Heilaþvottarboðskapur Jóhönnu við verklok verkstjórans afleita

Svo heilaþvegin virðist fráfarandi ráðstýra Samfylkingar af eigin kattarþvotti og svo flækt í eigin spuna, að hún trúi því jafnvel, að samningaleiðin hafi verið "ábyrga leiðin". Svona er hægt að snúa hlutum á hvolf, þegar forystulæður hafa lengi gengið með alvarlega sjónvillu og aldrei tekið eftir henni sjálfar, af því að þær eru hlaupandi út og suður í kattasmölun, sem oftar en ekki felur í sér hreint einelti við blessaða, frjálsthugsandi fressina.

Nokkur hundruð sinnum hefur verið reynt að segja Jóhönnu & Co. það á þessu vefsetri, að Icesave-kröfur brezku og hollenzku ríkisstjórnanna voru ólögvarðar með öllu. Lengi vel var því hreinlega hafnað af Jóhönnustjórninni og því jafnvel haldið fram, að nokkrir íslenzkir lögfræðingar væru þeir einu í allri veröldinni sem hefðu þá afstöðu. Á sama tíma bjuggu a.m.k. tveir ráðherrar þessarar ríkisstjórnar, Össur og Steingrímur, yfir greinargóðu lögfræðiáliti Mishcon de Reya-stofunnar í Bretlandi, stíluðu til Össurar sjálfs, þar sem skýrt kom fram sú niðurstaða, að ekkert í lögum ESB (né tilskipuninni um innistæðutryggingar) fæli í sér greiðsluskyldu íslenzka ríkissjóðsins vegna Icesave-reikninga Landsbankans. Með STÓRALVARLEGUM hætti stakk Össur Skarphéðinsson þessu sérfræðiáliti enskra lögfræðinga undir stól, og ekki upplýsti Steingrímur um það heldur, meðan málsvarar ríkisstjórnarinnar héldu áfram að ljúga því að þjóðinni, að engir erlendir lögfræðingar tækju undir með mönnum eins og Stefáni Má Stefánssyni prófessor (sérfræðingi í Evrópurétti) um að íslenzkum skattgreiðendum bæri hér engin greiðsluskylda.

Hefðu Jóhanna og Steingrímur haft sitt fram, hefði hvort heldur Svavarssamningur, vegna ákvæða sinna um vexti o.fl., eða Buchheit-samningurinn valdið okkur gríðarlegum skaða. Svo hælist þessi afvegaleiddi og útbrunni stjórnmálamaður um, þegar hún gerir upp reikningana við flokksfund sinn, skilandi sínu skelfilega búi, og lætur eins og samningaleiðin (þvingunar- og kúgunarsamninganna, sem Evrópusambandið þrýsti líka miskunnarlaust á um) hefði verið allt eins góð, ef ekki betri heldur en sú dómsniðurstaða, sem nú er fengin! En þar erum við ekki aðeins fjárhagslega kvitt við málið allt, jafnvel laus við málafærslukostnaðinn fyrir EFTA-dómstólnum, heldur líka siðferðislega hreinsuð af slyðruorðinu og slettunum ljótu sem yfir okkur bárust frá lýðskrumandi mönnum á valdastóli í Bretlandi og Hollandi. VIÐ ERUM SAKLAUS, en það er eitthvað sem Jóhanna þarf enn að læra að meta sem skyldi. Gangi henni vel við að kyngja þeirri lexíu, þegar hún dregur sig í hlé frá skarkala lífsins. En síðustu áróðursræðuna hefur hún nú vonandi flutt að endingu, og geta menn og kettir sannarlega andað léttar.

Jón Valur Jensson.


mbl.is „Samningaleiðin var ábyrga leiðin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband