Bloggfærslur mánaðarins, september 2012

Ríkisstjórn spáði óförum lands og þjóðar, ef Icesave-epli hennar yrði hafnað, en virðist þrífast bezt á því, að þjóðin valdi sér betra viðbit!

Í tvígang þurfti þjóðin að grípa í taumana og gera ríkisstjórnina afturreka í máli sem hún sjálf fullyrti að væri hið stærsta sem fengist væri við. Og því var bætt við að gengi vilji þjóðarinnar fram en ekki ríkisstjórnarinnar „yrði efnahagsöngþveiti í landinu“. Engin ríkisstjórn hefur fengið annan eins skell úr hendi eigin þjóðar og samt setið sem fastast. Hún hafði reynt að fá þjóðina til fylgilags með ósannindum og alvarlegustu hótunum sem ríkisstjórn getur haft uppi. Hún stóð berstrípuð eftir. Og það var ljót sjón lítil. En samt fór hún ekki. Hún hékk. Og hún hrósaði sjálfri sér jafnvel fyrir þá ósvinnu. Vettvangur þessa alls var litla snotra þinghúsið við Austurvöll ...

Þannig er ritað í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag, raunar í sunnudagsblaði í nýjum og hressilegum búningi.

icesave32

Já, það er merkilegt, hvernig ríkisstjórn Steingríms og Jóhönnu óð í þetta Icesave-mál sitt af mestu vanefnum, en þó eins og hún ætti líf sitt undir þessu ginningarmáli (meðan hún sótti það sem fastast), jafnvel að Fjallkonan ætti allan sinn velfarnað undir þessu! -- Ísland yrði ella "Kúba norðursins" (sem eitt sinn var þó e.t.v. æskudraumur Steingríms J. Sigfússonar) og byggi úr því við efnahagsöngþveiti og algert vantraust umheimsins!

Ekkert af hrakspánum rættist. Þvert á móti er óhætt að fullyrða, að ríkisstjórnin eigi á þessari stundu langlífi sitt undir því ekki sízt, að þjóðin sparaði ríkisjóði gríðarlegt fé. Jafnvel samkvæmt Buchhheit-samningnum væri nú búið að greiða út yfir 60 milljarða króna í erlendum gjaldeyri í reiðufé í vexti af engu! Hvar hefðu Steingrímur og Jóhanna, Össur, Katrín litla og Guðbjartur tekið það fé? Ekki af eyðslureikningnum vegna umsóknar þeirra um inntöku lands og þjóðar með manni og mús í Evrópusambandið, heldur af ráðstöfunarfé tveggja mestu útgjalda-ráðuneytanna, mennta- og menningarmála og "velferðar"!

Þrengingarnar í spítalakerfinu væru sem sé orðnar enn hrikalegri, ef þjóðin hefði orðið að borga þessa Buchheit-vexti af engu -- og væri enn að bæta við þá! Í sama Reykjavíkurbréfi er einmitt vikið að þessum og öðrum þrengingum undir yfirumsjón ríkisstjórnar, sem þó stærir sig af verkum sínum:

Fólkið ... horfir á í forundrun að ekki er lengur hægt að meðhöndla dauðveikt fólk í samræmi við þá þekkingu sem er fyrir hendi á spítulum því tæki og tól eru ónýt eða þeim er ekki lengur treystandi, ekki einu sinni þegar dauðans vá er annars vegar. Og í sömu andrá sér það að þeytt er þúsund milljónum króna í óskiljanlegt gæluverkefni fólks sem vill atast út í stjórnarskrána og gera hana að ómerkilegum óskalista á borð við þær ályktanir þingsins sjálfs sem minnst er að marka ... 

Í stað þess að hreykjast um ætti ríkisstjórnin að leggjast á kné í auðmýkt á þessum sunnudagsmorgni og þakka forsjóninni fyrir þá makrílgöngu hingað, sem ein sér er aðalástæðan fyrir þeirri óvæntu hagvaxtarþróun, sem orðið hefur hér þrátt fyrir aðgerðarleysi stjórnvalda í atvinnumálum, og fyrir þá þjóð sína, sem hafði vit á því að spara sér um 80 milljarða króna í vexti af engu.

Smellið á myndina til að sjá hana stærri!

Jón Valur Jensson. 


Eiríkur S. Svavarsson og Ragnar F. Ólafsson með upplýsandi grein um Icesave-málið í Mbl.

Málflutningi í Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum lauk í gær, og staða okkar er talin góð. Í gær birtist yfirlitsgrein í Morgunblaðinu: Nokkrar staðreyndir í Icesave-málinu; höfundarnir eru í InDefence-hópnum. 

Þeir rita:

  • Mál ESA gegn Íslandi
  • Fyrstu tveir Icesave-samningarnir ógnuðu fullveldi þjóðarinnar og í þeim var fólgin áhætta sem stefndi efnahag hennar í voða. Þriðji samningurinn var mun skárri, en samt ekki eins góður og af var látið. Eftir vandlega yfirlegu gat InDefence-hópurinn ekki stutt Icesave III samninginn óbreyttan. Niðurstaða þjóðarinnar vegna Icesave III var sú að ítreka afstöðu sína með afgerandi hætti í annarri þjóðaratkvæðagreiðslu um málið með því að hafna greiðsluskyldu á ólögvarinni kröfu. Í því felst að gagnaðilar okkar í Icesave-deilunni þurfa að sýna fram á tjón sitt af aðgerðum íslenskra stjórnvalda fyrir réttmætum dómstólum vilji þeir að íslenskir skattgreiðendur greiði.

Þá segja þeir ennfremur:

  • Margt skýrist þó þegar málsaðilar gera grein fyrir málstað sínum í opinberu dómsmáli. Þannig kemur fram í kæru ESA að EFTA-dómsmálið snýst um lágmarkstrygginguna en ekki fullar innstæður, eins og alltof margir fullyrða hér innanlands í skrifum sínum. Þá er það skýrt sérstaklega í svörum ESA að ekki sé ætlast til þess að Ísland greiði Icesave-innistæður með fé úr opinberum sjóðum (skattfé) og tekið er fram að eðlilegt sé að bankakerfið leggi fram það fé, komi það ekki úr þrotabúi Landsbankans.

Eins og hér má sjá, er þarna um spennandi grein að ræða, en þrefalt eða fjórfalt lengri er hún, og eru áhugamenn um málið hvattir til að ná sér í þetta eintak af Mogganum í gær eða lesa um þetta á netinu.

jvj 


mbl.is Málflutningi í Icesave-málinu lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave-málið komið í EFTA-dóminn

Menn eru hvattir til að lesa afar upplýsandi pistla Sigurðar Más Jónssonar um Icesave-málið og EFTA-dómstóls-fyrirtökuna, þar sem Skúli Magnússon telur niðurstöðu að vænta eftir 2-3 mánuði. Sigurður Már ritar reglulega pistla um málið á viðskiptasíðu Mbl.is og var viðstaddur málflutninginn nú í vikunni. Hér eru pistlar hans um málið (opnir öllum að lesa):

Nýjustu pistlar

jvj


Afar upplýsandi skrif um Icesave-málið

Áfram heldur Sigurður Már Jónsson viðskiptablaðamaður, höfundur bókarinnar um Icesave-málið, að birta merkar rannsóknargreinar um stöðu Icesave-málsins almennt og í EFTA-dómstólnum. 2. grein hans: Gat Ísland borgað Icesave, birtist nú í vikunni, á viðskiptasíðu Mbl.is, og eru allir hvattir til að lesa hana.

Hér eru tvær klausur úr þessari athyglisverðu grein hans, sem kemur þó inn á miklu fleiri spennandi atriði:

  • Málsókn ESA byggir í raun á því að íslenska ríkið hefði þurft að leggja tryggingasjóðnum til peninga ef eignir hans dugðu ekki til. Íslensk stjórnvöld telja að enga slíka skyldu sé að finna í tilskipuninni og ekkert ríki gerir ráð fyrir slíkum skuldbindingum. Ef þær skyldur væru til staðar hefur nú verið reiknað út að í bankahruni yrði kostnaður Evrópusambandsríkja að meðaltali 83% af landsframleiðslu þeirra. Hugsanlega hefði íslenska ríkið geta farið þá leið að prenta krónur og nota þær. Ólíklegt er að innstæðueigendur hefðu sætt við slíkt auk þess sem efnahagur íslenska ríkisins bauð ekki upp á slíkt.
  • Því má taka undir þau rök íslenska ríkisins að lögskýring ESA myndi í alvarlegri kreppu leiða til hættu á greiðsluþroti ríkja og samfélagslegs uppnáms í kjölfar þess eins og áður var vikið að með gjaldeyrisforðann. Lögskýringin er þess vegna í beinni andstöðu við reglur EES-réttar um að lög eigi að vera skýr og beiting þeirra fyrirsjáanleg, enda hvergi minnst á ábyrgð ríkja í innstæðutryggingatilskipuninni sjálfri eins og rakið er í svari íslenska ríkisins.

Greinin er opin öllum að lesa á Mbl.is, og nú ættu menn að bregða sér þangað og sjá hans sterku rök, sem nánar verður fjallað hér um síðar. Ef menn kunna jafn-vel að meta skrif hans og undirritaður og aðrir hér í Þjóðarheiðri, ættu þeir að kynna hana sem víðast, t.d. með Facebókar-tengingu og meðmælum.

Frá 1. grein Sigurðar Más í þessum greinaflokki um Icesave var sagt hér um daginn (Vönduð úttekt á málefnastöðu Íslands í Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum), og í þriðju greininni, sem birtist væntanlega á næstunni, hyggst hann "reyn[a] að meta hvort nokkur skylda hvíldi á íslenska ríkinu að greiða innstæður til erlendra viðskiptavina bankanna."

JVJ. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband