Útför Lofts Altice Þorsteinssonar

var gerð frá Áskirkju kl. 3 í dag. Hann var um árabil öflug­asti baráttu­maður landsins gegn Icesave-ólögunum.

Hafa ber þá í heiðri sem drengilega og af atorku hafa unnið í þágu þjóðarhags og landsmanna allra.

Loftur Altice Þorsteinsson

Loftur Altice Þorsteinsson

Loftur Altice Þorsteinsson er eftirminnilegur baráttumaður gegn Icesave-smánarsamningum ríkisstjórnar Steingríms J. og Jóhönnu. Greinar hans í Morgunblaðinu, á eigin bloggi og á thjodarheidur.blog.is voru með því bezta sem birtist um málið, enda leitaði hann víða efnisfanga með eigin rannsóknum og bréfaskiptum við erlend yfirvöld, fjármála­eftirlit Breta og Hollendinga, Englandsbanka, Seðlabanka Hollands, fjármála­sérfræð­inga við efnahags- og háskóla­stofnanir og blöð eins og Financial Times, Wall Street Journal og þýzk og hollenzk blöð. Þannig aflaði hann mikilvægra gagna sem hann vann úr og birti, ekki sízt í mörgum greinum í Mbl. Höfðu þær víðtæk áhrif í andófs­hreyfingunni, fengu jafnvel viður­kenningu þáv. viðskipta­ráðherra, Árna Páls, á fundi hans, Kristrúnar Heimisd. o.fl. með fulltrúum andstæðinga Icesave-frumvarpanna.

Ósíngjarnt og ævinlega ólaunað var framlag Lofts til félaga sem börðust í Icesave-málinu: Þjóðar­heiðurs, þar sem hann var frá upphafi varaformaður og einn afkastamesti skriffinnur vefsins thjodarheidur.blog.is sem fjallaði nær daglega um málið árum saman, einnig með samráðsfundum stjórnar félagsins við fulltrúa InDefence (samtaka sem áttu heiðurinn af fyrri undirskriftasöfnun gegn Icesave-ruglinu) og síðar með þátttöku hans meðal leiðandi manna í Samstöðu þjóðar gegn Icesave, regnhlífarsamtökum þar sem félagar úr nefndum samtökum o.fl. lögðu drög að vel heppnaðri undirskriftasöfnun á vefnum Kjósum.is, með áskorun á Ólaf forseta, sem á endanum hafnaði seinustu Icesave-löggjöfinni (Buchheit-samningnum) og ruddi því braut, með samsinni 60% meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu, að málið fór fyrir EFTA-dómstólinn. Þar unnu Íslendingar sigur, sýknaðir 100% af ólögvörðum kröfum Breta, Hollendinga og ESB, þurftu jafnvel ekki að borga eigin málskostnað! Sparaði þetta þjóðinni a.m.k. 80 milljarða króna í beinar, óafturkræfar vaxtagreiðslur í pundum og evrum!

Undirritaður kynntist Lofti um 1990 sem áhugaverðum spjallfélaga í steinapottinum í Laugardal, en hann var fróðleiksmaður um uppruna og forsögu norrænnar menningar. Síðar, í febr. 2010, stofnuðum við með fjölda annarra Þjóðarheiður, samtök gegn Icesave. Ég hlýt að þakka honum hér samstöðu og vináttu um árabil, mikla vinnu við stjórnarfundi okkar, aðgerðir og skrif. Þrátt fyrir útilokun RÚV á okkur og moldviðri vinstrimanna gegn Þjóðarheiðri og Samtökum þjóðar gegn Icesave fór almenningur og þjóðarbúið að endingu með sigur af hólmi í þessu mikilvæga grundvallar- og fordæmismáli. Það varðaði mestu. Þá var hann ennfremur ötull baráttu­maður gegn Evrópu­sambands-aðild og skrifaði um það vekjandi greinar á vef Samstöðu þjóðar og í Morgunblaðið. Má vænta hér síðar yfirlits um greinaskrif hans þar.

Sorgarefni er, að þessi mikli vitmaður og fjörugi andi varð að lúta í lægra haldi fyrir illvígum MND-sjúkdómi sem hafði m.a. áhrif á talfæri hans. Vel gat hann þó rætt mörg mál og var fram undir seinustu tíð hress vitsmunalega, sem sjá mátti á blaðagreinum hans og skrifum á Moggabloggi Samstöðu þjóðar.

Loft hefði mátt heiðra að verðleikum, mörgum öðrum fremur, með fálkaorðunni eða öðrum hætti. En eitt er víst að þakklátir fylgja samherjarnir honum síðasta spölinn og biðja honum fararheilla inn í aðra veröld.

Jón Valur Jensson.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband