Fjallað um þjóðarsigur í Icesave-máli

Glæsilega er fjallað um Icesave-niðurstöðu EFTA-dómsins og sögu málsins í Morgunblaðinu í dag, það er fullt af góðri greiningu, yfirliti, leiðaranum eitilhörðum, viðtölum o.fl., og ættu sem flestir að fá sér blaðið. Hér er ótvírætt um ÞJÓÐARSIGUR að ræða, þótt málsvarar stjórnvalda séu tregir til að nota slík orð og mæli gegn of mikilli gleði! Eins vill það fólk "ekki horfa aftur", og skyldi engan undra!! Orð og gerðir ríkisstjórnarsinna í því máli, um "greiðsluskylduna" og annað heimskulegt, mæla nú ekki beinlínis með þeim svo stuttu fyrir kosningar!

Hér á síðunni verður tekið á ýmsum þáttum þessa máls á dögunum sem í hönd fara. En meðal forvitnilegs efnis í Mbl. er upprifjun blaðamanns þar, Baldurs Arnarsonar, á hinum furðulega "Áfram-hópi" og stuðningi hans við Buchheit-samninginn. Í þessum frábæra vitsmunahópi voru m.a. Hjálmar Sveinsson, varamaður í borgarráði fyrir Samfylkingu, Jóhann Hauksson, upplýsingafulltrúi Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, Guðmundur Steingrímsson, núv. formaður Bjartrar framtíðar, Gylfi Arnbjörnsson, þá sem nú forseti ASÍ, samfylkingarþingmennirnir Oddný Harðardóttir og Skúli Helgason og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar (sem einnig er ESB-maður, þótt það komi ekki fram í fréttinni).

Þá segir Baldur í sömu frétt* frá mælingu ungra jafnaðarmanna (á vefsíðu þeirra) á því, hve miklu Ísland væri að tapa á því að gera ekki Icesave-samninginn árið 2011! Á "stundaklukku" voru þeir endemis-ratar komnir upp í 2770 milljarða króna áætlaðan "fórnarkostnað" af því að hafna Buchheit-samningnum (70% meira en þjóðartekjur 2011)!!! Við vitum nú betur!

* Bara fyrirsögn og undirfyrirsagnir þessarar greinar á bls. 4 ættu að vekja athygli:

"Já-hópar lokuðu vefsíðum sínum

• Áfram-hópurinn vildi samþykkja Icesave-samning í síðari þjóðaratkvæðagreiðslunni • Fjöldi þjóðþekktra einstaklinga studdi hópinn • Ungir jafnaðarmenn voru sama sinnis • Settu upp skuldaklukku"

 

Já, það mætti halda að þessir ungu jafnaðarmenn hafi beðið dómsdags fyrir íslenzkt efnahagslíf og endaloka lýðveldisins!  Í gær fengu þeir að sjá hinn réttláta dóm, og hann skar úr um sakleysi þjóðarinnar í þessu máli og alls enga greiðsluskyldu!

Jón Valur Jensson.  


mbl.is Þjóðarsigur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttlætið og íslenzka þjóðin og samstaða hennar gegn brigðulli stjórnmálastétt vann Icesave-málið í EFTA-dómstólnum!

Niðurstaðan er fengin: FULLUR SIGUR, staðfestur jafnvel með því, að Ísland þarf engan málskostnað að bera, heldur ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) og Evrópusambandið! Mega þeir nú skammast sín á Rúv sem boðuðu það til síðasta dags, að ESA hefði aldrei tapað máli og að allt væri því hér í hættulegri óvissu. 

  • Dómstóllinn taldi að tilskipunin gerði ekki ráð fyrir að EES-ríki væri skuldbundið til að tryggja þá niðurstöðu sem ESA hélt fram um greiðslur til innstæðueigenda á Icesave-reikningum Landsbankans í Hollandi og Bretlandi þegar jafnmiklir erfiðleikar geysuðu í fjármálakerfinu og raunin hefði verið á Íslandi. Þannig léti tilskipunin því að mestu leyti ósvarað hvernig bregðast ætti við þegar tryggingarsjóður gæti ekki staðið undir greiðslum. Dómstóllinn benti í því sambandi á að eina ákvæði tilskipunarinnar sem tæki til þess þegar tryggingarsjóður innti ekki greiðslu af hendi væri að finna í 6. mgr. 7. gr. hennar, en þar væri kveðið á um að innstæðueigendur gætu höfðað mál gegn því innlánatryggingarkerfi sem í hlut ætti. Hins vegar kæmi ekkert fram í tilskipuninni um að slík réttarúrræði væru tiltæk gegn ríkinu sjálfu eða að ríkið sjálft bæri slíkar skyldur. Þá taldi dómstóllinn að fyrsta málsástæða ESA [þ.e. "að Ísland hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt tilskipuninni og þá sérstaklega samkvæmt 3., 4., 7. og 10. gr. hennar"] hefði hvorki stoð í dómaframkvæmd né öðrum reglum sem teknar hefðu verið inn í EES-samninginn. 
  • Með dómi sínum í dag sýknaði EFTA-dómstóllinn íslenska ríkið af kröfum ESA. (Mbl.is.)  

Sjá hér fréttatilkynningu  EFTA-dómstólsins á íslenzku um dóminn.

Samstaða þjóðarinnar var mikil í þessu máli, en sú samstaða vannst þó fyrir þrautseiga baráttu margra einstaklinga og nokkurra samtaka gegn sameinuðum straumi margra fjölmiðla, einkum Rúv og 365 miðla (Morgunblaðið og Útvarp Saga voru nánast einu undantekningarnar), álitsgjafa í háskólasamfélaginu, vinstri flokkanna beggja, ríkisstjórnarinnar (þ.m.t. Össurar sem nú er í vandræðalegri stöðu) og frekra bloggara sem gengu fram með frýjunarorðum og jafnvel beinum svívirðingum um baráttu þjóðarinnar í þessu máli. Þeir ættu nú allir að biðja þjóðina afsökunar á óþjóðhollu framferði sínu.

Með baráttu fernra frjálsra samtaka (InDefence-hópsins, Þjóðarheiðurs - samtaka gegn Icesave, Advice-hópsins og Samstöðu þjóðar gegn Icesave) tókst að koma í veg fyrir bein spellvirki stjórnmálastéttarinnar á fjárhag ríkisins, efnahag fólks og komandi kynslóða, þ.e.a.s. með því að kalla fram þær tvær þjóðaratkvæðagreiðslur, sem stöðvuðu svikaferlið sem í gangi var á Alþingi á vegum helztu Icesave-postulanna, Steingríms og Jóhönnu, Össurar og Gylfa Magnússonar, Árna Þórs Sigurðssonar og jafnvel undir lokin Bjarna Benediktssonar og þess meirihluta í þingflokki hans sem ekki hafði bein í nefinu til að standa gegn stuðningi hans við Buchhheit-samninginn.

Heill sé hinum á þingi, sem börðust gegn þessu svika- og prettamáli, fólki eins og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, Birgi Ármannssyni, Pétri Blöndal, Unni Brá Konráðsdóttur, Höskuldi Þórhallssyni, Vigdísi Hauksdóttur, Gunnari Braga Sveinssyni o.fl. 

Og til hamingju, íslenzka þjóð. Nú er léttara yfir okkur flestum og skýrari sjónin. 

Jón Valur Jensson.


mbl.is Ísland vann Icesave-málið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óviðeigandi og varasöm íhlutun fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um íslenzk hagsmunamál

Vorum við ekki orðin laus við þennan Rozwadowski frá Íslandi, sendifulltrúa AGS?!

Þykir honum það í alvöru viðeigandi að vera með yfirlýsingar um verstu (frekar en beztu) hugsanlegu niðurstöðu EFTA-dómstólsins um Icesave-málið, meðan dómararnir eru að bræða sig saman um endanlegan úrskurð?

Er hann að reyna að hafa áhrif í þá átt, fyrir vini sína Breta og Hollendinga, að láta dómstólinn álykta sem svo, að það sé ekki sök sér að skella á 4. hundrað milljarða á Íslendinga, af því að það sé "ekki nema um 20% af landsframleiðslu" og af því að hr. Rozwadowski gefur recept, ef ekki bevís upp á það, að íslenzkt samfélag myndi þola það?

Hvort sem orð hans gætu haft hér áhrif, er augljóst, að hann var ekki að tala þarna fyrir íslenzkum hagsmunum og að slettirekuháttur er þetta og ekkert annað og manninum sæmst að taka pokann sinn í kvöld frekar en fyrramálið.

En eins og áður hefur komið fram hér og eins í afar góðum greinum Sigurðar Más Jónssonar viðskiptablaðamanns, sem og InDefence-manna, er málstaður íslenzka ríkisins og skattgreiðenda í Icesave-málinu bæði góður og lögvarinn, og vonandi geta engin utanaðkomandi afskipti haft áhrif á það -- né á okkar huglausu stjórnvöld.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Ísland mun standa af sér slæma niðurstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hollendingar í fljúgandi vanþekkingu, ef ekki er hér beinlínis um að ræða ljúgandi pólitíska vindhana

Það er raunalegt að horfa upp á margítrekuð vanþekkingarskrif Breta og Hollendinga, m.a. á vefsíðum fjölmiðla, um Icesave-málið. Þeir láta t.d. sem við Íslendingar skuldum innistæðueigendum eitthvað! Nú þykjast hollenzkir geta krafið okkur um rafmagn í sæstreng af því að "Íslendingar skuldi þeim háar fjárhæðir vegna Icesave-málsins."

Í 1. lagi er ekki samasemmerki milli íslenzku þjóðarinnar og einkafyrirtækis, og ríkið ber heldur ekki ábyrgð á Landsbankanum né á Tryggingasjóði innistæðueigenda og fjárfesta. 

Í 2. lagi hafa innistæðueigendum þegar verið greiddar sínar innistæður af tryggingasjóðum Breta og hollenzkra yfirvalda. 

Í 3. lagi hefur þrotabú Landsbankans þegar greitt meirihlutann til baka af því fé.

Hollenzkir stjórnmálamenn virðast jafn-hneigðir til lýðskrums og vanþekkingingarvaðals eins og brezkir pólitíkusar í upphafi Icesave-deilunnar. Nú er hollenzki Verkamannaflokkurinn, PvdA, að reyna að fiska í þessu grugguga vatni, 

  • "en hann myndar núverandi ríkisstjórn landsins ásamt hægriflokknum VVD.
  • Hugmyndin hefur fengið góðar undirtektir hjá þremur stjórnarandstöðuflokkum og hefur talsvert verið fjallað um hana í hollenskum fjölmiðlum að undanförnu. Meðal annars er fjallað um málið á fréttavef RTL-sjónvarpsstöðvarinnar í Hollandi. Þar segir að Íslendingar búi yfir mikilli grænni orku og mun meiri en þeir þurfi sjálfir á að halda. Fyrir vikið séu þeir áhugasamir um að selja umframorku úr landi. Einungis 10% af þeirri orku sem Hollendingar noti sé hins vegar græn.
  • Rifjaður er upp áhugi breskra stjórnvalda á lagningu slíks sæstrengs frá Íslandi til Bretlands og þess getið að Hollendingar gætu hugsanlega komið að þeim málum. Hvað kostnaðinn varðar þurfi Hollendingar ekki að hafa miklar áhyggjur að því er segir í fréttinni enda skuldi Íslendingar þeim háar fjárhæðir vegna Icesave-málsins." (Mbl.is) !!!

Hláleg er þessi endemisvitleysa, öll byggð á vanþekkingu og tilheyrandi skrumi, sem henta þykir til að öðlast vinsældir í pólitík. Við Íslendingar og íslenzka ríkið skuldum ekki eyri vegna Icesave.

En hvað um hugmyndina um sölu rafmagns til Bretlands og meginlandsins? Þótt það varði ekki samtökin Þjóðarheiður, sakar ekki að minna á, að sú hugmynd, sem margir gripu á lofti, er nú talin óhentug vegna verðbólguáhrifa slíkrar sölu á raforkuverð til okkar sjálfra.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Vilja rafmagn upp í Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefði Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir sagt nei við Icesave-samningunum?!

Trúlega ekki! Samt er það tillaga stjórnlagaráðs að gera forseta Alþingis að EINA staðgengli forseta Íslands. Þarna er verið að kasta burt forseta Hæstaréttar, auk forsætisráðherra, meðal staðgengla forseta Íslands. Þátttaka forseta Hæstaréttar er vitaskuld bremsa á, að pólitíska valdið misnoti aðstöðu sína og komi t.d. í veg fyrir málskot mikilvægs löggjafarmáls til þjóðarinnar. Sjá um þetta nánar hér: Stórvarasamar tillögur stjórnlagaráðs um forseta Alþingis og forseta Íslands.

Þá er það ennfremur vilji stjórnlagaráðs að undanskilja sérstaklega "lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum", þegar í 65. og 67. tillögugrein þess er gefið færi á því, að 10 af hundraði kjósenda geti krafizt þjóðaratkvæðis um lög, sem Alþingi hefur samþykkt. Þetta undanskilda ákvæði felur í sér, að ekki mætti t.d. hafa þjóðaratkvæði um mál eins og Icesave, ekki frekar en við getum t.d. notað ákvæði 66. greinar til að krefjast þjóðaratkvæðis um að segja upp Schengen-samningnum eða EES-samningnum.

* Sjá hér, 82. tillögugrein "ráðsins": "Geti forseti Íslands ekki gegnt störfum um sinn vegna heilsufars eða af öðrum ástæðum fer forseti Alþingis með forsetavald á meðan."

JVJ.


Ríkisstjórn spáði óförum lands og þjóðar, ef Icesave-epli hennar yrði hafnað, en virðist þrífast bezt á því, að þjóðin valdi sér betra viðbit!

Í tvígang þurfti þjóðin að grípa í taumana og gera ríkisstjórnina afturreka í máli sem hún sjálf fullyrti að væri hið stærsta sem fengist væri við. Og því var bætt við að gengi vilji þjóðarinnar fram en ekki ríkisstjórnarinnar „yrði efnahagsöngþveiti í landinu“. Engin ríkisstjórn hefur fengið annan eins skell úr hendi eigin þjóðar og samt setið sem fastast. Hún hafði reynt að fá þjóðina til fylgilags með ósannindum og alvarlegustu hótunum sem ríkisstjórn getur haft uppi. Hún stóð berstrípuð eftir. Og það var ljót sjón lítil. En samt fór hún ekki. Hún hékk. Og hún hrósaði sjálfri sér jafnvel fyrir þá ósvinnu. Vettvangur þessa alls var litla snotra þinghúsið við Austurvöll ...

Þannig er ritað í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag, raunar í sunnudagsblaði í nýjum og hressilegum búningi.

icesave32

Já, það er merkilegt, hvernig ríkisstjórn Steingríms og Jóhönnu óð í þetta Icesave-mál sitt af mestu vanefnum, en þó eins og hún ætti líf sitt undir þessu ginningarmáli (meðan hún sótti það sem fastast), jafnvel að Fjallkonan ætti allan sinn velfarnað undir þessu! -- Ísland yrði ella "Kúba norðursins" (sem eitt sinn var þó e.t.v. æskudraumur Steingríms J. Sigfússonar) og byggi úr því við efnahagsöngþveiti og algert vantraust umheimsins!

Ekkert af hrakspánum rættist. Þvert á móti er óhætt að fullyrða, að ríkisstjórnin eigi á þessari stundu langlífi sitt undir því ekki sízt, að þjóðin sparaði ríkisjóði gríðarlegt fé. Jafnvel samkvæmt Buchhheit-samningnum væri nú búið að greiða út yfir 60 milljarða króna í erlendum gjaldeyri í reiðufé í vexti af engu! Hvar hefðu Steingrímur og Jóhanna, Össur, Katrín litla og Guðbjartur tekið það fé? Ekki af eyðslureikningnum vegna umsóknar þeirra um inntöku lands og þjóðar með manni og mús í Evrópusambandið, heldur af ráðstöfunarfé tveggja mestu útgjalda-ráðuneytanna, mennta- og menningarmála og "velferðar"!

Þrengingarnar í spítalakerfinu væru sem sé orðnar enn hrikalegri, ef þjóðin hefði orðið að borga þessa Buchheit-vexti af engu -- og væri enn að bæta við þá! Í sama Reykjavíkurbréfi er einmitt vikið að þessum og öðrum þrengingum undir yfirumsjón ríkisstjórnar, sem þó stærir sig af verkum sínum:

Fólkið ... horfir á í forundrun að ekki er lengur hægt að meðhöndla dauðveikt fólk í samræmi við þá þekkingu sem er fyrir hendi á spítulum því tæki og tól eru ónýt eða þeim er ekki lengur treystandi, ekki einu sinni þegar dauðans vá er annars vegar. Og í sömu andrá sér það að þeytt er þúsund milljónum króna í óskiljanlegt gæluverkefni fólks sem vill atast út í stjórnarskrána og gera hana að ómerkilegum óskalista á borð við þær ályktanir þingsins sjálfs sem minnst er að marka ... 

Í stað þess að hreykjast um ætti ríkisstjórnin að leggjast á kné í auðmýkt á þessum sunnudagsmorgni og þakka forsjóninni fyrir þá makrílgöngu hingað, sem ein sér er aðalástæðan fyrir þeirri óvæntu hagvaxtarþróun, sem orðið hefur hér þrátt fyrir aðgerðarleysi stjórnvalda í atvinnumálum, og fyrir þá þjóð sína, sem hafði vit á því að spara sér um 80 milljarða króna í vexti af engu.

Smellið á myndina til að sjá hana stærri!

Jón Valur Jensson. 


Eiríkur S. Svavarsson og Ragnar F. Ólafsson með upplýsandi grein um Icesave-málið í Mbl.

Málflutningi í Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum lauk í gær, og staða okkar er talin góð. Í gær birtist yfirlitsgrein í Morgunblaðinu: Nokkrar staðreyndir í Icesave-málinu; höfundarnir eru í InDefence-hópnum. 

Þeir rita:

  • Mál ESA gegn Íslandi
  • Fyrstu tveir Icesave-samningarnir ógnuðu fullveldi þjóðarinnar og í þeim var fólgin áhætta sem stefndi efnahag hennar í voða. Þriðji samningurinn var mun skárri, en samt ekki eins góður og af var látið. Eftir vandlega yfirlegu gat InDefence-hópurinn ekki stutt Icesave III samninginn óbreyttan. Niðurstaða þjóðarinnar vegna Icesave III var sú að ítreka afstöðu sína með afgerandi hætti í annarri þjóðaratkvæðagreiðslu um málið með því að hafna greiðsluskyldu á ólögvarinni kröfu. Í því felst að gagnaðilar okkar í Icesave-deilunni þurfa að sýna fram á tjón sitt af aðgerðum íslenskra stjórnvalda fyrir réttmætum dómstólum vilji þeir að íslenskir skattgreiðendur greiði.

Þá segja þeir ennfremur:

  • Margt skýrist þó þegar málsaðilar gera grein fyrir málstað sínum í opinberu dómsmáli. Þannig kemur fram í kæru ESA að EFTA-dómsmálið snýst um lágmarkstrygginguna en ekki fullar innstæður, eins og alltof margir fullyrða hér innanlands í skrifum sínum. Þá er það skýrt sérstaklega í svörum ESA að ekki sé ætlast til þess að Ísland greiði Icesave-innistæður með fé úr opinberum sjóðum (skattfé) og tekið er fram að eðlilegt sé að bankakerfið leggi fram það fé, komi það ekki úr þrotabúi Landsbankans.

Eins og hér má sjá, er þarna um spennandi grein að ræða, en þrefalt eða fjórfalt lengri er hún, og eru áhugamenn um málið hvattir til að ná sér í þetta eintak af Mogganum í gær eða lesa um þetta á netinu.

jvj 


mbl.is Málflutningi í Icesave-málinu lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave-málið komið í EFTA-dóminn

Menn eru hvattir til að lesa afar upplýsandi pistla Sigurðar Más Jónssonar um Icesave-málið og EFTA-dómstóls-fyrirtökuna, þar sem Skúli Magnússon telur niðurstöðu að vænta eftir 2-3 mánuði. Sigurður Már ritar reglulega pistla um málið á viðskiptasíðu Mbl.is og var viðstaddur málflutninginn nú í vikunni. Hér eru pistlar hans um málið (opnir öllum að lesa):

Nýjustu pistlar

jvj


Afar upplýsandi skrif um Icesave-málið

Áfram heldur Sigurður Már Jónsson viðskiptablaðamaður, höfundur bókarinnar um Icesave-málið, að birta merkar rannsóknargreinar um stöðu Icesave-málsins almennt og í EFTA-dómstólnum. 2. grein hans: Gat Ísland borgað Icesave, birtist nú í vikunni, á viðskiptasíðu Mbl.is, og eru allir hvattir til að lesa hana.

Hér eru tvær klausur úr þessari athyglisverðu grein hans, sem kemur þó inn á miklu fleiri spennandi atriði:

  • Málsókn ESA byggir í raun á því að íslenska ríkið hefði þurft að leggja tryggingasjóðnum til peninga ef eignir hans dugðu ekki til. Íslensk stjórnvöld telja að enga slíka skyldu sé að finna í tilskipuninni og ekkert ríki gerir ráð fyrir slíkum skuldbindingum. Ef þær skyldur væru til staðar hefur nú verið reiknað út að í bankahruni yrði kostnaður Evrópusambandsríkja að meðaltali 83% af landsframleiðslu þeirra. Hugsanlega hefði íslenska ríkið geta farið þá leið að prenta krónur og nota þær. Ólíklegt er að innstæðueigendur hefðu sætt við slíkt auk þess sem efnahagur íslenska ríkisins bauð ekki upp á slíkt.
  • Því má taka undir þau rök íslenska ríkisins að lögskýring ESA myndi í alvarlegri kreppu leiða til hættu á greiðsluþroti ríkja og samfélagslegs uppnáms í kjölfar þess eins og áður var vikið að með gjaldeyrisforðann. Lögskýringin er þess vegna í beinni andstöðu við reglur EES-réttar um að lög eigi að vera skýr og beiting þeirra fyrirsjáanleg, enda hvergi minnst á ábyrgð ríkja í innstæðutryggingatilskipuninni sjálfri eins og rakið er í svari íslenska ríkisins.

Greinin er opin öllum að lesa á Mbl.is, og nú ættu menn að bregða sér þangað og sjá hans sterku rök, sem nánar verður fjallað hér um síðar. Ef menn kunna jafn-vel að meta skrif hans og undirritaður og aðrir hér í Þjóðarheiðri, ættu þeir að kynna hana sem víðast, t.d. með Facebókar-tengingu og meðmælum.

Frá 1. grein Sigurðar Más í þessum greinaflokki um Icesave var sagt hér um daginn (Vönduð úttekt á málefnastöðu Íslands í Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum), og í þriðju greininni, sem birtist væntanlega á næstunni, hyggst hann "reyn[a] að meta hvort nokkur skylda hvíldi á íslenska ríkinu að greiða innstæður til erlendra viðskiptavina bankanna."

JVJ. 


Vönduð úttekt á málefnastöðu Íslands í Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum

Sigurður Már Jónsson, reyndur viðskiptablaðamaður, höfundur bókarinnar um Icesave-málið, birti í gær á Mbl.is merka grein sem verðskuldar mikla athygli. Hún er hér meðal pistla hans: Málstaður Íslands í Icesave-málinu.

Mikill fengur er að því, að Sigurður Már, einn alfróðasti maður á þessu sviði, tekur þessi mál til grandgæfilegrar athugunar og hyggst halda því áfram; nú gilda ekki lengur yfirborðslegar og "auðveldar" fljótfærnis-ályktanir eða fullyrðingar ýmissa sem hafa ekki tekið sér tíma í að rannsaka forsendur, dómafordæmi, verklag og reglur sem hér liggja til grundvallar afgreiðslu EFTA-dómstólsins á málum; hér geta þeir séð, að öðruvísi er í pottinn búið um ýmislegt sem þeir höfðu gefið sér að væri með allt öðrum hætti en það er í raun.

Meðal athyglisverðra hluta, sem hann nefnir, er að "hafa verður í huga að Icesave-málið er einstakt og ótvírætt stærsta mál sem komið hefur fyrir EFTA-dómsstólinn." - Forsagnarspá og hræðslutal sumra um niðurstöðuna fyrir fram byggist því engan veginn á neinni ótvíræðri, fyrirliggjandi reynslu um úrlausn mála af þessu tagi.

En endilega lesið GREININA SJÁLFA, hún fer skemmtilega fróðlega í saumana á þessum málum og þó af fullri festu og alvöru.

JVJ.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband