Sukkið og óráðsían í Icesave-samningamálum: 128.000 kr. @ tímann hjá Lee Buchheit og fundað í Túnis!

Ótrúlegir hlutir eru komnir í leitirnar vegna þess að blaðamaður Mbl. fylgdi því hraustlega eftir að fá umbeðnar upplýsingar um kostnað vegna Icesave-samninganefndar undir forystu Buchheits. Ráðuneytið gaf sig ekki fyrr en úrskurðarnefnd í upplýsingamálum kvað upp sinn úrskurð 29. desember sl., um 11 mánuðum eftir að blaðamaðurinn, Rúnar Pálmason, bað fyrst um upplýsingarnar.

Og hér gefur á að líta: 

  1. Til að "fá" þann samning, sem Buchhheit hrósaði (mælti með eigin verki!) og hefði kostað okkur óafturkræfar vaxtagreiðslur sem nema myndu á hverjum 36 dögum andviði fyrirhugaðs ríkisfangelsis á Hólmsheiði, rukkaði hann ríkið um 128.000 fyrir hvern unninn lögfræðiráðgjafartíma sinn!
  2. Samningamennirnir íslenzku, Lárus Blöndal og Jóhannes Karl Sveinsson, rukkuðu ekki aðeins fyrir starf sitt í nefndinni, heldur einnig (eins og Buchhheit) fyrir blaðamanna- og kynningarfundi sína og (Lárus) fyrir símafundi við ráðuneytismenn og fulltrúa stjórnarandstöðunnar, einkum Bjarna Benediktsson. En kunningsskapur var með Lárusi og Bjarna fyrir (þess get ég hér, JVJ), og má ætla, að Lárus hafi haft sín áhrif á Bjarna til að snúa þingflokki sjálfstæðismanna til að taka sína vit-lausu, óþjóðhollu ákvörðun í trássi við vilja landsfundar flokksins.
  3. Þrjár milljónir rukkaði Lee Buchheit vegna Túnisferðar vegna Icesave, en alls nam ferðakostnaður hans 7,5 milljónum króna.
  4. Hæstu greiðslurnar vegna þessarar nefndar, sem vann að Icesave-III-samningnum, eru til Hawkpoint Partners, lögfræðistofu í Lundúnum, vegna sérfræðiráðgjafar, upp á 143 milljónir króna, og eru þeir reikningar "lítt sundurliðaðir, aðeins talað um þóknanir samkvæmt samkomulagi" (Mbl. í dag, bls. 12: Tók tæplega ár að fá gögnin; einnig er málið forsíðufrétt Mbl.). "Töluverður kostnaður féll til vegna ferðalaga og þannig rukkar Hawkpoint t.d. alls um 3,7 milljónir króna vegna flugferða, þar af 1,6 milljónir vegna flugferða 14. janúar 2010 en ekki kemur fram hvert var flogið eða hversu margir farseðlar voru keyptir." (Rúnar Pálmason í sömu grein.) 
  5. Lögfræðistofa Buchheits rukkaði alls um 86,4 milljónir kr.
  6. Steingrímur kvað heildarkostnað vegna Buchheit-nefndarinnar 369 milljónir (í ræðu á Alþingi 11. apríl 2011).
  7. Hér er ekki verið að tala um kostnað vegna Svavarsnefndarinnar, en Steingrímur sagði á Alþingi 11. apríl 2011, að sá kostnaður næmi 77,5 milljónum. Enn hefur ekkert verið upplýst um, hvað Svavar fekk þar í sinn hlut. Skv. Icesave-I-samningnum var ennfremur undirgengizt að borga Bretum um eða yfir tvo milljarða króna vegna lögfræðikostnaðar þeirra!

Ráðuneytið (eða Steingrímur J.) hafði synjað blaðamanninum um upplýsingar, en varð að lúffa fyrir úrskurðarnefnd í upplýsingamálum. Ekki var "gagnsæi" stjórnsýslunnar sjálfgefið hjá fjármálaráðherranum þá fremur en oft áður, heldur var þetta dregið út með töngum.

Svo er sami ráðherra búinn að taka stól Árna Páls Árnasonar, sem hafði haldið uppi góðum vörnum og kynningarstarfsemi í Icesave-málinu erlendis í sumar. Við í Þjóðarheiðri – samtökum gegn Icesave – höfum enga ástæðu til tiltrúar á Steingrím J. Sigfússon í þessu máli, nema síður sé, og vörum við framhaldi málsins undir handarjaðri hans. Þjóðin hefur ekki efni á því að vera andvaralaus í þessu máli.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Til Túnis vegna Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband