"Þar sem Steingrímur virðist alls ekki ætla að viðurkenna mistökin í Icesave-málinu, þá er rétt að rifja upp nokkur lykilatriði:
- Hefðu Íslendingar samþykkt fyrstu Icesave-samningana þá stæði skuld Íslands við Breta og Hollendinga nú í 230 milljörðum í erlendri mynt og ættu fyrstu greiðslur að hefjast á þessu ári.
Þessi upphæð hefði lagst ofan á þær greiðslur sem Bretar og Hollendingar hafa nú fengið úr þrotabúi Landsbankans. Um er að ræða umsaminn vaxtakostnað (5,6% af u.þ.b.700 milljörðum) sem hefði safnast upp á þeim tíma sem tók að koma eigum bankans í verð. Með því að fella fyrstu Icesave samningana, sluppu Íslendingar við að greiða þessa óréttmætu kröfu Breta og Hollendinga.
2. Þvert á venjur og reglur sem gilda um fall einkabanka, gerðu Icesave samningarnir ráð fyrir að íslenska þjóðarbúið tæki á sig ábyrgð á að borga kröfu Breta og Hollendinga í þrotabú Landsbankans, óháð því hvað fengist úr þrotabúinu.
Þótt komið hafi í ljós að þrotabúið hafi náð að selja eigur upp í alla upphæðina, þá var gríðarleg áhætta sem fylgdi samningunum. Ef sala eigna bankans hefði ekki dugað þá hefði mismunurinn, auk 230 milljarðanna, verið greiddur af Íslendingum.
3. Það er nú almenn grundvallarregla sem er búið að leiða í lög, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, að almenningur eigi ekki að bera kostnað af falli fjármálafyrirtækja. Vandséð er af hverju annað ætti að gilda hérlendis. http://ec.europa.eu/finance/bank/crisis_management/ "
Þetta eru markverð skrif Ólafs, sem var einn aðalmaðurinn í InDefence-hópnum. Greinin hefst á þessum orðum: "Hún er leiðinleg þessi tilhneiging manna að geta ekki viðurkennt að hafa haft rangt fyrir sér." Dæmi um þetta telur hann greinarskrif Steingríms J. Sigfússonar í Kjarnanum um Icesave-málið. "Þar gerir hann lítið úr ávinningnum af því að Icesave-málið hafnaði fyrir dómstólum og fullnaðarsigur vannst í því fyrir Íslendinga." En Ólafur telur Steingrím, með hliðsjón af ýmsu, vel hafa "efni á því að viðurkenna mistök sín".
Það hefur Steingrímur þó enn ekki gert í Icesave-málinu og eykur því aðeins fremur en minnkar ábyrgð sína.
Geta má þess, að Buchheit-samningurinn hefði einnig orðið okkur kostnaðarsamur, eins og áður hefur verið rakið hér á síðu Þjóðarheiðurs. Um 75 milljarða væri hann búinn að kosta okkur og það í erlendum gjaldeyri og féð óendurkræft.
-JVJ.