Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2010
6.7.2010 | 17:49
Icesave-útsendarar Breta og Hollendinga í Reykjavík fyrir helgina!
Þessi frétt birtist í DV í fyrradag, 5. júlí, s. 4:
Icesave-fundir í Reykjavík
Starfsmenn fjármálaeftirlitsins [sic] hittu starfsbræður sína frá Bretlandi og Hollandi fyrir helgi til að ræða um Icesave-deiluna. Fréttastöðin Sky segir að William Hague, utaríkisráðherra Breta, hafi gefið til kynna að hann vilji reyna að hindra inngöngu íslands í ESB verði deilan ekki leyst.
Sky hefur eftir starfsmanni fjármálaráðuneytisins að útsendarar Breta og Hollendinga hafi verið í Reykjavík fyrir helgi þar sem rætt hafi verið um Icesave. "Tilgangur fundanna var í meginatriðum að skiptast á upplýsingum og undirbúa frekari fundi síðar á árinu," segir fjármálaráðuneytið íslenska.
Evrópumál | Breytt 7.7.2010 kl. 04:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.7.2010 | 11:44
Stærsta þjóðþrifaverkið: Afturkalla aðildarumsókn að ESB
Eftir Gústaf Adolf Skúlason.
Ég tek undir orð fyrrverandi dómsmálaráðherra, Björns Bjarnasonar í pistli sínum 18.6., að það er óskiljanlegt, að Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands gagnvart ESB, haldi því fram að »að sjálfsögðu muni Íslendingar standa við skuldbindingar sínar«. Sendiherrann ásamt Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra og Steingrími Sigfússyni fjármálaráðherra nota hvert tækifæri sem gefst í erlendum fjölmiðlum til að syngja þennan söng, þrátt fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave. Ríkisstjórnin hefur ekki umboð þjóðarinnar til að halda áfram að gefa loforð á erlendum vettvangi um, að Ísland muni borga reikninga Breta og Hollendinga vegna Icesave. Loforð, sem viðsemjendurnir nota sem sönnun fyrir »skuld« þjóðarinnar. Á heimavelli reyna þessir menn að telja fólki trú um, að engin tenging sé á milli Icesave-krafna Breta og Hollendinga og aðildarumsóknar Íslands að ESB.
Í yfirlýsingu leiðtogaráðs ESB og í umfjöllun virtra fjölmiðla sem Financial Times og EU Observer kemur óaðfinnanlega skýrt fram, að aðild Íslands að ESB er háð lausn Icesave-deilunnar. Allir aðrir en ofangreindir fulltrúar Íslands virðast sammála um, hvað sé í gildi: Ísland getur ekki orðið aðili að ESB nema »tekið sé tillit til núverandi skuldbindinga eins og þeirra sem mælt hefur verið fyrir um af Eftirlitsstofnun EFTA samkvæmt EES-samningnum ...« ESA hefur í bréfi til ríkisstjórnarinnar ásakað Íslendinga um að hafa brotið EES-samninginn með því að hafa ekki borgað lágmarkstryggingu innistæðueigenda Icesave í Bretlandi og Hollandi.
Íslenskir lögfræðingar, einstakir þingmenn Evrópuþingsins, rannsóknarnefnd Alþingis ásamt fjölmörgum sérfræðingum hérlendis og erlendis hafa bent á, að ekkert í reglugerð ESB, sem EES-samningurinn byggir á, geri íslenska ríkið ábyrgt fyrir skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda.
Umsóknarferlið er því ekkert annað en pólitískt spil stórvelda, þar sem tekist er á um Ísland, auðlindir landsins og eigur landsmanna. Þar má eiga von á ýmsum »gylliboðum« í stíl með: »við skulum taka að okkur að leysaIcesave-deiluna, ef þið greiðið atkvæði með inngöngunni í ESB«.
Það er sorglegt að horfa uppá íslensku ríkisstjórnina starfa sem embættismenn erlendra kröfuhafa í stað þess að sinna skyldum við sitt eigið fólk, sem stendur fyrir laununum.
Ríkisstjórnin einblínir svo á inngönguna í ESB-klúbbinn, að orkuauðlindir landsmanna, fiskur hafsins, fyrirtæki og menning duga varla sem aðgangseyrir. Í ofanálag verður að greiða með sóma, siðferði, sjálfsvirðingu,sjálfstæði og svörnum eiði við stjórnarskrá Íslands. Þessi undirlægjuháttur núverandi ríkisstjórnar hefur kostað þjóðina stórfé og skaðað stöðu landsins á alþjóðavettvangi. Jafnframt hefur þingræðið beðið álitshnekki sem og önnur stjórnskipun lýðveldisins.
Þessa óheillaferð verður að stöðva áður en enn stærri vá skellur á landsmönnum. Ég bið þingheim að styðja frumvarpið um að draga til baka aðildarumsóknina að Evrópusambandinu.
GÚSTAF ADOLF SKÚLASON, smáfyrirtækjarekandi.
Grein þessi birtist nýlega í Morgunblaðinu. Hún er endurbirt hér með sérstöku leyfi höfundar.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 11:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.7.2010 | 14:55
Steingrímur J. vekur upp draug í Icesave-máli
Draugagangur
Á það hefur margítrekað verið bent að kröfur Breta og Hollendinga á hendur Íslendingum vegna Icesave byggjast ekki á lagalegum forsendum. Íslenskum skattgreiðendum ber alls ekki að greiða þessar skuldir þar sem íslenska ríkið bar aldrei ábyrgð á endurgreiðslum til innistæðueigenda. Þetta hefur legið fyrir lengi og lá raunar fyrir löngu áður en bankarnir hrundu og Icesave-málið kom upp. Nú síðast mátti svo lesa um lagalega hlið málsins í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem studdi þessa niðurstöðu og þá hefðu síðustu talsmenn breskra og hollenskra stjórnvalda hér á landi átt að sannfærast.
Svo fór þó ekki og ríkisstjórnin situr við sinn keip í málinu og þrýstir mjög á um að fá að hengja Icesave-byrðarnar á íslensku þjóðina. Þessi framganga er auðvitað með miklum ólíkindum og á henni getur ekki verið nein eðlileg skýring. Engin venjuleg rök hníga að því fyrir íslensk stjórnvöld að reyna að þvinga bresk og hollensk stjórnvöld til að semja við sig um skuldir annarra.
Eina mögulega skýringin á háttalagi íslenskra stjórnvalda er sú áhersla sem þau leggja á að koma Íslandi inn í Evrópusambandið, en bæði Bretar og Hollendingar hafa talað skýrt um að við þurfum að fallast á ólögmætar kröfur þeirra áður en þeir samþykki að við fáum aðild að þeim félagsskap.
Ríkisstjórnin hefur ekki meiri áhyggjur af þeirri staðreynd að þjóðin er andvíg aðild en að þjóðin er andvíg því að greiða Icesave-skuldina. Afstaða landsmanna skiptir engu í þessu sambandi, það eina sem forysta Vinstri grænna og Samfylkingarinnar hefur áhuga á er að aðlögunarferlið haldi áfram og Íslandi verði smám saman nuddað inn í Evrópusambandið, þvert á vilja þjóðarinnar.
Fagnar viðræðum um Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.7.2010 | 12:25
Þetta er ills viti
Allt, sem þessi Icesave-AGS-ríkisstjórn gerir í Icesave-málinu, veit á illt. Hefur hún ekkert lært af þjóðinni? Er henni allsendis um megn að skilja skilaboð umbjóðenda sinna?
Og ekki viljum við lögfræðistofuna Ashurst í þetta mál, þá væri snöggtum betra að hafa þar lögfræðistofuna Mishcon de Reya, sem fann ENGIN rök til neinnar gjaldskyldu Íslendinga né ríkissjóðs til að borga þessar einkaskuldir einkabanka!
Við eigum ævinlega að krefjast okkar ýtrasta réttar í málinu, ekkert minna ber okkur að gera ... fyrir börnin okkar.
Jón Valur Jensson.
Fundað um Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt 3.7.2010 kl. 06:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)