Sjáið hér hvernig maðurinn, sem vill hafa fjárhagslegt forræði borgarinnar, beitti sér þvert gegn þjóðarhag og þjóðarrétti í Icesave-málinu:
"Allar ríkisstjórnir frá hruni hafa metið það svo eina leiðin í Icesave-málinu séu samningar. Allt annað í endurreisninni (aðgangur að erlendu lánsfé og þar með framkvæmdir og fjárfesting), vaxtakjör (og þar með endurfjármögnun allra fyrirtækja) ofl. ofl. hangir á þessu. Mér finnst algert ábyrgðarleysi af stjórnarandstöðunni að þvælast fyrir málinu. Það væri feigðarflan að ætla sér aðra tafsama samningalotu. Það er margt erfitt og skítt og það er ekki fyrir fólk sem hræðist óvinsælar ákvarðanir að vinna að því að loka fjárlagahallanum. Það er hins vegar forsenda vaxtalækkunar og ég held að það sé samstaða um að það sé forgangsverkefni. Það er enginn hrifinn af skattahækkunum, frekar en efnhagshruninu sem er ástæða þeirra eða efnahagsstefnunni sem kom okkur í þessa þröngu stöðu eða hvað. Frestur á erfiðum ákvörðunum eykur fyrst og fremst vaxtakostnaðinn og mín skoðun er sú að okkar kynslóð verður að hreinsa til en ekki ýta þessum vanda yfir á börnin okkar. Það er engin tilviljun að allar ríkisstjórnir frá hruni hafa metið það svo eina leiðin í Icesave-málinu séu samningar. Margt í endurreisninni hangir á því að þeir takist, svo sem aðgangur að erlendu lánsfé (og þar með framkvæmdir og fjárfesting), skapleg vaxtakjör (og þar með endurfjármögnun allra fyrirtækja) og þannig mætti áfram telja. Það væri að mínu mati feigðarflan að ætla okkur í aðra tafsama samningalotu fyrir óljósan eða engan ávinning. Valkosturinn við fyrirliggjandi samninga er fyrst og fremst ávísun á tafir og þar með aukinn vaxtakostnað þjóðarbúsins í dag og til framtíðar. Í Icesave, einsog í rústum fjármála ríkisins þarf sterk bein til að hreinsa til en það er ekki annað í boði ef ekki á að ýta þeim vanda sem sem við stöndum frammi fyrir yfir á börnin okkar." (!!!)
Þetta ritaði Dagur B. Eggertsson, þáverandi varaformaður Samfylkingarinnar, á vef ungra jafnaðarmanna á Politik.is 18. desember 2009 og kallaði grein sína Úr vörn í sókn á Íslandi (!). Með þessu gekk hann þvert gegn hagsmunum og lagalegum rétti þjóðarinnar í Icesave-málinu, eins og sannaðist með úrskurði EFTA-dómstólsins 28. janúar 2013, þar sem íslenzka ríkið var sýknað af öllum kröfum brezku og hollenzku ríkisstjórnanna í því máli og okkur ekki gert að greiða eitt einasta pund eða evru í málskostnað.
Merkilegt, að tvær gulrætur notaði Dagur til að reyna að véla þjóðina til að kjósa yfir sig Icesave-samningana: að þeir myndu stuðla að lægri vöxtum og "að loka fjárlagahallanum"! Hefur þó í 1. lagi hvergi orðið vart við að Dagur borgarstjóri hafi lagzt gegn vaxtaokurstefnu Seðlabankans, bankanna og ríkisstjórna Fimm- og Sjöflokksins, þótt þetta sé meðal helztu ástæðna fyrir húsnæðisvandræðum ungs fólks í borginni.
Í 2. lagi var Dagur þarna að samþykkja Icesave-samninga Steingríms J. og Jóhönnu, sem fólu m.a. í sér ólöglega vexti skv. EES-jafnræðisreglum vegna brezkra ríkislána til bankakerfisins þar í landi með langtum lægri vöxtum. (Sbr. opna Mbl.grein undirritaðs hér: Ólögmætir vextir á Icesave-kröfum og allar eignir ríkisins undir?)
Mestu skiptir svo hitt, að okkur bar aldrei nein skylda til að borga Icesave-skuldir hins einkavædda Landsbanka. Allt málið var húmbúkk og einn ranglætis-tilbúningur Breta, Hollendinga og vanhæfra sjórnmálamanna á Alþingi, sem létu fremur teygjast af þrýstingi fyrrnefnda heldur en að hlusta á eigin þjóð og vísra manna ráð og þær grasrótarhreyfingar, sem að endingu og eftir mikla baráttu báru hér sigur úr býtum með stuðningi forseta Íslands, herra Ólafs Ragnars Grímssonar.
Já, það var sama hvert litið var í Samfylkingunni, þar fannst ekki einn réttlátur í Icesave-málinu og sízt hjá forystunni, enda lá henni á að troða okkur í Evrópusambandið. En allir þingmenn hennar nema einn fram að kosningunum 29. okt. 2016 féllu þá með háum hvelli út af þingi.
Enn er þó Dagur B. Eggertsson, fyrrv. varaformaður þar, við stjórnvölinn í Reykjavík. Nú má spyrja: Verðskuldar hann, með ofangreind skrif hans í huga, traustsyfirlýsingu kjósenda í komandi borgarstjórnarkosningum? Þurfum við mann í þjónustu okkar, sem sýndi jafnvel hinum allsendis ranglátu Icesave-II-samningnum slíka trúgirni og opinbera orðaþjónustu?
Jón Valur Jensson. (Eldri grein með sömu fyrirsögn er hér bætt og aukin.)
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Fjármál, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 03:57 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.