Er "Bjartri framtíð" uppsigað við hagsmuni og rétt Íslands? Ef ekki, hví vill BF gangast undir ok kvalara okkar?

Hvernig víkur því við, að "Björt framtíð" o.fl. flokkar gera Evrópu­sam­band­ið, sem hefur níðzt á lagalegum rétti Lýð­veld­isins Íslands, að sinni útópísku framtíðarsýn?!

Tvö mál skulu nefnd:

Icesave-málið háði Evrópu­sambandið gegn okkur allt frá byrjun, ætlaðist strax til þess að við greiddum hinar ólög­vörðu kröfur Breta og Hollend­inga upp í topp. Dómsorð "gerðar­dóms" á vegum þriggja ESB-stofnana (fram­kvæmda­stjórnar­innar, Evrópska seðla­bankans og sjálfs Hæsta­réttar ESB, sem hefur aðsetur í Lúxemborg) um Icesave-málið féll á þann veg síðla hausts 2008, að Íslend­ingum væri skylt að borga þessar ólög­mætu kröfur á okkar hendur vegna einka­fyrirtækis, sem ríkis­sjóður bar þó enga ábyrgð á í raun, eins og sannaðist í sýknu­dómi EFTA-dóm­stólsins 28. jan. 2013. Dómsorð ESB-gerðardómsins var í raun dómsmorð! Og fyrir utan alla aðra lærdóma af þessu, ætti mönnum nú að skiljast að "treysta ekki mönnunum", jafnvel ekki fínustu embættis­mönnum voldugasta veldis allrar Evrópu.

En fyrir utan þennan "gerðardóm" (sem Árni M. Mathiesen viðskipta­ráðherra neitaði bless­unar­lega að tilnefna íslenzkan dómsmann í; sé hann ævinlega blessaður fyrir það) fylgdi þetta stórveldabandalag, sem "Björt framtíð" dáist að, hags­munum Breta og Hollendinga svo mjög eftir í málinu, að Evrópu­sambandið átti beinlínis meðaðild að lögsókn þeirra ríkja gegn Lýðveldinu Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum ... en tapaði blessunar­lega að lokum, eftir að hafa farið hamförum gegn lagalegum rétti okkar.

Makríl-málið keyrði ESB gegn Íslendingum og Færey­ingum frá upphafi, beitandi hótunum og jafnvel viðskipta­þvingunum í verki gegn smærri þjóðinni -- og það vegna veiða þessara smáþjóða í sinni eigin fiskveiðilögsögu! Á fundi í Lundúnum með Jóni Bjarnasyni, þáverandi sjávar­útvegs­ráðherra, hafnaði ESB að mestu veiðirétti okkar og vildi aðeins láta okkur eftir 2-3% kvóta í makrílveiðum á Norður-Atlantshafi! Síðar, eftir staðfasta andstöðu og góða málefnavinnu ráðherrans, var hámarkskrafa ESB komin upp í 5-6%. En ráðherrann þjóðholli hafði sitt fram, þrátt fyrir andstöðu Steingríms og Jóhönnu við áform hans, og gaf út reglugerð um makrílkvóta sem nam um 16-17% allra makrílveiða í N-Atlantshafi.

Jón Bjarnason hélt upp á það á vef sínum um daginn, að á grunni ákvarðana hans höfum við Íslendingar nú veitt milljón tonn af makríl á sjö árum! Ekkert, fyrir utan ferðamannastrauminn, sem að miklu leyti byggðist á sjálfstæði okkar og gengislækkun krónunnar, hefur hjálpað eins efnahagslegri endurreisn þjóðarinnar á því tímabili.

Hefði Ísland verið hluti Evrópusambandsins fyrir sjö árum, hefðum við aldrei fengið að veiða nema lítinn hluta af þessum fiski, ákvörðunin hefði verið framkvæmdastjórnar ESB, ekki okkar, og þar með hefðum við farið á mis við gríðarlegar gjaldeyristekjur. Þetta mega slefandi aðdáendur ESB gjarnan hafa hugfast og liðka um kvarnirnar sem fremst þeir mega til að rifja þessi mál enn betur upp!

Af hlálegum barnaskap "Bjartrar framtíðar" í ESB-umsóknarmálinu.

En lítum nú aðeins á stefnu þessa fölbleika flokks. Þar segir m.a.:

"Íslendingar verði virkir og mikilvægir þátttakendur í samvinnu sjálfstæðra ríkja í Evrópu innan ESB, kjósi þjóðin aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu."

Þarna er verið að afsaka óbeint hina fífldjörfu stefnu BF inn í evrópska stór­veldið með því að setja þetta sem einhvern fyrirvara: ef þjóðin kýs "aðild í þjóðar­atkvæða­greiðslu". En hvernig halda menn að smáþjóðin Færeyingar geti staðið gegn slíkri tillögu í atkvæðagreiðslu, þar sem einfaldur meirihluti ætti að ráða úrslitum, en stórveldið með ógrynni fjár til að kaupa bæði auglýsinga- og annað áróðurspláss, sem og mútuþæga stjórnmálamenn og agitatora ("álitsgjafa" o.s.frv.), í krafti sinna fjárhagslegu yfirburða? En við erum ekkert annað en smáþjóð sömuleiðis, lítið peð að glíma við 1580 sinnum fólksfleira stórveldi!

Og hvernig voga vinstri flokkarnir sér að tala um að "þjóðin kysi aðild", ef það rétt merðist með t.d. 51% atkvæða að koma okkur inn í stórveldið? Er naumur meirihluti nokkurn tímann "þjóðin"? Og er ekki augljóst, þegar yfirburðir stórveldisins eru hafðir í huga (yfirburðir sem voru nýttir þegar t.d. Tékkar og Svíar kusu naumlega að fara þarna inn), að smáþjóð er það hrein nauðsyn að lögleiða sérstök ákvæði um aukinn meirihluta til slíks nánast óafturkallanlegs fullveldisafsals, rétt eins og annar grunnssamningur, Sambandslagasáttmálinn, hafði í sér ákvæði um 75% meirihluta til að hnekkja mætti honum (og 75% lágmarkskjörsókn að auki).

Raunveruleg hollusta þessa flokks, BF, við íslenzka þjóð verður mæld af því, hvernig flokkurinn beitir sér gagnvart kröfunni um aukinn meirihluta til svo viðurhlutamikilla, afdrifaríkra ákvarðana. Þá fyrst er hægt að tala um að "þjóðin" hafi valið eitthvað, þegar þar er ekki um að ræða, að naumur meirihluti (með marga værukæra í liðinu) hafi borið hærri hlut yfir næstum jafnmörgum (annarri "þjóð" gegn aðeins stærri "þjóð"!), þar sem þó er líka miklu harðari andstaða meðal þeirra síðarnefndu (eins og hefur sannazt í þessu máli í skoðanakönnunum: langtum fleiri eru "mjög andvígir aðild" heldur en hlutfall hinna er, sem eru "mjög hlynntir aðild" á meðal fylgjenda ESB; og þessi staðreynd sýnir, að harði hópurinn gegn aðild hefur greinilega hugsað málið langtum dýpra eða lengur en þeir, sem eru "frekar hlynntir aðild").

Björt Ólafsdóttir var fulltrúi "Bjartrar framtíðar" í umræðuþætti um stefnu flokksins á Útvarpi Sögu á 5. tímanum í dag og var með sama blekkjandi talið um að "þjóðin" ákvæði þetta, en í raun vill hún koma landi og þjóð inn í gin stórveldisins. Þá væri nú tilvalið að spyrja hana (eins og undirritaður ætlaði sér, en enginn símatími til þess í þættinum) hvernig hún réttlætti það að sækjast eftir að láta þetta miður vinsamlega evrópska tröll fá forræði okkar mála, með ofangreinda lærdóma af óvinaraðgerðum þess gegn íslenzkri þjóð í huga, í bæði Icesave- og makrílmálunum!

Óttar Proppé í BF hefur einnig rætt þessi mál á fávíslegum nótum, en úttekt á hans ósvinnutali útheimtir annan pistil hér.

Jón Valur Jensson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband