefndar undir forystu Buchheits. Ráðuneytið gaf sig ekki fyrr en úrskurðarnefnd í upplýsingamálum kvað upp sinn úrskurð 29. desember sl., um 11 mánuðum eftir að blaðamaðurinn, Rúnar Pálmason, bað fyrst um upplýsingarnar.

Og hér gefur á að líta: 

  1. Til að "fá" þann samning, sem Buchhheit hrósaði (mælti með eigin verki!) og hefði kostað okkur óafturkræfar vaxtagreiðslur sem nema myndu á hverjum 36 dögum andviði fyrirhugaðs ríkisfangelsis á Hólmsheiði, rukkaði hann ríkið um 128.000 fyrir hvern unninn lögfræðiráðgjafartíma sinn!
  2. Samningamennirnir íslenzku, Lárus Blöndal og Jóhannes Karl Sveinsson, rukkuðu ekki aðeins fyrir starf sitt í nefndinni, heldur einnig (eins og Buchhheit) fyrir blaðamanna- og kynningarfundi sína og (Lárus) fyrir símafundi við ráðuneytismenn og fulltrúa stjórnarandstöðunnar, einkum Bjarna Benediktsson. En kunningsskapur var með Lárusi og Bjarna fyrir (þess get ég hér, JVJ), og má ætla, að Lárus hafi haft sín áhrif á Bjarna til að snúa þingflokki sjálfstæðismanna til að taka sína vit-lausu, óþjóðhollu ákvörðun í trássi við vilja landsfundar flokksins.
  3. Þrjár milljónir rukkaði Lee Buchheit vegna Túnisferðar vegna Icesave, en alls nam ferðakostnaður hans 7,5 milljónum króna.
  4. Hæstu greiðslurnar vegna þessarar nefndar, sem vann að Icesave-III-samningnum, eru til Hawkpoint Partners, lögfræðistofu í Lundúnum, vegna sérfræðiráðgjafar, upp á 143 milljónir króna, og eru þeir reikningar "lítt sundurliðaðir, aðeins talað um þóknanir samkvæmt samkomulagi" (Mbl. í dag, bls. 12: Tók tæplega ár að fá gögnin; einnig er málið forsíðufrétt Mbl.). "Töluverður kostnaður féll til vegna ferðalaga og þannig rukkar Hawkpoint t.d. alls um 3,7 milljónir króna vegna flugferða, þar af 1,6 milljónir vegna flugferða 14. janúar 2010 en ekki kemur fram hvert var flogið eða hversu margir farseðlar voru keyptir." (Rúnar Pálmason í sömu grein.) 
  5. Lögfræðistofa Buchheits rukkaði alls um 86,4 milljónir kr.
  6. Steingrímur kvað heildarkostnað vegna Buchheit-nefndarinnar 369 milljónir (í ræðu á Alþingi 11. apríl 2011).
  7. Hér er ekki verið að tala um kostnað vegna Svavarsnefndarinnar, en Steingrímur sagði á Alþingi 11. apríl 2011, að sá kostnaður næmi 77,5 milljónum. Enn hefur ekkert verið upplýst um, hvað Svavar fekk þar í sinn hlut. Skv. Icesave-I-samningnum var ennfremur undirgengizt að borga Bretum um eða yfir tvo milljarða króna vegna lögfræðikostnaðar þeirra!

Ráðuneytið (eða Steingrímur J.) hafði synjað blaðamanninum um upplýsingar, en varð að lúffa fyrir úrskurðarnefnd í upplýsingamálum. Ekki var "gagnsæi" stjórnsýslunnar sjálfgefið hjá fjármálaráðherranum þá fremur en oft áður, heldur var þetta dregið út með töngum.

Svo er sami ráðherra búinn að taka stól Árna Páls Árnasonar, sem hafði haldið uppi góðum vörnum og kynningarstarfsemi í Icesave-málinu erlendis í sumar. Við í Þjóðarheiðri – samtökum gegn Icesave – höfum enga ástæðu til tiltrúar á Steingrím J. Sigfússon í þessu máli, nema síður sé, og vörum við framhaldi málsins undir handarjaðri hans. Þjóðin hefur ekki efni á því að vera andvaralaus í þessu máli.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Til Túnis vegna Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hve lengi ætlar blog.is að hafa vefsíðu Lofts Þorsteinssonar lokaða?

Þetta var síðasta bloggfærsla Lofts á altice.blog.is:

  • Höfnum Icesave-kröfunum með yfirlýsingu Alþingis  25.8.2010 | 10:25
  • Ég hef mörgum sinnum bent á, að Alþingi verður að hafna Icesave-kröfum nýlenduveldanna með yfirlýsingu. Alþingi er málsvari almennings og 06. marz 2010 tók þjóðin af allan vafa um að Icesave-kröfurnar verða ekki greiddar. Það er óþolandi að einstakir... 

Þarna fylgdi upphaf pistilsins með. Dagsetningin er þarna – komið hátt í eitt og hálft ár frá ritskoðun Lofts og lokun síðu hans, sem fjöldi manns hafði vísað í, en engar þær vísanir gilda lengur, og heimildaöflun manna er þannig spillt, allt vegna viðkvæmni fyrir því sem varla nokkur man lengur og engu máli skipti í sjálfu sér. Hafði þó Loftur verið öflugastur manna í heimildaöflun um Icesave-málið á erlendum vettvangi, og á fundi með ráðamönnum í efnahags- og viðskiptaráðuneyti í vor eða sumar kom fram viðurkenning á gildi þess sem hann hafði aflað vitneskju um úr brezka fjármálaeftirlitinu, hinu hollenzka og úr fleiri stofnunum og stjórnardeildum erlendis sem innan lands, auk bréfaskipta hans við ýmsa málsmetandi sérfræðinga erlendis.

Svona ritskoðun minnir á mongólskan barbarisma og bókabrennur á 4. áratugnum.

En Loftur er enn baráttumaður gegn Icesave-áráttu stjórnmála- og valdastéttar landsins, eins og komið hefur fram í mörgum greinum hans í Morgunblaðinu allt fram undir þetta. Hann rekur nú með nokkrum félögum sínum samnefnda vefsíðu þess félagsskapar, Samstaða þjóðar. Er þar m.a. fjallað um Icesave, en aðallega Esb.

Loftur var einnig meðal virkustu manna í Samstöðu þjóðar gegn Icesave, samtaka sem stóðu fyrir vefsíðunni Kjósum.is og vel heppnaðri undirskrifta- og áskoranasöfnun vegna Icesave-III-ólaganna. Þjóðin er því í þakkarskuld við þennan mann rétt eins og forsetann (sjá nánar nýleg skrif hér neðar á vefsíðunni), en hverjar eru þakkirnar frá blog.is?!

Jón Valur Jensson. 


Fyrsti maður í framboð í forsetakosningunum er yfirlýstur Icesave-andstæðingur

  Jón Lárusson lögreglumaður er fyrstur til að gefa kost á sér í embætti forseta Íslands í kosningunum í sumar. Hann er fæddur 1965, hefur gefið sig að ýmsum félagsmálum, var m.a. þátttakandi í Samstöðu þjóðar gegn Icesave og kom fram í ýtarlegum og góðum þætti um málið á ÍNN. Hann er maður rökfastur og réttlætissinni og hefur á seinni árum gerzt sérfræðingur í afleiðuviðskiptum. Hér er vefsíða hans: Umbótahreyfingin ~ nýtt afl, og hér er hans Moggabloggsíða: jonl.blog.is. Auk þess að vera andstæðingur Icesave I, II og III er hann andvígur inntöku Íslands í Evrópusambandið, sbr. grein hans efst á nefndri bloggsíðu. Jón tilkynnti um framboð sitt í Útvarpi Sögu í morgun, í þætti hjá Markúsi Þórhallssyni, og verður sá þáttur endurtekinn síðdegis.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Jón Lárusson í forsetaframboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þessum forseta á þjóðin mest að þakka

Ólafur Ragnar Grímsson er nánast sjálfkjörinn í starf forseta í 5. sinn. Með málskoti til þjóðarinnar sparaði hann okkur 110 milljarða króna ÓAFTURKRÆFA VEXTI af gerviláni* og lét þannig forsetaembættið borga sig a.m.k. næstu 1100 árin – menn hugsi út í það! (sjá nánar hér: Afhjúpuð ríkisstjórn – óbærilegir vextir af engu!).

Hefði Ólaf Ragnar brostið kjark og einurð, þegar menn eins og Bjarni ungi Ben. hlupust undan merkjum og brugðust þjóðinni með því að taka þátt í samþykkt Icesave-III-frumvarpsins, þá hefðum við ekki komizt hjá því að borga vexti af þeirri ólögvörðu kröfu! Við hefðum aldrei fengið vextina endurgreidda, af því að þær greiðslur teldust ekki með forgangskröfum í þrotabúið. Vextir af Icesave-III myndu nema fullu andvirði ríkisfangelsis á Hólmsheiði Á HVERJUM 36 DÖGUM! Og það væri enn verið að borga þá, alveg þangað til höfuðstólskrafan væri öll útgreidd úr þrotabúi Landsbankans.

Steingrímur og Ögmundur voru reyndar í standandi vandræðum með að harka saman aura fyrir einu aukafangelsi, sem kostar á þriðja milljarð, og sáu þann kost vænstan að láta einkafyrirtæki sjá um byggingu þess, en síðan yrði ríkið látið leigja af því fyrirtæki. Hugsið þá þeim mun frekar til þess, góðir lesendur, að andvirði 10 ríkisfangelsa ætluðu þeir að kasta út í veður og vind – eða beint í Bretann og Hollendinginn – á hverju ári, meðan greiða þyrfti vextina! Það væri enn verið að borga þá, alveg þangað til höfuðstólskrafan væri öll útgreidd úr þrotabúi Landsbankans.

Samtökin Þjóðarheiður óska landsmönnum öllum árs og friðar.

* 110.000.000.000 kr. til 1. okt. 2011, skv. útreikningum í bók Sigurðar Más Jónssonar um Icesave-málið. Þessi fjárhæð er nú komin yfir 120 milljarða króna, því að þessar vaxtagreiðslur halda áfram, meðan þrotabú Landsbankans hefur ekki verið gert upp.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Framboð ekki útilokað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband