Bloggfærslur mánaðarins, júní 2013
20.6.2013 | 19:20
Það var þá helzt - að við gætum "treyst á Bretland sem bandamann"!
David Lidington, Evrópumálaráðherra Bretlands, virðist gera ráð fyrir því, að óminnishegrinn hafi leikið Íslendinga svo grátt, að við munum ekki ýmsar árásir Breta á lífshagsmuni okkar í meira en öld, þegar hann segir: Ég vil fullvissa ykkur um að sama hvaða leið þið veljið [að ganga í Evrópusambandið eða standa áfram utan þess], getið þið treyst á Bretland sem bandamann og vin. En þessi orð lét hann falla í ræðu sem hann flutti -- greinilega bæði fyrir Bretland og Evrópusambandið -- á opnum umræðufundi í Háskóla Íslands í dag (undirritaður sótti þann fund).
Lidington fjallaði ekki um freklega ásókn Breta í íslenzk fiskimið í byrjun 20. aldar í þessari ræðu sinni, en hefði auðveldlega getað fengið upplýsingar þar um hjá einum í panelumræðu dagsins, Guðna Jóhannessyni sagnfræðingi, sem skrifaði doktorsritgerð sína um landhelgisstríðin.
- Ráðherrann lagði áherslu á að Bretland og Ísland ættu samleið í ýmsum málum eins og til dæmis sjávarútvegi. Bæði Íslendingar og Bretar gerðu sér grein fyrir mikilvægi þess að ákvarðanir í þeim efnum væru teknar sem næst þeim sem þær hefðu áhrif á. Þá gerðu Bretar sér grein fyrir því að það skipti Íslendinga máli að tekið væri tillit til sérstöðu þeirra. Bretar hafi fyrir vikið stutt umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið og hvatt sambandið til þess að sýna Íslendingum eins mikinn skilning og hægt væri í samningsafstöðu sinni.
- Það þýðir ekki að það þurfi ekki að fara eftir einhverjum reglum en það samrýmist því mati okkar á Evrópusambandinu að þær reglur ættu að þjóna þeim tilgangi að stýra skilvirkum innri markaði en ekki kæfa niður framtaksemi og staðbundna hagsmuni eins og raunin virðist hafa verið til þessa, sagði Lidington. Finna þyrfti jafnvægið á milli frekari samruna innan sambandsins og sveigjanleika og þar væru Ísland og Bretland í sama liði.
Það er eitthvað nýtt, að Ísland og Bretland séu "í sama liði" í þessum efnum! Öll okkar langhelgisstríð háðum við við Bretland, sem barðist til dæmis svo harkalega gegn einkarétti okkar á fiskimiðunum innan 50 og 200 mílna, að það sendi hingað vígdreka sína; m.a. tóku 22 brezkar freigátur þátt í síðasta þorskastríðinu 1975-1976, og að minnsta kosti 54 árekstrar áttu sér þá stað við varðskip okkar, eins og lesa má um í bók dr. Guðna Th. Jóhannessonar, Þorskastríðin þrjú, Rvík 2006 (Hafréttarstofnun Íslands).
Eftir fullan sigur okkar yfir gamla heimsveldinu Bretlandi í landhelgismálunum gætti lengi óvildar í okkar garð þar í landi, m.a. í sjávarbyggðum, enda misstu þar margir atvinnuna. Þegar bankakreppan reið yfir og Icesave-málið komst á skrið, mátti víða á brezkum vefsíðum sjá uppblossaða reiði, hefnigirni og heitstrengingar vegna þroskastríðanna, þar sem brezka ljónið varð að hörfa með skottið á milli lappanna.
En Icsave-málið sjálft varð endurnýjað árásartilfelli Breta á hendur okkur. Ekki nægði brezku stjórninni minna en hryðjuverkalög gegn Íslandi, sem komu landinu í mikil vandræði og áttu að verða okkur til áfellisdóms í augum heimsbyggðarinnar, heldur hóf ríkisstjórn Gordons Brown árás á okkur með ólögvörðum milljarðahundraða-fjárkröfum á hendur ríkissjóði Íslands. Alger ósigur Breta í því kröfumáli blasti við, þegar EFTA-dómstóllinn kvað upp sinn dómsúrskurð í febrúar síðastliðnum, en ekki fyrr en brezkum stjórnvöldum hafði tekizt að skekja hér allt samfélagið árum saman með sínum ólögmætu kröfum og þrengt svo að stjórnvöldum hér í krafti þeirrar lögleysu, að hinir aumustu í stjórnmálastétt Íslands létu undan ásókninni. Það var ekki fyrr en eftir frækilegar varnir grasrótarhreyfinga, herra Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta landsins, og öfluga mótspyrnu mikils meirihluta kjósenda, sem stjórnvöld hér fóru að gefa því gaum, að það rétta fyrir þau væri einfaldlega að verjast á grundvelli laganna og byrja a.m.k. á slíkri aðgerð fyrir EFTA-dómstólnum. Niðurstaðan varð einmitt sú sem þjóðhollustu menn og gleggstu á texta laganna höfðu sagt fyrir: að réttur okkar yrði sannaður og varinn í slíku dómsmáli.
En það var svo sannarlega ekki Bretum að þakka og heldur ekki Evrópusambandinu, sem gerðist aðili að dómsmálinu fyrir EFTA-réttinum gegn hagsmunum Íslands!
Þegar þessi Evrópumálaráðherra Breta býður nú Ísland "hjartanlega velkomið" í Evrópusambandið og segir Bretland munu styðja inngöngu lands okkar, þá er í hæsta máta eðlilegt og tímabært, að Íslendingar rifji upp hina gömlu samskiptasögu og hvort við höfum nokkurn tímann getað gengið að stuðningi brezka ríkisins við lífshagsmuni okkar vísum. Dómur sögunnar svíkur engan þrátt fyrir viðleitni erlendra sendimanna. Við getum ennfremur verið viss um, að Bretar hyggja einmitt á að komast yfir að gramsa í íslenzkum fiskistofnum í stórum stíl og bæta sér margfaldlega allt tap sitt af því að glata einokun sinni í eigin landhelgi í Norðursjó við ESB-inngönguna, þ.e.a.s. ef þeim og öðrum miður vinsamlegum tekst að narra okkur inn í Evrópusambandið. (Þetta allra síðasta hér skrifar undirritaður í eigin nafni, ekki Þjóðarheiðurs, sem tekur ekki afstöðu til ESB nema að því leyti sem það hefur beitt sér gegn okkur í Icesave-málinu.)
Jón Valur Jensson.
Getið treyst á Bretland sem bandamann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjómenn og sjávarútvegur | Breytt 21.6.2013 kl. 04:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.6.2013 | 12:41
Forsætisráðherra með hjartað á réttum stað í hagsmunamálum þjóðarinnar
ESB tók þátt í tilraunum til að þvinga Íslendinga til að taka á sig gríðarlegar efnahagslegar byrðar í andstöðu við lög og braut svo blað í sögu sinni til að taka þátt í málaferlum gegn Íslandi. Nú þarf ESB að sýna að það sé samband sem byggi á lögum og jafnræði, en ekki valdi í krafti stærðar og hagsmuna hinna stóru.
Já, nú fekk sannleikurinn að hljóma á Austurvelli. Með orðum Rúv: Sigmundur Davíð sendi AGS og ESB tóninn. Hann sagði Íslendinga vilja taka virkan þátt í alþjóðasamstarfi, en: Við munum hins vegar ekki láta alþjóðastofnun segja okkur að ekki sé hægt að gera meira fyrir íslensk heimili um leið og minnt er á mikilvægi þess að ljúka uppgjöri efnahagshrunsins. Vel mælt!
Það vekur hins vegar athygli í Rúv-fréttinni, að þar var þeim orðum Sigmundar Davíðs sleppt, sem hér var byrjað á í þessari samantekt! Var sá sannleikur um "frammistöðu" Evrópusambandsins kannski of bitur fyrir þá Fréttastofu ríkisstjórnarútvarps, sem árum saman vann leynt og ljóst gegn hagsmunum og lagalegum rétti okkar Íslendinga í Icesave-málinu og er sjálf margítrekað höll undir Evrópusambandið?!
- Sigmundur gerði ICESAVE-deiluna að umræðuefni og sagði Íslendinga hafa tekið afdráttarlaust þá afstöðu að ekki ætti að leggja skuldir gjaldþrota banka á herðar almennings. Íslendingar hefðu ekki látið ógnanir úr ýmsum áttum slá sig út af laginu. Þá sagði Sigmundur fólk víða um Evrópu líta á Ísland sem fyrirmynd í baráttunni við við afleiðingar efnahagsþrenginganna sem margar Evrópuþjóðir takast nú á við. (Mbl.is.)
Og orðrétt: Íslendingar, afkomendur þessara víkinga, hafa löngum verið sjálfstæðir í hugsun og þolað illa yfirvald, hvað þá kúgun. Það sýndi sig vel í ICESAVE-deilunni þar sem þjóðin felldi samkomulag sem hún taldi ósanngjarnt. Alþjóðlegur dómstóll staðfesti síðan þessa niðurstöðu sem sýndi að réttlætistilfinning þjóðarinnar var góður vegvísir.
Evrópusambandið þarf að sanna sig | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Samstaða þjóðar gegn Icesave
mótmælir umfjöllun RÚV um Icesave-III-samningana
Til Sigmars Guðmundssonar þáttastjórnanda hjá RÚV.
Vegna viðtals sem þú tókst við Lárus Blöndal í Kastljósi 2. marz 2011 viljum við félagar í Samstöðu þjóðar gegn Icesave koma á framfæri athugasemdum er varða Icesave-málið. Að okkar mati hallar Lárus gróflega réttu máli og viljum við rökstyðja það álit með nokkrum orðum. Jafnframt bendum við á skyldur RÚV að »gæta fyllstu óhlutdrægni« og »veita hlutlæga fréttaþjónustu«.
Samstaða þjóðar gegn Icesave stóð fyrir undirskriftasöfnuninni á kjósum.is, þar sem yfir 40.000 manns gengu til liðs við okkur. Markmið Samstöðu þjóðar gegn Icesave er að Icesave-kröfum Bretlands og Hollands verði hafnað.
1. Lárus Blöndal hefur haldið því fram að lögsaga Íslands væri varin með Icesave-samningum-III. Ekkert gæti verið fjær sanni, því að í flestum samningunum 10 sem þjóðinni hafa verið færðir undir heitinu Icesave-III eru ákvæði sem afsala lögsögu landsins fullkomlega. Dæmigert ákvæði af þessu tagi er eftirfarandi:
Lögsaga og réttarframkvæmd. Þessi samningur og öll atriði, kröfur eða deilur sem rísa kunna vegna hans eða í tengslum við hann, hvort sem um er að ræða samningsbundin atriði eða ósamningsbundin, skulu lúta lögum Bretlands og vera túlkuð samkvæmt lögum Bretlands.
2. Lárus Blöndal gefur í skyn að gjaldeyrishöftum verði viðhaldið um langa hríð, vegna þess að annars fari hagkerfið úr skorðum. Af þessu leiði að gjaldeyrisáhætta sé lítil á Icesave-samningunum. Á það má benda að gjaldeyrishöft eru brot á EES-samningnum og því geta Bretland og Holland kollvarpað þeim með litlum fyrirvara. Staðreyndin er sú að eina brotið sem Ísland hefur framið gegn EES-samningnum er gjaldeyrishöftin. Stór áhætta liggur í að þessi höft við frjálst fjármagnsflæði verði afnumin og það getur hæglega skeð ef Icesave-lögin verða samþykkt á þjóðaratkvæðinu 9. apríl.
3. Ef Icesave-lögin verða samþykkt, munu tugir milljarða verða greiddir strax og er sú greiðsla skilgreind sem áfallnir vextir. Ekki mun króna af þessum milljörðum verða endurgreidd úr þrotabúi Landsbankans. Raunar munu engir vextir verða endurgreiddir, né innifaldir í endurheimtum úr þrotabúi Landsbankans, verði Icesave-lögin samþykkt.
4. Lárus og aðrir starfsmenn ríkisins tala um góðar heimtur úr þrotabúi Landsbankans, en samt vildu Bretland og Holland ekki taka þá áhættu að bíða eftir uppgjöri þrotabúsins. Ef það er svo að þrotabúið mun eiga fyrir forgangskröfum, væri þá ekki ráð að bíða með Icesave-samningana þangað til það er komið í ljós ? Ef lögsögu Íslands verður afsalað með Icesave-lögunum, er verulegar líkur að forgangskröfum samkvæmt Neyðarlögunum verði hafnað og þá skipta heimtur úr þrotabúinu engu máli, þar verður lítið til skiptanna.
5. Ef Icesave-lögin verða samþykkt í þjóðaratkvæðinu 9. apríl 2011, má óttast að Neyðarlögin verði afnumin af hinum hollenzka dómstóli sem mun dæma eftir lögum Bretlands en ekki Íslands. Forgangsröð kröfuhafa við gjaldþrot er mjög mismunandi eftir löndum. Afsal lögsögunnar með samþykkt Icesave-samninganna yrðu stórkostleg mistök, sem ekki munu einungis afsala lögsögu Íslands yfir Neyðarlögunum, heldur einnig Gjaldþrotalögunum ásamt Innistæðu-tryggingalögunum.
6. Talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa með loðnu orðalagi talað um ákveðnar líkur fyrir hinu og þessu varðandi Icesave-samningana. Hins vegar er hægt að sýna fram á að líkur fyrir ákæru ESA fyrir EFTA-dómstólnum eru hverfandi. Þótt komi til ákæru eru óverulegar líkur fyrir sakfellingu EFTA-dómstólsins. Þá er eftir að fara með málið fyrir héraðsdóm og Hæstarétt. Að Hæstaréttur dæmi almenning á Íslandi til sektargreiðslu vegna gjaldþrots einkabanka er nánast fjarstæðukennt. Þegar allur þessi ferill er skoðaður saman, er hægt að færa stærðfræðileg rök fyrir því að útilokað er að sektardómur bíði Íslendinga, þótt Icesave-lögunum verði hafnað.
7. Stór hluti af eignum þrotabús Landsbankans er 310 milljarða króna skuldabréf sem NLB er greiðandi að. Tilurð þessa skuldabréfs er mörgum undrunarefni og aðkoma ríkissjóðs að útgáfu þess hefur ekki verið upplýst. Skuldabréfið mun upphaflega hafa verið að nafnverði 280 milljarðar, en með vöxtum og gengistryggingu er það komið í 310 milljarða. Þetta skuldabréf er tryggt með skuldabréfum Íslendskra félaga og það getur því ekki talist mjög traust. Ef skuldabréfið er með beinni eða óbeinni bakábyrgð ríkisins, er það ekki bara ótraustur pappír heldur tifandi tímasprengja fyrir ríkissjóð.
8. Ítrekað hefur verið tilkynnt um seinkun á útgreiðslum úr þrotabúi Landsbankans og núna til 01. ágúst 2011. Mjög líklegt er að frekari seinkanir verði og uppgjör bankans gæti tekið mörg ár í viðbót. Samkvæmt Icesave-lögunum verða allan þann tíma reiknaðir vextir sem nema tugum ef ekki hundruðum milljóna. Þessir vextir verða einungis greiddir ef Icesave-lögin verða samþykkt. Hins vegar ef Icesave-lögin verða felld og hið ómögulega skeður að Hæstiréttur dæmi almenning til að greiða kröfur Bretlands og Hollands, þá verða vextir ekki greiddir langt aftur í tímann og líklega engir vextir.
9. Fram kom hjá Lárusi að Landsbankinn hefur ekki hafnað kröfum vegna heildsöluinnlána. Þetta gerðu hins vegar þrotabú Glitnis og Kaupþings. Nú er rekið kröfumál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, þar sem reynt er að hnekkja Neyðarlögunum og fá heildsöluinnlánin viðurkennd sem forgangskröfur. Þetta mun örugglega ekki takast á meðan lögsaga Íslands gildir. Hins vegar um leið og lögsögunni er afsalað með samþykkt Icesave-laganna, munu Neyðarlögin ekki halda. Raunar munu kröfuhafarnir strax drífa sig til Haag og reka mál sitt undir lögsögu Bretlands.
10. Rangfærslur eru hafðar uppi um áminningarbréf ESA frá 26. maí 2010. Þær áminningar voru að langmestu leyti dregnar til baka í úrskurði ESA frá 15. desember 2010. Þar voru Neyðarlögin til meðferðar og úrskurðað um tvö atriði: a) Forgang innistæðueigenda og b) Framkvæmd FME á yfirfærslum úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju. ESA úrskurðaði að engin samningar, lög eða tilskipanir hefðu verið brotin. Enginn ágreiningur er því um að neyðarlögin munu halda, en samt er hótunum haldið áfram um mismunun innistæðu-eigenda, innan lands og utan. Allt er þetta mál í uppnámi ef lögsögunni verður afsalað með Icesave-lögunum.
11. Neyðarlögin fjölluðu um tvö atriði, a) Stofnun nýrra banka og b) Forgang krafna frá innistæðu-eigendum í þrotabú banka . Af hótunum ESA stendur bara eftir hugsanleg mismunum innlendra og erlendra innistæðu-eigenda. Gegn þessum hótunum er hægt að tefla sterkum rökum og má nefna eftirfarandi:
- Neyðarlögin fjölluðu ekki um mismunun innistæðu-eigenda og því er langsótt að halda því fram að þau hafi mismunað. Neyðarlögin sem slík bera ekki ábyrgð á hugsanlegri mismunun. Framkvæmd laganna gæti hafa valdið mismunun, sem væri þá fólgin í að innistæðu-eigendur erlendis hafi ekki fengið greiddar sínar innistæður.
- Allir innistæðu-eigendur erlendis hafa fengið greitt og þeir eiga engar kröfur lengur á TIF. Greiðslurnar voru gerðar að frumkvæði stjórnvalda í Bretlandi og Hollandi. Ríkisstjórnir þessara ríkja hrifsuðu til sín lögsögu Íslands og sköpuðu sér með því skýra skaðabótaábyrgð. Ekki er því hægt að ákæra Ísland fyrir brot á tilskipun Evrópusambandsins um lágmarkstryggingu. Hugsanlega eru einhverjar lögvarðar kröfur á hendur TIF, en alls ekki á hendur almenningi á Íslandi.
· Ólögleg inngrip ríkisstjórna Bretlands og Hollands í atburðarásina urðu þess valdandi að íslenzk stjórnvöld áttu ekki möguleika að beita erlendis sömu úrræðum og beitt var hér heima. Ríkisstjórnir Bretlands og Hollands áttu kost á að fylgja lagalegu fordæmi Íslands, en kusu á eigin ábyrgð að fara aðra og ólöglega leið. Hafi mismunun átt sér stað var hún á ábyrgð Bretlands og Hollands.
· Landsbankinn var með fullar innistæðu-tryggingar í Bretlandi og Hollandi, auk lágmarkstryggingar ESB hér heima. Ábyrgð tryggingasjóðanna FSCS og DNB er því sameiginleg með TIF. Trygginga-iðgjöld eru greidd af fjármálafyrirtækjum ríkjanna þriggja. Ef einhver kostnaður vegna Icesave er óuppgerður, þá er það mál bankanna í þessum löndum. Ekki reyndist nauðsynlegt að hækka iðgjöld bankanna til FSCS og DNB vegna Icesave, þannig að ólíklegt er að bankar í Bretlandi og Hollandi muni stefna þrotabúum föllnu bankanna á Íslandi.
12. Lárus hefur haldið því fram að kostnaði af Icesave-málinu hafi verið skipt á milli aðila. Þetta er rangt, því að fyrir liggur, að með Icesave-samningunum fá Bretar og Hollendingar allan sinn kostnað greiddan og taka enga áhættu af gengis-falli krónunnar, slökum innheimtum úr þrotabúi Landsbankans, seinum greiðslum úr þrotabúinu, minnkandi þjóðartekjum Íslands og öðrum óvisuþáttum. Jafnframt er vitað að nýlenduveldin voru tilbúin að semja um núll vexti og það var bara kjánaskapur íslenzku samninganefndarinnar sem kom í veg fyrir að sú staðreynd kæmi upp á yfirborðið.
13. Á það má benda að Landsbankinn var með fullar innistæðu-tryggingar í Bretlandi og Hollandi. Þar voru því fyrir hendi tryggingar sem voru hærri en lágmarkstrygging ESB. Minna má á að tilskipanir ESB tala um innistæðu-trygginga-kerfi í fleirtölu og ekkert bannar bönkum að vera með margfaldar tryggingar. Þess skal getið, að Landsbankinn fekk starfsleyfi í Bretlandi í desember 2001 og hann fekk viðbótartryggingu hjá FSCS fyrir Icesave í júlí 2006 (FSA No. 207250). Aðild Landsbankans að tryggingasjóðnum FSCS var til dæmis staðfest með yfirlýsingu FSA frá 8. marz 2010:
Landsbanki Íslands var með rekstrarheimild í Bretlandi frá desember 2001, sem FSA (Fjármáleftirlit Bretlands) veitti. Bankinn hafði starfsstöð í London og sem rekstraraðila í Bretlandi bar honum skylda að taka aukatryggingu hjá FSCS (Tryggingasjóður Bretlands) í samræmi við kröfur sjóðsins. Þess vegna gátu viðskiptavinir bankans í Bretlandi verið vissir um hvaða innistæðu-tryggingar þeir nutu. Við getum staðfest að FSCS greiðir innistæðu-eigendum fullar bætur, óháð þeim iðgjöldum sem greidd hafa verið vegna þeirra.
14. Þeir sem vilja hafna dómstólaleiðinni ættu að íhuga að dómstólaleiðin er löngu hafin. Haustið 2008 (13. október) dæmdi til dæmis Héraðsdómur Amsterdam (Rechtbank Amsterdam, einn af 19 héraðsréttum Hollands) eftir hollenzkum lögum að kyrrsetning eigna Landsbankans væri heimil. Kyrrsetningin gilti í 18 mánuði, en þegar gerð var frekari krafa um kyrrsetningu úrskurðaði dómstóllinn (8. marz 2010) að hann hefði ekki lögsögu í málinu og hafnaði beiðninni. Einnig má nefna ákærur fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem reynt er að hnekkja Neyðarlögunum og fá heildsöluinnlán viðurkennd sem forgangskröfur. Úrskurður ESA frá 15. desember 2010 er einnig hluti af dómstólaleiðinni. Lögsaga Íslands gildir, svo framarlega sem henni verður ekki afsalað með Icesave-lögunum.
15. Sóma síns vegna verða Íslendingar að krefjast dómsúrskurðar, vegna þeirrar efnahagsstyjaldar sem Bretland og Holland hafa háð gegn okkur. Eftir beitingu hryðjuverkalaganna gegn íslenzkum hagsmunum og misbeitingu aðstöðu sinnar hjá AGS og fjármálstofnunum í Evrópu getur þjóðin ekki gengið til eðlilegra samninga við kúgara sína. Íslendingar verða að fá rétt sinn staðfestan af dómstólum, þótt einhver lítilvæg áhætta sé með því tekin. Þjóðarheiður liggur við að beygja sig ekki fyrir ólöglegu ofbeldi. Alþjóðasamfélagið krefst þess að lög og réttur gildi í samskiptum þjóða og kúganir eins og nýlenduveldin hafa beitt gegn Íslandi verði fordæmdar.
16. Lárus Blöndal virðist ekki skilja muninn á greiðslum til Breta og Hollendinga, sem munu hverfa út úr hagkerfinu og greiðast með gjaldeyri og sem byggja á forsendulausum kröfum, og hins vegar fjárfestingum ríkisins í innlendum fjármálafyrirtækjum eins og Sjóvá og Sparisjóði Keflavíkur. Innlendu fjárfestingarnar eru í versta falli tilfærsla á milli dálka í bókhaldi ríkisins, en í bezta falli arðsöm fjárfesting. Er ekki ábyrgðarhluti að maður sem ekki skilur þetta skuli vera ráðinn til að veita almenningi upplýsingar um Icesave, stærstu ákvörðun sem tekin hefur verið í Íslandssögunni ?
17. Draga verður í efa trúverðugleika stjórnvalda og þá fulltrúa þeirra Lárusar Blöndal. Ekki er eins og Icesave-III sé fyrsta tilraun þessa fólks til að láta almenning á Íslandi greiða forsendulausar kröfur Bretlands og Hollands. Landsmenn hafa horft uppá ríkisstjórnina reyna að fá samþykki fyrir Icesave-I og Icesave-II, með þvingunum, blekkingum og hreinum lygum. Hvers vegna ættu landsmenn að trúa einu orði þessa fólks, sem kosið var á Alþingi áður en Icesave-deilan kom til umræðu og sem skoðanakannanir sýna að nýtur mjög takmarkaðs trausts hjá almenningi ? Ekki er sæmandi að bjóða uppá annað en hlutlausan kynningaraðila. Icesave-málið er í fullkomnum ógöngum og kynning málsins fram að þessu lyktar ekki af neinu öðru en myrkraverkum.
18. Við kynningu Icesave-málsins er beitt aumkunarverðum áróðursbrellum eins og þeirri fullyrðingu að Landsvirkjun njóti ekki lánstrausts erlendis vegna Icesave-deilunnar. Landsvirkjun malar gull, því að árlegur hagnaður þessa fyrirtækis verður minnst 20 milljarðar í fyrirsjánlega framtíð. Ef slíkt fyrirtæki nýtur ekki lánstrausts í heimi hækkandi orkuverðs, þá merkir það að aðrar þjóðir hafa tekið upp þann hátt íslenzkra stjórnvalda að draga allt fjármagn inn í seðlabanka landanna. Það merkir auðvitað fullkomna stöðnun efnahagslífs heimsins, eins og ríkisstjórn Íslands hefur tekist að gera hér á landi. Gjarnan er hótað að Evrópski fjárfestingabankinn, sem er pólitísk stofnun, vilji ekki lána Landsvirkjun. Samt fekk Landsvirkjun lánaða 10 milljarða króna (70 milljónir evra) hjá bankanum 21. september 2010. Þessar hótanir eru orðnar hlægilegar.
19. Lárus Blöndal er að reyna að koma því inn hjá landsmönnum að hann sé aðal-samningamaður Íslands. Hvers vegna stóð hann þá ekki fast á lögsögu landsins og varði þannig sjálfstæði þess ? Beitt er blekkingum um áhrif þess að færa Icesave-dómstólinn frá London til Haag. Hvers vegna var ekki vikið einu orði að beitingu Breta á hryðjuverkalögunum gegn Íslendingum? Hvers vegna var bara hlustað á hótanir nýlenduveldanna, en beiting hryðjuverkalaganna ekki kærð hið snarasta til ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA)? Við eigum miklu hærri kröfur á hendur Bretum en nokkru sinni hafa verið nefndar í Icesave-málinu. Trúverðugleiki Lárusar Blöndal er enginn.
Virðingarfyllst.
[7. apríl 2011]
Samstaða þjóðar gegn Icesave.
Loftur Altice Þorsteinsson....... hlutverk@simnet.is
Helga Þórðardóttir....... helgath@hive.is
Jón Valur Jensson....... jvjensson@gmail.com
Gústaf Adolf Skúlason....... gustaf@99design.net
Borghildur Maack....... bjon@islandia.is
Baldur Ágústsson....... baldur@landsmenn.is
Sigurbjörn Svavarsson....... s.svavarsson@gmail.com
PS.
Í Samstöðu þjóðar gegn Icesave voru, þegar mest var, yfir 30 manns.
Þessir tóku hins vegar að sér að annast þetta bréf.
Ritað mun það að mestu af Lofti Altice Þorsteinssyni.
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 15:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.6.2013 | 19:19
Angurgapinn Steingrímur J. Sigfússon saknar Svavarssamningsins!
Hann hefði svo gjarnan viljað sjá hann verða að veruleika! Þá gætum við nú 1) enn verið að rífast út af því máli, 2) staðið í margra áratuga níðþungum ofurgreiðslum eins og Fiji-eyþjóðin, 3) verið án þess heilnæma, hjartastyrkjandi dóms fyrir marga, sem EFTA-dómstóllinn kvað upp, þ.e. að ríkissjóður Íslands bæri hér enga skuld (og ætti alls ekkert að borga í málskostnað) og íslenzka þjóðin væri gersamlega saklaus í málinu.
En nei, þetta er alveg kolómögulegt að mati fyrrverandi "hæstvirts" Steingríms Joð. Hann
- "ræddi störf sín síðastliðin fjögur ár í útvarpsviðtali í gær og þó að fátt hafi komið á óvart var forvitnilegt að heyra hve langt hann gengur í að verja gjörðir sínar. [...] hann er enn þeirrar skoðunar að farsælt hefði verið að samþykkja fyrsta Icesave-samninginn, Svavars-samninginn svonefnda.
- Nú vill svo til að ekki gæti legið skýrar fyrir hvílík mistök sá samningur var og hvílík gæfa það var að landsmenn hindruðu að þau mistök yrðu að veruleika.
- Hvernig má það vera að Steingrímur sé enn að reyna að réttlæta þann óskapnað? Og hvað segir það um trúverðugleikann þegar kemur að réttlætingum hans á öðrum verkum síðustu ríkisstjórnar?"
Þannig var ritað í Staksteinum Morgunblaðsins í gær og ráðherrann með afhroð úr síðustu kosningum á bakinu og tvær dæmandi þjóðaratkvæðagreiðslur réttilega gagnrýndur, ef ekki spottaður.
Samkvæmt Buchheit-samningnum, margfalt léttari en Svavars-samningnum illræmda, værum við frá aprílbyrjun þessa árs búin að borga Bretum og Hollendingum 65 milljarða króna í vaxtakostnað einan saman, og allt það fé væri í 1. lagi í pundum og evrum, sem við eigum ekki til, og í 2. lagi óendurkræft. Svo mætir þessi uppmálaði angurgapi í þáttinn hans Sigurjóns M. Egilssonar til að réttlæta einhver sín verstu afglöp um dagana!
Hann hefði nú kannski átt þangað erindi, ef hann hefði haft vit á því að iðrast gerða sinna.
Jón Valur Jensson.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 19:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þetta viðurkenndi Árni Páll Árnason nánast á flokksstjórnarfundi Samfylkingar í morgun. Í Icesave-málinu
- hafi Samfylkingin talað fyrir því sem Árni kallar praktíska lausn samningaleiðar. Við vorum kannski í huga fólks málsvarar viðsemjandans, frekar en að við værum málsvarar fólksins gegn viðsemjandanum, sem við auðvitað vorum, segir Árni. (Mbl.is.)
Hér má spyrja formann þessa flokks, sem beið algert afhroð í kosningunum:
- Skildi þingflokkur Samfylkingar sig sem "málsvara fólksins" gegn ásæknum ríkisstjórnum Bretlands og Hollands, þegar Jóhanna og Steingrímur J. ætluðust til þess, að óbreyttir þingmenn þeirra greiddu Svavarssamningnum ólesnum atkvæði sitt?
- Var Samfylkingin "málsvari fólksins" með því að amast við og skella skollaeyrum við meintu "málþófi" margra stjórnarandstöðuþingmanna (t.d. Vigdísar Hauksdóttur, Birgis Ármannssonar, Gunnars Braga Sveinssonar, Höskuldar Þórhallssonar, Péturs Blöndal, Unnar Brár Konráðsdóttur, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Sigurðar Inga Jóhannssonar) þegar þessir þingmenn börðust með ófáum sterkum og órækum rökum gegn Svavarssamningnum og síðar Buchheit-samningnum og tjáðu þar þá útbreiddu andstöðu almennings, sem þrátt fyrir áróðursherferð stjórnvalda, fjölmiðla flestra og hagsmunasamtaka vinnuveitenda og brigðulla verkalýðsrekenda staðfestist í báðum þjóðaratkvæðagreiðslunum?
- Leit þjóðin svo á, að Samfylkingin væri "málsvari fólksins", þegar flokkurinn lét loforð sitt um skjaldborg fyrir heimilin lönd og leið til þess að geta umfram allt sinnt þessu ofuráhugamáli sínu sem forgangsmáli á Alþingi mánuðum saman: að keyra Icesave-nauðungarsamningana í gegn?
- Var Samfylkingin "málsvari fólksins", þegar valdamenn flokksins hvöttu þjóðina til að kjósa með Icesave-samningnum illræmda, sem var jafnvel margfalt harðsvíraðri gagnvart þjóðinni en Buchheit-samningurinn, sem þó reyndist ÓLÖGMÆTUR OG ÓSANNGJARNT samkvæmt úrskurði EFTA-dómstólsins snemma á þessu ári (en hefði þegar kostað okkur um 65 milljarða króna í óafturkræfa vexti í erlendum gjaldeyri til 1. apríl sl. (síðan meira í viðbót), ef að þeim samningi hefði verið gengið)?
- Hefur Samfylkinginn enn dregið næga lærdóma af þeirri HÖFNUN og RASSSKELLINGU sem hún fekk hjá þjóðinni tvívegis með miklum meirihluta í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum og ekki hvað sízt vegna framkomu hennar í þessu máli í þingkosningunum 27. apríl sl.?
- Var það "praktísk lausn" fyrir þjóðina þegar Samfylkingin samþykkti ólögvarðar, ólögmætar og stjórnarskrárandstæðar ofurkröfur hótandi aflóga nýlenduvelda?
- Hefði það verið "praktísk lausn" fyrir almenning að vera leiddur í skuldaánauð nefndra ríkja og það með þeim hætti, sem líkt hefur verið við langtíma-þrælkunaránauð Fiji-búa vegna viðlíka tilbúnings-skuldamála gagnvart Bretum þar?
- Var Samfylkingin fullsæmd af því, að formaður hennar, Jóhanna, reyndi í sérstakri Bessastaðaferð að tala forseta Íslands ofan af því að beita neitunarvaldi gegn Icesave-samningum og forysta flokksins (og VG) að tala síðan á niðrandi hátt um afstöðu hans í málinu? Var það Samfylkingunni til sóma að fara í hefndarleiðangur gegn þeim þjóðholla forseta í fjölmiðlum og í kosningabaráttu gegn honum við síðustu fosetakosningar?
- Hefur Samfylkingin tekið ákvörðun um að draga sína ábyrgustu aðila í þessu máli til ábyrgðar, eða verður þeim áfram hossað í áhrifastöðum í flokknum?
Jón Valur Jensson.
Áttuðum okkur ekki á skuldavanda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)