Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2017
28.7.2017 | 00:17
Af skrök- og fals-áráttu Svavars Gestssonar í Icesave-máli
Svavar-ég-nenni-þessu-ekki-lengur kom manna mest við sögu 1. Icesave-samningsins.
Hér eru að gefnu tilefni endurbirtar tvær vefgreinar af Vísisbloggi, sem 365 miðlar lögðu niður:
Svavar Gestsson skrökvar massíft um Icesave-málið í aprílgabbi
2. apríl 2010
Hlálegust í grein Svavars í Fréttablaðinu 1. apríl var þessi öfugsnúna fullyrðing hans:
- Það hefur einmitt verið einkenni umræðunnar um Icesave að það hefur bara ein skoðun verið leyfð; það var fyrirskipuð sú hjarðskoðun í upphafi málsins að vera á móti því að gera upp Iceave-málið.
Þetta segir hann í blaði, sem er dreift ókeypis til allra landsmanna og hefur markvisst haldið uppi, bæði í leiðurum og fréttum og greinavali, áróðri fyrir Icesave-stjórnvöldin, þar sem uppgjör málsins (að klára það og leysa!) hefur verið boðað sem fagnaðarerindi og andstæðar skoðanir hafa fengið miklu minna rúm nema einna helzt frá þingmönnum (eins og Vigdísi Hauksdóttur), enda erfiðara að ritskoða slíka.
Á Rúvinu hefur verið sama sagan. Umsjónarmaður helzta umræðuþáttar í þjóðmálaumræðu, Egill Helgason, hefur komizt upp með að kalla þá menn öfgamenn, sem telja, að okkur beri ekki að borga Bretum og Hollendingum neitt. Samt eru hartnær 60% aðspurðra (59,4%) þeirrar skoðunar, að okkur beri alls ekki að borga Bretum og Hollendingum neitt vegna Icesave, skv. könnun sem birt var 8. marz, frá MMR, sem er virt skoðanakönnunarfyrirtæki (sjá hér: Hartnær 60% aðspurðra segja: Við viðurkennum alls enga ábyrgð Íslendinga á Icesave-greiðslum til Bretlands og Hollands!). Er þá yfirgnæfandi fjöldi Íslendinga fleiri en kusu ríkisstjórnina öfgafólk?!
Svavar talar um hjarðskoðun og harðmennsku! Sjálfir reyndu Vinstri grænir og Samfylking að smala mönnum í eina hjörð í þessu máli, með öllum sínum pólitíska mætti, tveimur dagblöðum, 365-ljósvakamiðlum, Rúvinu, þ.m.t. Sjónvarpinu, öðrum sérskipuðum álitsgjöfum og ekki þeim einum, heldur einnig fulltrúum atvinnulífsins, Gylfa Arnbjörnssyni og hans tæknikrötum (og evrókrötum) í ASÍ og ýmsum verkalýðsfélögum eins og krafan um að fá að borga Icesave-lygaskuldina væri krafa almennings!!! og Vilhjálmi Egilssyni og öllum hans evró-skoðanabræðrum í SI og SA!
Þrátt fyrir þessa þéttu fylkingu Icesave-sinna lét þjóðin ekki blekkja sig. Af þeim, sem afstöðu tóku í þjóðaratkvæðagreiðslunni 6. marz, greiddu 98,1% atkvæði gegn þeim svikalögum, sem bandamenn Svavars börðust svo hart fyrir á Alþingi, unz þeir loks höfðu sigur 30. desember. Gegn frestun forsetans á því að skrifa undir lögin býsnuðust þessir óþjóðhollu menn og rengdu vald hans til að synja lögunum staðfestingar, ásamt alls kyns óþverratali um vald þjóðarinnar til að útkljá málið, og enn í þessu afkáralega aprílgabbi Svavars Gestssonar má finna afkáralegar fullyrðingar eins og þær, að þessi hjarðmennska náði þó hámarki í þjóðaratkvæðagreiðslunni þegar þjóðinni var skipað á kjörstað um ekki neitt!!!
Snerist það um ekki neitt að fella lögin úr gildi?! Væri Svavar að skrifa, ef hann hefði fengið sitt fram? Var það ekki lögskipuð leið, eftir synjun forsetans, að valdið væri hjá þjóðinni til að afnema lögin?
Sjáið þið sósíalistann þarna, mann fólksins, sem gerir lítið úr einhverjum helgasta lýðræðisrétti þjóðar sinnar!
En um hjarðmennsku-fullyrðingar Svavars skrifaði Guðmundur Sveinbjörn Pétursson Vísisbloggari, sem kallar sig sannkristinn sósíalista, athugasemd á eftir fyrri pistli mínum um þessi 1. aprílskrif, hér er partur af henni:
- Hjarðeðlis útlegging Svavars er svo auðvitað kapítuli út af fyrir sig. Seinheppnari gat hann ekki verið í líkingum sínum - maður sem allt sitt lifibrauð hefur fengið í gegnum flokk og flokkshollustu; hann hefur étið af garðanum með hjörðinni og á vegum hjarðarinnar. Alltaf og er enn að.
[Önnur grein:]
Svavar Gestsson stígur blygðunarlaust fram á síðum Fréttablaðsins í dag
1. apríl 2010
Þar ber hann fram fyrir lesendur réttlætingu á ábyrgð sinni á illræmdustu samningum sem íslenzk stjórnvöld hafa átt hlut að í sögu lýðveldisins. Nú er hann búinn að finna sér góða ástæðu: Fréttablaðs-skrif þriggja manna, þótt enginn þeirra sé reyndar sérfræðingur á sviði atvinnumála, en þeir kenna allir óleystu Icesave um atvinnuleysi í landinu! Hjálpar til að fá atvinnu að leggja hundraða milljarða króna ólögvarða lygaskuld á þjóðfélagið?!
Á Magnúsi Orra Schram er ekki hægt að taka neitt mark um þessi mál eftir heiftarleg ræðuhöld hans á Alþingi, þegar Icesave var þar til umræðu. Ólafur Stephensen átti leiðara í Fréttablaðinu, Biðin er dýr, sem jafnast á við fátt í sinni algeru meðvirkni við kröfur brezkra og hollenzkra stjórnvalda og heldur fram firrum um áhrif þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Hvernig væri að sá maður tæki nú til athugunar þá skoðanakönnun MMR, sem gerð var um sama leyti og sýndi, að einungis 3,3% aðspurðra töldu [með Svavari Gestssyni og Magnúsi Orra Schram!], að Íslendingar ættu að ábyrgjast greiðslur til innstæðueigendanna að fullu! En 59,4%, rétt tæp 60%, telja að Íslendingum beri alls ekki að ábyrgjast greiðslurnar! Og 37,3% telja [með Ólafi Stephensen!], að Íslendingum beri að ábyrgjast greiðslurnar að hluta til.
Ólafur Stephensen vogar sér að tala þarna (Frbl. í fyrradag) um lántökurnar vegna Icesave. Ólafur getur ekki sýnt fram á, að Íslendingar hafi fengið eitt penny né evru að láni vegna Icesave, ekki frekar en hann getur sýnt fram á, að við eigum að borga einkaskuldir einkabanka!
Ég vil hvetja menn til að kynna sér nýja bloggsíðu Þjóðarheiðurs samtaka gegn Icesave.
Endurbirt hér af Vísisbloggi undirritaðs. Án nokkurs fyrirvara lögðu 365 miðlar niður gervallt Vísisbloggið, þar sem hundruð manna höfðu skráð ritsmíðar sínar og viðbrögð við fréttaumræðu; jafn-frekleg vanvirðing á höfundarrétti manna er sem betur fer sjaldgæf. En undirritaður hafði af forsjálni vistað þessar greinar í sér-geymslu. Einungis þess vegna var unnt að endurbirta þetta hér.
Jón Valur Jensson.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 00:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)