Upprifjun á eins árs skrifum: Steingrímur þorir ekki að takast á við ótta sinn

Mér sýnist málið það, að Steingrímur og Jóhanna þora ekki að takast á við ótta sinn – þora ekki einu sinni að æmta undir svipuhöggum Bretanna, hvað þá að beita sér fyrir því að kynna góðan málstað okkar á erlendri grundu, í fjölmiðlum, gagnvart þingum landanna og ráðamönnum, með því að ná til almennings á Norðurlöndunum o.s.frv. Þetta aðgerðaleysi þeirra var tilefni harðrar gagnrýni margra stjórnarandstöðu-þingmanna í nýafstaðinni 2. umræðu um Icesave-málið á þingi.

En þessi lamandi ótti skötuhjúanna virðist sem sé ástæðan fyrir því, að Steingrímur vill ekkert tillit taka til niðurstöðu skoðunarkönnunar sem sýnir tæplega 70% fylgi við, að forseti Íslands synji Icesave-lögum staðfestingar og beri þannig málið undir þjóðaratkvæði. Ég hef hins vegar í grein talið upp átta gildar ástæður fyrir því, að farið verði með málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég hvet menn til að lesa þá grein, – sjá hér:  Vitaskuld á þjóðin að fá tækifæri til að kjósa um Icesave.

Þykir Steingrími J. Sigfússyni:

  • Betri kostur að borga nokkur hundruð milljarða króna í vexti af þessu eina gerviláni (og það í erlendum gjaldeyri) heldur en að hámark vaxtanna verði í kringum 0,92 milljarða á ári? (þ.e. um 920 milljónir kr., sem væri sú upphæð, sem við myndum greiða, ef við nytum jafnræðisreglna Evrópska efnahagssvæðisins um sama þak á greiðslur og brezki tryggingasjóðurinn fær að hafa á vaxtagreiðslur af sínu sambærilega láni frá brezka ríkinu (sjá HÉR!).
  • Finnst fjármálaráðherranum betri kostur að greiða hátt á 3. hundrað milljarð kr. í vexti (5,55%) heldur en t.d. sjö til 95 milljarða, eins og dr. Daniel Gros hefur sagt rétt okkar? (sjá HÉR!).
  • Betri kostur að borga í torfengnum erlendum gjaldeyri en í íslenzkum krónum, eins og Tryggingasjóðurinn átti þó fullan rétt á samkvæmt tilskipun Evrópubandalagsins?
  • Betri kostur að gefa Bretum færi á að krefja Landsbankann fyrst um fullar greiðslur af eignasafni sínu til að borga Bretunum fjárhæðir umfram 20.887€ upphæðina, sem átti þó að heita sú lámarkstrygging til allra innistæðueigenda, sem fyrst átti að koma til greiðslu og tryggð væri af Tryggingasjóði okkar? (Ragnars Hall-ákvæðið hefði bjargað okkur frá þessu, en í raun var réttur okkar í þessu atriði fullkomlega tryggður í Tilskipun Evrópubandalagsins 94/19/EC, en troðið á honum af ofríkisríkisstjórnum Bretlands og Hollands.)
  • Betri kostur að skerða dómsögu Hæstaréttar Íslands í þessu máli með því að gera dóm þeirra skilyrtan ókomnu dómsorði EFTA-dómstólsins?
  • Betri kostur að framselja til Bretlands dómsvald í alíslenzku máli, sem kemur inn á samningana, heldur en að halda því óskertu hér á landi?
  • Betri kostur að lúta þeirri þvingunarstefnu Breta og Hollendinga, að undir engum kringumstæðum fengum og fáum við að bera deilumálið nú (áður en ríkisábyrgð er samþykkt) undir hlutlausan gerðardóm eða dómstóla, heldur en að krefjast þess réttar okkar?
  • Betri kostur að taka átt í því með Bretum og Hollendingum að brjóta á okkur, gegn sjálfum lagabókstaf Tilskipunar Evrópubandalagsins, 94/19/EC, og þess grundvallarákvæðis þar, sem sýnir og sannar sakleysi íslenzka ríkisins og þjóðarinnar í Icesave-málinu?
  • Betri kostur að halda áfram fullri ríkisábyrgð (sem Steingrímsmenn sömdu um) á Icesave-gerviláninu fram yfir árið 2024 (sennilega langt fram eftir öldinni) heldur en að ljúka þeirri ábyrgð þá, eins og talað var um í Icesave-lögum sumarsins?
  • Betri kostur að brjóta okkar eigin ríkisábyrgðarlög frá árinu 1997 með þessum Icesave-samningi og frumvarpi heldur en að gera það ekki?!
  • Betri kostur að falla með smán fyrir ranglátum fjárkröfum gamalla nýlenduþjóða (sem Einar gamli Olgeirsson og Magnús Kjartansson hefðu ekki verið par hrifnir af) heldur en að velja leið Jóns forseta Sigurðssonar að berjast fyrir rétti okkar, þótt það tæki jafnvel marga áratugi?

* Orðrétt sagði hann í viðtalinu: "... við verðum bara að ganga einhvern veginn frá þessu máli, við verðum aldrei sátt við það, en við verðum samt að velja bezta kostinn, og ég tel, að hann sé [sic] að leiða til lykta með þeim samningum, sem fyrir liggja."

(Áður birt á bloggi undirritaðs fyrir rétt rúmu ári.)

Jón Valur Jensson. 


mbl.isIcesave mun ekki hverfa

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Peningana eða lífið! Samþykkjum Icesave!

Það er ljóst að Hollendingar og Bretar kúga íslendinga á alþjóðavettvangi vegna Icesave reikninganna, og þeir munu halda áfram að kúga okkur. 

Bretar og Hollendingar hafa talsverð völd á þeim stríðsvettvangi sem harðastur er í heiminum, þ.e. í alþjóða fjármálamarkaðnum.

Vegna þess að við eigum við ofríki að etja í þessari styrjöld, tel ég að við eigum að ganga að þessum nýja samningi.  Ekki vegna þess að okkur beri að borga Icesave heldur vegna þess að við erum í sömu stöðu og fórnarlamb sem að ofbeldismaður ógnar með byssu við gagnaugað.

En við skulum læra af þessari bitru reynslu, og hætta öllum aðildarviðræðum við ESB um leið og þessi Icesamningur öðlast gildi, við höfum jú fengið smjörþefinn af þeirri valdníðslu sem bíður Íslendinga með sína 6 þingmenn á ESB þingi á móti  78 breskum þingmönnum og 27 hollenskum þingmönnum.

Leyfum Bretum og hollendingum að útskýra það fyrir ESB þinginu hvernig þeim tókst að fæla stórlaxinn úr háfinum. Laxinum sem hefði fært ESB fiskveiðiheimildir,  hernaðarlega mikilvægt land, ódýra umhverfisvæna orku, vatn, makrílinn og svo margt margt fleira sem að ESB ásælist af Íslandi, og hefði styrkt Evruna sem gjaldmiðil.

Guðrún Sæmundsdóttir, 16.12.2010 kl. 18:17

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Nei takk, Guðrún mín! – við eigum EKKI að samþykkja þessa svikasamninga!

Ríkisstjórnin viðurkennir ekki að þetta séu nauðungarsamningar, og það fólk, sem mælir með samningum nú, er yfirleitt ekki að gera það með þeirri "röksemd", að verið sé að pína okkur til þess.

Viltu ekki alveg eins leggja til, að við gefumst upp fyrir ESB í makrílmálinu?!

Og ekki skaltu ímynda þér, að Össurarliðið yrði SVO ánægt með sigur Breta, Hollendinga og íslenzkra Bretavinnumanna í þessu máli, að það myndi fúslega vilja draga til baka umsóknina um inngöngu í ESB. Þvert á móti myndi Össur allur fara í aukana í því máli – hvernig dettur þér annað í hug?

Jón Valur Jensson, 16.12.2010 kl. 20:17

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Annars heyrist það úr ýmsum áttum, að sumir eru kannski bara orðnir "þreyttir" fyrir jólin eins og hún Kolbrún Bergþórsdóttir!

Jón Valur Jensson, 16.12.2010 kl. 20:27

4 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Spurningin sem Guðrún er að velta fyrir sér er: Hvort er betra að vera fátækur og frjáls, eða feitur þræll ?

 

Eftirgjöf fyrir Icesave-kúguninni væri ekki bara uppgjöf í einu máli, heldur yfirlýsing til umheimsins, að á Íslandi byggju liðleskjur sem gæfust upp í minnsta mótlæti. Flestum landsmönnum er fullkomlega ljóst hvað uppgjöf í þessu máli fælist og eru algjörlega andvígir fyrirætlunum Icesave-stjórnarinnar.

 

Sú skoðun að Bretar og Hollendingar ráði öllu í heiminum er glórulaus fjarstæða. Það er jafn mikil fjarstæða að nýlenduveldin ráði öllu í fjármálaheiminum. Við höfum sýnt það áður, að við eigum í fullu tré við þessar þjóðir, á hvaða sviði sem er. Við þurfum ekki einu sinni á erlendum lánum að halda, enda þarf að endurgreiða erlend lán með vöxtum og gengistryggingu.

 

Sú hugmynd, að eftirgjöf fyrir Icesave-kúguninni, muni sjálfkrafa leiða til höfnunar á innlimun í Evrópuríkið er barnaleg. Icesave-kröfurnar voru upphaflega einmitt hugsaðar til að beygja okkur í duftið, meðal annars til að við ættum enga aðra kosti en að láta innlimast.

 

Höfnun á Icesave-kröfunum er sjálfstæðis-yfirlýsing Íslendinga og ekkert annað kemur til álita.

 

 

Loftur Altice Þorsteinsson, 16.12.2010 kl. 21:47

5 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

þið eruð dásamlegir

Guðrún Sæmundsdóttir, 16.12.2010 kl. 21:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband