Þú getur ekki einu sinni boðið þig fram eftir 4 ár. Vegna aflandsmála? Nei, vegna Icesave-borgunarstefnu þinnar. Afhjúpaður stendurðu sem einn þeirra sem töldu sig kallaða til að agitera fyrir því að þjóðin yrði pínd til að borga þessa ólögvörðu kröfu gamalla nýlenduvelda.
Rök fyrir þessu voru færð hér á vefsetrinu, í nýjustu færslu á undan þessari. En í dag birtust í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins ennþá skýrari rök, byggð á þínum orðum í enska Reykjavíkurblaðinu Grapevine.
Þetta gengur einfaldlega frá þér, vinur, sem frambjóðanda, stórskaðar trúverðugleik þinn til að keppa við Ólaf Ragnar Grímsson og yfirhöfuð í öllum samanburði við hann, eins og hér er ljóst af orðum þínum í Grapevine frá Icesave-baráttuárunum, enginn skörungur sem talar hér:
- Im glad that Im not in the Icelandic government. I wouldnt know what to do, I wouldnt know if I should accept this agreement or not. Guðni Thorlacius Jóhannesson.
Þá segir í nefndu Reykjavíkurbréfi: "Um fyrsta Icesave-samninginn, sem almennt er viðurkennt að hafi verið sá vitlausasti þeirra allra, segir hann [Guðni Th.]:
We might not like the Icesave deal, but the alternative is much worse, and maybe this is the best we or anyone else could get. Take it or leave it, thats the message we got. I think anyone criticizing the negotiations team for being weak are ignoring, wilfully or not, the incredibly difficult position the Icelandic authorities find themselves in.
Þarna talar maður sem hafði kokgleypt áróðurinn og skalf af hræðslu.
Dettur nokkrum manni sem þetta les í hug að Guðni hefði sem forseti staðið með þjóðinni þegar mest lá við? Nei.
Er eitthvað sem bendir til þess að hann hafi breyst? Guðni segist þakklátur fyrir að vera ekki í ríkisstjórn sem þarf að fást við þetta stórmál.
Mega ekki Íslendingar vera mun þakklátari fyrir það, að hann var ekki á Bessastöðum þá?" (Tilvitnun lýkur í Reykjavíkurbréf 6.5. 2016).
Þetta er búið spil, Guðni. Þú nærð ekki að vinna trúverðugleik þjóðarinnar í þessu máli; þú varst einn þeirra sem brugðust og mötuðu þjóðina á málflutningi sem til þess var fallinn að draga úr henni hugmóð og kjark. En Ólafur Ragnar lét sig ekki, hann stóð eins og klettur í baráttunni.
Kotroskinn ertu, Guðni, í krafti fárra ára og engrar reynslu af því að fást við erfið og viðkvæm stjórnmál, að setja þig samt á háan hest yfir forsetann! Og ekki eru allir viðhlæjendur vinir. Þau pólitísku öfl, sem öttu þér fram síðustu vikur, tóku ekkert tillit til þeirrar áhættu sem þú varst í vegna fyrri orða þinna; þú áttir að vita betur!
En þú hefur ekki einu sinni notað nám þitt eða rannsóknir í sögu forsetanna til að sjá þig um hönd og biðjast afsökunar á skrifum þínum 1) gegn lögvörðum réttindum þjóðarinnar í Icesave-málinu og 2) gegn forseta Íslands, jafnvel í því máli, heldur er m.a.s. stutt síðan (30. des. sl.) þú veittist óvirðulega að Ólafi Ragnari, skrifandi þá sjálfur á launum hjá Kjarnanum, enn sem oftar í þágu fjölmiðils sem hallast að stjórnmálaöflum vinstri stjórnarinnar. Jafnvel sá hinn sami ofdirfskufulli fjáraflamaður, sem varð að segja af sér gjaldkerastöðu í Samfylkingunni, varð einnig að segja af sér sem stjórnarmaður í Kjarnanum, þar sem hann átti þó hátt í sjöttung hlutafjár, og jafnvel eftir það komu fram óskammfeilnari ósannindi hans í aflandseyjamálum. Er Kjarninn kannski meðfram fjármagnaður þaðan?
Augljóst var, að mikið var í lagt í grein þína í Kjarnanum 30. des., greinin afar löng og prófarkalestur mjög góður, og ekki hefurðu látið hana ókeypis af hendi, heldur þegið til hennar laun frá Kjarnanum, enda eftirspurn þaðan eftir því, sem hugsanlega gæti kastað ryki á jakka höfðingjans á Bessastöðum. Það væri þá að vísu leiðinleg tilviljun, ef aflandsfé var með í því að fjármagna skrif þín, en reyndar er það einungis aukaatriði hér og þetta aðalmálið: Stefna þín í Icesave-málinu hefur verið afhjúpuð, eins og sést hér ofar, og margir munu eiga eftir að hrista höfuðið yfir því, að þú hafir jafnvel látið þér detta í hug að fara í framboð gegn einmitt þessum sitjandi forseta, bjargvætti okkar frá yfirgangi löglausra brezkra og hollenzkra kröfugerðar-stjórnvalda!
Lærðu nú af Ólafi Ragnari, að það er vel hægt að breyta um afstöðu til forsetaframboðs! Farsælt var það, að hann hætti við að hætta. Farsælt yrði það einnig fyrir þig að taka þá hreinskilnu afstöðu, að vegna þess að þú augljóslega hafðir ekki bein í nefinu í Icesave-málinu á sínum tíma, heldur lyppaðist niður og hefðir aldrei tekið afstöðu gegn 70% þingmanna til að taka afstöðu með þjóðinni, þá ertu ekki verðugur embættisins, a.m.k. ekki nú um stundir.
Já, það er frágangssök fyrir FORSETAEFNI að hafa verið í flokki þeirra sem unnu gegn þjóðarhag í þessu tilbúnings-lagamáli; sér í lagi er ankannalegt af slíkum manni að ganga nú fram fyrir skjöldu, berja sér á brjóst og þykjast meiri þjóðskörungur en helzti varnarmaður okkar í því máli !
Jón Valur Jensson.