8.12.2010 | 01:30
NB, NB, NB: Afhjúpandi upplýsingar um Icesave-málið á WikiLeaks!
Athyglisverðar eru þær upplýsingar af WikiLeaks, að Bjarni Benediktsson, form. Sjálfstæðisflokksins, "sagði á fundi í bandaríska sendiráðinu í fyrra að best væri fyrir íslenzku þjóðina að Icesave-samningarnir yrðu felldir og málið þvingað fyrir dómstóla. Töf á lausn málsins myndi hins vegar tefja endurreisn efnahagslífsins" (hér skv. frétt á Vísir.is: (Wikileaks: Vildi þvinga Icesave fyrir dómstóla). Þar segir ennfremur:
- Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins átti fund með Sam Watson, varasendiherra Bandaríkjanna hér á landi þann 11. nóvember á síðasta ári. Watson lýsir fundinum í leyniskjali sem sent var utanríkisráðuneytinu í Washington nokkrum dögum eftir fundinn og fréttastofa hefur undir höndum.
- Þar segir Watson að Bjarni hafi óskað eftir fundi með háttsettum embættismanni í Hvíta húsinu. Á fundinum vildi hann tjá reiði sína yfir því hvernig Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi verið notaður sem tól gegn Íslandi í Icesave deilunni. Hann vildi einnig ræða framtíðarmöguleika í samstarfi Íslands og Bandaríkjanna.
- Bjarni hafi sagt á fundinum að á þessum tímapunkti væri best fyrir þjóðina að samkomulagið yrði fellt í þinginu. Þannig yrðu Bretar og Hollendingar þvingaðir til að leita skaðabóta fyrir dómstólum. Dómstólaleiðin væri ákjósanlegri en þáverandi samningar.
- Watson segir að Bjarni hafi þó viðurkennt að ef þetta yrði niðurstaðan og samningarnir féllu þá myndi það tefja endurreisn efnahagslífsins. Það þýddi töf á lánum frá AGS og þar með töf á afnámi gjaldeyrishafta.
- Bjarni hafi ennfremur greint frá því að hann væri ekki spenntur fyrir því að komast í ríkisstjórn að svo stöddu, hann vildi heldur halda áfram í stjórnarandstöðu þar til eftir sveitarstjórnarkosningarnar á þessu ári, til að styðja við frambjóðendur flokks síns.
Hér er upplýst um sitthvað, sem fram fer að tjaldabaki. Lesendur, ekki sízt félagar í Þjóðarheiðri, ættu að ræða þetta hér í athugasemdum.
Þá er þarna önnur ennþá athyglisverðari frétt á sama miðli: Reyndu að koma sér hjá atkvæðagreiðslu. Þar ritar Guðsteinn á Fréttablaðinu:
- Bandaríska sendiráðið í Reykjavík hefur greinilega frá fyrstu stundu fylgst grannt með samningum um Icesave-reikninga Landsbankans. Í skýrslu frá Carol van Voorst, þáverandi sendiherra, sem dagsett er 23. október 2008, segir hún frá viðræðum sínum við Martin Eyjólfsson, sviðsstjóra viðskiptasviðs utanríkisráðuneytisins, um framgang viðræðna við Breta, en í vikunni á undan hafði bráðabirgðasamkomulag við Hollendinga verið undirritað.
- Martin nefnir þar að Bretar hafi boðið Íslendingum að greiða upphæðina á tíu árum með 13,5 prósent vöxtum, en Íslendingar hafi á móti boðið 6 prósent vexti til 20 ára.
Þetta eru fróðlegar upplýsingar um "vinsemdarhug" Breta til okkar! Þarna er um eitt næsta nágrannaríki okkar að ræða, eitt þeirra mörgu sem Össur Skarphéðinsson leggur gríðarmikið traust á, ef við skiljum hann rétt. Þeir ætluðu sér m.ö.o. að leggja á okkur 13,5% vexti (níu sinnum meiri en það, sem löglegt gæti talizt samkvæmt EES-jafnræðisreglum) og það á upplogna skuldarkröfu á hendur íslenzku þjóðinni, þvert gegn ESB-reglum!
Þá segir í fréttinni:
- Sendiherrann segir í athugasemdum sínum að fáir á Íslandi virðist átta sig á því í hverju ábyrgð Íslendinga sé fólgin og hve gríðarlega há skuldin sé. Margir þeirra sem átta sig á þessu eru á barmi örvæntingar." [Leturbr. jvj.]
Já, við þekkjum þetta hér, félagarnir í Þjóðarheiðri og eins InDefence-menn!
- Í janúar á síðasta ári [rangt, þetta var í janúar síðastliðnum, innsk. jvj], nokkrum dögum eftir að Ólafur Ragnar Grímsson forseti neitaði að undirrita lög um Icesave-samninginn, ræddi Sam Watson sendiráðunautur, sem þá var staðgengill sendiherra, við Einar Gunnarsson og Kristján Guy Burgess frá íslenska utanríkisráðuneytinu.
- Þeir sögðust þá afar svartsýnir á framtíð Íslands og að almenningur á Íslandi myndi fagna því mjög ef opinberlega væri hægt að lýsa því yfir að Bandaríkjamenn myndu lofa stuðningi eða hjálpa til við að fá málið á dagskrá hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
- Einnig er haft eftir þeim að þeir vilji komast hjá því að lögin fari til þjóðaratkvæðagreiðslu, en þeir séu að kanna aðrar leiðir til að leysa málið.
Þetta síðastnefnda var áður komið fram og er staðfest hér enn.
Þá segir þarna í beinu framhaldi að lokum (leturbr. jvj):
- Í sömu skýrslu er fullyrt að Ian Whiting, sendiherra Breta hér á landi, hafi sagt bandaríska sendiráðunautnum að Bretar væru einnig að leita leiða til að koma í veg fyrir að málið yrði borið undir þjóðaratkvæðagreiðslu.
- Breski sendiherrann sagði Breta hins vegar hafa fengið misvísandi skilaboð frá Íslendingum, sem fyrir viku virtust sáttir við að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu," eins og segir í skýrslunni en virðast nú vera að leita annarra leiða".
- Haft er eftir Whiting að ein möguleg lausn gæti verið fólgin í því að Norðmenn myndu lána Íslendingum fé, sem myndi duga fyrir Icesave-skuldinni. Þessi lausn gæti gert bæði Bretum og Íslendingum kleift að lýsa yfir sigri. Þetta gæti líka dregið að einhverju leyti úr gagnkvæmri andúð í viðræðunum".
Þetta var einnig áður komið fram, að brezki sendiherrann reyndi hér beinlínis íhlutun um íslenzk innanríkismál, þegar til stóð að beita helgasta rétti þjóðarinnar, sem hins æðsta úrskurðarvalds samkvæmt stjórnarskránni.
Og brall hans til að reyna að nota Norðmenn gegn íslenzkum þjóðarhag er nú afhjúpað! Hvar er þessi maður? Er búið að vísa honum úr landi?
Jón Valur Jensson.
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Fjármál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 01:47 | Facebook
Athugasemdir
Sannleikurinn mun veita okkur frelsi. Lygarnar sem stjórnin, og ESB reyna að troða í okkur er ósanngjörn.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 8.12.2010 kl. 01:43
Hjartans þakkir, Jóna Kolbrún, fyrir þitt sannleiks-innlegg.
Við eigum að hafa lært það af 2007-ástandinu og kreppu-afleiðingunum, að sannleikann verður að segja, jafnvel þótt hann sé óþægilegur.
Undirritaður var rétt í þessu að ljúka þessari samantekt frétta. –JVJ.
ÞJÓÐARHEIÐUR - SAMTÖK GEGN ICESAVE, 8.12.2010 kl. 01:51
Meiriháttar samantekt hjá þér JVJ!! Að fá staðfest að pólitík og upplýsingar til almennings séu sitt hvor raunveruleikinn er alveg frábært.
Þegar það er orðin staðreynd að pólitík og lýgi er eiginlega það sama, byrjar maður að velta fyrir sér hvort fólk þurfi nokkuð á svona stjórn að halda.
Stjórnarhirðina þarf að endurskipuleggja. Öðruvísi fólk þarf til að vinna sem leiðtogar fyrir þjóðina. Atvinnuleiðtoga þarf að gefa frí og fá fólk sem hefur meiri áhuga á leiðtogaskap enn launum. Til þess að það meigi verða þarf að taka burtu stóran hluta launa og lífeyrissjóð stjórnmálamanna þarf að leggja niður.
Þetta má ekki verða æfistarf eins eða neins...
Óskar Arnórsson, 8.12.2010 kl. 07:04
Ég er sammála þér, Óskar, um þetta, og kærar þakkir fyrir innleggið.
Jón Valur Jensson, 8.12.2010 kl. 23:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.