15.4.2011 | 14:44
Gallað Icesave-álit - gagnrýni úr ýmsum áttum
Grein eftir Örn Arnarson í viðskiptablaði Mbl. í gær, Moody's var bent á galla í Icesave-áliti, virðist leiða í ljós, að á harla veikum grunni hafi "ruslflokks"-spá þess matfyrirtækis byggzt, miðað við að hafna Icesave III.
- Sérfræðingar settu sig í samband við Moody's eftir að álit um áhrif höfnunar Icesave á lánshæfismat ríkissjóðs var birt í febrúar Bentu á að staðfesting Icesave-samningsins myndi festa gjaldeyrishöft í sessi en ekki flýta fyrir afnámi þeirra eins og Moody's færði rök fyrir
M.a. hafa GAM Management, IFS-greining og (GAMMA) InDefence-hópurinn sent rökstudda gagnrýni á hið tveggja blaðsíðna mat, sem Moody's gaf út fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna.
- InDefence-hópurinn sendi greinargerð til alþjóðlegra matsfyrirtækja þar sem færð eru rök fyrir þeirri skoðun að ekki sé réttlætanlegt að lækka lánshæfismat ríkissjóðs umfram það sem nú er í kjölfar þess að Icesave-samningnum var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu. (Ö.A.)
Þetta er mikil grein eftir Örn, hér er smáhluti hennar sem sýnishorn, en allir sem láta sig þessi mál varða ættu að lesa greinina í blaðinu í gær.
- Álit Moody's fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna vakti þónokkra athygli og var meðal annars notað til þess að styðja þá skoðun að nauðsynlegt væri að samþykkja samninginn svo að ríkissjóður gæti átt afturkvæmt með skuldabréfaútgáfu á erlendum fjármálamörkuðum. Það vakti ennfremur athygli við álit Moody's að í því var lögð veruleg áhersla á að staðfesting Icesave-samningsins væri nauðsynleg forsenda fyrir því að hægt yrði að afnema gjaldeyrishöft. Þessi skoðun er á öndverðum meiði við það sem kemur fram í yfirgripsmiklum skýrslum fjármálafyrirtækjanna GAM Management, IFS-greiningar auk InDefence-hópsins um áhættuþætti samningsins og voru lagðar fyrir Alþingi á sínum tíma. Í þessum skýrslum kemur efnislega fram að gjaldeyrisáhætta samningsins sé slík að erfitt sé að ímynda sér að hægt sé að afnema gjaldeyrsihöft á meðan að hann er í gildi. Ekki þarf að gefa sér neinar öfgasveiflur á gengi krónunnar til þess að fá út gríðarlegan kostnað við samninginn. Þannig kemur fram í skýrslu GAM Management að endanlegur kostnaður hefði getað farið úr því að vera 44 milljarðar, sé miðað við 2% styrkingu á hverjum ársfjórðungi á samningstímanum, í það verða 155 milljarðar sé miðað við 2% veikingu á tímanum. Þetta miðast við að engar breytingar verði á endurheimtuáætlun skilanefndar Landsbankans. Verði endurheimturnar til að mynda 10% lakari yrði endanlegur kostnaður 212 milljarðar.
- Af þessum sökum töldu margir sérfræðingar einsýnt að ómögulegt yrði að stíga nein veigamikil skref í átt að afnámi gjaldeyrishafta á meðan Icesave-samningurinn væri í gildi þvert á það sem er sagt í Moody's-álitinu. Í raun má leiða að því líkum að sérfræðingar Seðlabankans hafi einmitt gefið sér það þegar þeir skiluðu inn áliti sínu á áhættu og kostnaði vegna Icesave-samningsins til fjárlaganefndar. Í því er gengið út frá þeirri forsendu við útreikning á endanlegum kostnaði ríkissjóðs vegna samningsins að gengi íslensku krónunnar yrði stöðugt fyrir utan hóflega styrkingu á samningstímanum. Slíkur stöðugleiki hefur ekki einkennt krónuna gegnum tíðina og þar af leiðandi túlkuðu margir álit Seðlabankans á þann veg að bankinn mæltist til þess að áfram yrði stuðst við gjaldeyrishöft. Það kom reyndar á daginn, eins og síðar verður vikið að með útgáfu bankans á áætlun sinni um afnám gjaldeyrishafta, en hún felur það í sér að höftin verða fest í sessi allt að til ársins 2015.
Lesið í blaðinu sjálfu! JVJ.
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkar: Dægurmál, Fjármál, Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.4.2011 kl. 03:02 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.