3.3.2011 | 15:37
Rök Stefáns Más Stefánssonar og Lárusar Blöndal gegn Icesave-lögunum
Fyrir um 9 mánuðum voru þeir Stefán og Lárus í forustu baráttunnar gegn Icesave-kröfum Bretlands og Hollands. Þeir meira að segja gengu svo langt að senda Alþingismönnum opið bréf og skora á þá að hafna Icesave-lögunum sem þá voru til umfjöllunar. Miðað við pólitískar aðstæður er Icesave-III miklu fáránlegra en Icesave-I og Icesave-II voru á sínum tíma. Þrátt fyrir óútskýrð sinnaskipti Stefáns og Lárusar, standa rök þeirra ennþá óhrakin.
Hver voru þá rök þeirra Stefáns og Lárusar, sem birtust í Morgunblaðinu 12. júní 2009 ? Hér eru þau birt almenningi til fróðleiks, án nokkurra fyrirætlana að hafa áhrif á skoðanir lesenda:
Við undirritaðir höfum ritað allmargar greinar þar sem við höfum fært lögfræðileg rök fyrir því að okkur sem þjóð beri ekki að endurgreiða þeim innistæðueigendum sem lögðu inn hjá íslensku bönkunum erlendis fyrir hrunið.
Við höfum ekki fengið nein málefnaleg rök sem hnekkja okkar ályktunum. Ríkisábyrgð verður ekki til úr engu. Til að hún stofnist þarf afdráttarlausa lagaheimild sem ekki er til staðar í dag vegna innistæðutryggingasjóðs.
Við höfum verið þátttakendur í samstarfi ríkja í Evrópu þar sem við höfum tekið upp reglur sem samdar hafa verið af Evrópusambandinu. Ekkert í þeim reglum gerir íslenska ríkið ábyrgt fyrir starfsemi íslenskra einkabanka. Þær reglur hafa hins vegar ekki staðist þær væntingar sem ESB hefur byggt upp í kringum þær. Þær reyndust gallaðar og náðu ekki markmiðum sínum. Þeir ágallar geta hins vegar ekki verið á ábyrgð íslenskrar þjóðar að okkar mati.
Þeir samningar sem nú hafa verið kynntir þjóðinni eru tæpast ásættanlegir. Ekki er með góðu móti unnt að réttlæta að við tökum á okkur ábyrgð sem við höfum aldrei gengist undir eða berum ábyrgð á með öðrum hætti, hvað þá að það sé gert á þeim kjörum sem um hefur verið samið. Við köllum eftir lögfræðilegum rökstuðningi fyrir þeim samningum sem búið er að undirrita.
Í kynningu samninganefndarinnar á samningunum kemur ekki fram hvers vegna rökum, sem leiddu til þess að íslenska ríkinu bæri ekki að greiða, hafi verið hafnað í samningaviðræðunum. Hafi þau sjónarmið ekki verið höfð að leiðarljósi í samningaviðræðunum að Ísland væri ekki greiðsluskylt var fyrirfram lítil von til þess að ná viðunandi samningum.
Séu niðurstöður samninganna byggðar á pólitískum sjónarmiðum, t.d. vegna mögulegrar aðildarumsóknar Íslands að ESB, eða beinum eða óbeinum þvingunum, verður að upplýsa það. Síðan verður almenningur að taka upplýsta ákvörðun um hvort þau sjónarmið réttlæti skuldsetningu þjóðarinnar sem hljóða upp á óvissar en gríðarlegar fjárhæðir þrátt fyrir að lögfræðileg rök hnígi í aðra átt.
Áskorun þeirra Stefáns og Lárusar var nokkru lengri og beindist til Alþingismanna sérstaklega. Nú er í vændum þjóðaratkvæði um Icesave-III og allir kjósendur þurfa að undirbúa sig vel undir mikilvæga ákvörðun. Eru framangreind lagarök ekki í fullu gildi ? Varla ætla Íslendingar að láta niðurlægja sig alþjóðlega, vegna innantómra hótana. Hvað sem líður sinnaskiptum þeirra Stefáns og Lárusar, þá eru rök þeirra gegn Icesave-klafanum enn í fullu gildi - eða hvað ?
Loftur A. Þorsteinsson.
Vill óháð mat á eignasafninu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Löggæsla | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 16:22 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Loftur. Ég veit ekki með Stefán, en ég hlustaði fyrir nokkru á Bylgjuviðtal "síðdegis" við Lárus þar sem hann svaraði jafnframt fyrirspurnum hlustenda. Þar talaði Lárus fyrst og fremst sem fulltrúi í samninganefndinni síðustu, en svaraði síðan til einni fyrirspurn hlustanda, að hans persónulega afstaða væri ekki endilega sú sem hann hefði rætt í þættinum.
Þarna eru ekki endilega sinnaskipti, en það var góð taktík hjá Icesave sinnum (eða forystuliði XD?) að ráða helstu skynsemismenn og andmælendur í samninganefnd Icesave III.
Kolbrún Hilmars, 3.3.2011 kl. 16:14
Blessaðir Þjóðverðir.
Tek undir þetta með Stefán, hann hefur óþarflega dregið sig til hlés. Það var hann sem gaf okkur lagarökin, og þetta er eins og hann hafi yfirgefið mann á miðri göngu, göngu sem hann stofnaði til.
Lárus er sérkapítuli, hann gengur þarna erinda flokksins, og er ekki lengur hann sjálfur. Og hann hefur vondan málstað að verja, hann er eins og góður hermaður sem er skipað að vinna óhæfuverk að boði yfirmanna sinna.
En það er eftirtektarvert, að það er eins og þetta sé samningurinn hans Lárusar, og þá samningur sem hann gerði fyrir forystu Sjálfstæðisflokksins.
Hvar eru fulltrúar ríkisstjórnarinnar, hvar er ríkisstjórnin????
Svarið er mjög einfalt, þeirra lið er tryggt, það svíkur þjóð sína að boði flokksforystunnar. Og það eina sem þarf að passa, er að stuða ekki dygga stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins.
Halda sig til hlés, treysta á að fólk hætti að hugsa, að óttinn við hið Grýlu taki yfir.
Það er greinilegt að ICEsave sinnar meta örlög samningsins undir hinum þögla meirihluta Sjálfstæðisflokksins. Fólkinu sem hefur alltaf fylgt sinni forystu, líka á þeim tímum þar sem hún er með allt niður um sig.
Hvað gerir það núna????
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 3.3.2011 kl. 17:27
Ef Lárus telur að hann geti komið fram í Icesave-málinu sem tvær persónur, þá er hann meiri kjáni en ég hef talið hann vera. Lárus hefur verið staðinn að rangfærslum varðandi Icesave-III og ríkisstjórnin ætti því að hafa vit á að draga hann út úr áróðursliði sínu.
Telur Lárus Blöndal að sjálfstæði Íslands sé lítils virði ?
Hvað Stefán varðar, þá hef ég ekki séð að neinn ágreiningur sé á milli þeirra félaga. Fjórmenningaskýrslan, sem Stefán tók þátt í að gera, er vitnisburður um það. Báðir hafa þeir snúið við blaðinu og berjast nú fyrir hagsmunum nýlenduveldanna. Munu landsmenn fyrirgefa þeim ??
Loftur Altice Þorsteinsson (IP-tala skráð) 3.3.2011 kl. 18:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.