Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Tilskipunarákvæði Evrópubandalagsins, 94/19/EC, sem sýnir og sannar sakleysi íslenzka ríkisins og þjóðarinnar í Icesave-málinu

(Endurbirt grein af Vísisbloggi höf. 15.8. 2009)

“Tilskipun þessi getur EKKI gert aðildarríkin eða lögmæt yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innstæðu­eig­end­um ef þau hafa séð um stofnun eða opinbera viður­kenn­ingu eins eða fleiri kerfa sem ábyrgjast inni­stæðurnar eða lána­stofnanirnar sjálfar og tryggja skaðbætur eða vernd inni­stæðu­eigenda samkvæmt skilyrðum sem þessi tilskipun skilgreinir.”

Þannig er það ákvæði, sem við getum grundvallað á réttarkröfu okkar fyrir dómstólum, að VIÐ EIGUM EKKI AÐ BORGA, þ.e.a.s. ef þjóð og þing hrinda af sér þeim þjóðsvikasamningi sem fjárlaganefnd er nú á síðustu metrunum að samþykkja með sínum blekkingar-fyrirvörum.

Um þessi ákvæði tilskipunarinnar eða öllu heldur dírektífsins, sem fylgir henni, hafa farið fram miklar umræður á ýmsum vefsíðum og margir lagt þar gott til málanna, en lítt verið um þetta ritað í ESB-höllum fjölmiðlum. Ég mun bráðlega birta samantekt af rökræðu minni í þessu máli, m.a. með samanburði ofangreinds ákvæðis á ýmsum tungumálum, en það var þýtt á mjög villandi hátt í hinni íslenzku þýðingu, sem til er á netinu. Grundvallandi fyrir lögmæti og skuldbindingu er sú þýðing þó ekki, enda er hún ekki partur af íslenzkri löggjöf né innleidd með neinum öðrum hætti hér á landi. Frumtextar gilda, og á ensku, frönsku, dönsku og sænsku, til að mynda, er sá texti tær og ótvíræður og þýddur hér í byrjun þessa pistils í samræmi við það.

Eftir allar umræður í Alþingi og fjárlaganefnd stendur aðeins einn flokkur af fimm nokkurn veginn heill í þessu máli að leggja áherzlu á lagalegan rétt okkar Íslendinga. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður þess flokks, stóð sig með afbrigðum vel í málflutningi sínum fyrir land og þjóð í Vikulokunum á Rás 1 á 12. tímanum í dag.

Velji þingflokkur Sjálfstæðisflokksins að kjósa með Icesave-svikasamningnum, skilja þar leiðir okkar. Ég mun þá segja mig úr flokknum, sem ég hef tilheyrt í 37 ár.

VIÐAUKI

Ofangreint tilskipunarákvæði á nokkrum öðrum tungumálum:

Á ensku: “Whereas this Directive may NOT result in the Member States’ or their competent authorities’ being made liable in respect of depositors if they have ensured that one or more schemes guaranteeing deposits or credit institutions themselves and ensuring the compensation or protection of depositors under the conditions prescribed in this Directive have been introduced and officially recognized.”

Á sænsku: “Om ett eller flera system, som garanterar insättningar eller kreditinstituten som sådana och säkerställer kompensation eller skydd för insättningar enligt de villkor som föreskrivs i detta direktiv, har införts och officiellt erkänts, medför INTE detta direktiv att medlemsstaterna eller deras behöriga myndigheter blir ansvariga gentemot insättare.

Á dönsku: “Dette direktiv kan IKKE forpligte medlemsstaterne eller disses kompetente myndigheder i forhold til indskyderne, når de har sörget for, at en eller flere ordninger, der garanterer indskuddene eller kreditinstitutterne selv, og som sikrer skadelösholdelse eller beskyttelse af indskyderne på de i dette direktiv fastlagte betingelser, er blevet indfört eller officielt anerkendt.”

Lesið nýjustu greinar mínar á öðru bloggi (nýjust efst):

Grein þessa birti ég á Vísisbloggi mínu 15. ágúst 2009, en öll Vísisblogg allra Vísisbloggara þurrkaði síðan fjölmiðlafyrirtækið 365 út með öllu, án nokkurs samráðs við höfundana -- án efa eftir að skrif margra þar höfðu farið illa í taugarnar á Evrópusambands- og Jóhönnustjórnar-fylgjendum, en eins og kunnugt er, hefur Jón Ásgeir lýst stuðningi sínum við inngöngu Íslands í það stórveldi. Hér sjáum við þá í verki ritskoðunarhneigð 365 miðla, sem virða ekki höfundarrétt manna að skrifum sínum. En ég undirritaður hafði verið svo forsjáll að taka afrit af flestum Vísis-bloggpistlum mínum, en missti hins vegar af athugasemdunum þar. --Þessi pistill er hér einnig birtur sem dæmi úr Icesave-baráttunni og má gjarnan geymast hér á viðeigandi stað. --Jón Valur Jensson.


Margt kemur skondið í ljós við upprifjun "gamallar sagnfræði"

Í þjóðaratkvæðagreiðslu 9. apríl 2011 um Buchheit-samnings-lögin greiddi Guðni Th. JÁ-atkvæði með þeim lögum (nei, ólögum, því að skýlaust rétt­ar­brot voru þau gegn lögvörð­um rétti landsins). Svo sam­dauna var hann þá pólitískum rétt­trúnaði Jóhönnu­stjórnar og ESB-sinna, emb­ættis­manna, hagsmuna­aðila og stórkarla á vinnumarkaði (SA, SI, SVÞ og einnig Gylfa topphúfu & Co. í ASÍ) og prófessorum í viðskipta- og hagfræðideild HÍ og ýmsum eilífum álitsgjafa-augnakörlum Rúvsins, auk ramm­hlutdrægra starfsmanna Rúv og 365, já, endur­tökum þetta: svo samdauna var hann þá orðinn þeim þrátt fyrir skýr laga­ákvæði íslenzk sem innleitt höfðu hér Tilskipun 94/19EC, að hann skamm­aðist sín ekki einu sinni fyrir að útbásúna það eftir á (t.d. sl. mánudag 9. maí 2016 í síðdegisþætti á Útvarpi Sögu), að hann greiddi atkvæði með Buchheit-lögunum, enda væri Buchheit bara sanngjarn maður! (Hann væri þó búinn að kosta okkur 80 milljarða króna ólögvarða kröfu nú þegar, í einbera vexti, í pundum og evrum, ef einungis um 10% manna til viðbótar hefðu eins og Guðni Th. greitt Buchheit-ólögunum atkvæði sitt í stað þess að standa með gamla Íslandi!)

Guðni er byrjaður ferð sína niður á við, úr 70 prósentunum, eins og hér sést:

forseti mai sp1

 

Þetta er Maskínu-könnunin frá nýliðnum degi. Nú fara hlutirnir að hreyfast í sömu átt, meðfram vegna framkominna staðreynda um sitt af hverju, eins og hér var rakið, þótt án efa muni það einnig hafa sín áhrif, af hvílíkri mælsku og þrótti frambjóðendur munu kynna sín viðhorf og fyrri störf.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Tveir þriðju ætla að kjósa Guðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Egill Helgason haldinn ímyndunar- eða ímyndarveiki um Davíð og Guðna Th.

Guðni "er máski óreyndur í stjórnmálum en hann hefur hvergi stigið feil­spor enn," segir Egill, en fer með fleipur. Guðni óhreinkaði sína pólitísku áru með því að segja JÁ við Buchheit-lög­um um ICESAVE, þvert gegn laga­legum rétti þjóðar­innar og andstætt hag hennar. Honum nægði ekki að greiða þannig atkvæði í þjóðar­atkvæða­greiðsl­unni, heldur útbás­únaði þetta jafnvel eftir á (hentugt til vin­sælda meðal aðdá­enda Jóhönnu­stjórnar?) – en fráleit­ast af öllu var svo, að hann taldi sig geta gagnrýnt Ólaf Ragnar, jafnvel einmitt vegna Icesave!!! Var Ólafur þó ótvíræð brjóstvörn þjóðar­innar í Icesave-málinu, bæði hér á landi og í erlendum fjölmiðlum (en lítið sem ekkert gagn að utanríkis­ráðuneyti ESB-Össurar). Án atbeina Ólafs Ragnars stæði Ísland enn uppi sem sakbent land í málinu og búið að punga út 80 milljörðum króna í erlendum gjaldeyri vegna einberra vaxta af Buchheit-samn­ingnum! 

Nú gæti Guðni þá stigið hlemmifæti sínum fram með enn djarfari hætti með því að ráðast á Davíð Oddsson vegna hörkubeittra leiðara hans í Morgunblaðinu á sínum tíma gegn Buchheit-samningnum og málstað Jógrímustjórnar í nefndri þjóðaratkvæðagreiðslu. Á sama tíma voru 70% alþingismanna á bandi Breta og Hollendinga í boði Buchheits (þar á meðal mikill meirihluti þingmanna Sjálfstæðisflokks, sem óhlýðnuðust þar með landsfundi sínum), ennfremur SA, SI og SVÞ og ASÍ-topphúfan Gylfi, einnig tveir aðrir Gylfar, báðir prófessorar viðutan í þessu lagamáli (sbr. http://thjodarheidur.blog.is/blog/thjodarheidur/entry/1290081/ og http://thjodarheidur.blog.is/blog/thjodarheidur/entry/1286385/), og fjöldinn allur af vinaliði Fréttastofu Rúv og 365, eilífum augnakörlum í viðtölum þar, og eru sumir þeirra enn á snærum Evrópusambandsins. 

En þeir minna áberandi, sem á móti mæltu opinberlega og reyndust þó vera fulltrúar 60% þjóðarinnar, er upp var staðið, fengu miklu síður að taka til máls í nefndum fjölmiðlum (Þjóðarheiðri, samtökum gegn Icesave, var t.d. algerlega neitað um viðtal í Speglinum, fréttaskýringaþætti Rúvsins).

Já, ætli Guðni þori að ráðast á Davíð fyrir að hafa staðið með rétti og hagsmunum þjóðarinnar? – á sama tíma og Guðni sjálfur lyppaðist niður fyrir áróðrinum og kyssti á vöndinn, kjarklaus til að gera sem Jón forseti Sig­urðsson: að trúa á rétt lög og halda sér við þau. - Já, sannarlega hefði dr. Guðna verið affarasælast að vera minnugur hvatningar Jónasar Hall­gríms­sonar: "guði að treysta, hlekki hrista, hlýða réttu, góðs að bíða."

En reyndar er Guðni Th. eftirlæti Samfylkingarmanna; þar spillir ekki fyrir, að hann er opinn fyrir Evrópusambandinu, okkar gamla fjendabandalagi (í öllum þessum málum: um Icesave,* makrílveiðar og Rússaviðskipti). Sjá nánar um það á Fullveldis­vaktinni: Guðni Th. Jóhannesson er ekki einarður verjandi landsréttinda.

Öll efni eru þó til að fylgi Guðna HRYNJI úr þeim 70% sem það er sagt í nú, sjá hér: ESB-hlynntur fylgismaður Buchheit-samnings, Guðni Th. Jóhannesson, á eftir að sjá það svartara! 

* Sbr.: ESB vann beinlínis gegn íslenzkri þjóð frá upphafi til enda í Icesave-atganginum - viðurkennt af áhrifamönnum hér! -- Auk þeirra staðreynda, sem þar eru raktar, átti svo Evrópusambandið beinlínis meðaðildlögsóknarmáli Breta og Hollendinga gegn okkur fyrir EFTA-dómstólnum!

Jón Valur Jensson.


mbl.is Davíð mættur á Facebook
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítillátur, ljúfur og kátur - eða harður gegn hagsmunum og rétti lands og þjóðar?

Undarlegt lítillæti Guðna Th. birtist í því að ætla sér "bara" að vera forseti landsins í tólf ár

Tveimur dögum seinna kemur hann fram sem ófor­skamm­aður Icesave-samn­ings- og Evrópu­sambands­stuðnings­maður að auki með vissum skilmálum!

Er slíkur maður virkilega sá sem þjóðin myndi treysta til að standa vörð um þjóðarréttindi og fullveldi Íslands? Er nóg að tala slétt mál og mæla fallega? Ætlum við að fara að kjósa stuðn­ings­mann Buchheit-samningsins? Þessi maður sagði sig opinskátt í þætti í gær hafa kosið þá samningagerð, sem 70% þing­manna okkar létu hræðast til að greiða atkvæði sem "lögum", þótt ekkert væru annað en ólög og beindust þvert gegn lögvörðum rétti okkar!

Er Guðna Th. einskis virði sá sýknudómur sem EFTA-dómstólnum gafst tækifæri til að kveða upp, eftir að forsetinn og þjóðin höfðu hafnað því að staðfesta Icesave-lögin? Ekki tók Guðni Th. þátt í því með þjóð sinni að hrista af henni það ok sem tvær gamlar nýlendu­þjóðir vildu leggja á okkur, með þeim ósvífna hætti sem minnti jafn­vel suma á það, hversu hrika­lega Bretar og Banda­ríkja­menn léku íbúa Fidji-eyja í krafti löglausra fjárhags­pyntinga.

Og hvers virði er sakleysi og æra þjóðar, hr. forseta­frambjóðandi? Og hvar hefðirðu skorið niður í ríkis­rekstri um 80 milljarða til að borga Buchheit-Ice­save-vextina sl. þrjú ár? Og hvar hefðirðu tekið erlendan gjaldeyri til þess?

Jón Valur Jensson.


mbl.is Ólíklegt að Davíð taki fylgi af Guðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðni Th. Jóhannesson, áttaðu þig á þessu: FRAMBOÐ ÞITT ER FALLIÐ!

Þú getur ekki einu sinni boðið þig fram eftir 4 ár. Vegna aflandsmála? Nei, vegna Icesave-borgunarstefnu þinnar. Afhjúpaður stendurðu sem einn þeirra sem töldu sig kallaða til að agitera fyrir því að þjóðin yrði pínd til að borga þessa ólögvörðu kröfu gamalla nýlenduvelda.

Rök fyrir þessu voru færð hér á vefsetrinu, í nýjustu færslu á undan þessari. En í dag birtust í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins ennþá skýrari rök, byggð á þínum orðum í enska Reykjavíkurblaðinu Grapevine.

Þetta gengur einfaldlega frá þér, vinur, sem frambjóðanda, stórskaðar trúverðugleik þinn til að keppa við Ólaf Ragnar Grímsson og yfirhöfuð í öllum samanburði við hann, eins og hér er ljóst af orðum þínum í Grapevine frá Icesave-baráttuárunum, enginn skörungur sem talar hér:

  • I’m glad that I’m not in the Icelandic government. I wouldn’t know what to do, I wouldn’t know if I should accept this agreement or not. Guðni Thorlacius Jóhannesson.“

Þá segir í nefndu Reykjavíkurbréfi: "Um fyrsta Icesave-samninginn, sem almennt er viðurkennt að hafi verið sá vitlausasti þeirra allra, segir hann [Guðni Th.]:

„We might not like the Icesave deal, but the alternative is much worse, and maybe this is the best we or anyone else could get. Take it or leave it, that’s the message we got. I think anyone criticizing the negotiations team for being weak are ignoring, wilfully or not, the incredibly difficult position the Icelandic authorities find themselves in.“

Þarna talar maður sem hafði kokgleypt áróðurinn og skalf af hræðslu.

Dettur nokkrum manni sem þetta les í hug að Guðni hefði sem forseti staðið með þjóðinni þegar mest lá við? Nei.

Er eitthvað sem bendir til þess að hann hafi breyst? Guðni segist þakklátur fyrir að vera ekki í ríkisstjórn sem þarf að fást við þetta stórmál.

Mega ekki Íslendingar vera mun þakklátari fyrir það, að hann var ekki á Bessastöðum þá?" (Tilvitnun lýkur í Reykjavíkurbréf 6.5. 2016).

Þetta er búið spil, Guðni. Þú nærð ekki að vinna trúverðugleik þjóðarinnar í þessu máli; þú varst einn þeirra sem brugðust og mötuðu þjóðina á málflutningi sem til þess var fallinn að draga úr henni hugmóð og kjark. En Ólafur Ragnar lét sig ekki, hann stóð eins og klettur í baráttunni.

Kotroskinn ertu, Guðni, í krafti fárra ára og engrar reynslu af því að fást við erfið og viðkvæm stjórnmál, að setja þig samt á háan hest yfir forsetann! Og ekki eru allir viðhlæjendur vinir. Þau pólitísku öfl, sem öttu þér fram síðustu vikur, tóku ekkert tillit til þeirrar áhættu sem þú varst í vegna fyrri orða þinna; þú áttir að vita betur!

En þú hefur ekki einu sinni notað nám þitt eða rannsóknir í sögu forsetanna til að sjá þig um hönd og biðjast afsökunar á skrifum þínum 1) gegn lögvörðum réttindum þjóðarinnar í Icesave-málinu og 2) gegn forseta Íslands, jafnvel í því máli, heldur er m.a.s. stutt síðan (30. des. sl.) þú veittist óvirðulega að Ólafi Ragnari, skrifandi þá sjálfur á launum hjá Kjarnanum, enn sem oftar í þágu fjölmiðils sem hallast að stjórnmálaöflum vinstri stjórnarinnar. Jafnvel sá hinn sami ofdirfskufulli fjáraflamaður, sem varð að segja af sér gjaldkerastöðu í Samfylkingunni, varð einnig að segja af sér sem stjórnarmaður í Kjarnanum, þar sem hann átti þó hátt í sjöttung hlutafjár, og jafnvel eftir það komu fram óskammfeilnari ósannindi hans í aflandseyjamálum. Er Kjarninn kannski meðfram fjármagnaður þaðan?

Augljóst var, að mikið var í lagt í grein þína í Kjarnanum 30. des., greinin afar löng og prófarkalestur mjög góður, og ekki hefurðu látið hana ókeypis af hendi, heldur þegið til hennar laun frá Kjarnanum, enda eftirspurn þaðan eftir því, sem hugsanlega gæti kastað ryki á jakka höfðingjans á Bessastöðum. Það væri þá að vísu leiðinleg tilviljun, ef aflandsfé var með í því að fjármagna skrif þín, en reyndar er það einungis aukaatriði hér og þetta aðalmálið: Stefna þín í Icesave-málinu hefur verið afhjúpuð, eins og sést hér ofar, og margir munu eiga eftir að hrista höfuðið yfir því, að þú hafir jafnvel látið þér detta í hug að fara í framboð gegn einmitt þessum sitjandi forseta, bjargvætti okkar frá yfirgangi löglausra brezkra og hollenzkra kröfugerðar-stjórnvalda!

Lærðu nú af Ólafi Ragnari, að það er vel hægt að breyta um afstöðu til forsetaframboðs! Farsælt var það, að hann hætti við að hætta. Farsælt yrði það einnig fyrir þig að taka þá hreinskilnu afstöðu, að vegna þess að þú augljóslega hafðir ekki bein í nefinu í Icesave-málinu á sínum tíma, heldur lyppaðist niður og hefðir aldrei tekið afstöðu gegn 70% þingmanna til að taka afstöðu með þjóðinni, þá ertu ekki verðugur embættisins, a.m.k. ekki nú um stundir. 

Já, það er frágangssök fyrir FORSETAEFNI að hafa verið í flokki þeirra sem unnu gegn þjóðarhag í þessu tilbúnings-lagamáli; sér í lagi er ankannalegt af slíkum manni að ganga nú fram fyrir skjöldu, berja sér á brjóst og þykjast meiri þjóðskörungur en helzti varnarmaður okkar í því máli !

Jón Valur Jensson.


mbl.is Guðni slær „sagnfræðilegt“ met
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðni Th. Jóhannesson var linari forsetanum í Icesave-málinu og vildi semja við Breta!

Ólafur Ragnar brást hetjulega við þörf og neyð þjóðar­innar í Icesave-málinu. Ætlar Guðni Th. að skáka því? En sá hinn sami Guðni mælti GEGN því, að við þver­tækj­um fyrr að semja við Breta um að borga Icesave-skuldir einka­fyrir­tækis­ins Lands­bankans! Guðni var Icesave-samninga­maður! -- eins og mestöll stjórnmála­stéttin og meinta spekinga­stéttin í HÍ og á fjöl­miðl­unum! -- ólíkt Ólafi Ragnari og alþýðu landsins.

Forsetinn gerði sem Sigurður Líndal, Reimar Pétursson og fleiri lögfróðir menn: stóð á réttinum. En nú knýr dyra á Bessastöðum "einum of kurteis" maður, sem skorti bein í nefið, þegar álits hans var leitað í Icesave-málinu. 

Í þessari grein í Fréttablaðinu 10. marz 2010 lagðist Guðni Th. greinilega GEGN því, að Íslendingar gætu með sanngirni krafizt þess að sleppa við að taka ábyrgð á Icesave-reikningum Landsbankans: http://www.visir.is/engin-rikisabyrgd-/article/2010261313607 (Vísir - G.Th.Jóh.: "Engin ríkisábyrgð?").

Við þurfum ekki 2. flokks forseta sem nálgast liðleskju 70% alþingismanna á ögurstund fyrir lýðveldið í þessu ólögvarða, rangláta kröfugerðarmáli Breta og Hollendinga.

Við eigum sem betur fer enn kost á Ólafi Ragnari Grímssyni. smile

Heill forseta vorum og fósturjörð.

Jón Valur Jensson.


mbl.is „Forseti standi utan fylkinga“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Halla Tómasdóttir Icesave- og ESB-kona!

Halla Tómasdóttir, frum­kvöð­ull og fjár­festir, sem býður sig nú fram til emb­ætt­is for­seta Íslands, varði ekki sakleysi og hagsmuni þjóð­ar­innar í Ice­save-málinu. Hún tók þátt í því að lýsa "Ice­save-reikn­inga Lands­bankans í Bret­landi og aukið hlutafé Baugs í FL-Group [...] bestu viðskipti Íslendinga árið 2007" (!!!) – sjá nánar HÉR (einnig hér á Eyjunni).

Það kemur því ekki á óvart, að ekki mót­mælti hún nauð­ungar­samn­ingum ríkis­stjórnar Stein­gríms og Jóhönnu við Breta og Hollend­inga um að láta ríkis­sjóð borga hinar ólög­vörðu Icesave-skuldir Lands­bankans, því að Halla átti það sameiginlegt með þeim báðum að vilja umsókn Össurar Skarp­héðins­sonar & félaga um inntöku landsins í það stórveldabandalag, sem ítrekað reyndi að þvinga og þrýsta okkur til að gefast upp í Icesave-málinu, og sjálf var hún meðlimur harðlínu­hópsins með öfug­mæla­heitinu Já Ísland! eins og sést á vefsíðumynd úr félagatali þess!

Halla Tómasdóttir á því sízt neitt erindi í embætti forseta Ísands.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Halla Tómasdóttir býður sig fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri maður kvartar yfir Katrínu Jakobsdóttur sem forsetaframbjóðanda

Benedikt Sigurðarson ritar í Kvennablaðið:

• Þegar Icesave-samningur númer 1 (Svavarssamnningurinn) var gerður; – birtist Steingrímur J með samninginn og ætlaði að troða honum óséðum gegn um þingflokk VG og pressa stjórnarmeirihlutann til að reka hann í gegn um þingið (með hraði). Ekki varð nokkur maður var við að Katrín Jakobsdóttir legðist gegn þeim ósköpum – og gerði tilraun til að halda aftur af Steingrími; eða hvað?

• Ekki varð þess vart að Katrín Jakobsdóttir krefðist þess að þjóðin fengi tækifæri til að greiða atkvæði um Icesave nr.2 – eftir að Bretar og Hollendingar neituðu að fallast á fyrirvara Alþingis við Svavars-samninginn.

...

Er hún líkleg til að verða jákvæður og kjarkmikill forseti fólksins og farvegur fyrir beint lýðræði?

 

Athyglisverður vitnisburður þetta! Grein þessi er í Kvennablaðinu, mun lengri, og heitir Pólitísk arfleifð Katrínar Jakobsdóttur – ef einhver?

 

JVJ.


Ekki króna úr ríkissjóði vegna Icesave - endurbirt góð grein Guðm. Ásgeirssonar

Samkvæmt frétt á vef slitastjórnar gamla Landsbankans, voru síðustu eftir­stöðvar forgangs­krafna í slitabú bankans vegna Icesave greiddar að fullu [11. jan. sl.]. Þar með liggur fyrir að ekki ein króna hefur verið lögð á herðar skatt­greiðenda vegna málsins og mun það aldrei gerast úr þessu. Öll upphæðin sem um er að tefla hefur nú verið greidd af slitabúi gamla bankans, fyrir utan 20 milljarða sem hafa verið greiddir af sjálfseignarstofnuninni Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta.

Þessar málalyktir eru nákvæmlega þær sem stefnt var að með undir­skrifta­söfnun kjósum.is þar sem skorað var á forseta Íslands að hafna lögum um ríkisábyrgð vegna Icesave, í kosningabaráttu sömu aðila í aðdrag­anda þjóðar­atkvæða­greiðslu um ákvörðun forseta, og málsvörn Íslands gegn Eftir­lits­stofnun EFTA fyrir EFTA-dómstólnum þar sem fullnaðar­sigur vannst fyrir hönd Íslands.

Þau málsrök sem urðu til þess að málið vannst að lokum voru að mestu leyti þau sömu og færð höfðu verið af aðstandendum þeirra hreyfinga sem stóðu að undirskriftasöfnuninni og sem mæltu gegn ríkisábyrgð í aðdraganda þjóðar­atkvæðagreiðslunnar. Það má því segja að íslenskar grasrótar­hreyfingar hafi haft betur, ekki aðeins gegn Bretum og Hollend­ingum, heldur einnig Eftirlits­stofnun EFTA sem höfðaði málið og framkvæmda­stjórn Evrópu­sambandsins sem stefndi sér inn í málið til meðalgöngu í fyrsta skipti í sögu EFTA-dómstólsins gagngert í því skyni að taka undir málstað andstæðinga Íslands.

Fyrir utan það að vera afar merkileg útkoma í lögfræðilegum skilningi, er fyrst og fremst ánægjulegt að málinu sé lokið á farsælan hátt. Það gæti jafnvel verið tilefni til að halda upp á daginn með því að kveikja á kertum.

Þessi grein Guðmundar birtist fyrst á Moggabloggi hans 12. jan. sl. og er endurbirt hér, með góðfúslegu leyfi hans, að ósk Þjóðarheiðurs, samtaka gegn Icesave.


mbl.is Icesave greitt að fullu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aumingja Oddnýju brá, þegar Árni Páll sagði sannleikann!

Oddný Harðardóttir veit sem er, að smán­arleg meðferð Icesave-málsins af hálfu hennar flokks varð eins og mylnu­steinn um háls hans í kosning­unum 2013, á sama tíma og málið lyfti Framsóknarflokknum hátt í hug margra og í atkvæða­tölum þá, enda hafði hann einn flokka í heild staðið vakt­ina og tekið loka­áhlaupið með þjóð­inni gegn því sem eftir var af Icesave-samningunum. 70% þingmanna greiddu með sínum afvegaleidda hætti atkvæði með Buchheit-samningnum, illu heilli, en forsetinn studdur þjóð og einum flokki vann þar frækinn sigur, eins og sýndi sig snemma árs 2013 í réttlátum úrskurði EFTA-dómstólsins.

En fyrrverandi ráðherrann Oddný Harðardóttir vissi upp á sig ærna skömmina og "vildi [því] ekki tjá sig efn­is­lega um þau atriði sem Árni [Páll Árnason, formaður hennar] nefn­[di] í bréfi sínu" í gær, þar sem hann eðlilega útlistaði ýmis mistök sem hann kvað hafa verið gerð af hálfu Samfylkingarinnar, en þar var Icesave-málið einna efst á blaði.

Til hamingju, Árni Páll.

Samúðarkveðja, Oddný og þín stöðu hross í flokknum gráa og guggna.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Bréf Árna Páls kom á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband